Mikið virðist það vera gefandi að þola Ólaf Ragnar alls ekki. Hann hefur áratugum saman haft þau áhrif á andstæðinga sína að fara yfirgengilega í þeirra fínustu taugar.
Maðurinn er enda allt að því óþolandi á löngum köflum. Enginn frýr honum þó vits og góðu dagarrnir hans eru helvíti góðir.
Ólafur lýtur engum lögmálum öðrum en þeim sem hentar honum. Þannig hefur það alltaf verið og stuðningsmenn hans hafa komið og farið eftir því hvernig hagsmunir hans henta fólki hverju sinni.
Þeir sem gagnrýna hann harðast núna eru flestir marklausir eftir skilyrðislausa fylgispekt við Ólaf Ragnar í gengum þykkt og þunnt alveg þangað til hann gleymdi "línunni".
Hvar var allt þetta fólk þegar Ólafur Ragnar gerðist það sem nú er kallað klappstýra útrásarinnar? Hvar var liðið sem nú ryðst fram á ritvöllinn knúið heilagri vandlætingu þegar forsetinn þeirra breytti embættinu í pólitík fyrsta sinni?
Þá var ýmist þagað þunnu hljóði eða fagnað allt eftir hentugleika og enn eru menn við það sama heygarðshorn....
Þetta fólk ætlar svo ekki að una Ólafi að heyja baráttu fyrir endurkjöri. það er hreinlega hlægilegt og krampakennd umræðan sem fylgir dapurleg.
Ólafur Ragnar hefur valið að beina spjótum sínum að Þóru Arnórsdóttur enda hún líklegust til að velgja honum undir uggum. Af einhverjum ástæðum virðast fylgismenn hennar telja það hina mestu ósvinnu.
Það er þannig að flestum ætti að þykkja mjög mikilvægt að allt sé uppi á borðum varðandi frambjóðendur til embættis forseta og ekki verður annað sagt en að andstæðingar Ólafs leggi sig mjög fram um að halda öllu því í umræðunni sem þeir telja honum til lasts.
Ég held að sú aðferð stuðningsmanna Þóru að reyna að láta baráttuna snúast um ókosti Ólafs Ragnars frekar en kosti Þóru sé misráðin. Og sú taktík að neita því að Þóra hafi "óhentugar" skoðanir í nútíð eða fortíð er beinlínis skaðlegt fyrir hana og eykur tortryggni.
Nauðsynlegar vangaveltur um embættið komast ekki að fyrir leðjuslag þar sem menn keppast við að hæla þeim sem sniðugastur er að smíða fyrirsagnir um Ólaf Ragnar.
Frambjóðendur til embættis forseta eiga og verða að hafa upplýstar skoðanir en mér sýnist taktik Þóru vera að hafa þær helst ekki og reyna að segja töfraorðið sameiningartákn eins oft og mögulegt er án þess að gera nokkra tilraun að útskýra hvað þar er átt við eða hvernig þessi tákn munu birtast okkur kjósendum.
En vonandi hressist Eyjólfur og kosningabaráttan fer að snúast um eitthvað annað en pólitísk særindi og langækni andstæðinga Ólafs Ragnars.
Ég reyndar legg ekki mikið undir þar....
Röggi
fimmtudagur, 17. maí 2012
Að þola ekki Ólaf Ragnar
ritaði Röggi kl 07:24 5 comments
mánudagur, 14. maí 2012
Ögmundur og pólitískar ráðningar
Félagi Ögmundur hefur það umfram svo marga aðra stjórnmálamenn að segja oftar en ekki það sem hann meinar eða hugsar. Þetta er auðvitað til merkilegrar eftirbreytni en athyglisvert að karlinn nýtur þessara eðliskosta sinna takmarkað til vinsælda eða virðingar.
Það stafar ef mér skjöplast ekki af því að fólk metur þessa hreinskilni hans minna en þær skoðanir sem hann viðrar reglubundið án ritskoðunar eða hentugleikakönnunar þegar hugsað er um pólitískan skyndigróða.
Ögmundur er samviska VG. Hann rígheldur í flokkinn og þau gildi sem hann á að standa fyrir en formaðurinn hefur týnt í ráðherrastólnum. Enda reynist það svo að hann rekst illa og er með óþægindi.
Ég kann hins vegar að meta hreinskilni hans og hann minnir mig á það ítrekað af hverju ég er hægri maður en ekki vinstri.
Nú er það þannig að nöldrandi andstæðingar á þingi og stöku fjölmiðlamenn hafa verið að hafa skoðun á því að Guðbjartur Hannesson skipaði gamlan flokksbróðir og þingmann stjórnarformann íbúðarlánasjóðs.
Staurblindir sjá að þessi ráðning er pólitík. Venjubundin viðbrögð þegar á slíkt er bent er að neita án afláts að málið sé þannig vaxið og til vara að aðrir hafi og séu ekki betri.
Það er hinn hefðbundi skollaleikur sem okkur er boðið upp á og klassísk loforð úr gleymdum kosningabaráttum um gagnsæi og nýja tíma horfin í rykmekki.
Þá kemur félagi Ögmundur til keppni strangheiðarlegur og lýsir því yfir kokhraustur mjög að svona eigi þetta að vera. Hann er trúr lífsskoðunum sínum og veit að allt er best þegar stjórnmálamenn eins og hann sjálfur fær að ráða án afskipta almennings sem veit svo fátt.
Auk þess trúir Ömmi okkur fyrir því að þessi tiltekni maður sé sérstakt valmenni og eigi því allt gott skilið og ívið meira en það jafnvel. Dreg ég það ekki í efa en það kemur umræðunni nákvæmlega ekkert við.
Það er eitthvað stórlega bogið við þessa nálgun Ögmundar. Þá hugsun að þó menn hafi skolast í gegnum kosningar og inn á þing eða lengra að þá séu skoðanir viðkomandi svo mikilvægar og sterkar að almenn viðmið um ráðningar eins og þessa séu í raun óþarfar.
Þetta er hættuleg hugsun og þó alltof margir nenni ekki að hafa skoðanir á því hver situr við borðendann á fundum í einhverjum sjóði er mikilvægt að reyna að átta sig á að það er einmitt þessi árátta sem við þurfum að losna við.
Við þurfum ekki að úthluta stjórnmálamönnum meiri völd ef ég er spurður. Og við eigum að vera hvumsa þegar öndvegismenn eins og félagi Ögmundur hefur engan kinnroða þegar hann játar glæpinn.....
Röggi
ritaði Röggi kl 21:32 3 comments
mánudagur, 7. maí 2012
Forsjár og eftirlitsbransinn
ritaði Röggi kl 21:41 4 comments