fimmtudagur, 31. janúar 2008

Hvað eru eðlileg laun?

Það væri synd að segja að forstjórar Glitnis væru vanhaldnir í launum og bónusum. Græðgi og spilling kemur upp í hugann. En ég veit ekki við hvern er að sakast beinlínis. Er einhver að svindla?

VG mun halda því fram að þetta sé afleiðing einkavæðingar bankanna. Þar á bæ er söknuður eftir ríkisreknu spillingunni sár. Hún þótti betri. Einkavæðing bankanna var nauðsyn þó mér finnist þeim ganga hægt að verða fullorðnir.

Varla ákveða þessir menn kjör sín sjálfir. Og ekki veit ég akkúrat við hvað á að miða. Sjötugföld laun verkamanna eða kannski hundraðföld. Þekki það ekki. Sumir munu alltaf bera meira úr býtum en aðrir. Þannig á það að vera.

Hvar mörkin eiga að vera hlýtur alltaf að vera umdeilt. Þessi kjör verða það pottþétt. Það er ekki þar með sagt að þau séu óeðlileg. Ég þekki engan sem ekki vill meira óháð því hvað aðrir fá.

Sama fólkið og fagnar því að Eiður Smári fái margar milljónir á viku fyrir það að spila fótbolta skilur ekki af hverju Kári Stefánsson fær talsvert færri milljónir útborgaðar og er hann þó með margt hálauna fólk í vinnu. Gildin eru stundum skrýtin.

Röggi.

Landsliðsþjálfari í handbolta.

Nú þarf að finna landsliðsþjálfara í handbolta. Ég verð að hafa skoðun á því. Fjorir eru helst nefndir. Geir Sveinsson,Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson og svo útlendingur.

Frambærilegt allt saman. Margir veðja á Geir. Hann hlýtur að vera augljós kostur. Frábær ferill og einn magnaðasti leiðtogi sem við höfum átt. Ég er samt ekki sannfærður. Hann var ekki sannfærandi þjálfari Vals og hefur verið frá þjálfun um tíma. Auk þess tel ég að það vinni gegn honum að hafa verið gagnrýninn á landsliðið undanfarin ár. Neikvæð ára í kringum hann.

Aron er spennandi. Virkar mjög heilsteyptur og einbeittur í sínum störfum. Eyðir ekki orkunni í óþarfa sem er landlægt vandamál í Íslenskum handbolta. Kemur úr danska boltanum og þar eru menn að vinna gott starf. Ferskur og líka augljós valkostur.

Dagur hlýtur þó að vera fyrsti kostur. Frábær leiðtogi sem nýtur virðingar. Þorir þegar aðrir þegja. Fæddur fyrirliði með gríðarleg keppnisskap. Hefur talsverða reynslu og náði góðum árangri. Vann landstitil oft í Austurríki og var með liðið í meistarkeppninni. Ég kannast aðeins við gripinn og get alls ekki fundið neinn ókost.

Nema að hann yrði þá að hætta störfum sínum hjá stórveldinu þar sem hann er framkvæmdastjóri og hugsanlega næsti þjálfari liðsins.

Hef enga trú á að HSÍ ráði útlending þó það væri vissulega spennandi og metnaðarfullt. Að því gefnu að um alvöru mann yrði að ræða.

Röggi.

Hver er sætastur?

Fegurðarsamkeppnir eru grafalvarlegt mál. Hávísindalegar og endanlegur dómur um fegurð, hið ytra allavega. Sigur í svona samkeppni getur rutt brautina hefði maður haldið. Eitt sinn fegurðardrottning ávallt fegurðardrottning.

Eða fegurðarprins kannski. Mér vitanleg hefur engin stúlka verið svipt titlinum til þessa en Óli Geir varð fyrir því. Ekki vegna þess að hann hafi ófríkkað eftir keppnina heldur vegna þess að hann þótti dónalegur í framgöngu í sjónvarpi.

Mér vitanlega var öllum sléttsama. Enda jafn erfitt að skera úr um það hver er sætastur og hver er dónalegastur. Engir staðlar til. Hvernig dómstólar komust að því að drengnum beri skaðabætur vegna þessa er mér hulin ráðgáta.

Er eitthvað í landslögum sem segir til um það hvernig standa skuli að fegurðarsamkeppnum? Og hver skilyrði skulu vera. Dómari hefur væntanlega horft á þættina og líkað vel.

Kannski mátti ekki svipta hann krúninni, veit það ekki. En samt finnst mér einhvernveginn hlægilegt að kæra. Og niðurstaðan.

Mannorðið er 500 000 króna virði.

Röggi.

Bankar.

Í starfi mínu hitti ég oft bankamenn. Þeir eru eðli málsins samkvæmt ólíkir, þannig séð. Samt eitthvað svo líkir. Einsleit hjörð. Öndvegismenn allt saman.

Bankarnir eru eins og þjóðin sjálf, ferlega óstöðugir. Sem er verra. Þeir ættu að vera mjög stöðugir. Sjá hluti fyrir og haga seglum eftir vindi og þá helst til lengri tíma en ekki skemmri.

Það virðast þeir ekki gera. Það er annað hvort heiðskýrt eða niðadimmt. Allt á útopnu og smjör á hverju strái eða eins og nú. Nú skal stígið þéttingsfast á bremsuna. Allt kælt langt niður fyrir frostmark.

Hvorug staðan getur verið æskileg. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að reka þessi fyrirtæki öðruvísi? Nú blasir gríðarlegur vandi við því fólki sem bankarnir sannfærðu um að fínu íbúðarlánin þeirra myndu færa öllum gæfu.

Ég veit vel að efnahagsástand hér er ekki nógu stöðugt en það virðist samt alltaf koma bönkunum í opna skjöldu. Þeir gersamlega missa sig þegar útlitið er bjart. Þá er ekkert aðhald. Greiningardeildir þeirra virðast ekki skila nógu góðu starfi.

Forstjóri Glitnis vill auka innlán. Hvernig ætlar hann að gera það? Bankarnir hafa nær eingöngu hugsað um að koma nógu af peningum í vinnu. Hjá fólki sem vill taka lán. Og margir eru viljugir og treysta á bankana.

Það dugar greinilega ekki. Bankinn tapar sjaldan. Yfirdráttarþrælarnir borga á endanum brúsann. Bankar hugsa meira um að fyrir lánum séu traust veð en að lántakandinn hafi viðskiptasöguna jákvæða, geti staðið í skilum. Þetta er ávísun á vandræði.

Finnst næstum því að bankarnir séu enn á bernskuskeiði eftir einkavæðinguna. Vanti reynslu og vigt. Hvað á maður að halda?

það er annað hvort brjáluð gleði eða algert svartnætti. Er ekki einhver millivegur fær?

Röggi.

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Byrgið.

Var að enda við horfa á kompás. Umfjöllunarefnið; byrgismálið frá ýmsum hliðum. þvílík hörmungarsaga. Nenni ekki að tala um Guðmund. Það hafa allir sömu skoðun á honum.

Áhugaverðara er að tala um "kerfið" okkar. Hvernig getur staðið á því að fólk heldur því fram að þrátt fyrir áform um að koma fórnarlömbum til aðstoðar þá hafi ekki verið við það staðið og þvert á móti? Framkvæmdastjóri geðhjálpar orðstór mjög og foreldrar eðlilega harmi slegin og reið.

Landlæknir sýnist mér ekki hafa nokkurn áhuga á málinu og reyndar hefur þetta mál lengi slegið mig þannig að þar á bæ séu menn í fýlu. Ekki benda á mig, mórallinn. Starfaði þetta apparat kannski í óþökk embættisins?

Mér þótti byrgið miklu frekar vera pólitískt PR mál en heilbrigðisstofnun eða meðferðarstofnun. Fjölmiðlar og alþingismenn tóku byrgið upp á sína arma og stjórnvöld stigu dansinn. Svo vildi enginn kannast við krógann þegar hann reyndist skrímsli.

Er það ekki grafalvarlegt þegar fólk vænir starfsfólk í heilbriðgisgeiranum nánast um mannvonsku? Þar starfi fólk sem taki það upp hjá sjálfu sér að neita fársjúku fólki um aðstoð. Eða að reglurnar bjóði ekki upp á annað en neitun.

Á bágt með að trúa því. Þekki sem betur fer ekki nógu vel til í þessum efnum en eitthvað vantar inn í jöfnuna hjá mér. Finnst harla ólíklegt að vont fólk og illa meinandi veljist til þessara starfa. Þarna er eitthvað annað sem ræður.

Hér þarf að halda áfram að grafa. Ekki endilega til þess að finna ónýta embættismenn og alþingismenn þó það væri auðvitað bónus. Heldur miklu frekar til þess að sníða af vankanta og tryggja að svona þvæla endurtaki sig ekki.

Röggi.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Ráðist á garðinn.

Þá er Óskar Bergsson mættur til leiks. Og ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann er sumsé að tuða yfir því að borgin kaupi húsræflana á laugaveginum. Ég hélt að enginn sem tilheyrði gamla meirihlutanum ætlaði sér að ræða þetta mál.

Þetta ekkisens klúður fékk nýji meirihlutinn í arf. Ef törfusamtökin hefðu ekki skipt sér af þessu og ef Dagur fengi ekki hræðslukast í hvert skipti sem einhver andæfir því sem hann segir þá væru þessir kofar á bak og burt.

það var fyrri meirihluti sem var búinn að koma málum þannig fyrir að bótaskylda var alveg klár. Kannski hefði verið hægt að þæfa málið þannig að ríkið hefði borgað en það er þó mannsbragaur að því að hysja brækurnar upp um sig og ganga almenilega frá þessu gagnvart eigendunum sem ekki höfðu gert annað af sér en að semja við borgina.

Þetta er klassískt dæmi um það þegar stjórnmálamenn fara á taugum vegna smá þrýstings minnihlutahóps. Með ærnum tilkostnaði fyrir skattborgarana.

Sé ekki í fljótu bragði að um neina sérlega rismikla útgönguleið hafi verið að ræða. Óskar Bergsson segir okkur kannski hvernig hann hefði leyst úr þessu rugli sem gékk í pólitískar erfðir.

Röggi.

Hvenær er nóg að gert?

Ég er varla mikið betri en aðrir með það að verja út í eitt það sem mér dettur í hug að gera að skoðunum mínum. Miklu auðveldara virðist að gera það heldur en að sjá að sér. Þess vegna held ég ótrauður áfram.

Enginn vafi er í mínum huga að sagan mun fara ófögrum orðum um þá sem nú fjargviðrast út í Ólaf F vegna veikinda hans. Ræturnar eru að mínu mati pólitískar og eingöngu pólitískar. það eru einu prinsippin í málinu. Blandað saman við hæfilega blöndu af fordómum gagnvart þeim sem þurfa að leita sér aðstoðar vegna andlegra báginda tímabundið.

Nýjir vinklar fundnir á flóttanum því þeir sem ekki eru gersneyddir tilfinningum finna það hjá sér að hér er of langt gengið. Dettur einhverjum í hug að Ólafur sé eini stjórnmálamaðurinn sem hefur leitað sér aðstoðar á þessi sviði? Við bara vitum það ekki. Af hverju ætli það sé?

Svarið blasir við okkur daglega. Nú er það orðið sérstakt veikleikamerki að Ólafur ræðir málið ekki opinskátt! Framkoma þeirra sem kjósa að vega að honum vegna þessa er ekki hvetjandi í þeim efnum. Það er þessi afstaða sem hefur staðið umræðu um þennan málaflokk fyrir þrifum áratugum saman.

Litlir menn grínast með þetta og tala um í hálfkæringi. Slá úr og í og segjast ekki vera að gera neitt annað en það sem eðlilegt er. Legg hér með til að hver og einn setji sjálfan sig í spor Ólafs eða geri sér í hugarlund hvernig menn myndu bregðast við ef "þeirra" maður fengi svona meðferð. Fyrr eða síðar rennur sóttin af mönnum og þá munu einhverjir þurfa að skammast sín. Stjórnmál skipta okkur öll máli. En þau eiga ekki að draga okkur niður á þetta plan. Þau snúast ekki um þetta.

Kjarni málsins er þessi. Ólafur þótti fullfrískur þegar hann var gerður að forseta borgarstjórnar í tíð fyrri meirihluta en allt því geðveikur nokkru síðar þegar hann skipti um lið. Þetta er ekkert flóknara en það.

Umræðan um siðleysi og heilindi í stjórnmálum getur vissulega átt fullan rétt á sér í kringum borgarstjórn en að taka þá umræðu niður í þennan forarpytt er fyrir neðan allar hellur.

Við megum ekki gleyma okkur í hita leiksins. Engin stjórnmál er þess virði. Þessi umræða skaðar bæði stjórnmálin og ekki síður þá vinnu sem gott fólk hefur reynt að byggja upp í kringum þá sem eiga við andleg og geðræn vandamál að stríða.

Frábið mér allt tal um væl.

Röggi.

mánudagur, 28. janúar 2008

Þórunn umhverfis.

Ég hef verið að bíða eftir því að Þórunn umhverfisráðherra fari að láta að sér kveða. Hún og Geir virðast ekki sammála um neitt. Held reyndar að fáir menn kunni eins vel að meðhöndla svoleiðis í samstarfi en Geir.

Og það mun örugglega reyna á þessa hæfileika hans á kjörtímabilinu. Hún er nefnilega fyrsti alvöru umhverfisverndarsinninn sem sest í þetta embætti. það þýðir að hún er sjálfkrafa á móti flestu sem tengist stóryðju. Þannig er eðlið bara.

Álver og ólíuhreinsunarstöð hljóta að vera eitur í hennar beinum. En staðan er flókin því landsbyggðin vill endilega iðnaðinn til að bjargar. Og atkvæðin vega meira þar en annarsstaðar.

það geta ekki allir fengið að ráða. Spennandi að sjá hvernig henni tekst að koma sér fyrir í þessari ríkisstjórn. Ég er hálf meðvitundarlaus þegar kemur að umhverfisvernd í samanburði við marga en finnst samt á einhvern hátt gott að fá einarðan umhverfisverndarsinna í ríkisstjórn.

Þnnig gætu hlutirnir leitað jafnvægis.

Röggi.

Fýlukast.

Hvenær skyldi fýlukastið ná hámarki? Fúllyndið lekur af vinstri mönnum. Gamlir kommar skríða undan og kalt stríð skollið á. Í þeirra hugum. Blóðið ekki runnið svona ótt í mörg ár.

Allt vegna þess að Dagur og félagar klúðruðu borginni. Og átta fulltrúar ráða en sjö ekki. Hvenær skyldi reiðin beinast að Degi? Af hverju gat hann ekki gert það sem þurfti til þess að allir yrðu ánægðir? Ingibjörg gat það en ekki Dagur. Og samt var hún ekki að kljást við lamaðan sjálfstæðisflokk eins og Dagur nú Hvenær skyldu menn hætta að fá fró út úr því að svívirða persónu Ólafs og líta í eigin barm?

Ekki dregur það úr ólundinni að tómt mál er að tala um að samfylkingin slíti ríkisstjórn. Þar er flest í sómanum. Auk þess sem samfylkingin hefur ekki í nein önnur hús að vernda. Hvert ætti hún að fara?

Segi eins og Egill silfurrefur.

Þetta er væl.

Röggi.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Þrískipting valds.

Ólafur Páll heimspekingur fékk alltof lítinn tíma til þess að ræða þrískiptingu valds í silfrinu í dag. Ég hef verið með þetta á heilanum síðan ég heyrði Vilmund ræða þessi mál fyrir 1000 árum eða svo.

Það á ekki að vera umsemjanlegt að vald á að vera þrískipt hér. það fæst af einhverjum ástæðum ekki rætt. Gildir einu um hvaða stjórnmálaflokk er að ræða. Fyrir því geta verið margar ástæður en engin þeirra góð.

Hættum dægurþrasi um heimskupör ráðherra sem komast upp með hvað sem þeim dettur í hug meðal annars vegna þess að ekki er tryggt að valdið sé þrískipt. Mennirnir breytast ekki svo glatt sama hvaða flokksskírteinum þeir flagga. Sagan bara segir okkur það.

Þess vegna er reynt að fyrirbyggja mögulega misbeitingu með skiptingu valds í þrennt. Ráðherrar skipa ekki dómara. Hver skilur ekki af hverju? Notum nú tækifærið og tökum málið á dagskrá. Ekki til þess endilega að ganga milli bols og höfuðs á Árna Matt heldur af því að við eigum skilið að systemið okkar sé í samræmi við stjórnarskránna. Við ræðum þessi mál helst þegar einhver notar tækifærið og misbýður okkur. Þá er erfitt að fá málið rætt því stjórnmálaflokkar eru þannig að þeir verja hvaða bull sem er hjá sínum. það er þeirra eðli. Þetta er ekki flokkspólitískt mál. Hagsmunir okkar allra fara hér prýðilega saman.

Ráðherrar eru ekki heldur þingmenn. Hver skilur það ekki heldur? Hverjum finnst þetta ekki skipta máli? Rökin fyrir því að framkvæmdavaldið ráði því ekki hver er dómari eru skotheld. Hvernig viljum við styrkja þingræðið og deyfa áhrif framkvæmdavaldsins þar?

Aðskiljum að fullu, löggjafar, dóms og framkvæmdavald. Það yrði góð byrjun.

Röggi.

Ný hugsun dana í handbolta.

Meira um handbolta. Viggó og Óskar Bjarni eru að tala um handbolta í sjónvarpinu núna. Þar er rætt um dani og aðferir danska þjálfarans. Ryfjast þá upp fyrir mér það sem ég skrifaði um muninn á Alfreð og danska þjálfaranum í heimsmeistaramótinu í fyrra.

Mín skoðun er sú að aðferðir Alfreðs og reyndar flestra þjálfara í dag séu á undanhaldi. Gamli austurevrópski hugsunarhátturinn hlýtur að víkja. Þar eru þjálfarar eru guðir sem allt vita og reynt er að hafa mikla fjarlægð milli leikmanna og þeirra.

Heimspekin gengur út á að nota fáa leikmenn. "Bestu" leikmennirnir eru þeir sem byrja leikinn. Varamenn eru ekki heilir leikmenn heldur leikmenn sem eru settir inná þegar "bestu" leikmennirnir ná sér ekki á strik. Frammistaða varamannanna skiptir svo ekki máli. Um leið og bestu leikmennirnir eru búnir að kasta mæðinni eða að fá ræðuna eru þeir svo settir inná aftur.

Varamennirnir eru frekar notaðir sem viðbrögð við slökum leik bestu spilaranna eða sem refsing. Þeir hafa ekkert hlutverk, þeim er ekki endilega treyst. Á sama tíma er talað um skort á breidd. Hvernig verður hún til spyr ég?

Þessi ofurhræðsla við að leyfa þeim sem ekki byrja leikinn að spila hefur lengi verið mér óskiljanleg. Landslið eru eðli máls samkvæmt skipuð góðum leikmönnum eingöngu. Stórkeppnir spilast þéttar en önnur mót og því mikil þörf á að dreifa álaginu og BÚA til breidd.

Leikur okkar við dani á heimsmeistaramótinu í fyrra er kennslubókardæmi um þetta. þar lentu danir í meiðslum í rétthentu skyttunni og það var í raun þriðji valkostur í stöðuna sem vann okkur. Enda hafði hann leikið mjög mikið í mótinu. Hann byrjaði reyndar illa í þessum leik og klúðaði þremur sóknum. Því hefði hann aldrei náð hjá Alfreð. Miklu betra að láta byrjunarliðsmann klúðra en varamann.

Stórstjarnan Lars Cristhiansen fékk kærkomna hvíld í síðari hálfleik. Varamaður hans stóð sig vel og hann kláraði því leikinn, sem var framlengdur og æsispennandi. Þarna gerðist tvennt.

Lars fékk mjög góða hvíld og varamaðurinn hans spilatíma. þetta styrkir liðsheildina og býr til breidd. Við þekkjum svona vinnubrögð helst ekki. Betra er að láta Guðjón Val spila örþreyttan en að leyfa öðrum að spreyta sig í stöðunni. Við förum í hvert æfingamótið á fætur öðru þar sem okkar styrkustu stoðir spila allt of mikið.

Við eigum ekki marga heimsklassaleikmenn. Þess mikilvægara er að búa til breidd og skapa liðsheild. Til þess þarf nýja hugsun. Hugsun þar sem menn endurhugsa fyrirbrigðið, varamenn. Varamenn eru leikmenn sem byrja á bekknum. Þeir eru ekkert úrkast.

Vona að danir vinni Króata. Jafnvel þó það gerist ekki í dag þá vona ég að hugmyndafræðin sem er að baki liðinu er nái fótfestu.

Röggi.

Danir eru mínir menn.

Ég fagna því alveg sérstaklega að danir séu komnir í úrslit EM í handbolta. Held alltaf með dönum hver sem ég kem því við. það er eitthvað í danska eðlinu sem gerir þá að skemmtilegum íþróttamönnum.

Hæfilegt kæruleysið er að gera mikið fyrir þá. Svo hjálpar þetta þeim í baráttunni við dönsku stelpurnar sem spila skemmtilegasta handbolta í heimi og fá alla athyglina.

Þá man ég eftir einu. Viggó lýsti því yfir fjálglega eftir riðlakeppnina minnir mig að danir væru ekki í formi! Ekki að spyrja að Íslensku sérþekkingunni.

Kannski höfum við bara ekkert vit á þjóðaríþróttinni.

Röggi.

laugardagur, 26. janúar 2008

Meira væl.

Það er naumast að hann er styggur í dag hann Egill silfurkóngur. Væl skal það heita að vera á öndverðum meiði við hann þegar kemur að túlkun á atburðarás síðustu daga í borgarmálum. Spuni verður hér skammaryrði og það frá manni sem hefur atvinnu af því að spinna. Krefur menn um rökstuðning en styðst sjálfur við dylgjur. Var það ekki MaCarty sem þróaði þessa aðferð?

það er hans val að trúa ekki því sem Ólafur segir um ástæður þess að hann skiptir um samstarfsfólk. Miklu skemmtilegra að trúa því að maðurinn sé ekki fullkomlega heill á geði heldur en að hann hafi málefnalegan metnað í póltík.

Egill tekur bara ekkert mark á því sem maðurinn segir og þá hlýtur hann að hafa rétt fyrir sér og aðrir ekki. Þar af leiðir....

Merkilegt óþol sem þarna birtist. Læt ekki eftir mér að túlka það frekar.

Röggi.

Styð ég meirihlutann?

Ég hef verið spurður að því undanfarið hvort ég styðji nýja meirihlutann. Þetta er bráðeinföld spurning en svarið eitthvað flóknara.

Ég styð sjálfstæðisflokkinn jafnvel þó mér finnst hann stundum alveg ferlegur. Þeir sem eru hættir að efast um flokkinn sinn eru að mínu viti búnir að tapa hæfileikanum til þess að þroskast pólitískt. Grundvallarskoðanir mínar fara almennt vel saman við flokkinn. Daglegur rekstur hans ekki alltaf.

Sumir fulltrúar hans eru heldur ekki allir að mínu skapi. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt. Réttrúnaðarofstækið sem við höfum orðið vitni að undanfarið er skemmandi. Hvernig er hægt að þrífast í pólitík ef enginn er efinn? Fullkomnun náð. Sannleikurinn eini fundinn.

Er ekki bráðhollt að láta eftir sér að hrífast af fólki og jafnvel hugmyndum sem aðrir hafa komið með? það er nefnilega þannig að enginn einn flokkur getur rúmað allt það sem mér finnst skynsamlegt. Og víða geta leynst áhugaverðir aðilar í öðrum flokkum. Ef maður leyfir sér að opna blinda augað.

Ég hrífst meira af hugmyndum en fólki í pólitík. Fólk kemur og fer en hugmyndirnar og stefnan verður eftir. Í sumu er ég bókstafstrúarmaður. Grunnreglur og gagnsætt lýðræði hentar mér betur en skyndileg upphlaup og eftirsókn eftir vindi um stundarsakir. Nauðsyn brýtur lög er frá mínum bæjardyrum mjög hæpið fyrirbrigði. Enda er það svo að túlkunin á því hvað telst nauðsyn verður alltaf umdeild. Lögin aftur á móti svíkja engann og allir eru jafnir fyrir þeim.

Ég er sumsé sjalli þó ég verði iðulega skotinn í hinu og þessu sem kemur frá öðrum. Fanatík þreytir.

Ég er ekki ánægður með flokkinn minn í Reykjavík. Við státum ekki af nógu öflugu fólki. Leiðtoginn er búinn á því og nýtur hvergi trausts. Leitun að öðru eins í sögunni. Ég bý í hafnarfirði og er ekki kjósandi í borginni en myndi án efa kjósa flokkinn. Af því að ég trúi á það sem flokkurinn á að standa fyrir og ég veit að Villi og hinir eru ekki eilífðin.

Ég held að fyrsti meirihluti þessa kjörtímabils hafi verið settur saman til þess að stjórna borginni. Stunda stjórnmál. Hinir tveir voru báðir einungis settir saman utan um völdin. Þörfina til þess að komast að. Þeir sem sjá einhvern mun á Degi og Villa í þessu eru blindir.

Í báðum tilfellum er þessu hespað af á nokkrum tímum. Í tilfelli Dags snérust þeir tímar eingöngu um það hverjir ættu að sitja hvar. Og þar með lauk samningsgerðinni. Í tilfelli Villa var verið að stinga nógu miklu upp í Ólaf til þess að gengi saman. Í hvorugu tilfellinu mjög rismikið.

Lýðræðið er skrýtið atriði. Allt þetta má af því að þetta fólk er réttkjörið. Þess vegna stoðar ekki að kvarta. Þetta völdu borgarbúar. Allt tal um skort á lýðræði í þessum tilellum sýnir fullkominn skort á næmni fyrir því hvað lýðræði stendur fyrir. Lýðskrum er allt annað en lýðræði. Mér finnst garfalvarlegt þegar reynt er að eyðileggja og kenna rangtúlkanir á þessu mikilvæga atriði í okkar stjórnskipan.

Hver var spurningin aftur? Jú ég styð meirihlutann en áskil mér fullan rétt til þess að vera óánægður með margt. Þó ekki hvernig hann varð til því þar voru engar reglur brotnar. Og sennilega forherðist ég í afstöðunni þegar ég upplifi það hvernig málsmetandi menn eru teknir af lífi vegna þess eins að þeir skiptu um samferðafólk í pólitík. Ég spái því eindregið að þeir sem standa fyrir því munu uppskera ævarandi skömm þó síðar verði.

Ég segi já, með fyrirvörum.

Röggi.

föstudagur, 25. janúar 2008

Skítug pressa.

það er bara þannig að þegar pólitískur rétttrúnaður og skepnuskapur rennur saman í fólki sem hefur svo vinnu af því að búa til blöð þá er auðvitað ekki von á góðu.

Þeir hafa ekki verið sparir á það íslensku vitringarnir sem skrifa blöð að gagnrýna bandarísk stjórnmál. Oft með réttu. Sér í lagi hafa margir þeirra haft ímugust á því þegar kappið ber menn í að blanda saman einkalífi og pólitík. Skítkastið þar vestra nær oft mögnuðum hæðum þegar verst lætur.

Þá er verið að eltast við það hvort menn hafi reykt hass á menntaskólaárum og hvort menn hafi borgað skuldir sínar. Framhjáhald hefur aldrei þótt gott. Allt týnt til og mörkin óljós milli einkalífs og stjórnmála. Fáir hér hafa verið tilbúnir til þess að verja þetta.

Hver man ekki eftir Clinton málinu sem margir íslenskir blaðamenn kölluðu frekleg afskipti af einkalífi og nefndu það sem dæmi um úrkynjun amerískrar blaðamennsku og stjórnmála. Nefndu gjarnan máli sínu til stuðnings að við evrópumenn værum svo fágaðir að menn hefðu ekki kippt sér upp við að forseti Frakklands ætti barn framhjá konu sinni.

DV í dag er búið að gleyma þessum þröskuldum. Prinsippin fokin enda liggur lífið á í baráttunni gegn nýja meirihlutanum. Þar er ekki hikað við að gera persónuleg mál Ólafs borgarstjóra að forsíðufrétt. Mál sem hafa ekkert með stjórnmál að gera.

Þetta voru ekki fréttir í síðustu viku. Er þetta svaðið sem við viljum sökkva í? Er ekki rétt að grafa upp erfið mál sem við öll getum lent í án þess að það sé talið skerða starfsgetu okkar? Ég efast ekki um að með lagni og nægum skepnuskap er hægt að finna ýmislegt um flesta.

Mér finnst þeir DV menn vera að ná þeim ótrúlegu lægðum sem fyrrum ritstjórar þessu snepils náðu áður en þjóðin og eigendur fengu nóg. Fordómar gangvart fólki sem á í geðrænum vanda skín í gegn og er þessum mönnum ekki til sóma.

Einungis þeir sem hafa rétt skírteini frá einum degi til annars og geta sannað að þeir séu ekki eða hafi ekki í neinum vanda helsufarslega geta sinnt stjórnmálum. Þeir sem hafa veikst eru að mati þessara manna ekki þess verðugir að sinna stjórnmálum.

Er ekki mál að linni jafnvel þó menn aðhyllist einn flokk frekar en annan? Viljum við sökkva í þetta fen? Vorum við ekki öll búin að fá nóg af svona blaðamennsku?

Röggi.

Réttlátur minnihlutinn.

Ég hef skrifað þessa grein áður. Það var reyndar að moggablogginu. Nenni ekki að fletta henni upp þannig að ekki er víst að ég muni hana orðrétt. Þið fyrirgefið.

Þá var umfjöllunarefnið mótmæla ofbeldi saving Iceland. Þar sem ruðst er inn á vinnusvæði og vinnustaði og efnt til mótmæla gegn einhverju sem mótmælendur telja ólöglegt þó ekki sé með neinu móti hægt að benda á neitt ólöglegt.

Heilagt stríð kemur upp í hugann. Forheimskur meirihlutinn hefur ákveðið að gera eitthvað sem réttlátur og sanngjarn minnihlutinn getur ekki látið yfir sig ganga. Þá er allt leyfilegt er það ekki? Í nafni lýðræðis og sannleika. Hversu oft hafa þessi orð ekki verið misnotuð?

Rétturinn til þess að hafa uppi mótmæli er að mínu viti heilagt fyrirbrigði. En hann gengur ekki yfir ýmislegt annað sem líka er nauðsyn til þess að halda uppi allsherjarreglu. Þeir sem telja sig þurfa að brjóta lög og reglur til þess að koma sauðheimskum meirihlutanum í skilning um afstöðu sína hafa ekki góðan málstað.

Stjórnskipan okkar er einföld. Við notumst við lýðræði. Kosið er reglulega til þings og sveitarstjórna. Þau yfirvöld sem verða til eftir kosningar eru lögleg. Og hafa því lögvarinn rétt til þess að taka ákvarðanir. Jafnvel ákvarðanir sem meirihluti kjósenda er mótfallinn. Þetta er grundavallaratriði og ekki umsemjanlegt. Löglega kosnir einstaklingar hafa fyrst og fremst skyldur gagnvart sannfæringu sinni. Þeir sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti en ekki skoðanakannanna.

Fíflagangur sá sem við sáum í borgsrstjórn í gær á ekkert skylt við réttinn til að andæfa. Tilraun til þess að skemma og lítilsvirða fullkomlega löglegan gjörning er í besta falli dónaskapur og móðgun við lýðræðið.

Heyrði Sigurjón Egilsson fagna þessu í útvarpinu í morgun. Og það var rökstutt með rökum sem eiga akkúrat við um þá sem héldu fundinn. Sumsé rétt þeirra til lýðræðis. Engum hefur dottið í hug að svipta fólk réttinum til mótmæla en skríllinn vildi einmitt reyna að svipta lögleg yfirvöld sínum rétti. Hvernig þetta fólk vill hafa hlutina liggur svo ekki fyrir.

Best reynist að hafa eina skoðun á svona málum óháð því hvort menn halda með einhverjum eða ekki. Kemst ekki hjá því að hugsa um það hvernig Sigurjón og félagar hefðu brugðist við ef ungliðar sjálfstæðismanna hefðu hagað sér svona þegar Björn Ingi nýtti sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að fara eftir sannfæringu sinni þegar hann í reykfylltum bakherbergjum stakk undan síðast.

Hlutlaus pólitískur fréttaflutningur og rannsóknarblaðamennska er undantekning hér en ekki regla. Hér halda flestir með einhverjum og verja sig og sitt seint og snemma.

Alveg óháð kostnaði.

Röggi.

Naglinn á höfuðið.

Pétur Gunnarsson skrifar grein um heilsufar Ólafs borgarstjóra og umræðuna. Frábær pistill. Geri hvert orð að mínum.

Röggi.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Hugtakanotkun.

Eitt orð er meira notað en önnur þegar vitringarnir tjá sig um atburði daganna í pólitíkinni. það er að nýji meirihlutinn gangi á svig við lýðræðið. Í hverju liggur það? Hvernig er það reiknað?

Getur meirihluti orðið ólýðræðislegt fyrirbrigði. Var meirihlutinn sem Björn Ingi sprengdi lýðræðislegur, eða sá sem hann stofnaði? Hvað ræður í þessu.

Er eitthvað sem bannar mönnum að fylgja sannfæringu sinni og ganga til liðs við aðra samstarfsaðila? Er það ekki einmitt lýðræðislegur réttur Ólafs eins og það var Björns Inga á sínum tíma.

Er pólitísk sannfæring Ólafs minna virði en Margrétar og Guðrúnar? Eða þeirra sem neðar eru á listanum og fylgja Ólafi að málum. Margrét hefur sérhæft sig í því að hætta pólitísku samstarfi á þeim forsendum að sannfæring hennar bjóði ekki upp á annað.

Hver er munurinn á því og að hefja samstarf á sömu forsendum? Af hverju er Margréti hælt fyrir það sem Ólafi er talið til lasts? Er pólitísk sannfæring hans léttvæg en Margrétar lofsverð?

Það fylgir því töluverð ábyrgð að tala um að þessi gjörningur sé ekki lýðræðislegur. Hann kann að vera arfavitlaus en það er annar handleggur. Sé þetta ólýðræðislegt var gjörningur Björns Inga það líka. Enginn vafi leikur á því.

Við búum við prýðilegt lýðræði hér. Og það verður alltaf réttur lýðræðislega kjörinna fulltrúa að taka vitlausar ákvarðanir.

Röggi.

Missir framsóknar.

það er nefnilega það. Björn Ingi segist hættur í pólitík. Það þýðir væntanlega að hann sé hættur og ætli ekki annað. Er samt ekki viss um það...

Hitt er ég viss um og það er að framsóknarflokkurinn mun finna fyrir brotthvarfi hans. Sjálfseyðingarhvöt þess flokks er viðbrugðið. Auðvitað er slegist í öllum flokkum og það stundum ótæpilega. Sérstaklega getur verið erfitt þegar ungir og sprækir strákar eins og Bingi ryðjast fram fyrir raðir sem sumir hafa staðið í lengi.

En framsóknarmenn hafa einhvernveginn ekki haft lag á því að lifa svona fæting af. Þorsteinn fór í fýlu út í Davíð, sem reyndar stendur enn, en Guðni opinberar allt í bók nánast í sömu mund og atburðir gerast. Össur og Ingibjörg gengu í gegnum erfiða tíma og það duldist engum. Samt tókst þeim að lenda á löppunum. Eins og gengur.

Fáir hafa verið duglegri, ef undan er skilinn Dagur B fyrir þremur mánuðum, að halda því á lofti að Björn Ingi sé spilltur en framsóknarmenn sjálfir. þarf spillingarsían ekki að fara eitthvað fyrr af stað en þegar menn eru orðnir oddvitar flokksins í borginni? Hef enga trú á þvi að hann sé verr haldinn af spillingu en margir aðrir.

Hitt hefur hann sem fáir í hans flokki hafa aðrir. Hann hefur einhverja manneskjulega taug. Getur náð til fólks. Best kom þetta í ljós þegar hann neyddist til þess að slíta meirihlutanum. Í raun absúrd mál en hann seldi meginþorranum það létt.

Hann er fjandakornið eini kjörni fulltrúi framsóknar í borginni hvort heldur sem við tölum um sveitarstjórn eða ekki. Sé ekki nokkurn annan leika það eftir eins og málum er háttað enda stefnir flokkurinn nú hraðbyri í sveitina.

Ekki vottar fyrir framsóknartaug í mér. En það er samt missir af drengnum og þetta veikir minnihlutann í borginni. Og rústar framsóknarflokknum.

Röggi.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Kálið er ekki sopið.

Nú verður spennandi að sjá hvort nýji meirihlutinn kemst úr sporunum og lifir til loka. Eins og vænta mátti er brekkan brött. Aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Fjölmiðlar kynda undir og trúa öllu sem Dagur segir eins og nýju neti. Segi hann Villa hafa boðið Svandísi eitthvað þá hlýtur Villi að hafa boðið henni eitthvað. Nema hvað.

Ég þekki þá tvo, Vilhjálm og Ólaf ekkert. Augljóst er þó að þeir eru klaufar í fjölmiðlum og báðir gersamlega lausir við sjálfstraust. Ekki er það að hjálpa því svona samstarf eins og þeir hafa komið á er niðursoðið á stuttum tíma í sömu reykfylltu bakherbergjum og Bingi og Dagur notuðust við síðast. það verður alltaf tilefni til gagnrýni og þá reynir á menn. Feluleikur og farið á bak við fólk. þannig var það síðast og þannig er það núna. Og verður næst sama hver á í hlut. Þá er góður eiginleiki að geta talað við fjölmiðla.

Við þessar aðstæður verður ekki séð við öllu. Léttar misfellur í málefnaplaggi verða skyndilega matur fjölmiðla og annarra sem þola þetta ekki. Þetta virðast þessir tveir menn ekki getað talað sig í gegnum. Ótrúlegt hvernig þeir láta hrekja sig í vörn aftur og aftur.

Spái því samt að þetta haldi alla leið. Hér er ekki um að ræða fjóra aðila eins og síðast þegar samið var um að vera við völd og ekkert annað. Það reyndist erfitt og límið hélt ekki. Kannski nennti Dagur ekki að gera samning um málefni til þess að negla þetta niður. Hugsanlega taldi hann það engu skipta. Völdin ein dygðu. Er nánast tilbúinn að trúa því að það hafi skipt sköpum. Ólafur kemur mér fyrir sjónir sem hárnákvæmur og hégómalegur maður. Smámunasamur. Engu máli skiptir hversu litla virðingu þú berð fyrir honum í samstarfi. Þú hlýtur að verða að bera virðingu fyrir möguleikum allra fjögurra til þess að slíta sig lausa. Allt annað er í besta falli kæruleysi. Sér í lagi hjá manni sem rétt nýlega hefur verið á hinum endanum á þannig atburðarás.

Ólafur fer bratt af stað. Talar og túlkar af hjartans list. Hann mun komast upp með það því Villi er of sjóaður til þess að láta svoleiðis smotterí skemma það sem raunverlega skiptir hann máli. Ef okkur sjálfstæðismönnum tekst ekki að skipta um skipstjóra í brúnni fyrir næstu kosningar verður okkur refsað grimmilega. Villi var búinn með sinn tíma og þessi niðurstaða breytir engu þar um. Skítt með það þó hann mælist ekki sterkur þessa dagana á meðan moldviðrið gengur yfir.

Hann er fyrir löngu hættur að mælast hjá sínu eigin fólki. Það sjá allir og það er eitthvað sem hann getur ekki kjaftað sig frá. Alveg er sama hver afrek hans pólitísk verða. Mér finnst þetta blasa við. Borgarstjórnarflokkurinn stendur að baki honum núna af því að ekkert annað er í stöðunni.

Orustan vannst en hef sterkar efasemdir með stríðið.

Röggi.

10% borgarstjóri.

Þær eru nú þegar farnar að heyrast raddirnar um að Ólafur eigi ekki skilið að vera borgarstjóri. Á þeim forsendum að hann hafi ekki nema rúm 10% atkvæða á bak við sig. Hver er heimspekin í því?

Framsóknarmenn hafa þurft að búa við þennan söng árum saman. Þeir hefðu svo mikil völd þrátt fyrir lítið fylgi. Þetta finnst mér eins og berjast við vindmyllur.

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að þetta geti gerst er að breyta kosningakerfinu okkar algerlega. Og kannski að taka upp tveggja flokka kerfi. Það er ekki alvitlaust ef ég er spurður.

Danir hafa lengi notast við minnihlutastjórnir. Hvernig ætli það færi í þennan kór? Mér sjálfum finnst fullkomlega eðlilegt að sá aðili sem minna hefur fylgið í tveggja flokka samstarfi eða jafnvel þriggja fái þessa stöðu.

Eina leiðin til þess að tryggja eðlilegan styrk og jafnvægi milli minni og stærri í svona samstarfi er að skipta jafnt. Hitt endar annars líklega með ofbeldi þess sem meira á undir sér og því sjálfhætt.

Þess vegna hef ég illa getað skilið þetta tal. Virkar kannski eðlilegt á fyrstu en ekki ef dýpra er kafað.

Röggi.

Þegar rykið sest.

Þá fer rykið að setjast. Mesti móðurinn af og raunveruleikinn fer að sýjast inn. Þetta fer misjafnlega í fólk.Ég er einungis ánægður með að vera kominn í meirihluta aftur. Aðferðin sem var notuð finnst mér jafn óforskömmuð og síðast, hvorki meira né minna. Þetta er sjálfsagt stöðluð aðferð. Villi er eftir sem áður afleitur kostur í borgarstjórann. Það hefur ekkert breyst. Ekki frekar en borgarstjórnarflokkurinn allur. Er ekki spenntur.Dagur eins og móðguð prímadonna út um allan bæ. Á því ekki að venjast að fólk ljúgi en var sjálfur einn aðalleikarinn í því þegar síðast var logið. Nú situr hann við samsæriskenningasmíðar. Fólk vorkennir honum, hann er góði drengurinn sem var svikinn. Fjölmiðlar spila með algerlega án þess að velta því fyrir sér hvort hann hafi á einhvern hátt átt þátt í því að Ólafur fór.Fílhraustur forseti borgarstjórnar er nú skyndilega heilsulaus ef ekki hreinlega geðbilaður verðandi borgarstjóri. Maðurinn er þó með vottorð öfugt við hina sem virðast þó á köflum þurfa vottun.Margrét er að mýkjast eins og ég spáði. Þeir sem héldu að hún myndi slíta í hvert skipti sem Ólafur skryppi frá eru nú að átta sig á það gerist auðvitað ekki. Hún mun líklegast ganga um borð því kuldinn og valdaleysið í minnihlutanum hentar ekki hennar pólitík. Auk þess sem ekki finnst nein góð ástæða fyrir hana að vera í fýlu. Ekki eru málefnin þar að þvælast fyrir frekar en fyrri daginn hjá henni.Svandís segir ekki orð. Sem er stílbrot. Hún hefur væntanlega mjög góða ástæðu til þess. Hver ætli hún sé?Björn Ingi má ekki vera að þessu. Hann hefur í nógu öðru að snúast. Hefur einfaldan smekk drengurinn. Óskaplega held ég að hann vildi að fyrri meirihluti hefði ekki sprungið. Hann réði því ekki einn.Þetta er einn stór brandari. Mínir menn verða nú að gera lúsaleit að almennilegum frambjóðendum fyrir næstu kosningar. Ekki er hægt að bjóða uppá svona æfingar.Röggi.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

"Norskar kéllingar og hálfvitar"

Hvernig er það, skiptir engu máli hvað íþróttafréttamenn láta út úr sér við lýsingar? Frægt varð það í sumar þegar Adolf Ingi sagði fáránlegan brandara um þeldökkan spretthlaupara sem heitir Gay að eftirnafni.

Þessi sami maður missti sig enn og aftur þegar hann reyndi að lýsa leik Íslands og Þýskalands á EM í dag. Nú voru það dómararnir sem voru"norskar kéllingar".

Í seinni hálfleik voru norsku kéllingarnar hins vegar "hálfvitar"! Þvílík framkoma segi ég. Algert stjórnleysi sem á í besta falli heima upp í stúku hjá orðljótum áhorfendum.

Hér vantar fagmennsku og fágun. kannski er hennar ekki krafist hjá rúv í dag. kannski er öllum sama.

Ekki mér.

Röggi.

Borgaróstjórn.

Nú er líf og fjör. Sárafáir sem ég hef heyrt eða lesið virðast geta fjallað um atburðarásina í borginni án þess að vera með pólitísk gleraugu á nebbanum. Ég sennilega engin undantekning.

Allir halda með einhverjum og svo taka menn sig til við heilagar réttlætingar. Sumir þykjast sjá eðlismun á þessari atburðarás og þeirri sem varð síðast. Í hverju sá munur liggur er mér ekki ljóst nú á þessari stundu. Dagur er eins og stórmóðguð prímadonna alveg eins og Gisli Marteinn var á sínum tíma.

Veikur meirihluti er hrópað. það blasir við en jafnljóst virðist að sá gamli var líka fárveikur. Það vissi bara enginn fyrr en í gær. Dagur vanmat Ólaf og kröfur hans um málefnasamning og völd. Ólafur sem var svo fílhraustur samstarfsaðili í fyrradag þykir í dag fársjúkur maður. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Nú virðist mörgum sem allt líf hangi á Margréti Sverrisdóttur. Ekki víst að það viti á gott. Enginn veit beinlínis fyrir hvaða pólitík hún stendur. Kosin frálslynd, bauð sig fram fyrir Íslandshreyfinguna og er nú óháð. Þarna fer konan sem skammaði Gunnar Örlygsson hástöfum fyrir að skipta um póltískan verustað á miðju kjörtímabili! Vistin í glerhúsinu getur verið nöturleg.

Hún getur slitið meirihlutanum ef Ólafur forfallast og Ólafur þá væntanlega slitið til baka þegar forföllum lýkur. Hvurslagsa ástand er það sem boðið er uppá? Sjálfstæðismenn sem voru hársbreydd frá því að losa sig við Villa standa nú hnarreystir að baki honum.

Allt fyrir völdin. það er það eina sem telur. Fyrri meirihluti hafði engin málefni önnur en að sitja við völd og nýji meirihlutinn virðist bara til í hvað sem er til að komast að og ná fram hefndum.

Borgarfulltrúunum 15 ber skylda til þess að mynda meirihluta sem er á vetur setjandi. Mín spá er sú að Margrét muni kokgleypa stóryrðin þegar af henni rennur reiðin. Hún hefur aldrei verið prinsippmanneskja og þegar við henni blasa völd og stólar þá finnur hún leið. Leið til að snarsnúast í afstöðunni því það er illskárra en að hírast í minnihluta og bíða eftir því að Ólafur tapi heilsu svo hún geti komið og búið til enn meiri glundroða.

Svo er alltaf möguleiki á ríkisstjórnarmeirihluta í borginni....

Röggi.

mánudagur, 21. janúar 2008

Ólafur heim á ný?

Það skyldi þó ekki vera að þjösnagangurinn í kringum heilsu Ólafs og efasemdir um að hann geti klárað það að fá Margréti til liðs við sig endi með því að Ólafur skili sér heim á ný?

Gangi bara í sjálfstæðisflokkinn. það er engin leið til baka fyrir hann ekki ósvipað og með Björn Inga sem mátti til að láta samstarfið ganga upp því hann átti ekki í nein hús að vernda önnur.

Ég er ekki viss um að Ólafur ætli sér að vera í gíslingu Margrétar því hann verður að klára þetta verkefni alla leið úr því að hann lagði af stað. Hann hefur alltaf verið fremur barnalegur í sinni pólitík og það sést hér enn því hann trúir því í einlægni að hann geti höfðað til málefna þegar hann sest niður með Margréti. Þar munu stólar telja meira en annað.

Gangi það ekki upp mun hann hugsanlega skila sér heim.

Röggi.

Ríkisstjórnin springur ekki.

Jú ekki vantar að grautfúlir samfylkingarmenn eru strax byrjaðir að heimta að ríkisstjórninni verði slitið. Á hvaða forsendum er reyndar látið liggja milli hluta. Sennilega af því bara.

Vandi vinstri manna í gegnum tíðina kristallast einmitt í þessu kjánalega viðhorfi. Heitar tilfinningar ráða frekar en yfirveguð rökhugsun. Nánast var leitun að sjálfstæðismönnum sem lögðu til að ríkisstjórn yrði slitið eftir að samfylkingin fór aftur í meirihluta samstarf í borginni.

Hvernig ætla þessir blóðheitu samfylkingarmenn að búa til ríkisstjórn? Með framsókn? Með vinstri grænum? Hver treystir sér til þess að svara þessum spurningum játandi.

Ég held að meira að segja félagi Ösuur geri sér fulla grein fyrir því að samfylkingin þarf á stöðugleika að halda. Ekki upphlaupum til þess eins að ná sér niður á sjálfstæðisflokknum sem er aukinheldur að virka svona ljómandi vel í samstarfi.

Samfylkingin þarf að ná ró og yfirvegun. Stöðugleika en ekki upphlaupum í tilfinningaróti. Þess vegna held ég að Ingibjörg muni ekki leiða hugann að slitum.

Röggi.

Hver klúðraði núna?

Nú tíðkast þau breiðu spjótin. Fyrstu viðbrögð mín við hinum nýja meirihluta voru að mér fannst þetta allt að því hlægilegt. Hvurslags lið hafa íbúar höfuðborgarinnar kosið yfir sig? Eru engin prinsipp til í stjórnmálum?´Veit ekki en ekki eru menn langræknir svo mikið er víst.

Ég sé ekki neinn reginmun á þessari aðferð sem notuð var en hinn fyrri sem Björn Ingi beitti. Það liggur í eðli málsins að logið er að borgarstjóra í einhvern tiltekinn tíma enda sé ég ekki annað en að Dagur sé álíka móðgaður yfir því eins og Villi síðast.

Dagur reyndar alveg búinn að gleyma að hann var hinn helmingur síðustu svika. Svona gerast þessi kaup á eyrinni og ekki á annan hátt. Eitt og annað virðist líkt með þessum byltingum.

Báðir þeir sem út undan sér hlaupa segjast hafa fyrir því gildar ástæður. Og báðir segjast trúa því að þeir muni hafa sitt fram. Munurinn hér gæti verið að Björn Ingi náði því ekki en Ólafur er þó með sitt á pappír. Getur verið að Dagur hafi klúðrað á því að nenna ekki að gera málefnasamning? Bar hann ekki næga virðingu fyrir Ólafi?

Ætli félagi Össur tali nú um sögulegt klúður sexmenninganna? Ólafur yrði þar með svikarinn þó Björn Ingi hafi ekki verið það á sínum tíma. Mér finnst þetta dapurlegt, fannst það síðast og finnst það nú. Þetta er samansafn fólks sem er ekki nógu sterkir stjórnmálamenn.

Hlutur Margrétar jafn absúrd og hann var síðast. Ef að líkum lætur mun hún spila með og fá að launum sama díl og síðast. Þægilegan og ylvolgann stól einhversstaðar. Hún hefur ítrekað hagað seglum eftir vindi og gerir það hér líka.

Nú er Birni Inga ekkert að vanbúnaði að yfirgefa borgina og taka slaginn við Guðna. Hlálegt að Guðni skuli vera búinn að eyða öllum deginum að lýsa stuðningi við Björn Inga!

Trúnaðarbrestur og svik eru að verða daglegt brauð í þessari aumu borgarstjórn. Spái því að nú verði nánast orðrétt sama tuðið í hinum kokkáluðu og var síðast.

Röggi.

Svekktur og þreyttur Alfreð.

Þá erum við komin í milliriðil á EM á handbolta. Fyrsta markmiðinu náð en samt eru óverðský yfir liðinu. Hin stóru markmið hópsins virðast svo fjarri. Þau eru það vissulega, ekki bara stærðfræðilega heldur líka handboltalega.

Þessi ferð virðist ekki veita neina gleði. Flestir einblína á það sem ekki er að virka og mikið talað um neikvæða þætti. Þar fer þjálfarinn fremstur og hann virðist alveg laus við bjartsýnina sem fékk hann til að stefna raunhæft á verðlaun.

Nú rennur skyndilega upp fyrir honum að lykilmenn liðsins eru ekki í leikformi. Menn eru staðir og spila ekki kerfin. Logi Geirsson kann þau ekki segir hann eða hreinlega vill ekki spila þau. Þá er að setja hann á bekkinn eða út í horn eins og vinnuveitendur hans gera því þar reynir fer minna fyrir þessum eðlisgöllum hans.

Mér finnst eins og Alfreð líði llla með þetta lið núna. Virðist fúll og laus við baráttu. Ég veit vel að ekki er á vísan að róa hjá þjálfurum. Hann getur lítið að því gert að stór hluti hópsins er ekki í nógu góðu ástandi. Þar er hann óheppinn. En uppgjafartónninn er samt of mikill.

Nú er um að gera að hann bretti upp ermar og berji sínum baráttu í brjóst. Tali kannski af og til um það sem er að virka. Við erum oft skratti seigir þegar á móti blæs. Ef við getum unnir Frakkland með 8 mörkum í fyrra þá er varla við öðru að búast en að þeir geti eitthvað svipað. Þetta er enginn heimsendir.

Grautfúllt reyndar. Og það er kannski að hluta til vegna þess að þjálfarinn sjálfur talaði upp miklar væntingar fyrir mót. Við lékum úrslitaleikinn í fyrst leik. Og svekkelsi hans er öllum augljóst.

það veldur mér vonbrigðum. Nú má ekki gefast upp enda hljóta keppnismenn að spyrna sér frá veggnum. Kannski dugar það ekki að þessu sinni en þá er það bara þannig. En við hljótum að reyna að þá gæti verið sniðugt að reyna að hafa pínu gleði í þessu og hætta að væla.

Vælið hefur aldrei skilað okkur neinu.

Röggi.

Framsóknarblús.

Ég er bara ekki einn af þem sem trúir á tilviljanir. Ég trúi því til að mynda alveg að Guðjón Ólafur sé óhress með að vera ekki lengur þingmaður og honum leiðist að sjá fyrrum vin sinn Björn Inga komast til sífellt aukinna metoðra rétt á meðan.

Einnig trúi ég því að Ólafur hafi áhyggjur af því að Björn Ingi muni velta formanni sínum af stalli við næsta hentugleika. kannski er það þess vegna sem hann sest niður við bréfaskriftir. Formannsslagurinn er hafinn og hann af skítugri gerðinni ef eitthvað er að marka byrjuninna.

Ég tilheyri reyndar ekki þeim hópi manna sem telur að átök um formannsstólinn sé óeðlilegri í framsókn er annarsstaðar. Veit ekki betur en að aðrir flokkar hér hafi verið sárir, og sumir mjög sárir lengi, eftir átök um formanninn.

það sem er sérstakt núna er að flokkurinn er í þannig ástandi að ekki er víst að hann lifi stórátök af og sér í lagi ef þau ætla nú að vera skítug mjög.

Svoleiðis stríðsrekstur mun einungis verða vatn á millu Valgerðar og Syfjar sem gætu endað með pálmann í höndunum á meðan drengirnir berast á banaspjótum.

Röggi.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Horft yfir Slóvaka.

Sá því miður ekki leikinn í kvöld. Var í öðru. Hef því ekki skoðun á honum þannig séð. Hitt finnst mér ekki ólíklegt að sú áætlun þjálfarans að spenna væntingar og kröfur upp og setja mikinn þrýsting á þennan leik hafi kannski komið honum í bobba.

Mér finnst stundum vafasamt í móti eins og þessu að gera úrslitaleik úr fyrsta leiknum. það er líf eftir hann en kannski líður öllum núna eins og allt sé fyrir bí. Fall getur vissulega orðið fararheill.

Svo er annað. Í síðasta stórmóti gerðum við þau mistök á horfa hreinlega yfir Úkraínu. Aldrei var talað um þá eins og alvöru andstæðing. Enda fór það svo að þeir tóku okkur en við redduðum svo lífinu með afreki gegn Frökkum.

Við förum nákvæmlega eins í þetta mót. Slóvakía hefur aldrei komist á dagskrá. Kannski hefði verið betra að setja sér það einfalda markmið í upphafi að vinna þá. Sá einhvern spá því að annað hvort ynnum við þrjá leiki eða töpuðum þremur.

Það held ég ekki eða vona allavega ekki en mér finnst upplegg þjálfarans bjóða uppá akkúrat þannig mót. Allt eða ekkert og það fellur frekar en allt á fyrsta leik.

Við erum oft bestir með bakið uppað veggnum og vonandi hristum við þetta af okkur. En er von sama hvað hver segir. Íþróttir eru sem betur fer ekki raunvísindi og því getur allt gerst.

Andlegur undirbúningur og spennustjórnun eru vanmetnir þættir. Mér finnst ekki gott að byggja upp hræðslu. Mig grunar að það hafi gerst.

Vona samt ekki og hef fulla trú á mínum mönnum.

Áfram Ísland.

Röggi.

Klám og handbolti.is

Stórmerkilegt viðtal við stjórnarmann HSÍ á sem heldur úti handbolti.is. Hann hefur fullkomlega eðlilega verið sakaður um að vera klámfenginn í viðtölum við ungt handboltafólk.

Þetta framferði ver hann með því að það séu hvort sem er allir farnir að sofa hjá 14 ára. Get með engu móti séð hvernig það réttlætir að taka klámfengin viðtöl við stúlkurnar í landsliðinu þar sem flest snýst um tala um kynlíf þeirra þótt þær vilji augljóslega ekki ræða það við þennan mann.

Klikkir svo út með því að til þess að ná vinsældum geti þetta verið hagnýtt. Þetta sé mest lesið. Skil hvorki upp né niður í viðtalinu við manninn.

Veit HSÍ af þessu?

Viðtalið er á visi.is

Röggi.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Embættisfærslur.

Óhætt að segja að smjattað sé á embættisveitingu Árna Matt. Enda orkar gjörningurinn verulega tvímælis svo ekki sé meira sagt. Ekki hjálpar heldur til að Árni er ekki alveg öflugasti málafylgjumaður veraldar. Miklu líkari vélrænum opinberum embættismanni en heillandi stjórnmálamanni.kannski ómótstæðilegir persónutöfrar Össurar valdi því að hans verk sleppa betur þó einungis virðist stigsmunur en ekki eðlis þar á.Heilög vandlæting þeirra stjórnmálamanna sem ekki eru við kjötkatlana þessi misserin er nánast brosleg. Siv í kvöld og Björn Ingi daglega og hvað þeir heita nú allir, Lúðvik að sjálfsögðu.Þetta fólk þekkir það býsna vel sjálft að vera í þeirri stöðu að hafa þurft að þola gangrýni á embættisveitingar sínar eða síns flokks. Eðli stjórnmálanna hefur ekkert breyst ekki frekar en eðli mannskepnunnar. Tilhneigingin til þess að troða sínu fólki hingað og þangað um stjórnkerfið er ekki fundin upp af Árna.Enda eru þeir ekki til stjórnmálamennirnir sem eru að stinga uppá því að taka möguleikann af þessu fólki. Breyta kerfinu. Það er ekki tilgangurinn með látunum heldur miklu frekar að koma höggi á andstæðinginn svona rétt á meðan þeir eru ekki sjálfir að sukka.Ráðherrar eru framkvæmdavald og eiga ekki að skipa dómara. Höfum kerfið eins og það á að vera. það yrði góð byrjun.Er alls ekki að leggja blessun mína yfir það sem Össur og Árni eru að dunda sér við þessa dagana. Bendi bara á að þeir geta gert þetta og hafa til þess tækin. Því þarf að breyta því ekki efast ég eitt augnblik um það að næst þegar þeir sem gagnrýna mest núna komast að þá byrjar sama ballið á ný.Bara með nýrri hlutverkaskipan.Röggi.

mánudagur, 14. janúar 2008

Baugur ygglir sig.

Auðvitað hlýtur það að vera næst hjá Baugi að taka yfir lífeyrissjóðina. Fátt annað eftir þannig séð. Af hverju þarf Baugur að hafa skoðun á því í hvaða fyrirtækjum lífeyrissjóður verslunarmanna ákveður að fjárfesta til þess að ávaxta pundið?

Viðurkenni að ég skil ekki nákvæmlega hver aðkoma Baugs er að lífeyrissjóði verslunarmanna annar en að skila þangað iðgjöldum starfsmannna sinna. Gott væri ef einhver nákominn útskýrði fyrir mér af hverju þeir þurfa að hafa skoðun á starfseminni. Ég hélt að þetta væri lífeyrissjóður starfsfólks Baugs en ekki eigendanna.

Finnst eins og ég hafi áður fundið fyrir þessum einkennum Baugsveldisins. Þeir ætla sér í krafti stærðar sinnar að nauðga mönnum til hlýðni. Annað hvort fjárfestið þið í okkar fyrirtækjum eða við stofnum eigin lífeyrissjóð okkar starfsfólk.

Og sjá sjóður myndi að sjálfsögðu ekki klikka á því að fjárfesta í okkur. Með peningum stafrsfólksins okkar.

Heimurinn er ekki nógu stór fyrir þetta fyrirtæki.

Röggi.

föstudagur, 11. janúar 2008

Kjarkleysi Dags.

Það er ekki öllum gefið að vera leiðtogar. Menn geta vissulega endað í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að veljast leiðtogar. Alþekkt er sú staðeynd að menn veljast fyrirliðar liða sinna án þess að hafa snefil af leiðtogahæfni eða virðingu.

Menn þurfa að hafa ákveðna eðlisþætti til þess að verða leiðtogar. Engu skiptir þótt menn fái fyrirliðaband á upphandlegg ef leiðtogahæfileikarnir eru ekki til staðar.

Leiðtogar þurfa að geta sameinað og styrkt hópinn. Tekið á málum þegar eitthvað bjátar á eða er ekki að ganga upp. Þeir þurfa að vera pepparar, ekki síst þegar á móti blæs. Þeir þora að standa uppúr og taka á erfiðum málum. Eru fyrirmyndir og alltaf sterkir karakterar. Þeir eru stöðugir og standa á sínu. Segja sína meiningu þó hún geti stungið um stundarsakir. Njóta virðingar fyrir það.

Þessi vísindi eiga ekki alltaf við í pólitík. þar gilda önnur lögmál, stundum. Allskyns sukk og makk ræður þar oft hver verður fyrirliði. Ytra byrðið skiptir þá oft meira máli en annað. Ímyndarsérfræðingar hálaunaðir gera kraftaverk. Almenningsálitið er undarlegt fyrirbrigði. Og fjölmiðlar hafa allt að segja.

Djarfir stjórnmálamenn sem þora eru á undanhaldi. Samræðupólitíkin fletur alla út. Nú segja fæstir sína meiningu. Betra að segja það sem hljómar betur og skilar meiru, í vinsældum, um stundarsakir hið minnsta.

Það er úr þessum jarðvegi sem Dagur borgarstjóri sprettur. Áferðafallegur er besta lýsingin. Ætti að hafa flest að bera til þess að vera leiðtogi. Greindur klárlega og vel menntaður.

En hann er kjarklaus. Barnalegur í trúnni um að allir geti verið ánægðir alltaf. Skiptir ótt og títt um skoðanir allt eftir því hvernig hann upplifir vindinn hverju sinni. Reynir almennt að segja það sem hann heldur að viðmælendur hans vilji heyra.

Húsafriðunarmálið er klassískt dæmi um þetta. Litli háværi hópurinn sem náði að fanga athygli fjölmiðla var óþægilegur. Þá var öll sannfæring á bak og burt. Allir samningar og sanngirni gagnvart eigendum léttvæg fundin. Pólitískur rolugangur í sinni skýrustu mynd. Og hann mun kosta skattborgara hundruðir milljóna ef menntamálaráðherra tekur ekki að sér að sýna manndóminn sem borgarstjóri átta að hafa fyrir hann.

Sem er að standa á sannfæringu sinni. Hann er að sönnu fyrirliði hann Dagur. En eitthvað vantar enn uppá að hann sé leiðtogi.

Til þess skortir hann kjarkinn.

Röggi.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Enski frekar en spænski takk.

Sit hérna og horfi á fótbolta með fartölvuna í fanginu. Getur það orðið mikið betra? Þetta er dýrari týpan. var að ljúka við Arsenal - Tottenham og þá brestur á með Sevilla - Barcelona, reyndar án Eiðs Smára.

Sko. Enski boltinn er auðvitað skemmtilegasti boltinn. þar er hraðinn mestur og aldrei slegið af. Menn upp til hópa heiðarlegir og gefa sig alla í þetta. Bara gaman. Í leiknum í kvöld þurfti dómarinn lítið að skipta sér af. Allir í bolta.

Spænski boltinn er öðruvísi. Þar eru frábærir hæfileikamenn í hverri stöðu. Stórstjörnur og prímadonnur sem fá aukaspyrnur að jafnaði í hvert einasta skipti sem þeir henda sér í grasið. Sem gerist eiginlega alltaf þegar þessir smjörgreiddu milljónamæringar finna fyrir snertingu mótherjans.

Evrópumetið í leikaraskap margbætt í hverjum leik. Fair play ekki endilega aðal málið.

Röggi.

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Læknalausir neyðarbílar.

Ég veit vel að í mörg horn er að líta þegar kemur að útgjöldum í heilbrigðisgeiranum. Ekki er hægt að gera nóg og víst er að hægt er að nýta peninga betur en nú er gert. Stórar upphæðir venjulega til umræðu þegar fjallað er um heilbrigðiskerfið. Sparnaður heyrist oft.

Nýjasti sparnaðurinn sem ég tek eftir er að hætta að hafa lækna á neyðarbílnum. Auðvitað er erfitt að segja að einn þátturinn í þjónustu við sjúka og slasaða sé öðrum mikilvægari. Fólk kvartar undan því að fá ekki lyf vegna fjárskorts og aðrir liggja á göngum. Og margt fleira...

En hver ætli sé sparnaðurinn af þessu? Og hversu mikils virði er að hafa lækna í bílnum þegar mínútur og sekúndur skipta máli. Spurning hvort eitthvert tryggingarfyrirtækið er ekki tilbúið að splæsa þessu á okkur. Eða jafnvel að taka bara alveg að sér að reka neyðarbíla.

Hvaða menntun hafa þeir sem aka bílunum? Eru þeir með próf í hjálp í viðlögum eða kannski skyndihjálp? Geta þeir góðu menn bjargað mannslífum? Eru þeir færir um að svæfa stórslasað fólk á leið af slysstað? Hvert er þeirra starfssvið?

Margar spurningar en mig langar í svör.

Röggi.

Rökefasemdir.

Auðvitað getur maður ekki alltaf verið sáttur við allt sem mínir menn gera, alltso sjálfstæðismenn. Og reyndar er það svo að ég er mest óánægður þegar mínir menn rugla.

Hvað getur sæmilega viti borinn maður sagt um rökstuðning Árna fjármála vegna ráðningarinnar frægu? Hvernig lenti hann í þeirri aðstöðu að taka þetta að sér? Hvað gerði hann af sér sem orsakaði svona grimmilega refsingu?

Ekki dettur mér í hug eitt einasta augnablik að hann hafi haft neitt um það að segja hver var ráðinn. Og litlu betur lítur sukkið út hjá félaga Össur þótt fjölmiðlar hafi eitthvað minni áhuga á því.

Vonandi eru fleiri samflokksmenn mínir hneykslaðir á þessu því annars breytist ekkert. Við kjósendur erum að vissu leyti samsek því við fáumst helst ekki til þess að gagnrýna okkar eigin.

það á líka við um steinþegjandi samfylkingarfólk sem þó hefur haft skoðanir á embættisfærslu Árna en ekki Össurar.

Röggi.

Stríðinn moggi.

Gaman að sjá hvað mogginn er stríðinn orðinn. Nú birtir Styrmir fína litmynd af húsum sem milljónamæringur vill endurgera. Þetta er stórfrétt sem smellt er á forsíðu.

Svo skemmtilega vill til að þessi hús eru á laugavegi 4-6. Þetta dregur væntanlega ekki úr forseta borgarstjórnar eða Svandísi. Að ég tali nú ekki um borgarstjórann tvístígandi. Hvað á nú til bragðs að taka?

Röggi.

Björn Ingi og neikvæðnin.

Ég hef lengi haft nokkra trú á því að Björn Ingi eigi bjarta framtíð í pólitík. Finnst ekki útilokað að hann sé maðurinn sem geti snúið hlutum við í framsókn. Hann virðist reyndar hræða gamla kjarnann allverulega og það gæti tafið fyrir.

Öfugt við marga þá legg ég ekki mikinn trúnað á spillingartalið um hann. Trúi samt vel að hann sé metnaðargjarn og geti verið harðskeyttur en bendi um leið á að það eru helst þannig menn, og konur, sem komast til valda og duga. Þeir sem fyrir eru á fleti munu alltaf kvarta undan þeim sem þangað sækja.

Hann virkar einlægur á mig og brosið risastórt þó hann fari full sparlega með það nú um stundir. Talar mannamál og það er sannarlega tilbreyting. Um kjarkinn þarf ekki að fjölyrða og stöðumatið finnst mér líka yfirleitt hans styrkur.

Frá mínum bæjardyrum séð gat hann fátt annað gert en að taka mark á því sem virtist vera í pípunum hjá sexmenningunum í borginni þegar hann sleit meirihlutanum. Íllskárra að vera með þessum nýja meirihluta en úti í kuldanum. Þó er greinilegt að hann er ekki að finna sig núna enda REI málið dáið og grafið eins og við mátti búast af Svandísi og félögum.

Mér finnst augljóst að framsóknarmenn hvort heldur er á landsvísu eða í borginni eru í stanslausum eltingarleik við sjálfstæðisflokkinn, óþreytandi. Ég get verið sammála ýmsu í samsæriskenningum framsóknarmanna en velti því fyrir mér hvaða hagsmunir eru fyrir þá að tala nánast eingöngu um innanflokksmál sjálfstæðismanna.

Flestir gera sér grein fyrir því að í borginni skoruðu mínir menn sjálfsmark og að á landsvísu var ekki hægt að halda áfram samstarfinu. Samt er haldið áfram að tuða um vonsku sjálfstæðisflokksins. Og þó sýnist mér framsóknarmenn þrái það heitt og innilega að komast aftur í sömu sæng og áður. Á báðum vígstöðvum.

Framtíðargæfa framsóknar er ekki í höndum sjálfstæðisflokkssins. Nú finnst mér að þeir ættu að horfa frekar innávið þó að það sé pínu sársaukafullt núna og verði jafnvel enn erfiðara þegar fram í sækir og Björn Ingi fer að feta sig nær formannsstólnum. Þetta tal kannski þjappar mönnum eutthvað saman tímabundið en er þó skammgóður vermir. Naflaskoðunin er ekki umflúin.

Ég held að langtíma skotgrafahernaður og neikvæðni muni ekki skila sér fyrir framsókn. Miklu frekar jákvæðni og uppbyggilegur málflutingur. Engu máli skiptir hversu oft bent er á vonsku hinna. Ef þú hefur fátt annað fram að færa fá kjósendur leið og undirmeðvitundin getur ekki framkallað neitt jákvætt þegar flokkinn ber á góma.

það er nú það.

Röggi.

mánudagur, 7. janúar 2008

Held með John McCain.

Ég er fráleitt sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum. Þekking mín nánast yfirborðskennd en það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að ég hafi skoðun. Eins og svo margir aðrir sem þykjast sérfróðir en eru í raun og veru bara sérfróðir í íslenskri afdalapólitík sem er svo heimfærð upp á bandaríkin. Og samanburðurinn talinn okkur í hag!

Mér hefur alltaf þótt töluvert til John McCain koma. Virkar eðlilegur og talar mannamál. Lætur eftir sér að efast stundum um eigið ágæti og flokks. Virkar vel á mig. Held með honum.

Kannski birtist einhver og segir hann skíthæl. Ég hef freistast til þess að halda að annað hvort sé hann ekki nógu mikill skíthæll til að verða frambjóðandi repúblikana eða þá of blankur.

Nema hvort tveggja sé. Allt að einu, ég held með honum.

Röggi.

Vingull dagsins.

Ég held að Dagur B Eggertsson sé haldinn valkvíða. Hann forðast að taka áhættur og virðist hræddur við óvinsældir. Þetta þrennt er sennilega það versta sem getur hrjáð stjórnmálamann.

En hann er að mörgu leyti nokkuð hentugur pólitíkus. Ásjálegur og ímyndin skotheld. Getur malað endalaust út í eitt um flesta hluti. Einfaldir hlutir verða í hans munni flóknir og mikilvægir og mörgum finnst hann hafa ógurlegt vit á öllu. Hann hefur svo margt að segja.

Mér finnst ekki endilega galli að menn hafi þor til þess að skipta um skoðanir. Hafi menn sannfæringu fyrir skoðanaskiptunum. Dagur skiptir oft um skoðun. Og þá yfirleitt þegar hann finnur fyrir hitanum af mótmælum og andófi. Þá gildir einu að hann hafi haldið innblásnar ræður til stuðnings eigin ákvörðunum. Gott dæmi var hvernig hann umpólaðist í afstöðunni til gatnaframkvæmdanna sem hann stóð fyrir í vatnsmýrinni.

Þá reis fólkið í 101 upp og andæfði enda trúir það fólk því að miðbær Reykjavíkur sé helst og bara fyrir þá sem geta farið fótgangandi um eða hjólandi.

Og núna er hann kominn í vandræði á ný hann Dagur okkar. Vegna húsanna við laugaveg sem eiga að hverfa þaðan. R listinn ákvað sjálfur að þau skyldu burt enda engin bæjarprýði. Fyrrverandi meirihluti hafði sömu skoðun og því var unnið áfram að málinu. Allar stofnanir sem nöfnum tjáir að nefna hafa ályktað á einn veg. Málið liggur fyrir.

En þá gerist það. Torfu samtökin rísa upp. Og hafa hátt og fá athygli fjölmiðla eins og von er. Og það er eins og við manninn mælt. Dagur vinglast allur til í málinu. Veit bara ekkert hvað til bragðs á að taka. Eins og áður trúir hann því að hægt sé að gera öllum til hæfis. Og talar mikið um lítið.

Stjórnmálamenn verða að þora að hafa vindinn í fangið. það vefst fyrir Degi.

Röggi.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Jón og séra Jón.

Auðvitað skiptir ekki nokkru hver á fjölmiðla. Jón Ásgeir reiddist starfsmönnum sínum af því að þeir birtu frétt um ferðalög hans og lúxuslifnað þeirra hjóna. Og það var eins og við manninn mælt.

Ritstjóri visir.is sem alla jafna er glerharður og með munninn fyrir neðan nefið bráðnaði og setti nýtt met. Aldrei áður hefur leiðrétting birst með jafn miklum hraði, og það tvívegis.

Og hver var svo glæpur ritstjórans? Jú vélin kostaði ekki einn og hálfan milljarð heldur bara einn. Hún var ekki í eigu Jóns Ásgeirs heldur fyrirtækis sem hann á sjálfur með auglýsingu frá konunni hans og upphafstöfum Jóns. Kunnuglegt stef.

Ekki spurning að alveg er sama Jón og séra Jón. Eigandi og ekki eigandi. Mér finnst þetta nánast broslegt en þó varla...

Röggi.

laugardagur, 5. janúar 2008

Sami rassinn undir þeim...

Það er ekki laust við að eitthvað sé minna loftið í mörgum vinstri manninum núna þegar kemur að því að félagi Össur liggur undir ámæli vegna þess hvernig hann fer með ráðningar.

Hér sannast það sem ég hef of sagt. það er enginn munur á mönnum í þessu tilliti. Kannski finnst fólki heldur minna atriði hver verður orkumálastjóri en dómari en prinsippin eru þau sömu.

Það virðist sem eðli stjórnmála sé einfaldega þannig að flokksmönnum er troðið kerfisbundið út um alla stjórnsýsluna og gildir einu hvaða flokkar eiga í hlut. Helsti munurinn nú er að metnaðarlausir blaðamenn og pólitískir virðast ætla að láta Össur sleppa öllu auðveldar frá sínu en Björn. Hvað ætli ritstjórar DV skrifi margar greinar um þessi nýjustu embættisverk Össurar?

Eitthvað er þetta kerfi okkar ekki að gera sig. Til hvers er verið að fá nefndir fagmanna til þess að gefa álit sitt fyrirfram? Svoleiðis hefur ekkert vægi ef einhver gæðingurinn er næstur í röðinni.

Nú taka menn sér nokkra daga í að birta rökstuðning fyrir ákvörðun sem er löngu tekin. Hvurslags stjórnsýsla er það eiginlega. Ef rökstuðningurinn var til þá er ekkert að vanbúnaði.

Við erum eiginlega höfð að fíflum í þessa ítrekað. Niðurstaða mín verður ávallt sú sama. Hættum að treysta á sanngirni og heiðarleika manna. Breytum kerfinu svo mis misheppnaðir stjórnmálamenn komist ekki í það að sukka.

Drögum úr völdum þessara manna og reynum að temja okkur þann sið sem aðrar þjóðir hafa gert fyrir margt löngu og það er að láta fólk axla ábyrgð.

Sama hvar í flokki það stendur.

Röggi.

Pólitík á Bessastaði.

Hún er næsta taumlaus gleði vinstri manna yfir því að frambjóðandi þeirra, Ólafur Ragnar, ætli að sækjast eftir því að sitja lengur á Bessastöðum. Ólafur hefur aldrei verið minn maður þó hann hafi að mestu komist vel frá sínu. Afskipti hans af pólitík í embætti eru þó að mínu mati vanhugsuð.

Af ýmsum ástæðum. Mér finnst ekki eðlilegt að maður sem var jafn umdeildur og hann var pólitískt bæði af samherjum sem andstæðingum taki það upp á sína arma að breyta eðli embættisins bara sísona. Gera það pólitískara en áður. Þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að hugsa um þessi mál út frá embættinu en ekki bara steingeldri og gamaldags flokkapólitík geta sett Davíð Oddsson í hlutverk Ólafs og sjá þá kannski ljósið í rökræðunni.

Mér finnst ekki endilega útilokað að eðli embættisins geti og megi breytast. En þá að undangengnum umræðum um það. Forsetinn okkar hefur ekkert pólitískt umboð til eins eða neins. Sama hver hann er. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að viðkomandi nefni það í aðdraganda kosninga hverju sinni hvort og þá hvernig standi til að breyta áherslum og nálgunum. Annað er virðingarleysi fyrir sögunni og embættinu.

Þannig og aðeins þannig á það að gerast. Fagurgali manna um að forsetinn okkar skuli vera sameiningartákn þjóðarinnar er hjóm skoðað í þessu ljósi. Ég er ekki viss um að meginþorri þjóðarinnar vilji gera þetta að pólitísku embætti. Stórefast reyndar.

Veður geta skjótt skipast í lofti hér og glerharður hægri maður komist í embættið og þá heyrist væntanlega hljóð úr vinstra horninu haldi áfram sem nú horfir. Og kannski vex þeim á endanum mest fiskur um hrygg sem vilja bara leggja þetta niður.

Finnst ekki útilokað að vinstri mönnum takist jafnvel að fá öflugt hægri framboð gegn sínum manni. það er kannski það sem menn vilja gera með sameiningartáknið. Það væri breyting vissulega því ekki er hefð fyrir alvöruslag og vonandi fyrirgefst mér að líta ekki á framboð Ástþórs sem alvöru.

Höldum í hefðirnar þegar kemur að þessu embætti og reynum okkar besta að menga það ekki af skítugri pólitík. það geta engir menn sameinað þjóðina um neina pólitík.

Röggi.

Ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn.

Ég hef mjög lengi átt bágt með að skilja af hverju við tökum ekki kaflann um þrískiptingu valds í stjórnarskránni alvarlega. Það er varla að nokkur maður hafi nefnt þetta að neinu gangi frá því Vilmundur gerði það forðum. Hann á enn talsvert í mér blessaður.

Jú framsóknarmenn voru að nefna þetta lítillega en þá dó málið að sjálfsögðu snarlega. Fáir geta þolað framsókn neitt gott. Spilling heyrðist hrópað hátt. Nútímafjölmiðlafólk annað hvort hefur ekki á huga á svona leiðindum eða nennir ekki. Hlutlaus rannsóknarblaðamennska er ekki stunduð hér nema í mýflugumynd.

Kannski finnst mönnum þetta ekki skipta neinu máli. Sem er í sjálfu sér mögnuð túlkun á stjórnarskránni. Ég nefnilega hélt að þrískipting valds væri upphafið og endirinn. Grundvallaratriði sem flestar siðmenntaðar þjóðir telja sig ekki geta gefið afslátt af. Hér liggur þetta á milli hluta.

Ég held að þetta skipti höfuðmáli. Það er lykilatriði að valdið sér þrískipt. Það þýðir einfaldega að ráðherrar eru ekki þingmenn. Kannski væri við hæfi að spyrja, hvað réttlætir það að ráðherrar hér séu þingmenn? Er það góð stjórnsýsla að menn sitji við það fyrir hádegi að semja leikreglur sem þessir sömu menn fara svo að vinna eftir síðdegis? Ég hef heldur enga sannfæringu fyrir því að ráðherra eigi að skipa dómara. Get haldið áfram...

Mér finnst kominn tími til þess að við leggjum afdalamennskuna til hliðar. Hættum að trúa því að allir séu góðir menn þangað til annað sannast. Tökum upp reglurnar sem stjórnarskráin gefur okkur og minnkum líkurnar á því að misvel heppnaðir stjórnmálamenn geti hoppað í holurnar og leikið sér með fjöreggið.

Er ég kannski að misskilja hressilega?

Röggi.

föstudagur, 4. janúar 2008

Skemmtilegur Jón Viðar.

Ég hef áður lýst því að Jón Viðar gangrýnandi finnst mér ljómandi skemmtilegur. Ég sæki leikhús að vísu ferlega stopult en les allt sem karlinn skrifar með bestu lyst. Mér finnast greinar hans matarmiklar. Hann er að sönnu fremur neikvæður oft og þá getur hann orðið verulega kjarnyrtur. Súsanna Svavarsdóttir var í svipuðum vandræðum á sínum tíma. Jónas Sen býr líka við almennt óþol í sinn garð. Þykir leiðinlegur og neikvæður. Samt er það þannig að listamenn taka ekki meira mark á neinum en þessu fólki þegar það er jákvætt. Hvernig má það vera?

Ætla ekki að endurtaka það sem ég hef sagt um Guðjón Pedersen og ákvörðun hans um bannfæringu Jóns. Vitlausara getur það varla orðið. Mæli eindregið með því að fólk lesi þessa nýjustu söngva satans og felli sjálft sinn dóm um ákvörðun æðsta prests.

Margir þola Jón Viðar illa. Sérstaklega þeir sem muna eftir honum úr sjónvarpi. Skraufaþurr og húmorslaus þá en í dag litríkur og ruddalega skemmtilegur og fyndinn. Enginn getur efast um faglega þekkingu hans en eins og áður er hægt að þrasa um hvort er fegurra rautt eða blátt.

Hann þorir að hafa skoðanir í þessu pínulitla íslenska listaþorpi. Lætur það meira að segja henda sig að efast um okkar færustu menn. Því eiga þeir auðvitað ekki að venjast en hafa án efa gott af.

Svo þorir hann líka að hrífast og þá er það extra gaman. Endalausar lofrullur þar sem ganrýnendur sitja opinmynntir yfir öllu eru þreytandi og ósannfærandi.

Röggi.

Kristján Möller samkvæmur sjálfum sér.

Nú er hamast á Kristjáni Möller. Af því að hann leyfir sér að reyna að hafa þá skoðun að að göng úti á landsbyggðinni skipti meira máli en sundabraut.Kemur þetta á óvart spyr ég. Hann er hér samkvæmur sjálfum sér og engin ástæða til þess að skammast yfir því. Hann hefur oft haldið því fram að þeir sem vilja setja vegaframkvæmdir á höfðuborgarsvæðinu í forgang hafi sérstaka andúð á landsbyggðinni.Landsbyggðahroki hans hefur ekki farið leynt. Veit reyndar ekkert hvort sá hroki er verri en höfðuborgarhrokinn sem landsbyggðin talar stundum um. Mér hefur Kristján alltaf hafa haft á sér gamaldags fyrirgreiðslu stimpil og það hefur ekki hrifið mig.Kannski þótti samfylkingunni sniðugt að stinga upp í kallinn með því að gera hann að samgönguráðherra. Það er þekkt aðferð og viðurkennd. En engin regla er án undantekninga og kannski sannast það hér.því Kristján stendur undir nafni og er samkvæmur sjálfum sér. það er lofsvert í sjálfu sér þó ég voni að góðir menn geti undið ofan af honum í þessu máli.

Röggi.

fimmtudagur, 3. janúar 2008

Hvað kom fyrir leikhússtjórann?

Hvað hefur komið fyrir leikhússtjóra leikfélags Reykjavíkur? Hvernig dettur honum í hug að taka gangrýnanda af boðsgestalista þó honum mislíki gagnrýnin? Þetta er ekki ein af hans sterkari ákvörðunum.

Hann segist ekki líða dónaskap í sínum húsum. Þetta finnst mér verulega hrokafullt. Jón Viðar stendur bara og fellur með sínum skrifum. Það er ekkert nýtt. Leikhússtjórinn leggur sig fram um að skilja ekki myndlíkingar sem Jón Viðar notar. Og reiðist kannski vegna þess að gangrýnandinn fagnar starfslokum hans. Er bannað að fagna þeim?

Skil hvorki upp né niður. Mér finnst þetta aumt hjá Guðjóni og óþarfa viðkvæmni. Hvað er næst? Á ég kannski á hættu að verða bannfærður fyrir þessi skrif?

Röggi.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Siðlaus þjóð.

Við erum enn kotbændur á mörgum sviðum. Okkur leiðast reglur. Grundvallaratriði og prinsipp stundum við helst ekki. Í stað þess að hafa eina reglu sem gildir jafnt um alla alltaf og allsstaðar þá tökum við afstöðu frá einu atviki til annars.

Þá koma við sögu hlutir eins og hvort einhver kunni hugsanlega að hafa verið óheppinn. Og hvort viðkomandi sé góður aðili eða almennt ekki talinn góður. Hvort hér sé um stóra hluti eða smáa að ræða. Gallar þannig fyrirkomulags er miklir og hætta á að ekki gildi jafnt um alla. Gagnsæið verður ekkert og slúður og sögusagnir fá líf.

það er í þessu ástandi sem stjórnmálamenn og aðrir reyndar líka komast upp með að þurfa ekki að axla ábyrgð. Sínkt og heilagt er hægt að benda á afbrigði og undantekningar. Dæmin eru fyrir framan okkur nær daglega og flest gerum við okkur sek um að taka þátt í þessu. Við verjum óverjandi hluti hjá stjórnmálamönnum bara ef þeir eru í okkar liði. Skammtíma hagsmunir taka langtíma hagsmunum fram.

Það er afleitt. Ekki gengur endalaust að skammast út í þetta ef við hvert og eitt höfum ekki sjálf siðferðislegan styrk. Þeir sem ekki krefjast siðferðis eru ekki líklegir til að búa við það. Því miður lýgur sagan engu í þessu.

Nú gerist það að stjórnmálamenn og stofnanir eru að fá gjafir frá aðilum sem eiga ekkert með að bera gjafir á þetta fólk. Margir hneykslast en ég hygg því miður að þeir séu líka margir sem munu verja þessa ósvinnu.

Þetta sé nú smáræði sem engu máli skipti fyrir fólk sem á nóg af aurum. Þarna sé bara góður hugur á bak við og fleira í þá áttina. Af hverju gerum við ekki eins og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og krefjumst þess að þetta breytist? Á meðan við gerum það ekki þá er svona nokkuð rétt mátulegt á okkur.

Rauðvínsgjafir til ráðherra var lítillega til umræðu í silfrinu nú síðast. Össur og Þorgerður voru þar og þetta þótti í besta falli tilefni til spaugs. Gott ef Össur tuðaði ekki yfir því að hafa ekki fengið kassa. Einungis fulltrúi vinstri grænna leit málið alvarlegum augum. það var sorglegt en kom ekki á óvart.

Til þess að þetta breytist verðum við að hætta að verja ruglið þó það komi frá okkar fólki. Stórt eða smátt, góðir menn eða minna góðir skiptir bara engu.

Einhversstaðar verðum við að byrja. Er þessi tími verri en annar?

Röggi.