fimmtudagur, 30. september 2010

Að standa í lappir

Sjálfstæðisflokkurinn stóð sem betur fer í lappirnar í atkvæðagreiðslunni á þriðjudag. Þar héldu menn sig við grundvallarniðurstöðu í málinu áháð því hvort flokksmenn áttu hlut að máli eður ei. Samfylkingarfólk sumt telur að þarna hafi flokksagi ráðið og þingmenn ekki kosið eftir sinni sannfæringu. Kannski það...

Ég held þó ekki. Það var og er samfella í málflutningi Sjálfstæðismanna í málinu frá upphafi til enda. Menn settu sig upp á móti landsdómi og kynntu það málefnalega og án skætings. Þessu var öðruvísi farið með Samfylkinguna.

Þar höfðu þingmenn skoðun eftir því hver átti í hlut og bættu svo um betur þegar niðurstaðan lá fyrir og sögðu landsdóm ónýta aðferð! Þetta er ólýsanlega vitlaus málflutningur hjá annars óvitlaus fólki en sýnir hvað pólitík getur leikið suma grátt.

Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó Mörður og Ólína eða hvað þau heita sem breyttu svona reyni að spinna sig út þessari glórulausu stöðu. Og það sem meira er...

...ég held að enginn reyni að koma þeim til hjálpar á undanhaldinu. Flóttanum undan eigin klúðri.

Röggi

miðvikudagur, 29. september 2010

Uppgjöri klúðrað

það hefur verið óhemju áhugavert að sjá og heyra þingmenn Samfylkingar reyna að selja hugmyndafræðina á bak við atkvæðin sín í gær. Önnur eins afhjúpun hefur ekki sést í sögunni og er þó af ýmsu að taka.

Skúli Helgason vill líklegast bara leggja landsdóm niður en þó ekki fyrr en hann hefur sent einn mann þangað áður. Hvernig verður þetta toppað? Liðið sem sendi Geir fyrir landsdóm er nú það alharðasta í því að það fyrirbrigði sé ónýtt...

Pólitísk fötlun og vandræðaástand á klíku núverandi og fyrrverandi formanns flokksins voru sett öllu öðru ofar. það átti að "róa" þjóðina eins og leiðtoginn orðaði það en þó bara þannig að hinir yrði ákærðir. Reynsluleysi og skammtímahugsun réði aðgerðum og nú er of seint í rassinn gripið og verður afar skemmtilegt að fylgjast með spunanum sem hreinlega hlýtur að fara í gang svo lýðurinn gleymi þessu máli.

það mun ekki duga því margir trúðu því í raun og veru að Samfylkingin meinti það sem hún segir. Það fólk er nú orðlaust og þögult. Það fólk finnur að núna var of langt gengið og að málsstaðurinn sem átti að vera uppgjör við hrunið hefur beðið mikinn skaða.

Röggi

þriðjudagur, 28. september 2010

Afleikur Samfylkingar

Það var augljóst frá upphafi að alþingi myndi ekki geta unnið í landsdómsmálinu af neinni reisn hvorki pólitískri né persónulegri. Nú eftir atkvæðagreiðsluna er dauðaþögn. Góður maður og reyndur sagði mér að svona myndi þetta fara. Ég hélt í mínum barnaskap að meira að segja Samfylkingin hefði ekki svona aðferðir í vopnabúri sínu.

Ég held hreinlega að ekki nokkur einasti Íslendingur telji að Geir verðskuldi að vera dreginn einn til pólitískrar ábyrgðar með þessum misráðna hætti. Plottið gékk upp hjá spunameisturunum gott fólk. Þetta er væntanlega skilgreint sem sigur á einhverri af klíkum Samfylkingarinnar. OKKAR fólk slapp!!!

En þannig verður þetta því miður ekki. Réttarhöldin yfir Geir verða þannig að mesta athyglin mun fara í að tala um þá sem hefðu þá átt að vera með honum á þessum mjög svo hæpna sakamannabekk.

Sumt af því fólki vélaði um hlutina í dag á löggjafarþinginu og skömm þess verður ævarandi. Samfylkingin hefur tekið margar ákvarðanir undanfarna mánuði sem eingöngu eru teknar til að halda ráðherrastólum. Dagurinn í dag er bara enn einn slíkur dagur...

...nema, að nú held ég að Samfylkingin hafi eiginlega gengið fram af sjálfri sér. Svipurinn á Jóhönnu Sigurðardóttur í kvöldi sagði allt. "Hvernig gat þetta gerst?"

Hvernig gat þetta orðið niðurstaðan? Búsáhaldabyltingin hefur étið börnin sín og skaði Samfylkingarinnar af málinu verður ekki auðbættur.

Röggi

þriðjudagur, 21. september 2010

Tækifæri VG

Hversu mikil þarf pólitísk örvæntingin að vera til þess að Jóhanna Sigurðardóttir taki þá ákvörðun að snúa baki við vikugömlum skoðunum sínum og leggjast á augabragði eins og maðurinn sagði gegn Atla nefndinni og allri hennar vinnu?

Hversu hryllilegt er ástandið innandyra í Samfylkingunni? Helmingurinn sem mætti til að hlýða á Ingibjörgu ræður í dag? Hvað gerir hinn helmingurinn á morgun? Nú þarf ekki lengur að "róa" almenning eins og leiðtoginn sagði hnarreyst í ræðustólnum fyrir viku eða svo. Nú skiptir flokkurinn einn máli. Þar þarf að vera ró hvað sem hún kostar. Ráðherrastólarnir ofar öllu...

Og VG er í þeirri stöðu að geta eignað sér alveg skuldlaust uppgjörið við hrunið. Þrýstingurinn á Steingrím um að slíta þessu handónýta samstarfi hlýtur að vera óbærilegur. Staðan hefur algerlega snúist VG í vil með þessu pólitíska útspili Jóhönnu.

Vandinn er þó sá að Steingrímur hefur týnt öllum pólitískum metnaði og prinsippum öðrum en að hækka skatta og borga Icesave upp í topp. Hann mun án efa reyna allt til að fá Atla Gíslason til að fara heim aftur að mála svo troða megi þessari hneysu ofan í hólkvítt og sístækkandi kokið á VG.

Svar órólegu deildar VG er að slíta samstarfinu og neyða Samfylkingu í kosningar þrátt fyrir bestaflokksóttann. Samfylkingin er ekki í nokkurri stöðu til þessa að ganga til kosninga. Leiðtogi er þar ekki neinn sjáanlegur hvert sem augað eygir og eina baráttumálið ESB á sáralítinn hljómgrunn. VG getur ekki haldið þessu áfram án þess að eiga það á hættu að klofna í herðar niður og tækifærið dettur hér upp í hendurnar á þeim.

Stundin er runnin upp...

Röggi

Skrípaleikurinn

Það fór eins og mig grunaði. Þingið, það er að segja framkvæmdavalds hluti þess, er að heykjast á því að þola þinginu, það er að segja löggjafanum, að senda ráðherra fyrir landsdóm! Leiðtoginn sjálfur sem stýrir öllu í þinginu hefur nú komist að því að nefndin sem hún bjó til var ónýt...

..og þar er ég henni að vísu fullkomlega sammála. Ég fullyrði þó hér að afstaða Jóhönnu Sigurðardóttur til vinnu nefndarinnar hans Atla Gíslasonar snýr eingöngu um það að nefndin hyggst draga Ingibjörgu Sólrúnu fyrir landsdóm.

Ruglandaháttur þessarar ríkisstjórnar hefur frá fyrsta degi verið Íslandsmet í hverju stórmálinu á eftir öðru. Í þessu máli er Jóhönnu að vísu vorkun að nokkru leyti. Útfærslan á hugmyndinni virðist gölluð og vinnuumhverfi nefndarinar þannig að enginn skilur til fullnustu á hvaða forsendum skal ákært.

Og svo gamla sagan. Framkvæmdavaldið mun koma í veg fyrir að "einhverjir" þingmenn eins og Atli Gíslason séu að ákæra ráðherra rétt sí svona. Það er skrípaleikur að að ríghalda í þetta system gott fólk. Engu skiptir hverjir sitja í ráðherrastólum.

Kerfisvillan kemur í veg fyrir að þetta muni nokkru sinni ganga upp. Þingið hefur ekkert sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu. Og það jafnvel þó um sé að ræða nefnd sem framkvæmdavaldið skipaði sjálft til handa löggjafanum!

Hvenær skyldi okkur lærast að sjá það sem augljóst er í þessum efnum?

Röggi

mánudagur, 20. september 2010

Er maðurinn klikk?

Andri Snær Magnason rithöfundur var í kastljósinu áðan. Hann er ekki eins skemmtilegur og mig minnti en greinilega finnst honum hann sjálfur afar skemmtilegur því sjálfsánægja var geggjuð alveg.

Honum finnst skrýtið að vera afgreiddur sem 101 eitthvað eða listaspýra sem hann þó klárlega er en veigrar sér ekki við að kalla þá sem ekki hafa sömu skoðanir og hann klikkaða eða vangefna og gott ef ekki geðveika.

Andri segist hitta menn og koma með tölur og skilur ekkert í því að þeir menn sem stundum eru sérmenntaðir í faginu skuli þá koma sínar eigin tölur. Hvurslags ósvinna er það?? Hann talar flott hann Andri og segist hafa hitt "strákana" á stórum fundum og spurt þá hvort þeir séu vangefnir en þó halda þeir áfram.

Rithöfundurinn bendir á það sem afvega hefur farið og ætlar sér að stöðva alla nýtingu á auðlindum landsins með tilvísan í þannig mál. Hann gleymir því að nú er tekin við ríkisstjórn sem hefur lagt stein í götu framkvæmda sem stundum var búið að heimila og undirbúa og telur þá sem heimildina höfðu stundum vera geðbilaða að hafa farið af stað....

Þeir eru komnir aftur til byggða bændurnir að mótmæla símanum. Í þetta sinnið í líki sjálfumglaðs rithöfundar. Andri Snær er afturhald nútímans og segir sögur af rússneskri mafíu og vondum mönnum erlendum sem enginn vill vinna með. Stórhættulegt fólk sem hefur búið til stór alþjóðleg fyrirtæki sem ætli sér að eyðileggja landið okkar. Þessu kastar hann fram í kastljósi og kannski telja sumir að þetta sé staðreynd af því að viðmælendurnir geta ekki hrakið fullyrðinguna. Þekkt aðferð sem hefur verið misnotuð af mun verra fólki en Andra Snæ með mælanlegum árangri.

Andri Snær er öfgmaður eins og við höfum stundum séð í kringum veiðarnar okkar. Hann elur á hræðslu sem aldrei hefur verið auðveldara og spilar svo fallega á tilfinningar fólks gagnvart sérfæðingum og opinberum aðilum.

Fólk trúir því að það eigi að virkja ALLT sem mögulega hægt er að virkja og byggja endalaust af álverum og það EITT eigi að bjarga okkur úr vandanum og að vonda fólkið hirði hvorki um hagfræðina í kringum málið né umhverfisþáttinn. Vonda og heimska fólkið. Þetta stef hefur aldrei átt meiri hljómgrunn en nú og skáldið góða rær til sjós....

Og nýtir sér skáldaleyfið til að búa til rússneska mafíu og norræn en þó alþjóðleg glæpafyrirtæki til að krydda söguna.

Er maðurinn klikk??

Röggi

föstudagur, 17. september 2010

Predikarinn Andri Snær

Andri Snær Magnason er svona Gunnar í krossinum. Hann sýður saman gríðarlega skemmtilegan orðgraut og söfnuðurinn hlustar dolfallinn. Predikarinn Andri Snær kann að setja saman frasa og orð. það er víst.

Eins og aðrir predikarar segir Andri Snær það sem söfnuðurinn vill heyra. Það er vissulega stór hópur sem telur iðnað á Íslandi mikinn óþarfa. Virkjanir einnig. Andri Snær er litlu betri en þeir sem telja álver upphaf og endi alls lífs. Hann er bara öfgamaður í hina áttina.
Jarðvegur fyrir spámenn er frjór um þessar mundir og Andri sáir akurinn...

Andri Snær er nákvæmlega eins og höfuðsnillingarnir sem góðærið flutti hingað inn aftur og aftur til að messa yfir hinni hjörðinni í fokdýrum hádegisverðum. Hann er bara með annan markhóp. Og passar sig á að segja það sem lýðurinn vill heyra.

Álvers og virkjanaþráhyggja rithöfundarins er magnað fyrirbrigði sem leggst á listamenn helst. Eitthvað segir Andra að 3 álver sé nóg og við virkjum meira en sumir aðrir og það er ótækt. Af hverju er þetta vandamál í sjálfu sér?

Kannski rennur sá dagur upp að við þurfum ekki að framleiða neitt annað en beservissera í líki rithöfunda. Lifum af því að lesa bækur og halda fyrirlestra í háskólum og horfa á bíó. Það væri draumur....

Röggi

föstudagur, 10. september 2010

Landsdómur og löggjafarþingið

Nú er það landsdómur sem er mál málanna. Verulega áhugavert mál frá ýmsum hliðum og við verðum öll að reyna að forðast að horfa á það út frá pólitískri stöðu. Mig langar mjög til að treysta löggjafanum til að leggja skynsamlegt mat á hlutina en reynist það erfitt.

Aðskilnaður löggjafa og framkvæmdavalds er stundað á Íslandi og er ekki til almennilegrar umræðu. Og nú á löggjafarþing sem situr og stendur eins og framkvæmdavaldið vill að fara að taka ákvörðun um það hvort tilteknir fulltrúar valdsins verði dregnir fyrir landsdóm.

Er ekki eitthvað bogið í þessu? Þetta er enn eitt dæmið um nauðsyn þess að við förum að notast við system sem gerir út á þrískiptingu valds. Við erum oft að rífast um afleiðingar en nennum ekki að tala um orsakir.

Röggi

fimmtudagur, 9. september 2010

Svavar og Icesave

Svavar Gestsson gefst ekki upp í baráttu sinni fyrir Icesave samningnum sínum. Karlinn er pikkfastur í tíma sem er liðinn og missti af fjörinu öllu þegar þjóðin hafnaði klúðrinu hans eftirminnilega og afgerandi. Svavar veit greinilega ekkert hvar víglínan í þessari baráttu liggur núna og þusar bara um gamla tíð.

það sem er auðvitað verst í þessu er að gamli allaballinn á sér dygga stuðningsmenn í ríkisstjórninni. Ef eitthvað er að marka félaga Svavar er þetta fólk enn sannfært um að Icesave samningurinn sér stórsigur.

Hvað þarf til að opna augu þessa fólks?

Röggi

miðvikudagur, 8. september 2010

Guðmundur Ólafsson og skattamálin

Ég reyni að missa helst ekki af spjalli Guðmundar Ólafssonar við sjálfan sig á rás 2. Hann er víðáttuskemmtilegur þó að mér finnist hagfræðin hans ekki fimmauravirði á löngum köflum. Í morgun hafði hann eðlilega nokkrar áhyggjur af skattamálum.

Guðmundur taldi skatta alltof háa hér og þeir stæðu framþróun fyrir þrifum. Um þetta deilum við Guðmundur ekki nema þá helst við Indriða sjálfan og þórólf Matthíasson.

Guðmundur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það hafi verið ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem hafi hækkað skattana og þess vegna væri þetta svona. Ríkisstjórnin sem nú sæti hafi að mestu skorið niður en ekki hækkað skatta.

Þetta minnir mig á annan merkilegan fræðimann, Stefán Ólafsson, sem þrætti árum saman fyrir það að ríkisstjórn Davíðs væri að lækka skatta en þegar allt féll hér taldi þessi sami Stefán að skattalækkanir Davíðs hafi verið fóðrið sem hrunið nærðist á.

Vissulega skemmtilegir fýrar báðir tveir en hver getur tekið mark á svona tali? Sú ríkisstjórn sem nú situr mun verja alltof stórt ríkisapparat út yfir gröf og dauða með skattahækkunum og forðast niðurskurð.

Þannig er þetta og er öllum kunnugt nema einstaka hagfræðingum sem ruglast á fræðunum sínum og stjórnmálum.

Röggi

mánudagur, 6. september 2010

Rétthugsandi fjölmiðlar....

Lög um fjölmiðla eru nauðsyn. það er leitun að fólki sem viðurkennir það ekki. Meira að segja þeir sem vildu af ónýtum pólitískum ástæðum ekki styðja lög um fjömiðla á sínum tíma hafa opnað augu sín og séð það sem blasti við allan tímann.

Því miður kemur það í hlut núverandi menntamálaráðherra að lemja saman frumvarp um fjölmiðla. Því miður vegna þess að VG þekkir ekkert annað en forsjárhyggju og ríkisskoðanir. Fátt er meira gaman en að setja á laggirnar stofnanir sem eiga að hugsa og ákveða fyrir okkur borgarana.

Inn í slíkar stofnanir eru þá settir rétthugsandi og góðir aðilar sem munu leiða okkur áfram. Hver á að ákveða hvað eru góðar skoðanir og á hvaða forsendum á að loka fjölmiðli vegna þess sem þar er sagt?

Hugmyndin um að búa til apparat sem hefur alræðisvald í þá veru að ákveða hvað eru góðar skoðanir og hollar og hverjar ekki eru stórvarasamar en ekki óvæntar úr þessari áttinni. Þetta má ekki verða.

Röggi

fimmtudagur, 2. september 2010

Uppstokkunin.......

Ríkisstjórnin hefur fundið leið til að viðhalda sjálfri sér. Skipt er út ráðherrum og tilgangurinn er eingöngu einn. Að tryggja í ofboði eitthvert það jafnvægi sem gæti gefið vinnufrið. Þetta er í sjálfu sér smart allt saman og kannski heldur þetta ógnarjafnvægi og fólk getur farið að vera heiftarlega ósammála við ríkisstjórnarborðið í miklum kærleik.

Ríkisstjórnin er eins og stökkbreyttur vírus. Það eru engin málefni sem halda henni saman. Hún lifir bara til að lifa. Samfylkingin hefur gefist endanlega upp á VG og heldur bara sinn veg á leið sinni í ESB og VG fær að leika lausum hala á meðan með fáránlega afstöðu til atvinnuuppbyggingar og skatta.

Niðurlæging Samfylkingarinnar er fullkomnuð og spái því að óþol flokksins til VG muni vaxa en ekki minnka við þennan kapal.

Og við öll súpum seyðið af vitleysunni.

Röggi