þriðjudagur, 29. mars 2011

Lækkum bensínskattinn, það er ekkert að óttast.

Ég heyrði í einum helsta sérfræðingi Samfylkingar á þingi í efnhagsmálum, Magnúsi Orra Schram, tala í útvarpi um tillögu Sjálfstæðisflokksins um lækkun bensinskatts tímabundið hið minnsta. Magnús er lipur viðmælandi og tekur starf sitt alvarlegum tökum og telur þessa tillögu þess virði að um hana sé rætt. Mikið er það þó gott.

Og þá út frá því hvort ríkið muni tapa tekjum ef þetta verði gert. Mér finnst reyndar gaman að sjá að Magnús sér það ekki eingöngu sem umhverfismál að hækka á okkur bensínið en það gerir félagi Steingrímur blygðunarlaust og fyllir svo á ráðherrabílinn út í okkar reikning. Þess má geta að Magnús og Steingrímur tilheyra báðir stjórnarliðinu.

Ég veit ekki hvað þarf að gera til að ríkisstjórnin kveiki á perunni og geri sér grein fyrir því að auknir skattar í síminnkandi kaupmætti og atvinnuleysi munu ekki auka skatttekjurnar til lengri tíma, öðru nær. Magnús Orri er einn af yngri mönnum í þessum bransa en virðist haldinn þessum ranghugmyndum og mér liggur við að segja áunninni þrjósku og kreddum sem fylgt hafa hinum eldri lengi.

Hvernig erfist þessi della? Hvað er að óttast þó að ríkið slái af bensínlítranum til áramóta? Vinstri menn verða hreinlega að gefa þeirri hugsun sinni frí að refsa beri þeim sem verða og þurfa að nota bíl því stór hluti þjóðarinnar á ekkert val í þeim efnum.

Röggi

miðvikudagur, 23. mars 2011

Orð í tíma töluð hjá ríkissaksóknara

Auðvitað telur Jóhanna Sigurðardóttir að ríkissaksóknari þurfi að draga til baka orð sín um umgengni forsætisrráðherra við löggjafar og dómsvald. Jóhanna er af þeirri kynslóð stjórnmálamanna sem skilur hvorki upp né niður í þrískiptinu valds og mikilvægi þess í lýðræðisþjóðfélagi.

Hún fattar bara alls ekki að það er hreinlega út í hött hvernig hún og ráðherrar hennar hafa talað og hagað sér í kringum dómsvaldið undanfarið þar sem ítrekað er ráðist á alla þá sem ekki kunna að komast að hentugri niðurstöðu fyrir ríkisstjórnina. Forsætisráðherra sem situr bæði sem löggjafi og framkvæmdavald grefur hiklaust undan dómsvaldinu ef það hentar pólitískt.

Þeir sem ekki sjá þetta skilja bara alls ekki hversu mikilvægt er að skilja á milli valdsins. Reyndar sáu sumir þetta mun betur í tíð ýmissa fyrri ríkisstjórna en við þurfum að komast upp úr þessum handónýtu pólitísku hjólförum þegar um svona stór grundvallarmál er að ræða.

Helgi Hjörvar og Skúli Helgason ríða að mínu mati á vaðið þegar þeir komast að þeirri fullkomlega rökréttu niðurstöðu að ekki sé eðlilegt að sniðganga niðurstöðu hæstaréttar með þvi að búa til stjórnalagaráð með þeim sömu einstaklingum sem hæstiréttur hefur úrskurðað ólöglega kjörna til stjórnalagaþings.

Í þessari afstöðu þeirra sé ég von. Von um að kannski séu nýjar kynslóðir að komast á rétta sporið. Með fullri virðingu fyrir persónu Jóhönnu Sigurðadóttur þá er það alveg augljóst að tími stjórnmálamanna með hennar afstöðu og skilning á þrískiptingu valds er og verður að vera liðinn.

Röggi

mánudagur, 21. mars 2011

Ástandið

Það eru vissulega tíðindi þegar fólk segir sig úr þingflokkum en úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur í morgun kemur þó engum á óvart og í raun ætti Jón Bjarnason að fara líka en hann fæst ekki til að yfirgefa ráðherrabílinn og gefur því prinsippum sínum frí rétt á meðan þó hann sé ekki sammála neinu sem ríkisstjórnin hans gerir.

Upp er komin merkileg staða því lengi vel hélt Samfylkingin að hún ætti útgönguleið úr gildrunni sem VG hefur læsta hana í. Nú þegar meirihlutinn er orðin afar naumur og óstöðugur hlýtur ókyrrð Samfylkingar að ná áður óþekktum hæðum. Útgönguleiðin var að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi og leysti VG af.

En ég fæ ekki betur séð en að Bjarni Ben hafi loks ákveðið að fyrr skuli kosið áður en flokkurinn komi að ríkisstjórn. Ekki er langt síðan Sjálfstæðisflokkurinn mátti ekki heyra minnst á kosningar af ótta við óánægjuframboð hugsanleg. Nú hefur þetta breyst að sjá og er það vel.

Það setur Samfylkinguna í fáránlega stöðu. Þar er foringjavandinn óleystur og lausn ekki í sjónmáli svo langt sem augað eygir og því eru kosningar ekki hagstæðar. Að ég nefni ekki hvernig staða flokksins er í skoðanakönnnum og hvernig vont getur enn versnað ef þjóðin neitar að borga Icasave.

Ég hef spáð því oftar en ég kæri mig um að muna að þessi guðsvolaða ríkisstjórn muni fara frá en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að engin lögmál áður kunn í stjórnmálum dugi þegar um hana er fjallað. Það hentar VG alveg ágætlega að sitja sem fastast og hafa samstarfsflokkinn í spennitreyju eins og nú er og geta þá í friði lagt landið í efnahagslegar rústir haldandi á lofti grunngildum VG um að allt skuli skattlagt og bannað og allt skuli vera ríkis.

Ég ætla rétt að vona að Sjálfstæðislokkurinn haldi haus í þessu og gefi ekki minnsta ádrátt um ríkisstjórnarsetu án kosninga.

Röggi

fimmtudagur, 17. mars 2011

Auðvitað verður að refsa Ferguson

Ég tilheyri fámennum en afar öflugum hópi manna sem heldur með WBA í enska boltanum. Þetta er lítill og sætur klúbbur sem er trúlega rekinn fyrir lægri upphæð en minjagripasalan á Old Trafford.

Það breytir þó ekki því að þetta félag lýtur sömu lögmálum og öll hin og lekmenn meiðast þar líka án þess að framkvæmdastjórar væli undan og WBA fær líka dómara til að dæma leikina eins og stóru klúbbarnir.

Dómarar eru merkilegt fólk og það eru framkvæmdastjórar líka. Framkvæmdastjórar sumir virðast telja að þegar dómarar gera mistök hljóti það að vera vegna þess að þeir hafi á því sérstakan áhuga sem þá beinist helst gegn félaginu þeirra.

Ég ber ómælda virðingu fyrir Alex Ferguson eins og flestir hljóta að gera. Eini ljóðurinn á honum er áunnið rugl hans gagnvart dómurum. Þar tapar hann stundum allri heildarsýn og sanngirni og sér helst bara þegar hann telur sig óheppinn en missir alveg af því þegar hann er heppinn með ákvarðanir.

Hann hefur nú verið dæmdur í 5 leikja bann fyrir ummæli um dómara sem hann hikar þó ekki við að endurtaka eftir dómsuppkvaðningu. Ég held að Alex Ferguson og reyndar mun fleiri geri sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt er að gera fólki upp óheiðarleika í starfi.

Hvernig ætli Alex Ferguson tæki því ef fjölmiðlamenn héldu því fram þegar hann stilir upp óvenjulega liði að þarna væri hann viljandi að reyna að tapa leiknum? það er nefnilega þannig að dómarar eru fólk eins og hann sjálfur.

Fólk sem vill bara gera vel en því miður gengur það ekki alltaf upp þrátt fyrir mikla reynslu og þjálfun. Þannig gerast kaupin á eyrinni hvort sem þú heitir framkvæmdastóri eða dómari og því er ólíðandi að menn eins og Alex Ferguson tali um dómara sem svindlara. Dómarar geta verið slakir og átt áberandi slaka daga og um það má að sjálfsögðu fjalla.

En það þarf að gera af fagmensku og virðingu fyrir heiðri fólks. Þar flaskaði Alex Ferguson á og því eðlilegt að fyrir það sé honum refsað.

Röggi

laugardagur, 12. mars 2011

Lagatækni og siðferðissjónarmið Ragnars Önundarsonar

Ragnar Önundarson er um margt afar sympatískur maður. Hann hefur nú sagt sig úr stjórnum LV og framtakssjóðsins eftir umfjöllun um störf hans á kreditkortamarkaðnum en hann var forstjóri kreditkorta. Kastljós birti gögn í þætti sínum sem gera meira en að sanna samráð og markaðsmisnotkun og hvað þetta heitir nú allt sem virðist vera regla á Íslenskum markaði fremur en undantekning.

Ragnar hefur það umfram flesta aðra menn hér á landi að hann stígur til hliðar þegar svona umfjöllun á sér stað og umræðan verður sterk. Honum liggur rómurinn rólega og er að jafnaði auðmjúkur og leggur mönnum ekki til illt orð. Og hann sem sagt stígur til hliðar en ekki alveg orðalaust.

Mér sýnist Ragnar ætla að skáka í því skjólinu að löggjöf okkar gerir ekki ráð fyrir því að starfsmönnum fyrirtækja sé refsað fyrir það þeir gera í störfum sínum. Við höfum séð ömurlega hlið á þessu áður og það var þegar forstjórar olíufyrirtækjanna sættu ekki refsingu fyrir samráð heldur var kennitölunni sem þeir unnu hjá refsað en þeir gengu glaðir frá öllu með starfslokasamninga en fyrirtækið greiddi sekt sem var auðvitað sett út í verðlagið og þannig var kúnnanum refsað tvívegis.

Líklega er það rétt hjá Ragnari að hann muni ekki sæta refsningu vegna samráðsins sem hann vann við og stundaði. En við vitum öll að kennitölur stunda ekki samráð og svindl heldur fólkið sem vinnur við að reka kennitölurnar. Og þó að lagatæknilegur úrskurður sé að Ragnar hafi þar með ekki borið ábyrgð á eigin ákvörðunum kemst hann ekki undan siðferðissjónarmiðum hér.

Og því ber honum að stíga til hliðar sem hann og gerir. Og bendir okkur í leiðinni á hversu fáránlegt það er ekki er hægt að refsa mönnum sem stunda glæpi ef glæpirnir sem þeir fremja eru framdir í nafni fyrirtækja sem þeir stýra!

Röggi

föstudagur, 4. mars 2011

Til hamingju Helgi Hjörvar!

Lengi er von á einum segir einhversstaðar. Helgi Hjörvar stóð upp í gær í þinginu og sagði það sem margir hugsa. Í prinsippinu er út í hött að fara út í æfingar til að sniðganga dóm hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu. Fyrir svo utan að með þessu stjórnlagaráði er hugmyndin sjálf orðin útþynnt og vægið að engu orðið.

Helga hefur tekist það sem til að mynda innanríkisráðherranum tekst alls ekki og það er horfa á málið út frá grundvallaratriðum en ekki bara hvað hentar níðþröngum pólitískum hagsmunum. Það er grafalvarlegt að alþingi sem er löggjafarvald skuli sætta sig við það að framkvæmdavaldið vaði yfir allt og alla á skítugum pólitískum skóm sínum.

Hér stendur Helgi Hjörvar í fæturna og hugsar lengra. Hann lætur sér ekki nægja að láta lítilmótlegustu prinsipp stjórnmálanna ráða husgun sinni heldur hugsar um heildarmyndina og hversu mikilvægt er að bera virðingu fyrir þrískiptingu valdsins.

En þessi vesalings þjóð heldur bara áfram að láta sig svona smámuni engu varða. Við höldum bara áfram að nöldra í hvert öðru og kvarta undan spilltum og ónýtum stjórnmálamönnum og mætum svo og merkjum við Ögmund eins og ekkert hafi í skorist.

Eitt er að vera ósammála í pólitík og takast á um það en við hljótum öll að verða að vera sammála um að losa okkur við þá hugsun að einu hagsmurnir sem máli skipta séu pólitíkusanna og í þeim hagsmunarekstri séu öll meðöl leyfileg og grunnstoðir eins og dómstólar léttvægir og til skrauts nema þeir komist að réttum niðurstöðum.

Þannig getum við byrjað á nýrri hugsun. Takist það er mönnum eins og forystumönnum VG ekki sætt á löggjafarsamkomu okkar.

Röggi

miðvikudagur, 2. mars 2011

Hvernig endurnýjar maður traust?

Félagi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er gamall hundur í pólitík. Hann kann sinn orðhengilshátt utanbókar og hefur þétta reynslu í að snúa vonlausri stöðu upp í stórsigur með magnaðri málnotkun og túlkun staðreynda.

Nú hefur Ögmundur komist að þeirri niðurstöðu að Ástráður Haraldsson sem sagði af sér sem formaður landskjörstjórnar fyrir örfáum dögum hafi nú það sem ráðherrann kallar "endurnýjað traust" til setu í kjörstjórn. Þessi endurnýjun byggir ef ég skil þetta rétt á þvi mati VG að hæstiréttur kunni ekki að komast að "réttri" pólitískri niðurstöðu.

Svona þvætting setur enginn betur saman en hinn þrautreyndi stjórnmálahundur sem hefur fyrir löngu lært að tilgangurinn helgar alltaf pólitískt meðalið. Þarna er hið nýja Ísland í dag og litli ríkisflokkurinn lætur ekki að sér hæða né munar hann um að lítilsvirða hæstarétt þegar hagsmunir flokksins þurfa pláss.

Ástráður þessi Haraldsson hefur svo lýst því yfir að hann hafi hreinan skjöld aðeins örfáum dögum eftir að hann hrökklaðist úr embætti formanns landskjörstjórnar. Hversu lágt nenna menn að leggjast spyr ég og velti fyrir mér faglegum metnaði og heiðri þessa lögmanns. Þær körfur er ég fyrir löngu hættur að gera til ráðherrans.

Röggi

þriðjudagur, 1. mars 2011

Landsdómur til bjargar pólitískri æru

Landsdómur kemur saman í næstu viku. Þá verður ákveðið hvort farið verður í fyrstu og þá vonandi einu pólitísku réttarhöld okkar sögu. Því lengra sem líður frá hruninu og því lengra sem líður frá hneykslinu í þinginu þegar ákveðið var að að ákæra Geir þvi fáránlegar leikur sagan þá ákvörðun.

Eina ákvörðunin sem landsdómur getur tekið er að falla frá ákæru og bjarga þar með í leiðinni pólitískri æru þeirra blessuðu þingmanna sem tóku þessa geggjuðu ákvörðun.

Röggi

VG í pólitískum leikskólaleik

VG er stjórnmálflokkur sem ég hef hvað minnsta samleið með. Ekki vegna þess að þar sé vont fólk heldur vegna þess að ég er í grunninn ósammála þeirri heimspeki. VG er flokkur sem rís alveg undir mínum væntingum í svo mörgu nú um stundir.

Margir bera þó virðingu fyrir flokknum sem þótti í stjórnarandstöðu vera flokkur grundvallaratriða sem ekki voru gerð út með afslætti. VG er klassískur ríkisflokkur sem trúir á kerfið og að embættis og stjórnmálamenn séu best til allra hluta fallnir.

Nú berast þau ótrúlegu tíðindi að VG hafi troðið Ástráði Haraldssyni í landskjörstjórn aftur. Ástráður þessi stýrði þeirri stjórn til strands fyrir stuttu síðan og varð að segja af sér fomennsku. Hvað getur flokknum gengið til með þessu?

Auðvitað er flokkurinn ósáttur við að reglur sem hann sjálfur setti vegna kosninga til stjórnlagaþings skuli hafa verið svo hraustlega sniðgengar að hæstiréttur ógilti þær. Óánægja flokksins með þá niðurstöðu beindist þó ekki að formanni kjörstjórnar, téðum Ástráði, heldur réttinum sem las úr reglunum. Þetta er svo ótrúlega barnaleg leikskólapólitík að engu tali telur.

Og grafalvarleg þegar betur er skoðað. VG hefur ákveðið að hætta að reyna að búa til nýtt Ísland en herðir í staðinn á í baráttunni fyrir gamla ruglinu. VG sniðgengur lög í pólitískum tilgangi ítrekað og þetta allt að því hlægilega dæmi er enn ein sönnun þess.

Hér er gert lítið úr þinginu, hæstarétti og ekki síst vesalings lögmanninum sjálfum þó augljóst sé að með þessu er VG að reyna að sýna honum stuðning í ímyndaðri baráttu við vondan hæstarétt.

Eru þetta ekki vinnubrögð sem við viljum kveðja spyr ég?

Röggi