fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Biskupinn.

Ég hef áður skrifað um Sigurbjörn biskup og skammast mín hreint ekki fyrir að gera það aftur nú þegar hann er genginn. Hann var einhvern veginn Biskupinn með stóru béi.

Yfir honum var alltaf einhver augljós viska. Yfirvegun og festa en samt mildi. Í mínum huga alger yfirburðamaður alla tíð. Aldrei yfirborðskenndur sem hefur loðað við suma biskupa. Þeir hafa allir verið að reyna svo mikið að vera biskupar, leiðtogar. Sigurbjörn hafði ekkert fyrir því. Hann var biskup.

Auðvelt og áreynslulaust að hlusta á hann. Laus við helgislepju og talaði mannamál. Fræðimaður af guðs náð og tókst að vera áhugaverður og lifandi en ekki skraufþurr eins og títt er um fulltrúa Guðs hér á jörð.

Ég fattaði fyrst hvað lifandi trú er þegar ég fór að taka eftir Sigurbirni. Enda mun hann lifa með þjóðinni um ókomna tíð.

Blessuð sé minning hans.

Röggi.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Lúðvík rukkar OR.

það er í sjálfu sér ekki flókið mál að þegar ég sel þér bílinn minn og þú borgar hann ekki að þá hef ég rétt til að grípa til allra ráðstafana til að innheimta skuldina. Kristaltært...

Hafnarfjarðarbær seldi OR hlut sinn í orkuveitu Suðurnesja. Allir kátir með það en svo kom babb í bátinn. OR mátti samkvæmt lögum ekki kaupa þennan hlut. Ekki vel gott en þannig fór um sjóferð þá. Eða hvað...

Ekki aldeilis því Lúlli bæjó tekur ekkert mark á svona úrskurðum og vill fá borgað. Er ekki lögfræðimenntaður en skil þetta ekki. Hafi menn gert þau mistök að setja ekki inn í samninginn fyrirvara um lögmæti þá stórefast ég um sú skylda hvíli meira á kaupanda en seljanda. Þessi viðskipti eru dæmd ólögleg og því ekki um nein viðskipti að ræða.

Komi í ljós að ég keypti bíl af þér sem þú áttir ekki eða gast ekki selt mér þá ætti, ef allt er eðlilegt að vera fjári harðsótt hjá þér að krefja mig um greiðslu fyrir ökutækið.

Ef niðurstaðan er önnur þá er eitthvað að.

Röggi.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Guðmundur bætir sig.

Verð að skrifa um handbolta. Dauður maður sem ekki hreifst með þó ég hafi ekki séð handbolta með berum augum í óratíma. Gef mig auðvitað út fyrir að vera mikill sérfræðingur samt..

Hef ekki verið aðdáandi Guðmundar þjálfara. Fundist hans hugmyndafræði vera fyrirséð og gamaldags. Fjöldi æfinga meira mál en gæði. Trúr sínum Pólskættaða handboltauppruna og hefur böðlast á byrjunarliðinu í hverri stórkeppninni á fætur annarri og keyrt menn út enda innáskiptingar óþarfar.

Þetta hefur breyst að einhverju marki. Samt fannst mér örla á þessu í undirbúningi liðsins fyrir forkeppni ÓL í Póllandi. Þá var liðið saman í hálfan mánuð minnir mig erlendis við æfingar. Ferðalög og hótelbúskapur er að mínu viti fyrst og fremst þreytandi enda kom það á daginn að þó við höfum náð að koma okkur á ÓL var liðið uppgefið og andlaust gegn slöku liði Makedóniu. Handboltann svíður enn undan því...

Mesta gæfusporið held ég að hafi verið að fá Óskar Bjarna með Guðmundi. Ólíkir menn um flest bæði hvað varðar karakter og hugmyndafræði. Óskar hreyfir sín lið ótt og títt á meðan Guðmundur hefur verið á hinum enda kvarðans. Guðmundur frekar lokaður á meðan Óskar er kátari og opnari.

Allt annað var að sjá Guðmund í þessari keppni en áður fyrr. Virtist höndla pressuna vel og njóta hennar. Var manneskjulegri en oft áður og persónulegri. Kom út úr skelinni.

Og það sem skipti að mínu máli miklu, hafði tileinkað sér ný vinnubrögð. Nú var liðið hreyft miklu meira en áður hjá honum enda sluppu menn almennt við meiðsl og augljósa þreytu vegna álags. Reyndar mátti sjá leifar af þessu á Guðjóni Val sem spilaði of mikið enda tók hann upp á því að brenna af í færum sem hann brennir aldrei af þegar á mótið leið. Og var svo orðinn þreyttur og fékk sína einu hvíld í úrslitaleiknum sjálfum þegar hann hefði alls ekki átt að fá hvíld. En þetta var undantekning...

Guðmundur stendur frammi fyrir því hvort hann á að halda áfram eða ekki. Get vel unnt honum að rifa seglin núna þegar hann er á toppi handboltans. Handboltans vegna á að hann eðlilega að halda áfram því hann hefur sagt að hann sé að bæta sig og breyta og það er flottur grundvöllur.

Alþekkt er að vinnusamari mann er ekki hægt að fá né skipulagðari. Og þegar hann ákveður að taka inn nýja nálgun sem ég er sannfærður að sé til bóta þá mun hann væntanlega gera það af sömu fagmennskunni og annað sem hann tekur sér fyrir hendur.

Röggi.

sunnudagur, 24. ágúst 2008

Subbulegur jonas.is

Ég hef svo sem skrifað um það áður hvernig gamli DV ritsjórinn kýs að haga orðum sínum á bloggsíðu sinni jonas.is. En sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

Skoðanir hans koma mér ekki sérstaklega við en framsetning þeirra og sóðaskapurinn í orðavali ryfjar aftur upp fyrir mér hvernig síðustu ár þessa manns á ritstjórastóli DV voru. Hann hefur engu gleymt heldur bætt aðeins við sig ef eitthvað er...

Telur líklega að skoðanir hans fái meiri vigt ef hann fer nógu neðarlega í drulluna....

Röggi.

föstudagur, 22. ágúst 2008

Lýðræði Dags B.

Mikið er nú gott að nýr meirihluti er tekinn við í borginni. Hann er kannski ekkert sérstaklega nýr. Nú er nánast búið að endurnýja sambandið sem fór út um þúfur þegar mínir menn klúðruðu . Gömul saga...

Hún er líka gömul sagan um viðbrögð þeirra sem ekki eru í meirihluta. Upphrópanir og slagorðaflaumurinn magnaður. 15 menningarnir hafa hver um annan þveran eytt hálfu kjörtímabili í að reyna að ota sínum tota og komast sem næst því verða aðal. Flestir virðast hafa logið meira og minna á einhverjum tímapunkti.

Nú var komin upp staða sem bauð ekki upp á annað en nýjan meirihluta. Það er skylda þessara fulltrúa að mynda meirihluta. Lýðræðisleg skylda. Ekkert annað í boði, alls ekkert. Þeir sem geta og vilja mynda slíkan meirihluta eru því ekki að gera neitt annað en það sem þeim stendur skylda til. Alveg eins og félagi Dagur gerði þegar hann sjálfur laumaðist til að mynda kvartettinn sáluga.

Núna kallar hann þetta misnotkun á valdi og lýðræði. Þvílíkur vaðall. Stundum held ég að stór hópur þeirra sem sífellt hrópar á torgum um lýðræði skilji hreinlega ekkert um hvað lýðræði snýst. Hvernig getur meirihlutinn misnotað lýðræðið núna? Í hverju er misnotkunin fólgin?

Hvað er ólýðræðislegt við það að skipta um samstarfsaðila á miðju kjörtímabili? Hvaða vald er þar misnotað? Hvenær tapa stjórnmálamenn réttinum til að fylgja sannfæringu sinni? Eða að skipta um skoðun.

Lýðræðið er tryggt hér hjá okkur. Það liggur í kerfinu. Við kjósum okkur fulltrúa sem að afloknum kosningum rotta sig svo saman og mynda meirihluta ef svo ber undir. Slíkt samstarf er bara þannig að stundum getur slitnað upp úr því, af ýmsum ástæðum.

Þá stokka menn upp á nýtt. Og upphaflegu reglur lýðræðisins enn í fullu gildi. Fínt system segi ég en Dagur B Eggertsson skilur lýðræðið ekki svona.

Lýðræðið hans snýst um að hann sé aðal...

Röggi.

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Einn Framsóknarmaður eftir..

Enn og aftur gerist það. Heill flokkur ruglast í ríminu og yfirgefur einn aðila. Týnir stefnunni og tekur rangan kúrs með manni og mús. Og þá gerist það. Marsibil áttar sig á því að hún er eini Framsóknarmaðurinn sem eftir er. Hinir eru allir farnir.

Þessi saga endurtekur sig í hvert einasta skipti sem einhver finnur sig knúinn til að yfirgefa flokka. það að vera í flokki innifelur þann möguleika að meirihlutinn eða stofnanir flokksins geti ákveðið að færa víglínurnar til frá einum tíma til annars. þannig er það bara.

Þá getur það auðvitað gerst að einstaklingar finni sig ekki lengur í flokknum af prinsippástæðum. Og taki þá þann kostinn að yfirgefa skútuna. Þetta er algerlega eðlilegt og sanngjarnt gagnvart eigin samvisku og kjósendum. Hefði ég haldið...

En Marsibil eins og aðrir sem sem yfirgefa flokkana sína ætlar að halda sínu striki og mæta til vinnu sinnar enda þægileg innivinna. Ég veit vel að henni er það heimilt en er ekki eitthvað bogið við þetta?

Röggi.

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Vatnið sótt....

...yfir lækinn.

Nú er ég ekki KR ingur, öðru nær. Hef samt eins og allir sem fylgjast með fótbolta nokkurn áhuga á því félagi. þeir eru stórveldi. Ekki bara vegna þess að þeir tala um það ótt og títt heldur eru þeir stærsti klúbburinn og með glæsta sögu. Hellings business og fullt af peningum.

Þess vegna þola margir ekki félagið og gríðarmargir fagna þegar þeim gengur allt í mót. Ég missi ekki svefn þó KR tapi fótboltaleik en fyndist afleitt ef þeir færu niður. KR verður að vera í efstu deild. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu félagi og veit að fá félög búa við eins mikil fríðindi og verðmæti eins og KR hefur í sínu fólki.

Hann virkar þó undarlegur kúltúrinn hjá KR stundum. Hörkuleikmenn keyptir hægri vinstri og breytast þá miklu oftar en ekki í miðlungs. Treyjan sýgur einhvern vegin algerlega úr mörgum loftið, þeir lofttæmast. Hjá KR eru bestu bitarnir. Þeir kaupa sér lið reglubundið.

Harðneita að læra af reynslunni sem segir þeim að þessi aðferðafræði skilar ekki nógu miklum arði. Nú nýverið fengum við ljóslifandi sönnun þessa. Innkaupastjórinn komst á snoðir um að Bjarni Guðjónsson væri hugsanlega á lausu.

Bjarni er á góðum degi frábær leikmaður. Var í fyrra besti miðjumaður deildarinnar en náði sér ekki á strik þetta sumarið á Skaganum og vildi á endanum yfirgefa sökkvandi kjúklingaskítsskútuna sem pabbi hans stýrði með glæsibrag til þriðja sætis í fyrra.

Bestu lið deildarinnar fóru af stað. Mínir menn vildu fá kappann enda búnir að missa sinn besta mann af miðjunni. KR hafði vinninginn og til hamingju með það. En þá kom babb í bátinn...

KR vantaði alls ekki Bjarna Guðjónsson. Liðið þeirra var á fínu róli og það var ekki síst öflugri miðju liðsins að þakka. Jafnvægi liðsins raskaðist enda vandséð hvaða leikmaður á að detta út. Þjálfari liðsins hefur verið stálheppinn því menn hafa meiðst lítillega og þá hefur tekist að skutla drengnum inn á hingað og þangað.


þetta höfum við séð áður hjá KR. Ungir menn og sprækir settir til hliðar. Mér finnst sorglegt að horfa upp á kallgarminn þvælast í bakvarðarstöðum eða bara einhversstaðar. Síðast var Rúnar Kristinnson sóttur með látum og þá fór allt á sama veg.

Röggi.