fimmtudagur, 14. maí 2009

Láglaunastefnan.

Hreinlega er kostulegt að fylgjast með fréttum frá Bretlandi um greiddann kostnað þingmanna. Ég kemst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvernig svona system fæðist og kemst á laggirnar. Hvernig það braggast og verður normalt og allir þegja hvar í flokki sem þeir eru. Allir spila með.

Getur verið að það sé vegna þeirrar stefnu að laun skuli vera lág og jafnvel alltof lág? Það lítur nefnilega svo vel út í augum almennings að þingmenn og opinberir stórlaxar seu ekki að þiggja há laun. Þess vegna eru lagfærð og betrumbætt með sporslum og aukagreiðslum af ýmsu tagi sem ekki blasa við. Þetta þekkjum við vel hér og höfum dapra reynslu af.

Hjá okkur gæti stefnt í svona ástand. Skerum burt allt bruðl og óþarfa að ég tali nú ekki um ógagnsæi í launum eins og tíðkast greinilega í breska þinginu. En gerumst ekki kaþólskari en páfinn og viðurkennum að laun forsætisráðherra eru brandari.

Röggi.

Röggi.

föstudagur, 8. maí 2009

Blaðrið í Brown í víðu samhengi.

Gordon Brown kemur enn einu sinni af stað titringi hjá okkur Íslendingum með ummælum sínum. Nú segist hann vera að semja við IMF um skuldir okkar vegna Icesafe og allt verður vitlaust og enginn vill kannast við samningaviðræðurnar þegar nánar er spurt.

Þetta fer allt mjög í taugarnar á ESB sinnum því með þessu blaðri sínu minnir Brown okkur á að ESB er með fulltingi IMF að þvinga okkur til að borga skuldir óreiðumanna erlendis eins og það var orðað forðum. Vel getur verið að við eigum og verðum að borga en þá vilja margir gera það á okkar forsendum en ekki undir þvíngandi og níðþungum hælnum á ESB og Bretum.

Í mínum huga eru þessi mál öll í biðstöðu núna. Þau eru ekki rædd. Þjóðin er að reyna að átta sig á því hvernig henni muni reiða af næstu mánaðarmót og má bara ekki vera að því að velta því fyrir sér hvernig Brown og ESB líður þessa stundina.

Mín tilfinning er sú að andstaðan við ESB eigi eftir að aukast næstu mánuði. Við höfum verið upptekin af því að kjósa og flokkarnir sem nú eru við stjórn hugsuðu einna helst um að innheimta útistandandi fylgisaukningu en nú er komið því að standa við stóru orðin og koma með bjargráðin eins og lofað var. Þar verða ESB aðildarviðræður ekki til neins næstu mánaðarmót eða þar næstu.

Ég veit ekki hvert Samfylking stefnir ef ekki tekst að koma af stað viðræðum við ESB um aðild. Ég er í grunninn hrifinn af því að Alþingi ákveði hvert við förum í þessu efni. Þetta á að vera mál löggjafans ekki síður en framkvæmdavaldsins. En við búum ekki við neina skiptingu milli þessara aðila og því eru öll viðmið eðlilegrar stjórnsýslu í þessum efnum ónýt.

Nú vill ósamstíga ríkisstjórn fá umboð fyrir annan flokkinn til að sinna þessu verkefni. Tæknilega er trúlega hægt að troða þessu í gegnum þingið en hvað tekur svo við virðist óljóst. Hver á að ákveða samningsmarkmið? Hvernig verður farið með ágreining í ferlinu og áfanganiðurstöðum? Er hægt að fara í svona stórt mál án breiðarar samstöðu á þingi að ég tali nú ekki um einingu í ríkisstjórn? Kannski er það hægt en varla mjög skynsamlegt.

Samfylkingin berst nú af lífi og sál fyrir ESB enda er það eina mál flokksins. Í því máli er kálið enn langt frá ausunni og það jafnvel þó takist að koma málinu í gegnum þingið. Þjóðin er mjög viðkvæm núna og því eru svona upphlaup eins og hjá Brown ekki þægileg því þau minna okkur á ógreidda reikninga og þrýsting þeirra sem eiga að heita vinir okkar.

Á meðan okkur blæðir út innanlands að stjórnvöldum ásjáandi og aðgerðalitlum er ekki víst að það sé ESB sinnum sérlega hagfellt að við séum minnt á að okkur verða engin grið gefin þegar kemur að samskiptum við stóru apparötin úti í heimi hverju nafni sem þau nefnast.

Röggi.

mánudagur, 4. maí 2009

100 daga aðgerðaleysið.

Það er ekki laust við spennu hjá mér fyrir "nýju" ríkisstjórninni sem Jóhanna og Steingrímur eru að smíða. Myndun hennar hefur í raun tekið um 100 daga og enn sér ekki til lands. VG og Samfylking tóku við skútunni með þeim orðum að nú yrði tekið til óspilltra málanna.

En málin eru ennþá spillt og ekkert er aðhafst. Tvær nefndir voru settar af stað í upphafi seinni bylgju stjórnarmyndunarviðræðna. Önnur um ESB og hin um stjórnskipan. Bæði þessi málefni eru mikilvæg og áhugaverð mjög en þau snúa lítið að því verkefni sem stofnað var til á sínum tíma.

Eins og málið snýr við mér er augljóst að ríkisstjórnin veit ekki sitt rjúkandi ráð í efnahagsmálum og þess vegna hefur VG ákveðið að gefa eftir í ESB málinu og trúa Samfylkingu sem heldur því fram að með því einu að ákveða að fara í aðlidarviðræður að þá lagist allt.

Skuldir heimilanna hverfi og atvinnulíf blómstri. Lamaðir ríkisbankar eru núna helst notaðir til þess að berja á atvinnulífinu og taka yfir fyrirtæki eftir smekk og mismuna þeim svo í samkeppninni við blæðandi markaðinn.

Ég get auðvitað ekki gert lítið úr vandanum en hér höfum við fólkið sem sagðist hafa lausnirnar og þetta er líka fólkið sem var lamið í ríkisstjórn með búsáhöldum forðum undir styrkri stjórn söngvaskáldsins sem virðist nú horfið af yfirborði jarðar þó fátt hafi lagast og ekkert í sjónmáli eftir 100 daga.

Þetta er erfið staða því öll orkan fer í að finna leiðir til að geta verið í ráðherrastólum á morgun. Jóhanna segir að hér sé starfandi ríkisstjórn í landinu og ekkert liggi á stofnun nýrrar. Þetta held ég að hreinlega enginn skilji nema kannski Ólafur Ragnar. 100 daga aðgerðaleysinu verður að ljúka.

Ekki er hægt með neinni sanngirni að biðja um kraftaverk en lágmarkskrafan getur ekki orðið ódýrari en að biðja um eitthvað annað en að þeir sem koma með tillögur séu skotnir í kaf án umhugsunar.

Kannski við hægri menn mætum með búsáhöldin okkar í næstu byltingu sem hlýtur að verða fyrr en seinna haldi aðgerðaleysisríkisstjórnin áfram á sömu braut.

Röggi.