mánudagur, 31. maí 2010

Dellan hjá Illuga og Hallgrími

Ég heyrði á tal þeirra Illuga Jökulssonar og Hallgríms Thorsteinssonar í ríkisútvarpinu mínu nú síðdegis. Ég veit ekki hvað þessi þáttur heitir en hann ætti að heita útvarp Samfylking enda getur Hallgrímur illa dulið það hvert hans pólitíska blóð rennur þó hann vinni hjá okkur öllum.

Hallgrímur fullyrti þar að stjórnandastaðan í þinginu hafi farið neðar í leðjuna í málflutningi sínum, öfugt við stjórnarflokkana, en áður hafi þekkst. Þarna er Hallgrímur líklega að vísa í baráttu stjórnarandstöðu og þjóðar fyrir höfnun Icesave samninganna. Kyngimögnuð söguskýring hjá útvarpsmanninum og hún verður fáránlegri með hverjum deginum.

Þegar kom að umræðum um fjórflokkinn margumtalaða opinberaði fyrrverandi ritstjóri DV delluhrokann sem hann ber til Sjálfstæðsflokksins og þess stóra hóps sem kýs þann flokk.

Hann talaði um að sá flokkur stæði ekki fyrir neitt nema þá kannski frelsi einstaklingsins og annað ekki og hann væri í raun bara fyrir öðru fólki sem hefði almennilegar hugsjónir. Auk þess væri fólk þar sífellt að takast á um hlutina eins og það sé vond staða fyrir stjórnmálasamtök. Gaman væri að heyra Illuga setja Samfylkinguna og VG inn í þetta sama mengi...

Alveg magnað hvað menn sem telja sig vera stadda í Samfylkingarkaffiboði en ekki í útvarpsþætti allra landsmanna geta missti sig í þvælu þegar pólitísk hjörtu slá fallega saman.

Og í raun stórmerkilegt að ég skuli láta þetta pirra mig því þetta er daglegt brauð og algerlega fyrirséð.

Röggi

Gnarr og Besti flokkurinn

það er þetta með Besta flokkinn. Hann ætlar að fara að stjórna borginni og það með húmorslausasta stjórnmálamanninum. Manninum sem er eiginlega lifandi dæmi um akkúrat það sem Besti flokkurinn vill ekki standa fyrir. Dagur B ryður út úr sér innihaldslitlum frösum í löngu máli á þann hátt að Georg Bjarnfreðarsson gæti vart betur.

Nú fer málið nefnilega að vandast. Gnarr sýndi það síðustu dagana fyrir kosningar og nú eftir þær að hann er hættur að djóka. Enda er ekkert djók að stjórna borginni. Reyndar talaði hann um að borgin byggi vel að embættismönnum og því væri öllu óhætt.

Ég hélt að flestir vildu færa völdin frá alltof valdamiklu embættismannakerfi borgarinnar og aftur til fólksins í gegnum kjörna fulltrúa. En Gnarr ætlar að láta þetta gamla kerfi taka ákvarðanir sem hann sjálfur þarf svo að bera pólitíska ábyrgð á. Byltingin lifi!

Besti flokkurinn er besti flokkurinn þegar hann er í minnihluta þó stærstur sé. Margt bendir til þess nú þegar að Jón Gnarr sé að tapa húmornum. Vissulega fékk hann innivinnuna sem hann langaði í en ég er ekki alveg viss um að hún verði svo þægileg....

Röggi

Ríkisstjórnarblús

það verður stórmerkilegt að fylgjast með því hvernig mál munu þróast hjá ríkisstjórninni eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Allt benti eindregið til þess að hennar auma líf væri á enda runnið og einungis væri beðið eftir pólitískt heppilegum tíma til að rifa seglin og kjósa. En það var fyrir helgina...

Auðséð er á forystumönnum hennar að þeim er alvarlega brugðið við niðurstöður kosninganna. Og auðvitað laukrétt hjá þeim að í mörgum tilfellum er hinum mætustu sveitarstjórnarmönnum refsað fyrir framgöngu þeirra sjálfra í landsmálum. Spurningin sem eftir stendur er þá hvaða lærdóm þau ætli sér að draga af því.

Nú þegar eru öll merki þess að fótgönguliðar ýmsir ætli sér að hjóla í forystumenn flokkanna vegna þessa. Aðgerða og úrræðaleysið er að éta flokkana upp innanfrá. Vonirnar sem bundnar voru við birtingu skýrslunnar að engu orðnar. Ósigurinn blasir við og súrefnið á þrotum.

Forsætisráðherra er augljóslega úti á þekju og í mikilli geðshræringu. Hún grípur bara næsta hálmstrá og tekur undir allt sem hún heldur að kjósendur Besta flokksins vilji heyra. Nú er stjórnlagaþing skyndilega lausn....Dagur B ætlar að fanga hamingjuna í faðmi Gnarr en eitthvað segir mér að það verði skammgóður vermir. Vinnu og ferðalúinn Steingrímur veit hvorki í þennan heim né annan núna og endurtekur í sífellu sömu orðin um ný vinnubrögð en segir ekki hvernig þau eiga að vera. Liklega skilur hann ekki að margir í hans flokki telja að þeim vinnubrögðum fylgi nýjir leiðtogar...

Öllum ætti að vera ljóst eftir þessa helgi að enginn safi er eftir í ríkisstjórninni og flokkarnir tveir sem hana skipa eru að liðast í sundur innanfrá í þessu vonlausa samstarfi. það er ekkert eftir annað en að horfast í augu við það og hætta.

Jóhanna og Steingrímur vita þetta en upp er komin undarleg staða. Hræðslan við konsingar núna gæti hreinlega lengt líf þessarar ríkisstjórnar. Nú verði reynt að berja í brestina til að forðast dóm kjósenda. það mun að mínu viti verða að algerum hörmungum innandyra í þessum tveimur flokkum.

Dómur kjósenda er fallinn. Vinstri flokkarnir eru í henglum og þurfa ekki aðra óvini en sítt eigið fólk sem er rétt að byrja að grafa undan forystumönnum sínum. Við höfum ekki séð fyrir endann á þeim slagsmálum.

Röggi

mánudagur, 17. maí 2010

S. Einarssyni sagt upp

Hvurskonar Íslendingur er Sigurður Einarsson? Þessi bankamógúll hefur alið hér manninn og búið til fyrirtæki sem hefur haft gríðarleg umsvif og leikur lykilhlutverk í kreppu sem er að fara með okkur til andsk...

Við erum að rembast við að rannsaka málið af öllum góðum ástæðum mögulegum. Það er okkur nauðsyn og skylda. Til þess að okkur takist þetta eiga engir að hlaupast undan merkjum. það er einfaldega ekki með í þessum leik.

Sigurður lýsir sig saklausan af öllu og það áður en hann er spurður. Þar með telur hann málinu lokið af sinni hálfu og fær til sín mafíu lögfræðing nr 1 til að halda sér utan yfirheyrsluherbergja.

Í mínum huga hefur Sigurður sagt sig úr lögum við litla landið sitt og býr nú við sín eigin lög á peningafjallinu sínu. Ég hef ekkert umboð til eins eða neins en skili hann sér ekki "heim" til að svara eðlilegum spurningum saksóknara og staðfesta þar með sakleysi sitt þá segi ég honum fyrir mína parta upp ríkisborgararéttinum.

Enda vill hann ekkert með okkur hafa. Hér er ekkert meira að fá....

Röggi

sunnudagur, 16. maí 2010

Pólitísk misbeiting lögreglunnar?

Ég var á Austurvelli í gær. Þar var blásið til stuðningstónleika til handa níumenningunum. Blíðskaparveður og margir mættir enda góðgæti á boðstólum. Einn níumenninganna, Snorri minnir mig að hann heiti, fór með algerlega magnað ljóð sem mér finnst endilega að einhver ætti að koma á prent.

Fleiri níumenninga tóku til máls og reiðin er stór en hún beinist á köflum í undarlegar áttir. Ein yfirlýsingin var að lögreglunni sé beitt í pólitískum tilgangi. það er ekki rökstutt á neinn hátt en lýðurinn fagnar....

Hver beitir lögreglunni á pólitískan hátt og hvernig er slíkt framkvæmt? Ef réttarsalur myndi fyllast af fólki sem vildi trufla réttarhöld yfir bankaræningjum væri það þá pólitísk aðgerð lögreglunnar þegar hún sæi til þess að slíkt viðgengist ekki?

Ætli þingvörðum sé ekki nokk sama hvort fólk sem fyllir þingpalla og truflar þingstörf geri það af einum hvötum frekar en öðrum? það vantar ekki stóryrðin og skrautlega hugtakanotkun hjá reiðum mótmælendum.

En inntakið rímar bara ekki við raunveruleikann stundum þó áheyrilegt sé á útifundum. Og alls ekki þegar fullyrt er að lögreglunni sé beitt í pólitískum tilgangi.

Röggi

föstudagur, 14. maí 2010

Steingrímur og skattahækkanirnar hans

Steingrímur skattamálaráðherra lærir seint. Hann hækkaði álögur á bensín og skatttekjur ríkisins af bensínlitranum drógust saman. Þá taldi hann það reyndar ekki skipta máli því skatturinn hefði verið hækkaður til að draga úr bensínnotkun!

Það er varla nokkur eftir sem nennir að rökræða hagfræðina á bak við skattahækkanir í samdráttartímabili. Þórólfur Matthíasson myndi að vísu líklega fást til þess enda hann helsti sérfæðingur vinstri manna um skatta.

Niðurstaðan er ávallt sú sama. Auknir skattar skila minni skatttekjum í ríkissjóð. Yfirlit um greiðsluafkomu ríkissins staðfestir þetta en Steingrímur lemur höfðinu við steininn af mikilli list. Góður maður Steingrímur en þessu villutrú hans er afleit og dýrkeypt.

Til að gæta allrar sanngirni er þó rétt að geta þess að einn liður er að skila meiru en áður. Það er liðurinn skattur á einstaklinga.....

Röggi

miðvikudagur, 12. maí 2010

Nei, Jón Ásgeir. Við töpuðum...

Jón Ásgeir þykist vera kominn að fótum fram. það er flott taktík og fer vel í landann sem vill sjá blóð renna. Mér dettur ekki í hug að þannig sé um hann farið. Vígstaðan hefur breyst og hann berst nú fyrir öðrum málsstað. Sú barátta á að snúast um að við trúum því að hann sé búinn að vera og eigi ekkert.

Vissulega hefur nafn hans skaðast og hann gæti þurft að nota sömu aðferð erlendis og hann notar hér heima með eftirtektarverðum árangri. það er hin sígilda aðferð að nota leppa. Við sjáum þetta glöggt á fjölmiðlarisanum hans sem eiginkonan ásamt þöglum andlitslausum aðilum á. Haga ætlar pabbi hans að eiga ásamt útlendingum.

Gott fólk. Þetta er honum að takast beint fyrir framan nefið á okkur. Samningsstaða fjölskyldu Jóhanneasr Jónssonar í bönkunum Íslensku hlýtur bráðum að fara að laskast. Gleymum ekki sögunni og gleymum ekki stóryrðum kaupmannsins sem situr í yfirveðsettri "eign" sinni fyrir norðan á meðan þjónar skottast um í nýju glæsivillunni í útlöndunum.

"þeir unnu" sagði svikahrappurinn í dag og vísaði í Davíð en hjörðin sem dansaði með öll árin er að missa trúna. Þarna skjöplast Jóni Ásgeir stórlega. það er nefnilega þannig að "VIÐ TÖPUÐUM".

Íslensk þjóð tapaði kæri Jón Ásgeir. Stríðið sem þú háðir við andstæðinga þína var háð til að geta fengið að ræna Íslenska þjóð óáreittur. Vonandi tekst Jóni Ásgeir ekki að telja meðvirka þjóð trú um að hann sé píslarvottur núna.

En verið þið viss. Það mun hann reyna....

Röggi

Ég mótmæli ofbeldi gagnvart valdstjórninni

Sagan endurtekur sig í sífellu. Núna er héraðsdómur Reykjavíkur sneisafullur af fólki sem telur ofbeldi góða leið til tjáningar. Þar er verið að taka fyrir mál fólks sem ákært er fyrir brot gegn valdstjórninni ef ég skil þetta rétt. Mótmælendur svokallaðir en sú tegund fólks telur sig ekki þurfa að lúta öðrum lögum en sínum eigin.

Ég veit hreinlega ekki nákvæmlega hverju er verið að andæfa þarna núna. Er þessi hópur að verja málsstað mótmælanna í upphafi? Telur þetta fólk að verið sé að lögsækja fyrir skoðanir? Á hvað rétti er troðið? Hver er málsstaðurinn núna?

þetta er gamla sagan. Á Íslandi er öllum tryggður réttur til að halda skoðunum sínum hátt á lofti. Menn geta mótmælt af lífs og sálar kröftum án þess að nokkur valdstjórn reyni að koma í veg fyrir. Þetta er grunnurinn....

En á hinn bóginn er ÖLLUM bannað að fara á svig við lög hvort sem menn eru að mótmæla eða ekki. Þeir sem ekki telja sig hafa geta farið eftir þeim umgengisreglum sem gilda fyrir ALLA þegna þessa þjóðfélags hvort sem það er í eða við Alþingi eða annarsstaðar verða auðvitað að svara fyrir þá hegðun. Hvað annað??

Dómstólar og lögregla hafa ekki sérstaka skoðun á því hvort ofbeldis eða brotamenn eru með rauð augu eða blá. Hugmyndin um að allir seu jafnir fyrir lögunum er heilög og ófrávíkjanleg. Hún er grunnurinn sem við byggjum allt á.

Lögreglu og dómstólum ber hreinlega að sjá til þess að svo sé. það hefur ekkert með góðan málsstað þeirra sem detta af veginum þrönga að gera eða hvort það sé í stóru eða smáu.

Einmitt og akkúrat þessa dagana ættum við að hafa þessi merkilegu gildi í heiðri. Vegum ekki að grunnstoðunum núna þegar dómstólar eru að reyna að standa í lappirnar.

Jafnvel þó gott fólk með góðan málsstað eigi í hlut.

Röggi

Bubbi í bullinu

það er auðvitað að gera Bubba of hátt undir höfði að vera að hafa opinbera skoðun á skrifum hans en ég læt það eftir mér þennan morguninn samt. Gamli gúanórokkarinn er nú genginn í lið með stærstu og mestu þjófum sögunnar og skilur ekki að þeir voru mennirnir sem settu hann svo að segja á hausinn.

Bubbi kallinn vill helst sleppa þjófunum og taka ónýta stjórnmálamenn á beinið. Bubbi þarf ekki að efast um að stjórnmálamenn munu fá það sem þeim ber en við sem höfum mestar áhyggjur haft af því að þeir sem stálu aurunum hans Bubba slyppu erum nú kannski að sjá vonarglætuna þessa dagana. Stjórnmálamenn stálu ekki þrautarvaralánum Seðlabankans og settu í eigin vasa og sendu svo Bubba litla reikninginn....

Sem betur fer er mjög að fækka í stuðningsliði bankamannanna og brátt munu furðuraddir eins og Bubba heyra fortíðinni að mestu til. Ég veit ekki hvernig popparinn kemst að sínum niðurstöðum en ef hann heldur svona áfram er nokkuð víst að hann er að syngja sitt síðasta...

Röggi

sunnudagur, 9. maí 2010

Beiting gæsluvarðhalds

Hún dálítið undarleg umræðan um gæsluvarðhaldsúrskurðina í yfir Kaupþingsmönnum. Mér sýnist ein skoðun eiga að vera gild og aðrar ekki. Alltof margir sem leggja orð í belg virðast telja að svona gæsla sé dómur yfir mönnum.

Og því fullkomlega eðlilegt að láta þessa skratta svitna smá á hrauninu. Þannig málflutningur er auðvitað út i hött þegar reynt er að ræða tæknileg grundvallaratriði málsins um gæsluvarðhaldsúrskurði.

Sumir hafa farið út í stórskemmtilegan samanburð. Nefnt ofbeldisfulla mótmælendur í sömu andrá og hvítflibbaglæpamenn bankanna. Sem betur fer er ekki til neitt í lögum sem fjallar um góða glæpi og vonda. Og þeir sem vilja ræða þessa nýjustu úrskurði eru ekki sjálfkrafa að leggja neina blessun yfir vinnubrögð þeirra Kaupþingsmanna.

Gæsluvarðhaldi er heimilt að beita að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. það er það eina sem skiptir máli. Þau skilyrði eiga við bæði háa og lága. það eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og allur samanburður eins og hann birtist víða núna liðónýtt innlegg í umræðuna um beitingu gæsluvarðhalds.

Röggi

laugardagur, 8. maí 2010

Pepsi deildin auglýst

Ég bara verð að segja það að auglýsingarnar sem birtast á stöð 2 vegna Pepsi deildarinnar í fótbolta eru ropandi snilld. Ég er haldinn áunnu óþoli gagnvart auglýsingum...

.. en stend mig að því að hlakka til að horfa á þessa trailera. Flottar hugmyndir frábærlega útfærðar...

Verðlaunastöff.

Röggi

föstudagur, 7. maí 2010

Fjölmiðlaskirkus Ólafs Arnarssonar

Ég hvet alla til að lesa kostuleg samskipti þeirra Sveins Andra og Ólafs Arnarsonar á facebook. Ég veit ekki hvað var í matinn hjá þeim í gærkvöldi en eitthvað fór það þvert í spekingana.

Ólafur Arnarsson er merkilegur nagli. Hann skrifar reglulega pistla á pressuna sem rekin er af strangheiðarlegum mönnum og grandvörum. Maðurinn er áheyrilegur mjög og skemmtilegur oft og Agli Helga finnst lika gaman að leyfa honum að mæta í þáttinn sinn til að tala illa um alla aðra bankamenn en Kaupþings.

Mér er í raun sama hvort hann borgað fyrir það eða hvort fjölskyldutengls eða eitthvað þaðan af verra ræður því en þannig er það bara.

Ólafur segist skrifa fyrir hugsandi fólk en það er öðru nær. Hann treystir á að nógu endurtekin dellan verði á endanum hinn eilífi sannleikur. það er leikurinn sem umbjóðendur hans léku árum saman og virkaði svo ljómandi vel þrátt fyrir hávært andóf hugsandi manna.

Örvæntingin sem skín í gegn hjá honum og hans mönnum þessa dagana eru góð tiðindi fyrir okkur sem erum í hinu liðinu. það segir okkur að PR tröll eins og Ólafur eru kannski að tapa trúverðugleikanum.

Og hugsandi fólki fari nú ört fjölgandi.

Röggi