miðvikudagur, 12. september 2012

Mótmælendur þrasa um heiður

Öðruvísi mér áður brá. 

þrasa mótmælendur, sem virðist vera lögverndað starfsheiti, yfir því hver á höfundarréttinn af því að hafa stöðvað ofbeldið sem byrjaði með beinu andófi gegn ríkisstjórn en endaði sem götuslagsmál við alsaklausa lögreglumenn.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gengu þarna fram fyrir skjöldu og get sagt að mig langar að skilja þennan pilt þegar hann segist vilja fá kredit fyrir. 

Margt má örugglega læra af þessum mögnuðu dögum þarna og ég vona að þeir sem ætla sér að hasla sér völl í mótmælabransanum reyni að draga þann lærdóm af að ofbeldi er og verður aldrei málið.

Ofbeldi gagnvart lögreglunni sem aldrei gerði annað en henni bar gat aldrei annað en stigmagnast. Það mun varla bæta neinn málsstað eða gera honum gott að gera hlut þeirra sem vilja brjóta og brenna í andófi stóran.

Þetta er eitt af því sem þeir sem ekki vissu lærðu þó ég sé ekki sannfærður um að allir vilji meðtaka það opinskátt.

Mér fyndist mannsbragur að því að þessi piltur og fleiri hefðu áhuga á því að kryfja það af hreinskilni af hverju "baráttan" varð svo fljótt yfirtekin af þeim sem vildu lemja á lögreglunni og öðrum þeim sem höfðu ekkert til saka unnið annað en að sinna þeim störfum sem þjóðfélagið ætlast til af þeim.

Það er nefnilega ekki síður áhugavert hver kastar fyrsta steininum og af hverju heldur en það hver stöðvaði steinakastið.

Röggi
sunnudagur, 9. september 2012

Falleinkun Inga Freys

Fréttastjóri DV skrifaði pistil í blaðið sitt um daginn. Þar skrifar Ingi Freyr eins og hann sé hlutlaus fagmaður um mál er tengjast Gunnari Andersen ákærðum fyrrverandi forstjóri FME. 

Getur Ingi Freyr fréttastjóri DV sem leikur hlutverk í þessari sögu litið á sig sem áreiðanlegt vitni í þessu máli eða hlutlaust? Slíkir smámunir þvælast ekki fyrir blaðinu eins og stundum fyrr.

Fréttastjórinn ákveður að taka órökstuddar fabúleringar Gunnars um leka til kastljóss í gegnum Guðlaug þór sem sannleikann og byggir þennan afleita pisltil á sögunni sem hinn ákærði forstjóri talar um. 

Svo er þvælt um sölu eignar Guðlaugs Þórs eins og þar hafi átt sér stað stórglæpur sem skilað hafi miklum og þá væntanlega óeðlilegum hagnaði. Hvorutveggja er frétt um ekki neitt og hagnaðar hluti sögunnar fjarri sannleikanum.

Fréttastjóri DV hefur tekið sér ákveðna stöðu gegn manni og með öðrum og ætlar sér hvað sem hver segir að reyna að koma glæp sem nú er verið að fjalla um á hendur "hans" manni yfir á þann sem saksóknari telur með nokkuð vel rökstuddum grun fórnarlamb í málinu.

Ingi Freyr fær falleinkunn fyrir þetta og enn einu sinni hendir það að blaðið sem borgar honum laun gerist bert að því að kunna ekki að taka menn af aftökulistanum hafi þeir á annað borð verið settir á þann lista.

Hér gékk maður undir manns hönd þegar stjórn FME ákvað að leysa Gunnar frá störfum og framleiddu mergjaðar samsæriskenningar um mann og annan. Þeir eru flestir þögulir mjög núna þegar þetta mál ber á góma og vottar jafnvel fyrir skömm hjá sumum.

En þó ekki öllum...


Röggi

fimmtudagur, 6. september 2012

Launafarsi ríkisstjórnarinnar

Nú er það svart. Velferðarráðherra hækkaði laun forstjóra landspítala all duglega án þess að spyrja kóng eða prest. Ekki er að spyrja að viðbrögðum þeirra sem vilja helst að allir hafi jafn léleg laun.

Launastefna norrænu velferðarstjórnarinnar hefur tekið á sig ýmsar furðumyndir. Höfundur peningamálastefnunnar Már Guðmundsson stendur í málaferlum við ríkið í makalausri viðleitni til þess að fá þau laun sem forsætisráðherra lofaði þegar hann var munstraður í seðlabankadjobbið.

Þetta er allt einn stór farsi vegna þess að ríkisstjórnin festist klaufalega í misheppnaðasta populisma seinni tíma þegar lagt var blátt bann við hærri launum en þeim smánarlegu sem Jóhanna fær.

Ég skora á jafnláglaunastefnu fólk að stofna til undirskrifta svo afturkalla megi þessa ákvörðun velferðarráðherra og losna við forstjóra landspítalans úr landi og ráða til starfa einhvern sem uppfyllir fyrst af öllu þær kröfur að fara ekki fram á markaðslaun.

Annað er aukaatriði....

Röggimiðvikudagur, 5. september 2012

Meiðyrðin


Margir áhugaverðir vinklar eru á meiðyrðamáli Gunnlaugs Sigmundssonar á hendur bloggaranum Teit Atlasyni. Allskonar hefur verið sagt og ritað um þetta mál.


Sumir þola Gunnlaug alls ekki af ástæðum sem skipta hreint engu máli þegar rætt er um það hvort menn eigi rétt til þess að verja mannorð sitt með tilvísan í meiðyrðalöggjöfina.

Meira að segja bullandi ósympatískir menn hafa að sjálfsögðu ekki minni rétt en þeir"góðu". Við verðum að standa klár á því.

Lögfræðingur Teits beitti þeirri snörpu vörn hafi ég skilið rétt að úr því að mál Gunnlaugs hafi verið til umræðu lengi þá sé af þeim ástæðum ekki mögulegt að fremja meiðyrði. 

Vonandi verða þetta ekki rökin sem sýkna Teit því ekki vildi ég máta þessi rök við öll sakamál. Ekki dugir að benda á að aðrir séu líka þetta eða hitt.

Allir eiga að hafa sama rétt fyrir lögum og þegar mér finnist einhver alveg glataður hef ég auðvitað fullan rétt til þess að halda þvi fram og velja mér til þess þau orð sem henta mér.

Ég þarf bara að vera með það á hreinu að fara ekki í fýlu ef viðkomandi telur orðin mín standa nærri mannorði sínu.

Þannig eru leikreglurnar og ég veit ekki hvernig þær geta verið öðruvísi.

Röggi


sunnudagur, 2. september 2012

Hvernig er málið alvarlegt Steingrímur?

Það er þannig að ráðherrar hér eru undanþegnir almennum ákvæðum er varðar löggjöf okkar. Ráðherrar eru þeir hinir sömu og setja lögin sem þeir hafa svo sjálfsvald um hvort þeir taka mark á þegar á bátinn gefur.

Þegar Ögmundur brýtur lög og er dæmdur fyrir hefur hann ekki sömu áhyggjur af slíku og þú og ég. Hann hafnar bara niðurstöðunni eindregið og kemur með sitt eigið mat og sýknar sjálfan sig í raun sem er kannski rökrétt niðurstaða manns sem alinn er upp í systemi þar sem þingmenn eru í senn löggjafi og framkvæmdavald og velur einnig dómara.

Einu áhyggjurnar sem Ögmundur hefur eru af því hvernig pólitískur styrkur hans stendur nú þegar hann situr dæmdur ráðherra. Hvort formaðurinn hans hefur heilsu og pólitíska hagsmuni af því að þvínga hann til afsagnar. 

Þetta er í raun hlægilegt en mun að líkindum ekki breytast fyrr en við komum okkur upp þeim eldveggjum sem þrískipting valdsins á að tryggja okkur.

Hið raunverulega dómsvald er í höndum Steingríms J. Hann einn getur fullnustað dóminn sem upp hefur verið kveðinn. 

Steingrímur leikur kunnuglegt stef og segir málið alvarlegt. Hvað þýða slík ummæli? Og hvaða afleiðingar hefur þessi tiltekni alvarleiki málsins fyrir Ögmund? 

Engan auðvitað og lífið heldur sinn vanagang og þjóðin annað hvort lætur sér fátt um finnast eða fer í skotgrafirnar þar sem við ýmist verjum "okkar" fólk út yfir gröf og dauða eða bendum á dæmi um að aðrir hafi nú gert þetta áður. 

Og bíðum svo eftir því að eitthvað eða einhver muni innleiða fyrir okkur gagnlegt siðferði í pólitík. 

Að líkindum fer eins um þetta mál og önnur sömu tegundar áður og fyrr. Þau verða mögulega innanhúsvandamál hjá viðkomandi flokki og annað ekki. 

Þegar Steingrímur sér málið alvarlegt er hann einungis að hugsa pólitískt fyrir flokkinn sinn og ríkisstjórn. Hann er ekki að hugsa um önnur mun léttvægari prinsipp sem snúa að þjóðinni eða virðingu fyrir þeim lögum sem hér eru sett.

Þannig alvarleiki máls er fyrir okkur hin...

Röggi