fimmtudagur, 28. apríl 2011

Aðeins um fótbolta "leikara"

Stundum horfi ég á fótbolta og hef gaman af. Ég horfi mikið á dómarana enda eru prinsippin í dómgæslu oft þau sömu og hjá okkur körfuboltadómurum. Ég læt hafa mig í það að horfa á meistardeildina og get alveg notið hennar þegar vel tekst til. Annars er enski boltinn minn bolti.

Í gær spiluðu Real Madrid og Barcelona og gríðarspenna eins og alltaf þegar þau spila og ekki síst núna þar sem þau mætast oft á stuttum tíma. Þessir leikir ættu ef allt væri sem best að vera veisla fyrir fótboltaáhugamenn. Þjálfari Real er magnaður karakter sem kann að stela sviðsljósinu og kynda undir og það getur verið skemmtilegt. Dýrasta fótboltalið sögunnar í höndum hans að spila við....

....hugsanlega eitt besta lið sögunnar sem hefur innanborðs eitt af undrum fótboltans í Messi. Gríðarlegur ljómi yfir Barca og vilji þeir halda boltanum í 90 mínútur þá gera þeir það. Af sögulegum ástæðum eru þessir leiki el classico fyrir alla fótboltaáhugamenn hvar sem er í heiminum.

Eftir leikinn í gær rífast menn yfir rauðu spjaldi og forheimskum dómara og það munu menn gera svo lengi sem fótbolti verður stundaður. Ég hef meiri áhuga á öðrum punkti þessarar sögu.

Af hverju tala fáir um það hversu óþolandi er að horfa á þessa milljónamæringa eyða nánast heilum leik í að blekkja dómara? Feiknagóðir leikmenn liggja eins og afvelta grasbítar emjandi af kvölum án ástæðu og rísa svo upp frá dauðum þegar andstæðingurinn er kominn með ósanngjarna refsingu eða að dómarinn sýnist ekki ætla að falla fyrir trikkinu. Og þá alheilir....

Allt er leyfilegt og tilgangurinn helgar meðalið. Það væri verulega áhugavert að taka saman tölfræði í þessu efni og gera samanburð. Þið verðið að afsaka að mér er alveg sama hversu "góðir" þessir gæjar eru í fótbolta, ég get ekki borið virðingu fyrir mönnum sem reyna án afláts að hafa rangt við.

Í gær fékk leikmaður sem er reyndar allt að því ofbeldismaður í fótbolta rautt spjald fyrir að koma eiginlega ekkert við einn af þessu rándýru leikurum. Margir, dómarinn þar með, trúðu leikaranum sem vann magnaðann leiksigur enda ekki að annað að sjá við fyrstu sýn að um gróft brot væri að ræða.

Hvers á dómarinn að gjalda? Þeir sem halda að auðvelt sé að sjá i gegnum svona nokkuð hafa líklega aldrei dæmt kappleik í neinu sporti. Í gær töpuðu allir og fótboltinn varð algert aukaatriði. Snilldartilþrif Messi megna ekki að fá mig til að hugsa um annað en þessa hörmung sem þessir "leikmenn" nenna að bjóða okkur upp á.

Mikið óskaplega vona ég að hvorugt þessara lið vinni stóru dolluna. Mér finnst fair play skipta miklu og það er hugtak sem leikmenn spænsku risanna þekkja ekki.

Röggi

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Einræði Ólafs Ragnars

Byltingin étur nefnilega stundum börnin sín. Það sannast svo rækilega á vinstri mönnum sem nú get alls ekki þolað Ólaf Ragnar Grímsson sem hefur þó ekki tekið neinum eðlisbreytingum hvort sem horft er til persónueinkenna eða pólitískra frá því hann var fyrst kjörinn forseti við húrrahróp.

Auðvitað er það svo kaldhæðnislegt að það fólk sem helst hefur barist fyrir því að allt niður í 15% landsmanna geti krafist þess að blásið sé til þjóðaratkvæðis um hvað eina skuli nú skyndilega setja sig eindregið upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave en fagna hugmyndum um samskonar afgreiðslu á kvótanum.

Fólkið sem mest og lengst hefur stutt Ólaf Ragnar og hans embættisfærslu sem hefur alla tíð markast af pólitískri hentistefnu hans og samherja hans ber hvað mesta ábyrgð á því hvernig hann er að meðhöndla embættið. Við sem gerðum athugasemdir við það hvernig hann misnotaði embættið í kringum fjölmiðlalögin máttum þola háð og spott og ásakanir um pólitískan rétttrúnað. En í raun var það einmitt pólitískur rétttrúnaður fylgismanna Ólafs Ragnars sem nærði þann forseta sem nú hagar sér eins og konungborinn einvaldur á Bessastöðum.

það er vont að kunna ekki að hafa grundvallarskoðanir og það sannast hvað best á fyrrum vinum Ólafs Ragnars í pólitík. það er ekki fyrr en besti vinur aðal kann ekki að hafa réttar skoðanir sem systemið er gagnrýnt. Fram að því höfðu vinstri menn í þessu landi enga aðra skoðun á málskotsréttinum og beitingu hans en þá sem hentaði þeirra pólitík frá einum degi til annars.

Ég hef sagt það lengi að ef Ólafur Ragnar ætlar sér að breyta embættinu ber honum að leyfa okkur kjósendum að taka afstöðu til þeirra breytingu þegar hann er kosinn. Ég tek það fram að ég nenni ekki að taka þátt í orðhengilshætti um að hann sé einungis að nýta sér rétt sem embættið hefur alltaf haft...

Í mímum huga er meðferð hans á embættinu út í hött og óþolandi hvernig hann umgengst bæði löggjafa og framkvæmdavald í þessu landi. Eitt er þó að senda mál eftir pólitískri og persónulegri hentisemi í þjóðaratkvæði.....

...annað er að túlka efnislega og taka hápólitíska afstöðu til mála sem réttkjörin stjórnvöld eiga að véla um í hvert skipti sem fjölmiðlar allra landa setja upp myndavél eða taka upp símtól. Þetta er í prinsippinu tómt rugl og alger stefnubreyting sem ég hygg að Ólafur Ragnar hafi bara ekkert umboð til að taka.

Ég geri mér grein fyrir því að margir eru ánægðir með það hvernig hann er að reyna að verja málsstað okkar nú enda höfum við engin stjórnvöld til þess. Þau eru hreinlega ekki til neins því miður en það litla sem úr þeirri átt hefur komið hefur eiginlega ruglað umheiminn fremur en hitt enda skilja siðmenntaðar þjóðir auðvitað ekki hvernig stjórnsýsla er notuð hér uppi.

En þó margir sjái Ólaf Ragnar sem bjargvætt þessa dagana þá er gott að muna að gæði þess að einhver einn afdankaður stjórnmálamaður taki stjórn landsins yfir eru ekki mæld af góðu dögunum heldur þeim slæmu.

Þar liggur hættan og því er best að hafa eina grundvallarskoðun og í mínu tilfelli er hún sú að Ólafur Ragnar sé á fullkomunum villigötum með embættisfærslu sinni og á skjön við það sem hann var kosinn til. Á meðan við viljum þingræði legg ég til að við höldum okkur við það en ekki duttlungafullt einræði Ólafs Ragnars Grímssonar.

Röggi

laugardagur, 16. apríl 2011

Icesave vörn Svavars Getssonar

Félagi Svavar Gestsson heldur úti þætti á INN sjónvarpsstöðinni. Ég hef almennt ekki þrek til að horfa á þann þátt en rakst fyrir tilviljun á þátt þar sem Svavar tekur til varna fyrir fyrsta Icesave samningi hans og Steingríms fjármála.

Svavar er óvitlaus maður og röskur málafylgjumaður og auðvitað er það í mannlegu eðli að trúa því að maður sé að gera rétt og verja þá trú þó að í tilfelli Svavars sé sú vörn harla vonlaus. Svavar dregur þarna upp skilti frá Þórólfi Matthíassyni hagfræði gúru vinstri manna sem hefur með málflutningi sínum í Icesave málinu tryggt sér ævarandi faglegt áhrifaleysi.

þórólfur kemst auðvitað að þeirri niðurstöðu að við hefðum best gert með því að kokgleypa stórsigur þeirra félaga, hans, Svavars. Indriða H og Steingríms J. Þetta getur Þórólfur sett upp á glæru og stutt tölum. Mögnuð grein hagfræðin og ekki verður hún skiljanlegri þegar menn hætta að greina mun á henni og pólitík eins og Þórólfur hefur nú gert að karrier.

Ég hef ekki heilsu í að fara mjög djúpt í þessa stórmerkilegu vörn Svavars en vill þó nefna það að hann talar þar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þurft mál til að vera á móti og fundið heppilegt mál Í Icesave.

Svavar lítur sem sagt á það sem skemmdarverk sem var rekið áfram af annarlegum pólitískum hvötum að bjarga þjóðinni frá hörmunginni sem hann og hans gömlu félagar í hópi sósíalista ætluðu að lauma inn á okkur.

Þetta er kyngimögnuð söguskoðun og skýring og varla getur Sjálfstæðisflokkurinn fengið betri vottun á það verk sitt að hafa staðið í farabroddi þeirra sem stöðvuðu Svavars samninginn en þetta tal.

Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né þjóðin "þurft" neitt mál til að vera á móti. Ríkisstjórnin bara færði henni þennan landráðasamning og það er vissulega rétt hjá Svavari að það var ekki síst Sjálfstæðisflokknum að þakka að honum var hafnað.

Ég held bara að við Sjálfstæðismenn verðum að gangast við glæpnum sem félagi Svavar ber á okkur í þessum efnum.

Röggi

miðvikudagur, 13. apríl 2011

Af hverju þessi móðursýki?

Ég les það í dag og kvöld að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru hreinlega farnir á límingum sem reyndar voru ekki þolmiklar fyrir. Hver á fætur öðrum fjargviðrast vegna þess að stjórnarandstöðuflokkur dirfist að bera upp tillögu um vantraust á ríkisstjórn.

Bloggarar missa sig sumir í óhemjuskap og stóryrði og meira að segja ritstjóri eyjunnar nennir að elta ólar við kjaftasögu af einum "svikaranum" eins og um heimssögulegan stórviðburð sé að ræða. Hvurslags vetfangur er þessi ágæti miðill að verða??

Hitinn og móðursýkin í umræðunni er algerlega út í bláinn og byggist að mér sýnist á staurblindum pólitískum rétttrúnaði með talsverðu af skilnings og virðingarleysi fyrir lýðræðisreglum og venjum þingræðisríkja.

Mín skoðun var að þessi tímasetning væri kannski ekkert sérstaklega sjarmerandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sú afstaða mín hefur ekki breyst.

En ef eitthvað er að marka yfirgengilegan pirring þeirra sem styðja ríkisstjórnina sýnist mér að það sem í fyrstu virðist sigur í atkvæðagreiðslu ekki endilega vera neinn sigur þegar upp er staðið heldur miklu fremur afhjúpun...

Röggi

mánudagur, 11. apríl 2011

Nú þarf landsfund

Við Sjálfstæðismenn tölum gjarnan niður til VG þegar talið berst að órólegu deildinni þeirra. Þar er stanslaus ófriður og ónauðsynlegt fyrir flokksmenn að leita út fyrir flokkinn eftir óvinum eða pólitískum og persónlegum andstæðingum. Nú orðið nennir varla nokkur þar á bæ að reyna að þræta fyrir þetta.

Steingrímur reynir að sigla milli skers og báru í hverju málinu á fætur öðru í máttvana viðleitni sinni til að halda flokknum saman og sitt sýnist hverjum. Margt bendir til þess að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta þessari siglingu og hyggist nú reyna í síðasta sinn að ná flokknum undir sig.

Eins og andstæðingar Bjarna Ben innan Sjálfstæðisflokksins tala og skrifa nú eftir nei niðurstöðuna sýnist mér ekki eftir neinu að bíða með að boða til landsfundar og láta sverfa til stáls. Ég ætla rétt að vona að flokkurinn láti mál ekki þróast á þann veg sem VG hefur gert sem er að stinga höfði í sand og láta eins og allt sé í lagi þegar það er alls ekki þannig.

Ég er sammála þeim sem segja að forysta flokksins þurfi nýtt umboð eftir nei niðurstöðuna þó mér líki ekki aðfarirnar sem notaðar eru stundum þegar menn koma þeim vilja sínum í orð eða á prent.

Átök eru eðlileg innan flokka og ekki ástæða til að fela þau þannig séð en eins og umræðan er að þróast hjá andstæðingum Bjarna get ég ekki betur séð en best sé að boða til landsfundar og reyna að hreinsa til og velja flokknum forystu hvort sem þar er sú sveit sem nú stýrir eða einhverjir aðrir....

....enda get ég ekki séð að það verði sérlega áhugavert né heilsufarslega hollt pólitískt fyrir formann flokksins að sitja undir þeirri orðræðu sem andstæðingar hans hafa uppi núna. Það er hvorki skynsamlegt fyrir hann né flokkinn sjálfan að slíkt gangi lengi án uppgjörs.

Og hana nú....

Röggi

laugardagur, 9. apríl 2011

Herra forseti, ég segi......

Stundin er runnin upp og ég ætla á kjörstað að merkja við kjörseðilinn. Andskotans Icesave málið....

Ég hef reynt að halda því fram að ekki sé hægt að komast algerlega til botns í því hvað sé rétt eða hvað sé rangt að gera í kjörklefanum. Firnagóð rök séu til beggja átta og óvissan æpandi hægri vinstri. Þannig er auðvitað ekki hægt að skilja við málið og því hef ég þvingað mig til að komast til botns í mínum eigin kolli. Ekki lítið í ráðist....

Það hef ég gert með því að lesa mér til og reyna betur að skilja það sem ég er að lesa. Og ég hef talað við fólk sem ég treysti vel og hefur um margt svipaða lífssýn og skoðanir en ég vissi að hefði aðra skoðun en ég á málinu. Slíkt er bráðhollt öllum mönnum.

Og ég fór að reyna að skilja hugtakið "kalt hagsmunamat" sem Bjarni Ben notar svo iðulega. Reyndi að skilja tilfinningar eins og réttlæti og vanmáttinn og reiðina sem við finnum þegar stórar þjóðir beita okkur kröftum til að koma fram sínum málum.

Í mínum huga er ekkert réttlæti í því að við borgum þetta og nálgun Steingríms í þessu máli frá fyrstu dögum þess hefur forhert margan manninn í andstöðunni enda enginn maður núlifandi reynst viðsemjendum okkar drýgri vinur en formaður VG. Ég hreinlega lem fastar á lyklaborðið við uppryfjunina á baráttu Steingríms og félaga fyrir fyrsta samningnum....

Margir myndu segja að það styrki nei afstöðuna að ryfja upp söguna í þessu enda hefur endurtekið nei tryggt okkur mun betri samning. Aðrir benda svo á að nei núna tryggi okkur einungis málaferli sem muni aldrei fara á þann veg að við borgum ekki neitt.

Ég hef áður sagt að ekki gengur að tengja þetta mál við ESB eða líf ríkisstjórnar. Það er pólitískur sandkassaleikur sem ég nenni ekki að leika. Þetta mál er ekki hægra vinstra þras og ekki má það snúast um það með hvaða liði maður heldur.

Þetta stendur eitt og sér finnst mér og það þarf að sortera frá hugsanir um það hvað ef og hvað ef ekki. Ef heimurinn væri betri og viðsemjendur okkar öðruvísi. Ef reglur væri ekki svona eða hinsegin. Af hverju er lífið svona ósanngjarnt? "Við" gerðum ekkert rangt og af hverju geta "þeir" ekki séð það?

Staðan sem upp er komin er bara þannig að annað hvort semjum við svona eða förum inn í réttarsal og treystum á hugvísindi sem heita lögfræði. Það er núið sem við horfumst í augu við. Tilfinningar um réttlæti heimsins heyra gærdeginum til í þessu tilliti. Nú þarf kaldan haus...

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið algerlega úti á túni í þessu öllu og málfutningur þeirra grútmáttlaus enda hver höndin þar uppi á móti annarri sem endranær. Ég hef því ekki fundið hvöt til að taka mark því sem þar hefur verið sagt. VG veit ekkert hvað stendur til og Samfylkingarfólk kýs út á pólitíska rétthugsun.

Ég hef talað við ótrúlega margt frábært fólk í mínu pólitíska umhverfi og skipst á skoðunum undanfarna daga. Í stuttu máli þá hef ég komist að því að þó nei sé "rétta" svarið í prinsippinu er já skynsamlegt. Réttlætiskenndin æpir á nei en við förum bara svo skammt á henni...

Skoðun mín á regluverkinu hefur ekki breyst. Skoðun mín á þeim sem ábyrgð eiga að bera ekki heldur. Álit mitt á bankaræningjunum er óbreytt. Ég heinlega þoli ekki að þurfa að borga krónu af þessum meintu skuldum okkar. Ég er beinlínis hundfúll með það...

..en hef látið sannfærast um okkur sé samt hagstæðast að gera það. Ég hef látið sannfærast um að við munum aldrei fara þannig út úr dómsmáli að við sleppum ódýrar eða á jöfnu. Ég trúi því að endurheimtur úr búi bankans verði jafnvel betri en menn héldu. Ég hef stækkað rökin fyrir því að gott sé að semja við fólk fremur en að fara í langvinnt tvísýnt stríð. Og síðast en ekki síst hef ég skilgreint sigur upp á nýtt í þessu samhengi.

Trúlega mun ég hugsa eins og margir hvort ég sé nú örugglega að gera rétt og líklega sækja góðu rökin fyrir neiinu duglega á mig strax eftir að ég hef merkt við jáið. En ég hef tekið ákvörðun og lifi með henni og ætla að bera virðingu fyrir niðurstöðunni hvernig sem hún verður og ekki að láta það eftir mér að gleðjast komi síðar í ljós að mín niðurstaða hefði skilað okkur betur fram en hin.

Herra forseti; ég segi já

Röggi

miðvikudagur, 6. apríl 2011

Nei eða já?

Ég hef verið að reyna að koma mér upp heilsteyptri og rökréttri skoðun á Icesave og gengið misvel. Ég hef samúð með málsstað beggja fylkinga í þessu máli og finnst enginn hafa alveg rétt fyrir sér eða fullkomlega rangt.

Hræðsluáróður einkennir málflutning beggja og kannski er það engin furða því áhætta fylgir báðum ákvörðunum og óvissa. Margir nota afstöðu sína til ESB til að komast að niðurstöðu en það finnst mér liðónýt aðferð. Sumir vilja fella ríkisstjórnina með því að segja nei og það er í sjálfur sér göfugt markmið en má ekki móta afstöðuna til þessa máls að mínu viti.

Innst inni held ég að við séum öll nei fólk. Við myndum ekki taka það í mál að borga skuldir Actavis erlendis þó ríkisstjórn einhvers lands hefði ákveðið að gera það og senda okkur svo reikning fyrir. Í prinsippinu er það auðvitað galið og sífellt fækkar þeim sem nenna að reyna að halda því fram að til séu lög sem skylda okkur til þess...

..heldur heitir það að það sé skynsamlegt og hagstætt að gera það samt. Ég var í hópi þeirra sem börðust gegn "stórsigri" Svavars og Steingríms í upphafi Icesave sögunnar og það hefur kannski mótað mína afstöðu dálítið og ég kann illa að skipta um gír í málinu.

Steingrímur lagði allt sítt líf og kraft í að koma okkur til þess að borga 700 milljarða og lofaði okkur enda heimsins ef það gerðum við ekki. Steingrímur varð lítill inni í sér og sá allan heiminn fá okkur á heilann og ekki tala eða hugsa um annað. Það hefur auðvitað ekki gerst og nú tala fáir þannig um þetta mál lengur.

Þrátt fyrir allt þetta eru ýmsir sem ég ber mikla virðingu fyrir sem ætla að segja já. Og nota til þess margfrægt kalt hagsmunamat. Þetta fólk talar margt af skynsemi finnst mér og minnir á hversu mikilvægt getur verið að semja um hluti fremur en að stofna til stríðs sem enginn vinnur þegar upp er staðið. Engum sé beinlínis einum um að kenna að þessi vandi sé til staðar og því sé hollt og gott að semja og halda svo áfram.

Nei fólkið segir tölur um endurheimtur úr búi bankans ofmetnar en já fólkið vanmetnar og langmenntaðir menn í hagfræði draga fram tölur máli sínu til stuðnings og allt virðist þetta geta verið líklegt. Fyrir okkur sem viljum taka ákvörðun sem byggð er á öðru en pólitískri rétthugsun er úr verulega vöndu að ráða.

Hvað á ég að láta ráða minni afstöðu? Er það réttlætiskenndin kannski en henni er stórlega misboðið ítrekað bæði af Íslenskum yfirvöldum og erlendum. Er það áhættumat og þá spyr ég á hverjum er mark takandi? Er það prinsippið um að borga ekki skuldir einkafyrirtækja en það myndu ríkisstjórnir Hollands og Englands líklega aldrei gera?

Á ég að trúa því að allt fari til fjandans ef við ekki semjum núna og láta þá grundvallarsjónarmið víkja fyrir skynseminni?

þetta er ljóta ástandið og styttist mjög í kjördag og á bakvið nei afstöðu mína er ekki enn full sannfæring.....

Röggi