sunnudagur, 27. febrúar 2011

Hvar er pólitíska siðbótin sem lofað var?

Það er ekki í lítið ráðist að ætla að kenna heilli þjóð að hugsa um og venjast nýju siðferði í stjórnmálum. Við höfum vanið okkur við það að verja "okkar" fólk út í eitt og drepið alla gagnrýni með því að benda á að "hinir" séu nú ekki mikið betri.

Í kjölfar hrunsins okkar stukku fram riddarar breyttra tíma sem tóku til við að lemja húsbúnað til að koma vondum. vanhæfum og spilltum stjórnvöldum frá. Nú skyldi upphefja nýjan sið hér og á endanum hafðist hið fyrra af. Nefnilega að koma hinum vondu valdhöfum frá. Siðbótin lætur hins vegar á sér standa.....

...og eins og áður og fyrr er gagnrýni kæfð í pólitísku þvaðri og reyk. Tvö nýleg dæmi langar mig að nefna núna sem sorglegan vitnisburð þess að okkur miðar alls ekkert áfram. Fulltrúar búsáhaldafólksins, hins nýja Íslands, eru ekki þátttakendur í byltingunni þó þeim hafi skolað í ráðherrastóla sem fulltrúar hennar.

Árbót er dapurlegt dæmi um kjördæmapot þart sem fólk sem kosið er til þess að setja okkur lög þjösnast á skatttekjum okkar til að gera kjördæminu greiða. Ríkisendurskoðun tekur af öll tvímæli í þessu. Í þessu máli vill það ráðherranum líklega til happs að flokkarnir flestir eru viðriðnir klúðrið og því hagur allra að láta eins og ekkert sé. Nema þjóðarinnar auðvitað...

Svandís Svavarsdóttir brýtur lög og fær hrós að launum frá æðsta presti fyrir að hafa reynt að láta pólitík taka lögum fram. Það sem er sorglegast í þessu er að við kippum okkur ekkert upp við þetta. Steingrímur er enn maðurinn og Svandís stoltur stuðningsmaður pólitískrar sannfæringar sinnar og væntanlega með byssuleyfi á næsta lögbrot ef henni sýnist svo.

Hvar eru pottalemjandi bytlingarhetjurnar nú? Var byltingin kannski bara pólitísk borgaraleg óhlýðni til þess eins gerð að koma rétta fólkinu að? Hvað varð um fagurgalann um nýtt land? Stóð aldrei til að herma siðbótina upp á nýju ríkisstjórnina?

Kannski er erfitt að finna upphafsreitinn. Staðinn þar sem við hættum að benda á að okkar fólk megi alveg vera siðblint af því að hinir voru það svo lengi. Haldið þið kannski í alvöru að með því að safna fólki saman til að rétta yfir Geir Haarde og búa til þing um stjórnarskránna muni allt lagast?

Siðbótin kemur frá okkur sjálfum. Þeir sem búast við því að við náum pólitísku siðferði nágrannaþjóða okkar með því að pólitíkusar setji lög um við skulum verða siðmenntuð eru á villigötum. Við þurfum að þora og við þurfum að vilja.

Við erum orðin samdauna afdalamennskunni og kennum svo pólitíkusunum um. Það stendur upp á okkur sjálf að breyta. Engin lög og engir stjórnmálamenn munu breyta hugarfari þjóðar á korteri.

Ég krefst þess að þeir sem bera ábyrgð í þessum málum báðum axli þá ábyrgð af stórmennsku og pólitískri reisn.

Af hverju ekki?

RöggiRöggi

föstudagur, 18. febrúar 2011

Rökhugsun okkar Ólafs Ragnars

Það var í desember minnir mig sem ég veðjaði við kunningja minn, þrautreyndan lögmann og ljóngáfaðann, um það hvort Ólafur Ragnar léti það eftir þjóðinni að fá að kjósa um Icesave. Við erum báðir Sjálfstæðismenn og á löngum köflum stutt á milli skoðana okkar í pólitík.

Ég setti aurinn á að forseti myndi undirrita en kunninginn var sannfærður um hið gagnstæða og var sigurreifur og er enn. Að sið lögmanna beitti hann fyrir sig rökum og vitnaði í það sem á undan er gengið máli sínu til stuðnings og taldi Ólaf Ragnar ekki geta verið sjálfum sér samkvæmur ef hann undirritaði. Þar er ég honum reyndar nánast sammála.

En ég benti honum á að Ólafur Ragnar heyri ekki undir ákvæði um samkvæmni og rökrétta framvindu mála og gerði grín að þessum ályktunum lögmannsins og barnaskap. Ólafur Ragnar er fyrst og framst stjórnmálamaður sem hugsar um eigin stöðu og vinsældir.

Andrúmið er að breytast finnst mér. Stjórnmálin eru gersamlega uppgefin á þessu erfiða máli enda tók það ekki lítið á að halda Steingrími frá þeirri fullkomlega fáránlegu hugmynd að semja um það sem hann samdi um síðast.

Þjóðin sjálf er líka orðin afar þreytt á Icesave og þegar stjórnmálamenn koma núna og segjast vilja "klára" málið þá hljómar það sem fagur fuglasöngur. Iss, hvað eru 50 000 milljónir? Og þó það yrði kannski aðeins meira. Við vorum að semja um að sleppa við 500 milljarða og svo fáum við bara lánað fyrir þessu. Íslenskara verður það varla.

Hvað borgar þú í skatta? Hvað þarf marga eins og þig til að ríkið öngli saman 50 000 milljónir í tekjur til að borga? Íslensk þjóð hefur aldrei hugsað um svona hluti. Vextir og raunvextir og yfirdráttarvextir og hvað þetta heitir allt er leiðinlegt. Yfirdráttur er aftur á móti mikið stuð...

Ég játa það að ég hef vissa samúð með báðum fylkingum. Þetta bévítans mál er að þvælast fyrir að mér skilst og áhættan af dómstólaleiðinni langt því frá léttvæg. Lögfræði er skrýtinn bransi og fátt virðist gefið og mér sýnist auk þess að réttlætiskennd ráði meiru en lögfræði hjá þeim sem vilja setja undir sig hausinn og taka hvaða þann slag sem við þurfum að taka afneitum við þessum samningi.

Réttlætiskennd minni er líka stórlega misboðið og mér finnst svo gersamlega óþolandi að þurfa að taka krónu á mig vegna Icesave enda trúi ég því ekki fyrir fimm aura að viðsemjendur okkar myndu gera það sama í okkar stöðu.

Ég tel enn að Ólafur Ragnar muni skrifa undir og muni týna til þau rök sem henta þeirri ákvörðun. Í þeirri stöðu sem upp er komin mun hann ekki geta glatt alla eins og síðast þegar öll þjóðin barðist við þvermóðskuna í félaga Steingrími. Því tel ég að stjórnmálamaðurinn taki yfir og hann safni í leiðinni prikum frá félögum sínum í ráðherrabústöðunum.

Þar slær hann tvær flugur í einu höggi því slík ákvörðun gleður varla gamla pólitíska andstæðinga sem fara kannski fremstir í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðgreiðslu. Undarlegt hvernig tíminn fer með menn og hvernig áður ónýtur málsstaður verður skyndilega öndvegis.

Það er ekki í lítið ráðist að ætla að lesa í Ólaf Ragnar og enn undarlegra að veðja um það hvernig hann bregst við. Svo er eitt furðulegt með hann sjálfan mig.....

Ég er ekki hlynntur því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og vill treysta löggjafanum til að leysa mál eins og Iceasave. Samt einhversstaðar innst í kollinum vona ég að Ólafur Ragnar skrifi ekki undir og að ég tapi veðmálinu og hafi hraustlega rangt fyrir mér um samkvæmnina og rökrétta framvindu.

Djöfull er stundum erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur alltaf og kannski er ég bara ekkert betri en Ólafur Ragnar þegar kemur að samkvæmni og rökhugsun.

Röggi

Pólitísk rétthugsun og undirskriftasöfnun

Ekki rekur mig minni til þess að undirskriftasöfnun hafi verið jafn mikið á milli tanna á fólki eins og sú sem fram fór vegna Icesave frumvarpsins. Allskonar fólk hefur skyndilega mikinn áhuga á tæknilegum atriðum og frávikum sem alltaf hafa verið til staðar þegar undirskiftum er safnað á hvaða hátt sem það hefur verið gert.

það er eins með þetta mál og mörg önnur að margir hafa enga prinsippskoðun á hlutunum heldur taka afstöðu með eða á móti út frá því hvort hlutirnir henta skoðun viðkomandi frá einu máli til annars.

Fólk er afar hrifið af málskotsréttinum sé hann notaður til að stöðva fjölmiðlalög en alls ekki sé hann notaður til að stöðva Icesave. Ég gæti haldið áfram.....

Sumir þeirra sem gargað hafa hæst um lýðræði og málskotsrétt hamast nú seint og snemma á undirskriftasöfnun þeirra sem vilja að þjóðin kjósi um Icesave. Meira að segja fólk sem alla jafna hefur haft þá skoðun að tilltölulega lítill hópur þjóðarinnar eigi að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um alla skapaða hluti.

Pólitísk rétthugsun í sinni dapurlegustu mynd

Röggi

mánudagur, 14. febrúar 2011

Svivirða Steingríms J

Steingrímur Sigfússon hefur setið lengur á þingi enn flestir og hann er refur af gamla skólanum, mælskari en andskotinn og skemmtilegur vel þegar þannig liggur á honum. Í dag var hann í knappri nauðvörn vegna þess að hann, fulltrúi hins nýja Íslands, var að reyna að halda uppi vörnum fyrir lögbrjótinn sinn hana Svandísi Svavarsdóttur.

Steingrímur gékk auðvitað ótrúlega langt yfir strikið þegar hann svívirti Landsvirkjun, sveitarstjórn og hæstarétt í sömu setningunni þegar hann ýjaði að því að fyrirtækið hefði mútað sveitarstjórn og fengið stimpil á allt saman hjá hæstarétti.

Það er ekkert fyndið hjá réðherranum að tala með þessum hætti. Hann veit auðvitað að hæstiréttur dæmir eftir lögum sem hann og hans kollegar setja réttinum en í þessu tilfelli skipta slíkir smámunir engu.

Hvað þarf til þess að ráðherra stígi til hliðar ef ekki brot á lögum? Steingrímur segist sjálfur bera fullt traust til ráðherrans og það dugar honum. Heldur ráðherrann að hann sé Guð almáttugur og að hans álit skipti öllu máli og ekki annarra eins og t.d. þjóðarinnar?

Alþingi hefur eiginlega ekki efni á umræðu eins og hæstvirtur fjármálaráðherra stóð fyrir í dag. Steingrímur er klassíkst dæmi um það þegar byltingin étur börnin sín....

Röggi

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Eigendaskiptin

Ég er eins og margir hugsi vegna eigendaskiptanna á Eyjunni. Ég ber afar takmarkað traust til nýja eigandans og þeirra sem hafa makkað með honum í hans fjölmiðlabusiness. það er einhver spillingarára yfir Birni Inga...

Almennt er það óþolandi staðreynd að ekki virðist hægt að reka fjölmiðla á Íslandi nema með tapi og þeir einir sem kunna að reka fyrirtæki þannig að tapið lendi ekki á þeim sjálfum enda með öll fjölmiðlaspilin á hendi.

Ég ætla þó ekki að stökkva til og hverfa héðan enda skrifa ég fyrir sjálfan mig og úr því ég lifði af ritstjóratíð Þorfinns Ómarssonar hlýt ég að lifa hvað sem er af. Karl Th. er skemmtilegur fýr og hefur þann kost að allir vita hvað hann stendur fyrir í pólitík öfugt við margan manninn sem fer um með leynd í þeim efnum í klæðum hlutleysis.

Ég vona að nýjir eigendur muni ekki skemma Eyjuna. Það er vel hægt enda eru það fleiri en ég sem setja ósjálfrátt fyrirvara þegar afar pólitískur ritstjóri tekur við og vinnur fyrir aðila sem hafa notast við peninga frá mönnum sem ekki teljast beint til vinsælustu manna samfélagsins.

Spennandi tímar og ég fer ekki fet...

...þangað til annað kemur í ljós.

Röggi

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

"Tæknilegur" stuðningur ESB

það var lítil frétt um ferðir Árna Páls Árnasonar viðskiptaráðherra í kvölfréttum í gær. Hann lagði land undir fót blessaður og kíkti á Ollie Rhen hjá ESB og svo héldu þeir blaðamannafund. Kampakátir menn og Rhen lofaði okkur Íslendingum að við fengjum allan mögulegan "tæknilegan" stuðning við að losna við gjaldeyrishöftin.

Þetta minnti mig óneitanlega á það þegar þessi sami Árni Páll lofaði því að bara við það eitt að við færum í aðildarviðræður við ESB myndi allt lagast hér með ógnarhraða. Þetta var fljótlega eftir hrun og við fórum svo að tala við ESB...

..og erum enn að því og núna kemur þessi merkilega yfirlýsing og ég hef ekki hugmynd um vægi hennar. Hvað þýðir það að ESB veiti okkur tæknilegan stuðning en alls ekki fjárhagslegan? Vissulega er fínt að fá móralskan stuðning héðan og þaðan en tæknilegan skil ég ekki.

Ég hlakka til þegar fjölmiðlar taka til við að galdra skýringu á þessari yfirýsingu upp úr Árna Páli.....

Röggi

föstudagur, 4. febrúar 2011

Bjarni Ben fer að heiman...

það var fyrirséð að Mogginn myndi vaða í formann Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þess að hann og fleiri úr þingflokknum hafa gert samkomulag um að greiða götu Icesave samningsins í þinginu. Bjarni Ben hefur varla getað búist við neinu öðru.

Margir hafa haldið því fram að Bjarna sé fjarstýrt beint og óbeint en mér sýnist Mogginn staðfesta í morgun að svo er ekki. Og nú verður áhugavert að fylgjast með hvort "sambúðin" við þá sem eru þessu andsnúin muni versna og einhversskonar VG ástand skapist innan flokksins.

Sumum gæti jafnvel dottið í hug að hugsa þetta þannig að með þessum gjörningi sé Bjarni Ben farinn að heiman...

Röggi

miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Icesave; Nú reynir á Bjarna Ben

Nú sýður á mörgum Sjálfstæðismanninum þegar flokkurinn ákveður að samþykkja nýjasta icesave samkomulagið. Það verður ærið dagsverk hjá forystu flokksins að sannfæra vantrúaða og skapa frið um þessa ákvörðun. það verður forystan þó að gera afdráttarlaust og án tafar.

Ekki síst vegna þess að sá hópur sem er í hvað mestri andstöðu við þetta samkomulag er einnig sá hópur sem er óánægðastur með stöðu flokksins almennt og getur illa þolað að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki getað gengið milli bols og höfuðs á gagnslausri ríkisstjórn sem bíður þess eins að vera bolað frá.

Þessir flokksmenn þykjast nú sjá forystuna rétta Steingrími Sigfússyni og co hjálparhönd sem með afgreiðslu málsins á þennan hátt ryðja úr vegi einni erfiðustu hindrun ríkisstjórarinnar sem hún hefur engan veginn getað hnikað til. Hindrun sem sett var upp undir forystu Sjáfstæðisflokksins á þingi og Indifence utan þings og sem þjóðin svo studdi 98% gegn einbeittri ríkisstjórn sem þráði ekkert heitar en að fá að borga 500 milljarða af þessari "skuld".

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kosningar, hann vill ekki í ríkisstjórn og nú bakkar hann frá grundvallarprinsippi í icesave og treystir í leiðinni handónýta ríkisstjórn í sessi. Þannig sjá þetta margir og sætta sig illa við..

Sjálfstæðismenn flestir telja Bjarna Ben sanngjarnan mann og vel gerðan. Hann þykir maður sátta og gengur ekki um skellandi hurðum með stóryrði í munni. En mörgum finnst vanta döngun í drenginn, jafnvel kjark og sumir ganga svo langt að segja, pólitíska ósvifni. Hvort þessi ákvörðun flokkast undir pólitíska ósvífni veit ég ekki en hún krefst kjarks vitandi það að þessu munu mjög margir flokksmenn ekki kyngja þegjandi.

Nú bíður það Bjarna að sannfæra óánægjuraddirnar um að þessi ákvörðun sé skynsamleg og hafi verið eini og besti kosturinn í stöðunni. Þar gefst Bjarna tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr. Ég öfunda Bjarna þó ekki af því að þurfa að taka upp málflutning Steingríms J í þessu máli en ætla að gefa forystu flokksins tækifæri á að selja mér dílinn.

Nú reynir á pilt og takist honum ekki að sigla farsællega í gegnum þetta minnka likurnar á því að honum takist að gera flokkinn að flokknum sínum til mikilla muna.

Röggi

Fagmennska DV og ábyrgð fjölmiðla almennt

Í kjölfar hrunsins er mikið rætt um umræðuna á Íslandi. Hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Margir hafa orðið til þess að benda á að stjórnmálamenn virðast ekki kunna að ástunda þroskaða þrætugerð. Upphrópanir, stóryrði og útúrsnúningar sem miðast helst við það eitt að hafa betur þann daginn eða það kvöldið einkenni of oft umræðu á Íslandi.

Vissulega er heilbrigt að tuskast með orðum en málefnlegt innlegg er þó að jafnaði nauðsyn en á slíkt skortir oft. Fjölmiðlar dagsins í dag eru að því er mér virðist komnir í hreint ótrúlegar stellingar í þessum efnum þar sem "slagurinn" snýst um að reyna að finna snöggann blett á mismerkilegum óvinum og hafa betur þann daginn.

Kvöldvakt DV í gær settist niður og horfði á návígi á RÚV í gær enda óvinur blaðsins þar til viðtals. Jón Steinar Gunnlaugsson heitir óvinurinn og eftir þáttinn birtist eitthvað sem vakthafandi hefur þótt stórsniðugt að búa til. Ég veit að heitttrúaðir hafa gaman af því að lesa svona "fréttir" af vonda fólkinu en auglýsi eftir fagmennskunni hjá fjölmiðlinum.

"Það er hægt að ásaka mig um að vera vinur Davíðs Oddssonar". Þetta er fréttin meira og minna. Þessi ummæli eru tekin úr samhengi og látin standa ein og sér. Þeir sem horfðu á þáttinn vita að þetta er sagt í ákveðnu samhengi og að það þarf meira en kvöldsyfju blaðamanna til þess að geta komist niður á það plan að birta þau með þessum hætti.

Tilgangurinn helgar meðalið og hefur lengi gert hjá DV og ekki eru nema tveir dagar síðan Mogginn birti á forsíðu sinni "frétt" um blaðamann DVsem er ekki frétt vegna þess að fyrir henni er ekki flugufótur. Hvert stefna Íslenskir fjölmiðlar? Hver vinnur svona stríð?

Mikilvægi fjölmiðla er gríðarlegt og ábyrgðin stór. Ef vel er á málum haldið geta fjölmiðlar farið fyrir jákvæðum breytingum á umræðunni. Fært hana upp úr farinu sem við erum svo mörg orðin þreytt á. Farinu sem skilar okkur ekki neinu og gerir fátt annað en að ríghalda okkur í molbúasporunum sem við þurfum hreint endilega að komast up úr.

Því miður sýnist mér ekki margt gefa tilefni til bjartsýni fyrir hönd okkar í þessum efnum.....

Röggi