föstudagur, 30. nóvember 2007

Jón Arnór íþróttamaður ársins.

Nú líður að kjöri íþróttamanns ársins. Þetta kjör hefur ekki haldið fyrir mér vöku fram til þessa en nú sýnist mér stefna í að minn maður rúlli þessu bara upp.

Hef reyndar ekki lagt á mig mikla vinnu og rannsóknir á árangri íslenskra þetta árið en get ekki séð að neinn komist með tærnar þar sem Jón Arnór er með hælana.

Sem betur fer eru að galopnast augu fréttamanna fyrir því í hverskonar umhverfi drengurinn er að vinna. Körfubolti er ekkert jaðarsport eins og sumar aðrar ónefndar boltaíþróttir.

Jón Arnór spilar stórt hlutverk í liði í einni af bestu deildum Evrópu. Er sennilega þriðji launahæsti Íslenski íþróttamaðurinn á eftir Eið Smára og Hermanni Hreiðarssyni. Óli bróðir gæti verið símastúlka hjá honum!

Nei, nú verður erfitt að ganga framhjá honum. Geri mér auðvitað grein fyrir því að þetta kjör er ekki vísindalega unnið. Og þess vegna ekkert sem segir að sá besti vinni endilega því menn hafa misjafnar skoðanir á hinum og þessum greinum.

Treysti á fagmennskuna og þá vinnur minn maður.

Röggi.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hef líka áhyggjur af kennurum.

Sá það í blaði einu að kennarar við kársnesskóla hafa áhyggjur af kjörum sínum. Ekki lái ég þeim það. Ég hef þær líka og hef áhyggjur af þessum málaflokki almennt.

Við erum föst í vítahring með menntamálin okkar. Enginn er ánægður. Kennarar með kjörin og ég sem skattgreiðandi er oft áánægður með það sem ég fæ fyrir aurinn sem settur í málaflokkinn. OECD segir okkur að við leggjum meira til en allir aðrir en fáum minna til baka en flestir.

Mikill meirihluti þjóðarinnar skilur ekki starf kennara og tekur því örugglega of oft neikvæða afstöðu. Fáir sem ég þekki skilja jólafrí kennara, páskafrí og sumrfrí. Ég hef ekki fengið nein sæmilega haldbær rök sem styðja þessi löngu frí. Hvernig stendur á því að kennaranám er hvergi styttra en á Islandi?

Kennarar segjast ekki komast yfir það sem þeir þurfa að komast yfir. það getur ekki gengið. Endalaus kvöldvinna þó margir séu reyndar ekki á vinnustað nema rétt framyfir hádegi. Hvurslags er það eiginlega? Kennarar eiga að sjálfsögðu að fá greitt fyrir alla þá vinnu sem þeir þurfa að inna af hendi og gera það þá á vinnustað. Dugi 8 tímarnir ekki þá er að borga yfirvinnu, hvað annað?

Staðan er sérstök svo ekki sé meira sagt. Sá sem býður verkið út og borgar launin hefur í dag ekkert með það að gera hvernig vinnu hann er að kaupa. Samtök kennara eiga þetta starf og skólana skuldlaust. Engu má breyta. Bara alls engu. Samt er enginn sáttur.

Kjarabarátta kennara miðar að því að allir séu á jafn lélegum launum. Meðalmennsakan skuli allsráðandi. Skólastjórapotturinn saminn burt af því að hann þótti mismuna fólki! Verðlaunum meðalmennskuna. Er það rétta leiðin?

Við sitjum uppi mað þá staðreynd að besta fólkið okkar er að hrökklast burt úr stéttinni. Þetta kerfi okkar gerir alls ekki ráð fyrir því að fólki sé umbunað fyrir sína vinnu. Hvatinn til að gera vel er of lítill. Núverandi kerfi hentar frekar skussunum en hinum.

Gamla husgunin um að allir eigi að vera jafnir í öllu virkar ekki hér frekar en víða annarsstaðar. Fólk vill fá vel borgað fyrir vel unnin störf. Og ef árangur minn er mælanlega miklu betri en næsta manns þá vill ég fá betur borgað en hann. Það vill forysta kennara ekki.

Margrét Pála og fleiri hafa sýnt það undanfarin ár að flestum virðist takast betur upp en opinberum aðilum að reka leikskóla og skóla. Hvernig má það vera? Þarf ekki að stokka spilin uppá nýtt. Endurmeta starfið frá grunni.

Þetta er gríðarerfitt og mikilvægt starf sem á að greiða besta fólkinu vel fyrir. Við þurfum toppfólk á topplaunum í djobbið. Ekkert minna en það er ásættanlegt. Hver einasti maður núlifandi þekkir það að hafa haft kennara sem setið hefur óhreyfanlegur í starfi gersamlega óhæfur.

Endalaust tuð um verkföll og styttri vinnutíma með hærri launum er eitthvað sem venjulegt fólk skilur bara ekki því miður. Ég held að með allsherjar uppskurði þá verði mun auðveldara að sækja sanngjörn laun.

Eins og staðan er í núna þá sýnist mér að málstaður kennara eigi nánast engan hljómgrunn og það er fráleitt. Okkur á öllum að finnast kennarar eiga að vera hópur hálaunamanna.

Ég held því fram að forysta kennara hafi með gamaldags afstöðu tryggt að kennarar eru í dag láglaunstétt.

Það er ekki minn hagur.

Röggi.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Dómarar leggja ekki lið í einelti.

Ég er dómari í körfubolta og hef því skoðanir á öllu sem snýr að dómgæslu almennt og þá er sama í hvaða grein við erum að tala um. Nú er stjóri chelsea að tala um að dómarar leggi sitt lið í einelti. Svona þvætting les maður alltaf af og til.

Í mínum huga vantar stórlega uppa hjá mönnum sem lifað hafa og hrærst í greininni í langan tíma þegar svona ummæli koma frá þeim. Alls ekki er útilokað að lið geti verið óheppin með ákvarðanir dómara og jafnvel getur það gerst ítrekað. Þannig gerast kaupin einfaldlega á eyrinni.

Dómarar eins og aðrir sem koma að íþróttum hafa aðeins eitt að leiðarljósi. Og það er að vera besti maður vallarins. Fá klapp á bakið og geta sagt að vel hafi tekist til þó hinn fullkomni leikur komi aldrei. Þetta gengur misvel enda eru dómarar manneskjur eins og leikmenn, og þjálfarar.

Leikir eru miserfiðir og leikmenn geta stundum gert starf dómaranna mjög erfitt með endalausum leikaraskap og óheilindum. Af hverju hafa þjálfarar ekki áhyggjur af því? Hvers vegna taka þessi ágætu menn yfirleitt alltaf málstað leikmanna sinna jafnvel þó hlutlausum virðist málstaðurinn afleitur?

Tvennt gæti hjálpað hér. Dómarar ættu að sjálfsögðu að sækja þjálfaranámskeið til þess að fá betri innsýn í það hvað þjálfarar eru að kenna. Og svo ættu þjálfarar og leikmenn hiklaust að taka dómarapróf.

Þannig fengjum við betri dómara án vafa og leikmenn og þjálfarar fengju betri innsýn í það hvernig er að standa úti á vellinum og flauta í flautuna. það er ekki auðvelt og verður ekki auðveldara í því umhverfi sem mönnum er búið í Englandi í dag.

Dómarar eru heiðarlegt fólk eins og þjálfarar. Misgóðir eins og þjálfarar en engum dettur í hug að halda því fram að þjálfari sem ekki getur alltaf náð sínu besta fram sé óheiðarlegur.

Eðlilega.

Röggi.


Þá kannski myndu svona bull yfirlýsingar heyra sögunni til.

Kynhlutlausu börnin hennnar Kolbrúnar.

Kolbrún Halldórsdóttir fékk frábæra flugu í höfuðið núna. Óþrjótandi baráttama...ég meina kona. Femínisti af guðs náð. Gott mál.

Nú vill hún að við hættum að klæða nýfædda drengi í blátt og stúlkur í bleikt. Hvítt væri betra eða aðrir "kynhlutlausari" litir. Hversu langt á að fara í svona löguðu? Nauðsynlegt að nýfædd börn og foreldrar þeirra átti sig strax á því að börnin eru hvorki drengir eða stúlkur. Blessuð börnin eru auðvitað "kynhlutlaus".

Gott að vita að alþingismenn eru að sinna skyldum sínum og sinna stóru málunum okkur til heilla. Skil ekki bofs.

Hvítt finnst mér ekki góður litur og legg eindregið til að við einföldum málið mjög og höfum nýfædd börn hiklaust í hinum fagurbláa lit.

Röggi.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Reynir Traustason bullar.

Var rétt í þessu að ljúka yfirferð minni í gengum DV. Tekur að jafnaði fljótt af en þó les ég það sem Reynir Traustason skrifar alltaf. Skruggugóður oft.

En í dag datt hann í bullið. Þar er hann að skamma Júlíus Vífil fyrir að vega að mannorði Össur Skarphéðinnssonar! Það þarf einbeittan vilja til að lesa svona úr atburðarásinni sem varð þegar Össur skrifaði pistilinn fræga um sexmenningana. Orsök og afleiðing skiptir hér máli.

það var Össur en ekki Júlíus sem uppnefndi og talaði um að einhverjir væru ekki með réttu ráði. Sem mér finnst mjög slappt hjá Össuri enda maðurinn snillingur hins ritaða orðs auk þess sem málsstaður hans var svo góður að ekki hefði átt að þurfa að grípa til svona óyndisskrifa.

Frekar en áður. Hvað Reyni Traustasyni gengur til með þessum magnaða umsnúningi á sögunni veit sennilega enginn. Kannski er bara ekki einfalt að þurfa að skrifa eitthvað á degi hverjum, gáfulegt. Þá er hentugt að grípa til þess að skrifa eitthvað sem þú heldur að markhópurinn sé ánægður með. Sannleikurinn og sagan er þá bara aukaatriði.

Í dag skaut hann yfir markið.

Röggi.

Hver vill ójafnrétti?

Ójafnréttið er staðreynd. Óþægileg mjög og enginn veit af hverju það er til. Enginn bað um það og fáir styðja það beinlínis. Ég þoli það ekki hvort sem það bitnar á móður minni eða dóttur.

Þekki engan karlmann sem er fylgjandi ójafnrétti. Samt er umræðan oft eins og við strákarnir, tegundin, séum óvinurinn sem hafi sérpantað það og viðhaldið meðvitað.

Er það niðurstaðan? Öfgafemínistar eru þreytandi en nauðsyn sennilega því þær eru hreyfiafl. En kjánaskapurinn stundum yfirgengilegur. Hausatalningar í silfri Egils eru í besta falli barnaleg leikskólavísindi. Hvað eiga þær að sanna?Kannski það að konur vilja ekki eða langar ekki. Sjá ekki tilganginn eða eiga ekki heimagengt. Ekki hugmynd.

Löggjöf hjálpar til en leysir ekki vandann að fullu. Þá væri hann úr sögunni. Lausnin er ekki auðfundin og kannski er enginn sjálfvirk lausn. Við höfum þokast áfram þó of hægt fari. Bæði erum við strákarnir að opna augun og stelpurnar eru farnar að sækja sér jafnrétti hver og ein á vinnustöðum.

Vinnuveitandanum hlýtur að vera sama um það hvort frábær starfskraftur sem hann hefur er karl eða kona. það er staðreynd að fólki er mismunað í launum og þannig á það að vera. En sú mismunun má auðvitað ekki snúast um kyn.

Röggi.

mánudagur, 26. nóvember 2007

Lögbann og ekki lögbann.

Nú er tekist á um höfundarétt. Ekki eru þau átök alveg ný af nálinni en með tilkomu netsins er málið stærra og lausnin ekki vandséð. Sanngjarnir menn hljóta að sjá að það hlýtur að vera fremur þreytandi að sjá verk sín birt án endurgjalds en öðrum til tekna.

Hróbjartur Jóntansson fór mikinn fyrr í vetur þegar hann með miklum látum reyndi að fá lögbann á dreifingu efnis sky sjónvarpsstöðvarinnar. Tókst í leiðinni að móðga menn hægri vinstri og þurfti á endanum að biðjast afsökunar. Þetta var sjóðheitt í fjölmiðlum þá.

Héraðsdómur synjaði SMÁÍS fyrir hönd 365 um lögbannið og úrskurðinum var áfrýjað. Af hverju hefur enginn fjallað um niðurstöðu hæstaréttar í málinu? Hann nefnilega staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. það er frétt.

Sérstaklega í ljósi þess að nýverið fékkst lögbann á torrent.is.

Margt skrýtið í kýrhausnum.

Röggi.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Rausið í Össuri.

Hvað á mér að finnast um stanslausa athyglissýki Össurar? Eitt og annað sjálfsagt en Sigurður Kári hefur takmarkaða þolinmæði gangvart rausinu og krefst meiri aðgætni og tillitsemi. Sem er ekki undarlegt.

Annars er margt undarlegt. Hvar er Ingibjörg Sólrún til að mynda? Hver gleypti hana? Henni finnst kannski alveg bráðhentugt að nota Össur í að búa til tortryggni og leiðindi milli flokkanna. Þögn hennar og fjarvera er hávær og undarlega áberandi.

Þó að ég dáist að mörgu leyti að því hversu miklu léttara virðist yfir ráðherrum þessarar ríkisstjórnar en fyrri þá liggur við að félagi Össur kunni ekki með fríðindin að fara. Mér finnst ekki óeðlilegt að ráðherrar fái ákveðið svigrúm til þess að útlista eigin áherslur eins og Björgvin G hef gert ágætlega og alveg án þess að samstarfsflokknum þurfi að finnast óþægilegt.

Hér um þrennt að ræða. Hugsanlega vill Össur í samráði við Ingibjörgu sá efasemdarfræjum sem á endanum eyðileggja traustið milli flokkanna. Eða það sem er enn líklegra og það er að honum myndi kannski ekki mislíka það mjög að þessi tilraun hennar til að vinna með sjálfstæðismönnum mistækist. Kannski bærist enn formaður með Össuri.

Og svo hitt að hann sé að klaufast. Hef áður lýst því að ég legg allan lífeyrissparnað minn undir á að þannig liggi ekki í þessu. Hann er spunameistari góður, að eigin sögn.

Það sem þó er verst í þessu er kannski ef Össur ætlar að fara illa með fínt fólk eins og Geir Haarde sem virðist trúa og treysta á skynsemi og full heilindi samstarfsmanna frekar en harðann aga og frekju. Hann er sjálfur orðvar maður og kurteis og kann þá mögnuðu list að gera ágreining við sitt fólk og aðra án þess að ganga um meiðandi með stóryrði.

Þar getur félagi Össur lært eitt og annað.

Röggi.

Guðni þvær hendur sínar.

Ég hreinlega verð að komast í bók Guðna formanns hið fyrsta. Bæði er það að maðurinn er skemmtilegur frá náttúrunnar hendi og svo hitt að þarna virðist kjöt á beinum.Ef eitthvað er að marka það sem ég hef lesið.

Þessi bók kemur án efa út á þessum tímapunkti til þess að styrkja karlinn í fyrirsjáanlegur slag við Björn Inga, sem hann mun tapa. Framsókn til heilla held ég því þó Björn Ingi sé sífellt spyrtur saman við spillingu og spillta samflokksmenn þá er að minnsta kosti líf í honum. Og kjarkur.

Held að Guðna skorti kjark, almennt, þó einhverjir muni kannski halda því fram að rifrildi hans og Halldórs sýni að Guðni hafi kjark þá held ég að þar hann hafi fyrst og fremst sýnt að hann hefur skap og sjálfsbjargarviðleitni.

Og kannski hefur hann líka snert af því sem Steingrímur Hermannsson náði fullum tökum á. Og það er snilldin í því að kannast ekki við það sem reynist óvinsælt, eftirá.

Mér hefur aldrei þótt sérlega mikið til þess koma að reyna að hvítþvo sig af ákvörðunum sem þú tókst sjálfur þátt í að framkvæma. Kristinn H Gunnarsson stóð betur að því að reyna að halda reisn gangvart eigin skoðunum og fór.

það gerði Guðni ekki heldur stóð í stafni með Halldóri og tók þátt í því að styðja innrás í Írak. það er mergurinn málsins.

Röggi.

Júlíus Vifill hefur orðið..

Hvernig væri nú að einhver mjög góður maður úr mínum ágæta flokki setti nálgunarbann á borgarfulltrúann Júlíus Vifil? Hann mætti þá ekki koma nærri fjölmiðlafólki en sem næmi 2,5 km. Svona cirka.

Ekki kannski alveg að marka mig en ég hef aldrei skilið hvernig hann hefur hlotið brautargengi í pólitík. Hef bara ekki hugmynd um fyrir hvað hann stendur.

Hann gerir flokknum óleik í hvert skipti sem hann opnar munninn. Eflaust góður maður á alla lund en þrá hans eftir sterkari stöðu innan flokksins er afgerandi. En vonin veikist sýnist mér í réttu hlutfalli við fjölda skoðana sem hann ætlar að hafa á orkuveitu útrásinni.

Ekkert er samt að því að skipta um skoðun. Það getur eflaust verið bráðhollt að reyna það einn daginn. En þá þarf viðsnúningurinn að vera bærilega ígrundaður og rökstuddur en í tilfelli Júlíusar er ekki verið að splæsa slíku á sig.

það bjargar honum kannski ekki en samt gæti verið gaman að fjölmiðlar myndu fylgjast með fleirum sem tengjast þessu klúðri og hafa skipt um skoðanir ótt og títt allt eftir því hvernig staða þeirra við kjötkatlanna hefur breyst.

Mér finnst skorta á það.

Röggi.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Pútin fellir grímuna.

Ég hef stolist til þess undanfarna mánuði að benda á að gamli KGB fanturinn Pútin virðist ekki lengur nenna að fela eðlið. Hef verið áminntur um að kalda stríðið sé búið og svona málflutningur því orðræða gærdagsins.

Læt mér það í sjálfu sér í léttu rúmi liggja hvað menn vilja kalla stríðið sem Pútín heyr gegn þeim sem hann ekki getur mulið undir sig. Sennilega er það frekar heitt en kalt.

Lengi vel lét hann sér duga að skreppa með reglubundnum hætti yfir til Tjeteniu til að leggja Grosní í rúst. Hann getur hvorki þolað þeim né öðrum fyrrverandi undirmálsþjóðum neina sjálfstæðistilburði.

Vinir og vandamenn fara til London og kaupa sér fótboltalið til að auðvelda þeim þjófnaðinn á auðæfum Rússa. Svo eru alltaf einhverjir sem ekki uppfylla tilsett skilyrði og lenda þá í grjótinu. Heitir hann ekki Kodorkovski sem situr inni fyrir sakir sem enginn veit hverjar eru. Nýríkir Rússar flæða um allt í skjóli Pútins. Feitir af olíunni sem einu sinni var í eigu þjóðar og ríkis en ekki er alveg ljóst hver skilyrðin voru þegar einkavæðingarnefnd Pútins sérvaldi.

Blaðamenn myrtir og eitrað fyrir fyrrverandi þrjótum. Nú er Pútin alveg hættur að fela það að hann þolir ekki pólitískt lýðræði heima fyrir þó hann aðhyllist það af öllum mætti víða annarsstaðar. Hver bannar mótmælafundi? Og handtekur fólk sem vogar sér. Úlfurinn er að fella sauðargæruna.

Mjög margir þola ekki Bush og saka hann um eitt og annað misfagurt. Er almennt talinn stappa nærri því að vera þroskaheftur í ákveðnum kreðsum. Enginn frýr þó Pútin vits.

Hver er þá skýringin?

Röggi.

Össur og útrásin.

Renndi áðan yfir pistil Össurar eins og minn er siður. Alltaf skemmtilegur en núna voru honum mislagðar hendur. Full dramatískur í hugsun og yfirlýsingum en á því kunna að vera eðlilegar skýringar.

Hann er auðvitað búinn að fabúlera um að mil
ljarðarnir sem orkuútrásin muni færa okkur teljist frekar í þúsundum en hundruðum. Brattur eins og ávallt. Sjálfur búinn að flengjast til útlanda til að hafa hönd í bagga. Og þvi eðlilega svekktur og pirraður yfir stöðunni.

En er ekki fullmikið í lagt að kenna handónýtum borgarstjórnaflokki sjálfstæðismanna einum um? það er að sönnu rétt að slagsmál þeirra innbyrðis urðu þess valdandi að þeir hrökluðust frá völdum í höfuðstaðnum.

Og hafa margsnúist í afstöðunni til málsins. Svo mjög að fáir skilja hvað þar gengur á innandyra lengur. En hefur það úrslitaáhrif á framgang útrásarinnar?

Er núverandi meirihluti ekki alveg einfær um að klúðra málinu með félaga Svandísi við stýrið? Glænýr meirihluti hlýtur á endanum að bera einn ábyrgð á því hvernig úr málinu er spilað.

Kannski er eitthvað sem hefur farið framhjá mér og ég verð þá vonandi bara leiðréttur en það er ný og athyglisverð sýn að kenna þeim sem engu ráða um það hvernig tekst til í þessu máli.

Miklu líklegra finnst mér að Össur sé nú að hefja gönguna í þá átt að sprengja ríkisstjórnina með svona málflutningi. Hann segist sjálfur vera mikil refur og kannski er refskapurinn að sýna sig hér. Þetta er kannski á frumstigi en gæti verið orðið áþreifanlegt ja svona undir næstu kosningar eða svo.

Hinn kosturinn er að hann sé svona mikill klaufi og leiðindagaur. Ég legg ekki fimmkall undir á það.

Röggi.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Paul Nikolov.

Skrapp aðeins á moggabloggið mitt gamla. Las Heiðurnar báðar enda afburðaskemmtilegar báðar tvær þó ólíkar séu. Og ég las reyndar fleiri og sá þá að ég hef verið út á þekju. Ekki fylgst með. Mér skilst að þar hafi logað eldar.

Af litlum neista sýnist mér eins og stundum hjá bloggurum. Nennti hreinlega ekki að sökkva mér á kaf í málið en það snýst held ég um að Paul Nikolov glænýr þingmaður okkar og nýbúi lýsti þeirri skoðun sinni fyrir nokkrum misserum að Aron Pálmi hefði hlotið makleg málagjöld fyrir sín brot í USA.

Og nú logar bálið glatt. Ég spyr, af hverju mátti hann ekki hafa þessa skoðun? Er það kannski vegna þess að hann er útlendingur að hafa skoðun á Íslendingi sem er reyndar kannski ekki endilega meiri Íslendingur en hinn. Eða er það vegna þess að nú þykjast menn vita annað og meira um málið.

Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á málefnum Arons Pálma. Hryllilegt mál greinilega og enginn vafi á því að pottur er víða brotinn í fangelsum unglinga í bandaríkjunum. Og víðar.

Margt af því sem mér fannst augljóst fyrir 5 árum síðan þykir mér í dag hlægilegt. Hlutirnir breytast og mennirnir með. Nýjar upplýsingar geta þarna haft áhrif og ekkert að því að menn leiðréttist eða leiðrétti. Það er ekki veikleiki að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér.

Heilög réttlæting þeirra sem segjast hafa höndlað hinn eina rétta sannleika er varhugaverð. Stundum hefur það verið þannig með okkur Íslendinga að við tökum einarða og sjálfvirka afstöðu með okkar fólki þegar það lendir uppá kannt við lög annarra landa. En erum svo glerhörð þegar kemur að því að dæma útlendinga sem lenda í vandræðum hér á skerinu okkar góða.

Dæmum ekki Nikolov úr leik þó hann hafi haft skoðun sem okkur líkar ekki. Það er allt fullt af fólki á þingi sem hefur haft helling af fáránlegum skoðunum á hinu og þessu. Án þess að eldar logi glatt í bloggheimum.

Röggi.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Málefni KSÍ.

Sá ekki nema lítið brot af þætti sýnar í kvöld um Íslenska landsliðið. Hef samt mínar skoðanir sem fyrr og þær breyttust lítið við áhorfið.

Menn misgáfulegir. Óli Þórðar heldur að ástæða lélegs árangurs snúist um ungt fólk keyri ekki vörubíla eins og hans kynslóð gerði. Willum sagði ekki neitt af því að hann ætlar að vinna hjá KSÍ í framtíðinni og allir vita hvernig er að lenda í ónáð.

Í mínum huga var Guðjón Þórðarsson með málið. Metnaðarleysi KSÍ er ástæðan. Skortur á fagmennsku og framtíðarsýn. Upphafið var auðvitað fáránleg ráðning Eggerts á Eyjólfi sem ofan á getu og reynsluleysið fékk enga aðstöðu til þess að ná árangri.

það er þannig að eftir höfðinu dansa limirnir. Þetta á við um allan rekstur. Ég þekki engan mann sem finnur einhverja vikt í formanni KSÍ. Hann er eins og lafhræddur stjórnmálamaður. Segir í raun aldrei neitt. Ekki einu sinni þegar reynir að gagnrýna fjölmiðla. Annars er stórskemmtilegt að fylgjast með því hvað fjölmiðlamenn sem hafa lifibrauð sitt af því að rýna með gagnrýnum augum á hlutina verða alltaf létt fúlir þegar einhver ætlar sér að gagnrýna þá. það eru engin rök að benda á að KSÍ sé ekki faglegt þegar KSÍ sakar fjölmiðla um skort á fagmennsku.

Breytinga er þörf í forystu KSÍ svo einfalt er það í mínum augum. Forystan er orðin makindaleg og feit ef ekki löt í stólunum. Ódýrar skýringar eins og ástand æskunnar og samanburður á nútíð og fortíð skiptir hér engu. Meiri metnaður fyrir landsliðið er það eina sem dugar.

Núverandi forysta hefur ekki nauðsynlega kraft og vikt og hrífur fáa með sér.

Röggi.

Jón Viðar og gagnrýnin.

Ég er afspyrnuslakur að sækja leikhús. Samt er alltaf gaman þar. Misgaman en þegar við sem förum sjaldan förum, þá er bara alltaf gaman. Einhver myndi þá kannski segja að við hefðum bara ekkert vit á leikhúsi og þekktum ekki muninn á því sem er gott og því sem er frábært. Skítt með það. Ég þarf ekki að láta segja mér hvað er hvað. Tek mér bara það bessaleyfi að mynda mér mína eigin skoðun og hún gildir.

Alveg eins og með skoðun gangrýnenda nema að hún gildir ekki eins og mín eigin. Ekki að fullu allavega. Hún getur haft einhver áhrif gagnrýnin sér í lagi ef hún er öll á einn veg hjá öllum. Á aðsókn alltso, í báðar áttir.

Þessa dagana reyni ég af öllum mætti að missa ekki af gagnrýni Jóns Viðars. Magnaður tappi finnst mér. Greinilega stútfullur af fróðleik um fagið frá öllum hliðum. Fyrst fannst mér hann bragðdaufur og fúll en það hefur breyst. Nú finnst mér hann safaríkur og skemmtilegur og ég veit ekki hvor hefur breyst ég eða hann.

Skiptir litlu en mér finnst gaman að lesa hann. Létt önugur stundum og þorir að segja það sem honum finnst. Svo er gaman þagar hann hrífst því það er sjaldan og verður því verðmeira fyrir vikið. Virðist hundgömul sál og finnst flest betra sem liðið er fyrir löngu.

Og tilganginum er náð. Honum er að takast án þess að hafa mikið fyrir þvi að auka áhuga minn á leikhúsunum jafnvel þó hann sé helst aldrei fullsáttur. Getur það orðið betra?

Röggi.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Mótmælendur.

Frakkar eru ekki fólk sem lætur bjóða sér hvað sem er. þeir æða á götur út og gera skurk. Bændur moka kúamykju á tröppur ráðhúsa og flutningabílstjórar loka hraðbrautum. þegar þeir eru óánægðir. Og þetta vilja margir flytja inn til Íslands.

Af því að þetta sé lýðræðið í reynd. Bolurinn að mótmæla heimskum ráðamönnum og vondum. Ég efast, þó að stundum mætti samtakamáttur okkar hér vera meiri, eða hvað?

Kannski erum við bara svona harðánægð þegar öllu er á botninn hvolft. Eða erum við svo mikili einstaklingshyggjumenn að við getum ekki tekið okkur saman um að gera eitt eða neitt í sameiningu. Hver tuðar í sínu horni, grautfúll.

Er eðliegt að misstórir hópar geti sínkt og heilagt verið að beita svona aðferðum gegn valdhöfum sem hafa ekki gert neitt af sér, beinlínis? Hver segir að valdhafar megi ekki vera vitlausir. Er ólýðræðislegt að lýðræðislega valin ríksstjórn taki ákvörðun sem einhver er óánægður með?

Hvurslags hegðun er það að moka skít á tröppur ráðhúsa og loka hraðbrautum? Eiga menn ekki að berjast fyrir kjörum sínum við samningaborð og ef valdhafar brjóta lög á fólki á þá ekki að sækja rétt sinn til dómastóla?

Hvað varð um Ghandi? Þögul mótmæli. Nei nú skal það vera ofbeldi. Ráðist inn á vinnustaði og þess háttar. Svokallaðir mótmælendur hnattvæðingarinnar telja nauðsynlegt að lenda í slagsmálum við lögreglu. Get haldið áfram...

Hún er greinilega þunn línan milli þess sem einum finnst vera lýðræðislegur réttur fólks til að tjá sig og okkar hinna sem finnst full stutt í stjórnleysið.

Röggi.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Atli Gíslason og frelsi einstaklingsins.

Rokka á milli og veit oft ekki hvort ég á að dáðst að Atla Gíslasyni eða ekki. Afskaplega geðugur maður um flest að sjá og heyra. Talar rólega, næstum eins og geðlæknir, yfirvegaður.

Hann er málsvari góðra hluta svona yfirleitt þó hann sé auðvitað fárveikur af forræðishyggju þvælunni sem VG stendur fyrir. Hann er málsvari kvenna sem er öndvegis í karllægum heimi. Mannréttindi eru honum hugleikin eins og kannski öllum öðrum. Hann er svona mjúkur maður.

Hann veiðir, á flugu, og hefur ímynd hins heilbrigða manns. Fer gersamlega á hvolf þegar konur koma hingað í þeim tilgangi að dansa erótíkst fyrir stórfé. Mannsal hrópar hann þá og getur vel verið að hann hafi rétt fyrir sér í því. Feillinn er bara að trúa því að hið meinta mannsal hætti bara vegna þess að erótískur dans sé bannaður.

Eins og mannkynið, eða kvenkynið, hafi einhverntíma látið banna sér að klæmast. Menn eins og Atli ýta því vissulega undir yfirborðið en það hættir ekki. Verður bara hættulegra fyrir dömurnar því undir yfirborðinu vinna bara skúrkar.

Og nú bregður svo við að hann snýst öndverður gegn því að við reynum að komast því við landamærin okkar hverjir hér eru. Talar um lýðræði og frelsi einstaklinga. Er það bara fyrir gestina en ekki gestgjafann?

Kannski verður þróunin sú sama hér og hjá bandaríkjamönnum. Þriðju gráðu yfirheyrsla við landamærin. Af illri nauðsyn. Og hvar eiga mörkin að liggja?

Mótorhjólamenn og dansarar?

Röggi.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Körfubolti í beinni á netinu.

Við körfuboltamenn erum í fararbroddi á mörgum sviðum. Tölfræði og heimasíður voru nánast óþekkt fyrirbrigði fyrir nokkrum árum annarsstaðar en hjá körfuboltafólki.

Og við förum enn fyrir. Í kvöld eru tveir leikir í beinni útsendingu á netinu. Karfan.is verður með toppleikinn í 1 deild milli Breiðabliks og FSU. Og KR sýnir leik KR og ÍR. Auk þess held ég að KFÍ sýni alla leik fyrir vestan beint á netinu. Allt kl 19 15.

Er þetta ekki ropandi snilld?

Röggi.

Hugleiðingar um Mr Smárason.

Getur það gerst að frægasti og ríkasti verðbréfamiðlari landsins riði nú til falls? Hann virkar í það minnsta forn í skapi og fremur taugaveiklaður. Sendir frá sér tilkynningar ótt og títt um hvað hann telji að þurfi að gerast til þess að félög sem hann veðjaði á rjúki upp svo hann geti selt með hraði.

Auðvitað hljóta menn eins og hann að skulda mikið. Hvenær ætli komi að skuldadögunum. Hann skuldar kannski svo mikið að ekki er nokkur vegur annar en að þrauka og vona.

Samt er það þannig að ég hef í laumi dáðst að því hvernig hann og fleiri hafa getað kreist peninga útúr öllu og öllum. Allt verður að gulli. Þessir gaurar eru auðvitað brautryðjendur. Með óteljandi kennitölur á sínum snærum og eignarhaldsfélög mýmörg sem henta vel til að taka mesta höggið. Eru allsstaðar og hvergi. Gamli kolkrabbinn bjó ekki að svona löguðu. Þeir voru bara í tíkallabusiness.

Spennandi tímar. Kannski skiptir þetta engu máli því á krepputímum eins þá græðir annar. Og ekki ólíklegt að ef Hannes Smárason fer niður núna að þá komi bara nýr Hannes inn.

það er nú einu sinni gangurinn...

Röggi.

Bónus gerir grín að okkur.

Auðvitað hlaut að koma að því að opinberir aðilar vildu skyggnast í bókhald hjá risunum á matvörumarkaði. Og bráðhentugt að gera það í kjölfarið á mikilli umræðu um svindl og svínarí, eða þannig.

Stundum held ég að verið sé að gera kaldhæðnislegt grín að okkur neytendum þegar bónus er krónu ódýrari en krónan í hverjum vöruflokknum á fætur öðrum.

Stíft verðlagseftirlit þessara aðila á hvor öðrum hljómaði fyrst vel í mínum eyrum. Ekki lengur. Nú sýnist mér þetta fremur vera notað til þess að geta verið með nógu hátt verð en lágt. Þó krónu ódýrara! Hver græðir á þessari vitleysu? Ekki neytandinn því algerlega er vonlaust að fylgjast með því hvar er ódýrast að versla. Verðið breytist ótt og títt. það ætti að vera ólöglegt.

Guðmundur Marteinsson birtist okkur ítrekað og segir okkur að bónus hiki ekki við að lækka verðið niður fyrir innkaupsverð til þess að geta verið ódýrastir. Bíðum aðeins hér. Er þetta eðlilegt? Þjónar þetta langtímahagsmunum neytenda? Eða kannski skammtíma hagsmunum eigenda Haga eingöngu?

Er eðlilegt að langstærsti aðilinn á matvörumarkaði og sá sem hefur yfirburðastöðu segi okkur það að hann hyggist með því að misbeita aðstöðu sinni svona losa sig við hvaða samkeppni sem er? Var ekki verið að refsa flugfélagi fyrir að reyna svona kúnstir?

Við neytendur viljum samkeppni en eigendur Haga alls ekki. Það er mergur málsins. Og þeir segja okkur það hreint og beint og við erum hætt að kippa okkur upp við það!

Nú er lag, meira að segja pólítískt lag því Davíð er farinn og Ingibjörg hætt að halda varnarræður til handa þessum herramönnum í borgarnesi, að vinda ofan af þessu og stöðva einokunarverslunina hina síðari.

Gerum eins og aðrar þjóðir og komum okkur upp löggjöf sem kemur í veg fyrir að einhver geti komist í þá aðstöðu sem þessir herramenn eru í nú um stundir.

Neytendur eiga það skilið.

Röggi.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Létt skotinn í Björgvin G.

Ég er sjálfstæðismaður. Ekki af gamni mínu heldur trúi ég að ákveðin grundvallatriði og þó ég sé oft grautfúll með mína menn þá hleyp ég ekki undan. En ég er oft skotinn í fólki úr hinum liðunum.

Ég var skrambi ánægður með þegar Björgvin G varð ofar en Lúðvik í prófkjöri samfylkingar á sínum tíma. Björgvin virkar maður sannfæringar á mig en hinn er atvinnustjórnmálamaður sem hleypur upp til handa og fóta þegar hann telur einhvern liggja vel við höggi. Það er mér ekki að skapi.

Er sumsé létt skotinn í viðskiptaráðherranum okkar, stundum. Og mér sýnist hreint út sem hann sé að tileinka sér viðhorf okkar hægri manna í hverjum málaflokknum á eftir öðrum.

Stutt síðan hann fullyrti að lækkun skatta þýddi meiri skatttekjur ríkissins. Hvað ætli Steingrímur segi við því? Og nú vill hann skoða það að ríkið hætti að stunda samkeppnisrekstur við einkaaðila í fríhöfninni. Þetta er mér að skapi.

Og kannski er enn von um að upp rísi stjórnmálamenn sem kunna að láta sannfærast. Það hefur lengi verið á allra vörum að þeir menn sem skipta um skoðun séu vinglar sem ekkert er að marka.

Björgvin G er gott dæmi um annað.

Röggi.

Siðleysi Jónasar.

Hvað er hægt að segja um Jónas Garðarsson sem ekki hefur verið sagt áður? Hvernig stendur á því að maðurinn metur æruna ekki dýrar en hann virðist gera. Er hann algerlega vinalaus? Getur enginn nákominn honum komið honum í skilning um að hann er að setja ný viðmið í siðleysi?

Annars er greinilegt að það er stundun hagstætt að búa við siðleysið. Sannleikurinn er þá ekki með mönnum í liði. Sanngirni víðs fjarri og óþekkt. Reglur samdar eftir hentugleika hverju sinni. Þetta hentar mönnum eins og Jónasi prýðilega.

Hvernig geta samtök sjómanna varið það að hafa þennan mann í forsvari? Ég er almennt á þeirri skoðun að allir eigi skilið annað tækifæri en það á ekki lengur við um Jónas. Brotaviljinn er ótrúlega einbeittur. Hver man ekki eftir því þegar kallinn var tekinn með jeppann sinn sneisafullan af smygli? Man reyndar ekki hvernig tækniatriðið var sem hann notaði til þess að sleppa við refsingu sem hvert mannsbarn vissi að hann átti inni fyrir. Illar tungur segja fleiri sögur sem ég nenni ekki að hirða um. Stóru söguna þekkja allir enda nýjir kaflar birtir nú nýlega.

Hvaða hreðjatak hefur hann á þeim sem velja forsvarsmenn fyrir sjómenn? Fyrir mér er þetta hreinlega niðurlægjandi fyrir alla þá sem standa að því að vernda hann. Kjarabarátta sjómanna á betra skilið.

Jónas er búinn með sitt tækifæri, og annað tækifæri eftir það. Ekki einu sinni víst að níu líf kattarins dygðu þessum manni.

Röggi.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Eiður áfram leiðtoginn.

Eiður áfram fyrirliði. Kannski hefur hann lofað bót og betrun. Nema auðvitað að hvorki hann né KSÍ kannski við nein agabrot. Storkurinn hefur áður stungið hausnum í sandinn.

Ferguson kallinn væri fyrir löngu búinn að losa sig við svona hegðun jafnvel þó það þýddi að drengurinn hyrfi á braut. Og Ólafur losaði sig reyndar við danskan leikmann í sumar sem var með munnsöfnuð í fjölmiðlum.

það sem einkennir menn sem ná árangri í hópíþróttum er að þeir halda stíft í gömlu sannindin um að enginn leikmaður er stærri en liðið. Ef Eiður er of stór til þess að skila af sér fyrirliðabandinu þá er hann ekki að spila á réttum forsendum.

En, ég skal gefa honum séns úr því að nýjir húsbændur eru mættir. Pétur Pétursson ætti í það minnsta að geta spottað agaleysið. Hann er sterklega grunaður um að hafa fundið það upp!

Röggi.

Hvernig líta félagsmenn í al kaida út?

Heyrði í fréttum áðan að 15 liðsmenn al kaida hefðu fallið í átökum í Írak. Hvernig eru félagsmenn í þeim samtökum auðkenndir frá öðrum sem vilja vera með uppsteyt í Írak?

Eru samtökin með skrifstofu og liðsmenn einkennismerktir? Voru mennirnir kannski spurðir áður en þeir voru drepnir?

Eru kannski allir vondir menn í heiminum al kaida?

Röggi.

Þreyttur Steingrímur J

Ég skil svosem yfirleitt lítð í VG. Er í öllum grundvallaratriðum andvígur þeirra stefnu og allt í góðu með það. Hef eins og flestir lengi borið nokkra virðingu fyrir Steingrími formanni þó verulega hafi fjarað undan þeirri virðingu þegar karlinn skaut sig í fótinn eftir síðustu kosningar.

Hann virkar þreyttur og afundinn. Pikkfastur í gömlum tíma og neitar að færa sig framar. Og nú nöldrar hann yfir því hvort flugvélar sem hér munu stunda efrirlit kunni hugsanlega að bera vopn.

Er það bara ég eða er einhver að missa svefn yfir þessu? Hvernig nennir hann að gera þetta að þrasi? Þetta er angi af gömlu NATO hatri sem þarna birtist okkur. En ég held hreinlega að leitun sé að fólki sem setur sig upp á móti NATO í dag eða eftirliti í lofti með eða án vopna.

Grunar að það hljóti að fara að styttast í þessu hjá honum enda frambærlegt fólk sem bíður.

Enn um sinn...

Röggi.

Geir Ólafsson gefur út disk.

Stór dagur í Íslenskri tónlistarsögu í dag því meistari Geir Ólafsson gefur út sinn annan disk. Er með þrusuband á bakvið sig. 20 manna stórsveit sem hjálpar kallinum.

Ég hef með eindæmum gaman að drengnum. Vilji hans til að verða frægur hefur skilað honum talsverðri frægð. Ekki oft sem fólk sem vill láta kalla sig listamenn orða hlutina þannig að frægð sé málið en listin sjálf aukaatriði.

Ekki verður á móti mælt að skemmtanagildi Geirs er töluvert. Hann liggur mitt á milli Leoncie og Hallbjörns Hjartarssonar. Hefur gríðarlega gaman að sjálfum sér og það hjálpar.

Vona að mogginn fari eitthvað mildari höndum um þennan disk en hinn fyrri sem hann gaf út. Mig minnir að það hafi verið hinn orðprúði Dr Gunni sem slátraði afurðinni og fyrirögnin var eftirminnileg mjög.

"Ekki meir Geir"

Röggi.

Landssöfnun KR stendur sem hæst.

Nú stendur sem hæst árleg landssöfnun KRinga á leikmönnum í fótbolta. Merkilegt fyrirbrigði sem brestur á á hausti hverju og þá venjulega eftir dapurt gengi sumarið á undan.

Þó er það ekki algilt því þessi söfnunarárátta getur líka orðið all heiftarleg þó vel hafi gengið. Hver kannast ekki við myndir af forráðamönnum KR glaðbeittum á mynd með nýjum liðsmanni sem heldur því fram að nú sé hann kominn heim?

Aðstaðan sé svo góð og þjálfararnir líka. það stendur svosem heima en auðvitað snýst þetta um aura og fátt annað, oftast. það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá afburðaleikmenn sem KR hefur keypt undanfarin ár og breytt í meðalmenn á svipstundu.

Vandi KR virðist alls ekki liggja í þunnum og slökum leikmannahóp. Þar er hver stórstjarnan á fætur annarri. Ég hef ekki lausnina frekar en aðrir en vonandi hressist Eyjólfur því fremur er dapurt að horfa uppá stórveldið lufsast þetta í neðri helmingnum með hvern milljóna drenginn á fætur öðrum í sínum röðum.

Röggi.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Hver getur misskilið Þórhall?

Páll Magnússon útvarpsstjóri er gersamlega búinn að gleyma því hvernig var að reyna að vera í samkeppni við rúv. Auglýsingar og afnotagjöld auk fjárframlaga frá ríkinu tryggðu yfirburðaaðstöðu. Og það sveið.

Og svíður enn. Þórhallur talar um misskilning. Hvað er hægt að misskilja hér? Bankamaðurinn setur peninga í verkefni skilyrt. Og skilyrðin eru hver?

Útúrsnúngar og orðhengilsháttur til að komast hjá því að kalla þetta kostun því það er bundið í reglur hver hún má vera, hlutfallslega.

Kannski ekki að marka mig því ég hef áunnið ofnæmi fyrir einokun og yfirgangi ríkisfyrirtækja gegn þeim sem burðast við að standa í samkeppni við ofureflið.

Vonandi er þetta ólöglegt því siðlaust er það.

Röggi.

Nýr staður-ný stund.

Þá er ég kominn hingað. Sem er gleðiefni í sjálfu sér. Kveð Moggabloggið og finnst næstum eins og ég sé að kveðja einhvern nákominn. Þar byrjaði ég að skrifa eftir fjölmörg ritlaus ár.


Og held því áfram hér....

Röggi