miðvikudagur, 24. júní 2009

Icesave: Upptaktur að stóru deilunni um ESB.

Litlu máli virðist skipta hvort menn vilja borga Icesave reikningana eður ei eða hvort menn telja að við "verðum" að borga þá eða ekki. Lúsaleitun virðist að þeim manni sem trúir því í fullri alvöru að samkomulagið sem Svavar Gestsson kom með heim sé nothæft.

Sem fyrr stendur Samfylking straurblind og sér ekkert annað en götuna inn í ESB og tekur afstöðu út frá þeim hagsmunum einum og engum öðrum. Samfylking mun því aldrei hlusta á neinar efasemdir sér í lagi ef þær styggja ESB.

Allt þetta brölt er svo augljóslega farið að skipta fólki í þær tvær fylkingar sem munu takast á um ESB. Ég sagði það fyrir mörgum mánuðum síðan að andstaðan við ESB aðild muni eflast og ekki hefur sú sannfæring mín rénað undanfarna daga.

Jafnvel þeir sem vilja eindregið þangað inn og borga Icesave sem aðgangseyri blöskrar aðferðafræðin sem beitt er í samningum við okkar vegna þessara hábölvuðu innistæðureikninga, ef samninga skyldi kalla.

Þó allt bankakerfi Evrópu sé undir og algerlega sé nauðsynlegt að senda rétt skilaboð þá finnst mér þessar upphæðir sem um er að tefla vera svo litlar fyrir risana en svo risavaxnar fyrir okkur smáfólkið. Af hverju þarf að svínbeygja okkur í duftið?

Hvers vegna er ekki hægt að koma málum þannig fyrir að okkur sé gert mögulegt að borga þetta og halda sæmilegum dampi sem þjóð á meðan? þeim fer óðum fækkandi sem telja að okkar hagsmuna hafi verið nægilega vel gætt hver sem ástæðan fyrir því er...

.. og þeim mun fara mjög fækkandi í nánustu framtíð sem munu vilja ganga til liðs við bandalagið sem tók svo afgerandi þátt í að svínbeygja þessa litlu þjóð.

Mér finnst það næstum því einboðið og deilan um Icesave er kannski bara upptaktur að stóru deilunni sem við stöndum frammi fyrir.

Röggi.

föstudagur, 19. júní 2009

Niðurrifsmaðurinn.

Margir segjast hafa skilning á hegðun niðurrifsmannsins á Álftanesi. Ég tilheyri ekki þeim hópi. Vissulega er þetta afgerandi yfirlýsing á reiði og afdráttarlaus en við hljótum að fordæma svona háttarlag. Hér hefur skynsemin verið skilin frá annarri hugsun.

En kannski trúa margir því að hennar sé bara ekki þörf á þessum tímum og hugsanlega vilja margir líka gefa ríflegan afslátt af góðum gildum sem gera okkur að siðmenntuðu fólki í siðuðu þjóðfélagi. Kannski er best að innleiða bara hnefaréttinn að fullu.

Nú berast svo fréttir af því að þessi tiltekni maður hafi sjálfur ekki staðið sig sérlega vel gagnvart sínum eigin viðskiptavinum og þá snýst dyntótt almenningsálitið trúlega við. Fordæmingin á þessu fáránlega athæfi á alls ekki að vera skilyrt að neinu leyti.

Og vonandi dettur engum öðrum í hug að þetta sé sniðugur leikur eða gott innlegg í nýja Ísland.

Röggi.

Rétttrúnaðurinn.

Ritsjóri fréttablaðsins skrifar pistil þar sem hann vogar sér að hafa skoðanir á Evu Joly. Og það er eins og við manninn mælt. Hver stjörnubloggarinn á fætur öðrum fyllist heilagri vandlætingu. Ég spyr. Af hverju má Jón Kaldal ekki hafa þessa skoðun á konunni? Er nóg að afgreiða skoðanir hans með því einu að hann ritstýri blaði í eigu Jóns Ásgeirs? Þessi botnlausi rétttrúnaður er fyrir löngu orðinn óþolandi og allir og allt skal dregið í dilka eftir behag og meginstraumum.

Lengi var öllum þeim sem voguðu sér að hafa skoðanir á Baugi og útrásarvíkingum velt upp úr skítugu pólitísku svaði og í þeim skollaleik drógu menn ekki af sér enda sannfæringin þung og vissan og rétttrúnaðurinn alger. Þá var tískan öðruvísi og magnað að fylgjast með fullkominni umpólun margra upp á síðkastið.

Það er einmitt þessi fötlun sem hefur staðið okkur fyrir þrifum og það var í þessum jarðvegi sem dónarnir fengu vinnufriðinn sem þurfti til að sölsa landið undir sig. Í heimi réttrúnaðarins er lítil ástæða til málefnalegrar umræðu eða umfjöllunar.

Þeir sem gagnrýndu Baug voru bara sagðir ganga erinda einhverra og því engin ástæða til að ræða málið. Jón Kaldal og fréttablaðið fær nú sömu meðferð. Hann vinnur fyrir Jón Ásgeir og þess vegna fást efnisatriðin ekki rædd.

Ég hef svo sannarlega ekki minni áhuga á því en næsti maður að þeir menn sem stálu þjóðarauðnum verði dregnir til ábyrgðar. En við megum ekki gleyma okkur gersamlega þó reiðin sé réttlát og stór. Gerum ríka kröfu til allra sem að málinu koma og það má ekki bara gilda um ríkissaksóknara.

Leyfum okkur að efast því ef sagan á að hafa kennt okkur eitthvað þá er það að ekki er alltaf allt sem sýnist og heilög vandlæting og fanatík rétttrúnaðar með dass af pólitík skilar okkur ekki alltaf áleiðis.

Röggi.

fimmtudagur, 11. júní 2009

Steingrímur og Icesave viðsnúningurinn.

Varla er sjón að sjá Steingrím Sigfússon þessa dagana. Hann situr uppi með Icesave vandræðin og finnur sig í þeirri geggjuðu stöðu að tala og gera akkúrat það sem hann taldi nánast landráð fyrir ekki mjög mörgum vikum síðan. Og aldrei þessu vant...

..gengur mér ekkert að trúa á sannfæringuna hans. Þótt ég sé í öllum aðalatriðum ósammála flestu sem hann stendur fyrir í pólitík hef ég oftast talið mig geta gengið að því sem vísu að hann talar af krafti hins sannfærða manns og fyrir þvi geta allir borið virðingu.

Af hverju segir hann okkur ekki hvað breytti skoðun hans svo algerlega á stuttum tíma? það myndi auðvelda honum lífið talsvert og kannski hjálpa vantrúuðum. Og skapa frið um mál sem verður að vera friður um.

Er ástæðan kannski sú að ekki er talið skynsamlegt að ala á enn meiri óánægju með gjaldeyrissjóðinn að ég tali nú ekki um ESB sem virðist hafa beitt sér af afli í málinu? Allir menn vita að Samfylkingin hugsar fyrst og síðast um hvernig hægt að halda dyrunum að ESB galopnum og þá er slagur af Icesave taginu ekki líklegur til vinsælda. Forræði í þessari deilu hefur verið á hendi Samfylkingar frá fyrsta degi og sitt sýnist hverjum með hagsmunagæsluna...

Steingrímur er ekki líkur sjálfum sér. það er erfitt að kokgleypa skoðanir sínar í stórum stíl eins og hann virðist þurfa að gera til að halda í ráðherrastólinn sinn. Mér finnst þögn Samfylkingar í málinu ærandi og það sem Steingrímur segir ósannfærandi.

Ég legg eindregið til að hann opni sig og segi okkur afdráttarlaust hvað það var sem snéri honum svo fullkomlega í þessu máli. Það hjálpar ekki bara honum heldur líka okkur hinum sem erum ekki alveg sannfærð.

Röggi.

mánudagur, 8. júní 2009

Icesafe, er tvístígandi....og þó.

Ég er að reyna að átta mig í Icesafe málinu. Spurningin um það hvort við eigum að borga eða ekki er nánast heimspekilegar vangaveltur þvi góð og gild rök virðast hníga til beggja átta. Auðvitað er gersamlega óþolandi að lenda í því að borga skuldir óreiðumanna erlendis....

Það held ég að enginn geri glaður í sinni. Mér sýnast afleiðingar þess að borga ekki verða afleitar og ekki fæ ég betur séð en að við getum varla borgað heldur! Af nokkrum ástæðum. Ég dauðöfunda ekki stjórnvöld af valkostunum í þessu máli.

Mér finnst samt eins og við höfum aldrei tekið til varna í málinu. Vissulega er það ekki fögur framtíðarmynd að einangrast ef við ekki borgum en hún er heldur ekki falleg myndin af okkur ofursett skuldum svo langt sem augað eygir þó við fáum fríspil til 7 ára.

Við erum auðvitað ekki þannig þjóð að okkur finnist par gott að láta svínbeygja okkur en það er nú tilfinningin sem ég fæ þegar samkomulagið er í höfn. Samninganefndin virðist ekki hafa verið að semja um eitt eða neitt heldur aðeins að útfæra tæknilega það sem viðsemjendurnir hafa ákveðið að okkur beri að greiða.

Það er megn óþefur af þessu máli öllu saman og kannski ekki öll kurl til grafar komin því aðrir erlendir kröfuhafar hljóta að bíða andaktugir eftir niðurstöðu í þessu máli því kröfuhafar eru jú alltaf kröfuhafar og þó við setum lög sem mismuna þeim er allsendis óvíst að þau lög haldi alþjóðlega. Þá fyrst væri fjandinn laus...

Kannski hafa allir rétt fyrir sér í þessu máli en það stendur upp á stjórnvöld að sannfæra þjóðina að fullu um nauðsyn þess að skrifa undir. Upp á það vantar stórlega og það þrátt fyrir að nú ríki flokkar sem lofuðu öllu fögru í upplýsingagjöf en hafa helst sérhæft sig í trúnaði og leynd. Um þetta stóra mál má ekki liggja nein leynd. Trúnaður stjórnvalda er við þjóðina en ekki fjandsamlega erlenda viðsemjendur.

Ég veit ekki með vissu í hvorn fótinn best er að stíga en hef á tilfinningunni að stjórnmálamenn hafi gefist upp og finnist ljómandi gott að ýta vandanum 7 ár fram í tímann. Þá er vandinn vandi annarra stjórnmálamanna en þjóðin situr alltaf upp með skuldina sem þessi bévítans óreiðumenn stofnuðu til.

Og ég þoli bara helst ekki að þurfa að láta neyða mig mig til að borga ósómann.....

Röggi.

föstudagur, 5. júní 2009

Bakari fyrir smið?

Hvurslags fyrirtæki er þessi seðlabanki eiginlega? Engu skiptir hvort þar ríkir Davíð eða norskur. Eða að Jóhanna skipi nefnd valinkunnra til að ráða ferðinni. Alltaf skal þessi banki komast að ómögulegri niðurstöðu. Og alltaf hefst sami söngur hagsmunaaðila sem helst vilja telja okkur trú um það að í þessum banka vinni helst bjánar sem ekkert hafa vit og vilja okkur alls ekki gott.

Hvernig stendur á þessu? Er ekkert hægt að lesa í ákvarðanir bankans? Stendur kannski upp á ríkisstjórnina að gera sitt? Ráðherrar og þingmenn meirihlutans skammast bæði út í seðlabanka og gjaldeyrissjóð seint og snemma og telja flestan vanda þaðan. það kaupi ég ekki.

Hvernig væri að þessi ríkisstjórn færi að hysja upp um sig buxur og hætta að lýsa yfir áhyggjum á milli þess sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að vandinn sé ekki eins mikill og allir vita að hann er. Aðgerða og úrræðaleysið er algert og yfirþyrmandi en samræðu pólitíkin lifir góðu lífi en hún er létt í maga núna og ekki fá atvinnulausir störf í kringum það spjall heldur.

Auðvitað má gagnrýna seðlabanka og gjaldeyrissjóðinn en ég bíð eftir þvi að fjölmiðlamenn afklæðist silkihönskum sínum og fari að berja aðeins á aðgerðaleysisríkisstjórninni og láti hana ekki komast upp með það ítrekað að kenna öðrum um eigin getu og úrræðaleysi.

Kannski eru háir vextir afleiðing en ekki orsök í okkar stöðu í dag. Svo bið ég þá sem telja ósanngjarnt af seðlabanka að krefja ríkisstjórn um aðgerðir í fjármálum áður en stórar ákvarðanir eru teknar í vaxtamálum að rétta upp hönd.

Röggi.