laugardagur, 31. desember 2011

Eyjan og átök ríkisstjórnarflokka

Ríkisstjórn riðar til falls og það dylst engum. Allt og þá meina ég allt er upp í loft innan beggja flokka. Fjölmiðlar hafa eðlilega áhuga á slíku efni. Eyjan er þar ekki undanskilin. En þar er áhuginn nánast bara á það hvað gerist hjá öðrum flokknum en ekki hinum. Hvernig má það vera?

Ég hef aldrei áður upplifað aðra eins löngum fólks til þess að sitja í embættum eins og þá löngun sem Jóhanna/Össur og Steingrímur eru að sýna.

Steingrímur hefur fyrir nokkru gert það upp við sig að VG skipti hann engu máli lengur heldur eingöngu hvað hentar honum til skamms tíma.

Öðruvísi er það hjá aðalritara Össur því honum er ekki sama um flokkinn sinn. Hann ræður þar öllu og hefur talað út um að flokkurinn þurfi nýja forystu og helst hugmyndir sem er frumleg tillaga eftir nokkurra ára tilveru.

Að sönnu er það ekki nýtt að ráðherraskiptum fylgir átök en núna gerist það að pirringur bæði innbyrðis og gagnvart samstarfsflokki leysist úr læðingi. Sem er afleitt sé því sullað saman við stríðsástand innandyra sem ýmist tengist foringjaræði Steingríms eða forystuátökum Samfylkingarmegin.

Ég get auðvitað ekki orðað þetta mikið betur en Kristrún Heimisdóttir gerir. VG og Samfylking eiga hvort annað skilið en er ekki að verða tímabært að leysa þjóðina undan þessum botnlausa skrípaleik?

Röggi

föstudagur, 30. desember 2011

Ríkisstjórnarfarsinn

Hugtakið stjórnarkreppa fær nýja og allt að því óraunverulega merkingu þegar við fylgjumst með ráðþrota leiðtogum ríkisstjórnarinnar reyna eftir fremsta megni að halda lífi í ríkisstjórn sem enginn vill.

Stundum er sagt að styrkur manna felist í því að geta viðurkennt ósigur eða þekkt vitjunartímann. Vel getur verið að takist að splæsa saman nýrri ríkisstjórn á næstu klukkutímum en ég sé ekki betur en að Steingrími og Jóhönnu sé í raun alveg sama hvað það kostar.

Bakland beggja flokka skíðlogar og þeir logar eiga eingöngu eftir að magnast. Steingrímur hefur brennt síðustu brúna innan VG þegar hann fórnar Jóni Bjarnasyni á altari eigin framagirni. Ætli hann sér áframhaldandi formennsku eftir þetta verður hann að sætta sig við mikið mannfall. Seinni klofningur flokksins er nú með öllu óumflýjanlegur.

Gömlu kempurnar Össur og Jóhanna sem allir eru búnir að gleyma að sátu í síðustu ríkisstjórn neita að sleppa hendinni af flokknum. Frekar en að hleypa öðrum að skal ríghaldið og öllu til fórnað að halda í völdin bæði innanflokks og utan.

Ég heyrði fréttaman reyna að lesa í stöðuna í útvarpi áðan og kalt vatn rann milli skins og hörunds. Nú er með allskonar brellum reynt að sannfæra klíkur og gengi um að sniðugt sé að hinn og þessi fái hitt og þetta. Verkefni verði færð út og suður eftir smekk hvers og eins til að reyna að hafa alla góða.

Ekkert er verið að ræða um hugmyndafræði heldur eingöngu bitlinga og ráðherrabílstjóra. Reyndar minntist fréttamaðurinn á að einhver ráðherra VG fengi "úthlutun kvóta"á sitt borð. Mikið verður nú Ísland gott land þegar ráðherrar verða farnir að úthluta vinnu og verkefnum eftir smekk.

Ef að líkum lætur munu Steingrímur og Jóhanna birtast vígreif og bjartsýn eftir þennan farsa og reyna að telja þjóð sinni trú um að allt sé með felldu. Ég er reyndar hrifinn af því þegar menn festast ekki í ráðherrastólum sama hvað gengur á en hér sjá þeir sem vilja að hreyfingarnar núna eru eingöngu til þess að reyna að bjarga deginum en ekki styrkja innviði

Og langtíma tilkostnaður er látinn liggja á milli hluta hvort heldur átt er við þjóðina í heild eða flokkana sjálfa. Steingrímur hefur komið sér upp vonlausri stöðu innanflokks og hlýtur að vera búinn að afskrifa frekari þátttöku í stjórnmálum eftir kosningar.

Og Samfylkingin á eftir allt þetta eftir að fara í gegnum alblóðugu forystukreppu. Dettur einhverjum í hug að Árni Páll leggi niður skottið núna? Össur hefur opnað fyrir átök innan flokks þar sem gamla klíkan ætlar sér að ráða hvað sem hver segir.

Þeir tveir flokkar sem skipa ríkisstjórnina hafa í raun yfirgefið öll prinsipp sem lagt var upp með önnur en að vera ríkisstjórnarflokkar. Hreyfingin stóðst prófið þegar Saari sagði nei. Þar fengu þau sallafínt heilbrigðisvottorð og geta enn haldið því fram að þau hafi töfralausnina sem þau hafa þó alls ekki.

Allt er þetta í boði þeirra sem kusu yfir sig fyrstu og vonandi síðustu vinstri stjórn sögunnar. Þeir sem kjósa þannig aftur þurfa að koma sér upp afkastamikilli gleymsku og afneitun. Ekki einu sinni tal um vondar fyrri ríkisstjórnir dugar í þeim efnum.

Vegna þess að ekki er eingönu um að ræða persónuleg átök um stóla að þessu sinni. Hugmyndafræðin er ekki heldur að ganga upp hvorki á milli flokkanna né gagnvart þjóðinni.

Slíkir smámunir stöðva þó ekki Steingrím og Jóhönnu....

Röggi

fimmtudagur, 29. desember 2011

Fjölmiðlar og þrýstihópar

Þórður Snær Júlíusson skrifar fína grein um þrýstihópa og vísar meðal annars til hóps lögmanna ýmissa þeirra sem eru til rannsóknar eftir bankahrunið. Þórður er blaðamaður á fréttablaðinu og reynir að snúast til einhversskonar varna fyrir fjölmiðlabransann.

það er ekki vandalaust að gera fjölmiðla í dag svo öllum líki og þegar lögmenn vilja fá umfjöllun fjölmiðla til refsilækkunar til handa skjólstæðingum sínum eins og nýlegt dæmi er um vandast nú málið verulega.

Þórður hefur auðvitað rétt fyrir sér þegar hann kemst að þeirri niðurstöðu að hlutverk fjölmiðla sé að segja fréttir. En hann virðist ganga út frá því að fréttirnar segi sig sjálfar. Þegar fjölmiðill skrifi frétt komi ekkert fréttamat þar að. Þegar fréttin er komin út er hún sannleikur og ekkert annað.

Fjölmiðlar eru og eiga að vera gagnrýnir en verða líka að þola það að þeir sem lesa þá geri það með gagnrýnum augum líka. Ég treysti mér til þess að halda því fram að fréttaflutningur sumra fjölmiðla í heilan áratug fyrir hrun standist illa skoðun og kannski eru þeir til sem myndu vilja kalla þá fjölmiðlun þrýstihópsfjölmiðlun.

Þá var líka verið að segja fréttir, upplýsa. Og þá var sagt við þá sem gagnrýndu að þeir væri fulltrúar annað hvort ákveðinna skoðana eða bundnir í pólitíska klafa. Ég er ekki frá því að Þórður falli dálítið í þann fúla pytt hér.

En ég er sammála honum í mörgu og finnst mikilvægt að fólk reyni að átta sig á því hvaðan og hvernig gagnrýni á umfjöllun fjölmiðla kemur. Hagsmunir skipta máli og ég læt mér ekki detta í hug að þeir eiginlega hálfguðir sem Þórður kallar lögmennina reyni að halda því fram að þeir séu að fullu hlutlausir.

En fjölmiðlamenn þurfa líka að varast að afgreiða gagnrýni eins og mér finnst Þórður kannski daðra við. Því þó mikilvægt sé að gera sér grein fyrir hagsmunatengslum þeirra sem taka þátt í umræðunni er einnig mjög mikilvægt að hafa þrek til þess að taka ekki sjálfgefna afstöðu gegn því sem til umfjöllunar er á þeim forsendum einum.

Einkum vegna þess að ef Þórður hefur rétt fyrir sér hafa fréttamenn ekki fyrirfram skoðanir. Þeir bara segja fréttir, upplýsa.

Enda eru fjölmiðlar ekki þrýstihópar....

Röggi

Þegar Davíð talar

Davíð Oddsson hefur ennþá ótrúleg áhrif. Í hvert sinn sem hann fæst í viðtöl kallar hann fram gömul krampaeinkenni hjá fólki sem aldrei þoldi manninn. Vinstri hliðin á pólitíkinni finnur gömlu minnimáttarkenndina hríslast um sig og hefur ekkert til rökræðunnar fram að færa.

Annað en að Davíð sé hitt og þetta og heimsendirinn sé honum að kenna. Ég get auðvitað ekki haldið því fram að Davíð sé fullkominn eða gallalaus og hafi alltaf sagt og gert allt eins og ég sjálfur hefði viljað.

En finnst magnað hvernig þessi einu sinni yfirburðamaður getur enn fengið suma til að missa allan kúrs og fara í gamalt margtuggið og ónýtt far með því einu að benda á staðreyndir sem við öllum blasa.

Verst er þó líklega að í hvert skipti sem Davíð talar þjappar hann fólkinu sem trúði á vinstra vorið saman til stuðnings við ríkisstjórn sem enginn hefur raunverulega trú á hvort heldur sem menn sitja í henni eður ei.

Röggi

mánudagur, 19. desember 2011

Rýnt í bókina um Icesave afleikinn

Af einhverjum ástæðum hefur bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave ekki verið mikið til umræðu. Kannski vegna þess að við skömmumst okkar öll pínulítið. Þeir sem voru við völd árin fyrir hrun og Icesave og svo líka hinir sem tóku við og reyndu að leysa málið.

Bókin er frábærlega skrifuð og auðlesin og allt að því skemmtileg þó tilefni hennar sé hreint ekkert skemmtiefni. En eitt er þó víst að þessa bók les hver með sínum gleraugum og þeir sem eru í litla hópnum sem telur Steingrím og Svavar hafa haldið vel á málum munu væntanlega láta sér fátt um finnast í besta falli.

Bókin er ekki skáldsaga. Höfundur vísar í heimildir og samtöl, staðreyndir en dregur vissulega alyktanir sem allar eru á eina lund. En þær ályktanir eru rökstuddar skotheldri fagmennsku.

Með tilvitnunum leiðir höfundur okkur fyrir sjónir ítrekaðan brotavilja stjórnvalda gagnvart þjóð sinni þar sem Steingrímur og Jóhanna verða margsaga þvers og kruss um málið. Þar þarf ekki að týna til neinn skáldskap eða færa í stílinn. Sannleikurinn er þarna fyrir okkur öll að sjá.

Ég upplifði Svavar Gestsson eiginlega sem fórnarlamb við lestur bókarinnar. Þar fór algerlega vanhæfur samningamaður alveg eftir skipunarbréfi. Honum var ekki falið að semja um neitt annað en vexti og lufsaðist til þess. Ríkisstjórnin ætlaðist aldrei til neinnar varðstöðu um lagaleg atrði máls heldur vildi bara borga. Svavari var því allt að því vorkun og virðist enn þann dag í dag ekki skilja málið.

Bókin lýsir því vel hvernig pólitíkin fór með þetta mál. Þar sem gamlir samherjar urðu óvinir og öfugt. Hvernig ríkisstjórnin reyndi að afvegaleiða umræðuna og láta málið snúast um íslenska skítapólitík.

Hvernig ráðherrar gerðu lítið úr vilja þjóðar og ætluðu hvorki að spyrja kóng né prest. Á sama hátt er hérna sögð saga þjóðar sem hafði einbeitta ráðherra og meðreiðarsveina þeirra á þingi undir öllum til heilla þrátt fyrir stanslausar bölbænir og heimsendaspár.

Flestir eru líklega orðnir leiðir á sögunni og telja kannski óþarfa að ryfja þennan leiðindakafla upp. Jón Baldvin telur að bókin hefði átt að heita ofleikur aldarinnar en ekki afleikur því málið hafi ekki snúist um neitt.

Til að halda þeirri söguskýringu á lofti þarf að gleyma því að vegna baráttu fólks utan ríkisstjórnar er afar sennilegt að við sleppum með talsvert minni skrekk en ef Steingrímur, Indriði og Svavar hefðu keyrt kúrsinn alla leið óáreittir.

Þessi bók er nauðsynleg heimild. Hún er heimild um getu og viljaleysi fjölmiðla sem eru hálfgerð flokksblöð í felubúningi sem spyrja ekki þó bæði spurning og svar æpi á það.

Hver sem skoðun okkar er á atburðarás hlutanna og hvar sem við staðsetjum okkur í pólitík. Og hvernig sem við sjáum söguna fyrir og eftir Icesave þá er þessi bók heilsusamleg lesning og mjög læsileg.

Röggi

fimmtudagur, 15. desember 2011

Jóhanna leiðréttir hagstofuna

Hvað ætlar forsætisráðherra að gera í málefnum hagstofu Íslands? Hagstofan birtir tölur um fólksflutninga sem eru greinilega kolrangar. Það er grafalvarlegt mál og nokkur fjöldi manna hefur byggt málflutning sinn á þessum tölum undanfarið.

Það er ekki fyrr en Jóhanna Sigurðardóttir stígur fram og upplýsir okkur um staðreyndir málsins að upp um rangfærslur hagstofunnar kemst. Þar sitja menn og standa leiðréttir. Augljóst hlýtur að vera að þarna þarf að taka til.

Hagstofan hefur með þessu framferði komið óróa af stað og aukið á óánægju að óþörfu og við fögnum því að Jóhanna skuli af myndugleik taka af öll tvímæli hvað þetta varðar. Enda vitum við að ekki lýgur forsætisráðherra......

Röggi

miðvikudagur, 14. desember 2011

Jóhanna, umræðan og þögulir fjölmiðlar

Þá sjaldan forsætisráðherra lætur til sín taka í umræðunni gengisfellir hún embættið sem hún gegnir. Þegar staðan verður sem svörtust í þinginu grípur hún til þess gamla bragðs að tala hátt og mikið um hið vonda "íhald" sem á ekki betur við neina ríkisstjórn en þá sem hún sjálf stýrir. Þetta er gamla Ísland og gamla pólitíkin og virkar enn sýnist mér. Allavega á fjölmiðlamenn sem láta gott heita.

Almennt tekur hún þó ekki þátt í umræðunni heldur lætur Steingrím um það. Honum er svo að fatast flugið heldur betur og verður uppvís að hálfsannleik eða hreinlega lygum án þess að það verði að stórmáli í umræðunni.

Jóhanna stekkur til þegar mikið liggur við og segir þá bara eitthvað sem hljómar vel. Líklega treystir hún á að fjölmiðlar annað hvort hafi ekki nennu eða áhuga á að rengja það sem hún segir. Á þetta getur hún að mestu treyst því fjölmiðlum flestum er nákvæmlega sama þó eitt stykki forsætis eða fjármálaráðherra bulli bara einhverju frá sér.

Núna hefur Jóhanna kveðið upp úr með það að fólksflutningar héðan séu ekki meiri en undanfarin ár og virðist hneyksluð á umræðunni. Þetta segir hún bara sísvona og styður það ekki með nokkrum rökum. Þar með er því máli lokið af hennar og fjölmiðla hálfu og báðir aðilar snúa sér svo að því að lumbra á stjórnarandstöðunni.

Ég er ekki í þessum pistli að velta fyrir mér ástæðum þessara fólksflutninga heldur því hvernig forsætisráðherra umgengst umræðuna og sannleikann. Og hvernig vinveittir fjölmiðlar fara að því að láta sér fátt um finnast.

Hvernig væri að ganga dálítið á Jóhönnu í þessu máli. Á hvaða upplýsingum er þessi málflutningur byggður? Þetta er nógu lítið mál til þess er það ekki? Ekki hafa menn þrek til þess að stóru málunum.......

Röggi

þriðjudagur, 13. desember 2011

Björn Valur og meiðyrðalöggjöfin

Það er þetta með meiðyrðalöggjöfina. Er hún kannski óþörf með öllu? Eða ætti kannski að skilyrða hana með einhverjum hætti? Við gætum stofnað nefnd góðra manna sem leggur mat á það hverjir eru nógu góðir einstaklingar til þess að mega höfða mál byggð á þessari löggjöf.

Björn Valur Gíslason settist niður og skrifaði grein þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að valdir aðilar eigi ekki að hafa aðgang að þeim rétti sem þessi löggjöf veitir þegnum þessa þjóðfélags.

Hrunverjar og mótorhjólagengi eru þeir sem Björn Valur telur að ekki hafi rétt til þess að höfða mál. Og svo þeir sem eiga peninga almennt. Þeir mega ekki verja mannorð sitt sér í lagi ef auralaus maður hefur viðhaft orð um þá.

Slíkt kallar Björn Valur tilraun til þöggunar. Rétttrúnaður þingmannsins ríður ekki við einteyming frekar en fyrr. Sem betur fer búum við ekki í landi þar sem lög og réttur eru bara fyrir suma en ekki aðra.

Ég get haft ýmsar skoðanir á sumum þeim sem höfða meiðyrðamál og ég má það. Ég get meira að segja átt það til að bomba dálítið á hina og þessa opinberlega. Sumir þeirra eiga jafnvel peninga sem ég mun þurfa að borga fyrir þá og aðrir eitthvað minna af þeim.

Þeim orðum mínum fylgir ábyrgð og hún fellur ekki úr gildi þó viðkomandi séu að mati margra vondir menn.

Þetta ætti fulltrúi VG á löggjafarþinginu að skilja öðrum fremur.

Röggi

mánudagur, 12. desember 2011

Össur ekki að lesa salinn

Össur Skarphéðinsson er nagli. Hertur í pólitík og oft glúrinn að lesa salinn. Þessa dagana reynir mjög á þann hæfileika hans. Össur er nefnilega fastur á sjálfstýringunni. Í rikisstjórn sem enginn vill hvort heldur átt er við landsmenn eða þá sem þar sitja. En hann kemst bara ekki út...

Össur er líka á sjálfstýringu í ESB málinu og kemst ekki þaðan út heldur. Hann hefur lært það á löngum ferli að staðan má vera djöfulleg til þess að ekki sé hægt með klókindum að túlka hana sér í hag. Staða ESB er afar slæm og verri en djöfulleg að flestra mati þó hugsanlega hafi tekist að forða algerri upplausn ESB um helgina með því að skipta bandalaginu í tvennt.

Evran færist fjær og fjær og hún var og er aðal aðdráttaraflið. Kannski telur Össur að við myndum lenda í efstu deild þegar og ef við samþykkjum samning. Hann er þá einn um þá skoðun.

Kalt hagsmunamat. Þetta orðalag fer mjög fyrir brjóstið á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins þegar ESB ber á góma. En þetta er besta orðalagið þegar taka þarf afstöðu til inngöngunnar í ESB.

Það getur ekki verið trúaratriði að ganga inn í ESB no matter what. En það þarf að virka í báðar áttir þetta kalda mat og ég treysti því að þannig sé því farið.

Kalda hagsmunamatið hans Össurar segir honum án efa að best væri fyrir þá sem vilja inn að gera hlé. Hann bara þorir ekki að taka þá ákvörðun enda engin önnur svör til fyrir flokkinn hans en að finna himnaríkið í Brussell.

Þess vegna þumbast hann við og vill ekki sjá jafnvel það sem ekki er neinn ágreiningur um. Össur er ekki að lesa salinn nógu vel núna.

Röggi

Peningar og íþróttir

Hrafnhildur Skúladóttir fyrirliði kvennalandsliðsins talaði enga tæpitungu í viðtali eftir að kepnni lauk á HM í handbolta í gær. Sársvekkt og ör eftir leik lét hún vaða og hreyfir við umræðunni. Margir ætla að láta knappann stíl Harfnhildar verða að aðalatriði umræðunnar.

Sjálfskipaðir fulltrúar listamanna móðgast vegna þess að Hrafnhildur gerði samanburð á listum og íþróttum þegar kemur að fjárlögum ríkissins. Síðan hvenær varð það frágagnssök að gera samanburð þegar rætt er um útgjöld skatttekna okkar?

Hugsanlega er það þannig að íþróttamenn almennt gera sér ekki nægilega vel grein fyrir mikilvægi þess sem kallað er list og menning. En íþróttafólk gerir sér vel grein fyrir því að stjórnvöld gera mikinn greinarmun á gildi íþrótta og ungmennastarfs og listageirans.

Þeir eru til sem hafa í raun ekki nokkra hugmynd um hvernig íþróttaheyfingin er uppbyggð og rekin. Halda að allir séu atvinnumenn og stórstjörnur. Að þeir peningar sem safnast fari allir til þess að greiða ofdekruðum íþróttamönnum. Þannig er þetta ekki á Íslandi.

Vissulega er reynt að halda upp afreksstarfi í íþróttum eins og öðrum greinum. Ég veit ekki hvað listamannalaun og eða laun fyrir þá sem spila í sinfóniuhljómsveit eru ef ekki tilraun til að halda uppi afreksstarfi.

Íþróttahreyfingin á Íslandi er starfrækt af sjálfboðaliðum og snýst um umgmennastarf öðru fremur þó þeir sem ekki þekkja vel til sjái aðeins toppinn af ísjakanum þ.e. þá sem keppa í afreksíþróttum í sjónvarpi.

Ég hvet þá sem vilja kynna sér staðreyndir um starfsemi íþróttahreyfingarinnar að lesa pistil Ólafs Rafnssonar forseta ÍSÍ.

Ekkert í þessum pistli ætti að þurfa að fara fyrir brjóstið á þeim sem vilja láta mikilvæga umræðu snúast um orðalag afrekskonu í tilfinningarússi eftir stóran kappleik.

Röggi

föstudagur, 9. desember 2011

Sóley og pólitíkin í Orkuveitunni

Mjög margir hafa misst trú á stjórnmálamönnum. Mælingar sýna að virðing fyrir alþingi er sorglega lítil. Venjulegt fólk talar um að sami rassinn sé undir þessi liði öllu og best sé að skipta öllum út og fá nýtt fólk. Veit reyndar ekkert hvaða fólk er nýtt fólk en það er önnur saga....

Samt er það þó þannig að enn er til fólk sem vill afhenda þessum sömu stjórnmálamönnum enn frekari völd. Þetta fólk talar líka gjarnan þannig að ef bara væru til betra fólk til að sinna stjórnmálum þá gætu þeir hinir sömu bjargað öllu. Svo er því bætt við að best sé að lækka launin hjá þessari mikilvægu starfstétt.

Sóley Tómasdóttir trúir því að stjórnmálamenn séu til allra hluta bestir. Hún vill hafa þá út um allt. Sóley telur að sagan segi okkur að afskipti stjórnmálamanna af Orkuveitunni réttlæti enn frekari afskipti þeirra af því fyrirtæki.

Orkuveita Reykjavíkur hefur að mínu viti ekki grætt á setu kjörinna fulltrúa í stjórn fyrirtækissins nema síður sé. Orkuveitan er komin á heljarþröm og þar getur enginn flokkur fríað sig ábyrgð þó þeir geri það nú samt og komist upp með það meira og minna.

Ég tek ofan fyrir Besta flokknum að hafa reynt að taka þar til og fagna því ef afskipti kjörinna fúlltrúa af fyrirtækjarekstri borgarinnar eru á undanhaldi.

Þarna verðum við Sóley aldrei sammála. Ég velti því fyrir mér hvað Sóley telur að þeir sem sitja í borgarstjórn hafa fram af færa umfram fagmenn sem ekki eru nestaðir allskonar pólitískum hagsmunum. Fagmenn sem standa og falla með árangri í starfi og axla ábyrgð gagnvart eigendum.

Stjórnmálamenn standa nefnilega bara en falla ekki alveg óháð því hvernig þeir standa sig. Það segir sagan af Orkuveitunni okkur. Og reyndar svo miklu miklu fleiri sögur.

Samt vilja margir afhenda stjórnmálamönnum meiri völd......

Röggi

miðvikudagur, 7. desember 2011

Danskt bankahrun?

Getur verið að Danmörk sé að fara að ganga í gegnum bankahrun? Sérfræðingarnir sem hafa siglt keikir yfir hafið og messað yfir okkur molbúum hér í norðrinu og sagst hafa vitað allt en við skellt skollaeyrum.

Á Íslandi er það þekkt staðreynd meðal léttadrengja í leit að skjótfengnum pólitískum ágóða að heimshrun bankakerfis hefðu hérlendir menn, líklega tveir að tölu, átt að sjá fyrir. Og ekki einungis það. Þeir hefðu átt að koma í veg fyrir óskundann.

Danir hljóta að íhuga framsal...

Röggi

miðvikudagur, 30. nóvember 2011

DV nauðgar fjölmiðli

Öllum getur orðið á. Gert mistök sem ekki þarf endilega að rekja til mannvonsku eða vilja til að meiða. Af einhverjum ástæðum eiga fjölmiðlar og fjölmiðlamenn erfitt með að játa mistök. Það er mannlegt og jafnvel eðlilegt að reyna að komast hjá slíkum óþægindum.

DV gerir auðvitað mistök annað veifið enda er blaðið skrifað af fólki og við erum öll manneskjur og gerum mistök. Slíkt er að sjálfsögðu hægt að fyrirgefa. En þá þarf að biðjast afsökunar.

Við þurfum ekki að vera sérmenntuð í fjölmiðlafræði til að sjá að svona vinnubrögð DV eru fyrir neðan allar hellur og eru auðvitað ömurleg mistök. Fall í fjölmiðlafræði 101 og tilraun til að sverta fólk sem hefur í engu unnið til þess.

Hef samt á tilfinningunni að eitthvað verði snúið fyrir blaðið að finna hvöt til að biðjast afsökunar þó að í þessu tilfelli sjái auðvitað allir menn að um ótrúlegan fantaskap er að ræða.

Það þarf heilmikinn orðhengilshátt og óskammfeilni í bland við útúrsnúningaáráttu til að biðjast hreinlega ekki bara afsökunar.

Við sjáum til.....

Jón Bjarnason er leiðtoginn

Jón Bjarnason er magnaður maður. Hann hefur stýrt skóla og nú stýrir hann stórum og mikilvægum ráðuneytum og enginn veit beinlínis af hverju. Tilsvör mannsins þegar hann er undir smá ágjöf gefa annað tveggja eindregið til kynna.

Annað hvort er hann óhemjuskemmtilegur maður og fyndinn eða algerlega óhæfur til þeirra starfa sem hann hefur tekið að sér. Hvergi í heiminum kæmist ráðherra upp með að svara algerlega út í hött þegar hann er spurður nema menn reikni hreinlega ekki með svari. Sé það þannig segir það meira en mörg orð.....

Hitt er svo aftur morgunljóst að Jón Bjarnason er auðvitað glæstur fulltrúi skoðana VG þó hann eigi ekkert erindi með þær inni í þeirri ríkisstjórn, og reyndar engri ríkisstjórn, sem nú rær í allt aðra átt en VG.

Jón Bjarnason hefur því ekki gert annað en að fylgja sannfæringu sinni og stefnumálum VG af einurð og festu. Það er formaður VG og þeir sem fengið hafa ráðherrastóla og sporslur aðrar sem hafa villst af leið sælir af setunni við kjötkatlana.

Jón Bjarnason er í mínum helsti leiðtogi hugmyndafræði VG og baráttumaður. Steingrím hefur aftur á móti borið af leið og hefur við illan leik tekist að forða klofningi hinum seinni. Sá mun vera óhjákvæmilegur með öllu hvort sem það verður fyrr eða seinna.

Þá munu Jón Bjarnason og fylgismenn hans hugmynda losna við Steingrím sem hefur fengið ráðherraveiki sem birtist þannig að hann man ekki lengur fyrir hvað hann stendur, eða stóð öllu heldur. Það eina sem skiptir hann máli er að vera ráðherra.

Þegar þetta gerist fer fylgi VG fara niður í það sem það á auðvitað að vera......

Röggi

mánudagur, 28. nóvember 2011

Einangrunarþrá og fjárfestingaróttinn

Það er kannski ekki að furða að ástandið hjá okkur sé skrýtið. Við erum rétt að reyna að ná áttum eftir hrunið og landinu stýrir einhversskonar ríkisstjórnarlíki. Því er haldið að okkur að allt sem heitir frelsi, einka og markaðsbúskapur sé vont en ríkiseign og ríkisrekstur sé góður.

Gamlir ráðstjórnarríkiskommar ráða för og eins og stundum áður er þar hver höndin upp á móti annarri. Slíkir hafa ekki bara óbeit á atvinnulífi öðru en ríkisreknu heldur eru einnig haldnir krónískri einagrunarþrá sem birtist helst í hræðslu við allt sem er útlenskt.

Í gær sá ég þannig mann tala í silfri Egils. Arkitektinn Jón Þórisson hélt því fram að iðnaður hvort sem hann heitir stór eða ferða skilaði þjóðinni litlu ef nokkru þegar upp er staðið. Þetta hafði maðurinn eftir Indriða H og virtist sannfærður.

Sjaldan hefur Agli Helgasyni tekist að draga annan eins niðurrifsmann í salinn til sín. En menn sem tala svona virðast eiga greiðan aðgang að umræðunni og kannski verður það á endanum þannig að við bönnum eiginlega allt sem kemur frá útlöndum.

Sér í lagi ef það heitir fjárfesting. Útlendingar með þannig hugmyndir eru dæmdir á Íslandi. Þeir eru hættulegt fólk vegna þess að þeir vilja fjárfesta og hagnast í leiðinni. Hrunið kom óorði á fjárfestingarbransann vissulega og þeir sem aðhyllast ríkisvæðingu hlutanna eru að gernýta sér ástandið.

Ef VG réði yrðum við norður Kórea. Einangruð og hrædd við allt sem er útlenskt. Myndum hokra hér í öruggu skjóli ríkissins að selja hvort öðru rækilega niðurgreitt lambakjet óhult fyrir erlendu fjármagni og fjárfestingum vondra manna sem vilja hagnast. Í ríki VG græðir enginn nema ríkið.

Eina fjármagnið sem má koma hingað er erlent lánsfé til að fjármagna rekstur alríkissins þegar ekki er lengur hægt að kreista meira úr vösum þjóðar sem á ekki möguleika.

Við viljum vera ein í heiminum. Öldungis alein og áháð og ekki í þeirri bráðahættu að hingað horfi menn sem sjá möguleika á að byggja upp atvinnulíf og hagnast í leiðinni. Við skulum banna slíku fólki að koma hingað.

Við skulum bara vera undir forsjá stjórnmálamanna eins og þeirra sem ráða ríkjum núna. Þeir passa upp á enginn missi sig í góðar tekjur og vernda okkur fyrir velsældinni.

Þeir sem mest mega sín í umræðunni er fólk sem trúir því að stjórnmálamenn/ríkið muni með galdraaðferðinni koma og redda okkur. Allt sem þurfi sé bara góður vilji og engin stjórnarandstaða.

Stjórnmálamenn munu ekki bjarga hlutunum með því að taka okkur hlýlega öll undir sinn verndarvæng. En þeir geta svo sannarlega komið í veg fyrir að þjóðin geti verið sjálfbjarga.

Að því vinna gömlu kommarnir daglega í umboði búsáhaldabyltingar sem hefur fyrir löngu étið öll börnin sín.

Röggi

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Samfylking er hækja VG

Það var vissulega fyrirséð að ekki yrði auðvelt að halda úti ríkisstjórn eftir hrunið. Ég spáði því að hér yrði kosið tvisvar til þrisvar næstu árin. Þá tók ég mið af heimssögunni og fræðum tengdum stjórnmálum.

Sumir segja að ekkert sé nýtt undir sólinni en þegar kemur að ríkisstjórn VG og Samfylkingar kemur í ljós að þau sannindi ná ekki til Íslands.

Ég veit að í samstarfi flokka gengur oft mikið á þótt oftast takist að halda andliti út á við. Flokkar geta verið ólíkir um svo margt þó þeim takist í bjarmanum af ráðherrastólum að lemja saman samstarfsamningi.

En það sem VG og Samfylking bjóða upp á er nýlunda. Látum vera þó kúrsinn sem tekinn í björgunarleiðangrinum sé í átt að eyðileggingu. Stjórnmálamenn mega vera grjótvitlausir enda starfa þeir í umboði þeirra sem þá kusu og trúðu á boðskapinn.

En að bjóða upp á þann farsa sem blasir við okkur nær daglega er hreinlega móðgun við alla skynsemi. Flokkarnir tveir hafa bókstaflega hvergi sameiginlega nálgun eða snertifleti. Samfylking reynir án afláts að sverja allt af sér sem flokkurinn á sömu stundu skrifar upp á við ríkisstjórnarborðið og svo þumbast fulltrúar flokksins mismikið undir nafni í kyngimögnuðu baktali í allra eyru.

Það er leitun að Samfylkingarmanni sem getur lagt þingflokki VG til gott orð. Frá upphafi hefur verið ljóst öllum sem vilja sjá að VG hefur haft hreðjatak á Samfylkingu. Slíkur er kostnaður Samfylkingar við ESB umsóknina. VG hefur leikið lausum hala og farið um efnahagslíf okkar með boðum og bönnum og skattaæði.

Sumir segja að mesta afrek Jóhönnu sé að hafa ekki misst flokkinn upp í allsherjar uppreisn gegn þessu leikhúsi fáránleikans sem samstarfið við VG er og hefur verið frá fyrsta degi. Kannski er heilmikið til í því.

Núna loksins virðist sem þolinmæðin sé endanlega á þrotum. Ég held að það mál sé í raun og vera þannig að Samfylkingin er að sjá að Steingrímur J Sigfússon, Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Indriði H séu í raun og vera með liðónýtar lífsskoðanir í pólitík og efnahagsmálum.....

...og ekki sé lengur verjandi að leggja heilann stjórnmálaflokk undir með þeim kostnaði sem klárlega mun verða umtalsverður í kjörklefanum.

En, Samfylkingin hefur áður farið á límingum vegna ekki bara framkomu ráðherra VG heldur þeirra grundvallarprinsippa sem sá flokkur vinnur eftir og kokgleypt allt.

Hversu lengi og hversu mikið er hægt að standa í slíku? Er öllu til fórnandi?

Það er á ábyrgð Samfylkingarinnar að halda ríkisstjórn VG lifandi. Samfylkingin er ekkert annað en hækja VG og lætur hvað sem er yfir sig ganga.

Það mun verða kostnaðarsamt og getur ekki haft góð áhrif á stóra málið sem Samfylking vill koma á koppinn.....

Röggi

föstudagur, 25. nóvember 2011

Leikskólakennarar og jafnaðarstefnan

Ég viðurkenni að hafa ekki sett mig inn í kjarasamning leikskólakennara. Ég get líka sagt að ég hef mikla samúð með kjarabaráttu þeirra. Ég hef enda eins og við öll meira og minna myndi ég halda nýtt mér þjónustu þess hóps og skil mikilvægi starfa þeirra þó ég skilji alls ekki af hverju menn fá hærri laun fyrir að svara í síma ráðhúsinu en að vera með börnunum okkar.

Núna eru leikskólakennarar sturlaðir vegna þess að meirihlutinn í Reykjavík komst að því á fundi sínum að þessi hópur hefði gert kjarasamning með hækkunum sem eðlilegt væri að taka þá skipulega til baka. Einmitt vegna þess að leikskólakennarar fengu hækkun!

Þessi samningur er ekki mjög gamall og mig minnir að hann hafi klárast undir gríðarþungum almennum stuðningi við þessa starfstétt. Sá viðtæki stuðningur fullyrði ég að hafi ekki verið háður þeim skilyrðum að hækkanirnar sem um var samið skyldi taka til baka ef hægt væri að finna einhvern annan hóp starfsmanna borgarinnar sem fékk minna.

Leikskólakennarar voru og eru með hlægileg laun í einhverju mikilvægasta djobbi sem hægt er að hugsa sér. Ég ætla ekki að kenna núverandi meirihluta í borginni um þá stöðu en ég bara get með engu móti skilið málflutning Dags B Eggertssonar í útvarpi í gær.

Kannski var ég eitthvað að misskilja manninn en mér fannst hann segja að leikskólakennarar hefðu mátt sjá þetta fyrir. Þeir hefðu fengið meira en aðrir og því þurfi þeir að skila í áföngum til baka.

Er nema von að sumir tryllist. Eigum við ekki öll að tryllast til stuðnings málsstað lekskólakennara?

Jafnaðarstefnan tekur á sig furðumyndir stundum þegar Dagur B Eggertsson talar.

Röggi

fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Af hófsemi skattlagninga

"Við jafnaðarmenn viljum ganga fram af hófsemi fram í skattlagningu"

Svo mælir Magnús Orri Schram sem virðist bara alls ekki ætla að átta sig á því að hann og hans flokkur er í núverandi ríkisstjórn. Þingmaðurinn skrifar hverja greinina á fætur annarri til þess að lýsa því yfir að hann sé eindreginn talsmaður þess að gera allt annað í efnahagsmálum en hann er að gera.

Nema ég sé að misskilja. Auðvitað getur vel verið að Magnúsi Orra þyki núverandi ríkisstjórn vera hófsöm í skattlagningu.

Hvernig læt ég?

Röggi

Að afloknu formannskjöri

Þá vitum við það. Bjarni Ben er og verður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um fyrirsjáanlega framtíð komi ekkert óvænt upp á. Mér sýnist á umræðunni að landsfundurinn hafi verið andstæðingum flokksins talsverð vonbrigði.

Barátta formannsframbjóðendanna var til fyrirmyndar og þau létu ekki draga sig út í neitt forað sem hlýtur þó að vera einhver freisting í hita leiksins. Í stað þess að tala um snögga bletti hvors annars var talinu beint að eigin kostum á málefnalegum forsendum.

Mér fannst Hanna Birna og hennar fólk veðja á rangan hest. Kannski er ekki sanngjarnt að orða þetta þannig því í raun var Hanna Birna samkvæm sjálfri sér en ég held að fylgi við sjónarmið hennar hafi hún og ýmsir aðrir ofmetið.

Og svo hitt að Bjarni hefur verið að styrkjast hvað sem hver segir. Sumir tala reyndar eins og hann hafi verið formaður um alla tíð en ekki í 30 mánuði. Krafan um 50% fylgi í skoðanakönnunum og yfirburði er ekki sanngjörn gagnvart Bjarna sem fékk laskaðann flokk til að leiða og erfið úrlausnarefni.

Menn finna Bjarna eitt og annað til foráttu. Hann þykir stundum vingull og of kurteis og alls ekki nógu herskár. Sumt af þessu getur reyndar verið styrkur og hefur reynst styrkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að horfast dálítið í augu við sjálfan sig í auðmýkt og hófstillt framkoma Bjarna hefur að mínu viti verið til heilla.

Bjarni hefur vissulega reynt að feta einstig í viðleitni sinni til þess að sætta afar ólík sjónarmið innan flokks í stórum málum og kannski verður það vingulslegt að sjá. Allt hefur sinn tíma og Bjarni hefur oftar en ekki reynst hafa ágætt pólitískt tímaskyn.

Ég held að síðar munu menn sjá að það er ekki vandalaust að sigla Sjálfstæðisfleyinu í gegnum þann stórsjó sem flokkurinn hefur siglt frá því allt hrundi yfir okkur. Þar er ekki sanngjarnt að horfa framhjá hlut formannsins.

Það sem helst háir Bjarna er fortíð hans í viðskiptum auk þess sem ýmsir vilja telja það honum til vansa hverra manna hann er. Slúður andstæðinga hans um viðskiptafortíð hans lifir býsna góðu lífi án þess að á eitthvað sérstakt saknæmt sé bent. Gróa er látin um að halda uppi efanum.

Hann sætir ekki ákæru og er ekki til rannsóknar eftir því sem ég best veit og þá sjaldan hann hefur verið spurður hefur ekki verið nein vigt í þeim spurningum og svörin óhrakin. En við erum ekki óvön því að fjölmiðlar beiti sér í þágu óljósra hagsmuna bæði í viðskiptalegum og pólitískum tilgangi.

Ég heyri því haldið fram að flokkurinn hafi heldur betur leikið af sér með því að kjósa Bjarna Ben. Hanna Birna hefði örugglega fiskað betur í næstu kosningum. Um það veit auðvitað enginn en það eru sjónarmið sem ekki réðu afstöðu þeirra sem völdu formann og það finnst mér heilbrigt.

Ég held að Bjarni hafi hlotið brautargengi vegna eigin mannskosta og framgöngu í knappri stöðu en ekki vegna þess að Hanna Birna hafi ekki verið góður kostur. Tal um að 55% fylgi á þessum tímapunkti gegn þessum öfluga mótframbjóðanda sé slakt er út í hött.

Bjarni Ben hefur í dag sterkasta umboð þeirra sem leiða flokkana og mun vaxa að styrk bæði persónulega og pólitískt í kjölfarið. Enda mun ekki af veita því þótt það verði vissulega ánægjulegt fyrir okkur öll að snúa af þeirri vinstri stefnu sem allt ætlar niður að drepa verður það ekkert íhlaupaverk.

Ég treysti mínum manni í það verk.

Röggi

Af hverju fær Jóhannes ekki að dæma?

Jóhannes Valgeirssson knattspyrnudómari eða ætti ég kannski að segja fyrrverandi knattspyrnudómari veit ekki af hverju hann er ekki lengur dómari. Hann hefur bara alls enga hugmynd um það. Og fjölmiðlar halda áfram að birta sífellt dramatískari og lengri greinar hans um þetta grunleysi.

Ég er auðvitað í sömu stöðu og Jóhannes og veit ekki neitt um málið en hef reynt að lesa á milli lína en það er hæfileiki sem Jóhannes býr ekki að. Hvernig stendur á því að KSÍ ætlar ekki að nýta krafta þessa reynda dómara lengur?

Ætli það sé vegna þess að dómaranefnd KSÍ hefur sértækan áhuga á því að halda frá þeim sem hafa bæði reynslu og hæfileika til þess að dæma? Hvernig gæti hagsmunum KSÍ í dómaramálum verið þjónað þannig? Dómarinn sjálfur kemur algerlega af fjöllum.

Ég hef lært það að fátt gerist út af engu. Sök Jóhannesar í málinu sýnist mér hafa minnkað í hans eigin augum í réttu hlutfalli við birtar greinar og viðtöl vegna málsins.

Jóhannes virðist ætla að gernýta sér þá stöðu að dómaranefnd KSÍ vinnur eftir þeim prinsippum að ræða ekki faglegar ákvarðanir sínar opinberlega. Eins og ég skil það mál er það ekki síst hugsað til þess að vernda dómarana sjálfa og er bæði skynsamlegt almennt talað og alþekkt vinnubrögð.

Auðvitað veit Jóhannes Valgeirssson upp á hár hvers vegna þessi staða er komin upp. Og hann nýtir sér þögnina frá KSÍ til að vega að trúverðugleika dómaranefndarinnar og afla sér samúðar.

Kannski er best fyrir dómaranefnd KSÍ að gera undantekningu og upplýsa okkur um ástæður þess að Jóhannes er úti í kuldanum. Ég veit að þá er verið að opna fyrir ótrúleg leiðindi og enn meira neikvætt umtal en þetta mál kallar mögulega á sértæk viðbrögð þar sem dómarinn virðist ekki ætla að hætta fyrr en ástæðan er öllum kunn.

Ef ekkert heyrist frá KSÍ mun rödd Jóhannesar í þessu máli hljóma æ meira sannfærandi í huga margra þó ég láti það ekki flökra að mér að dómaranefnd KSÍ hafi ákveðið það í bríaríi einn góðan veðurdag að hætta að nota Jóhannes, bara sísvona.......

Einfaldlega vegna þess að engin skynsamleg rök geta hnígið í þá átt önnur en að eitthvað hafi komið upp á. Og úr því Jóhannes hrópar á að það sé upplýst er kannski best að láta það eftir honum.

Röggi

mánudagur, 21. nóvember 2011

Björn Valur mælir styrk

Það er nokkrar leiðir til að túlka sigur Bjarna Ben í formannskjörinu um helgina. Andstæðingar flokksins reyna auðvitað að telja sér trú um að það að leggja afar sterkan frambjóðanda í lýðræðislegri kosningu sé ósigur.

Gott dæmi um mann sem hefur laskaða pólitíska sýn á þetta er Björn Valur Gíslason sem telur væntanlega að Steingrímur Sigfússon sé gríðarsterkur á formannsstóli VG vegna þess að enginn alvöru frambjóðandi bauð sig fram gegn honum þrátt fyrir að flokkurinn sé í raun í tætlum og viti ekkert hver hann er, hvaðan hann er að koma né hvert hann er að fara margklofinn og á þó enn inni að minnsta kosti eitt tilbrigði við klofning enn!

Það finnst Birni blessuðum merki um styrk og stefnufestu. Þegar öll hjörðin situr og stendur eins og formaðurinn vill þrátt fyrir að allt skíðlogi stafna á milli. Þannig höfum við reyndar vanist því að flokkarnir "skipuleggi" fundina og því er Birni er vorkun að vissu leyti.

Styrktarmælistika þingmannsins tekur ekki kipp fyrr en augljóst er að sitjandi formaður hefur drepið svo niður alla andstöðu við sína eigin ríkjandi skoðun að óhætt er að blása til fundar. Þá mæti Björn Valur og allir hinir sem eru ekki sammála um neitt og klappa þegar á að klappa.

Og svo mætir aðalritarinn og segir fjölmiðlum að allt sé í fína af því að allir klöppuðu í takti. Nei, það eru nú ekki vandræðin á slíkum bæjum. Alveg eins og í Sovét í den....

Þannig framgangsmáta sér þingmaðurinn strax sem sigur en veikleika flokka sem bjóða upp á kosningar milli tveggja öflugra aðila. Að ég tali nú ekki um fund þar sem fólk tekst á um hluti sem allir vita að ágreiningur er um.

Björn Valur klikkar bara helst ekki.

Röggi

laugardagur, 19. nóvember 2011

Litla Kína á fjöllum

Páll Vilhjálmsson er einn magnaðasti bloggari sem við eigum. Gagnorður og kann að hreyfa við fólki og getur ýtt umræðunni áfram án þess að meiða en þó grefilli hvass. Ég er oftar sammála honum en ekki en nú hefur Páll skrifað dámikla hræðslugrein um Kinverja af því tilefni að einn slíkur vill kaupa Grímsstaði á fjöllum.

Getur verið að ég sé ekki nógu hræddur við útlendinga? Páll óttast hreinlega að þarna muni rísa lítið útibú frá Kinverska kommúnistaflokknum. Dvergríki sem muni með einhverjum hætti verða sjálfstætt með eigin löggjöf og utanríkisstefnu.

Þetta lítla Kína muni svo breiða úr sér eins og lúpína að vori án mögulegrar viðspyrnu af okkar hálfu. Þarna verði töluð Kínverska og yfirvöld í móðurlandinu muni á endanum sjá um að þarna verði Kínversk löggjöf okkar ofar.

Mér finnst þetta alveg út úr korti. Fyrir mig er þetta Íslenskur afdalahugsunarháttur sem byggir ekki á neinu raunverulegu. Þarna er áunninn ótti við eitthvað sem ekki stenst. Hvað er það í löggjöf okkar sem Páll telur vera þannig að erlendir viðskiptamenn geti allt að því stofnað sjálfstætt ríki á fjöllum án þess að við fáum rönd við reyst?

Ég veit að þetta er planið hjá þeim sem vilja ekki þessi viðskipti. Halda bara uppi svona tali sem er ekki byggt á neinu raunverulegu öðru en óttanum við þá sem stjórna Kínverska alþýðulýðveldinu.

Ögmundur Jónasson hefur setið vikum saman við að reyna að finna útgönguleið og forða okkur frá þessari milljarða fjárfestingu útlendings sem er tilbúinn að ganga að hverjum þeim skilyrðum sem stjórnvöld hér hafa týnt til.

Við skulum vona að á bak við fyrirsjáanlega neitun Ögmundar verði eitthvað bitastæðara en hjá Páli. Þar munu kaffiboðssamsæriskenningar ekki duga...

Röggi

jonas.is og umræðuhefðin

Jónas Kristjánsson er athyglissjúkur maður sem heldur að vægi skoðana hans aukist í réttu hlutfalli við svívirðuna sem hann getur soðið saman. Karlanginn æpir á athygli og fær hana en er nákvæmlega sama á hvaða forsendum sú athygli er.

Þegar rætt er um þennan gamla blaðamann og hans ritstjóraferil er hægur vandi að týna til óhemjusorgleg tilfelli þar sem skrif hans og stílbragð hafa haft alvarlegar afleiðingar en það hefur ef eitthvað er forhert kallinn.

Efnistökin eru þráhyggjukennd þegar kemur að stjórnmálum og ekki verður betur séð en að maðurinn telji sig verða að toppa sjálfan sig í ruddaskap í hvert sinn sem hann sest niður.

Og alltaf skulu þeir fjölmiðlamenn vera til sem sjá tilgang í því að dreifa mykjunni. Það er í raun magnað og segir manni hvað pólitík getur ruglað jafnvel bestu menn í ríminu. Stundum meira að segja menn sem á fínum stundum segjast hafa óbeit á því hvernig pólitísk umræðuhefð okkar er þróast.

Sorglegt.

Röggi

mánudagur, 14. nóvember 2011

Falskar minningar

Ég veit ekkert hvað falskar minningar eru. Hélt í barnaskap mínum að minningar væru bara minningar en er að læra það að við getum komið okkur upp minningum sem eru alls ekki minningar heldur eitthvað allt annað.

Mál Guðrúnar Ebbu hefur tekið á sig ýmsar myndir og allt í einu kemur í ljós álit minnihlutahóps sérfræðinga sem þykjast sjá öll merki þess að Guðrún Ebba hafi eytt stórum hluta ævinnar í að eltast við falskar minningar. Alveg er það ömurlegt ef satt reynist og ég skil ekkert í því af hverju sá möguleiki var ekki kannaður fyrr.

Ekki kann ég að nefna öll hugtökin sem til eru í svona málum. Ég veit heldur ekki hvort nokkurn tíma er hægt að segja að full sönnun til eða frá sé möguleg án játninga. Þar liggur vandinn og fólk skiptist í tvo hópa.

Í aðalatriðum eru hóparnir tveir. Annar hópurinn virðist aldrei trúa neinu en hinn að jafnaði alltaf öllu.

Ég sá bróðir Guðrúnar Ebbu í Kastljósi um daginn. Afar viðkunnanlegur maður um allt. Talaði rólega og af öryggi og var sanngjarn og lagði gott orð í báðar áttir. Hann tilheyrir fjölskyldunni sem hafnaði stúlkunni sem bar glæpinn upp á föðurinn.

Bróðir Guðrúnar Ebbu ríghélt í kenninguna um falskar minningar sem er kannski vonlegt. Og ég hugsaði; Geta falskar minningar ekki herjað á hann eins og hana?

Ætli það sé alveg óþekkt að heilu fjölskyldurnar deyfi sársauka með afneitun og komi sér upp björtum og ljósum minningum? Er bara hægt að nota þetta hugtak í aðra áttina. Af hverju finnst mér rökrétt að nota falskar minningar til þess að deyfa sársauka fremur en að búa hann til?

Ég vona að í framtíðinni verði hægt með vísindalega fræðilegum hætti að komast eitthvað nær sannleikanum í svona málum en nú er.

Enda ferlegt að geta ekki treyst minningum sínum. Hvorki þeim góðu né slæmu...

Röggi

sunnudagur, 13. nóvember 2011

Lágkúra

Ein leið og örugg til að öðlast 15 mínútna frægð er að skrifa bara nógu stórt og mikið um þá sem ritstjórn eyjunnar telur vera pólitíska andstæðinga sína. Björn Valur Gíslason er frægur fyrir margt blessaður og kjaftháttinn hefur hann í umframmagni.

Þegar hann vill annað hvort ná athygli eða þá dreifa henni frá hlutum sem ekki henta honum að fjallað sé um skrifar hann bara eitthvað vont um einhvern Sjálfstæðismann og ritstjórn eyjunnar hleypur til og gerir að frétt.

Hvað er þá vinsælla en gamli Davíð Oddsson? Þetta er gömul brella sem ég hélt reyndar að Jón Ásgeir hefði fullnýtt en lengi er von á einum.

Ég á auðvitað ekkert með það að velta því fyrir mér hvað Björn Valur dundar sér við þegar hann hefur ekkert gáfulegt að segja en finnst magnað hvað eyjan nennir að leggjast lágt á sama tíma og ritstjóri hennar hikar ekki við að vanda um fyrir öðrum.

Röggi

þriðjudagur, 8. nóvember 2011

Helgi Hjörvar og rökræðan

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar sem helst hefur unnið sér það til frægðar að senda Geir Haarde til landsdóms þrasaði við Bjarna Ben um efnahagsmál í þinginu í dag. Helgi er afsprengi morfísrökræðulistarinnar og getur verið skratti skemmtilegur þegar sá gállinn er á honum.

Helgi barmar sér undan tillögum Sjálfstæðisflokksins í skattamálum að mér virðist á þeim forsendum helstum að sá flokkur hafi verið í ríkisstjórn þegar allt hrundi. Helgi Hjörvar man auðvitað alls ekki að hann var sjálfur hluti af þeirri ríkisstjórn. Það er að verða plagsiður Samfylkingar að reyna að skjótast undan því að vera í þeim ríkisstjórnum sem flokkurinn er þó sannarlega í.

Gagnrýni Helga á tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir er ekki útbúin neinum rökum heldur miklu frekar gömlum tuggum um að eina leiðin út úr kröggunum sé að skattleggja allt upp í topp. Helgi hirðir að öðru leyti ekki um að svara því hvers vegna skattalækkanir myndu koma heimilum og atvinnulífi illa nú þegar allt efnahagslíf þjóðarinnar er að beinfrjósa.

Skattahækkanir og stórmagnað hugmyndaflug við smíði nýrra skatta auk vaxtahækkana Más Guðmundssonar klæðskerasaumaðs seðlabankstjóra Jóhönnu Sigurðardóttur er einungis að skemmta AGS og ríkisstjórn sem keppast svo við að gefa hvort öðru toppeinkunn fyrir allt saman. Magnað skjallbandalag þar á ferð og helstu klappstýrur eru kröfuhafar og vogunarsjóðir.

Ég reyni ekki að þræta fyrir það að okkur hefur miðað áfram frá hruni en held því fram að það sé ekki vegna ríkisstjórnarinnar hans Helga Hjörvars heldur þrátt fyrir hana.

Ekki er mikið gefandi fyrir rökræður um tillögur í efnhags og skattamálum sem snúast einungis um það hvaðan þær koma en í engu um það sem þær geta falið í sér. Ef Helgi Hjörvar og hans fólk réði yrðu skattar aldrei lækkaðir alveg óháð því hvort tekjur ríkissins af skattheimtunni minnki í réttu hlutfalli við aukna ásókn í launin okkar eða stöðu þjóðarbúsins í stóru eða smáu.

Helgi Hjörvar trúi því nefnilega að besta leiðin til að örva atvinnulíf og einkaneyslu sé að Steingrímur fá launin okkar að stærstum hluta til úthlutunar að smekk áður en okkur tekst að nota þau til þess að örva hagvöxt í gegnum neyslu með tilheyrandi auknum skatttekjum.

Svona er heimsmynd Helga Hjörvars þegar kemur að skattamálum. Þegar ríkið þarf aura skal það ekki gert þannig að fólki sé hvatt til neyslu sem skilar bæði fjörugu atvinnulífi með aukinni skattinnheimtu heldur einungis með auknum sköttum á fólk og fyrirtæki sem hafa síminnkandi kaupmátt hafi það á annað borð vinnu. Engir hagsmunaaðilar á vinnumarkaði deila þessari delluhagfræði með ríkisstjórninni en slíkt hreyfir nú ekki við Helga Hjörvar.

En þetta rímar svo allt í dúr rog moll við hugmyndir gömlu allaballana um að best sé fyrir okkur öllum komið í vinnu hjá hinu opinbera þar sem stjórnmálamenn eins og Helgi sjálfur getur séð um að taka fyrir okkur ákvarðanir.

Ég hef samúð með þeim sem tala um mistök Sjálfstæðisflokksins í skattamálum í góðærinu en skil ekki að þeir sem tala mest um það geti ekki séð að skattahækkanir í niðursveiflu eru líka mistök.

Af hverju hefur Helgi Hjörvar ekki þrek til að rökræða þessi mál?

Röggi

Auðvitað er ókostur að vera ekki á þingi....

...sérstu formaður Sjálfstæðisflokksins en hvort það er frágangssök á þessum tímapunkti er svo allt annað mál.

Formannssalagurinn í Sjálfstæðisflokknum er að taka á sig mynd þessa dagana. Ekki er hægt í fljótu bragði að setja stórágreining málefnalegan milli frambjóðandanna á oddinn og því er slegist um aðra hluti.

Hvernig er hægt að vera ósammála um að það sé lakara að formaður flokksins sitji ekki á þingi? Og það jafnvel þingi sem mörgum finnst vart á vetur setjandi.

Allar ákvarðanir eru teknar á alþingi og þar fer umræðan fram. Þar sitja saman í einni sæng framkvæmdavald og löggjafi og takast á. Hvernig getur verið gott fyrir formann stjórnmálaflokks að hafa þar ekki seturétt?

Hanna Birna hefur svo marga kosti að mér finnst það taktískt rangt hjá hennar fólki að láta umræðuna snúast um þennan veikleika hennar með því að reyna að hártoga gildi þess að leiðtogar flokka sitji á þingi.

Slíkt tal beinir umræðunni bara enn sterkar að þessu sem er svo kannski þrátt fyrir allt alls ekkert aðalatriði þegar til lengri tíma er ltið.

En ég efast þó ekki um að Hanna Birna mun leggja ofurkapp á að komast á þing fái hún brautargengi á landsfundi.

Enda veit hún að mjög er mikilvægt að formaður Sjálfstæðisflokksins sitji á þingi.....

Röggi

föstudagur, 28. október 2011

Neyðarlög og landsdómsóbragðið

Hæstiréttur hefur þá staðfest að neyðarlögin halda. Þetta er gleðitíðindi og mikilvægi þessarar niðurstöðu meira en flestir virðast gera sér grein fyrir. Mér finnst undarlega hljótt um þetta mál en á því eru auðvitað eðlilegar skýringar.

það er algerlega fáránlegt í raun að Steingrímur J Sigfússon sé sá maður sem fjölmiðlar þurfa að ræða við og leita viðbragða eftir þennan úrskurð hæstaréttar. Ef Steingrímur hefði snefil af pólitískum manndóm myndi hann vísa á Geir Haarde og biðja fjölmiðla um álit þaðan.

Sumir pennar hafa reynt að endurhanna söguna um setningu neyðarlaganna annað hvort þannig að Geir Haarde hafi ekki átt annan kost en að setja lögin eða til vara að hann hafi nú ekki verið einn í því verki. Þetta fólk vill hafa söguna þannig að Geir tók einn allar vondu ákvarðanirnar en í félagi við Jóhönnu og Össur þær góðu. Hvoru tveggja hræbillegar eftiráskýringar sem halda hvorki vatni né vindi þeim sem útbúnir er söguþekkingu og pólitískum heilindum.

Fólkið sem annað hvort kom Geir Haarde fyrir landsdóm eða skrifaði sig til ævarandi skammar með stuðningi við þann gjörning læðist með veggjum þegar þessi úrskurður hæstaréttar er til umræðu.

Steingrímur var í viðtali í útvarpi í dag og umfjöllunarefnið niðurstaða hæstaréttar. Þar var hann minntur á að VG sat hjá þegar lögin voru sett. Steingími J Sigfússyni fannst óþarfi að vera að elta söguna með þessu hætti. Litlu skipti núna hverjir hefðu verið hvað þarna.

Það skyldi þó ekki vera. Steingrímur getur trútt um talað. Fyrir hann skiptir litlu hver sagði hvað eða gerði. Hann situr ekki og bíður meðferðar fyrir landsdómi af því að hann gat ekki komið í veg fyrir hrun fjármálakerfis heimsins sem fyrst féll yfir okkur og eins og augljóst mátti vera, svo yfir alla hina líka.

Það gerir hins vegar Geir Haarde fyrir atbeina núverandi ríkisstjórnar. Ég allt að því vorkenni þeim alþingismönnum sem misstu frá sér dómgreindina daginn örlagaríka þegar sú ákvörðun var tekin.

Þeir sem á eftir okkur koma verða svo að reyna að skilgreina hvaða eiginleika fólk í stöðu Jóhönnu og Össurar þurfa að hafa til að bera til þess að geta setið áfram eins og ekkert hafi í skorist við háborðið.

Hver dagur sem líður frá þeirri ákvörðun leikur allt þetta fólk verr bæði pólitískt og persónulega. Og nú þegar hæstiréttur hefur endanlega klárað málið og þjóðin getur glaðst eru
stjórnmálamenn í ráðuneytum og meirihlutasætum á alþingi með slíkt óbragð í munni að engum dylst sem vill sjá.

Og þeir finna bara alls ekki leiðina út úr skömminni.......

Röggi

þriðjudagur, 25. október 2011

Bankasýslan og prinsippsleysi þjóðar

Núna sjá margir sigur í því að stjórn bankasýslu ríkissins hefur sagt af sér og nýráðinn forstjóri ætlar ekki að taka starfið. Prinsippslausa þjóðin skilur málið ekki . Þjóðin sem heldur að hún vilji boðlega stjórnsýslu án pólitískra afskipta vill nefnilega akkúrat þannig stjórnsýslu. Þegar það hentar.

Við viljum stjórnmálamenn sem vasast í öllu eftir pólitískum hentugleika. Við viljum enga andskotans armlengd. Við viljum stjórnmál í öllu. Það er fólkið sem er líklegt til að láta ekki pólitísk hagsmunamál ráða för!

Svo tekur þjóðin bara glænýja afstöðu næst þegar stjórnmálamenn fara að skipta sér af. Þá verða heldur engin prinsipp sem ráða heldur bara dægurumræða þess tíma og svo hið klassíska sjónarmið; Með hverjum held ég.....

Þeir sem fagna núna eiga þau stjórnmál sem við búum að í dag skilið.....

Röggi

miðvikudagur, 19. október 2011

Þegar Björn Valur snappar

Björn Valur Gíslason er með Ólaf Ragnar á heilanum. Reyndar hafa vinstri menn verið með hann á heilanum lengi. Lengi vel voru gaurar eins og Björn Valur í klappstýruhlutverkinu. Það var þegar félagi Ólafur Ragnar gerði það sem Birni Val og hans liði fannst fallegt. Það eru einu prinsippin sem Björn Valur telur þess virði að verja þegar kemur að forseta Íslands.

Kannski þarf að halda því skilmerkilega til haga að Ólafur Ragnar er ekki minn maður. Var það ekki sem stjórnmálamaður og enn síður sem forseti. Leðjuslagur gömlu kommana núna um embætti forseta er aumkunarvert og í raun dapurlegt að þurfa að heyja þetta innanhússtríð vinstri manna úr þingflokksherbergjum VG og Samfylkingar til Bessastöðum. Stríð sem snýst í raun sama og ekkert um embættið heldur meira um persónuna Ólaf Ragnar.

Björn Valur hefur eftir því sem ég best fæ séð enga grundvallarskoðun á embætti forseta. Hann veit ekkert hvað þrískipting valds er. Honum finnst í aðalatriðum að forsetinn eigi að vera með réttar skoðanir. Og botnar hreint ekkert í því að forsætisráðherra skuli ekki ráða því hvernig embætti forseta fúnkerar.

Í dag skrifar Björn Valur grein um forsetann sinn. Grútmáttlaus grein og samhengislaus og ljóst að þingmaðurinn getur vart á heilum sér tekið af pirringi og það er ekki gott vegarnesti eingöngu þegar menn ryðjast fram undir þeim formekjum að þeir hafi eitthvað fram að færa.

Þessi áunni pirringur út í persónuna Ólaf Ragnar tók að gera vart við sig þegar hann ásamt allri þjóðinni að undanskilinni ríksstjórninni hans Björn Vals hafnaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem sumir ráðherrar lýðræðiselskandi töldu sig ekki þurfa að taka þátt! Talandi um að hæðast að þjóð....

Þann "glæp" getur Björn Valur ekki fyrirgefið og það er eina ástæða þess hvernig þingmaðurinn ólmast. Dýpra ristir þetta nú ekki.

Og þegar Björn Valur snappar þá skrifar hann reiðigreinar og rífur kjaft. Þessir tveir eiga hvorn annan nefnilega skilið.

Öfugt við þjóðina.....

Röggi

miðvikudagur, 12. október 2011

Að taka upp hanska

Séra Baldur Kristjánsson bloggari með meiru kemur mér fyrir sjónir sem hjartahreinn maður og vænn í alla staði. Í dag skrifar hann grein þar sem hann segist vilja taka upp hanskann fyrir biskup.

Baldur virðist misskilja þá sem telja að biskupi sé ekki sætt í embætti eftir það sem á undan er gengið. Ég skil vel þær hugsanir sem bærast með Baldri og engan hef ég heyrt eða lesið sem reynir að snuða Karl Sigurbjörnsson af þeim góðu eiginleikum sem hann er útbúinn eða þeim góðu verkum sem eftir hann liggja.

Stundum gerist það nú samt að góðir menn gera hluti sem ekki er hægt að verja. Ef við ætlum að læra að tileinka okkur þá hugsun að menn axli ábyrgð á gerðum sínum þá verðum við að hætta að leita að undanþágum fyrir þá sem við teljum góða menn. Hver getur tekið sér það vald að ákveða hver er góður eða vondur, óheppinn eða skúrkur?

Rök Baldurs um að feluleikurinn með bréfið skipti litlu vegna þess að bréfritari muni alltaf skrifa annað á önnur heimilsföng og þannig geti ekki verið um tilraun til þöggunar að ræða eru svo ótrúlega léttvæg og ónothæf að engu tali tekur.

Suma slagi á maður ekki að taka...

Röggi

þriðjudagur, 11. október 2011

Kirkjunnar vandi

Þau verða ekki erfiðari málin en kynferðisbrotamálin. Sannanir oft ekki til staðar og viljinn til að trúa þeim sem tala svo sterkur. Ég veit ekki um nokkurn mann sem ekki trúir Guðrúnu Ebbu en fyrir dómstóla og í hennar tilviki þjóðkirjuna vantar sannanir og helst játningu svo hægt sé að grípa til ráðstafana. Þetta er vissulega snúið en samt....

Ég ætla að halda því fram að líkindi til þess að hópur ótengdra kvenna, eins og í máli Ólafs Skúlasonar, taki sig til og beri kynferðisglæpi á einn mann séu engin. Bara alls engin. Hver ætti hvatinn að geta verið? Hver ætti hvati barns sem ber slíkt á föður sinn út yfir gröf og dauða að vera?

Ólafur talaði um djöfulinn þegar konurnar hófu að segja frá en aðrir menn í svipaðri stöðu í dag tala um hefnd, heimsku og hatur. Og þar við sat. Og situr enn og lífið heldur svo sinn vanagang...

Kirkjan minnir mig á lögregluna hér áður fyrr sem tók alltaf varðstöðu með gölluðu eplunum sem klæddust búningnum. Það var alltaf veikleiki að játa mistök. Mér finnst þeir menn sem tala opinberlega fyrir þjóðkirkjuna hafa það helst að markmiði að sleppa sem þægilegast frá málum og alveg örugglega án þess að biskup axli ábyrgð. Hvaða andskotans máli skipta fjárbætur í þessu samhengi? Þær eru vissulega til einhvers fyrir fórnarlömbin en þær leysa kirkjuna svo sannarlega ekki úr snörunni.

Þjóðkirkjan er orðin kerfi sem leitast við að verja sig og sína alltaf og allsstaðar. Þetta kerfi mallar á sjálfstýringu og er prógramerað þannig að aldrei megi játa neinn skandal. Fyrir okkur hin er það skandall.

Það þarf ekki lögfræði eða nein önnur vísindi til þess að sjá að þegar Karl biskup stingur bréfi Guðrúnar Ebbu ofan í skúffu er hann að bregðast. Enginn Guð og engin orð geta breytt því. Öll eðlileg viðmið venjulegs fólks fær það til að komast að þeirri niðurstöðu. Engin rök finnast með feluleiknum.

Kerfið leitast við að sleppa við að taka á því máli með því að tala um að málið snúist ekki um einn mann heldur kerfið í heild. Ég veit ekki hvort kemur á undan í þessu en niðurstaðan getur aldrei orðið á þann veg að Karl sitji áfram.

Mér er sama hvort eitthvað system eða skrifræði sagði biskup að fela bréfið eða ekki. Hann verður að stíga til hliðar. Sjálfs síns og kirkjunnar vegna. Af hverju blasir þetta við öllum öðrum en kirkjunnar mönnum? Hvaða hagsmunir eru mikilvægari kirkjunni en trúverðugleiki?

Kirkjan kann að kenna öðrum að njóta þess að fyrirgefa en hún kann ekki að fyrirgefa sjálfri sér. Kirkja sem glatar þeim hæfileika þarf ekki að láta það koma sér á óvart ef sóknarbörnin tapa trúnni.

Kirkja sem ekki biðst afsökunar af fullum heilindum og bregst myndarlega við núna á ekki skilið að henni sé fyrirgefið.

Röggi

laugardagur, 1. október 2011

Eru mótmælin við þinghúsið misskilningur?

Þjóðin mætti og mótmælti við setningu þingsins í dag. Þinghúsið og fólkið sem þar situr í umboði kjósenda eru kannski rökrétt skotmark í hugum margra. Ég sé á þessu ýmsar hliðar. Í alvöru systemi væri alþingi ekki ábyrgt fyrir gerðum ríkisstjórnar. Á Íslandi er alþingi ríkisstjórnin og ríkisstjórnin alþingi.

Það er viðurkennd staðreynd að ráðherrar ráða öllu í stjórnkerfinu. Þingið situr og stendur eins og hæstvirtum ráðherra þóknast. Hlutur almennra stjórnarþingmanna er að standa og klappa þegar ráðherrar og embættismenn ráðuneyta hafa smíðað frumvörp. Svona hefur þetta verið lengi og verður áfram ef við lögum ekki til.

Við þekkjum þingið ekki eins og löggjafarsamkomu heldur miklu frekar eins og kjaftaklúbb utan um ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið. Það eru engar raunverulegar ákvarðanir teknar af alþingismönnum öðrum en þeim sem fá að vera ráðherrar. Það fólk situr báðu megin borðs. Setur lög og vinnur eftir þeim. Stundum kemur þetta svo í öfugri röð...

Við viljum frekar eyða tíma okkar í þras um það af hverju kerfið okkar virkar ekki en að tala um að breyta því. Af hverju mætir ekki þetta góða fólk og andæfir þegar ríkisstjórnin fundar? Af hverju sér fólk ekki mun á þessum stofnunum sem þó eiga að vera aðskildar?

Ég fullyrði að ef hér væri ríkisstjórn sem stæði sig vel og allt væri með felldu dytti fáum í hug að mótmæla jafnvel glórulausum ákvörðunum þings. Vissulega bera þingmenn ábyrgð en þeir EIGA ekki að þurfa að bera ábyrgð á forheimskum stjórnvöldum. Þingmenn eiga að vera löggjafar og aðskildir frá framkvæmdavaldi. Vera aðhaldið með framkvæmdavaldinu.

Mörgum finnst þetta léttvægt og ekki skipta máli í okkar litla samfélagi. Það kalla ég að nota rökin með þrískiptingunni sem mótrök. Vegna smæðar samfélagsins er mikilvægt að tryggja þennan aðskilnað. Það er nýtt fyrir mér ef smæð samfélaga dregur úr líkum á hagsmunárekstrum.

Á Íslandi er það óþekkt að mestu að stjórnvöld þurfi að taka tillit til löggjafans, þingsins, sem þó er kosið til þess að setja lög fyrir samfélagið okkar og þar með talin stjórnvöld á hverjum tíma. Við lesum um slíkt annarsstaðar en eins og oft áður og fyrr teljum það ekki henta okkar Íslensku aðstæðum.

Á alþingi situr fullt af góðu og vönduðu fólki sem vill vel en ræður í raun ekki miklu um nokkurn skapaðan hlut. það fólk fær að sitja í úthlutunarnefnd listamannalauna og fær svo leyfi til að fabúlera um mannanafnanefnd og önnur stórmál.

Á Íslandi ráða ráðherrar öllu og mér finnst að ef við viljum mótmæla stjórnarfari væri nær að safnast saman fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr raunverulegt löggjafarvald til borðs með framkvæmdavaldinu og gerir það sem því sýnist án þess að þurfa að spyrja þingið.

Á meðan við ekki styrkjum stórlega þrískiptingu valdsins er borin von að þingið muni geta gert það sem mótmælendur dagsins í dag vonast til af því.

Röggi

Egg eða múrsteinn

Nú kasta menn eggjum og þykjast gera það fyrir góðan málsstað. Ég hef alltaf verið þeirra skoðunar að enginn málsstaður réttlæti ofbeldi. Auðvitað er stigsmunur á því að fleygja múrsteinum eða eggjum en hann er ekki eðlis og nú hneykslast margir þeir sem fögnuðu múrsteinakasti búsáhaldabyltingarinnar. Hver þarf prinsipp þegar pólitík er annars vegar.....

Hugsanlega hefði enginn sagt neitt ef eitt eggið hefði ekki hæft þingmann sem féll við. Í búsáhaldabyltingunni voru svona smámunir taldir eðlilegur fórnarkostnaður og kastarinn að ástunda hetjulega borgaralega óhlýðni. Leiðtogar byltingarinnar töldu óhæfu að laganna verðir leyfðu fólki ekki að komast inn í þinghúsið þegar æsingurinn var í hámarki.

Ég hef sömu skoðun í þessu nú og þá og hvet málsmetandi menn til að læra af því hvernig fór síðast þegar eðlileg mótnæli gengu í hendur ofbeldismanna sem töldu sig í skjóli góðs málsstaðar ekki þurfa að lúta neinum lögum og lögregla og þingverðir urðu óvinur númer eitt.

Þá horfðu ótrúlega margir af þeim sem nú þurfa að þola andbyrinn á í velþóknun. Mótmælum svona framgöngu öll sem eitt og lærum af því hvernig stutthugsandi fólk hunsaði viðvaranir þeirra sem töluðu um stigmögnun síðast þegar óhlýðnir borgarar hófu byltinguna með einu litlu eggjakasti.

Röggi

fimmtudagur, 29. september 2011

Kjarabaráttutaktíkin

Ég hef eins og margir samúð með lögreglumönnum í þeirra kjarabaráttu. Óhemjuerfitt starf og mikilvægt að vel takist til og að þeir sem líklegastir eru til þess að standa sig fáist til starfans. Einn mikilvægur þáttur í því eru kjörin.

Lögreglumenn hafa mikinn meðbyr núna og slagkraftur í baráttunni. Ekki ósvipað og var með leikskólakennara. Þetta finna þeir auðvitað og hyggjast hamra járnið meðan það er heitt. Hver myndi ekki gera það?

Hundruðum saman fara þeir einkennisklæddir í göngu og þeir ætla ekki að standa heiðursverði. Stórir hópar segja sig frá sérsveitum. Kvefpestir gætu stungið sér niður.....Reiðin er réttlát og þjóðin horfir á og kinkar kolli í velþóknun og skilningi.

Ég held að rétta taktíkin núna væri að draga úrsagnir til baka og mæta hnarreystir sem aldrei fyrr og standa sinn heiðursvörð. Svona hlutir geta nefnilega snúist upp í andhverfu sína á augabragði eins og skáldið sagði.

Þeir sem geta og mega semja um betri kjör til handa lögreglumönnum finna auðvitað að ekki er um annað að velja. Eindrægni og samstaða hópsins er afgerandi og stuðningur þjóðarinnar einnig.

Nú væri rétt að standa með þjóðinni og starfinu þegar allt bendir til þess að vel muni fara og standa heiðursvörð og tryggja öryggi allra við setningu þingsins.

Það drægi ekki úr slagkrafti baráttunnar, öðru nær....

Röggi

mánudagur, 26. september 2011

Björn Valur og rökræðan

Björn Valur Gíslason er magnaður kall. Honum skolaði til þings síðast þegar kosið var og kann að vekja athygli á sér. Það gerir hann að jafnaði með kjafthætti og stóryrðum og bætir sér að jafnaði upp málefnafátækt með þeim hætti.

Nú má ekki gera neitt án atbeina stjórnmálamanna. Allt skal ríkisrekið. Björn Valur telur þá best fallna til þess að taka yfir launin okkar og ákveða hvað eigi við þau. Þeir sem efast um slíkt eru bjánar að hans mati og gildir þá einu hvort menn rökstyðja sitt mál af styrk eður ei. Skynsamlegar og málefnalegur rökræður koma aldrei í staðinn fyfir almennilegann Íslenskan kjafthátt.

Björn Valur Gíslason afgreiðir flest mál þannig að úr því heimurinn fór á hliðina án þess að kommúnismi hafi verið þar einn að verki þá hljóti allt að lagast ef við bara tökum hann upp. Svo skammast hann út í allt sem er einka og gefur sér ekki tíma til að skilja að þjóðin er mest leið á stjórnmálamönnum eins og honum sem halda að þeir geri allt best.

Nú hafa tveir þingmenn leyft sér að hafa skoðun á verkefni sem stendur til að fara í og félagi Björn Valur getur ekki þolað þá gagnrýni þótt hún sé ágætlega rökstudd. Gagnrýnendur verksins hafa jafnvel efast um að fjármöngunin standist stjórnarskrá og reynt að koma þeirri hugsun skipulega frá sér.

En slíkt hentar Birni Val ekki og hann freistast til þess að telja það allt að því glæpsamlegt að "nota" stjórnaskránna með þessum hætti. Ég geri ekki þá kröfu til þingmannsins að hann átti sig á hvernig þessi hugsun hans lítur út fyrir okkur hin.

Það notar enginn stjórnarskránna til eins eða neins félagi Björn Valur. Hún er til og hún er ekki pólitískt stjórntæki til að leika sér með í koddaslag í þinginu. Og þegar menn hafa efasemdir um að farið sé á svig við hana ber að taka það alvarlega.

En þá kýs Björn Valur að blása til sóknar og opinbera virðingarleysi sitt fyrir slíkum plöggum. Ekkert er að því að menn greini á enn það er engum til gagns að taka þann pól í hæðina sem Björn Valur tekur þegar hann annað hvort má ekki vera að pólitískum rökræðum eða hreinlega ræður ekki við það.

Röggi

fimmtudagur, 22. september 2011

VG

Steingrímur VG formaður hefur dansað geggjaðann línudans allt þetta kjörtímabil. Þessi hrunadans hefur gengið út á það að reyna að halda VG saman. Að flokkurinn leysist ekki upp í frumeindir en það þyrfti VG einmitt að gera og mun líklega gera.

Öllu hefur verið til fórnað svo Steingrímur geti verið ráðherra. Lengi vel afneitaði formaðurinn helstu baráttumálum VG í gegnum sigursælt stjórnarandstöðutímbil flokksins við hávær mótmæli gömlu afturhaldskommanna sem nú hafa reyndar náð slíkum hreðjatökum að okkur sviður öllum sárt undan daglega.

Flokkurinn er klofinn en það varð nú samt niðurstaðan að hluti hans færi en hinn hluti þeirra sem þarf að fara er eftir og ræður öllu. Með þessum hætti lítur út fyrir að allt sé með felldu en svo er auðvitað ekki.

Vissulega eru Ögmundur , Jón og Svandís kát og reif enda halda þau um öll ráð ríkisstjórnar og böðlast við það hvern dag þrotlaust að færa okkur til fornaldar og kommúnisma. Samfylking og sá hluti VG sem ekki sótti sér lífsspekina í austur Evrópu fyrir miðja síðustu öld situr og stendur eins og þetta fólk vill og getur illa leynt vonbrigðunum.

Kostnaðurinn vegna þessa fellur á okkur öll. Kostnaður sem þjóðin greiðir fyrir það að VG fái haldið velli í núverandi mynd. Ein ríkisstjórn og heil þjóð eru á þessu spilaborði VG þar sem vinningar taldir til afturhaldsliðsins eru gefið stórtap til allra annarra.

Sá hluti VG sem nú stjórnar landinu þarf að kljúfa sig frá. Fyrst frá andstæðingum sínum innan flokks og svo frá þjóðinni líka. Fyrr verður enginn friður og ég segi fyrir mig að frekar vill ég allan ófrið en þann frið sem félagi Steingrímur fann þegar hann afhenti þessu fólki völdin til þess að geta haldið góðu veðri heima fyrir.

Röggi

fimmtudagur, 15. september 2011

Orðið á götunni

Nú er þeim skemmt. Þeim vinstra megin er vel skemmt vegna þess að Hanna Birna er að daðra við að bjóða sig fram gegn Bjarna Ben. Orðið á götunni á eyjunni upplýsir um taugatitring í þingliði flokksins og pirringi.

Ég veit ekkert um þann titring eða pirring þannig séð en eitthvað væri nú dauft yfir ef fólki í þingflokknum léti það svona mál ekki raska ró sinni. Ég þekki ekki einn einasta Sjálfstæðismann sem er ekki að reyna að koma sér upp skynsamlegri afstöðu komi til framboðs gegn Bjarna. Þó það nú væri og hvernig gæti það verið öðruvísi?

Það er dálítið gaman að því hvernig andstæðingar Sjálfstæðisflokksins líta á það að við höfum allavega tvo afar frambærilega og áhugasama aðila í þetta embætti. Samfylking hefur til að mynda engan og neyðist til að tefla fram forsætisráðherra sem veit hvorki hvort hún er að koma eða fara en langar þó alveg augljóslega að fara en kemst hvergi. Pirrandi.....

Sjálfstæðisflokkurinn er í góðri stöðu hvað þetta varðar þó auðvitað muni formannsslagur komi til hans verða helvíti mikill slagur. Og flokkurinn myndi að mínu mati enda með afar sterkan formann hvor sem ynni.

Ynni Hanna Birna yrði það gríðarlegur pólitískur og persónulegur sigur og ekki myndi það veikja stöðu Bjarna Ben að leggja svo sterkan frambjóðanda af velli sem Hanna Birna er. Þeir eru til sem telja það einmitt vera honum nauðsynlegt að fá endurnýjað og öflugt umboð.

Þeir sem sjá lengra en aðrir í pólitík vita nefnilega að verði þessi tveir í framboði til formanns er það win win staða fyrir flokkinn fram í tímann þó það valdi titringi um stundarsakir.

En það er kannski ekki orðið á götunni.......ennþá.

Röggi

Enn um Ólaf Ragnar

Ýmsir Sjálfstæðismenn og auðvitað fleiri eru giska kátir með þrasið sem nú stendur milli gömlu vinanna vinstra megin, forsetans og allra hinna sossanna. Mönnum sárnar og þykir sem Ólafur Ragnar hafi svívirt bræðralagið þegar hann gékk í lið með hinni óverðugu stjórnarandstöðu hægra megin í þingsalnum. Þannig gera menn bara ekki.

Þar held ég reyndar að sé um misskilning að ræða. Ólafur Ragnar eru ekki í neinu liði öðru en sínu eigin og lýtur fáum lögmálum sterkar en þeim hvernig vinsældir hans liggja hverju sinni. Snúist vindar til nýrrar áttar er allt eins víst að Ólafur finni skoðunum sínum nýjan og uppfærðan farveg.

Ég lýsi mig mótfallinn því hvernig hann umgengst ríkisstjórnina og þingið. Og ég hef til þess fullan rétt og góða samvisku. Af því að ég kaus hann ekki til þess að verða stjórnmálamann. Þeir sem kusu hann til að vera það stundum hafa minni rétt til þess að vera óánægðir. Þeir fengu það sem þá dreymdi um.

Hugmyndin um pólitískan forseta hugnast mér ekki endilega illa. En það er hluti af miklu stærri mynd og breytingum á stjórnskipan. Ég held að fáum hafi í reynd dottið í hug að einn maður gæti og ætti umboðslaus að taka sér þann rétt að breyta eðli embættisins eftir pólitískum eða persónulegum hentugleika.

Eitt er að nýta málskotsréttinn og þá ákvörðun hefur hann rökstutt af krafti en að nota Bessastaði til þess að skattyrðast við ríkisstjórn og þing eins og hann gerir núna fellur ekki að mínum smekk. Eru það kannski fríðindi sem fylgja málskotsréttinum?

Hér þarf að hugsa stærra og lengra og láta prinsippin ráða. Þeir sem vilja taka áhættuna og vona að Ólafur Ragnar taki "rétta" stöðu næst eru að mínu viti að veðja í lottói þar sem líkur á vinningi eru hverfandi til lengri eða skemmri tíma..

Röggi

miðvikudagur, 14. september 2011

Hefnd Bubba réttlæti þjóðar.

Hvað er hægt að segja um nýjustu færslu þjóðfélagsrýnissins Bubba Morthens? Þráhyggja dugar hvergi nærri til þessa að lýsa því hvað þarf til svo draga megi þær ályktanir sem Bubbi dregur þar.

Ég hef áður sagt að ég ætla rétt að vona að karlanginn fái greitt fyrir þessar skoðanir því öðrum kosti er freistandi að telja manninn af í vitsmunalegu opinberri umræðu. Bubbi virðist hreinlega hafa verið við veiðar í þrjú ár og ekki haft nokkur tök á að fylgjast með svo fjarstæðukenndur er málflutningurinn.

Þeir eru ekki margir sem hafa heilsufar til þess ennþá að reyna að finna Jón Ásgeir og Jóhannes sem fórnarlömb vondrar þjóðar sem skilur ekki að þeir voru að gera okkur greiða þegar þeir rændu okkur og komandi kynslóðir skipulega í gegnum óteljandi kennitölur og eignarhaldsfélög. Allt skuldsett og yfirveðsett aftur og aftur með hagnaði og allt í boði Bubba og barnanna hans sem bíður nú það verkefni að greiða gjaldþrotin á meðan Jón Ásgeir sötrar diet coke makindalega erlendis.

Bubbi sér hefnd í því að þeir fá ekki að halda þeim bitum sem þeim tókst ekki að setja á hausinn. Hefnd hverra? Þetta er í raun hlægilegt en Bubba virðist fúlasta alvara.

Hann talar um pólitík en eina pólitíkin sem kemur við Baugssöguna er pólitík þeirra sem tóku að sér að verja þá eðlilegum athugasemdum árum saman. En Bubbi hvorki man né skilur....

Bubbi kallar það sem þjóðin sér sem réttlæti hefnd og réttir öllum þeim sem töpuðu á svindli og svínaríi þessarra manna einn á lúðurinn.

Röggi

mánudagur, 12. september 2011

Sagan af afglöpunum tveimur

Ólafur Ragnar gat auðvitað ekki annað en brugðist við því írafári sem verð í kjölfar ummæla hans um ríkisstjórnina og Icesave. Því þótt forsetinn hafi farið duglega út fyrir það valdsvið sem ég hef alltaf haldið að hann hefði þá er ekki hægt að neita því að hann fer ekki með fleipur þegar hann ryfjar upp söguna.

Það er í raun algerlega fáránlegt fyrir okkur að Steingrímur Sigfússon sé að tjá sig um Icesave eins hatrammlega og hann barðist gegn þeirri lausn sem nú virðist vera að fást í málið. Steingrímur var grjótharðasti stuðningsmaður hagsmuna viðsemjenda okkar hér á landi og þó víðar væri leitað og lyppaðist niður gegn þeim sem vildu ganga milli bols og höfuðs á okkur.

Gagnrýnendur forseta nú eru langflestir ótrúverðugir enda stutt hann og hvatt áður þegar honum hentaði að beita embættinu í pólitískum tilgangi gegn máli sem hafði farið í gegnum þingið. Á því fólki er að sjálfsögðu ekkert mark takandi af augljósum ástæðum og hjákátlegt að sjá gömlu kommana keppast við að bera á hvorn annan vitleysuna.

Mig minnir að ekki hafi allir ráðherrar skilað sér á kjörstað þegar þjóðin flykktist þangað til að samsinna meirihluta þings sem kom í veg fyrir vilja Steingríms Sigfússonar og Indriða að ógleymdum Svavari Gestssyni sem enn þumbast við að skrifa greinar í blöð til þess að reyna að selja einhverjum að hann hafi í raun gert góða hluti. Og allt rökstutt af leiðtoga hagfræðideildar HÍ takið þið eftir...

Þetta eru nefnilega tvær sögur. Önnur er af ömurlegri framgöngu núverandi fjármálaráðherra sem reynir að endurskrifa söguna og vonar að allir hafi gleymt og hin af forseta sem þessi sami ráðherra kenndi að nota embættið eins og hann gerir.

Hægt en örugglega hefur sígið á ógæfuhliðina hjá Ólafi Ragnari í embætti og nú er svo komið að hann situr að mínu viti umboðslaus. Hann var ekki kosinn til þess að vera stjórnmálamaður á Bessastöðum. Það er vald sem hann hefur tekið sér. Einn daginn ofsavinsæll en hinn úthrópaður. Hver vildi þannig forseta? Forseta sem hagar seglum eftir vinsældavindinum....

En það gefur Steingrími Sigfússyni ekkert umboð til þess að gefa þingi og þjóð fingurinn í hroka sínum eins og hann klárlega reynir að gera þegar Isesave framvindan öll er til umræðu. Vel má vera að Steingrímur hafi ekki bitið úr nálinni hvað hans þátt í þeirri sögu áhrærir.

Ég vona bara að þjóðin gleymi sér ekki þegar þessir menn sækja sér umboð á ný.

Röggi

miðvikudagur, 7. september 2011

Spunameistarar

Nú þegar taugaveiklunarstigið í stjórnmálunum er að ná ótrúlegum hæðum fá spunameistarar aukinn tilgang. Spunameistarar eru merkilegur hópur skákhugsandi huldumanna sem halda sig til hlés í bakherbergjum að mestu þó vissulega séu til dæmi um stjórnmálamenn sem hafa gaman að spunasmíðum og bakherbergjaklækjum. Össur telur þetta sér til tekna grunar mig og stærir sig af því að "sjá" lengra en aðrir. Einmitt það...

Verkefnin geta verið af ýmsum toga. Suma daga þarf að hanna atburðarás eða koma í veg fyrir og auk þess að koma hentugum hugmyndum að fólki. Aðra kannski að fá fólk til þess að hætta að hugsa um sumt og snúa sér að öðru. Eftiráskýringasmíð er auk þes snar þáttur í starfi hvers spunakóngs.

Hér ræður ríkisstjórn sem er þannig samsett að annar flokkurinn er all eindreginn stjórnarflokkur en hinn afdráttarlaus og vinnufús stjórnandstöðuflokkur sem á að jafnaði samleið með þeim sem eru andvígir. Þetta hefur vitaskuld í för með sér þó nokkur óþægindi sem hefur verið frjóum spunameisturum verðugt verkefni að vinna með.

Ófáir yfirvinnutímarnir hafa farið í það að telja fólki trú um að allt sé þetta nú orðum aukið og stórbrotið hefur verið að fylgjast með mastersverkefninu að reyna að fá stórsigur út úr verkum þesarar ríkisstjórnar.

Þrautþjálfaðir löngu útskrifaðir spunasnillingar munu ekki megna að selja sanntrúuðum þann sannleik hvað þá hinum. Meira að segja hugmyndasterkir spunatrúðar af hinum kannti hafa ekki hugmyndaflug í sumt af því sem raunverulega hefur gerst á stjórnarheimilinu...

Nú þegar vond staða á því heimilinu versnar stöðugt og óttinn um að upp úr slitni er að fornum sið gripið til spuna 101 og reynt að láta umræðuna snúast um vanda á öðrum heimilum en sínu eigin.

Þetta er sniðugt bragð og sígillt og vel þess virði að reyna í knappri stöðu þar sem engin von er lengur um vinning heldur í besta falli einhvern varnarsigur. En ég held að enginn spuni muni taka því fram sem raunverulega er að gerast á stjórnarheimilinu og mun gerast.

Brestirnir eru að verða óviðráðanlegir og ekki spurning um hvort heldur hvenær. Þá verður verkefnið ekki lengur andstæðingarnir hinu megin. Og þá mun hver þurfa að bjarga sér sem betur getur á flóttanum.

Æfingarnar sem við erum vitni að dags daglega eru barnaleikur miðað við það þegar spunadeildir Samfylkingar og VG taka til við að reyna að bjarga flokkunum undan þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Þá verða sett ný viðmið.

Röggi

þriðjudagur, 6. september 2011

Ljótur sigur betra en fallegt tap

Ágætur sigur á Kýpur sem er víst langt fyrir ofan okkur á styrkleikalistanum góða. Engin glans yfir sigrinum en fyrir lið sem hefur ekki unnið lengi er ljótur sigur mun betri en gullfallegt tap.

Miklar mannabreytingar eru á liðinu frá einum leik til annars sem er almennt ekki talin góð latína en sumt af óviðráðanlegum ástæðum annað kannski skortur á sjálfstrausti þjálfara sem vinnur ekki leiki.

Slakasti maður vallarins og þó víðar væri leitað fyrirliðinn Eiður Smári lét eftir sér að kunna ekki að gleðjast eftir leik og mér finnst fyrirliðabandið fara illa á upphandlegg hans.

KSÍ tekur sig vera með svo mikla söluvöru í höndunum núna að betra sé að gefa ekki eftir af miðaverði og fá fleiri í stúkuna en færri. Það er skrýtinn bisness og kannski ekki í fyrsta sinn sem KSÍ er ekki að lesa salinn rétt.

Röggi

Roy eða Lars?

Roy Keane? Viljum við Roy þegar okkur stendur til boða Lars Lagarback? Kannski er Lars ekki eins sexý og Roy Keane og ólíklegri til þess að framleiða fyrirsagnir en hann er þrautreyndur maður með fínan árangur.

Auðvitað getur Roy Keane svínvirkað en þaðan sem ég sit er hinn valkosturinn betri ef ég þarf að velja milli þessara tveggja.

Íslenska landsliðið á ekki að vera æfingapúði fyrir mann sem hefur ekki náð árangri en er vissulega fyrrverandi frábær leikmaður og oft skemmtilega bilaður, úr öruggri fjarlægð, og auk þess heimsfrægur sem er alltaf dálítið gaman.

Lars Lagerback þarf ekkeret að æfa sig. Hann veit hvað hann er að gera og þekkir skandinavískan fótbolta eins og handarbakið á sér. Þeir eru vissulega til sem telja að við ættum ekkert að vera að spila fótbolta.....

...heldur snúist þetta mest um að æsa sig upp og berjast. Það er gamli tíminn og núna erum við að fá upp kynslóð af mjög efnilegum fótboltamönnum sem munu vonandi aldrei verða froðufellandi tæklarar alveg sama hversu mikið er um það beðið.

Ég vill miklu fremur setja þessa kynslóð í hendurnar á Lars Lagerback en Roy Keane.

Það er ef þetta eru einu valkostirnir.

Röggi

mánudagur, 5. september 2011

Biðlaun Þórunnar

Af hverju skyldi Þórunn Sveinbjarnardóttir ekki þiggja biðlaun? Eru þingmenn undanþegnir almennum réttindum á vinnumarkaði? Erum við kannski á þeirri skoðun að biðlaun séu óþörf? Er ekki bara rétt að stefna að því að gera starfið almennt enn verr launað og óaðlaðandi en nú er?

Mér finnst umræðan um biðlaun Þórunnar dapurleg. Þórunn er í raun fórnarlamb aðstæðna. Stór hluti þjóðarinnar telur þingmenn allt að því þroskaheft og illa meinandi fólk sem er ýmist að koma úr fríi eða í leiðinni í frí.

Dvínandi virðing fyrir alþingi er sérstakt umfjöllunarefni en ég verð þó aldrei þeirra skoðunar að með því að skerða réttindi þingmanna til kjara munum við styrkja stofnunina. Ég er einmitt og eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að gera betur í þeim efnum til að laða okkar besta fólk að.

Þórunn er ekki að gera neitt annað en hennar réttur stendur til og mér finnst umræðan um þetta stundum lituð hræsni. Ég bið þá sem myndu afsala sér launum í uppsagnarfresti að rétta skriflega upp hönd.

Í mínum huga er alveg augljóst að fólki ber ekki að afsala sér þeim kjörum sem það á fullan rétt til. Sumir telja það sérstaka dáð að gera það og það er ágætt svo langt sem það nær.

En það er enginn glæpur að gera það ekki.

Röggi

Forsetinn hennar Álfheiðar Ingadóttur

Ég sé það í snöggri yfirferð minni að hver einasti skrifandi vinstri maður hefur látið það eftir sér að fjargviðrast út í forsetann sinn vegna ummæla hans um Icesave málið. Krampakennd viðbrögð og órökrétt sé litið til sögunnar.

Nú er það bara þannig alveg sama hvað Álfheiði Ingadóttur og félögum hennar kann að finnast að orð forsetans um Icesave deiluna eru dágóð greining á því sem gerðist. Reyndar er rétt að halda því skilmerkilega til haga að fulltrúar andstöðuhóps forsetans hafa ekki reynt að andæfa innihaldi þess sem forsetinn er að ræða og er þar um vissa framför að ræða....

Ég hef hreint enga samúð með Álfheiði Ingadóttur og hennar klíku sem réði sér ekki fyrir kæti þegar forsetinn gerðist stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum. Það var þegar hann gékk erinda vinstri manna á alþingi til að koma í veg fyrir innleiðingu fjölmiðlalaganna hafi einhver gleymt því.

Það verk átti ekki lítinn þátt í því að eigendur bankanna sem voru fyrir undarlega tilviljun einnig eigendur fjölmiðlanna gátu stýrt almenningsálitinu á meðan þeir unnu sitt verk. Og það gerðu þeir og fulltrúar forsetans á þingi horfðu á með velþóknun og héldu að málið snérist um Davíð Oddsson.

Þessari atburðarás var miðstýrt frá Bessastöðum þar sem forsetinn hennar Álfheiðar sat makindalega og þótti vera að vinna þjóðþrifaverk okkur til heilla. Sagan hefur kennt þeim sem eitthvað geta séð að þar hefði betra verið heima setið en af stað farið.

Og sagan er enn að kenna þeim sem eitthvað geta lært. Sagan hefur nefnilega kennt okkur að ef ekki hefði komið til stjórnarandstaða á þingi og svo forsetinn hennnar Álfheiðar værum við pikkföst í skuldasúpunni sem Jóhanna og Steingrímur voru að sjóða með Gordon Brown og Hollenskum stjórnvöldum. Um þetta deilir enginn sem vill vera láta taka sig alvarlega...

Nú er full ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands til framtíðar og ekki síst hvernig við viljum sjá málskotsréttinum beitt. Þar verður hlutur Álfheiðar Ingadóttur enginn enda hefur hún sýnt það að hún getur ekki haft prinsippafstöðu til málsins.

Forsetinn hennar Álfheiðar er nefnilega bara forsetinn hennar þegar hann er að gera það sem Álheiður telur rétt og gott óháð grundvallarreglum. Slíkur er hennar styrkur...

Og svo mér sýnist að við Álfheiður verðum seint sammála um það hvenær hann er að gera gott mót og hvenær ekki.

Röggi

föstudagur, 2. september 2011

Límið

Við vitum að það er stundum erfitt að vera í ríkisstjórn og líklega aldrei eins ferlega og að sitja í þeirri sem nú ræður. Óhemjuvandi fyrir höndum og hver höndin upp á móti annarri. Að vísu ríkir þar afar merkilegt ógnarjafnvægi.

Annar flokkurinn fær að reyna allt hvað af tekur að koma okkur inn í ESB á meðan hinn er því algerlega mótafallinn. Hinn flokkurinn fær svo sjálfdæmi í efnahagsmálum á meðan og er smátt og smátt að breyta okkur í lítið sovét þar sem allt er bannað og þjóðin er ekki marktæk.

Ástandið á stjórnarheimilinu er orðið þannig að óþol Samfylkingar til VG er ekki lengur top secret heldur blasir við öllum sem vilja sjá og hinum líka.

Nú þegar fylgið fer að hrynja af VG naglfestir það flokkana endanlega saman á hræðslunni við dóm kjósenda. Þeir geta ekki unnið saman um nokkurn skapaðan hlut en geta af hápólitískum ástæðum ekki hætt. Þetta liðónýta "samstarf" heldur því líklega áfram þangað til leikreglurnar neyða flokkana til að mæta kjósendum sínum á kjördegi sem kemur alltof seint.

Við þessar fáránlegu aðstæður reyna svo flokkarnir að finna einhverja leið til þess að geta tekið sér frí frá því að úthúða hvor öðrum. Þá er oft sniðugt að benda á aðra og finna kröftum sínum loks sameiginlegan farveg

Og trixið í dag er að ráðast á stjórnarandstöðuna sem hefur það helst til saka unnið að vera á móti boðum, bönnum og skattaofbeldi ríkisstjórnar og lagðist svo af óskammfælni gegn Icesave sigri Steingríms Sigfússonar ofan á allt.

Úrræðaleysi og innanhússharmleikir ríkisstjórnar sem stefnir af festu og einurð gegn framförum og vexti atvinnulífs skrifast ekki á stjórnarandstöðuna.

Blindir menn eins og Björn Valur telja það afrek í sjálfu sér að ekki hefur tekist að knésetja allt hér og ég tek undir það með honum og öðrum að því ber að fagna og það sýnir okkur að sem betur fer þarf meira en eina afleita ríkisstjórn til að steypa öllu í glötun.

Í þröngri stöðu með tapað tafl er ekki úr vegi að reyna að grugga vatni og benda á stjórnarandstöðuna þegar bornar eru á ríkisstjórnina staðreyndirnar. Það kann að virka vel til heimabrúks en gerir ekkert gagn til lengri tíma.

VG veit að það er bara þessi eini séns næstu ótalin ár því ekki dettur nokkrum í hug að vinna með þeim á ný. Og Samfylking horfir fram að vera allt í einu ekki viss um að vera í næstu ríkisstjórn.

Þetta er límið gott fólk. Þetta heldur flokkunum saman og ekkert annað. Flokkarnir eru ekki sammála í neinum aðalatriðum og eru hættir að reyna að fela það. Nema um að vera ríkisstjórn sem ekki kann að vera til og getur ekki hætt.

Röggi








fimmtudagur, 1. september 2011

dv.is fellur á fjölmiðlafræðiprófi

Þær eru margar aðferðirnar við matreiðslu frétta. Oft er erfitt að sjá annað samhengi milli fyrirsagna og raunverulegs innihalds frétta en að reyna að afvegaleiða lesendur eða hreinlega vona að þeir láti sér fyrirsögina nægja.

Í dag skrifar dv.is frétt um afkomu Morgunblaðsins. Ekkert er athugavert við það en fyrirsögnin er að Mogginn tapar allt að 800 000 á dag. Það er grefilli mikið finnst mér og ég bíð í ofvæni eftir samsvarandi upplýsingum varðandi rekstrarafkomu DV.

En raunverulega fréttin í þessu er að Mogginn er að ná sér nokkuð vel á strik og er með verulega mikið betri afkomu en á síðasta ári. Tapar sem sagt mun minna en árið á undan. Það er það sem tölurnar sem dv.is hefur undir höndum sýna.

Þessi framsetning dv.is á "fréttinni" ætti að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði 101 um það hvernig fagmennska við úrvinnsla upplýsinga víkur fyrir öðrum hagsmunum sem ég læt ykkur hvert og eitt um að meta hverjir gætu verið.

Röggi




miðvikudagur, 31. ágúst 2011

Jón Bjarnason þekkir ekki Kínverjann

Einþáttungur gærdagsins í boði leikhúss fáránleikans.

Jón Bjarnason er spurður út í fjárfestingar og landakaup Kínverjans Huang Nubo sem er að valda óskiljanlegum titringi. Jón setur þarna upp ógleymanlegt bros og mælir þessi orð;

"Ég þekki nú þennan "Kínverja" ekkert. Menn tala um hann eins og hann sé eini Kínverjinn. Ég held að þeir séu nú allmargir til!!...."

Jón Bjarnason er áhrifamesti ráðherrann í ríkisstjórn VG og Samfylkingar

Röggi




þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Neikvæður Össur

Ekki ætla ég að deila um það við félaga Össur Skarphéðinsson að neikvæðni hjálpar ekki og jákvæðni og bros á vör er betra veganesti ekki síst þegar á móti blæs. Hann er að fjargviðrast út í stjórnarandstöðuna núna fyrir bölmóð og neikvæðni sem hann telur sérstakan vanda.

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fastur í samstarfi við VG. Össur sem er einn alskemmtilegasti maður þingsins er augljóslega í verulegum vandræðum með að halda góða skapinu og jákvæðu hugarfari til þess samstarfs og getur ekki skilið að við hin sem þurfum að þola afleiðingar samstarfsins getum ekki komið auga á jákvæðar hliðar þess.

Össur telur það marka tímamót að AGS hefur útskrifað okkur með ágætiseinkunn þó þjóðin skilji hvorki upp né niður í þeirri útskrift. AGS gefur AGS fína einkun fyrir áætlun sem stofnunin gerði við fyrri ríkisstjórn. Þessu ber kannski að fagna....

En fagnaðarlætin ná ekki til þeirrar ríkisstjórnar sem tók við og hefur frá fyrsta degi verið ósamstíga og keyrt eftir gömlu módeli sem stýrt er af mönnum sem fundu lífssannleikann í austur Evrópu snemma á síðustu öld.

Lengi lét Össur þetta allt vera aukaatriði og hélt góða skapinu með því að hafa ekki opinberar skoðanir á því hvað ríkisstjórn Samfylkingar og VG var að bauka. Hann fékk að gera það sem honum var hugleikið að mestu á ferðalögum erlendis og þó þjóð og samstarfsflokkur hefðu ekki góðan hug til þeirra verka lét hann engan bilbug á sér finna.

Össur er búinn að tapa góða skapinu og ástæðan er ekki erfið stjórnarandstaða enda er það eiginlega út úr karakter hjá Össuri að væla undan ágjöf frá andstæðingum verandi svo veðraður sem hann sjálfur er í þeim bransanum.

Ástæðan er neikvæðnin og dellugangurinn á samstarfsflokknum í stóru sem smáu. VG ályktar eins og stjórnarandstöðuflokkur á verk Samfylkingar og vill stofna rannsóknarrétt, væntanlega undir landsdómsáhrifum, á verk Össurar og Katrínar í ríkisstjórn. Þannig er nú ástandið þar á bæ og vissulega ástæða til að hafa jákvæða sýn á þannig samstarf.....

Ríkisstjórnin er því miður ekki bara ósamstíga heldur fylgir hún stefnu sem eyðileggur og tefur fyrir bata þó vissulega sé augljóst að ekki var önnur leið en upp á við af botninum. Þrátt fyrir VG og samstarfið við Samfylkingu. Það má kannski með mikilli seiglu reyna að halda þvi fram að það sé jákvætt.

Neikvæðustu fréttir sem okkur berast eru því miður ekki bara frá stjórnarandstöðunni. Hver og einn einasti hagsmunaaðili á vinnumarkaði hefur gefið afrekum Össurar og félaga í efnahagsmálum falleinkunn. Tillögur um breytingar á fiskveiðikerfinu okkar eru aðhlátursefni sem ríkisstjórnin vonar svo heitt að komi ekki til afgreiðslu í þinginu.

Ráðherrar opna ekki svo munninn að ekki hrökkvi út úr þeim frumleg hugmynd að nýjum sköttum á deyjandi heimili og atvinnulíf. Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar höfundar peningamálastefnu bankans til áratuga rær svo af krafti gegn allri skynsemi með vaxtahækkunum.

Hún er ekki falleg myndin sem ég dreg upp og neikvæðnin lekur af hverju orði. En svona er nú staðan bara þó einhverkir geti látið framsetningu mína á staðreyndunum fara í taugar sínar. Ég er af grundvallarástæðum á móti þeirri stefnu skattahækkana og ríkisvæðingar sem þessi stjórn aðhyllist af sannfæringu.

Málflutningur þeirra sem eru andstæðingar þeirrar stefnu getur vissulega orðið neikvæður jafnvel þó vel væri að takast til. En þegar jafn hörmulega er að takast til og núna er ekki hægt að ætlast til þess að gleðirík jákvæðni heyrist úr horni stjórnarandstöðu.

Neikvæðustu viðbrögð sem heyrast þessa dagana kona innan úr ríkisstjórninni sjálfri og það er það sem er að plaga Össur Skarphéðinsson.

Röggi

mánudagur, 29. ágúst 2011

Girðingar og frelsi

Ögmundur Jónasson er mesta afturhald og íhald sögunnar ef frá er talinn Jón Bjarnason en hann lítur sér lögmálum. Um Ögmund geta menn mögulega deilt en það gerir enginn sem vill láta taka sig alvarlega að deila um eðliseinkenni stjórnmálmannsins Jóns Bjarnasonar.

Þeir eru sömu náttúru og á þeim er ekki eðlismunur heldur stigs. Þessi menn hafa sértakt óþol gagnvart frelsi og einkaframtaki. Ef þeir réðu, og þeir eru býsna nálægt því, þá værum við öll og launin okkar líka þinglýst ríkiseign og til ráðstöfunar sem slík.

Við myndum loka landamærunum fyrir öllu sem erlent er nema þegar við þurfum erlend lán. Þau eru góð en erlend fjárfesting er vond. Hver vill leyfa útlendingum að græða hér og skila tekjum og sköttum inn í hagkerfið á meðan við getum eytt skatttekjum okkar í greiðslur af erlendum lánum? Útflutningur er svo æði en innflutningur bölvaður kapitalismi.

Þessi menn hafa eftir bankahrun heimsins fundið sér stuðningsmenn sem telja að við getum fundið farveginn með höftum og bönnum í stað einstaklingsfrelsis og frumkvæðis. Til reyndist fólk sem trúir því að frelsi sé vandamál og okkar mál séu best meðhöndluð af misvitrum stjórnmálamönnum eða æviráðnum embættismönnum.

Kannski er það mátuleg refsing fyrir okkur að fá fjögur ár af þessum mönnum við stjórn og vonandi finnum við eftir það jafnvægið milli óhefts frelsis og öfga vinstriríkisrekstrar. Einhversstaðar þar á milli er leiðin en eitt er víst að þeir kumpánar Ögmundur og Jón munu aldrei þekkja þá leið.

Ég geng ekki gruflandi að því að í kringum frelsið þarf girðingar. En þeir sem nú ráða ríkjum í stjórnarráðinu vilja bara girðingar og ekkert frelsi.

Röggi


laugardagur, 27. ágúst 2011

Skyldulesning; Jón Steinsson í fréttablaðinu í dag

Ég legg það til við ritstjórn eyjunnar að benda fólki á að lesa grein Jóns Steinssonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag sem fjallar um þá ákvörðun Geirs Haarde að setja neyðarlög og láta bankana fara á hausinn fremur en að reyna að bjarga þeim.

Í þessari grein lýsir Jón því mjög vel við hvaða kjör Geir Haarde bjó þegar hann tók þessu stóru og hugrökku ákvörðun þvert á ráðleggingar alltof margra., ákvörðun sem hefur í raun gert okkur kleift að halda áfram. Jón setur hlutina í nauðsynlegt samhengi sem hvorki huglausum né skammthugsandi stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki sumu hefur tekist að gera vegna pólitískrar fötlunar.

Kannski má reikna með því að nú verði tekið til við að níða niður fræðimennsku og jafnvel persónu Jóns slíkt hefur ofstækið verið á löngum köflum þegar hrunið er rætt. Slíkar æfingar munu þó ekki koma í veg fyrir að sannleikurinn í þessu máli sem og öðrum leitar alltaf upp á yfirborðið.

Þess má svo geta að Geir Haarde situr og bíður þess að landsdómur taki mál sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon höfða gegn honum. Sú ákvörðun er lægsti punktur í okkar pólitísku sögu og sú ákvörðun var ekki tekin undir neinum öðrum formerkjum en pólitík stundarhagsmuna.

Sem betur fer höfðum við ekki slíkan mann í forsætisráðuneytinu dagana örlagaríku. Geir Haarde er ekki fullkomnari en aðrir menn og ríkisstjórn hans gékk ekki minna grunlaus að því en aðrar að bankarnir voru í vandræðum. Heimurinn var að hrynja framan í öll heimsins fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir en hér á landi telja pólitískir andstæðingar að einn maður hefði bæði getað og átt að sjá þetta og redda svo málinu. Þessi skoðun verður æ fáránlegri eftir því sem lærum meira.

Um þetta fjallar grein Jóns meðal annars og margt fleira sem mjög margir hefðu gott af því að lesa. Ég set reyndar ekki allan lífeyrsissparnaðinn minn á að ritstjórn eyjunnar telji þessa grein merkilega....

Röggi

fimmtudagur, 25. ágúst 2011

Órökstutt tal um jonas.is

jonas.is skrifar enn einn tímamóta pistilinn á síðuna sína í dag. Þar hefur hann uppi skoðun á málflutningi formanns félags sauðfjárbænda. jonas.is telur þann mann tala án rökstuðnings en hefur svo ekkert fyrir því að rökstyðja þá fullyrðingu frekar sjálfur.

jonas.is tekur nefnilega þátt í opinberri umræðu og beitir þá gjarnan fyrir sig stóryrðum og fullyrðingum sem eru stundum algerlega órökstuddar en ná eyrum fólks sem þarf ekki á rökstuðningi að halda.

jonas.is telur sig undanþeginn þeirri reglu að þurfa að rökstyðja neitt sjálfur og þolir engum að hafa athugasemdir við skrif sin.

Það er hans þátttaka í upplýstri rökstuddri opinberri umræðu.

Röggi

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hroki Ólínu

Ólína Þorvarðardóttir veit allt best. Hún er varaformaður sjávarútvegsnefndar og hún ætlar að keyra kvótafumvarpið í gegn sama hvað tautar og raular. Hún er að leiðrétta og lagfæra segir hún og tekur ekki mark á gagnrýni.

Enda öflugir aðilar sem halda úti andófi, nefnilega þeir sem græddu mest og sitja á gróðanum á meðan við hin töpum. Ólína höfðar til tilfinninga sem lifa góðu lífi með þjóðinni núna. Hún spilar á reiðina og helsærða réttlætiskenndina.

Ég geri ekki athugasemdir við upphaflega hugsun varaformannsins og skil hvað rak hana af stað. Nýlegt mat Landsbankans á því tjóni sem frumvarpið mun valda truflar Ólínu ekkert. Hún tekur ekki mark á slíku smotteríi.

Bankinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki einungis muni lánastofnunin sjálf verða fyrir alvarlegum búsyfjum heldur og ríkissjóður og þjóðin öll með skertum lífskjörum til langframa. Arðsemi greinarinnar muni minnka og endurnýjun útilokuð.

Nú er það þannig að þetta álit bankans er eiginlega alveg samhljóma allra annarra hagsmunaaðila sem um málið hafa fjallað. Allt í kringum borðið. Sjómenn og útgerðarmenn. Verkalýðshreyfing og atvinnulíf. En nei....

Ólína veit betur og lætur ekki þessi vondu öfl í þjóðfélaginu trufla sig. Réttlætiskennd margra er aum vegna kvótakerfissins. það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá. Þess vegna sest löggjafinn niður og býr til nefndir til að fara ofan í málið.

Ef lagfæringarnar gera illt verra og eyðileggja frekar en lagfæra er verra af stað farið en heima setið. Er gott að berja höfðinu við steininn? Af hverju geta atvinnustjórnmálamenn eins og Ólína leyft sér að tala niður til þeirra fjölmörgu sem hafa með málefnalegum hætti haft skoðun í málinu?

Hún heimtar leiðréttingu og réttlæti og það hljómar svo vel og er skiljanlegt. En ef frumvarpið nær ekki tilgangi sínum Ólína af hverju er því þá haldið til streitu? Þetta er barnaskólavinna. Skilgreinum verkefnið og finnum leiðir til að leiðrétta. Vandann þykjast menn hafa séð en leiðina til að leiðrétta og lagfæra alls ekki.

Um það eru allar aðilar málsins sammála og mun fleiri reyndar. En stjórnmál lúta undarlegum lögmálum. Stjórnmálamenn viðurkenna aldrei mistök og ef málið lítur vel út á yfirborðinu og er líklegt til skyndivinsælda þá er það það eina sem skiptir máli.

Þess vegna leyfir Ólína sér að tala af hroka og lítilsvirðingu til þeirra sem hafa málefnalega talað til hennar.

Röggi