mánudagur, 31. desember 2007

Óbirtir tölvupóstar.

Fréttablaðið sagði frá því að Jón Gerald hafi nú sent fjölmiðlum útskiftir af tölvusamskiptum sínum við baug. Margt af því áður óbirt segir hann þó hluti póstanna hafi verið dómsskjöl í málarekstrinum. Hann fullyrðir að þessi samskipti varpi ljósi á hvers vegna hann hafi talið sig með gott mál í höndunum.

Auðvitað er margir orðnir hundþreyttir á þessu máli eins og stefnt var að. En ég get samt ekki að því gert að ég bíð í ofvæni eftir því að þeir fjölmiðlar sem töldu nauðsyn að birta tölvupósta sem snérust um Jónínu Ben og hennar mál öll taki sig nú til og birti þessa líka sér í lagi vegna þess að það er heimilt að þessu sinni og varla siðlaust.

það gæti að vísu farið fyrir brjóstið á eigendum en nú er tímabært að reka af sér slyðruorðið. Ég sjálfur sé enga góða ástæðu fyrir því að gera það ekki. Þögning er hávær.

Af hverju er það?

Röggi.

Meira um Bhutto.

Björgvin Valur eyjubloggari virðist kominn á þá skoðun að í raun og veru hafi Benazir Bhutto verið úlfur í sauðargæru. Hún hafi verið úr yfirstétt og menntuð erlendis og því ekki verðug. Hún hafi ekki verið í tengslum við þjóðina sem þó dáði hana að stórum hluta. Tónninn finnst mér óþægilega nálægt því að enginn missir sé að svona yfirstéttarpakki.

Ég veit minnst um það hvort hún var engill í mannsmynd eða ekki. Varla hefur hún verið fullkomnari en aðrir menn en að það skipti hér einhverju máli úr hvaða stétt hún komi skil ég ekki.

Ég efast ekki um misskiptingu lífsgæða í Pakistan. Að mannréttindi séu þar fótum troðin og spilling landlæg hjá þessari yfirstétt sem einokar stjórnmál þessa lands. Patentlausn er örugglega ekki til.

En ég hef eins og margir aðrir horft á þjóðina sjálfa fylkja sér um þessa manneskju. það skiptir mestu máli. Hún gaf mörgum, óháð stöðu hennar, von. Gildir það ekki mestu?

Grundvallarskoðanir okkur sem búum við fullt lýðræði og höfum efni á því að hafna góðu fólki á þeim forsendum einum að við þolum ekki annað hvort fólk úr efri stéttum eða neðri eiga held ég ekki við hjá íbúum Pakistan.

Því fólki fannst hún vera von um betra líf. það dugar mér.

Röggi.

sunnudagur, 30. desember 2007

Oftalin handboltamörk.

Áhugaverð staða er kominn upp í handboltanum. Taplið úrslitaleiks karla í deildarbikarkeppninni hyggst kæra framkvæmd leiksins. Svo viðist sem sigurliðið hafi fengið einu marki of mikið skráð en leikurinn vannst með tveimur.

Fullkomlega er eðlilegt að menn láti reyna á dómstóla við þessar aðstæður. Þekki ekki reglur handboltans en mig minnir að hjá okkur í körfuboltanum sé undirrituð skýrsla að leik loknum látin standa hvort sem mönnum finnst það sanngjarnt eður ei.

Frammarar reyndu lengi að kæra úrslit og framkvæmd bikarúrslitaleiks sem við Valsmenn unnum sællar minningar hér um árið. Það gékk ekki og ég spái því að svo fari núna líka.

Mér sýnist tilhneygingin vera sú að finna þægilegustu lausnina frekar en þá sanngjörnustu. Það þykir vera mikið vesen að spila leikinn aftur. Hef ekki trú á að sú leið verði valin.

Ég held samt að það væri bara gott fyrir alla spila aftur. Mikill þrýstingur yrði á öllum og umfjöllun eftir því. Gaman, gaman.

Sjáum hvað setur.

Röggi.

Silfur Egils í dag.

Sit hér og horfi á silfur Egils. Rífandi skemmtilegt eins og oftast. Rétt í þessu mætti Hanna Birna í gin ljónsins. Sat til borðs menn þremur spunameisturum af vinstri kantinum með hinn stórskemmtilega Hallgrím Helgason í fararbroddi.

Hallgrímur blessaður er fyrir löngu orðin lið ónýtur í allri pólitískri umræðu vegna áunnins haturs í garð Davíðs og sjálfstæðisflokksins. Þar nær spuninn nýjum hæðum og hann trúir hverju orði sem hann heyrir sjálfan sig segja. Þráhyggjuraus hans um Davíð er gærdagsins.

Hanna Birna var fjári frísk. Lét ekki slá sig útaf laginu þrátt fyrir knappa stöðu. Kraftmikil og gerðist hreinskilin. Talaði um arma í flokknum. Hélt sjálfur að algerlega væri óheimilt að tala þannig. Reyndar er hægt að benda á arma og fylkingar í öllum flokkunum ef betur er að gáð.

Magnað hjá henni að upplýsa okkur um að allir hafi talað við alla þegar meirihlutinn var að springa. Og að til væru önnur sms en hin frægu. Kannski eru ekki öll kurl komin til grafar.

Bjarni Harðarsson heldur áfram að bulla uppúr sér hlutum sem mig grunar að hann hafi ekki ætlað að segja. Össuri brá greinilega í brún þegar Bjarni upplýsti um glatað tækifæri til að mynda vinstri stjórn, nú í haust!

Ef Bjarni bullar ekki þeim mun meira þá hafa átt sér stað þreyfingar um samfylkingin sprengdi ríkisstjórnina í haust. það sýnir að mínu viti styrk hjá samfylkingunni að hafa leitt það hjá sér. Samfylkingin þarf síst á slíku upphlaupi að halda.

Gaman að Bjarna og Össuri. Þeir minna mig sífellt á Bryndísi Schram eiginkonu Jóns Baldvins. Það eru engir neyðarhemlar. Allt látið flakka. Formenn þeirra hljóta að biðla til æðri máttarvalda í hvert skipti sem þessir skemmtilegu og eðlilegu menn komast í tæri við myndavélar.

Röggi.

laugardagur, 29. desember 2007

Íþróttamaður ársins.

Margrét Lára er íþróttamaður ársins. Því ber að fagna og engin ástæða til þess að þusa yfir því að hinn eða þessi eigi þetta betur skilið. Þetta er ekki vísindalega valið og því er ekki hægt að krefja neinn um rökstuðning.

Eitt vekur samt furðu mína. Af hverju þarf bikarinn að vera svona stór? Salurinn skemmtir sér að vísu vel yfir því þegar verðlaunahafinn rogast með gripinn um sviðið en er þetta ekki óþarfi. Ég hélt að stærðin skipti ekki máli.

Annars skemmtilegt kvöld og gott fyrir íþróttir. Jákvæð og mikil umfjöllun er fínt mál. Eitthvað er pískrað um breyta fyrirkomulaginu og fleiri komi að kjörinu. það held ég að gæti verið sniðugt. Stækka viðburðinn og gera vægið meira.

Hef líka heyrt að íþróttafréttamenn megi ekki heyra á þetta minnst. Kannski eðlilega en held samt að með tímanum muni það breytast því lengi má gott bæta.

Röggi.

föstudagur, 28. desember 2007

Bhutto lést af slysförum.

Þá vitum við það. Bhutto lést af völdum höfuðhöggs. Nánast vinnuslys. Ekkert skot eða sprengjubrot. Innanríkisráðuneytið hefur sagt þetta og þá er engin ástæða til þess að draga fréttina í efa.

Leyniþjónustan hefur svo rakið símtal frá háttsettum aðila al kaida sem heyrist óska öðrum til hamingju mað drápið. Þessi sami sími var greinilega ekki hleraður daginn áður því þá hefði hugsanlega verið hægt að heyra um það sem stæði til daginn eftir.

Lái mér hver sem vill. Ég bara trúi ekki einu orði af þessu. Ólíkindalegt allt saman og reyfarakennt. Rannsókn málsins bara lokið áður en hún hófst. Frábær frammistaða og trúlega heimsmet. Hvar voru þessir menn þegar Kennedy var skotinn?

Alveg er þó hugsanlegt að ég hengi hér bakara fyrir smið en þá verður svo að vera. Hef fyrir margt löngu misst trú að stjórnvöldum í Pakistan og treysti fáu sem þaðan kemur.

Þessir tappar njóta ekki vafans.

Röggi.

fimmtudagur, 27. desember 2007

Bubbi í sparifötunum.

Missti meira og minna af kastljósinu í kvöld. Lítll skaði þannig séð. Sá þó Bubba kóng sparikkæddann syngja með stórsveit. Framandlegur þannig til fara.

Hann er ekki spari. Var það einu sinni hjá mér en það hafði ekkert með föt að gera. Nú er hann sterkríkur jeppakall sem talar út í eitt um stangveiðar. Allt er í heiminum hverfult.

Flott atriði hjá honum í kastljósinu. Hann er flottur þegar hann er að gera það sem hann gerir best, sumsé syngja. Minnti mig mjög á einhvern. var lengi að finna manninn.

Svo kom það. Joe Cocker. Bubbi er orðinn nákvæmlega eins og sá gamli snillingur. Ekki leiðum að líkjast. Það var enginn með sviðsframkomu hans.

Skoðaðu.

Röggi.

Virðing og öðruvísi virðing.

Hef verið að velta því fyrir nú í dágóðann tíma af hverju góðu gæjarnir virðast ekki duga. Mjúki maðurinn er bara ekki að gera sig. Harðhausarnir þykja betri sama hvað hver segir. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi.

Ef ég legg saman kosti og galla Davíðs Oddssonar og svo Geirs Haarde þá finnst mér það stappa nærri því að vera fullkomið dæmi um þetta. Ætla mér ekki þá dul að bera saman og gera uppá milli þegar kemur að vitsmunum þeirra tveggja. Þar er hvergi til sparað hjá almættinu og ríflega veitt í báðum tilfellum.

Auðvitað er stíll manna mismunandi og á að vera það. Engir tveir eru eins. Er nokkuð viss um það að ef þú spyrð þá vilja flestir hafa mýkri týpuna sem yfirmann að ég tali nú ekki um eiginmann. En er það ekki samt þannig að hin týpan fúnkerar betur?

Það er leitun að fólki sem treystir sér til þess að tala illa um Geir en stór fjöldi hefur ekki meira yndi af neinu en að tala herfilega um Davíð. Davíð er, og var oft, núið því um nasir að vera skapmikill og stjórnsamur. Langrækinn og ógleyminn ef honum mislíkaði ef ekki hreinlega hefnigjarn. Geðveikur sögðu þeir sem lengst gengu.

Samt var það svo að allir vildu vera með honum í plássi. Farsæll með afbrigðum. Kom ótrúlega miklu í verk og sat lengur en allir aðrir. Upphlaup fátíð og þá leyst án vandræða yfirleitt. Virðingin sem fyrir honum var borin óumdeild þó ýmsir minni spámenn hafi bæði þá og nú reynt af veikum mætti lengi vel að níða niður af þessu manni skóinn. Stundum var talað um óttablandna virðingu en mér dettur helst í hug að það sé í raun eina virðingin sem gerir sig í póltík. Sagan mun kenna okkur að enginn maður annar hafi verið sterkari en Davíð í víðasta skilningi þess orðs.

Hún er einhvernvegin öðruvísi virðingin sem borin er fyrir Geir. Hún er þarna og við vitum öll af henni. Hógvær og grandvar maður Geir. Sanngjarn umfram allt og segir ekki styggðaryrði um nokkra persónu. Farsæll á sinn yfirvegaða hátt. Heimsborgari öfugt við Davíð. Treystir á að hægt sé að koma málum fram með rökræðum og þvi að höfða til skynsemi fólks. Eins og sagt var um suma, klettur í hafi. Landsföðurslegur og uppáhlds tengdasonurinn. Nýtur virðingar engin vafi er um það.

En mér sýnist margt benda til þess samt að það dugi ekki til að njóta þeirrar virðingar sem hann nýtur. Það stafar engum ógn af honum. Gamla gengið í flokknum hikar ekki við að vaða fram opinberlega með skoðanir sem hvorki eru hans né flokks. Léttadrengir og stúlkur klúðra meirihlutanum í borginni. Engum manni dettur í hug að það hefði getað gerst undir Davíð.

Skemmtilegustu ráðherrar samfylkingar kunna ekki að vera bara ráðherrar. Sískrifandi og blaðrandi út og suður um hitt og þetta sem ýmist er ekki á dagskrá nú eða þá afdráttarlaust ekki á döfinni. Meira að segja Guðni lét sér ekki detta í hug að skipta ekki um stíl þegar hann gerðist ráðherra undir forsæti Davíðs.

Sumir tala um agaleysi og að menn óttist ekki. Ekki ósvipað og gerist í barnauppeldi. Blessuð börnin vaði uppi ef þau óttist ekki afleiðingar gjörða sinna. Hvað veit ég?

Ekki margt en grunar þó að ef fram fer sem horfir muni sá góði og gegnheili maður Geir sitja eftir með sárt enni. Af því að hann vill ekki taka á neinum og neinu. Allt skal leyst með samkomulagi skynsamra aðila sem tala sig niður á eðlilega niðustöðu. Þetta er fallegt en sennilega barnalegt.

Ég hef hér vonandi alls ekki rétt fyrir mér því stjórnmál ættu auðvitað að vera eitthvað nær Geir en Davíð. Eða hvað?

Röggi.

föstudagur, 21. desember 2007

Pirraður Páll.

Hann er heldur betur sperrtur hann Páll Magnússon útvarpsstjóri. Hrokafullur og stóryrtur ef menn hafa skoðanir á því hvernig rúv er rekið. Er fyrir löngu búinn að gleyma öllum yfirlýsingunum sínum frá því að hann vann hjá einkaframtakinu. Þá var það hann sem vældi. Nú eru aðrir í því en prinsippin eru samt þau sömu.

Auðvitað má hann auglýsa í skaupinu. Af því að honum er það heimilt samkvæmt lögum. Mér finnst óþarfi að þrasa um smekk. Hvort á að hafa leyfi til þess að auglýsa yfirleitt er svo annað mál. Mín skoðun er sáraeinföld og hefur ekkert breyst frá því að ég var sammála Páli á sínum tíma. Ríkisfyrirtæki á ekki að standa í samkeppni við einkafyrirtæki. Það er ójafn leikur. Ekki vildi ég keppa við ríkisrakarastofur.

Ríkisforstjórar virðast margir festast i sama fari og Páll. Öryggið og tryggingin um að vera ekki látinn fara alveg sama hvernig mönnum tekst ekki að reka fyrirtækin án stórtaps árlega virðist svipta menn auðmýkt. Pirringurinn yfir því að litlir kallar út í bæ séu með moðreyk fer í taugarnar á Páli.

Það fer honum illa ekki síst í ljósi sögunnar.

Röggi.

Afleikir Aðalsteins.

Fréttablaðið heldur áfram að mjólka Aðalstein þjálfara stjörnunnar. Hann gefur greinilega ákveðið að reka sitt mál í fjölmiðlum áfram í stað þess að láta sinn málstað vinna málið þar sem það verður flutt. Afleit taktík.

Hann siglir fullum seglum að því að láta víkja sér úr starfi hjá núverandi vinnuveitanda sínum. það ætti honum að takast fyrr en seinna því ég get með engu móti séð að það þjóni neinum hagsmunum fyrir stjörnuna að vera með mann sem ekki er í betra jafnvægi en þetta í vinnu við æskulýðsstörf.


Röggi.

fimmtudagur, 20. desember 2007

Ráðning Þorsteins.

Þá er búið að koma Þorsteini Davíðssyni fyrir i kerfinu. Og vandlætingarkórinn byrjar strax og kyrja spillingarkvæðin. Fyrst þegar ég heyrði þetta hugsaði ég um það hversu óánægður ég væri með það að minn flokkur væri að gefa höggstað á sér með svona löguðu.

Ég segi minn flokkur því ég er blár og oftast harla ánægður með það. Svo áttaði ég mig á því að engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur á í hlut. Þetta liggur í eðli hlutanna óháð því hver er við völd hverju sinni. Kratarnir þóttu allra verstir í pólitískum ráðningum á sínum tíma. Svo hættu menn að taka eftir því af praktískum ástæðum og fóru að beina sjónum að framsóknarflokknum. Mínir menn hafa lengi legið undir grun. Þeir eru alltaf í stjórn.Það er með þessi mál eins og mörg önnur, stjórnmálamenn gera illt verra. Flest sem þeir snerta spillist ef það er ekki gjörspillt fyrir.

Ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn og hvorugur þessara hópa eiga að skipa dómara. Til hvers er verið að fá einhverja sérfræðinga utan úr bæ til þess að meta hæfi þegar hæfið er á endanum metið af ráðherra einum? Og ég spyr.

Hvers eiga þeir að gjalda sem sækja um störf og eru svo skipaðir af ráðherra þeirra flokks? Hver græðir á þessu fyrirkomulagi? Er til að mynda alveg útilokað að Þorsteinn eigi þetta skilið. Það munum við aldrei vita af því að pólitíkin þvælist hér fyrir öllu. það eru grimm örlög að vera í skugga Davíðs og njóta kannski aldrei sannmælis af þeim sökum.

Tökum þennan kaleik af þessu fólki. það er öllum fyrir bestu. Við núverandi stöðu verður ekki unað. Hér tapa allir.

Og hefjum svo vinnu við að þrískipta valdi hér því við breytum ekki mannskepnunni. Ef kerfið býður dýrategundinni uppá spillingarmöguleika er líklegra en ekki að einhver spillist.

Breytum því kerfinu.

Röggi.

"ég dæmdi ekki víti"

Ég hef áður skrifað um málefni KSÍ í nútíð og þátíð. Þar hefur verið af nægu að taka. Allt frá því þegar fyrrverandi formaður lét það viðgangast að einn besti sonur íslenskrar knattspyrnu, Guðni Bergs, var gerður útlægur vegna skapgerðabresta þáverandi þjálfara til þeirra óleystu vandamála sem tengjast fyrirliða liðsins í dag. Þá eins og nú virðist dugleysi forystunnar og úrræðaleysi algert.

Gunnar Gylfason FÍFA aðstoðardómari finnur sig knúinn til þess með yfirlýsingu að sverja af sér þátt í ákvörðun Kristinns Jakobssonar félaga síns um að dæma ranglega vítaspyrnu í evrópuleik á dögunum. Kristinn hefur nokkuð áberandi gert Gunnari talsverðan þátt í þeirri ákvörðun.

það liggur í hlutarins eðli að ekki geta báðir haft algerlega rétt fyrir sér í málinu. Ætla ekki að hafa neina skoðun á því af hverju mönnum ætti að vera í mun að segja ekki satt.

En ég spyr. Hvernig getur það gerst að þetta mál fer í þennan farveg? Svona mál hlýtur að verða að leysa innandyra. Hversu mikið hefur gengið á áður en Gunnar ákveður að fara með þetta í blöðin. Var engin önnur útgönguleið?

Þetta er ótrúleg atburðarás og styrkir hvorugan aðila málsins eða KSÍ. Og varla get ég ímyndað mér að þetta verði þeim félögum til framdráttar hjá FÍFA.

Er þetta ekki enn eitt dæmið sem sannar að stjórn KSÍ, formaður og framkvæmdastjóri ráða ekki við sitt?

Röggi.

mánudagur, 17. desember 2007

Konur í Afghanistan.

Ég er að ég held bara ósköp venjulegur fýr. Hvorki betri eða verri en flestir. Hef einfaldar þarfir yfirleitt. Þoli ekki óréttlæti heimsins hvernig sem það birtist. Get aftur á móti rifist um hvernig best er að vinna á vandanum.

Sat fyrir framan sjónvarpið í kvöld og sá fyrir tilviljun þátt um konur í Afghanistan. Ég átti bókstaflega erfitt með að trúa eigin augum. Auðvitað er víða hægt að finna hörmuleg dæmi um afleitar aðstæður fólks af báðum kynum. En það sem þarna var grafið upp er nánast ólýsanlegt. Átti á stundum bágt með mig.

Líklega er best að reyna ekki að tengja þetta trúarbrögðum en ég berst við hugsunina. Hitt var aftur á móti út í hött og það var að reyna að klína þessu á Bush kallinn. Margt er hægt að setja á hans reikning en ekki það að talibanar, og fleiri, meðhöndla konur eins og húsdýr. Og að skepnuskapurinn er svo rótgróinn að það ætlar að taka eilífðina sjálfa að snúa við blaðinu þó þeim hafi verið komið frá völdum.

Ástandið afleitt víða í Afghanistan en ekki væri það betra með talaibana við völd. Góðir hlutir gerast stundum of hægt.

Og í þessu tilfelli alltof hægt.

Röggi.

Kalli Bjarni þegir.

Hvernig ætli standi á því að Kalli Bjarni þorir ekki að segja frá þeim sem fengu hann til að að burðast með dóp til landsins? Jú örugglega að hluta til óttinn við hefnd en kannski líka vegna þess að alls ekki er hægt að átta sig á því hver hagur mannsins væri af því að tala.

Ekki græddi Grétar í líkfundamálinu nokkuð á blaðrinu. Hann bókstaflega upplýsti málið á meðan snillingurinn félagi hans, Jónas, laug sig rangeygðan vikum saman. Niðurstaðan var að sjálfsögðu sama refsing handa báðum.

Jón Gerald fékk þau skilaboð að ákærur hans gegn baugi væru ekki marktækar vegna þess að hann legði fæð á baug! Frábært alveg enda algengt í meira lagi að menn beri hlýhug til þeirra sem þeir ákæra.

Fleiri dæmi eru til sem virðast benda til þess að dómskerfið hér viti hreint ekki hvernig á að taka á þeim sem kunna að vilja greiða veg réttvísinnar.

Ég spyr eins og fávís rakari. Hver græðir á þessu aðrir en vondu kallarnir?

Röggi.

sunnudagur, 16. desember 2007

Ekkert verðsamráð.

Glimrandi fín frétt á rúv í kvöld um verðmun á þjónustu hársnyrtistofa. Hellings verðmunur sem er gott og eðlilegt. Fréttamaðurinn taldi fréttina reyndar vera þessi mikli verðmunur. Stundum allt að helmingsmunur.

Þetta eru góð tíðindi af greininni hefði ég haldið. Eðlileg samkeppni og mikill verðmunur. Við erum orðin svo vön verðsamráði og einnarkrónu verðmuninum sem matvörumafíur landsins hafa komið sér upp að við teljum það stórtfrétt ef einhversstaðar finnst samkeppni í verðum.

Hvenær skyldum við fá að viðlíka fréttir af matarkaupmönnum, tryggingasölum, eldsneytissölum eða hvað þeir heita nú kaupmennirnir sem ekki treysta sér til þess að stunda raunverulega samkeppni í verðum.

Röggi.

fimmtudagur, 13. desember 2007

Svekktur þjálfari.

Það er ekki ofsögum sagt að hann sé sársvekktur þjálfari kvennaliðs stjörnunar í handbolta. Aganefnd HSÍ tók myndarlega á ummælum hans síendurteknum í fjölmiðlum.

Gæti skrifað mikinn langhund um það hvernig þeir sem tengjast íþróttum geta misskilið margt sem kemur að dómgæslu. Þjálfarinn er einn af þeim þó að ég geti alveg skilið að ekki sé vel gott að fá óreynt par í stórleik sér í lagi þegar þeir menn eru svo ekki að standa sig.

Staðreyndin virðist vera sú að það sárvantar menn til að sinna dómgæslu í handbolta og mig undrar það ekki ef þetta er umgengin sem í boði er. Enginn verður óbarinn biskup í dómgæslu og einhverntíma þurfa menn að fá sénsinn sinn. Hvenær það er nákvæmlega getur verið álitamál.

Það er ekki að ástæðulausu sem þjálfurum víða um lönd er bannað að tjá sig með svona hætti um dómgæslu. Svona ummæli eru einfaldlega ekki góð auglýsing fyrir íþróttina auk þess sem þetta er engin leið til þess að umgangast fagaðila sem eru allir að vinna að framgangi íþróttarinnar.

Þjálarar eiga hiklaust að hafa faglega skoðun á öllu sem kemur að frammistöðu dómara. Slíkt getur verið mjög gagnlegt fyrir dómarana sjálfa ef umfjölluninni er beint á rétta staði og vandað til hennar.

Fjölmiðlar eru ekki þeir staðir.

Röggi.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Schengen.

það hljóta að hafa verið góðar ástæður fyrir því að við fórum inn í schengen samstarfið á sínum tíma. Einhver þægindi fylgja þessu. Við losnum við biðraðir á flugvöllum, sumstaðar. Það er kostur.

Og líklega einhverjir aðrir praktískir kostir sem ekki blasa við leikmanni eins og mér. Ókostirnir eru sýnilegir eins og stundum áður. Mikill kostnaður og svo það hitt að við höfum ekki hugmynd um hverjir eru hér staddir. Eða nýfarnir.

Ég er ekkert viss um það henti mér. Við horfum uppá þetta nánast daglega núna. Ofbeldis og afbrotamenn valsa hér út og inn án þess að spyrja kóng eða prest jafnvel þó kóngurinn og presturinn hafi lagt blátt bann við öllum ferðalögum. Og þarna er ég að vísa í þau mál þar sem hægt er að bera á menn kennsl. Það er því miður ekki alltaf þannig.

Sýslumaðurinn í keflavík reynir af veikum mætti að benda steinsofandi réttarkerfinu á að farbann hafi í dag ekkert gildi. Án árangurs.

Bandaríkjamenn eru grjótharðir á sínum landamærum. Einum of segja margir ef ekki tveimur. En við erum of lin ef ekki hreinlega kærulaus. Þarna þarf að finna milliveg og þar eigum við að staðsetja okkur.

Ef það þýðir að við drögum okkur út úr schengen er þá ekki bara spurning um að gera það. Heimsmyndir hefur breyst til muna frá því að það apparat varð til.

Segi bara svona.

Röggi.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Handbolti og kynlíf.

Handbolti eru ekki mínar ær og kýr. Læt mér almennt í léttu rúmi liggja hvernig kaupin gerast á eyrinni hjá handboltafólkinu. Ég vissi til dæmis ekki að til væri síða sem heitir handbolti.is fyrr en Rúnar vinur minn benti mér á hana.

Þar er að finna viðtöl sem stjórnarmaður HSÍ tekur við ungt handboltafólk af báðum kynjum. Bæði skriflegt og lifandi. Kannski er það bara ég, og Rúnar, en er ekki eitthvað undarlegt við að meginþemað virðist vera kynlíf hjá spyrjanda?

Ung stúlka í kvennalandsliðsferð á fullt í fangi með að verjast, ja í besta falli barnalegum spurningum um hluti sem ég myndi aldrei spyrja um.

Sjón er sögu ríkari. Handbolti.is

Röggi.

Öryggisráðið kærir VISA.

Öryggisráð feministafélags Íslands. Ég endurtek. Öryggisráð feministafélags Íslands. Þetta hlýtur að vera spaug. Líklega eru hér áhrifin af skagaspaugi Vífils símadóna að koma fram. Nú skal það frábæra grín toppað.

Vissi ekki að þetta ráð væri til og grunaði ekki heldur að það þyrfti að vera til. Baráttan er vissulega hörð og sækist líklega ekki nógu hratt og vel en ætli þetta teljist ekki vera fulllangt gengið. Gott ef konur í kringum mig eru ekki talsvert meira hneykslaðar en við strákarnir.

Má VISA hafa skoðun á því hvað kúnnarnir kaupa sér? Tölvunefnd eða persónuvernd eða hvað þær heita nú allar nefndirnar gætu jafnvel bannað VISA að hnýsast sérstaklega í það hvað korthafar eru að kaupa sér.

Til hvers að kæra kortafyrirtækið? Þetta jaðrar við ofstæki. Mæli eindregið með því ef þetta gengur ekki upp að hið mikla öryggisráð íhugi að kæra þá sem framleiða kortin. Ef það dugar ekki þá er rétt að hafa uppá þeim sem fann upp internetið, þá tölvurnar....

Röggi.

Einkarekið heilbrigði.

Nú er vá fyrir dyrum. Ögmundur Jónasson var klökkur af geðshræringu í þinginu. Hvað er það versta sem fyrir okkur gæti komið? Jú, einkarekin heilbrigðisþjónusta.

Ríkisstjórnin er að "hrekja" okkur til þess að einkareka þjónustu við sjúka. það væri dauðans alvara. Þá fá sjúkir og laskaðir enga þjónustu. Verða reknir á dyr fótbrotnir og fárveikir, bláfátækir án trygginga.

Allt of margir finna sig í amerískri hryllingsmynd þegar kemur að því að ræða einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Enda grýlunni haldið á lofti seint og snemma af mönnum eins og Ögmundi sem auðvitað vill helst að skjólstæðingar sínir hja BSRB og BHM séu sem flestir. Illa launaðir og óánægðir opinberir starfsmenn.

Heilsugæslan í salarhverfi, heilsugæslan í álftamýri, orkuhúsið og læknavaktin. Allt einkarekið. Hversu margir ætli viti það? Ríkð borgar brúsann en fagmennirnir reka businessinn. Þjónustan síst verri og reyndar talsvert betri. Og kostar ekki krónu meira en ríkisreknir starfsmenn eru að kosta okkur hundóánægðir og þar af leiðandi ekki nógu góðir starfsmenn.

Hættum þessari hysteríu og tölum um þessi mál af skynsemi og án fordóma. Stór hluti kerfissins er nú þegar einkarekinn öllum til heilla. Ríkið stendur ekki betur að svona rekstri en einkaaðilar. Ég hef reyndar aldrei skilið rökin. Af hverju ættu einkaaðilar að gera þetta verr? Hver vill ekki hafa viðskiptavininn ánægðan?

Það er ekkert verið að tala um að kollvarpa tryggingakerfinu. Miklu frekar er verið að tala um að nýta fé betur en nú gerist hjá ríkinu. Gera þjónustu samning við fagaðila um ákveðna hluti. Þetta gengur vel í dag og við eigum án vafa að skoða þessa leið betur.

það er ekkert að óttast.

Röggi.

Heiðurslaun.

þá er tekist á um veitingu heiðurslauna ríkissins. Hljómar þetta ekki einhvernvegin undarlega, heiðurslaun ríkissins? Mér finnst það.

Að þrasa um það að þessi fái en ekki hinn er eiginlega alveg út í hött. Mér vitanlega eru engar reglur til um það hvernig fara skuli með þessi heiðurslaun. Þetta er enn eitt dæmið um það hversu vita vonlaust er að láta stjórnmálamönnum svona vald í hendur. Enginn rökstuðningur til eða frá. Þeir sem ekki fá dylgja um þá sem fá og þá sem veita styrkinn. Þá er talað um pótitík, eðlilega því pólitískir fulltrúar eru að útdeila bitlingum eftir behag.

Ég treysti mér ekki til þess að skera úr um hvort er fallegra rautt eða blátt. Eða hvort mjög vel stæður fyrrverandi ritstjóri moggans þarf þessa smáaura frekar en Sigurður A sem aldrei hafði skynsemi til þess að leggja fyrir eins og aðrir menn gera flestir.

Hit sýnist mér býsna augljóst. Svona nokkuð á að taka af stjórnmálamönnum og láta fagráð um málið. Nú eða hitt sem er líka ágætur kostur.

Hætta þessari opinberu mismunun sem þessi heiðurslaun munu alltaf verða. það hlýtur að vera óþolandi fyrir þá sem fá að þurfa að sitja undir dylgjum og skömmum frá fulltrúm þeirra sem ekki fá. Vegna þess að mjög auðvelt hlýtur að vera að finna góðar ástæður fyrir þvi að allir sem telja sig til listamanna eigi launin góðu skilin.

Ef við ætlum þrátt fyrir allt að halda þessu áfram þá verður að taka þetta af alþingi. Þar aflagast allir hlutir í eilífðarstríði meirihluta gegn minnihluta.

Röggi.

fimmtudagur, 6. desember 2007

Spilltur handbolti í safamýri.

Þeir voru misglaðbeittir þjálfarar efstu liðanna í kvennahandboltanum eftir stórleik kvöldsins. Þjálfari sigurliðsins eðlilega heldur kátari en mátti þó ekki vera að því að gleðjast eftir leikinn heldur splæsti nánast öllu viðtalinu í að tala um dómara leiksins. Hann var hundóánægður og taldi sitt fólk misrétti beitt. Gott og vel.

Hinn þjálfarinn hafði enn minni áhuga á því að fjalla um íþróttina sem hann vinnur við. Saltvondur og stóryrtur mjög. Þrautreyndur maðurinn hafði það í sér að tala um að dómgæslan í leiknum hefði verið "spilling og ekkert annað".

Í hverskonar ástandi eru menn þegar svona nokkuð gengur út úr þeim? Hvaða bækur er hann að lesa? Hvað er í matinn á heimili manna sem láta svona?

Flott auglýsing fyrir handboltann. Það verður spennandi að sjá hver refsing þjálfara stjörnunnar verður. Allt annað en leikbann er skandall. Og eins og málum virðist háttað þá þolir íþróttin ekki fleiri skandala.

Röggi.

Kristinn á Goodison.

Kristinn Jakobsson var í eldlínunni í gærkvöldi. Dæmdi evrópuleik hjá Everton fyrir fullu húsi. Stór stund fyrir hann persónulega því fótbolti er íþrótt númer eitt í heimunum. Kjötiðnaðarmaðurinn úr kópavogi er búinn að fara langa leið og grýtta til þess að komast á þennan stað. Mjög margir um hituna og þetta er því frábært. Hvernig í veröldinni stendur á því að hér heima þykir hann ekki besti dómarinn?

Stóð sig vel kallinn. Íþróttafréttamaðurinn talaði um hvað honum fyndist skrýtið að vera sífellt með augun á dómaranum. Þannig horfi ég á alla leiki. Var óheppinn með vítaspyrnudóminn ranga. Gunnar aðstoðardómari, nýklipptur, sá líka hendi þarna. Aldrei gott þegar við dómarar sjáum eitthvað sem ekki gerist. En svona gerast kaupin nú stundum á eyrinni.

Hef ekki nokkrar áhyggjur af því að þetta muni koma niður á honum. Menn eru greinilega búnir að ákveða að hann ráði vel við þetta. Það er langur aðdragandi að svona árangri og mönnum verður ekki hent út þó þeir geri mistök. Ekki frekar en að menn séu hafnir upp til himna eftir einn góðan leik.

Hamingjuóskir til Kristinns.

Röggi.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Kiljan.

Settist fyrir framan sjónvarpið mitt í kvöld þegar ég kom heim. Vissi af fótboltaleik sem gæti beðið mín og þá er ég sáttur. Fiktið í fjarstýringunni leiddi mig á rás ríkissjónvarpsins. Þar var Egill með kiljuna.

Þá varð fótboltinn að víkja. Mig minnir að einhverjir menningarvitar hafi verið að tuða yfir því að Egill þessi stjórnmálaþrasari fengi að vera með bókmenntaþátt. Þær áhyggjur reyndust óþarfar.

Ég er ekki endilega mesti bókaormur allra tíma en finnst þátturinn flottur. Páll Baldvin hlýtur að vera einn skemmtilegast maður þjóðarinnar. Strákslegur og hæfilega óheflaður í tali. Kolbrún er auðvitað bara Kolbrún.

Og Egill Egill. Hvernig er ekki hægt að hrífast með honum. Skemmtir sér greinilega og kemur víða við. Áhugi minn á bókum hefur aukist og það var tilgangurinn.

Man það núna að ég tók þáttinn í síðustu viku líka framyfir boltann.....

Röggi.

Trúboð í skólum.

Ég hlustaði á afskaplega geðþekkann mann frá siðmennt reyna að ræða við hlustendur bylgjunnar að morgni um það hvort kirkjan eigi að vera í skólum. Hlustendur voru margir reiðir honum en mér fannst margt sem hann sagði auðskilið og vel fram sett og hóflega.

Biskupinn okkar er fremur stóryrtur í garð þessara samtaka finnst mér. Eðlilega segja margir en ég er ekki einn af þeim. Þjóðkirkjan hefur hér algera yfirburði yfir aðra og ætti helst ekki að fara í fýlu þó einhverjir kunni að vilja hafa skoðun á því að kirkjunnar menn komi ekki með beinum hætti að trúaruppfræðslu í skólum landsins.

Ef ég skil þetta rétt þá er alls ekki verið að leggja til að horfið verði frá þeirri námsskrá sem nú er heldur sjái fagmenn, kennarar, um uppfræðsluna en ekki kirkjunnar menn.

Svo er verið að tala um þá nemendur sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni. Hvað verður um þá? Skipta þeir engu máli bara af því að þeir tilheyra minnihlutahópi? Hversu stór þarf minnihlutinn að vera til þess að hann skipti máli.

Hvað mælir gegn því að við hleypum þá fulltrúum múslima á Íslandi inní skólana til að sinna trúboði? Mér finnst þetta óþarfa áhyggjur hjá kirkjunni. Ég reikna með því að ákvarðanir um það hvert skal stefnt í trúmálun sé tekin á heimilum en ekki skólum.

Eins og vera ber. Trúboð á ekki heima í skólum að mínu viti sama hvert trúboðið er.

Röggi.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Íslensk menntastefna enn gjaldfelld.

Þá er OECD enn og aftur að staðfesta að eitthvað er alvarlegt að í menntamálum okkar hér. Gott að sjá að Þorgerður Katrín hefur náð að safna kjarki og þorir að hafa skoðun á málinu. Síðast þegar sama stofnun mældi okkur svona þá sagði hún nefnilega að ekkert væri að marka, við værum svo sérstök, lítil, og langt í burtu.

Þetta setur væntanlega krydd í væntanlegar kjaraviðræður við kennara. þær verða reyndar að vera alvöru kjaraviðræður þar sem hlutirnir snúast ekki bara um hærri laun kennara og styttri kennsluskyldu.

Ég get ekki með nokkru móti séð að þessar nýjustu sannanir fyrir því að kerfið okkar virkar ekki sannfæri verkkaupann um að áfram skuli haldið á sömu braut. Forysta kennara mun án efa halda því fram að ástæða þessara niðurstaðna sé lág laun kennara og langur vinnudagur. það kaupi ég ekki.

Nú verður að ná fram breytingum jafnvel þó að hér þurfi að beita sömu aðferðum og danir eru að beita. Kollegi Þorgerðar hefur lýst því yfir að forysta kennara þar í landi muni ekki komast upp með lengur að halda málaflokknum í gíslingu og koma í veg fyrir nauðsynlegar umbætur á þeirra kerfi.

Þar mótmæla samtök kennara líka öllum breytingum sjálfkrafa. Engum til hagsbóta og allra síst þeim sjálfum. Núverandi fyrirkomulag hentar engum. Nemendur skila sér í fallsæti og kennarar eru láglauna.

Eftir hverju er að bíða?

Röggi.

mánudagur, 3. desember 2007

Íslenska keppöndin.

Það er þetta með keppendurnar. Merkileg dýrategund. Hvað verður um keppendurnar á veturna? þeim ætti reyndar ekki að verða kalt, blessuðum. Svona búttaðar.

Eintalan ætti þá að vera kepp....önd.

Hljómar vel.

Röggi.

Fréttamat og Hannes Smárason.

Hvað ætli sé nú í fréttum? Jú Pútin heldur velli. Vesen hjá strætó. Og menn halda áfram að slást hingað og þangað. Svo er fjallað létt um að FL group eigi í vandræðum og þar verði skipt um forstjóra.

Þetta er fréttin ef ég er spurður. Stórkuldugur verðbréfamiðlari er nú loks að fá það á baukinn að hafa verið of kaldur. Bíræfinn og útsjónarsamur segja margir en í mínum huga er hann nánast þjófur. Alveg frá því í árdaga þegar hann seldi okkur ÍE hefur hann stundað spákaupmennsku og sjónhverfingar.

Hann hefur aldrei rekið fyrirtæki svo neinu nemi. Ekkert hefur hann skapað heldur. Það sem hann hefur gert er að eiga nógu mörg eignarhaldsfélög sem hafa keypt og selt fram og til baka af honum sjálfum og félögum. Flugfélagið okkar fer sennilega verst útúr æfingum hans því það fína fyrirtæki var notað til þess að kaupa ótt og títt og með þeim hætti hurfu ófáir milljarðarnir í útvíða vasa þessara fulltrúa nútíma græðgi.

Hvar fann drengurinn peninga til að gera alla þessa hluti? Hann hlýtur að vera skuldugasti núlifandi Íslendingurinn. Kannski eru einhverjir bankaforkólfar svefnlitlir núna. Nei annars, á hann ekki banka?

Það skyldi þó ekki fara svo á endanum að Davíð hafi haft rétt fyrir sér. Eru þetta ekki bara bölvaðir götustrákar. Jón Ásgeir ætlar að koma með einhverja pappíra inní þrotabúið en ekki það mikla að hann þurfi að gera yfirtökutilboð. Samt vita allir að hann og hans eiga þetta allt saman. Þessi þétti hópur auðmanna sem við tilheyrum orðið öll á þetta þvers og kruss. Varla að nokkur maður geti áttað sig á hver er hvað nema með mikilli vinnu og athugun á eignarhaldsfélögum og kennitölum.

Og það þykir ekki vera nógu merkilegt að fjalla um það Hannes Smárason virðist kominn að fótum fram. Nú ætti einhver grúskarinn í fjölmiðlastétt sem ekki er í eigu þessara manna að kafa nú djúpt því mig grunar að skíturinn sem upp kæmi sé magnaður.

Vonum bara að ekki verði margir sem Hannes Smárason dregur með sér í fallinu. Svona kallar eru dýrkeyptir þegar þeir tapa í lottóinu. En hann er auðvitað töframaður hann Hannes og kannski galdrar hann einhversstaðar fram lausn.

Röggi.

Guð bjó til skýin.

Sonur minn sjö vetra, Máni Freyr, er mikill snillingur. Fallegasta og besta barn veraldar auðvitað. Eins og öll önnur börn. Hverjum þykir sinn fugl fagur.

Börn eru heimspekingar. Vorum í einum af fjölmörgum bíltúrum okkar í gær þegar hann upplýsir mig um það að Guð hafi búið skýin til. Þá fórum við að ræða Guð. Það er hættulegt við umræðuefni við hvern sem er og ekki síst hann Mána minn.

Ég segi honum að Guð sé allstaðar. Þá spyr minn, "hvernig veistu?". Stóra spurningin sjálf hvorki meira né minna. Ég segi honum að ég bara trúi því og þá kemur yfirlýsingin, "ekki ég!"

Þetta stefnir í óefni fyrir mig og Guð. Svo spyr Máni mig hvort hann sé inní ljósastaurnum. Og steypuklumpinum sem við ökum framhjá. Hvernig svarar maður svona?

Held að við trúum báðir þannig séð. Og kannski kemur að því að flestir þurfi einhversskonar staðfestingu. Er ekki handviss um að svör mín við spurningum Mána hafi styrkt hann verulega í trúnni.

Ég hins vegar horfi á hann á hverjum degi og veit þá að Guð er til.

Röggi.