sunnudagur, 28. febrúar 2010

Þorsteinn Pálsson í silfrinu

Hrein unun er að hlusta á Þorstein Pálsson tjá sig í silfri Egils í dag. Ekki endilega bara vegna þess að ég sé sammála honum heldur er framsetning hans á málum skýr og rökstudd og stíllinn þannig að enginn ætti að móðgast eða meiðast.

Alger skylda að horfa á þetta viðtal ekki síst fyrir þá sem reyna enn að styðja núverandi ríkisstjórn sem ekki ræður við verkefni sín hverju nafni sem þau kunna að nefnast.

Röggi

laugardagur, 27. febrúar 2010

Ég segi nei

Auðvitað hlaut að koma að því já mennirnir létu á sér bera. þarna er ég að tala um fólkið sem ætlar að segja já við verri samning um Icesace en okkur býðst í dag. Ég er að reyna af öllum mætti að vera jákvæður í garð þeirrar ákvörðunar að segja já og fullur skilnings. það gengur treglega...

Venjulega eru tvær hliðar á málum og alltaf hollt að reyna að setja sig inni í hugarheim þeirra sem gagnstæðar skoðanir hafa. Í þessu máli er eiginlega vita vonlaust að finna aðra skýringu en einhversskonar pólitíska fötlun og blindu því miður.

kannski finnst einhverjum bara sniðugt að vera með skoðanir sem eru á skjön við alla hina og stundum er gaman að slíku fólki. Röksemdir þeirra sem ætla að segja já við verri samningum hafa hingað til ekki hrifið mig enda halda þær hvorki vatni né vindi.

Þeir sem vilja styðja andstæðinga okkar í þessu mál og gera samningamönnum okkar erfitt fyrir að ná sanngjörnum samningi ættu hiklaust að segja já. Þeir sem ekki vilja það segja auðvitað nei.

Þetta mál er ekki hægri vinstri mál. þetta snýst ekki um að halda með flokknum sínum eða uppáhalds stórnmálmanninum. þetta mál snýst um að halda með Íslandi. Ég er í því liði.

Og segi nei

Röggi

föstudagur, 26. febrúar 2010

Eineltið og Jóhannes stórkaupmaður

Jóhannes í bónus kemur sífellt á óvart og sjaldnast bregst hann þegar kemur þvi að reyna að bæta eigið Íslandsmet í siðleysi. Nú ku hann vera í enn einu viðtalinu í DV og fer á kostum.

þar gerir hann heiðarlega tilraun til að koma óorði á orðið einelti með því að telja sig og fjölskylduna verða fyrir slíku. Kaupmenn hér á landi í matvörubransanum þekkja einelti alltof vel og þar hefur þessi ágæti maður verið á aðalhlutverki geranda.

Jóhannes finnur til með börnum sínum og hver kannast ekki við slíkar tilfinningar. Börnin hans og hann sjálfur hafa sett hvert einasta fyrirtæki sem þau hafa komið höndum yfir og þar með talið gullkálfinn bónus svo rækilega á hausinn að aldrei verður hægt að gera betur, eða verr.

Reikningurinn er hjá þjóðinni ógreiddur og Jóhannes er við það að gefast upp. Ekkert verður afskrifað en þó verður allt afskrifað og Jóhannes er uppgefinn. Peningar sem hann og hans fólk hefur fengið lánað til að veðsetja ALLT sem það hefur fengið lánið fyrir eru horfnir og karlanginn er að gefast upp. Finnur þú ekki til með heilsulausum og þreyttum milljarðmæringnum?

Hvernig Jóhannesi dettur í hug að reyna enn einu sinni að spila á tilfinningar þjóðar sinnar með svona þvælutali er mér hulin ráðgáta en vonandi hefur hann ekki borgað einhverjum PR manni stórfé fyrir trikkið.

Hann ætti frekar að finna til með fólki sem blæðir nú með stórfelldu eignatapi og vinnumissi en syni sínum sem hann segir hafa tapað svo miklum peningum. Fólki sem ekki getur greitt af húsum sínum eða bíl lengur. Bankinn sem ætlar að gera það sem hægt er fyrir Jóhannes er á meðan í miklum vandræðum með litla fólkið í þessu landi. En Jón Ásgeir á fyrir diet coke og jeppaflotinn og stórhýsin um allan heim standa þessu fólki enn til boða.

Ég veit að Jóhannes er ekki einn valdur að þessu en hann og hans fjölskylda á mjög mikinn þátt í þessu ástandi.það er staðreyndin og eineltið sem þessi þjóð hefur mátt þola frá þessu fólki er okkur dýrkeypt. En það er eins með þetta einelti og það sem einstaklingar verða fyrir. Þolendurnir fást ekki til að ræða málið eða hreinlega skammast sin of mikið fyrir að hafa dansað með allan tímann.

það treystir Jóhannes á nú og ryðst nú fram fullur uppgerðariðrunar þegar hann er í raun orðinn smeykur um að þjóðin ætli ekki að láta hann komast upp með trikkið, aftur!

Látum martröðina hans Jóhannesar rættast. Við þurfum víst að taka við skuldunum hans en látum hvorki hann né hans fólk komast upp með að halda eignum sínum óskertum rétt á meðan.

þetta er í okkar höndum núna og það finnur Jóhannes.

Röggi

fimmtudagur, 25. febrúar 2010

Bensíngjaldið hans Steingríms

það er margt skrýtið í skattakýrhausnum. Fjármálaráðherra sem kann bara eina leið til stjórnar efnahagsmálum hvort heldur sem er í góðæri eða hallæri tjáði sig um hækkun bensíngjalds í gær.

Eins og alþekkt er þá hafa áhrif af hækkun bensínverðs haft ein og aðeins ein áhrif. Dregið hefur úr neyslu og þar með tekjum af skattinum. Kenningin sannar sig sífellt en samt er hamast í því að hækka skatta til að fylla upp í göt í fjármálum ríkissins. Höfðinu er lamið af festu við steininn og allir þjást.

En þetta er í raun aukaatriði sagði Steingrímur því þessar auknu álögur á þjakaða og stórskulduga þegna landsins voru settar í umhverfisskyni en ekki til að ná í aura í skröltandi tóman kassann. Hann hefur þvi engar áhyggjur þótt þetta skili minni tekjum en fyrr...

Hvað getur maður sagt?

Röggi

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Lausn á skuldavanda 101 hótel fundin

það fer furðulítið fyrir fréttinni sem fréttastofa stöðvar 2 hafði fyrsta í kvöldfréttum í gærkvöldi. þar sagði að þau heiðurshjón Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir hafi fært "eign" sína 101 hótel á sínar persónulegu kenntölur en skilið skuldina, pínulitlar 13 þúsund milljónir eftir.

Nú munu þau "eiga" sitthvor 50% í hótelinu skuldlaust trúlega. Þetta er fallegt ævintýr og gaman að sjá að þurfalingar þessa þjóðfélags skuli fá aðstoð á þessum harðindatímum.

þetta vesalings fólk skuldar reyndar ekki nema 1 000 milljarða eða svo og þvi eðlilegt að starfsmenn bankans sjái á því aumur enda getur Íslensk þjóð klárlega bætt þessu hóteli og skuldum þess á sitt skulduga bak.

Ég sé ekki betur en að hér sé fundin lausn á skuldavandræðum okkar og því er rétt að fagna þessum tíðindum. Ég legg til að sá maður sem kvittaði undir þetta í bankanum verði dreginn fram og hann fenginn til að líta sem snöggvast yfir heimilisbókhald venjulegs Íslendings með þessa lausn í huga.

Hver segir svo að bankarnir séu ekki að sinna þörfum viðskiptavina sinna þegar þeir lenda í kröggum?

Röggi

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Ha! Baugsmenn að ritstýra fjölmiðlum sínum??

Er það virkilega þannig að einhver hafi í raun trúað því að Hreinn Loftsson/Jón Ásgeir hafi ekki ritstýrt blöðum sínum og sjónvarpsstöðvum? það er staðreynd að sá hópur sem gékk í lið með þessum kónum gerði það af pólitískum ástæðum fyrst og síðast og í því skjóli tóku þessir menn til óspilltra málanna að misnota þau fyrirtæki sem hönd var hægt að festa á.

Ég hef margsagt það áður að snilld Jóns Ásgeirs eða jafnvel heppni var sú að Davíð Oddsson sá í gegnum hann fljótlega og Jóni tókst að fá heilan stjórnmálaflokk á uppleið til að berja á kallinum og flokknum hans og allir græddu. Nema þjóðin auðvitað eins og við vitum nú orðið öll.

Stundarhagsmunir viðskiptalegs eðlis og pólitískir voru notaðir til að sölsa undir sig heilt viðskiptasamfélag og þá var eignarhald á fjölmiðlum nauðsyn og aðrar viðskiptablokkir fylgdu svo í kjölfarið. Þarna smellpössuðu hagsmunir beggja svona líka prýðilega saman. Fjölmiðlarnir voru notaðir til þess að berja á vandræðamanni sem þvældist fyrir báðum.

Og enn hefur fátt breyst. Vinstri menn þessa lands halda áfram að hlaða undir þessa fjölskyldu sem veður nú yfir gjaldþrota þjóðina og heldur húsum sinum, fyrirtækjum og fjölmiðlum. Og reikningurinn í heimabankanum hjá þér kæri lesandi.

Þessa sögu hef ég og fleiri sagt árum saman en það fylgir því þó engin gleði að hafa haft fullkomlega rétt fyrir sér. Þeir hinir sem völdu að kóa með þessu fólki og lesa okkur hinum pistilinn hljóta nú að fara með veggjum.

Eða ættu að gera það...

Röggi

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Eftirááhyggjur Skúla Helgasonar

það var skemmtilegt leikritið sem stjórnarþingmennirnir Skúli Helgason og Lilja Mósesdóttir settu upp í þinginu í gær. þar gerði Skúli sér upp áhyggjur vegna þess hvernig Arion banki höndlar með mál Samskipa og Lilja botnaði svo atriðið og tók undir.

það er kannski aukaatriði hér en þessir þingmenn tilheyra nefnilega stórnarliðinu sem gerði akkúrat ekki neitt annað en að hafa enga skoðun á þesum málum á meðan Arion banki var í eigu ríkissins. Nú er aftur á móti þægilegt að belgjast upp af áhyggjum.

Skúli hefur kannski ekki hugmynd um að Arion banki ræður litlu um það hvernig um Samskip er vélað heldur er það á höndum banka í Hollandi. Þessar eftirááhyggjur ná líklega ekki til þess hvernig Jón Ásgeir og fjölskylda er að sölsa undir sig skuldlaus fyrirtæki sín aftur.

Svona stjórnmál eru ónýt og ekkert annað en populismi. Skúli og hans fólk gat reynt að hafa áhrif í þesum efnum en þá hentaði best að hafa engar skoðanir og skipta sér ekki af.

Hvernig stendur á því?

Röggi

miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Sóley Tómasdóttir er ekki kona

Sóley Tómasdóttir er ekki kona og reyndar enn síður karlmaður þegar hún er í prófkjöri eða að störfum í borgarstjórn. Þá er hún stjórnmálamaður eins og aðrir óháð kyni og störf hennar og framkoma lýtur sömu gagnrýni og annarra. Ekki virðist mega gagnrýna hana án þess að málsmetandi konur rjúki til og telji það beinast að kynferði hennar eða því að hún er feministi.

Á hún að vera undanþegin gagnrýni vegna þess að hún er kona? það er henni hvorki til gagns eða ógagns að vera kona í þessum störfum. Ég skil ekki hvað tilgangi þessi rembumálflutningur á að þjóna. Er þetta gagnlegt innlegg í jafnréttisbaráttuna sem sumir kalla reyndar kvenréttindabaráttu fyrir misskilning?

Sóley Tómasdóttir stendur alveg fyrir sínu sem stjórnmálamaður og þarf enga forgjöf vegna kynferðis og þeir karlar sem hafa skoðun á hennar störfum á þeim vetfangi eiga ekki að þurfa að gefa neinn afslátt þó þér séu af gagnstæðu kyni.

Röggi

föstudagur, 12. febrúar 2010

Vill fjármálaráðuneytið ekki betri samning?

Steingrímur J er í undarlegri stöðu. Hann druslast núna með stjórnarandstöðunni í björgunaraðgerðum á Icesave samningunum. Maðurinn sem reyndi að lauma hinum glæsta samningi fram hjá þingi og þjóð og hefur eytt mánuðum í að telja okkur trú um að ekki sé annað og betra í boði.

Á meðan á þessu atriði stendur er svo vinstri hönd hans Indriði H að reyna allt hvað af tekur að bjarga því litla sem eftir er af andliti fjármálaráðherra með skemmdarstarfsemi og þvælumálflutningi um gamla samninginn.

Getur verið að embættismenn ráðuneytissins voni að ekki náist betri samningur? Og getur verið að innst inni sé Steingrímur með sömu tilfinningar?

Röggi

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Hvers vegna þrífst spilling?

Ég hef lengi verið upptekinn af því að styrkja og efla löggjafann og þingið. Stjórnmálamenn myndu alveg þola að hressa upp á ímynd sína og flokkarnir líka. Núna eru, reyndar hægt og rólega, að koma upp á yfirborðið allskonar að því er virðist undarlegir hlutir sem tengjast fjármunum og tengslum stjórnmálamanna úti í þjóðfélaginu.

Ég veit að sekt manna er ekki sönnuð þó blaðamenn þyrli upp fréttum, öðru nær, og reyndar er óþolandi að þurfa að sitja undir ásökunum í fjölmiðlum sér í lagi ef þær eru ekki úr sannfærandi upplýsingum unnar.

Núna eru fjölmiðlar og aðrir að elta menn uppi og mér sýnist hin meinta spilling ekki tengjast einum flokki endilega meira en öðrum. Við sitjum uppi með afleiðingar af gölluðu systemi en erum ekki að ræða úrbæturnar sem eru svo nauðsynlegar.

Ég fyrir mitt leyti skil ekki hvernig það má gerast að þingmenn þurfi ekki að gera grein fyrir tengslum og stöðu sinni þegar þeir sverja sinn embættiseið. Fólk sem velst til þess að sjá um löggjöf fyrir okkur getur verið svo bullandi vanhæft að engu tali tekur.

þannig er kerfið og svo erum við hissa á því að sumir svindli eða missi fótanna í lausbeisluðu lagaumhverfinu. Breytum kerfinu á þann veg að möguleikinn á feluleikjum og svindli hverfi. það er ekki flókið eins og okkur er oft sagt. það þarf bara vilja...

Stjórnmálaflokkar og einstakir þingmenn eiga ekki að komast upp með að gefa ekki upp hverjar eignir þeirra eru eða tengsl út í þjóðfélagið. Mér er alveg sama hvort þingmaðurinn heitir Ásbjörn Óttarsson eða Össur Skarphéðinnson. Engu skiptir fyrir mig hvort viðkomandi er Tryggvi Þór eða Árni Þór og mér finnst að minn flokkur eigi að fara fyrir í þessum efnum.

Ég vill að reglurnar séu skýrar og að við gerum kröfu um að almennt siðferði gildi líka um þá sem eru í trúnaðarstörfum fyrir okkur. Þetta verður að vera óháð persónum og flokkum.

þetta er auðvitað erfitt allt saman af því að við viljum helst halda með okkar fólki en hvenær eigum við að velja núllpunktinn ef ekki núna?

Röggi

Hagar og undrandi reiðir ráðherrar

það er hreinlega leitun að fólki utan fjölskyldu Jóhannesar í bónus sem skilur og er sátt við hvernig mál varðandi Haga eru að þróast. Allt er að ganga fjölskyldunni í hag og ef að líkum lætur mun Jóni Ásgeir takast að eignast skuldlaust fyrirtækið á betri kjörum en ef hann hefði samið beint við fyrri eigendur bankans. Enda er Jóhannes sáttur og þá þarf að ekki að segja meira...

Margir eru reiðir og sumir ropandi hneykslaðir og gapandi af undrun. Venjulegt fólk fattar hreinlega ekkert og skilur ekki hvernig umferðalögin í bönkunum virka mismunandi.

Ég sjálfur skil að erfitt getur verið að setja skýrar reglur sem virka algerlega eins fyrir alla. En að ekki sé hægt að setja neinar almennar reglur er mér fyrirmunað að skilja og allskyns samsæriskenningar fá líf í kollinum.

Mér sýnist meira að segja ráðherrar vera ýmist orðlausir eða reiðir. það ástand hefur verið hjá þeim mörgum alveg frá fyrsta starfsdegi og afraksturinn blasir við. Ef ég skil þetta rétt er búið að taka bankana af ríkinu og kröfuhafarnir hafa tekið þá yfir. Þetta var það sem að var stefnt og flestir telja eðlilegt og hreinlega gott mál.

Er tækifæri ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til að hafa eitthvað um málefni eins og Haga að segja ekki runnið henni úr greipum? Er þetta ekki mál núverandi eigenda bankanna? Eigenda sem enginn veit fyrir víst hverjir eru? Nefnilega kröfuhafana andlitslausu....

Ákvarðanafælni og afdráttarleysi ríkisstjórnarinnar er orðin okkur stórskaðleg á flsetum sviðum og að líkindum er kostnaðurinn ekki að fullu fram kominn.

Reiði, hneykslan og gapandi undrun ráðherra gera bara ekki neitt í þeirri stöðu sem virðist komin upp því miður.

Röggi

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Ósigrar Jóhanns Haukssonar

Jóhann Hauksson blaðamaður á DV og stjórnmálaskýrandi með meiru komst að því fyrir nokkru að stjórnarandstaðan hafi tapað Icesave málinu á þingi. það er mögnuð upplifun og fréttaskýring hjá Jóhanni.

Ríkisstjórnin hefur í raun gefið allt frumkvæði frá sér í málinu og nú er það stjórnarandstaðan sem knýr málið áfram. Hlutir sem Steingrímur og Jóhanna hafa barið frá sér í heillt ár eru nú að verða eðlileg samningsmarkmið og heilbrigð skynsemi.

Nú berast fréttir af því sem ég var búinn að nefna fyrir nokkrum vikum að félagi Össur sé farinn að þefa af Framsókn. Samfylkingin er endanlega búin að fá nóg af VG enda er sá flokkur að stimpla sig út. Reynsla Framsóknar af því að vera stuðpúði milli þessara vinstri flokka hlýtur að vera þannig að sá möguleiki sé ekki fyrir hendi.

það er engin útgönguleið fyrir Samfylkinguna. Hún situr uppi með VG og aðgerðaleysisríkisstjórnina. Allar æfingar til þess að stytta sér leið og plotta sig frá klúðri þessarar ríkisstjórnar munu og eiga að mistakast.

Núna er stjórnarandstaðan að reyna að koma til hjálpar alveg eins og þegar fyrirvararnir voru settir. Farlama ríkisstjórnin er algerlega ófær um að leiða nokkur mál til lykta. Og nú þegar flóttatilraunir Samfylkingar eru að koma upp á yfirborðið hljóta dagar hennar að verða fáir eftir.

Þangað til verðum við að vona að stjórnarandstaðan hafi heilsu til að vinna störfin og koma með gagnlegar tillögur. Kannski sér Jóhann Hauksson þetta allt saman sem enn einn ósigur stjórnarandstöðunnar.

Mér þætti gaman að sjá þennan eftirsótta fréttaskýranda segja mér í hverju sigur stjórnarinnar sé fólginn í atburðum síðustu mánaða ef hann sér ósigra í málflutningi stjórnandstöðunnar.

Röggi

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

Icesave: kemur vonin að utan?

Nú er komin upp merkileg staða í samningamálum varðandi Icesave. Viðsemjendur okkar vilja það mest að hér skapist pólitíks samstaða um niðurstöðuna. það er eðlileg krafa í ljósi þeirra samskipta sem þeir hafa átt við þessa ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin sagði já og aman við afarkostunum og hélt heim á leið sannfærð og hóf að telja okkur trú um að ekki yrði betur gert. Því trúa fáir hvort heldur sem þeir sitja á þingi eður ei. Samt er haldið áfram að selja okkur sannleika Hollendinga og Breta og í tvígang hefur stjórnin hrökklast til baka.

Og nú er svo komið að viðsemjendur okkar gera þá kröfu að á bak við umboð samningamanna sé stuðningur. það er fullkomlega eðlilegt og ég var að vona að ríkisstjórnin færi í að vinna að því að byggja upp samstöðu en ekki að reyna að galdra fram stuðning við samning sem við viljum ekki. Við erum í þessu tilfelli allir aðrir en ríkisstjórnin......

Kannski eru viðsemjendur okkar búnir að sjá að ekki þýðir endalaust að berja höfði við stein. Í því er von fyrir okkur ef vel verður á spilum haldið. Eitt og annað bendir þó til þess að ríkisstjórnin sé ekki alveg búin að missa trú á gamla samningnum og sé alveg til í að reyna einu sinni enn.

Þá er okkar helsta von orðin sú að Hollendingum og Bretum takist að koma vitinu fyrir okkar fólk. Að þeim takist að telja Steingrími og Jóhönnu trú um að þjóðin muni ekki samþykkja þetta svona heldur þurfi að finna samstöðu um aðra og nýja niðurstöðu.

það skyldi þó ekki vera....

Röggi

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Stjórnmál þórólfs Matthíassonar

Ég deili áhyggjum Ólafs Arnarsonar af Þórólfi Matthíassyni sem mér skilst að kenni hagfræði. Þórólfur hefur verið eins og blaðafulltrúi ríkisstjórnar Samfylkingar og VG og fagnað öllu sem sú stjórn gerir í blindni hins sannfærða stjórnmálamanns.

Þórólfur hélt því fram að eina leiðin til að loka fjárlagagatinu stóra væri að hækka neysluskatta. Sú hugsun er í besta falli brosleg. Og núna æðir hann í erlenda fjölmiðla og reynir að vinna málsstað viðsemjenda okkar fylgis.

Skilin milli hagfræði og stjórnmála verða eiginlega engin þegar þórólfur Matthíasson talar.

Röggi

mánudagur, 1. febrúar 2010

Karl Th prinsippin um forsetann.

það er að jafnaði verra að hafa engin prinsipp. Hér fyrr á öldum var hægt að komast upp með glæpinn enda ekkert utanumhald með því hvað menn sögðu frá einum degi til annars. Flestir vita að Ólafur Ragnar Grímsson hefur eiginlega bara eitt prinsipp, eða tvö....

..og að hann er á kafi í pólitík á Bessastöðum. Núna virðast æ fleiri kannast við að misbeiting hans á málsskotsrétti forseta frá 2004 er og var hræódýrt hneyksli en beitt pólitískt bragð auk þess sem beitingin hentaði mönnum sem áður og fyrr og enn í dag eru miklir vinir forsetans.

Karl Th Birgisson fer nú mikinn og kvartar undan hegðun forsetans og ég er sammála hverju orði sem hann segir um það atriði. það sem Karli og félögum svíður þó er auðvitað bara að Ólafur Ragnar skuli ekki vera þeim sammála. Ef forsetinn væri að breiða út fagnaðareindið heyrðist hvorki hósti né stuna frá Karli Th og félögum.

Ólafi Ragnari er að takast að breyta embætti forsetans til frambúðar og ég held að menn honum handgengnir til margra ára hljóti að eiga að finna til ábyrgðar í þeirri sögu.

Ég reikna með því að Karl Th væri málsskotsréttinum algerlaga andsnúinn ef Davíð Oddsson sæti á Bessastöðum. Hann hafði engar athugasemdir við hann 2004 en er ekki sáttur 2010. Þó er um forsetann hans að ræða, forsetann sem tók svo góða ákvörðun 2004 en veður upp á dekk núna á sömu skítugu skónum.

Málsmetandi menn af vinstri vængnum hafa gefið hraustlega undir fótinn með að forsetinn geti vissulega þurft að taka afstöðu í pólitík og að embættið megi gjarna þróast og taka til fleiri þátta.

Nú er það gleymt og gleðin horfin. Ólafur Ragnar, forsetinn hans Karls Th er orðinn stjórnlaus. Vegferðin þessi hófst með synjun fjölmiðlalaganna og þeim stuðningi sem Ólafur Ragnr fékk til þess frá mönnum eins og Karli Th.

Þá datt vinstri mönnum auðvitað alls ekki í hug að karlinn gleymdi því í hvaða liði hann á að vera. Þess vegna hafa menn tekið upp nýtt prinsipp sem hentar aðstæðum nú þegar Ólafur Ragnar talar út og suður gegn stefnu ríkisstjórnarinnar erlendis.

Ólafur Ragnar á auðvitað ekki að vera í þessu hlutverki. Hann var ekki kosinn til þess hvorki nú síðast né þar áður þó hann hafi áður talað gegn stefnu ríkisstjórnar með velþóknun manna eins og Karls Th. En það var reyndar ekki vinstri stjórnin....

Byltingin étur hér börnin sín sem kunna því illa eðlilega.

Röggi