sunnudagur, 28. nóvember 2010

Stjórnlagaþingsfýlupokar

Þá er búið að kjósa til stjórnlagaþings. Eins og ávallt keppast aðilar við að skýra hvað gerðist og sitt sýnist hverjum. Enginn tekur auðvitað mark á þeim sem telja kosninguna sterka og gott vegarnesti í framhaldinu. Þátttakan var hörmuleg og þeir sem töldu hugmyndina góða ata nú meirihlutann auri fyrir heimsku og leti og ég man ekki hvað. Það er afar lýðræðislegt tal eða hitt þó heldur og styrkir hugmyndina um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur.....!

Öllu er um kennt öðru en þeim möguleika að meirihluti þjóðarinnar vilji kannski ekki breyta neinu. Fýlupokarnir segja það alveg umbúðalaust að þeir sem vildu stjórnlagaþing máttu hafa opinbera skoðun á málinu. Aðrir sem ekki höfðu trú á málinu og voguðu sér að nefna það opinberlega voru að eyðileggja. Hvurslags tal er það? Af hverju má ekki hafa nema eina skoðun í þessu máli? Getur ekki verið að gagnrýni sumra á fyrirkomulag og annað í þessu hafi einmitt átt sérlega vel við skoðað í ljósi niðurstöðunnar??

Það eru örugglega margir samverkandi þættir sem urðu þess valdandi að kosningaþátttakan var svona herfilega lítil. En niðurstaðan er svona og ekki stoðar að atyrða meirihlutann þegar hann kann ekki að þóknast minnihlutanum.

Röggi

föstudagur, 26. nóvember 2010

Lögfræði landsdóms

Landsdómsmálið er auðvitað eitt risastórt klúður. Það viðurkenna allir og sumir þurfa að læðast með sínum pólitísku veggjum það sem eftir er vegna framgöngu sinnar í því efni. Geir Haarde er þó lítil huggun í því að menn sjái nú hversu fáránleg staða það er að hann þurfi að svara til einhverra saka fyrir að vera stjórnmálamaður.

Nú er ekki annað í boði en að taka þessu og gera allan þennan málatilbúnað þannig að einhver mögulegur sómi sé að. Kannski er það til marks um að enginn hefur áhuga á þessu lengur eða að hefndarþorstanum sé svalað með því að ákæra Geir einan að fjölmiðlar og almenningur virðast ekki hafa áhuga á ótrúlegum fréttum af framgangi þessa leikhúss fáránleikans.

Fréttir af skipan verjanda til handa Geir Haarde eru í raun alveg makalausar. Sækjandinn í málinu tefur skipan verjanda vegna þess að dómarinn hefur beðið sækjandann um álit á þeim gjörningi á Geir fái verjanda. Ég skil vel að þú þurfir að lesa þessa setningu tvisvar....

Þetta er svo gersamlega út í hött að ég nánast trúi varla sögunni og skil ekki hvaða lögfræði er lögð þarna til grundvallar. Ég sé þó í nýju ljósi yfirlýsingu Skúla Helgasonar sem lýsti því yfir skömmu eftir að hann greiddi atkvæði með ákæranni að þetta fyrirkomulag væri í besta falli gallað ef ekki ónýtt....

Ég reikna með því að eitthvað heyrðist í kórnum sem hvatti Ögmund til að skipta sér af dómstólum í máli níumenninganna ef sækjandinn í því máli hefði verið beðinn um það af dómaranum að hafa skoðun á skipun verjanda til handa þeim.

Á þessu tvennu er enginn munur en dauðaþögnin sem um þetta ríkir er til skammar eins og málið í heild sinni.

Röggi

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Styrmir og samstarfið við VG

Styrmir Gunnarsson er mætur maður og ekki geri ég lítið úr skoðunum hans í neinu en mér er þó fyrirmunað að skilja tal hans um mögulegt samstarf Sjálfstæðisflokks við VG. Það eina sem Styrmir og skoðanabræður hans í þeim efnum sjá í VG er andstaðan við inngöngu í ESB. Og í því máli sýnist mér jafnvel blikur á lofti hvað VG varðar.

Kannski sér Styrmir þetta sem hentugan millileik til að koma ESB málinu frá í bili hið minnsta því varla tekst Styrmi að gleyma alveg fyrir hvað VG stendur í stjórnmálum. Stefna VG í efnahags og atvinnumálum er í grunninn afleit og ónýt. Grunnafstaða flokksins í ríkisfjármálum og hugmyndir um ríkisafskipti af öllu getur eða ætti ég öllu heldur að segja, ætti aldrei að geta samræmst stefnu Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum ef allt er með felldu þar.

Ég sjálfur hef litla sannfæringu fyrir ágæti inngöngu í ESB en tel það mál í fínum farvegi núna. Mér finnast tilraunir til þess að koma í veg fyrir að við náum sem bestum díl við ESB ekki skynsamlegar. Til þess að klára það mál og til þess að umræðan um ESB snúist ekki um öfgana á sitthvorum enda málsins þarf samning til að tala um. Og kjósa svo. Hvað mælir gegn þessari aðferðafræði?

Ég vona að hugmyndir Styrmis um samtarfs við þann hluta VG sem vill ekki undir neinum kringumstæðum skoða ESB aðild verði aldrei ofan á. Því miður er sá hópur að mestu óalandi og óferjandi í samstarfi að ég tali nú ekki um grundvallarskoðanir þess hóps í pólitík sem eru eins langt frá mínum og mögulegt er....

...og reyndar Sjálfstæðisflokksins líka.

Hélt ég

Röggi

mánudagur, 22. nóvember 2010

Pólitísk afskipti af dómsvaldinu

Stjórnmálasamtökin VG álykta um málefni níumenninganna svokölluðu. Stjórnmálamennirnir vilja skipta sér af dómsvaldinu með beinum hætti og finnst það alveg eðlilegt. Mér finnst það fráleitt af öllum hugsanlegum ástæðum.

En þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma svo mjög á óvart. Þeir sem lengst sitja til vinstri telja í prinsippinu að pólitíkusar eigi að ráða öllu. Þar með talið dómsvaldinu. Nú fyrir skemmstu beittu þeir sér fyrir því að dómsvaldið verði sett í að rétta yfir stjórnmálamanni vegna pólitískra skoðana og aðgerða hans.

Þessi hugsun öll var þekkt í ráðstjórnarríkjunum og er sem betur fer á undanhaldi. Dómsvaldið á að starfa óháð og án þrýstings frá framkvæmda og eða löggjafarvaldi en VG er hvoru tveggja. Pólitísk afskipti af dómsvaldinu er ekkert grín gott fólk.

Þeir sem fá krampakast vegna þessa pistils geta sett Sjálfstæðisflokkinn inn í mengið í stað VG til að fá rétta tilfinningu fyrir því sem hér er um að ræða.

Röggi

laugardagur, 20. nóvember 2010

Ofstæki smugunar

Hún heldur áfram pólitíska hugarsýkin vegna uppsagnar Láru Hönnu af rás 2. Vinstri menn og eigendur að smugan.is eru að ganga af göflunum og neita hreinlega að sjá staðreyndir mála. Það bara má ekki láta fólk úr þeirra röðum fara. Um það snýst þetta mál og EKKERT annað.

Þá ályktun dreg ég vegna þess að ekki er hlustað á fínan rökstuðning ríkisútvarpsins vegna málsins. Afstaða VG vefsins er út í hött og einkennist af pólitískri blindu og nú undir það síðasta af hreinu ofstæki. Smugan.is bara hefur ákveðið að þarna sé um ofsóknir og skoðanakúgun að ræða og engra frekari skýringa er þá þörf.

Smugan.is finnur ekki kjarna þessa máls enda sjónarhornið knappt og útgangspunkturinn pólitískur. Stormur í vatnsglasi sem gjaldfellir smuguna og Láru Hönnu duglega.

Röggi

miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Ármann Jakobsson, þrískipting valds og frasanotkun

Ármann Jakobsson drepur fingri á lyklaborð og skrifar um þrískiptingu valdsins á smugan.is. Ármann er um margt skemmtilegur penni og læsilegur en hér er hann yfirborðskenndur og innihaldsrýr.

Ármann freistast til halda að margir þeir sem vilja skerpa á þrískiptingu valds viti ekki um hvað það mál snýst heldur finnst gaman að slá um sig með frasanum. Merkilega hrokafullt hjá Ármanni sem finnur hugmyndinni um þriskiptingu valds það til forráttu að Ameríkanar notist við slíka hugmyndafræði. Það gera reyndar fleiri þjóðir og ég hélt að leitun væri að fólki sem telur þrískiptingu valds nánast óþarfa eins Ármann virðist vera að halda fram.

Ármann kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert stoði að breyta kerfinu ef hugarfarið breytist ekki með. Hann kemst þá líklega að þeirri niðurstöðu að núverandi system sé í raun gott en dýrategundin. mannskepnan, þurfi bara að koma sér upp óspilltu hugafari. Ekki er í lítið ráðist segi ég

Ég skil alls ekki fólk sem heldur að tal um þriskiptingu valds, sem er vel að merkja ekki stælar í fólki út í bæ, snúist um orðaleiki og tískustrauma eða frasanotkun þeirra sem ekki skilja heildarvandann. Ég tel nefnilega að þeir sem taka pólinn hans Ármanns skilji hvorki né nenni að kafa djúpt í málið.

Við Ármann verðum trúlega ekki sammála um meginstefnu í stjórnmálum enda tilheyrir hann þeim hópi fólks sem telur að stjórnmálamenn séu best til allra hluta fallnir. Og þess vegna vill hann standa vörð um ráðherraræðið, sem heitir víst á fagmáli þingræði, en hefur afskræmst í Íslenskum meðförum.

Breytinga er þörf og mér finnst þær snúast um kerfið en Ármann telur vandann snúast um fólk með vont hugarfar.

Vonandi verður þessi skoðun ekki tískuskoðun og vonandi ekki heldur frasarnir hans Ármanns.

Röggi

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Uppsagnir á RÚV

Allt ætlar um koll að keyra hjá vinstri bloggurum vegna uppsagna Láru Hönnu og Þórhalls Jósepssonar af RÚV. Þarna þykjast menn sjá maðk í mysu og pólitík. Ég hef ekkert á móti þessu fína fólki og sýnist ríkisfjölmiðillinn vera að reyna að standa undir þeim reglum sem um hann gilda og þó fyrr hefði verið....

Hvernig ætli sumum brygði við ef einhver af pistlahöfundum AMX yrði munstraður til að vera með vikulegt erindi í morgunþætti hjá RÚV? Kannski einhver sem skilgreindi sjálfan sig sem ópóitískann....

Ég bara spyr.

Röggi

mánudagur, 8. nóvember 2010

Saari, lýðskrum og heildarlausnir

Nú er tími lýðskrumaranna. Og handónýtir fjölmiðlar halda áfram að gera lítið sem ekkert gagn. Nú ræður ríkisstjórn sem veit hvorki upp né niður og man ekki lengur hvert hún er að fara eða hverju var lofað. Skjaldborgin um heimilin lætur á sér standa og því andrúmslofti lifa menn eins og Þór Saari góðu lífi.

Þór hlýtur að vera einn afkastamesti lýðskrumari þingsögunnar. Hann heldur því eiginlega fram að ef ekki væru fyrir vondir stjórnmálamenn væri hægt að leysa skuldavanda heimilanna á einu augabragði. Þingmaðurinn rær svo í þessu fram og til baka og grunnir fjölmiðlar taka honum opnum örmum og telja hann mestan og góðastann....

Mér dettur ekki í hug að svona sé um þennan vanda farið. Lausnin sem lofað var er líklegast bara ekki til. Skuldir hverfa ekki af yfirborðinu því miður og það er sérlega dapurlegt því sumir peningar virðast geta horfið sporlaust ofan í hyldjúpa vasa bankaræningja sem sumir reyndar njóta þess enn að eiga fjölmiðla og annað sem þeim hentar.

Skjaldborgin um heimilin átti að snúast um að tryggja kaupmátt og störf. Þetta skilur þessi ríkisstjórn alls ekki og hefur leitað allsherjarlausna byggða á óraunsæi. Lausna sem eiga að "redda" málinu á íslenska vegu í snarhasti. Þetta mun ekki gerast....

Vinstri menn margir hafa alla trú á því að ríkisvaldið og það fólk sem þar velst til starfa sé til allra hluta best. Og í rökréttu framhaldi er reynt að koma okkur öllum undir algóðann verndarvæng Steingríms og Indriða með skattaofbeldi. Einkaframtakið kæft á meðan skatttekjur af allri neyslu dragast saman. Hvernig þetta á að ganga upp er mér hulin ráðgáta.

"Eitthvað annað" stefnan í atvinnumálum er keyrð áfram af festu og styrk og Björk segir okkur að við þurfum alls ekkert að nýta neinar auðlindir. Við þurfum einungis að hugsa grænt og auka svo framlög til lista og menningar. Allt raus um nýtingu auðlinda og störf í iðnaði séu frá vondu hægri fólki komið.

Hvernig væri að liðið sem stýrir aðgerðaleysisríkisstjórninni safnaði nú kjarki og segði okkur eins og er. Það voru engar lausnir í þá átt sem lýðskrumarar utan og innan ríkisstórnar standa fyrir uppi í erminni hjá Samfylkingu og VG. Röfl Jóhönnu um samráð og samvinnu er innantómt leikrit ætlað til að þyrla ryki og flestum fjölmiðlamönnum líður vel í rykmekkinum og mótmælendur eru í fríi.

Og mitt í allri þessari sögu þrífst Þór Saari á öllu saman bara af því að hann segir það sem fólk vill heyra þó vissulega sé hann á stundum einungis að enduróma það sem þjóðinni var lofað.

Hættum lýðskrumi og leitum frekar að mönnum með kjark til að segja það sem segja þarf en ekki bara það sem hljómar best og þægilegast er að heyra. Þá mun snöggkólna um stjórnmálamenn eins og Þór Saari. Og reyndar fleiri....

Röggi

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Bullið í Bubba

Ég hafði það af að hlusta á viðtal sem gamli gúanórokkarinn Bubbi Morthens lét taka við sig á rás 2 í morgun. Þar lét hann vaða á súðum eins og venjulega en innihaldið var óvenjurýrt og er þó langt til jafnað þegar laxveiðimaðurinn ástsæli á í hlut.

Bubbi er enn að reyna að selja gömlu hugmyndina um að þjófarnir sem stálu bönkunum okkar séu ekki sökudólgar heldur stjórnmálamaður einn að nafni Davíð Oddsson. Hann einn beri ábyrgð. Þessa þvælu reyndu menn að bera á borð fyrstu mánuðina en í dag er leitun að fólki sem nennir að hafa þessa skoðun. Tíminn hefur leitt ýmislegt í ljós en Bubbi nennir ekki að ferðast með okkur hinum fram veginn...

Rokkarinn eyðir mikilli orku í AMX sem hann telur klámvef í eigu LÍÚ en er auðvitað sléttsama um það hver á pressuna þar sem hann klæmist sjálfur allt of oft.

Ég hvet alla til að hlusta á þetta tímamótaviðtal við kónginn sem þarna afhjúpar sig þannig að ekki mun nokkur þörf á því að taka mark á honum framvegis. Samsæriskenningarnar svo mergjaðar að manni flýgur jafnvel í hug að ekki sé allt með felldu hjá Bubba kallinum.

Ég eiginlega vona að honum sé borgað fyrir þessar skoðanir. Mér finnst það skömminni skárra en að hann trúi því sem hann heyrir sig segja.

Röggi