föstudagur, 27. febrúar 2009

Björgvin G talar...

Björgvin G upplýsir nú hvernig raunveruleg staða bankanna var þegar sú ákvörðun var tekin að taka Glitni yfir. Þetta er smart hjá honum og staðfestir enn einu sinni að seðlabankinn og ríkisstjórnin voru að gera góða hluti þessa örlagaríku daga. Kannski alger tilviljun að Björgvin kemur þessu frá sér um leið og Davíð er farinn úr bankanum...

Hvar er fólkið sem gékk undir Jón Ásgeir þessa daga og lengi á eftir í gagnrýni sinni á seðlabankann og ríkisstjórnina? Eins og það hefur reyndar gert áum saman með glæsilegum árangri. Það er fólkið sem vildi að Davíð fengi 500 milljarða að láni frá norrænum bönkum til að afhenda bankaeigendum svo þeir gætu fengið meira fé til að sigla með til fjarlægra skattaeyja sinna. Fólkið sem taldi að á þessum tímapunkti hefði verið albest að láta Glitni hafa rúmar 80 000 milljónir af framtíðarskattfé okkar til meðhöndlunar. Svona fór nú hatrið á Davíð og ástin á Jóni Ásgeir með marga. Og gerir enn....

Það er í raun geggjað að hugsa til þess að liðið sem átti og rak bankana skuli hafa komist upp með að kenna einhverjum öðrum um en sjálfum sér. það hefur þeim tekst að miklu leyti. Seðlabankastjórar fjúka og stjórnmálamenn týna líka töluna einn af öðrum. Einfaldir einstaklingar halda sig vera í rétti til að grýta hús allra nema þeirra sem stálu af þeim
kaupmættinum.

Ég er auðvitað ekki hagfræðingur né bankasérfræðingur hvað sem það nú er og get þess vegna ekki fullyrt að ekki hefði verið hægt að halda lífi í bönkunum í nokkrar vikur í viðbót. En ég get alls ekki varist þeirri hugusn að treysta því ekki að eigendur og stjórnendur gömlu bankanna hefðu farið vel og eðlilega með lánsfé frá seðlabankanum okkar.

Þeir virðast hafa talið að allt það fé sem kæmist í þeirra hendur væri til þess best fallið að enda í þeirra eigin fyrirtækjum. Kannski var þetta ein af ástæðunum fyrir því að seðlabankinn ákvað að láta til skarar skríða.

Eða jafnvel einhverjar enn betri sem fyrrverandi viðskiptaráðherra getur nú talað um. Nú eru það fleiri en bara Davíð sem hafa fengið málfrelsið. það er óneitanlega gaman að sjá Björgvin reyna að verja ákvarðanir seðlabankans og ríkisstjórnarinnar þó seint sé.

Hann hefði væntanlega verið bannfærður ævina á enda ef hann hefði opnað munninn áður en Davíð var burtrekinn. Betra er þó seint en aldrei.

Röggi.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Hvað sagði Davíð?

það má nánast heyra saumnál detta þennan morgun á bloggi okkar eyjufólks. Fólk sem hefur hamast á Davíð, sumt árum saman, virðist ekki vera búið að melta það sem hann var að segja í gær. Ég held að margir trúi því sem hann sagði. Ekkert af þvi sem hann hafði fram að færa var hrakið af spyrlinum sem virtist þegar leið á viðtalið vera meira og minna grunlaus og úti á þekju. Er nema von?

Hann var knúinn af umræðu síðustu missera og ekki síst síðustu mánaða. Þeir sem hafa masterað áróðurinn gegn persónunni Davíð hafa verið þeir sem áttu mest undir því að athyglin beindist ekki að þeim sjálfum. Nefnilega eigendur bankanna og fjölmiðlanna með fulltingi Samfylkingarinnar. Mánuðum saman hefur fjömiðlum í eigu Jóns Ásgeirs verið beitt alveg grímulaust. Reynir Traustason er niðurgreiddur hvern einasta útgáfudag DV með lánsfé frá okkur sjálfum sem við þurfum svo væntanlega að borga.

Hvað sagði Davíð? Hann fullyrti að bankinn hefði gert rétt allan tímann og komið upplýsingum til stjórnvalda. Þetta hlýtur að verða kannað enda alveg örugglega hægur vandi sé til þess pólitískur vilji. Stjörnvöld hafi svo verið blekkt út í eitt af lýðnum sem átti bankana. Allt þetta verður að skoða af sanngirni og heiðarleika.

Fái Samfylkingin og auðmenn endalaust að drepa málinu á dreif með einelti gegn Davíð er hreint ekki víst að það takist. Merkilegt hvað hagsmunir Baugs og miðla þeirra smellpassa alltaf við málflutning Samfylkingar þegar kemur að umfjöllun um seðlabankann.

Vonandi opnast augu fólks eftir þetta viðtal. Opnast fyrir því að hagsmunir þeirra sem gagnrýna seðlabankann eru kannski annarlegir. Eru eigendur gömlu bankanna trúverðugir í sinum málflutningi spyr ég? Er það fólkið sem viljum láta segja okkur hverjir eru sekir og hverjir ekki?

það er liðið sem keyrði okkur í kaf. Sveik og blekkti árum saman á meðan þjóðinni var haldið í því að hamast á einum af þeim sem reyndi að benda á skömmina. Liðið sem þvældi ýmist óhæfum stjórnmálamönnum eða hreinlega svikulum til og frá. Trúin á illsku Davíðs svo mikil að enginn tók mark á neinu sem þaðan kom.

Er ekki komið að þeim tímapunkti nú að við snúum okkur að því sem er og hefur verið raunverulegt vandamál. Sem er hegðun og framkoma eigenda banka og fjölmiðla hér síðustu árin. Svo geta þeir sem ekki eru alveg blindir velt því fyrir sér í rólegheitum hverjir veðjuðu á réttan hest í þessu og hverjir rangan.

Mig grunar sterklega að sumir hvíði nú meir en nokkru sinni fyrr þeirri naflaskoðun sem hlýtur að fara hér fram þegar eineltinu gegn Davíð lýkur.

Röggi.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Össur ruglar....

Félagi Össur heldur áfram að vera skemmtilegur mjög. Og taktískur reynir hann líka að vera. Bæði hann og Jóhanna reyna nú að koma því á Sjálfstæðisflokkinn að ekki tekst að koma frumvarpinu um seðlabankann í gegnum viðskiptanefnd.

Á meðan Össur telur ekkert óeðlilegt við að Höskuldur stöðvi afgreiðslu málsins skammast hann í Sjálfstæðsiflokknum. Þarna er reynt við nýtt Evrópumet þvættingi. Þetta frumvarp er ráðherra frumvarp og komist það ekki í gegn þá hefur það bara ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera. Nákvæmlega ekkert.

En félagi Össur sér ekkert betra í stöðunni en að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn þegar hann í raun langar mest að kaghýða Höskuld. Svona getur þetta nú verið. Og bætir því svo við að hann viti til þess að margir Sjálfstæðismenn vilji breytingar á yfirstjórn bankans.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að venjulegt fólk skilji svona málflutning? Væri ekki upplagt fyrir Samfylkinguna að fara að snúa sér að alvöru málum því af þeim er nóg. Málefnafátæktin er svo gríðarleg. Ekkert er í pípunum...

Nema lýðskrumið eitt.

Röggi.

mánudagur, 23. febrúar 2009

Stjórnin á bláþræði.

Þeir verða varla margir dagarnir enn í lífi þessarar ríkisstjórnar sem nú situr. Þreytan nú þegar orðin yfirþyrmandi og samstarfið við Framsókn lamað. Þriggja flokka stjórnir hafa aldrei virkað og það breytist ekki þó einn flokkurinn vilji ekki hafa nein ráðuneyti.

Framsókn hefur lært það á undraskömmum tíma að Samfylkingu er ekki treystandi. Myndun þessarar stjórnar var auðvitað ekkert annað en fersk byrjun á kosningabaráttu flokks sem var kominn í gersamlega vonlausa stöðu.

Mig grunar að reynslulaus forysta Framsóknar hafi lengi vel trúað því að hún væri að fara í alvöru vinnu okkur öllum til heilla. Það hefur reynst misskilningur og nú situr flokkurinn pikkfastur í gildrunni og getur illa búið sér til vinningsstöðu.

Heppni Samfylkingar ríður ekki við einteyming því Framsókn fór fram á að frumvarp um seðlabankann yrði vel og faglega unnið. Eins og allir vita snýst hamingja okkar nú um að koma Davíð út úr bankanum hvað sem það kostar og annað skiptir minna máli. Þetta er hiklaust túlkað á versta veg fyrir Framsókn og þeir sem ganga lengst tala um að flokkurinn sé að slá skjaldborg um Davíð. Klækjameistarar flokksins hefðu ekki smíðað betri atburðarás.

Uppgjöfin er alger og bjargráðin stóru hvergi sjáanleg og því kannski bara sniðugt að nota seðlabankatylliástæðuna aftur og vona að þjóðin gleypi hrátt eins og síðast. það væri magnað afrek hjá Samfylkingu að gefast upp á samstarfi við alla flokka landsins á nokkrum vikum.

Núna sitja menn sveittir við að finna trúverðuga leið út úr þessu ónýta samtarfi sem virðist ekki snúast um neitt nema seðlabankann. Á meðan Róm brennur og lausnir til handa heimilum og vinnstöðum sem okkur var lofað finnast ekki dunda vinstri flokkarnir sér við að kreista síðustu atkvæðin út úr andúðinni á Davíð.

það kann að vera skemmtileg vinna en skilar þjóðinni akkúrat engu núna. Þess vegna sitja færustu menn vinstri flokkanna nú næturlangt við og leita hentugra leiða til að hætta þessu samstarfi með sem minnstum tilkostnaði. Ég spái því að þeirri vinnu sé að ljúka...

Röggi.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Fréttamat stöðvar 2.

það er kannski að æra óstöðugan að vera að skrifa einn ganginn enn um fréttastofu Óskars Hrafns á stöð 2. Læt sama slag standa. Fréttamat Óskars kom berlega í ljós í gærkvöldi. Þá var það það fyrsta og stærsta sem honum datt í hug að skipti þjóðina máli núna, fíkniefnakaup tónlistarmanns sem er hvorki ákærður né dæmdur. Ársgömul "fréttin" tók öllum öðrum fram í gær.

Ætlast Ari Edwald til þess að þessi fréttastofa verði tekin alvarlega eða er hann bara að höfða til þeirra sem lesa DV og þess háttar fjölmiðla? Vissulega er hægt að ná upp einhverju áhorfi á svona gula fréttastofu en vægið verður ekkert. Eltingarleikir um allan bæ á eftir mönnum, bankandi upp á um miðja nótt þegar menn eru á leið í frí. Og nú þetta. Hvernig væri að fréttastjórinn setti skurk í að elta vinnuveitanda sinn uppi? það er maður sem þjóðin á brýnt erindi við.

Lengi hefur stöð 2 talið fréttastofuna vera sitt flaggskip og viljað byggja upp traust og trúverðugleika. Fréttastofu sem mark væri takandi á og gerði sig gildandi í þjóðfélagsumræðunni. Með ráðningu Óskars var eiginlega gefist upp á því og allt lagt upp úr mældu áhorfi sama hvernig það áhorf er fengið. Sorglegt hversu fátæklega við búum að fréttastjórum á þessu landi.

Nú er búið að færa drulluköku fréttamennsku eins og DV stundar í sjónvarpið og við getum átt von á því að fréttir af einkahögum og persónulegum vandræðum manna muni verða í öndvegi. Þetta gerir vissulega eitthvað fyrir gægjuþörf sumra en það gerir ekki mikið fyrir fréttastofu stöðvar 2.

Sem mun með sama áframhaldi síga neðar í lágkúruna en dæmi eru um áður. Var það þetta sem Ari Edwald var að sækjast eftir?

Röggi.

mánudagur, 16. febrúar 2009

Ráðherraábyrgð Jóhönnu.

það er að sönnu vandlifað. Jóhanna Sigurðardóttir sýndist mér vera í talsverðum vandræðum með Helga Seljan fréttamann í sjónvarpinu mínu í kvöld. Hann var nefnilega að ræða við hana dóm héraðsdóms um að forsætisráðherra hafi brotið stjórnsýslulög.

Jóhanna var þurr í munni og vandræðaleg þegar hún reyndi að sannfæra fréttamanninn um að málsbætur hennar væru bara svo góðar að niðurstaða dómsins skiptu í raun ekki máli. Lögfræði er að vísu skrýtin skepna stundum en ekki fengi Jóhanna meistararéttindi út á þessa röksemdafærslu.

Hún taldi málið snúast um eitthvað allt annað en það snýst um. Jóhanna hafði sem betur fer fullt leyfi til að losa sig við manninn sem hún losaði sig við og skipa sinn trúnaðarmann í staðinn, það er óumdeilt og eðlilegt. Og dómurinn hafði í engu áhuga á því hvort kröfur mannsins við brottvikninguna voru réttlátar eður ei. Jóhanna braut stjórnsýslulög vegna þeirrar aðferðar sem hún notaði. Þannig liggur í þessu máli. Allar málalengingar og útúrsnúningar þrautreynds stjórnmálamannsins Jóhönnu munu ekki breyta þeirri staðreynd.

Hún unir dómnum og áfrýjar ekki. Hvað þýðir það? Segist ósammála dómnum en gerir ekkert með það. Hvurslags málatilbúnaður er þetta hjá ráðherranum? Hún hefur sjálf sagt að svona dómar myndu víða knýja menn til afsagnar. Konan hefur sjálf staglast á því að hún hafi sérstakan áhuga á löggjöf um ráðherraábyrgð.

Í því ljósi eru svör forsætisráherra nú hreinlega út í hött og engu máli skiptir þó hún reyni að draga aðra með sér til ábyrgðar. Ábyrgðin er hennar eingöngu og nú verður gaman að fylgjast hvernig hún mun axla hana og hvernig hún skilur hugtakið ráðherraábyrgð.

Ef hún gerir ekkert annað en að snúa út úr fyrir fréttamanni er ég ansi hræddur um að hún ætti hið minnsta ekki að vera flutningsmaður frumvarps um ráðherraábyrgð.

Kannski eru stjórnsýslulögin bara til óþurftar. Er ekki bara miklu betra að ráðherrar hverju sinni meti það sjálfir hvort um eðlilega stjórnsýslu er að ræða? Jóhanna hefur gert sjálfa sig vanhæfa í umræðu um bætt siðferði stjórnmálamanna. Tónninn verður holur hér eftir...

Röggi.

föstudagur, 13. febrúar 2009

Nú þarf frið um seðlabankann.

Ég er bara þannig gerður að þola illa ofbeldi jafnvel þó það klæðist góðum málsstað blönduðum saman við pólitík. Ekki veit ég hvaðan fólkið sem nú hamast fyrir utan seðlabankann fékk umboð til þess að ákveða hver fer þar inn eða út. Forsprakkinn birtist svo eins og barn í kúrekaleik og segist ætla að koma í veg fyrir að seðlabankastjóri komist til vinnu. Hreinlega hlægilegur skilningur á lýðræðishugtakinu.

Það er í þessu andrúmslofti sem Davíð vill ekki hætta, held ég. Eftir margra ára einelti af hendi viðskiptamanna, fjölmiðla og pólitískra andstæðinga þar sem honum var kennt um allt og ekkert, hefur hann líklega orðið ónæmur fyrir gagnrýni sem sett er fram í pólitiskum tilgangi fyrst og síðast.

Kannski getur hann heldur ekki sætt sig við að Samfylkingin og viðskiptamógúlarnir skuli komast upp með að kenna honum um ófarir okkar. Ég hef mikla samúð með þeim tilfinningum enda sjá þeir sem vilja og geta að Davíð tók stöðu réttu megin við víglínuna.

það sem skiptir þó mestu í núinu er að seðlabankastjóri getur ekki staðið í deilum við ríkisstjórn hver sem hún er og hversu mjög sem hún reynist bæði ósanngjörn og vanhæf. Núna er skynsamlegt fyrir Davíð að taka afstöðu með seðlabankanum sem stofnun. Átök verður að heyja utan bankans.

Hann er vandrataður vegurinn sem á að varða sjálfstæði bankans. Þreklitlir stjórnmálamenn og smáir geta ekki staðið uppréttir ef fjölmiðlar ákveða að taka menn niður eins og kjölturakkinn á DV orðaði það. Ég efast um að hægt sé tryggja sjálfstæði þessa banka í því umhverfi sem hér er nú. Stjórnmálamenn í dag virðast stjórnast algerlega af því sem til vinsælda virðist fallið og ég er varla einn um að hafa áhyggjur af tilhneiginu vinstri flokkanna til þess að vasast í bönkunum núna.

Trúverðugleiki bankans og starfsfriður er það sem skiptir mestu núna. Skítalyktina af eineltinu gegn Davíð leggur hátt til himins en það er morgundagsins að draga menn til ábyrgðar í því efni

Sagan mun fara fögrum orðum um Davíð enda yfirburðamaður þó ekki sé hann gallalaus umfram aðra menn. Staðfesta var alltaf hans styrkur en í þessu stríði er enginn sigurvegari. Andstæðingar Daviðs hafa fyrir löngu sýnt og sannað að þeir kunna hvorki að velja sér andstæðinga né skjólstæðinga.

Röggi.

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Hvað er að vera óstjórntækur?

það fór þó aldrei svo að félagi Össur rumskaði ekki. Hann hefur verið upptekinn við oliuborun og mjúk mál allt frá þvi að kreppan skall á. Allir draumar hans um leiðtogastöðu flokksins nú fyrir bí enda ekkert gaman lengur. Hann er oft klókur hann Össur en kann ekki vel að dylja það þegar honum lýst ekki á blikuna.


Samfylkingin er auðvitað algerlega að fara á límingum vegna þess að enginn vill fylgja flokknum blint í faðm ESB. Skoðanakannanir sýna mjög minnkandi fylgi við það bandalag og ef það gengur eftir er orðið ansi þungt loftið í flokknum.

Þetta veit kammerat Össur og nú skal reynt að koma ESB á dagskrá enda getur flokkurinn ekki skipt um þann hest í miðri á þó margur klárinn hafi snarsnúist á vaðinu hjá þeim flokki. Össur veit að sókn er besta vörnin og ræðst á Sjálfstæðisflokkinn.

Sem hann telur ekki stjórntækan vegna illdeilna innanborðs um ESB. Hann þekkir auðvitað óstjórntæka flokka þegar hann sér þá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé óstjórntækur vegna þess að þar eru skiptar skoðanir um ESB er hlægileg niðurstaða.

Samfylkingin er að sjálfsögðu stjórntæk einkum og sér í lagi vegna þess að hún er tilbúin í hvað sem er til að geta setið í stjórn. Ef sá flokkur réði myndum við flytja alla okkar starfsemi til Brussel. Allt starf flokksins og markaðssetning hefur miðast við eitt og aðeins eitt. Inngönguna í ESB.

Bakbeinið og séreinkennið í starfi og stefnu VG hefur á hinn bóginn verið einörð andstaða við þessa sömu inngöngu. Að vísu hefur mjög eindregin andstaða þess flokks við IMF tekið á sig nýjar og frumlegar myndir eftir að ylvogir ráðherrastólarnir fengust svo ekki er alveg víst að andstaðan við ESB haldi ef stólarnir reynast góðir. Sennilega misskilningur allt saman.

Þessir tveir flokkar eru þá það sem félagi Össur myndi kalla, stjórntækir. Líklega vegna hæfileika þeirra til að hafa bara þá skoðun sem dugar til að komast í stjórn.

það er einhver hroka tónn í því að halda því fram að flokkur sem ekki hefur nákvæmlega sömu afstöðu og hentar Samfylkingunni sé óstjórntækur af þeim ástæðum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega stefnu í málinu og ekkert í þeirri stefnu gerir hann óstjórntækan. Ekki frekar en VG sem hefur mjög ákveðna skoðun á ESB.

Taugaveiklun Samfylkingar er öllum ljós. Birtingarmyndin eru ræður eins og sú sem Össur flutti í dag þar sem virðingarleysi fyrir skoðunum annarra er undirtónninn. Sjálfstæðismenn létu það viðgangast í stjórn með Samfylkingu að ráðherrar röfluðu um hluti sem samið var um að ekki væru á stefnuskrá.

Þannig fólk er samkvæmt mínum skilningi varla stjórntækt. það að hafa ekki sömu skoðanir og aðrir flokkar er nú bara það sem skilur flokka að. Og að halda sig við það sem ákveðið hefur verið af stofnunum flokks er alveg fullkomlega eðlilegt.

Félagi Össur er skemmtilegur maður frá náttúrunnar hendi. Það er árátta hans til að stunda klækjastjórnmál sem hafa komið honum í þá stöðu að njóta ekki allra þeirra kosta sem hann er búinn.

Sem er synd því á góðum degi er hann vel stjórntækur.

Röggi.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Vanhæf ríkisstjórn.

Sem betur fer er nýju ríkisstjórninni ekki ætlaður langur líftími. Flumbrugangur og tilviljanakennd ummæli og aðgerðir eru nánast daglegt brauð.

Stóryrt stjórnarandstaðan innblásin af mótmælum situr nú í stjórn til hálfs og rúmlega það og vinnur verkin sem aðrir voru búnir að skipuleggja og ákveða. Steingrímur mun ekki i annan tíma hafa þurft að kokgleypa gífuryrði sín eins og núna og boðar svo fagnaðarerindið af miklum móð. Reykás lifir. Kolbrúnu þurfti að snupra fyrir hádegi fyrsta vinnudags og síðan hefur ekki til hennar spurst sem betur fer.

Steingrímur hefur sig allan við að lágmarka skaðann af ummælum Jóhönnu sem með blaðri sínu tókst að losa sig við formenn bankaráða tveggja banka. Hann hefur beðið þá að hætta við að hætta svo hann geti rekið þá í apríl. Þetta er akkúrat það sem við þurfum núna.

Vanhæf Samfylkingin reynir allt hvað af tekur að láta lítið fyrir sér fara. Össur kemur ekki nálægt neinu sem ekki er líklegt til að verða vinsælt. Aumingja Jóhanna situr upp með stjórnina og er greinilega ráðvillt en hún hefði þó mátt vita að svigrúmið sem stjórnarandstaðan og mótmælendur sáu í hverju horni er ekki til staðar.

Hvaða umboð hefur þessi minnihlutastjórn til 80 daga til að fara um og reka mann og annan? Ég hélt að þetta fólk hefði sest í stjórn til að redda atvinnulífi og heimilum. Umboðið yrði svo sótt í kosningum.

Framsóknarflokkurinn nagar sig upp að öxlum af eftirsjá enda augljóst að þar á bæ erum menn að jafnaði óánægðir með allt sem frá flokkunum tveimur kemur. Verður gaman að fylgjast með þegar Framsókn fer að sverja krógann af sér fyrir kosningar.

Við vinnum okkur ekki út úr vandanum með töfrabrögðum. Tími töfrabragðana er vonandi liðinn. Það voru nefnilega töfrabrögð sem komu okkur á kaldan klaka. Ekki dugir að halda blaðamannafundi vikulega til að kynna áform fyrri ríkisstjórnar.

Ég vill vita hvenær von er á bjargráðunum sem lofað var. Aðgerðir í stað aðgerðaleysis. Ákvarðanir en ekki ákvarðanafælni. Ykkar timi er kominn. Ekki er eftir neinu að bíða.

Röggi.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Ætlaði Jóhanna ekki að reka manninn?

Hvurslags rugl er á Jóhönnu forsætisráðherra? Ætlaði hún ekki að reka Davíð úr bankanum? Nú læðist hún um eins og kéttlingur og sendir bréf og fer fram á að hann reki sig sjálfur. Meðferð hennar á þessu máli er í hlægileg.

Þetta er allt leikur. Hún er að reyna að mjólka vinsældir út á óvinsældir Davíðs hjá hennar fólki. Þetta getur snúist í höndum hennar nema hún hysji upp um sig.

Stjórnin sem nú situr lofaði mörgu en fátt var eins naglfast og að reka Davíð. Ekkert mál er að reka stjórnir lánasjóða og skipta út ráðuneytisstjórum en nú er hik. Hvernig má það vera?

Hefur Davíð kannski helling til síns máls? Ég hef margsagt það að þróttlitlir stjórnmálamenn og auðjöfrar hafa notið þess lengi að hafa Davíð óvinsælan í bankanum. Kannski hentar bara ekki lengur að reka hann.

Er ekki bara betra að hafa hann þarna til þess að athyglin beinist ekki að því sem skiptir máli. Á meðan mótmælasveitir vinstri manna eru að lemja potta og pönnur eru slappir fjölmiðlar ekki að fjalla um alvörumál.

Sem eru lausnirnar góðu á vandamálum heimila og atvinnulífs. Lausnirnar sem okkur var lofað að væru til en fyrri stjórn gat ekki komið auga á. Þess vegna er bara gott að hafa Davíð í bankanum og halda áfram að ala á óánægju með hans störf.

Svo enginn nenni að hugsa um störf stjórnmálmannana sjálfra.

Röggi.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Staða Samfylkingarinnar.

Er að hugsa um Samfylkinguna. Nú verður almennilega áhugavert að sjá hvert hún stefnir á næstu vikum. Ánægjan sem hríslaðist um Samfylkingarfólk þegar Sjálfstæðisflokknum var bolað burt úr ríkisstjórn mun að ég held gleymast fljótt.

Formaður flokksins er veikur og það í mörgum skilningi og eitt og annað bendir til þess að gamlir andstæðingar innan dyra geti vel hugsað sér stólinn. Innanflokkserjur eru ekki alveg óþekktar í þessum félagsskap.

Samfylkingin hefur eiginlega byggt alla sína tilveru á einum hlut. Inngöngunni í ESB. Öll umræða um efnahagsmál hvort sem rætt hefur verið um orsök eða afleiðingu krísunnar hefur verið afgreidd á einn veg. ESB hefði reddað okkur og mun gera það ef við bara drífum okkur í sæluna.

þetta hefur verið rauði þráðurinn í öllu sem frá flokknum hefur komið. Nú situr Samfylking pikkföst í stjórn með VG sem gerir litið annað en að ögra með daðri við norska olíukrónu. Verður áhugavert ef Steingrími tekst nú að koma á myntsamstarfi við flokksystur sína frá Noregi til þess eins að láta Samfylkinguna hafna því.

Vel getur verið að VG láti líta út fyrir að þeir geti samþykkt ákvæði um atkvæðagreiðslur en ekki er séns að þeir muni gera neitt annð en að berjast með kjafti og klóm gegn ESB þegar á hólminn er komið.

Margt bendir svo til að þeim sé að vaxa verulega fiskur um hrygg sem vilja láta sverfa til stáls gegn ESB og kröfum þeirra og annarra um að við borgum skuldir óreiðumanna erlendis eins og maðurinn sagði. Andstaðan við inngöngu mælist nú talsvert meiri en fyrir nokkrum vikum síðan og er barátta þeirra sem ekki vilja inn þó ekki hafin.

Samfylking getur varla annað en tekið slaginn þó hún hafi ítrekað sýnt nokkra aðlögunarhæfni þegar hentugt er að skipta um skoðanir. Fyrir örfáum vikum virtist flokkurinn vera með gjörunna stöðu enda var þjóðin tilbúin að gleypa ESB hrátt og án athugasemda. Nú gæti mómentið verið að snúast.

Ef flokkurinn sleppur við innri átök í ætt við þá klæki sem hann sýnir öðrum og ef andstaðan við ESB eykst ekki getur þetta orðið gott vor fyrir Samfylkinguna.

Eða alvont vor sem markast af þeirri taugaveiklun og stjórnleysi sem einkenndi flokkinn þegar hann sprengdi síðust stjórn. Væntingar flokksins eru án efa mjög miklar og allt annað en mjög góð kosning með umboði til inngöngu í ESB munu verða vonbrigði. Að ég tali nú ekki um ráðherrastólana....

Eins og staðan er í dag getur brugðið til beggja vona fyrir þennan flokk sem stundum virðist ekki vita hvort hann á að sitja eða standa fyrr en einhver hefur gáð til veðurs.

Röggi.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Nú, er Jón Ásgeir ekki góði kallinn?

Velti því fyrir mér hvað hefur eiginlega breyst. Skrýtið hvernig almenningsálitið getur snúist snögglega. Núna finnst flestum sem Jón Ásgeir sé orðinn snarruglaður að kenna Davíð um fall sitt. Samt hefur hann árum saman notað þetta trix á þjóð sína og hún kokgleypt bullið.

Snilldin hjá Jóni Ásgeir var að fá heilan stjórnmálaflokk til að búa til pólitískt skjól fyrir sig. Hann og lögfræðingahjörð hans tóku ræðu Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi fagnandi. Í því skjóli og skjóli fjölmiðla sinna sem ekki mátti hreyfa við heldur af sömu handónýtu pólitísku ástæðum hóf hann að blóðmjólka þjóðina í fullkomnum friði.

Þeir sem reyndu að benda á hvernig viðskipti hann stundar voru umsvifalaust stimplaðir Davíðsmenn en það var og hefur verið skammaryrði lengi. Gagnrýni á viðskipti þessa manns snérist aldrei um stjórnmál enda Jón Ásgeir ekki pólitíkus. Vörn hans árum saman var hins vegar pólitísk og það hentaði sumum flokkum betur en öðrum og því var dansað með og ekki hirt um kostnaðinn.

Tjaldið er fallið loksins og stórskuldug þjóðin er að vakna. En hún vaknaði ekki fyrr en allt var farið til fjandans. Ekkert hefur nefnilega breyst. Jón Ásgeir stundar sin viðskipti eins núna og alla tíð. Á meðan þjóðinni var haldið upptekinni í því að hata einn af örfáum sem reyndu að benda á hvernig viðskipti væru stunduð hér tóku nokkrir menn sig til og stálu þjóðarauðnum og við borgum brúsann.

Siðleysið er svo greypt í merg og bein þessara manna að engu tali tekur. Þjóðin þarf sárlega á þvi að halda að koma bankakerfinu í stand. Það verður ekki gert nema að uppgjör geti farið fram. Að menn átti sig á hverjar skuldir eru og eignir. Núna þegar bankamenn og sérfræðingar ætla að fara í þá vinnu bregst þessi maður við því að væla um að hann tapi peningum.

það erum við sem erum að tapa peningum af því að hann getur ekki borgað það sem hann skuldar bönkunum. Flóknara er það nú ekki. Hvert mannsbarn skilur þetta held ég bara. Loksins er eins og menn geti leyft sér að sjá það sem hefur blasað við alla tíð.

Af hverju er það?

Röggi.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Fjölmiðlar i silkihönskum.

Það mætti halda að sú ríkisstjórn sem nú situr snúist eingöngu um að reka Davíð Oddson. Hann er fyrsta mál á dagskrá á fundum og oft það síðasta líka. Hundslappir fjölmiðlamenn eyða löngum tíma í spurningar eins og þær hvort embættismenn ætli að fá umsamin laun greidd. Algert aukaatriði.

þetta er orðinn hreinn farsi og populismi. Þjóðinni hefur verið talin trú um að seðlabankinn sé upphaf og endir alls hér. það hentar auðvitað ónýtum stjórnmálamönnum. Ekki síst fólki sem hefur mátt heyra það undanfarnar vikur að það sé vanhæft. Hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar fara svo mjúkum höndum um Samfylkinguna eins og raun ber vitni?

Eða VG með Steingrím í broddi fylkingar. Hann er búinn að mala vikum saman um að aðgerða og úrræðaleysi hafi einkennt síðustu ríkisstjórn en hefur svo ekkert fram að færa sem ekki var þegar í vinnslu. Dómsdagsþvaður hans um IMF vikum saman er nú gleymt.

Vissulega er gott að að koma með tillögur um siðferði og ábyrgð. Almennt held ég að ekki nokkur maður geti sett sig upp á móti mörgu af því sem þetta fólk hefur sett á blað. Það eru hlutirnir sem ekki eru á blaði sem vekja furðu.

Vaxtalækkanir og að koma bönkunum í starfhæft ástand eru helst nefnd. Það er nú þannig að vaxtalækkanir voru á dagskrá síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við IMF og því beinlínis magnað að heyra Steingrím muldra um að hann ætli að setjast niður með sjóðnum til að semja um þær. Ef áætlanirnar sem voru gerðar við hávær mótmæli VG ganga eftir verða vextir hér orðnir lágir í árslok og verðbólga er nú þegar á hröðu undanhaldi.

Mér sýnist úrræðaleysi annars vegar VG og hinnar vanæfu Samfylkingar í efnahagsmálum vera augljóst. Sjálfstæðismenn eru nú að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun sem dagaði uppi í þingflokki Samfylkingar sem ekki mátti vera að því að klára málið enda menn þar uppteknir í öðru.

það hlýtur að renna í gegn enda voru ráðherrar Samfylkingar búnir að samþykkja það. Ekki veit ég hvað þetta fólk ætlar að taka sér fyrir hendur þegar Davíð verður farinn úr bankanum. Þá fara fjölmiðlar kannski að beina sjónum að því sem skiptir máli.

Sem er efnahagsmál og lausnirnar sem þetta fólk hafði fyrir hálfum mánuði en eru nú ekki annað en að halda því áfram sem verið var að gera.

Röggi.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Upphaf kosingabaráttunnar.

Þá er ný stjórn tekin við. Verkefnaskráin er áhugaverð. Fullt af góðum hlutum sem hægt er að kvitta undir þar en eins og við mátti búast er kannski merkilegast hvað ekki er á dagskrá. Töfralausnirnar til bjargar heimilum og atvinnulífi. Nú heitir það að leitast við þetta og hitt. ESB er ekki til umræðu heldur. Enda kannski bara eðlilegt að vera ekki að láta ágreiningsmál þvælast fyrir. Myndun þessarar ríkisstjórnar er kannski ekki annað en sniðug byrjun á kosningabaráttu.

Mig grunar að bæði VG og Framsókn séu búin að átta sig á að það voru mistök að leysa Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk undan samstarfinu. Ég held að stjórnarandstaðan hafi trúað eigin orðum um að hægt væri að gera svo mikið betur en fyrri stjórn reyndi að gera. Ef eitthvað er að marka verkefnalistann góða er ljóst að Samfylkingin hefur gert mönnum ljóst að svo er ekki. Svigrúmið er og var verulega takmarkað. Fyrri stjórn var líka að leitast við að lækka vexti og bæta kjör.

Við verðum að vona að nú bretti þetta góða fólk upp ermar og láti verkin tala því trúin á Jóhönnu er sterk. Hún hefur þó sagt að tíminn sé naumur. Sæludagar stjórnarandstöðunnar eru á enda.

Rúmir 80 dagar eru líftíminn. Ég held að þeir dagar verði mun færri því flokkarnir þrír munu fyrr en seinna hefja slaginn um atkvæðin. VG mun þurfa að skerpa á ESB andstöðunni því við lestur verkefnalistans má sjá að ekki náðist neitt samkomulag þar. Samfylking mun að sama skapi þurfa að fara hina leiðina. Ekki gleyma því að ESB er svo miklvægt fyrir Samfylkinguna að hún hótaði Sjálfstæðisflokknum bannfæringu ef hann beygði ekki af snarlega og gengi sæluveginn inn í ESB.

Enduskoðun stjórnarskrárinnar er þjóðþrifamál. Stjórnlagaþing gæti verið málið og að fá sérfræðinga til umræðunnar. Þetta hljómar ekki alvitlaust en í því ljósi kemur á óvart að hin nýja stjórn þarf ekki að bíða eftir því þingi.

VG hefur að mestu hætt að úthúða IMF stofnuninni enda taktlaust að slá á einu hjálparhöndina sem í boði er, allavega á meðan setið er í stjórn. Fullkomlega er vonlaust að VG og Samfylking geti unnið saman til langs tíma eftir kosningar. Það held ég að forystumönnum þessara flokka hafi orðið ljóst nú undanfarna daga og því finnst mér líklegt að kosningabaráttan verði undarleg þetta vorið.

Framsókn ætlaði að safna prikum með því að verja stjórnina falli en stóðst ekki mátið og ber núna 100% ábyrgð á rekstri þessarar stjórnar. Vikulegir leyfisfundir þar sem Jóhanna og Steingrímur biðja um leyfi til að gera þetta eða hitt. Þetta er klaufaskapur hjá Framsókn sem hefur haft góð spil á hendi en leggur nú allt undir að óþörfu. Samfylking mun svo launa flokknum greiðan með því að reyna enn einu sinni að ganga milli bols og höfuðs á þeim því atkvæðin hafa verið að skila sér heim til Framsóknar aftur. Atkvæði sem Samfylking fékk þegar hún sótti inn á miðjuna. það var í þá daga að veiðileyfið á Framsókn var að fullu nýtt. Eitthvað verður flóknara núna að hefja veiðarnar. Til að bæta gráu ofan á svart rauk svo nýji formaðurinn til og færði flokkinn til vinstri svo nú verður enn þrengra þar.

Mér sýnist flest benda til þess að nú stefni í langvarandi ófrið og óróa á pólitíska sviðinu. Talað er um sveiflu til vinstri en geta flokkarnir til vinstri sameinast um það sem skiptir máli? Stóru málefni dagsins eru bara sett á hold þangað til búið er að telja upp úr kjörkössum.

Að aflokinni kosningabaráttu sem hófst með myndun þessarar ríkisstjórnar.

Röggi.