þriðjudagur, 16. október 2012

Ofbeldi umræðunnar og stjórnarskrá

Okkur verður tíðrætt um umræðuhefðina. Þeir sem best bjóða í þeim efnum taka gjarnan stjórnmálastéttina sem dæmi um það hversu lágu plani sú umræða getur náð. 

Vissulega eru umræður á þingi of oft léttavarningur með ófullnægjandi innihaldslýsingum. Kannski þarf að taka tillit til þess að það alþingi sem við kusum síðast var ungt mælt í reynslu en hefur fengið að fást við sum erfiðustu mál sögunnar. 

Auk þess sem flokkar ýmsir hafa verið upp í loft meira og minna allt þetta kjörtímabilið og það verður vist aldrei góður heimamundur nokkrum manni í pólitík.

En hvernig skiptumst við hin á skoðunum? Hvers vegna ala sumir fjölmiðlar og netmiðlar einnig á fautaskap umræðunnar og næra þá sem mest hafa fram að færa í ofbeldiskenndu tali en minnst málefnalega?

Jón Magnússon hefur leyft sér að hafa eigin skoðanir á tillögum stjórnlagaráðs. Ekki hefur staðið á viðbrögðum hinna rétttrúuðu.

DV heldur úti netmiðli þar sem allt er leyfilegt ef ekki hreinlega æskilegt ef þeir sem skrifa og eða kommenta hafa réttar skoðanir og lumbra á fólki með óhentuga afstöðu.

Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar talar um illvilja Brynjars Nielssonar lögmanns sem ekki sér það sem hún sér. Þetta gerir Guðrún vopnuð hinni einu réttu skoðun og væntanlega með vottorð frá sjálfri sér um hlutleysi um eigin verk.

jonas.is hefur svo einn og sér orðið að kúltur hetju þeirra sem halda að nógu gildishlaðinn dónaskapur um persónur endurtekin nógu oft séu gagnleg umræða.   

Af hverju þarf sífellt að fara í manninn en ekki málefnin? Hvaða gagn gerir þannig nálgun til lengdar? 

Ofstækis og á stundum ofbeldistóninn hjá þeim sem gera lítið úr þeim sem ekki sjá hlutina "réttum" augum er sorglegur. Það er sérdeilis ómálefnalagt að tala um það þessi eða hinn sé þetta eða hitt vegna skoðana sinna en ræða ekki það sem viðkomandi hefur fram að færa.

Ekki er óeðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á þjóðfundinum, ömurlegri þátttöku í kosningum til stjórnlagaráðs, ógildingu þeirra kosninga og svo því hvernig stjórnvöld kipptu dómsvaldinu til hliðar í kjölfarið og síðast en alls ekki síst á tillögum stjórnlagaráðs.

Það er beinlínis nauðsynlegt að þeir sem ekki eru sanntrúaðir fái notið sín í umræðunni. Og að um efann fáist málefnaleg umfjöllun. Þannig og bara þannig verður unnt að ná vísi að samstöðu þjóðar um stjórnarskrá.

Samstöðu sem allir viðurkenna að er svo mikilvæg þegar um slíkt plagg er rætt. Eins og málið lítur út núna eru stuðningsmenn tillagnanna helst færir um að finna samstöðu um það sem þeim finnst rétt og gera hinum upp annarlegan tilgang. 

Í þessari baráttu er allt leyft og þeim hampað mest sem minnstu hafa úr að moða þegar þarf að skiptast á málefnalegum skotum við fólk með öndverða skoðun. Og það einmitt þegar mest liggur við að hafa þrek og styrk til þess að ræða andstæð sjónarmið án upphrópana um persónur og leikendur.

Við eigum og megum hafa okkar skoðanir. Og við verðum að þola hvort öðru það. Þeir sem halda að það að breyta stjórnarskrá sé bara enn einn slagur um það að hafa pólitíska andstæðinga undir eru á villigötum. 

Um stjórnarskrá þannig hugsandi fólks verður aldrei sátt...

Röggi