fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Verðmerkingar á matvöru

Fréttastofa rúv fjallaði í morgun um verðmerkingar í matvöruverslunum og ekki að ástæðulausu. það er nefnilega þannig að viðskiptavinir matvöruverslana þurfa að sætta sig við ótrúlegt viðskiptasiðferði. Menn hafa þurft að setja saman ný orð eins og hilluverð og kassaverð. Hvernig urðu þessi orð til?

þau urðu til vegna þess að alls ekki er víst að verðið sem þú sérð á vörunni þegar þú snarar henni í körfuna sé verðið sem þér er ætlað að borga við kassann. Hvurslags viðskipti eru það og af hverju er þetta ekki almennilega ólöglegt?

Hvernig er mögulegt fyrir okkur að gera verðsamanburð í svona umhverfi? Af hverju er þetta ekki einfaldað og ákveðið að verð að morgni sé verð að kvöldi? Verðbreytingar innan dags séu óheimilar og varði sviptingu verslunarleyfis að brjóta þær. Sektir við slíku eru hvort eð er sóttar í vasa neytenda.

Í minum huga snýst þetta system fyrst og fremst um að snúa á kúnnan en ekki að stunda samkeppni. Kúnninn á engan möguleika að á fylgjast með verðbreytingum frá degi til dags hvað þá frá einni mínútu til annarar. Verð sem verðlagseftirlitið kannar klukkan hálf fjögur getur breyst margoft til hálffimm.

Þetta er algert bull og þjónar alls ekki hagsmunum neytenda. Svona vitleysa gæti ekki viðgengist í neinum öðrum bransa en egnin takmörk virðast fyrir því hvað hægt er að bjóða okkur upp á þegar kemur að verslun með matvæli.

Röggi

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Að standa í lappir.

Í raun má segja að við búum við linnulausa stjórnarkreppu og höfum gert alveg frá upphafi búsáhaldabyltingarinnar og jafnvel fyrir hana. Þar sáum við heilan stjórnmálaflokk liðast í allskyns kvíslir stjórnlaust og þeir sem töluðu hæst. stærst og mest urðu ofan á. Stundarhagsmunir þess flokks réðu því í raun að ekki tókst að standa í lappirnar og snúa vörn í sókn.

Þessi flokkur heitir Samfylking. Enn finnr þessi flokkur sig í stjórn sem hann vill ekki vera í í dag. Hvernig stendur á þessu? Af hverju getur flokkurinn ekki unnið með öðrum?

Vissulega er flokkurinn að mestu stefnulaus ef frá eru skilin þau tvö stefnumál sem hann berst fyrir af krafti. Innganga í ESB og svo að vera í stjórn. Flokkurinn tekur svo afstöðu til annarra mála eftir hentugleika hverju sinni og svoleiðis stjórnmál eru erfið til lengdar.

Nú er það runnið upp fyrir Samfylkingunni að hann getur einna helst unnið með Sjálfstæðisflokknum. Þá vandast nú málið. Hvernig á að spinna upp þær aðstæður að sú stjórn komist á koppinn?

Össur og félagar hafa rekið höfuðið út í vindinn og finnst hann blása gegn skattahækkunum og gegn flestu því sem þessi aðgerðaleysisstjórn annað hvort gerir eða gerir ekki. Þá er komin upp þekkt staða.

Í stað þess að standa í lappir mun Samfylking reyna að finna undankomuleið þar sem samstarfsflokknum verður kennt um flest. þegar Samfylkingu þykir svo líklegast að kosningar muni vera hagstæður kostur verður látið til skarar skríða.

Samfylking er vissulega stór flokkur i þingmönnum talið en hún vissi ekki hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór og veit það ekki enn. Á meðan Samfylkingin er í þessari stöðu er allt eins líklegt að við munum búa við sífelldar stjórnarkreppur.

Röggi

föstudagur, 20. nóvember 2009

Kattarþvottur KSÍ

Ég veit ekki hvort kattarþvottur er nægilega gott orð yfir lausnina sem KSÍ fann á vandanum með kampavínsfjármálastjórann en ég nota það samt. Þetta er enginn lausn og gerir ekkert annað en að veikja stöðu formanns KSÍ sem var framkvæmdastjóri þegar ballið stóð yfir. kannski kemst KSÍ upp með þetta svona en það verður innan gæsalappa því staða KSÍ og orðspor hefur beðið hnekki sem stjórnin reynir ekki að lappa upp á.

Stuðningsaðilar stórir og smáir munu hugsa sinn gang og ekki kæmi mér á óvart að formaðurinn ætti erfitt KSÍ þing fyrir höndum næst.

Röggi

fimmtudagur, 19. nóvember 2009

Jónas og andúðin á XD

Jónas Kristjánsson er merkilegur fýr. Hann fjargviðrast yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa skoðanir á því hvernig rauða höndin fer um allt þjóðfélagið núna með skattaofbeldi þegar hið augljósa blasir við. Núna þarf að skera niður og það miklu meira en þetta fólk getur eða þorir. Jónas hefur ekki skoðanir á þeim tillögum sem flokkurinn kemur með enda er málefnaleg umræða aukaatriði þegar Jónas á í hlut.

Jónasi finnst kannski að kjósendur Sjálfstæðisflokkins eigi ekki rétt á skoðunum sínum eða tillögum. Ofstæki hans í garð Sjálfstæðisflokksins er inn í merg og bein en gleymska hans gagnvart Framsókn og Samfylkingu áunnin fötlun.

En ég er líklega að gera óraunhæfar kröfur til hans.

Röggi

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Hagavandinn

það ætlar að reynast þrautin þyngri að losa þau hreðjatök sem baugsfjölskyldan hefur. Nú er öllu tjaldað til og allir ræstir út til að verja vígið. Forstjóri Haga heldur hjartnæmar ræður um vinnuveitanda sinn og lýsir því nánast yfir að ef hann fær ekki að halda gullkálfinum sínum og beita ofurefli sínu muni matavöruverslun að likindum leggjast hér af.

Forystumenn ríkisstjórnar sem margir hafa fram til þessa haft allskonar skoðanir á afskriftum skulda eru nú skyndilega algerlega áhugalausir um slíka umræðu og telja sig ekki í stöðu til að hafa skoðanir. Hvernig stendur á því?

Vissulega er staðan snúin vegna þess að bankamenn hafa það verkefni helst að hámarka eignir versus skuldir. það er því beinlínis þeirra hagur að fyrirtæki eins og Hagar séu áfram með fáránlega markaðsstöðu og að þeir eigendur sem hafa mulið allt undir sig haldi áfram að gera það. þannig aukast líkurnar á því að meira fáist upp í skuldir.

Þær siðferðislegu spurningar sem brenna á þjóðinni vegna þessarar fjölskyldu ná ekki inn á borð bankastjóranna. Þeir eru í business og pólitíkusar geta varla ætlast til þess að þeir vinni skítverkin fyrir sig þegar kemur að því að setja og framfylgja eðlilegum leikreglum markaðarins.

Ég er einn af þeim sem vill ekki sjá pólitíkusa í bönkum en mér sýnist þó að eina leiðin til að koma í veg fyrir að þessi fjölskylda sitji áfram að skuldlausum kjötkötlum sé einmitt pólitísk inngrip því miður. Alveg afleitt staða...

... og líka vegna þess að við komumst ekki út úr vandanum nema að fella að stórum hluta niður skuldir atvinnulifsins sama hvað hver segir. Þetta held ég að margir skilji en samt er bara svo óþolandi að þessir örfáu aðilar sem settu okkur á hausinn haldi sínu striki.

Ég held að ég vilji gera undantekningar á öllum reglum til að reyna að koma í veg fyrir að það gerist,

Röggi

föstudagur, 13. nóvember 2009

ISG um Icesave

Auðvitað er Ingibjörg Sólrún óánægð með Icesave samningana. Og hún þekkir málið út í hörgul enda þetta mál á ábyrgð utanríkisráðherra flokksins í og eftir hennar tíð og auk þess hafði flokkurinn lyklavöld í ráðuneyti viðskipta.

Nú er heldur líklegt að Ingibjörg Sólrún verði bannfærð og sett í sama skammarkrók og forseti ASÍ og Mats Josefson. Þessu fólki hefur orðið það á að hafa skoðanir sem ekki passa aðgerðaleysisrikisstjórninni.

Varla er hægt að smyrja á þetta fólk annarlegum hvötum hvorki pólitískum né öðrum. Ég fylgist mað af andakt hvaða léttadrengir verða ræstir út til að reyna að setja ofan í við leiðtogann fyrrverandi.

Röggi

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Vinstridelluhagfræði

það er að gerast fyrr en ég ætlaði. Ég átti von á að menn myndu þrjóskast við í eitt til tvö ár áður en þeir viðurkenndu að það hefðu verið mistök að hleypa vinstri mönnum lausum að stjórn landsins.

Hinar hefðbundnu lausnir vinstri manna eru herfilegar í góðæri en algerlega ónýtar við þær aðstæður sem nú eru. Nú skal allt drepið niður með glórulausum skattahækkunum og fólki sagt að það sé eina leiðin. Þarna eru flokkarnir tveir að rísa undir loforðum og væntingum kjósenda sinna og...

...skattar atvinnulífið upp úr öllu svo Steingrímur og co þurfi að punga meiru fé út til atvinnulausra því þannig og aðeins þannig endar þessi hrunadans, með auknu atvinnuleysi. Svo verður fiktað í tekjuskattinum eftir áramótin. Þær eru víða matarholurnar hjá skattastjórninni góðu.

Núna þarf niðurskurð hjá hinu opinbera og svo aðeins meiri niðurskurð. Mesta skömm okkar Sjálfstæðismanna er hvernig ríkið blés út undir okkar stjórn og við verðum að hysja upp um okkur buxur þegar við komum aftur að landstjórninni næsta sumar í síðasta lagi.

Einhverjir halda að næstu kosningar muni snúast um skýrslu rannsóknarnefndar þingsins og hrunið. það held ég ekki enda er ég þess fullviss að þeir sem þar fá helst á baukinn eru ekki stjórnmálamenn heldur krimmarnir í bönkunum.

Nei. Við munum kjósa um efnhagsmál. Kjósa með buddunni sem verður galtóm eftir einn vetur af delluhagfræði vinstri manna sem ætla að nauðlenda flugvélinni í stað þess að reyna að bæta eldsneyti á mótorinn.

Þessari ríkisstjórn finnst betra að ganga milli bols og höfuðs á okkur með skattaofbeldi í stað þess að skera niður. Nú dugar ekkert hægri vinstri kjaftæði lengur því við öll eigum allt undir því að takist að vinda ofan af þessu.

það er enginn önnur ríkisstjórn að reyna þessi gömlu ónýtu trix í baráttunni. Hér segja menn að vandinn sé svo mikill að ekkert sé að marka. það eru skemmtileg öfugmæli að vandinn sé svo mikill hér að við þurfum ekki að grípa til samsvarandi aðgerða og aðrar þjóðir gera til að laga mun minni vanda sem er þó af sama toga.

Ekki dugir að senda léttadrengi í fjölmiðla til að berja á fulltrúa launþega og annarra sem sjá hvert stefnir og ekki dugir heldur að benda bara út í loftið og segja endalaust að vandann hafi annar búið til.

Lausnina hefur þessi ríkisstjórn ekki tiltæka og vonandi verður skaðinn af ranghugmyndunum ekki óbætanlegur.

Röggi

mánudagur, 9. nóvember 2009

KSÍ og siðferðið

það er þetta með siðferðið. Siðferði er skrýtin skepna sem getur verið erfitt að umgangast. Stundum gerist það að góðir menn sem mega almennt ekki vamm sitt vita "lenda" í stöðu þar sem siðferði þeirra er dregið í efa. Þá vandast nú málið....

Eða hvað? kannski er ein ástæðan fyrir því hvernig ástatt er hjá okkur sú að við erum sífellt að leita leiða til þess að koma þeim sem eru "góðir" og lenda úti á jaðri siðferðis framhjá afleiðingum þess að bregðast siðferðilega. Við viljum bara að vondu kallarnir með vonda ásetninginn fái makleg málagjöld.

Er ekki best að vera bara með eina reglu? Vissulega munu þá góðir menn og jafnvel næstum því óheppnir góðir menn komast í vanda. Allar tilraunir til að finna undantekningar á reglunni eru bara til þess fallnar að rugla systemið og brengla gildismatið.

Fjármálastjóri KSÍ notar kort sambandsins á nektarstað í vinnuferð á vegum sambandsins. Hann er "óheppinn" vegna þess að kortið er misnotað. Vissulega er það lakara en af hverju snýst umræðan um það? Hvort upphæðin sem af kortinu er dregin er 67 00 evrur eða venjulegt gjald fyrir þjónustu skiptir bara alls ekki neinu máli út frá siðferðislegum sjónarmiðum eða hvort upphæðin skilar sér til baka.

Snýst óheppni fjármálastjórans um það að vegna þess hver upphæðin var að þá komst allt upp? Þetta mál snýst um grundvallaratriði og siðferði en ekki upphæðir og svikula eigendur nektarstaða eða annarra þeirra staða sem menn kjósa að nota kort vinnuveitenda sinna í leyfisleysi.

Óheppni kemur hvergi við sögu þar og stjórn KSÍ ákvað að láta eins og siðferðið í sögunni væri aukaatriði og óheppnin aðal. Líklega vegna þess að hér er góður maður og góður fjármálastjóri sem á í hlut. Og þá vandast málið greinilega.....

Röggi

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Álfheiður og arðsemiskröfurnar.

Hver hefði trúað því þegar Álfheiður Ingadóttir stóð þrútin af stolti yfir fólkinu sem hún sagði í fullum rétti til að ryðjast með ofbeldi inn á lögreglustöð fyrir nokkrum mánuðum að hún ætti eftir að verða ráðherra nokkrum mánuðum síðan? það er auðvitað magnað en ekki bara af þeim ástæðum einum.

Hugmyndir hennar og félaga hennar í VG um þá sem stunda rekstur utan ríkis eru beinlínis fáránlegar. Í gær var hún í viðtali í tilefni þess að lífeyrissjóðir eru að fjármagna nýtt sjúkrahús. Álfheiður og hennar fólk telur algera nauðsyn að heilbrigðiskerfið sé rekið með halla og þeir sem vilja gera arðsemiskröfur sé af hinu vonda og þess vegna verði allt kerfið að vera ríkisrekið. Auk þess fullyrti konan að einkaframtakið væri dýrara en ríkis. Ekki hef ég hugmynd um hvernig hún kemst að þeirri niðurstöðu enda ekkert sem styður þessu kreddudellu.

Nú bregður svo við að lífeyrissjóðirnir gera arðsemiskröfu á sitt fé í þessari fjárfestingu en þá kemur óvænt hljóð í strokkinn og Álfheiður hefur skyndilega ekkert á móti því enda sé ekki um einkaaðila að ræða. Hverjir eru góðir og hverjir vondir í þessu spili konunar? Þarna er hún hreinlega hlægileg og ósamkvæm sjálfri sér og opinberar áunna andúð sína á einkareksri og þeim hluta atvinnulífs sem ekki er ríkisrekinn.

Þeir sem halda að við komumst út úr ógöngunum með því að við verðum öll ríkisrekin og upp á stjórnmálamenn komin eru á alvarlegurm villigötum. það er bara í grundvallaratriðum vonlaust eins og sagan kennir okkur enda stjórnmálamenn ekki best til þess fallnir að fara með peningana okkar.

Álfheiður Ingadóttir er lifandi dæmi um slík fólk.

Röggi

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Jóhannes skrifar grein

Norðlendingur ársins Jóhannes í bónus stígur fram og ritar grein í moggann úr yfirveðsettum fílabeinsturni sínum í dag. Sagan breytist aldrei þegar þessi maður opnar sig. það eru allir að leggja hann og hans fjölskyldu í einelti.

Hann talar fyrir munn starfsfólks og hefur áhyggjur af áreiti og starfsöryggi þess ef hann og hans fjölskylda fær ekki að halda áfram að lúberja á matarmarkaðnum á Íslandi. Langtímahagsmunir starfsfólksins hans og neytenda snúast reyndar um að núna takist að brjóta þetta fyrirtæki upp og stöðva einokun og ofbeldi á markaði. Jóhannes hefur önnur markmið i huga þegar hann talar niður til okkar úr turninum. Þau eru að viðhalda óbreyttri valdastöðu og losna við skuldir í leiðinni.

Jóhannes og hans fjölskylda hafa og eru að kosta okkur óhemjufé á hverjum einasta degi í formi skulda sem hann og hans fólk mun ekki ætla sér að greiða. Allt bull um Davíð í því samhengi er í besta falli broslegt og gerir ekkert fyrir afleitan málssstað hins skuldafría milljarðamærings.

Hvernig skyldi standa á því að Jóhannes og sonur hans geta allt í einu nú fundið óhemju mikið fé til að kaupa niðurgreitt stórfyrirtækið? Ekki eru margar vikur liðnar síðan að þetta sama fólk fékk stórfé lánað hjá skattgreiðendum til að kaupa þetta sama fyrirtæki af sjálfum sér til að setja á aðra kennitölu sem eru í eigu þessa sjálfs. Þetta er farsi....

Hér er verið að taka enn einn snúninginn á okkur skattgreiðendum og því miður virðist margt benda til þess að Baugsmafíunni muni takast ætlunarverk sitt vegna þess að bankastarfsemi lítur ekki siðferðilegum lögmálum og í raun sorglegt til þess að hugsa að kannski sé ekki um annað að ræða.

Milljarðamæringurinn er ekki að lesa stöðuna rétt núna. Hann heldur að með fagurgala til starfsfólks og skítkast til Davíðs takist honum enn einu sinni að fá meðaumkun þjóðarinnar. Vígstaðan hefur breyst og óvinurinn er ekki lengur einn maður sem þó vann sér ekki annað til óvinsælda hjá fjölskyldunni en að benda á glæpina. Hvað annað gæti hafa komið honum í ónáð....?

Þjóðin er að snúa við þessari fjölskyldu baki sem betur fer og tekur nú til við að vinda ofan af skuldum og fjárfestinga og eignarhaldsfélögum í eigu fjölskyldunnar sem notuð hafa verið til að koma peningum undan.

það eru kannski þeir peningar sem Jón Ásgeir notar í dag til að kaupa sér diet coke og sín eigin fyrirtæki til baka mínus skuldir. Vonandi heldur milljarðamæringurinn skuldlausi áfram að skrifa greinar því fátt spillir eins fyrir afleitum málsstað fjölskyldunnar og þau greinaskrif.

Röggi