föstudagur, 31. júlí 2009

Engum öðrum um að kenna.

Nú ryðjast bloggarar Samfylkingarinnar fram og hamast á þeim sem ekki eru tilbúnir að kokgleypa Icesave snilld Svavars Gestsonar hráa. Ríkisstjórnin hefur haldið þannig á málum að AGS og aðrir sem ætla að lána okkur fé treysta sér ekki til þess, í bili.

það er ekki vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn vilji fella stjórnina. það þvaður er orðið hlægilegt enda órökstutt og ómálefnalegt. Icesave þvælist nefnilega fyrir fleirum en bara andstöðunni á þingi. Og í raun held ég að fáir trúi því að þar hafi náðst viðunandi lausn en hótanir um ævarandi bannfæringu ESB gerir sitt.

Ekki er langt síðan Samfylkingu tókst með ærinni fyrirhöfn að svínbeygja samstarfsflokkinn til hlýðni. Núna ætlar það að verða erfiðara og pirringurinn yfir því er öllum ljós enda er lýðræðið til leiðinda stundum.

Ríkisstjórnin getur ekki kennt neinum öðrum um en sjálfri sér núna. Og nú er ekki tíminn til að fara á taugum. Nú þarf að sýna styrk en ekki kvarta undan eigin verkum og því að löggjafinn sinni skyldum sínum.

Röggi

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Hvenær springur VG?

Mikið held ég að sé gaman að vera vinstri grænn þessa dagana og ekki síst í dag. Flokkurinn er að fórna allri sinni arfleifð á altari Samfylkingar og formaðurinn vinnur baki brotnu. Dugnaður og harka Steingríms hlýtur að hrifa hvern mann á meðan veggspjaldið Jóhanna Sigurðardóttir mætir ekki til vinnu. En laun heimsins eru vanþakklæti.

VG tapar meira en Samfylking samkvæmt skoðanakönnun fréttablaðsins og ef að líkum lætur mun sú þróun halda áfram. það er auðvitað óskiljanlegt með öllu því ríkisstjórnin er undir forsæti Samfylkingar og á sjálfstýringu sem félagi Össur hefur hannað af mikilli íþrótt og kænsku.

Pirringurinn innan VG hlýtur að fara að nálgast suðumark. Á meðan félagi Össur flengist um allar koppagrundir í ESB æfingum situr Steingrímur uppi með glæpinn að handónýtum forsætisráðherra ásjándi. þetta getur ekki verið ásættanlegt fyrir VG.

Hvað á maður að gefa þessu sambandi langan tíma? Varla nema örfáa mánuði í besta falli....

Röggi

Jóni Bjarnasyni skortir alla staðfestu.

Verulega áhugavert að fylgjast með hvernig hlutum getur stundum verið snúið algerlega á haus. Núna er sú staða uppi að Jóni Bjarnasyni er víða hrósað fyrir að standa fastur á sinni meiningu í ríkisstjórninni varðandi afstöðuna til ESB. Ég sé þetta ekki þannig.

Í minum huga fellur Jón svo gersamlega á staðfestu prófinu að annað eins sést varla. Hann er ráðherra í ríkisstjórn sem hefur tekið ákveðinn kúrs sem hann er fullkomlega andvígur. Getur einhver sem þetta les útskýrt fyrir mér í hverju dygðin er fólgin?

Vissulega er talað um að þingmenn eigi að fylgja sannfæringu sinni og ég skil það en Jón Bjarnason er ekki þingmaður. Hann er ráðherra og þar með framkvæmdavald. Ríkisstjórnir eru myndaðar utan um verkefni og hugmyndir. Þeir sem ekki eru sammála um stefnuna sitja einfaldlega ekki í ríkisstjórninni. það heitir ef ég skil hugtakið rétt að vera staðfastur og trúr sinni sannfæringu.

Ekkert að þvi að berjast fyrir sinni sannfæringu á vetfangi ríkisstjórnar en ef menn hafa ekki sitt fram er bara um tvennt að ræða. Að fylgja stefnumarkandi ákvörðun eftir af fagmennsku eða að kveðja. Jón Bjarnason gerir hvorugt.

Hann situr sem fastast og þiggur sín ráðherralaun og fríðindi í ríkisstjórn sem vinnur þvert gegn öllum lifsgildum mannsins. Og fyrir þetta er honum hrósað víða! Ef hann væri staðfastur og einarður stuðningsmaður eigin skoðana og gilda...

..tæki hann hatt sinn og staf og færi frá borði.

Veit einhver af hveru hann gerir það ekki?

Röggi.

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Látum þá neita því....

Er hugsi enn einu sinni yfir ábyrgð fréttamanna. Tilefnið er frétt stöðvar 2 um fjármagnsflutninga auðmanna úr landi og viðtal við fréttastjórann i kjölfarið. það er ekki bara að ég treysti ekki þessum tiltekna fréttastjóra heldur er ég líka að hugsa um hvað er lagt til grundvallar þegar vaðið er af stað með sögur í fjölmiðla.

Þeir sem hlusta á viðtalið skynja að fréttastjóranum líður ekki of vel með þetta. Staðan er þannig í okkar þjóðfélagi núna að jarðvegurinn fyrir svona sögur er frjór og kannski hefur hann álpast til að taka sénsinn. Fjölmiðlamenn eiag ekki að taka sénsinn jafnvel þó um sé að ræða menn sem liggja vel við höggi eins og hér. Alls engin ástæða er til að gefa neinn afslátt af fagmennskunni.

Fréttastjórinn lifir eftir gömlu reglunni um að þeir sem bornir eru sökum skuli sýna fram á sakleysi sitt. Hversu hættulegt er það hugarfar? Ég er alfarið á móti svona löguðu enda getum við öll sett okkur í þau spor að þurfa að reka af okkur slyðruorð sem misgáfulegir fjölmiðlamenn gætu fyrir algera óheppni misst á forsíður sínar.

Allra vegna er ljóst að sannleikurinn verður að koma í ljós hér því annars hangir þetta bara yfir mönnum vegna þess að fyrir marga skiptir í raun alls engu hvað skjöl og pappírar þeirra stofnana sem um er að ræða segja. Dómstóll götunnar notast ekki alltaf við staðreyndir heldur stýrist af tilfinningum og nú sem aldrei fyrr.

það er mergurinn málsins og menn eins og Óskar Hrafn eiga að geta bakkað upp sínar sögur ellegar láta kyrrt liggja.

Röggi

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Er Jóhönnu sjálfrátt?

Ég verð að vona að eitthvað hafi skolast til í frásögninni frá umræðum í þinginu um Icesave klúðrið. þar á Jóhanna Sigurðardóttir að hafa sagt að það sé ekki kostur að samþykkja ekki þennan gjörning vegna þess að hann hafi verið gerður með fyrirvara um samþykki alþingis!

Ég las þetta alloft og trúi ekki enn því sem ég les. Er forsætisráðherra ekki sjálfrátt? Ef hún meinar það sem hún segir þá hefur hún ekki snefil af skilningi á hlutverki alþingis eða það hvað þrískipting valds merkir.

Hefur enginn annar en ég áhyggjur af því að fólk með svona hugsunarhátt skuli vera að véla með okkar mál alla daga?

Röggi.

miðvikudagur, 22. júlí 2009

Um tengingar og ekki tengingar.

Samfylkingin gæti varla verið óheppnari með tímasetningu og samstarfsflokk þegar draumurinn stóri um ESB virðist í sjónmáli. Hverjum einasta manni er augljóst að taugaveiklun flokksins er nú í hámarki og félagi Össur æðir um og reynir allt hvað af tekur á nýju hraðameti að koma málum þannig fyrir að umsókn okkar inn í draumalandið komist í einhvern þann farveg að ekki verði aftur snúið.

Ég hef margsagt það að andúð þjóðarinnar á ESB muni bara vaxa þegar fram líða stundir. Ekki endilega bara vegna þess að menn sannfærist málefnalega um að ESB sé ekki góður kostur heldur meira vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Hollendingar og Englendingar ætla sér að beita ekki bara sínum eigin aflsmunum í samskiptum sínum við okkur vegna Icesave heldur ætla þeir grímulaust að beita Samfylkinguna ESB þrýstingi. Fáir trúa eintóna málfutningi ráðherra sem þykjast hneykslaðir á tali um tengingu milli Icesave og inngöngu í ESB.

Enda hefur þetta blasað við lengi og verður augljósara með hverjum deginum. Og á meðan Samfylking er í ríkisstjórn með flokki þar sem andstaða við ESB er mest er staðan í besta falli flókin. Tíminn er að hlaupa frá ESB flokknum. Og enn eykst vandinn...

.. því VG mun líklega ekki ráða við Icesave samninginn. Kannski fer að renna upp fyrir Steingrími að ekki dugar að fórna flokknum til þess að gera Samfylkingu til geðs og sitja í ráðherrastólum. Ekki síst í því ljósi að hann er í grunninn algerlega á móti flestu því sem hann predikar af krafti daglega.

Hver sérfræðingurinn ofan í annan mælir eindregið gegn því að samþykkja Icesave dílinn frá Svavari Gestsyni og félögum og einu viðbrögðin sem boðið er upp á er hræðsluáróður um að við verðum sett út á gaddinn fyrir fullt og fast ef við kyngjum ekki hverju sem er.

Mér gengur illa að skilja hvernig hægt er að ætlast til þess að þjóðþing landa megi ekki hafa afstöðu til samnings eins og hér liggur fyrir. Með undirskriftinni erum við væntanlega búin að viðurkenna ábyrgð okkar en það er ekki þar með sagt að framkvæmdavaldið geti bara komið með hvaða samning sem er og heimtað sjálfkrafa stimplum löggjafans.

Samfylkingu tókst með þunga og hótunum að plata VG til að samþykkja aðildarviðræður við ESB. Nú er sami söngur hafinn aftur undir stjórn utanríkisráðherra og Bretar og Hollendingar sjá um undirspilið.

Mjög verður spennandi að sjá hvernig VG lætur að stjórn núna.

Röggi.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Ekki sopið kálið.

Þá er það frágengið að við sækjum um inngöngu í ESB. Það er enginn heimsendir fyrir mig enda vantar stórlega inn i umræðuna um ESB þegar við vitum ekki hvað þar stendur okkur til boða. En það er eitt og annað mjög áhugavert bæði í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í dag og ekki síst í því sem koma skal.

Engum manni dylst að VG kýs þvert gegn eigin stefnu og áhuga. VG hleypti þessu í gegn eingöngu til að halda samstarfinu gangandi. Það kann að vera einhverjum skiljanlegt en ekki mér og skaðinn sem unninn hefur verið á trúverðugleika þess flokks er varanlegur.

Þeir þingmenn stjórnarliðsins sem hingað til og ekki síst í búsáhaldabyltingunni gerðu sig gildandi í umræðum um aðskilnað framkvæmda og löggjafavalds hljóta að vera hugsi núna þegar framkvæmdavaldið tók þá bókstaflega kverkataki og svínbeygði menn til hlýðni. Ekkert orð annað en pólitískt ofbeldi kemur upp í hugann.

Fyrir þá sem hafa raunverulegan áhuga á að við náum skotheldum samningi við ESB er auðvitað mikilvægt að val á fólki í samninganefnd einkennist ekki af sama metnaðarleysinu og í síðustu samninganefnd sem rikisstjórnin sendi úr landi.

Fyrir utan afleita samningstöðu okkar almennt hlýtur að vera undarlegt fyrir Samfylkinguna að fara í þennan leiðangur í samstarfi við flokk sem hefur í reynd ekki nokkurn áhuga á að fara inn í ESB. Baklandið hreinlega ekki til enda þarf ekki sérlega glöggan aðila til að sjá að þessi þvingaða niðurstaða þingins í dag er varla vatnsþétt og höggþétt varla.

Hvernig fer fyrir málinu ef upp kemur ágreingur í ferlinu eins og mér sýnist einboðið að hljóti að gerast fyrr en seinna? Ég tel það nánast kraftaverk ef þessi stjórn lifir þetta af. VG eru lemstraðir eftir barsmíðarnar og skal engan undra. Það getur varla verið léttvægt dagsverk að svíkja ekki bæði kjósendur sína heldur og eigin samvisku á einu síðdegi til þess eins og halda ráðherraembættum innandyra. Þessi saga er ekki öll sögð...

Min spá er að þessi atkvæðagreiðsla sé upphafið að endi samstarfs þessara tveggja flokka vegna þess að særindi innaflokks hjá VG munu ekki gróa og Steingrímur mun ekki splæsa á sig klofningi til þess að halda Samfylkingu í góðu skapi.

Stórmerkilegur dagur er að baki en þeir verða ekki síður merkilegur sem í hönd fara. Stríðið sem Samfylkingin vann í dag var ekki við andstæðinga sína. Það var háð við samherjana. það veit ekki á gott.

Röggi.

miðvikudagur, 15. júlí 2009

Einkaréttur Samfylkingar á klækjum.

Ekki vantar neitt upp á að Samfylkingarmenn, bloggarar og aðrir, væla nú allt hvað af tekur vegna aðferðafræði Borgarhreyfingarinnar í þinginu. Hreyfingin er sökuð um að skipta um skoðanir og svik við kjósendur og ég veit ekki hvað. Talað er um tengja ólík mál og bla bla. Ekki ætla ég að bera í bætifláka fyrir vinnubrögðin hjá Borgarahreyfingunni enda eru þau út í hött.

En Samfylkingin er á sama tíma að tengja ýmislegt við inngöngu í ESB. Icesave samninginn verður að kokgleypa hráan eins og hann er matreiddur af viðsemjendum okkar svo ekki styggist ESB. VG situr undir hótunum í samstarfinu góða en eins og aðrir þekkja er ekki heiglum hent að vera í því sem Samfylking kallar samstarf. það fær VG nú að prófa..

..og virðist vera að sligast undan en þumbast þó við og svíkur kjósendur sína svo myndarlega í grundvallaratriðum í leiðinni að annað eins hefur ekki sést hér fyrr. Allt til að þóknast Samfylkingu og halda í embættin.

þannig að víða virðist potturinn brotinn í þessu en Samfylkingin þolir ekki klækjastjórnmál eða pólitískar tengingar nema þau séu rétt ættuð.

Röggi.

mánudagur, 13. júlí 2009

Hvað kom fyrir VG?

það er snúið stundum að vera í ríkisstjórn og það sannast mest og best á VG þessa dagana. Þessi flokkur með staðfastan formanninn í broddi fylkingar hefur í óratíma staðið fyrir staðfestu og einurð en nú er þeirri arfleifð allri hent á haugana til að þóknast Samfylkingu og til að ríghalda í ráðherrastóla.

Hnarreystir menn eins og heilbrgðisráðherra eru nú kveðnir í kútinn og láta lítið fyrir sér fara á milli þess sem smíðaðir eru mergjaðir vafningar utan um algeran viðsnúning í grundvallaratriðum pólitískum. Ekki eru margir dagar síðan þessir aðilar gengu á fund kjósenda og hnykktu hraustlega á skoðunum sínum varðandi ESB. Og fengu brautargengi..

Nú eru þjóðaratkvæðagreiðslur nýjasta skammaryrðið í munni VG og óþarfar vegna þess að kjósendur skilja hvort eð er ekki flókin mál! það bókstaflega stórsér á VG þessa dagana og enginn vafi í mínum huga að Steingrímur teflir á tæpasta vað innandyra.

Auðvitað er eðlilegt að fólk og flokkar skipti um skoðanir en þá er mikilvægt að því fylgi sannfærandi röksemdir og það jafnvel þó skoðanirnar séu léttvægari en hér um ræðir og lengra sé frá kosningum en nú er. Einu alvöru röksemdir sem fram hafa verið bornar er óttinn við stjórnarslit.

þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvað hefur komið fyrir forystumenn VG? Og sú spurning brennur ekki bara á stjórnarandstæðingum....

Röggi.

fimmtudagur, 2. júlí 2009

Meira tuð um þrískiptingu valds.

Núna tala margir um að við þurfum breytingar. Nýtt fólk með nýja sýn og ný viðhorf. Við þurfum gagnsæi og upplýsingar. Opna umræðu og heiðarleika. Við viljum ekki leynd og pukur lengur. Við viljum öðruvísi stjórnmál og öðruvísi fólk til að stjórna. Nýtt Ísland. Auðvitað...

Þetta er allt gott og blessað og við getum flest skrifað undir þetta. En hvernig viljum við ná þessu fram? Það hlýtur að vera spurningin. Viljum við kjósa upp á nýtt og skipta út persónum og leikendum? það er aðferð sem er alkunn og hefur ekki dugað algerlega til. Getur verið að við þurfum að breyta systeminu svo að hin nýja hugsun og hin nýju viðmið njóti sín?

Við erum enn einu sinni að horfa upp á framkvæmdvaldið traðka á löggjafanum í kringum Icesave málið. Við erum í raun hætt að taka eftir þessu. Í vetur varð þingmanni það á að vilja frekari upplýsingar um mál frá ríkisstjórn til að geta gert upp hug sinn og hann var úthrópaður fyrir vikið. Þvílík ósvinna. Hann þvældist fyrir framkvæmdavaldinu!

Löggjafinn á að vera framkvæmdavaldinu aðhald. Þingmenn eru kosnir til þess að setja lög. Þeir eiga ekki að sitja í ríkisstjórn á sama tíma. Af hverju er flókið að breyta þessu? Þingmenn þurfa að gerast hálfgerðir liðhlaupar til þess að geta fylgt sannfæringu sinni frá einum tíma til annars eins og staðan er í dag. Framkvæmdavaldið ræður þessu öllu.

Það ákveður hvernig reglurnar skulu vera og framfylgir þeim svo. Er báðu megin borðs. Er það heilbrigt? Svoleiðis þykir ekki fínt í viðskiptalífinu en eigum við að sætta okkur við það í stjórnmálunum? Nei segi ég. Og burt með framkvæmdavaldið úr þinginu. Ráðherrar setja ekki lög. Hvusrlags dónaskapur er það gagnvart löggjafanum að framkvæmdavaldið geti bara haldið mikilvægum upplýsingum frá þinginu eins og gerist ítrekað í Icesave farsanum? Lýðræðinu og þingræðinu er nauðgað aftur og aftur og við rífumst um dægurmál á meðan.

Breytum grundvallarreglunum því að þar liggur vandinn að stórum hluta. Notum tækifærið núna þegar jarðvegurinn er frjór og tökum til í rótinni. Þrískipting valds er ekki léttvægt atriði. Núna er hrópað á nýtt siðferði á torgum.

Frá mínum bæjardyrum séð er siðlaust að framkvæmdavaldið meðhöndli löggjafann eins og við sjáum endurtekið reglulega.

Röggi.