miðvikudagur, 31. mars 2010

Þögull eigandi 365

Ingibjörg Pálmadóttir útskýrir hlutafjáraukningu 365 í viðtali og fer þar á kostum. Hún vinnur eftir hinni nýju línu "ykkur kemur það ekki við". Nú eru hluthafar 365 þöglir eins og það er kallað og hafa engin áhrif og skiptir því ekki máli hverjir þeir eru. Getur einhver hjálpað mér að skilja þessa röksemdafræði?

Fyrir þá sem ekki vita er Ingibjörg eiginkona Jóns Ásgeirs sem á þetta allt með húð og hári mínus skuldir við þjóðin fær að gleypa reglubundið og hefur gert árum saman. Vel má vera að Jón Ásgeir sé þögull nú um stundir en látið það ekki blekkja ykkur.

Ingibjörg má kalla þessa hlutafjáraukningu hvað sem er en allir vita hver á fyrirtækið og ræður þar ríkjum. Og þannig vill þjóðin hafa hlutina. Innrásarvíkingur númer eitt fær að eiga alla helstu fjölmiðla landsins eins og ekkert hafi í skorist.

Ég mæli með því að hver og einn setjist niður og hugsi um það hverjir bera ábyrgð á því. Svarið getur ekki komið á óvart...

Röggi

mánudagur, 29. mars 2010

Pirringur Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir hefur auðvitað rétt fyrir sér þegar hún lýsir VG sem óstjórntækum. Hún er að burðast með ráðherra sem eru andsnúnir meginstefnu stjórnarinnar í stórum málum. það getur ekki verið auðvelt en kemur þetta nokkrum á óvart?

VG þykir eðlilegt að hver maður gati haldið í sérafstöðu í stórum málum og smáum og sett fram úrslitakosti gagnvart samstarfsflokknum og ríkisstjórn. þannig stjórnmál eru vonlaus og þreytandi enda nauðsynlegt að geta útkljáð mál og komist að niðurstöðu innanflokks. Af hverju geta aðrir flokkar gert það?

Samfylking hefur áhyggjur af stjórnandstöðunni og frúin eyðir miklu púðri í hana á meðan þjóðin er svefnlaus af áhyggjum af hennar eigin frammistöðu. Óbilgjörn og heimsk stjórnandstaða hefur reyndar komið merkilega miklu góðu til leiðar ef út í það er farið...

það verður þó ekkert af þessu sem endanlega fær þessa ríkisstjórn til að skilja að hennar tími er kominn og löngu farinn. Fullkominn ágreiningur í brýnustu málum og almennt sundurlyndi mun ekki duga til að þetta fólk yfirgefi stólana.

Fjárlagagerðin fyrir 2011 mun ganga af VG dauðum enda þarf þá að skera niður. Meira að segja hinn kjaftagleiði Indriði H verður orðinn uppiskroppa með tillögur að skattahækkunum og þá er ekkert eftir af efnahagspólitík VG.

Þangað til mun pirringshjal forsætisráðherra verða umborið líkt og Samfylking umber óstjórntæka vinstri græna. Skákin er í bið en endataflið langt komið.....

Röggi

fimmtudagur, 25. mars 2010

Okkur kemur þetta nefnilega við

Líklega er það bara rétt hjá Jóni Ásgeir að okkur kemur bara ekkert við hvað hann er að dunda sér svona dags daglega í sínum viðskiptum. Hann fer sínu fram og stjórnmálamenn honum vinveittir og bankafólk dansar skuldadansinn og sendir okkur reikninginn. Og spurningar um eignarhald hans á bónus og fjölmiðlum og nýjustu trixin þar koma okkur bara ekki við.

Ég hreinlega trúi því ekki að fólk telji enn að gagnrýnin á viðskipti hans og eignarhald á fjölmiðlum sé talin pólitísk. Ég hef sagt það árum saman að reikningurinn af þessum blekkingarvef og þátttaka stjórnmálmanna í myndun skjaldborgarinnar um þennan mann yrði erfiður afborgunar.

Á hverjum einasta degi er Jón Ásgeir og hans fjölskylda að þéna stórkostlegar upphæðir í skjóli banka sem gefa honum eftir skuldir en ekki öðrum stórskuldurum. Þessir peningar eru notaðir til að kaupa sér fjölmiðla til að ráða umræðunni í þjóðfélaginu.

Það er þetta fólk, ekki við sem keyptum okkur sjónvarp, sem setti okkur á hausinn. þetta er fólkið sem tapar engu. Kennitala þessa fólks er tandurhrein. Við borgum reikninginn og þeir sem ráða og hafa ráðið frá hruni skulda mér skýringar á þessu. Af hverju þarf Jón Ásgeir að eiga fjölmiðla sína? Hvar er fólkið sem trompaðist þegar Mogginn fékk afskriftir?

En okkur kemur þetta ekki við. Blessaður drengurinn á þó fyrir gosdrykk og faðir hans talar um einelti.

Hvað þarf til að koma þessu fólki frá?

Röggi

mánudagur, 22. mars 2010

Afneitun Icesave krossfaranna

þeir ætla ekki að gefast upp snillingarnir sem gerðu Icesave samninginn. Steingrímur Sigfússon borgar Indriða H. laun og er því ábyrgur fyrir orðum hans. Mikið óskaplega eru þessir menn óheppnir með þjóðina sem ekkert skilur.

Ekki er hægt að greina á milli skoðana Indriða og Steingríms í þessu blessaða máli og áhugavert að að heyra skoðanir þeirra á afstöðu þjóðarinnar til Icesave. Ef Steingrímur stígur ekki upp og afneitar gerir hann þessi orð að sínum.

Icesave krossfararnir þrír, Steingrímur, Þórólfur Matthíasson og Indriði munu líklega aldrei horfast i augu við sannleikann og þjóð sína heldur berja höfðinu við steinninn í fullvissunni um þeir einir viti best.

Afneitun fær nýja merkingu í mínum huga þegar ég hugsa um þessa menn....

Röggi

sunnudagur, 21. mars 2010

Stórnarandstaðan er ekki vandinn

Tveir glæsilegir og skeleggir fulltrúar VG voru í silfri Egils í dag, Grímur Atlason og Halla Gunnarsdóttir. Þar var rætt um stöðu ríkisstjórnarinnar í ljósi minnkandi vinsælda hennar.

Viðkvæðið er alltaf það sama, Vandinn er svo stór og hann er öðrum að kenna. Og svo er talað um stjórnarandstöðuna. Hún er þetta og hitt og sýnir ekki samstöðu. Sem er reyndar alveg sérlega ónákvæmt enda hefur stjórnarandstaðan hlaupið undir bagga þegar stjórnin hefur reynt af öllum mætti að klúðra.

En það er vissulega hægt að bera það á stjórnandstöðuna að hafa ekki viljað gera það sem þessi stjórn hefur gert. Skattahækkanir á þurrausinn fyrirtæki og einstaklinga eru einu bjargráðin á meðan skjaldborg er slegin um suma auðmenn.

VG reyna af öllum mætti að stöðva allt sem gæti aukið atvinnu og hagsæld og það mun engin stjórnarandstaða taka þátt í því þó Samfylking geri það. Vandi þjóðarinnar nú er ekki stjórnandstaðan heldur ríkisstjórnin og aðgerðaleysið.

það er mergurinn málsins.

Röggi

þriðjudagur, 16. mars 2010

Ólund Steingríms J

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Steingrímur J. Sigfússon. Karlinn er orðinn önugur á leiður og ríður um héröð forn í skapi og skammar allt og alla fyrir allt og ekkert. Engan skyldi undra....

Hann tók við þröngu búi og sagðist hafa lausnir til að bjargar en þær hefur hann að sjálfsögðu ekki eins og öllum er nú ljóst. Skjaldborgin um auðmennina er eina skjaldborgin sem hann hefur reyst með fulltingi Samfylkingar.

Hann hefur þurft að bera allan þunga af misheppnuðu starfi aðgerðaleysisríkisstjórnar sem hann veitir þó ekki forstöðu á meðan samstarfslokkurinn spilar sig frían með manni og mús.

Hann hefur með gríðarlegri fyrirhöfn lagt sitt pólitíska líf undir í ofboðsbaráttu fyrir Icesave samkomulagið ferlega. Maðurinn lagði nótt við dag og svínbeygði flokkinn sinn til hlýðni og um þau sár mun seint gróa. Tilraun hans til að bera vopn á klæðin með því að fórna Jóni Bjarnasyni fyrir Ögumund segir meira en mörg orð.

Samfylking og VG eru í raun ekki sammála um neitt annað en að vera ósammála og að vera áfram ríkisstjórn hvað sem tautar og raular. Steingrímur veit þó eins og aðrir að það verður hvorki Icesave né ESB umsókn sem verður þessari stjórn að aldurtila. Fjárlagagerð fyrir 2011 verður þeim um megn því ekki er hægt að hækka skatta meira en orðið er jafnvel þó vinstri menn eigi í hlut...

..nú tekur við niðurskurður og það mun þessi stjórn ekki geta komið sér saman um. Pirringurinn milli flokkanna er ótrúlega illa dulinn og hann er ekki persónulegur heldur rammpólitískur. það er nöturleg staðreynd og nægir eitt og sér til að pirra fjármálaráðherra.

Slagur við pólitíska andstæðinga er fyrirséður og eðlilegur og fáir menn sterkari á því svellinu en Steingrímur jafnvel þó hann hafi hörmungarmálsstað að verja eins og núna.

það er slagurinn við fólkið sem telst að vera hans eigið lið, baklandið, sem étur hann að innan. það sem hefur einkennt pólitík VG er bjagað hlutfall milli pólitísks raunsæis og hugsjóna. Steingrímur hefur í sinni ráðherratíð hent mörgum háheilögum hugsjónum VG fyrir raunsæið sem blasir við honum úr ráðherrastólnum og uppskeran er rýr.

þegar það spil svo gengur ekki upp eins og hlýtur að blasa við hverjum sanngjörnum manni er hann staddur á pólitískum berangri í eigin flokki. Hann getur endað einangraður í sínum eigin flokki með þessu áframhaldi. Þetta sér reynsluboltinn og veit...

.. og því er ekki að undra að af honum sé nú dregið. Menn hafa tapað gleðinni af minna tilefni.

Röggi

föstudagur, 12. mars 2010

Fólkið sem tekur ákvarðanirnar

það virðist margt skrýtið í gangi þessar vikurnar og mánuðina. Sumt skilur maður eins og ég hreinlega ekkert í. Ég trúi því til dæmis ekki að þeir sem stýra landi og þjóð pólitískt séu verr úr garði gerð en annað fólk. Samt skil ég sumt bara alls ekki...

Og allt góða fólkið sem stýrir bönkunum og skilanefndunum hálaunuðu. Varla er þetta fólk illa meinandi eða hvað? Samt veit ég að ég er ekki einn um að fatta ekki hvað þar er hugsað og gert.

Bankarnir fá lánin okkar á niðursettu verði en pumpa okkur upp í topp með greiðslur en eru svo á meðan að hlaða undir glæpamennina sem komu okkur á hausinn. Þetta er stór fullyrðing en ég spyr. Hefur einhver bankamaður reynt að mótmæla þessari söguskýringu með sannfærandi hætti??

Eða stjórnmálamaður? þeir sem öllu ráða höfðu enga skoðun á bönkunum þegar þeir réðu þar öllu. Núna gapir þetta sama fólk af undrun þegar það loks fréttir af öllu saman. Hvurslags er það?

Mér finnst allt þetta fólk, bankamenn, skilanefndarmenn og stjórnmálamenn láta eins og hlutirnir séu svona, af þvi bara. Kerfið er bara svona...við getum ekkert gert er viðkvæðið. Kjaftæði...

Á bak við þetta allt er fólk, takið eftir, fólk sem tekur ákvörðun um að þetta sé svona. Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Það er einhver og einhverjir sem bera ábyrgð á þessu. Það ákveður einhver maður af holdi og blóði að gefa Jóni Ásgeir fullt af peningum til baka og leyfir honum að halda bónus og fjölmiðlunum.

Hvaða manneskja er það? Ég vill að þeir sem tóku ákvörðun um að berja á almenningi þó lánin séu niðurgreidd gefi sig fram og sannfæri mig um að það sé besta lausnin. Ég er tilbúinn að hlusta..

Hvar ertu?

Röggi

þriðjudagur, 9. mars 2010

Auðir stjórnmálamenn og ógildir

Hvurslags stjórnmálamenn eru það sem taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum? Hvernig má það vera að fjölmiðlamenn séu hlaupandi menn uppi út um allan bæ til að draga upp úr þeim hvort þeir hafi mætt og þá hvaða skoðun þeir hafi haft?

Icesave málið er eitt erfiðasta mál þingsögunnar og þjóðin hefur stórar skoðanir á því og hefur haft frá upphafi. Þá bregður svo við að sumir fulltrúar stjórnarflokkana hlaupa í felur.

þetta er farsi en þó með mjög tragískum undirtón vegna þess að þetta er fólkið sem enn situr við völd. Völd sem það vill ekki kannast við nema þegar það hentar. Pólitískur gunguskapur þessa fólks verður ekki jafnaður.

Samfylkingarmenn á fræðimannsstólum í háskólanum hafa svo hamast við að reyna að túlka niðurstöðuna rangt. Enginn þarf að efast um að Samfylkingarelitan í háskólanum hefði talið já niðurstöðu styrkja ríkisstjórnina mjög.

Ríkisstjórn sem barist hefur af alefli fyrir þessu máli í heilt ár gegn öllum öðrum liggur mér við segja reynir svo núna að eigna sér bætta samningsstöðu málsins. það er ótrúleg söguskýring og gaman fyrir fræðimennina að setja hlutina í rétt samhengi þegar þeir kryfja mál.

Skömm þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn verður ekki af þeim þvegin í þessu máli. Og þeir sem ekki mættu til að kjósa eða neita að gefa upp skoðun sína eru í mínum huga auðir og ógildir hér eftir.

Röggi

sunnudagur, 7. mars 2010

Af hverju breyttist samningsstaðan?

Líklega hef ég aldrei augum litið dapurlegri og rasskelltari stjórnmálamenn en Steingrím og Jóhönnu í sjónvarpi allra landsmanna í gærkvöldi. Þarna stóð fólkið sem hafði barið á þjóðinni í heilt ár með Icesave samningnum að reyna að lesa út úr niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Jóhanna hélt áfram að svívirða þjóð sína og Steingrímur var úti á þekju og augljóslega sleginn.

Steingrímur er sjóðaður maður og getur rausað lengi og mikið. Hann talar um ferli þegar hann er minntur á að hann og hans fólk hafi margsaagt okkur að betur yrði ekki gert. það er ferli í málinu og staðan hefur breyst sagði kappinn. það er laukrétt hjá Steingrími.

En af hverju hefur staðan breyst? Er það vegna einhvers sem ríkisstjórnin hefur gert? Nei, það er vegna þrautsegju stjórnarandstöðunna sem gafst ekki upp á því að halda uppi vörnum fyrir Ísland gegn eindreginni sókn ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmunum viðsemjenda.

Þetta eru staðreyndir málsins og þegar Steingrimur reynir næst að tala um samningsstaðan hafi styrkst og breyst ættu fréttamenn að spyrja hann af hverju og hvernig og af hvaða völdum.

það er bara þannig að þó þau hafi verið fjarverandi þegar þóðin tók afstöðu í þessu máli þá voru þau svo sannarlega á vetfangi þegar þessi samningur var gerður og kynntur sem stórsigur.

Þá smán geta þau ekki af sér máð.

Röggi

föstudagur, 5. mars 2010

Jóhanna talar í Speglinum

Ég var að enda við að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur í útvarpi allra Samfylkingarmanna, speglinum á rás 2, Þar fór hún á kostum og hélt áfram rausi sínu um markleysu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég spái því að hegðun stjórnarflokkanna í þessu máli nú síðustu daga muni fá algera falleinkunn þegar sagan verður skrifuð og í raun er óskiljanlegt hvað hvetur Steingrím og Jóhönnu áfram í viðleitni sinni til að spilla fyrir.

Jóhanna hélt fína tölu um hversu mjög tafir í þessu máli væru að kosta okkur. Hún sá ekkert annað en svartnætti og endalok mannlífs. Ég hvet fólk stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar til að hlusta á þessa messu því þarna tókst henni býsna vel að upplýsa hversu mjög Icesave klúður hennar eigin stjórnar er að kosta okkur.

Þessi liðónýta ríkisstjórn hefur frá fyrsta degi verið með þetta mál í tómu rugli og engin sérstök furða að Steingrímur hafi reynt að snuða bæði þjóð og þing um að sjá samninginn á sínum tíma. það er þessi ríkisstjórn sem skipaði samninganefndina og tók þá afstöðu að verja okkur ekki. Það var engin önnur ríkisstjórn sem ákvað að hafa Indriða í sinni þjónustu.

Nú þegar við sendum alvöru samninganefnd er hægt að fá talsvert betri samning en Steingrímur taldi algerlega fullreynt með Svavarsklúðrinu á örfáum dögum. Ábyrgðin á þessum samningi liggur hjá þessu fólki sem tókst hvorki að sannfæra þing né þjóð.

Þess vegna er eiginlega sorglegt að hlusta á Jóhönnu og Steingrím tala niður til lýðræðis og þjóðar sinnar eins og þau gera i dag. Fólkið sem hefur haldið svona illa á okkar málum ætti að sjá sóma sinn í því að vera með henni í að reyna að bæta skaðann í stað þess að bæta við skömmina.

Röggi

Mannorðið hans Pálma

Þeir láta taka við sig viðtöl þessa dagana mennirnir sem höfðu af okkur í nafni útrásar. Allir vita hverjum Jóhannes vorkennir, nefnilega sjálfum sér og nú er röðin komin að Pálma Haraldssyni. Hann segist marinn á sálinni blessaður en sér sökina stærsta og mesta hjá þeim sem ekki gátu séð að hann var að stunda glæpi...

Þetta eiga þeir allir sammerkt útrásar víkingar. Þeir gera sér upp iðrun en í raun finna þeir enga sök hjá sér. Ég veit ekki hvað þetta heitir á fagmáli þeirra sem mennta sig í afbrotafræði en veit að fræðiheitið er til.

Þú mátt sem sagt allt sem þér er ekki beinlínis bannað. Slíkar yfirlýsingar lýsa engri iðrun heldur siðleysi sem er nauðsynlegt þegar menn leggjast í útrás eins og þá sem Pálmi og hans líkar lögðu í enda var hún fjármögnuð þessi útrás með innrás í framtíð hvers einasta Íslendings án upplýsts samþykkis.

Pálmi hefur auðvitað ekki áhyggjur af töpuðum peningum. Hann hefur áhyggjur af töpuðu mannorði. þetta er allt eðlilegt enda tapaði hann engum peningum, það erum við, Íslenska þjóðin sem borgum. Pálmi heldur sínu og lifir í heimi afskrifta....

Okkur gæti ekki verið meira sama um mannorð þessara manna en okkur er talsvert í mun að milljarðamæringarnir skili því til baka sem VIÐ töpuðum. Þannig væri kannski einhver möguleiki á að Pálmi endurheimti slitrurnar af ónýtu mannorði sínu.

Drottingaviðtöl í blöðum sínum duga þar skammt og eru létt í maga þjóðarinnar.

Röggi

Jáin þeirrra Jöhönnu og Steingríms

það er auðvitað þannig að við skiptumst í fylkingar eftir því hvaða stjórnmálaflokki við fylgjum. Flestir reyna að halda í grunnprinsippin sín og styðja sinn flokk þó ekki gangi allt fram eins og maður vill helst.

Núna er sú staða að hér er vinstri stjórn og við hægri menn finnum henni flest til foráttu og svona gengur þetta í hina áttina líka. þetta er kannski ekki alltaf fullkomlega sanngjarnt en er nú svona samt og er meira og minna lögmál.

Ég get því skilið að þeir sem liggja til vinstri og kjósa VG og Samfylkingu styðji sitt fólk og hamist við það að réttlæta það fyrir Guði og mönnum. það stafar af fyrrnefndri trúarsannfæringu og menn skipta ekki svo glatt um Guð.

það er þó á þessum tímapunkti sögunnar sem fylgismenn VG og Samfylkingar hljóta að spyrja sig grundavallarspurninga. Hvernig má það vera að Jóhanna Sigurðardóttir ættlar að sniðganga atkvæðagreiðsluna á morgun? Af hverju getur Steingrímur ekki ekki gengið í lið með þjóð sinni og hætt stuðningi við Svavarsamninginn?

þau segja bæði já. Fjarvera þeirra er ekkert annað en yfirlýsing um það. Þeir sem merkja við þetta fólk í næstu kosningum ættu að hafa þetta í huga. Þetta er fólkið sem reyndi að koma í veg fyrir að þjóðin fái að greiða atkvæði og gékk í lið með andstæðingum okkar í þeirri viðleitni. Um það verður ekki deilt af neinni alvöru.

Á hvaða forsendum er hægt að segja já við þessu fólki í kjörklefanum? Þetta er ekki hægri vinstri spurning. Í þessu tilfelli er trúarsannfæringin ekki inni í myndinni. þetta er svo miklu stærra....

Röggi

mánudagur, 1. mars 2010

Sölvi Tryggvason og peningahyggjan

Sölvi Tryggvason skrifar grein á pressuna um gildismat og peningahyggju. Honum finnst fátt hafa breyst frá 2007 og við enn að hugsa um peninga umfram aðra hluti. Þessi grein finnst mér yfirborðskennd og grunn en reyndar full af skemmtilegum klysjum en liklega skrifuð af manni sem hefur engar peningaáhyggjur.

Auðvitað er rétt að við erum ekki að deyja úr hungri og hér hafa allir föt til skiptanna og við búum í upphituðum húsum með tvo bíla ef ekki fleiri. Við höfum likt og fleiri jarðarbúar lært að koma okkur upp þörfum sem Sölvi getur liklega skilgreint sem gerviþarfir. Heimspekilegar vangaveltur sem eiga rétt á sér, almennt séð

Heimspeki af þessu tagi er ágæt í pallborðsumræðum og kaffihúsum. Hún hjálpar ekki þeim sem þurfa að hafa áhyggjur af peningum alla daga og öll mánaðarmót. Hún hjálpar ekki þeim sem tapað hafa öllum sparnaði sínum vegna græðgi fárra.

Auðvitað höfum við áhuga á peningum. Peningar færa mönnum ekki hamingju en peningaleysi getur klárlega fært mönnum óhamingju sér í lagi þegar ástæðurnar eru þær sem þær eru núna.

Mér finnst inntakið í pistli Sölva vera það að í raun sé þetta okkur sjálfum að kenna og nánast gott á okkur. Mér finnst eins og hann endurtaki flatskjárkenningu Björgúlfs bankaræningja hér í nýrru útfærslu. Kannski fara menn að tala um reiði Guðs næst...

Samanburður við þjóðir sem eiga hvorki til hnífs og skeiðar er út í hött eða tal um að í raun séu engin vandamál hér vegna þess að fólki verði ekki hent á götuna með börn og bú.

það að tapa öllu sínu er andlegt og líkamlegt niðurbrot þó að kerfið tryggi öllum hita í hús sín. Peningar skipta máli hvað sem hver segir og akkúrat núna mjög miklu máli. Fyrir mér er augljóst að áhugi okkar á peningum nú er talsvert öðruvísi en 2007.

Ég sjálfur þarf ekki að kvarta ennþá að minnsta kosti og ég vona að Sölvi haldi sínu líka. það er léttvægt og þægilegt að skrifa eins og hann gerir um óþarfa lifsgæði. Hálfgerður hroki hins áhyggjulausa manns...

Röggi