laugardagur, 23. júní 2012

Er frávísun ekki sýkna?

Hvað er hún þá?


Ég sá það á skilti einu fyrir utan héraðsdóm í dag að einhver telur svo ekki vera. Hvernig geta menn hlotið sýknu ef ekki þegar rannsókn leiðir í ljós að ekki verður ákært?


Er það kannski meiri sýkna að vera ákærður og leiddur fyrir dóm en ekki sakfelldur? 


Hvernig system viljum við hafa ef ekki dugar að notast við rannsókn hlutlausra og regluverk samið af þeim sem kjörnir eru af þjóðinni sjálfri til að handa dómstólum?


Hvað varð um gömlu sannindin um að hver maður sé saklaus uns sekt er sönnuð? Má gefa afslátt af þeim eftir smekk? 


Þegar ég kæri einhvern og þar til bærir aðilar komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til meðferðar fyrir dómstólum verður að líta svo á að viðkomandi sé saklaus.


Annað er umtalsverð rökleysa


Röggi



þriðjudagur, 19. júní 2012

Enn um flotta Englendinga

Sko Englendinga. Þeir unnu bara riðilinn sinn á EM og sérfræðingarnir skilja eiginlega ekkert í þessu. Þeir halda helst með liðum sem spila samba við öll tækifæri. 


Englendingar verjast víst of mikið og of aftarlega og þeir sækja eiginlega ekkert af viti. Og þeir eru leiðinlegir. 


En þeir tapa ekki leikjum og vinna riðilinn sinn um leið og þeir skora í hverjum leik. Þeir eru lið sem missti þjálfarann sinn rétt fyrir mót og við tók maður sem enginn átti von á að væri til skoðunar.


Mér finnst þeir fínir og þeir sýndu það gegn Svíum að þeir hafa líka öll tök á því að spila hratt og sækja stíft. 


Ég veit ekkert hvort þeir komast í gegnum næsta andstæðing enda Ítalir vel sjóaðir í árangurstengdri taktík í fótbolta. En ég veit að Englendingar hafa í þessu móti valið sér taktík eftir stöðu sinni og andstæðingi hverju sinni.


Spilað á styrkleikum sínum en ekki andstæðinganna. Og náð árangri....


Hvað vilja menn meira?


Röggi



sunnudagur, 17. júní 2012

Málþófið

Ég les hér og þar að þingið þvælist fyrir stjórnvöldum sem þurfa að koma málum í gegn með meiri hraði en þingið kýs. Slíkt er hin mesta óhæfa og lýðræðiselskandi menn um borg og bæ tala um það án kinnroða að nú verði að aftengja þá sem ekki eru réttrar skoðunar.

Það sem tefur er kallað málþóf minnihlutans en málþóf þetta hefur alltaf verið í vopnabúri minnihluta þings og notað eftir smekk innan þeirra umferðarreglna sem gilda á þingi. 

Ég veit ekki hvort mér á að finnast þetta vont eða gott en meirihlutinn hefur alltaf kvartað þegar minnihlutinn nýtir sér rétt sinn til þess að masa út í eitt um hluti. 

Þetta er vandmeðfarið allt saman enda viðurkenna allir á fínum stundum að tryggja verði rétt minnihlutans við vinnu löggjafans. 

Hvernig það er best gert er líklega ekki bráðeinfalt mál en ég er viss um að lausnin verður ekki fundin af pirruðum meirihlutanum þegar hann þarf að troða stærstu og umdeildustu málum sínum í gegn seint og um síðir á lokaspretti þings. 

Þetta er prinsippmál sem ekki má snúast um það með hverjum við höldum. Ég fer nokkuð nærri um það að Björn Valur mun ekki hika við að nota þann rétt og þann tíma sem reglur þingsins veita honum á næsta þingi þegar hann verður í minnihluta standi honum svo hugur til.

Og það má hann.

Röggi

mánudagur, 11. júní 2012

Gott stig hjá Englandi

Grefilli gott stig hjá Englendingum gegn Frökkum. Víðáttuleiðinlegur leikur og það skrifast á tjallann. Leikurinn varð svo extra leiðinlegur í meðförum Dolla en kannski má segja að þau leiðindi hafi visst skemmtanagildi í sjálfu sér.


Ég hef  vissa samúð með leikaðferð Hodgson. Hann er nýtekinn við löskuðu liði og þarf fyrst og fremst úrslit. Jafntefli við gríðarvel skipað og nær ósigrandi franskt lið er smart fyrir England þó stíllinn fái ekki fegurðarverðlaun.


Hversu oft hafa Englendingar ekki farið snemma heim frá svona móti eftir þrjá gullfallega leiki sem skiluðu engu eða litlu í stigum talið? 


Góð úrslit geta gefið liðum sjálfstraust en ósanngjarnir tapleikir skila litlu og kannski mun þetta harðsótta stig gefa þessum miðlungsmannskap sem Hodgson hefur úr að spila aukið sjálfstraust.


Ég man eftir nokkrum útgáfum af landsliðum Ítala í gegnum tíðina sem hafa komið inn í svona túrneringu og spilað sig alla leið til lokaleiks. Ég hef reyndar ekki heillsufar í að spá Englandi þannig árangri.....


En kannski verður þetta einmitt stígið sem gerir einhvern gæfumun fyrir þá þegar upp er staðið og þá spyr enginn hvernig það kom til.


Röggi



fimmtudagur, 7. júní 2012

Að vera þjóðkjörinn

Það þykir sérlega smart að vera þjóðkjörinn. Forsetar eru þannig og það gefur styrk. Og stjórnmálamenn eru það að jafnaði líka. Og þeir sækja sér einnig styrk í þessa staðreynd.


Af því að þjóðin hefur talað. Hún talaði þegar hún mætti á kjörstað og lýsti því yfir síðast þegar mælt var hvernig viðkomandi mældist á vinsældaskalanum. Þetta er gott system. 


Svo fundu menn upp allskonar. Í dag er það stórmerkileg fræðigrein og útpæld hvernig á að hringja í fólk og mæla vinsældir þessa þjóðkjörna fólks á milli mála. Stjórnmálamenn og konur nota svo niðurstöður úr þessum könnunum eftir behag....


Reyndar er rétt að gera þann fyrirvara að þingmenn sem verða ráðherrar eru ekki þjóðkjörnir til ráðherraembættis og öðru nær. Þjóðin kýs fólk til að sitja löggjafarsamkomu sem á að vera aðskilin frá framkvæmdavaldi. 


En svo háttar til hér hjá okkur að sumir úr þessum hópi verða hvoru tveggja og ákveða svo lika hverjir verða dómsvald til að taka vitleysuna alla leið og gefa fullan skít í þriskiptingu valdsins. 


Ég nefnilega hjó eftir því í grein eftir forsætisráðherra að hún taldi sig þurfa aukinn styrk á bak við orð sín með því að tala um að hún væri þjóðkjörin.


Það er hún ekki heldur var makkað um málið á bakherbergjum eins og alltaf þegar ný þjóðkjörnir þingmenn eru að dunda sér við að taka sér framkvæmdavaldið til handargagns.


Jóhanna var aldrei kjörin til þess að verða ráðherra þó vinsældir hennar hafi  mælst miklar í aðdraganda og kjölfar síðustu kosninga. En varla er Jóhanna að vísa í slíkt enda mælingin nú um stundir langt fyrir neðan frostmarki og sígandi.


En það er önnur saga er það ekki


Röggi

Baráttan um kvótakerfið

Það verður að breyta kvótalögunum. Þessa setningu heyri ég tíðum og oft fylgja í kjölfarið gildishlaðnar yfirlýsingar um vonsku LÍÚ og þeirra manna, og kvenna, sem standa í útgerð. 


Lengi hefur þessi málflutningur hljómað sem tónlist í eyrum sumra en fékk þó ekki almennilegan hljómgrunn fyrr en hagstæðar rekstrartölur fóru að koma til. Tapið af útgerðinni vildu víst fáir. 


Ég man svo vel hvernig bransi útgerðarbransinn var fyrir kvótakerfi. Þeir hétu sægreifar í þá daga mennirnir sem sáu um að reka útgerðir með tapi og allir voru beint eða óbeint háðir ákvörðunum stjórnmálamanna sem felddu gengið eftir smekk svo allt gæti þetta nú "lifað" áfram og byggðarsjónarmiðin ráðið þegar menn réru eftir því sem heitir í dag auðlindin okkar allra.


Ég veit ekki hvernig best er að haga því að útgerðir greiði gjald fyrir veiðiréttinn en finnst gott að allt í kringum borðið viðurkenna menn að það þurfi að útgerðin að gera. 


En finnst bjagað að stjórnmálamenn telji sig þess umkomna að mega einir hafa skoðun á málinu og fylgja henni eftir að vild á þeirri forsendu helstri að þeir séu þjóðkjörnir. 


Ljótt er ef hagsmunaaðilar mega ekki lengur taka sér stöðu gegn stjórnmálamönnum sem sitja í ráðherrastólum. 


Jóhanna Sigurðardóttir er af gamla skólanum og það þarf svo sannarlega ekki að vera til vandræða. Enda er það ekki þannig alltaf en þó of oft. Fyrir henni er slagurinn um kvótakerfið hápólitískt mál fyrst og fremst en langsíðast viðskiptalegt og hagfræðilegt úrlausnarefni.


Steingrímur er einnig af þessum sama skóla. Hann álítur að hagnaður sé þjófnaður sem ber að skila til ríkissins svo stjórnmálamenn geti sullað með peningana. 


Þau tvö eru að mér virðist í einkastríði í þessu máli og hafa ekki áhuga á að taka þátt í umræðunni. Gömul slagorð eru týnd til og þau verða svo ekkert gáfulegri þó ungir þingmenn taki þau sér í munn. 


Útgerðarmenn eru vont fólk sem vill ekki greiða til samfélagsins. Þetta er 
útgangspunkturinn. Þaðan er baráttan háð. Og haldið áfram að kifa á þessu seint og snemma til að viðhalda stöðunni um vondu útgerðarmennina og góðu stjórnmálamennina.


Nú er það þannig að ekki er unnt að finna neina hagsmunaaðila hverju nafni sem þeir kunna að nefnast sem styðja þá útfærslu sem ríkisstjórnin hefur valið og kann ekki að bakka út úr. 


Fræðimenn hafa ítrekað skoðað og ályktað, verkalýðshreyfingin hefur talað, samtök sjómanna...........listinn nær alla leið....


....að þingflokksherbergjum Samfylkingar og VG. 


Þar sitja handhafar sannleikans í turninum góða og þurfa ekki að hlusta. Og klaga svo í þjóðina þegar fólk kýs að vera á öndverðum meiði og berjast fyrir þeirri skoðun.


Ég fíla ekki svona stjórnmálamenn


Röggi