miðvikudagur, 30. júní 2010

Mark eða ekki mark

Fótbolti er vinsælasta sport í veröld og HM er því stórviðburður á heimsvísu. Ég hef áunninn áhuga á dómgæslu í öllum iþróttum enda ótrúlega margir hlutir sameiginlegir með dómgæslu í boltagreinunun þremur. Viðfangsefnin þau sömu í grunninn og lausnir líka.

Þeir sem mest skrifa um fótbolta og mest hafa vitið fyrtast við í hvert skipti sem nefndar eru breytingar á reglum leiksins. Í körfubolta er sífellt verið að bæta reglur og umgjörð til að auka gæði og skemmtanagildi leiksins.

Ég geri mér grein fyrir því að það er viðkvæmt og mikilvægt að vel takist til. Ákveðin íhaldssemi er góð í þessum efnum. Í grunninn finnst mér ekki ástæða til breytinga á reglum fótboltans eins og ég þekki þær.

Nú ræða menn mjög um atvikið þegar boltinn fór inn fyrir marklínuna og sitt sýnist hverjum eðlilega. Í bandarískum íþróttum nota menn sjónvarp hiklaust og gera þá eins löng hlé á skemmtuninni og þurfa þykir. Mér finnst þróunin þar vera óæskileg...

...en velti því fyrir mér af hverju ekki má setja skynjara í fótbolta til að hjálpa mönnum að sjá hvort mark er mark eða ekki. Ekki hefur slíkt í för með sér neina töf á leiknum.

Liðið sem fær á sig mark getur varla kvartað undan slíku og klárlega ekki hitt liðið heldur. Það þarf ekki að vera mat dómarans hvort bolti fer innfyrir eða ekki. Það á að vera mat dómarans hvort um brot er að ræða, hver á innkast og svo framvegis og það er hans vinna.

Ég vill taka þetta mat af dómurnum enda oft afar erfitt að sjá þetta og meta. Tal um að kostnaður við að koma upp svona búnaði verði fótboltahreyfingunni að fjötjóni held ég að standist lítt enda varla hægt að gera kröfur um að allir vellir og allr tuðrur allsstaðar í smákimum veraldar verði svona á einum degi. Og hver ætli kostnaður verði við að fjölga dómurum til að fylgjast bara með þessu verði eins og nú er talað um?

Þessi hræðsla við breytingar í fótboltanum er óþörf í þessu tilfelli. Á þessari breytingu græða allir. Enda er það ekki mat einhvers dómara hvort boltinn fór inn fyrir línuna eða ekki.

Annað hvort gerði hann það eða ekki og bráðeinföld tækni getur úrskurðað um það á sekúndubroti.

Röggi

laugardagur, 26. júní 2010

Öfgar Árna Páls

Hann er þverhníptur formannskandidat Samfylkingar Árni Páll þegar hann kallar Sjálfstæðisflokk öfga hægri flokk vegna þess að hann hefur efasemdir um aðildarviðræður við ESB á þessum tímapunkti hið minnsta.

Þessi ágæti Árni Páll vísar í vilja þjóðarinnar í þessu samhengi. Greinilegt að glundroðaástandið í ríkisstjórninni er farið að bíta á kallinn sem sér nú fram á að Samfylking er að einangrast ekki bara á pólitíska sviðinu í þessu máli heldur ekki síður frá þjóð sinni...

..sem hefur lítinn áhuga á inngöngu í ESB núna. Og reyndar tel ég að þetta að blessaða mál sé ekki stærsta mál dagsins í dag.

það eru önnur mál sem brenna á okkur og Árni Páll ætti kannski að hafa stærri áhyggjur af því vilji hann rísa upp úr meðalmennskunni.

Röggi

Stjórnarmyndun í gangi?

Magnað að fylgjast með stofnunum stjórnarflokkanna þessa helgina. Þessir flokkar hafa geta ekki haldið landsfundi enda logar þar allt stafna á milli og og alger upplausn. Þess í stað eru haldnir minni rabbfundir sérvalinna gæðinga.

Niðurstöður þessara funda eru svo sér atriði. Fyrir þá sem ekki vita þá er ekki betur séð en að nú fari fram stjórnarmyndun. VG lýsir sig andsnúin flestu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera.. Og forsætisráðherra kemur með óskalista um mál sem hún nú telur nauðsynlegt að nái fram að ganga. Um hvað snérist samstarf þessa fólks hingað til?

Þessi ríkisstjórn er búin að vera. Fundir flokkanna nú um helgina eru fullkomin staðfesting á því. Stjórnarmyndunar fundirnir nú um helgina munu ekki skila neinu öðru en að opinbera sístækkandi gapið sem er milli flokkanna.

Röggi

mánudagur, 21. júní 2010

Lilja sendir Gylfa tóninn

Lilja Mósesdóttir var í viðtali á bylgjunni í morgun. Þar var mál málanna til umræðu, nefnilega dómur hæstaréttar um gengistryggðu lánin. Lilja var brött að vanda og hreinskiptin með afbrigðum.

Hún talaði um 18 mánaða aðgerðaleysi ríkisstjórnar í skuldavanda heimilanna eins og henni kæmi þetta aðgerðaleysi ekki við. Það er vissulega áhugavert að heyra Lilju tala um þetta á þennan hátt enda veit hún manna best hvað er satt og rétt í þessu.

Svo var hún spurð út í ummæli Gylfa Magnússonar sem talar um að dómur hæstaréttar muni hafa jákvæð áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar. Þau ummæli virtust koma flatt upp á Lilju sem fullyrti að enginn einn maður hefði lagst eins mikið gegn því að gera eitthvað í skuldavanda heimilanna en einmitt þessi Gylfi Magnússon. Hann hafi ekki mátt heyra minnst á neitt í þá veru að hreyfa við þessum lánum....

Kannski er rétt að minna á í þessu sambandi að Lilja Mósesdóttir er þingmaður VG og formaður efnahags og skattanefndar og er hluti af ríkisstjórn þessa lands. Hún veit því væntanlega hvað hún syngur....

Röggi

miðvikudagur, 16. júní 2010

Leiðinlegur fótbolti

Flestir virðast sammála um að fótboltinn sem boðið er upp á á HM þyki bragðdaufur og þurr. Ég hef ekki séð nógu marga leiki reyndar en mig minnir að svona fari þessi mót oft af stað enda ekki gott að byrja keppnina með tapleik. Vonandi hressist Eyjólfur...

Ég velti því fyrir mér hvort hér séu á áhrif Jose Morinho að koma fram. Hann er númer eitt í bransanum og virðist ekki geta annað en unnið allt sem í boði er. Hvernig fótbolta spilar Morinho?

Hann spilar að mínu viti leiðinlegasta fótbolta mögulegan. Hjá honum snýst allt um að fá ekki á sig mark og sjá til þess að loka á andstæðinginn. Morinho gefur ekkert fyrir það að hafa boltann. Vörn vinnur mót.....

Árangursríkt er það sannarlega og árangur er vist það sem gildir. En skemmtanagildið er takmarkað nema fyrir þá sem horfa á fótbolta með vísindalegum gleraugum fagmannsins.

Röggi

fimmtudagur, 10. júní 2010

Stjórnarandstæðingur í ráðherrabíl

Auðvitað er alveg eðlilegt að ráðherrar takist á um mál og á stundum þurfa menn að gefa eftir í stórum hjartans málum. Flokkar geta verið ólíkir og snúið að smyrja stefnuna saman. Ekki eru allir dagar góðir í svona samstarfi. Þess vegna hafa menn brugðið á það ráð að setja saman sáttmála um það sem gera skal. Ekki tekst þó alltaf að smíða þá þannig að allir séu sáttir en afar sjaldgæft er einstakir ráðherrar séu beinlínis á móti því sem ákveðið er í slíkum sáttmála. En engin regla er án undantekninga....

Hún hangir hreinlega saman á hræðslunni einni nú orðið þessi ríkisstjórn. Hræðslunni við sanngjarna og tímabæra refsingu kjósenda. það er þeirri stöðu sem Jón Bjarnason kemst upp með að vera stjórnarandstæðingur i ráðherrabíl.

Maðurinn er hreinlega á móti málum sem samið var um í stjórnarsáttmálanum. Hvaða prinsipp ráða því að hann er við ríkisstjórnarborðið? Ég veit ekki hvort þessi fáránlega staða er meira þreytandi fyrir Samfylkinguna eða VG en veit þó að þetta lýsir best stöðunni á heimilinu.

Forystumenn eru komnir á stjá og tala um breiða samstöðu en það stef þekkjum við þegar ríkisstjórnin hefur ekki þingmeirihluta fyrir því sem hún hefur ákveðið að gera. það er í raun ekkert eftir annað en að rifa seglin. það ætti þetta fólk að koma sér saman um öllum til heilla. Um það mál ætti að nást breið samstaða...

Þessi vesalings stjórn mun þó auðvitað ekki koma sér saman um neitt annað en að vera ríkisstjórn. Og vona að allt lagist bara af sjálfu sér áður en hún neyðist til að horfa framan í okkur næst í kjörklefanum.

Og á meðan geta ráðherrar eins og Jón Bjarnason verið með neitunarvald í sérmálum þvert á það sem hann samþykkti þegar hann ákvað að sniðugt væri að vera á ráðherralaunum.

En farsinn heldur líklega áfram.....

Röggi

Árni Páll tekur frumkvæði

Venjulega taka menn ekki mikið mark á því sem Árni Páll er að segja. Mörgum finnst hann vera snotrar umbúðir utan um lítið. Hann reynir of mikið að verða alvöru leiðtogi í stað þess að láta það gerast með alvöru vinnubrögðum.

Núna kemur hann blaðskellandi með tillögur um sparnað í ríkisrekstri og ærir óstöðuga. Hin heilaga kýr sem opinberir starfsmenn eru fyrtast við þegar hann leggur til frystingu launa. Árni Páll gerir sér kannski grein fyrir því ekki verður bæði haldið og sleppt þegar kemur að hinum óhjákvæmilega niðurskurði í útgjöldum ríkissins. Mér finnst mannsbragur að þessu hjá Árna þó ekki séu tillögur hans gallalausar.

Og kjarkur sem er eiginleiki sem virðist vera að glatast hjá stjórnmálamönnum dagsins. Þarna stígur fram maður sem þorir að segja það sem honum finnst þótt hann megi búast við stormi í andlit. Mér finnst auðvelt að bera virðingu fyrir því.

Leiðtogaleitin í Samfylkingunni er leitin að nálinni í heystakknum. Dúllubossinn Dagur B virðist úr leik og dæmdur eftir niðurlægjandi útkomu í borginni. Sviðið er því opið fyrir öfluga menn með bein í nefi og mér sýnist að Árni Páll geti hugsanlega verið að taka ákveðið frumkvæði....

Ég verð seint hrifinn af pólitík Árna Páls og þá á ég bæði við stíl og innihald almennt. Og kannski segir það allt um stöðuna í Samfylkingunni að hann skuli vera orðinn einn öflugasti ráðherrann.....

Röggi

miðvikudagur, 9. júní 2010

Veit Davíð af þessu?

þau eru oft óljós mörkin milli þess að vera álitsgjafi og spunaséní. Guðmundur Ólafsson er einn af þessum aðilum. Hann þykir skemmtilegur karlinn og er fenginn til að tala í útvarp vikulega um það sem honum finnst merkilegt.

Í morgun heyrðist mér hann vera að tala um leiðtogamál Sjálfstæðisflokksins en þeim málum hlýtur Guðmundur að vera sérfróður og hlutlaus algerlaga. Hann telur að nú sé hópur manna að ryðja veginn fyrir formannsendurkomu Davíðs.

Guðmundur segist nefnilega hafa þetta eftir tengiliðum sínum innan flokks. þetta myndi teljast sérlega skemmtilegur spuni á sumum heimilum. Og vel heppnuð samsæriskenningasmíð hjá spunameistaranum en algert bull auðvitað og gert til þess eins að hræra í flokknum rétt fyrir landsfund. Hvaða hagsmunum þjónar það......

Allir vita hvaðan Hannes Hólmsteinn er að koma þegar hann tjáir sig. Það er mikilvægt og hollt og sanngjarnt en vita allir hvaðan Guðmundur Ólafsson er að koma þegar hann talar um stjórnmál eins og hlutlaus fræðimaður? Skiptir það ekki máli nema þegar Hannes Hólmsteinn talar?

Ætli Davíð viti af þessu?

Röggi

þriðjudagur, 8. júní 2010

Prnisippin hans Lúðvíks

Lúðvík Geirsson er hreint ótrúlega prinsippslaus stjórnmálamaður. Maðurinn er viðkunnanlegur í alla staði en sem pólitíkus gersamlega handónýtur. Það sannaði hann eftirminnilega þegar hann þorði ekki að standa við samning sem hann gerði um stækkun álversins í Hafnafirði. Kannski voru einhverjir búnir að gleyma því hversu Lúlli bæjó getur verið pólitískt léttvægur.

Lúðvík lagði allt undir í kosningabaráttu Samfylkingar í Hafnarfirði. Spunameistarar drógu fram alla frasana og Lúlli lagði störf sín óhræddur í dóm kjósenda. Allt annað en áframhaldandi meirihluti væri ósigur og skýr skilaboð. Barráttusætið tekið og allt var þetta stórmannlegt og strangheiðarlegt.

Söguna þekkjum við og Lúðvík var kjöldreginn og dómur féll af þunga. Engum manni flaug í hug að niðurstöðuna þyrfti að ræða frekar og næstu skref augljós enda Lúðvík lýðræðislega þenkjandi maður sem ber virðingu fyrir sjálfum sér og kjósendum.

Pólitísk og persónuleg niðurlæging Samfylkingarinnar og Lúðvíks er fullkomnuð nú þegar fulltrúi VG tryggir honum áframhaldandi starf sem bæjarstjóra næstu 2 árin.

Hvenær sigra menn í pólitík og hvenær tapa menn? Um það getum við þrasað út í hið óendanlega en í þessu máli liggur allt fyrir. Kjósendur voru hafðir að fíflum og allir tapa.

Og hér er ekki verið að grínast neitt....

Röggi