þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Baugsfjölskyldan og bankarnir

Auðvitað er geggjað að þurfa að borga Jóhannesi Jónssyni til að "gefa" bónuskeðjuna eftir. Hann og hans fólk hefur "gefið" okkur öllum meira af skuldum en nokkurt annað fólk sögunnar.

Jóhannes og sonur hans hafa klifað á blankheitum sínum eftir að "þeir" þ.e. þjóðin tók þá niður svo vitnað sé í soninn. Samt hefur fjölskyldan nurlað saman ófáum þúsundum milljóna til að kaupa sér fjölmiðla, skútur, flugvélar, milljarða íbúðir og eitt og annað smálegt sem þau hefur langað í.

Og nú dúkkar pabbinn upp með vel á annað þúsund milljónir og handvelur sér fyrirtæki í góðu samstarfi við Arion banka og lofar að reyna að kaupa allt dótið aftur við fyrsta hentugleika, væntanlega staðgreitt. Þetta er gullfallegt ævintýri fyrir alla nema okkur hin sem borgum afskriftir og niðurfellingar fyrir þetta fólk.

Samt verð ég að segja að þessar litlu 90 millur sem Arion banki ákveður að millifæra á gamla manninn er vel varið, þannig séð. En hugmyndafræðin á bak við þetta allt er í raun brandari fyrir okkur almúgan sem sitjum eftir og skiljum hvorki upp né niður í því hvernig skuldugasta fólk sögunnar valsar út og inn í bönkunum og ákveður að því er virðist sjálft hvaða skuldir það borgar og hverjar ekki.

Og velur sér svo einn og einn mola úr safninu...staðgreitt.

Við erum höfð að fíflum...

Röggi

mánudagur, 30. ágúst 2010

Aukin Ríkisforsjá?

Egill Helgason skrifar pistil um stjórnmálamenn í braski í dag. Þetta finnst mér áhugaverður punktur nú þegar alltof margir telja að lausn allra mála sé að færa aukin völd á hendur stjórnmálamönnum.

Ríkisforsjárflokkur númer eitt, VG, rær að því öllum árum að koma okkur öllum undir forsjá ríkisins og hefur til þess stuðning Samfylkingar sem er föst í netinu þó þar inni viti ýmsir að þessu stefna er handónýt.

Vissulega munu einhverjir hrópa núna og benda á heimskreppuna og ekki reyni ég að þræta fyrir hana né heldur að halda því fram að einkaaðilar geri ekki mistök og þar þrífist ekki eitt og annað misfagurt.

Staðreyndin er samt sú þar sem völd hafa verið færð um of til stjórnmálamanna og þeim ætlað að véla um öll okkar mál hefur tekist hörmulega til. Við þekkjum þau dæmi og ég hirði ekki um að nefna þau.

það þarf að skapa umgjörð um einkarekstur og reglugerðir sem halda og þar vorum við og aðrir úti að aka og því fór sem fór. En grunnhugmyndin stendur eftir rétt enda munu fáar þjóðir hverfa til ofstækisríkisforsjár eins og við stefnum í ef ekki tekst að skipta um ríkisstjórn hið fyrsta.

Ríkið er ekki einhver góð mamma. Ríkið eru þeir stjórnmálamenn sem við kjósum okkur hverju sinni.....

Röggi

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

Hver skilur Jón Bjarnason?

Er eðlilegt að ráðherrann Jón Bjarnason berjist fyrir þeim prýðilega málsstað að við göngum ekki inn í ESB úr stóli ráðherra? Ögmundur Jónasson virðist telja að svo sé og þar greinir okkur gróflega á.

Þegar anganin af ráðherrastólum bar fyrir vit VG skrifaði Jón Bjarnason undir sáttmála um stefnu. Eitt veigamesta atriðið í sáttmálanum var að ganga til viðræðna við ESB um mögulega aðild. Mér er stórlega til efs að þetta hafa farið fram hjá karlinum.

Ráðherrar berjast ekki gegn eigin sáttmála og stefnu. Sé mönnum þannig innanbrjósts er eina leiðin fyrir þá að hverfa úr stjórninni. Það kallast staðfesta og styrkur og þá geta menn haldið áfram baráttunni.

Fyrir mér er þetta barnalega einfalt mál enda hefði ég sjálfur hvorki geð eða nennu til að vinna með mönnum sem berjast gegn því sem þeir hafa nýlega fallist á að sé stefnan. Og enn síður hefði ég þrek til að sitja í stjórn sem ynni að málum sem ég væri eins afgerandi á móti eins og ráðherrann Jón Bjarnason.

Hver skilur Jón Bjarnason?

Röggi

Kirkjan

Kirkjan er í vanda og öllum er ljóst að hún kann ekki að vinna úr stöðunni. Kirkjan er eins og stjórnmálamennirnir okkar eftir hrun. Allir sjá stórfellt klúðrið í málefnum Ólafs Skúlason en hver á fætur öðrum hlaupa kirkjunnar munn undan og halda að málið snúist um að vernda þeirra eigið skinn. En hér er meira undir......

Biskupinn okkar tafsar og muldrar þegar málið er við hann rætt. Karl Sigurbjörnssson telur sig ekki þess umkominn að dæma látinn manninn, það muni aðeins einn geta og muni gera og á þar við almættið sjálft á dómsdegi. Orðhengilsháttur segi ég og er sannfærður um að almættið muni veita honum undanþágu til að fara inn á verksviðið og hafa skoðun á málinu verði eftir því leitað.

Karl Sigurbjörnsson og kirkjunnar menn mega ekki komast upp með svona undanbrögð. Það virðist liggja afgerandi fyrir að kirkjan vissi en hafði ekki verkreglur sem réðu við málið og því var það þaggað niður. Sú skömm er ekki auðveldlega hreinsuð af en tilraunir til þess að komast undan því mun að líkindum verða bæði persónum og kirkjunni dýrkeypt og loða lengi við.

Og hollt fyrir Karl og félaga að muna að þeir þurfa svo líka að standa skapara sínum reikningsskil gerða sinna....

Röggi

föstudagur, 20. ágúst 2010

Bófaslagur

Nú er allt að gerast. Björgólfur Thor og Robert Wessmann farnir að slást opinberlega og sumir birta skjöl. Það besta sem gæti gerst er að bófarnir fari að stíga hressilega á tær hvor annars í spunavörninni.....

Röggi

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Vælið í kringum Egil

Þetta er skemmtilegt. Hirðin í kringum Egil Helgason hefur sett af stað væluherferð og talar um einelti í hans garð og ritstjóra Eyjunnar finnst þetta merkilegt allt saman og gerir mikið úr.

Af hverju má ekki gagnrýna Egil? Egill er ekki óskeikull frekar en aðrir menn er það?. Hver eru efnisatriðin? Er það sérstakur glæpur í sjálfu sér að vera ósammála Agli og benda á hvernig hann snarsnýst í skoðunum af ástæðum sem ekki eru alltaf ljósar?

Egill er opinber starfsmaður og þiggur laun frá okkur öllum til að halda úti sjónvarpsþætti sem fjallar um þjóðmál og pólitík í víðum skilningi í hinu hlutlausa ruv.is. Hann heldur úti gríðarvinsælu bloggi og hefur skoðanir á flestu. Til eru þeir sem voga sér að benda á að hann dregur taum ákveðinna skoðana og stjórnmálaflokka. Af hverju má ekki ræða það?

Stuðningslið Egils er með gagnrýnendur hans á heilanum og eyða engu púðri í málefnalega afstöðu og umræður. Hvernig væri að taka þátt í pælingunum i stað þess að fá sífelld krampaköst yfir þvi hver setur gagnrýnina fram og hversu oft eða hvar.

Þetta væl er óþarft og ómálefnalegt.

Röggi

þriðjudagur, 17. ágúst 2010

DV

DV breytist lítið. Grundvallaratriðið saklaus uns sekt er sönnuð telur ekki á ritstjórn Reynis Traustasonar frekar en fyrri daginn. Maður nokkur situr í yfirheyrslum vegna morðs og ritdónarnir á DV eru með mynd af honum öllum til sýnis.

Ég þekki ekki marga sem ekki skilja hversu tært dæmi svona "blaðamennska" er um siðleysi. Einhverjir hafa þóst sjá breytingar á blaðinu hans Reynis en hér fellur DV gersamlega á prófinu.

DV vinnur eftir prinsippi sem dómstóll götunnar nærist á. Ritstjórn DV telur sig þess umkomin að dæma þennan mann. Hvað hefur þetta fólk lært af Geirfinnsmálinu? Meira að segja játningar eru engin ávísun á ákæru og það geta virtustu réttarmeinafræðingar og sagan kennt okkur.

Sekur uns sakleysi er sannað er eitthvert ömurlegasta prinsipp sem blaðamaður getur burðast með.

Röggi

sunnudagur, 15. ágúst 2010

RÚV klúðrar bikarútsendingu

Nú er nýlokið bikarúrslitaleik kvenna í fótbolta.Stærsti viðburður hvers tímabils í öllum greinum. Í gær léku strákarnir og þetta er stór helgi fyrir þá íþróttamenn sem spila þessa leiki. Auðvitað er þetta sjónvarpsviðburður....

Og gamla RÚV hefur réttinn til sýninga á kvennaleiknum. Nú brá svo við í dag að ekki reyndist tími til að klára að sýna verðlaunaafhendingu sem hafn var. Í gær var útsendingin teygð svo lengi sem einhver fékkst til að ræða við fréttamenn eftir afhendinguna og stemningin komst glæsilega til skila í sófann minn.

Hver tekur svona ákvörðun? Fyrir mig er þetta virðingarleysi við stelpurnar og áhorfendur. Hvernig hefði verið tekið á framlengingu að ég tali nú ekki um tímafreka vítaspyrnukeppni?

RÚV skuldar skýringu á þessari furðuákvörðun.

Röggi

föstudagur, 13. ágúst 2010

Gylfa verður fórnað

það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Gylfi Magnússon núna. Hann er ekki stjórnmálamaður í sinni tærustu mynd og nú þegar hann liggur vel við höggi hefur hann því ekkert bakland. Fátt mun því verða honum til bjargar enda ekkert kjördæmi í hættu þó honum sé fórnað.

Gylfi var auðvitað ekki í góðri aðstöðu til þess að básúna þetta lögfræðiálit á sínum tíma. Um málið ríkti réttaróvissa og allt hefði farið á hvolf hefði hann talað. Og hvað ef niðurstaða dómstóla hefði orðið á hinn veginn...?

Hann hefur hins vegar komið sér í afleita stöðu núna með þvi að reyna að bulla sig út úr málinu og hinir hefðbundnu stjórnmálamenn og flokkar munu ekki reyna að verja hann. Í því er bæði fegurð og ljótleiki.

Við sjáum alveg bráðónýta ráðherra njóta verndar langt umfram það sem nokkur maður skilur. Gylfi Magnússon verður því afar hentug fórn fyrir þessa afleitu ríkisstjórn að færa þjóðinni á þessum tímapunkti.

Röggi

Eiður Smári

Íþróttafréttamenn er í fýlu út í Eið Smára. Hann vill ekki vera almennilegur og tala við þá. Auðvitað er það verra enda hefur hann skyldum að gegna í þessum efnum. Ekki gott að sniðganga fjölmiðla og ef hann þarf andrými væri skynsamlegt hjá honum að biðja um það.

Við viljum öll að honum gangi vel enda okkar besti maður en hann getur ekki skorast þegjandi og hljóðalaust undan því að tala við okkur þegar honum hentar. Kannski vill Eiður að helstu fréttir sem við fáum af honum séu djammsögur og viðtöl tekin í gríngolfmótum. Eða sprell með Audda og Sveppa....

Eiður Smári er greinilega með vindinn í fangið núna. Hann ætti frekar að sækja sér styrk hingað heim heldur en hitt.

Röggi

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Kögunarhóllinn og þrískipting valds

Ég er dálítið sérstakur með það að hafa eindreginn áhuga á þrískiptingu valds. Ég hef burðast með þetta síðan Vilmundur Gylfason tók það mál upp á sína arma. Þeir sem fóru með völdin þá fussuðu og þeir sem hafa farið með þau síðan hafa fundið öllum hugmyndum um þessa þrískiptingu allt til foráttu.

Fólk sem ég ber virðingu fyrir segir mér stundum að ég misskilji málið. Okkar kerfi bjóði helst ekki upp á svona lagað. Ég man ekki í augnblikinu hvað þær heita skilgreiningarnar á fagmáli og mér er í raun sama. Þrískipting valds er ekki eitthvað ofan á brauð. Skiptingin er grunnatriði í okkar stjórnarskrá og ekkert samningsatriði.

Ef systemið okkar passar ekki utan um þrískiptingu valdsins þá þarf að breyta systeminu en ekki öfugt. Þorsteinn Pálsson er einn besti rýnir okkar i dag og skrifar læsilegasta texta allra. Hann var að tæpa aðeins á þessu máli af kögunarhóli sínum í Fréttablaðinu.

Tilefnið var hugmynd Samfylkingar um að ráðherrar flokksins ættu ekki að sitja á þingi en það gera þeir reyndar enn. Þorsteinn er ekki hrifinn af þessu og telur að þetta myndi ekki styrkja stöðu þings gagnvart framkvæmdavaldinu og myndi auk þess auka á ójafnvægi milli meiri og minnihluta þings ef ég skil hann rétt.

Vel kann að vera að þetta sé rétt enda held ég að það eitt að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn dugi hvergi nærri til þess að skilja að framkvæmda og löggjafarvald. Það "lúkkar" kannski vel en dugar ekki.

Kjósum framkvæmdavaldið, forseta eða forsætisráðherra, beint og löggjafann í öðrum kosningum. Framkvæmdavaldið sæi ekki ekki um að setja lög, skipa dómara og svo framvegis enda gerir stjórnarskráin ráð fyrir að svo sé ekki.

Ég veit að þetta er stórt mál og að mörgu er að hyggja ef við viljum færa þetta til betri vegar hjá okkur. En af hverju ekki? Voru menn að grínast þegar þetta var sett í stjórnarskrá? Er það kannski hluti af endurskoðun hennar að hverfa frá hugmyndum um þrískiptingu valds af því að það er flókið?

Ég hvet Þorstein Pálsson til að setja saman grein um þrískiptingu valds, kosti þess að skerpa á henni af hverju við höfum sleppt því að praktisera hana.

Röggi

mánudagur, 9. ágúst 2010

Kosningar eina leiðin.....

Hún er mögnuð undiraldan í pólitíkinni núna. Allir vita að ríkisstjórnin er tæknilega búin að vera en þetta er eins og í sovét í gamla daga, menn reyna að þræta og halda andliti alveg fram í dauðann sjálfan.

Í raun merkilegt hversu vel tekst að halda því sem er að gerast undir yfirborðinu en það helgast fyrst og fremst af því að fjölmiðlar hafa ekki áhuga á að vera að ónáða þessa ríkisstjórn. Þetta er jú búsáhaldastjórnin eftir allt....

Illa duldar hótanir og daður Lilju Mósesdóttur við Hreyfinguna eru til þess fallnar að fá menn ofan af þeirri hugmynd að reyna að fá Framsókn til liðs við hina andvana ríkisstjórn.

Á meðan á þessu stendur dedúa ráðherrar við sín gæluverkefni án afskipta verkstjórans Jóhönnu hvort heldur sem þau snúast um að eyðileggja fyrir allri framþróun eða að ráða vini sína baneitraða til starfa og þá allra helst án þess að auglýsa. Nú má bara ekki vera að slíku fíneríi....

Svo birtast hagfræðingarnir á næstu dögum með tillögur sínar um uppsagnir opinberra starfsmanna í stórum stíl og helst frystingu launa þeirra sem eftir verða. Benda svo VG á að svigrúm til skattahækkana er fyrir löngu sprungið. Þá springur allt endanlega og meira að segja þeir sem reynt hafa að sannfæra sjálfa sig um að þetta sé eini möguleikinn við landstjórnina munu sjá ljósið.

Kosningar gott fólk. Kosningar.....

Röggi

fimmtudagur, 5. ágúst 2010

Egill Helgason í dag

Stundum er gaman að Agli Helgasyni og í dag skrifar hann spunagrein um krísur stjórnmálaflokka. Allt er gott um það að segja en hvernig hann getur komist hjá því að nefna Samfylkinguna þar á nafn er mér hulin ráðgáta...og þó, hvernig læt ég?

Röggi

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Árni Páll úr leik

Og ég sem hélt að Árni Pall væri mögulega næsti formaður Samfylkingarinnar? Ekki algerlega vegna þess að hann væri þess verður heldur ekki síður vegna þess að hann er einn örfárra sem hefur sýnt því áhuga og hafði það fram yfir hina að hafa ekki gert stórlega í buxurnar alveg nýverið.

það er sorglegt þegar "hæfasti" maðurinn er ónýtur. Ég efast ekki um að Runólfur Ágústsson yrði afburðafinn umboðsmaður skuldara. Trúverðuleiki manna fæst ekki keyptur í kaupfélaginu á horninu og það er ekki nóg að ráðherra bara viti að hann sé bestur og auk þess í réttum flokki.

Ég þekki ekki viðskipti Runólfs öðruvís en þau eru sögð og deili að einhverju leiti með honum áhyggjum af því hvernig mórallinn er almennt gagnvart þeim sem stundað hafa viðskipti. Það sem hér virðist undarlegt er að ráðherra þekkti söguna alla en lætur eins og þannig sé það ekki enda hefur hann nýtt sér þjónustu Runólfs víðar og vel og ekki látið þessa vitneskju trufla sig. Slysalegt sjálfsmark Árna Páls..

En Árni Páll situr væntanlega í stólnum sínum áfram eins og ekkert hafi í skorist og meira hefur nú gengið á í ríkisstjórn Jóhönnu án þess að það hafi haft afleiðingar en þessi smáræðis trúnaðarbrestur ráðherra við allt og alla.

Og hann heldur áfram að byggjast upp kvíðinn hjá Samfylkingunni. Kvíðinn fyrir kosningunum óhjákvæmilegu. Og kvíðinn vegna formannskrísunnar sem engan endi ætlar að taka.

Í dag heltist enn kandidatinn endanlega úr lestinni.....

Röggi