miðvikudagur, 30. desember 2009

Hjaltalín

.....og auk þess mæli ég með því að fólk kaupi sér diskinn með Hjaltalín.

Þvílík ropandi snilld.

Svavar svívirðir löggjafarþingið

það er borin von að erlend ríki og þjóðarleiðtogar beri virðingu fyrir stjórnskipan hér landi þegar embættismenn eins og félagi Svavar Gestsson gerir það ekki. Gamli pólitíkusinn bara mætir ekki þegar honum ber að mæta til fundar við fjárlaganefnd. Er þessi embætismaður ekki á fullum launum hjá mér og þér og hefur hann ekki unnið sér það til frægðar á þessu ári að semja um Icesave? Í siðuðu þjóðfélagi þyrfti þessi karl nú að leita sér að annarri vinnu en hjá almenningi.

En kannski er gamla kommanum vorkun. Hann er því auðvitað ekki vanur að eitthvert lið niðri á þingi sé með moðreyk eða eftirgrenslan. Svavar er auðvitað í vinnu fyrir framkvæmdavaldið og því valdi kemur nú lítið við hvað löggjafanum finnst.

Við sjáum svona tilburði æ ofan í æ og erum flest bara hætt að taka eftir því eða er kannski bara alveg sléttsama. En okkur má ekki vera sama. Nú er rétti tíminn til að breyta þessu eins og svo mörgu öðru. Nú er lag....

Röggi

Ögurstundirnar

Nú líður að ögurstund í Icesave málinu. Flestir eru líklega hættir að nenna að setja sig inn í það mál lengur og vona bara að það hverfi einn daginn. það gerist því miður ekki og málflutingur þeirra sem klúðruðu því máli verður lengi í minnum hafður.

Allt frá því að félagi Steingrímur sagði þjóðinni að von væri á glæstri niðurstöðu samninga hefur málinu verið klúðrað og klúðrað svo aðeins meira. Málið er erfitt og snúið en við höfum ekki haft stjórnmálamenn með styrk og þor til að horfa framan í viðsemjendur okkar og því er staðan eins og hún er.

Góðir menn á þingi settust niður og náðu að lemja inn í klúðrið fyrirvara sem hver einasti maður virtist skilja að væru algerlega nauðsynlegir. Stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum þurfti meira að segja að reyna að eigna sér umbæturnar með blaðri um að undir engum kringumstæðum mætti hvika frá fyrirvörunum.

það verður súrrealískt að fylgjast með Ólafi reyna að þvaðra sig i gegnum undirskriftina. Óafur er ólíkindatól og ég hef hugsað hvort honum gæti dottið í hug að skrifa ekki undir til þess að vera sjálfum sér samkvæmur og marktækur og ekki síður til að reyna að hífa upp löngu horfnar og óverðskuldaðar vinsældir. Ekki miklar líkur ha.....

Vesalings Þráinn Bertelsson ætlar að hafa það sitt eina verk á þingi að henda út fyrirvörunum góðu. Hvernig hann hefur týnt sér sjálfum eftir að hann settist á þing er ótrúlegt. En ekki kannski svo ófyrirséð...

Og það var algerlega ófyrirséð hvernig Steingrímur hefur umpólast. Hann hefur ekki einu sinni styrk til að reyna að verja fyrirvarana sjálfa. Maðurinn hlýtur reyndar að vera orðinn örmagna enda einn með málið í fanginu og samstarfsflokkurinn lamaður og á fullu stími í sínum eigin málum sem ganga reyndar þvert á það sem VG getur sett stafi sína undir.

Helstu rök ríkisstjórnarinnar virðast þau að nú sé verið að þrífa upp eftir aðra og því sé fullkomlega eðlilegt að klúðra málinu duglega! Steingrímur tekur síðan upp á því núna að ryfja upp afstöðu sína til inngöngu í ESB til að friða baklandið í flokknum en nýleg saga segir okkur að slíkar yfirlýsingar af hendi formanns VG halda hvorki vatni né vindi þegar á reynir.

Mér er eiginlega hulin ráðgáta hvað heldur þessari ríkisstjórn saman og það þrátt fyrir að ég taki með í reikninginn þrána eftir ráðherrabílum. Hún er þrotin að kröftum og hugmyndum enda þessir tveir flokkar eins langt frá hvor öðrum í stórum málum og hægt er.

Líf þessarar rikisstjórnar er ein stór ögurstund....

Röggi

þriðjudagur, 15. desember 2009

Álfheiður laus við iðrun

Álheiður Ingadóttir sér sko ekki eftir því að hafa stutt lýðinn sem reyndi með ofbeldi að ráðast inn á lögreglustöð til að "frelsa" einstakling sem hafði verið handtekinn í mótmælum á síðasta ári.

Enda hafi þetta allt borið árangur. Konan ruglar með hugtök og skilur ekki grundvallar reglur réttarríkisins. Hún telur að það sem hún kallar borgaraleg óhlýðni sé dyggð en borgarleg hlýðni sé skraut eða eitthvað ofan á brauð. Tilgangurinn helgar alltaf meðalið.

Hún tilheyrir hópi tækifærissinna sem telur að mótmæli eða stuðningur við tiltekinn málsstað veiti sjálfkrafa rétt til lögbrota bæði gegn valdstjórninni og öðrum borgurum. Ég hef aldrei skilið hvernig málsstaður það er sem krefst þess að fólk beiti ofbeldi. Ghandi er gleymdur hjá þessu fólki.

Látum vera að fólk safnist saman og brenni Norsk jólatré eða öskri sig máttlaust í reiði. Auðvitað má ekki með nokkrum hætti hefta rétt borgarana til að tjá skoðanir sínar hvort sem er í stærri hópum eða smærri enda er það ekki gert hér á landi, öðru nær.

En það má gera kröfu um að fólk virði líka rétt annarra til að hafa aðra skoðun. Og það má líka gera kröfu til þess að menn brjóti ekki gegn lögreglunni sem ekki gerir annað en að vinna vinnu sína. þetta er ekki frekja og þessar kröfur ganga í engu gegn rétti fólks til að tjá skoðanir sínar.

Fólk sem telur að ofbeldi bæti málsstað sinn er á villigötum. Og fólk sem telur eðlilegt að trylltur lýður ráðist inn á lögreglustöð er algerlega óhæft til að gegna trúnaðarstörfum fyrir mig. það liggur ekki í því að við Álfheiður Ingadóttir erum á sitthvorum kantinum í pólitík. Það liggur í grundvallaratriðum sem enginn vill í raun fórna. Nema þegar það hentar og þá aðeins um stundarsakir...

Álfheiður Ingadóttir er ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Röggi

mánudagur, 14. desember 2009

Arni þór og fundarstjórn forseta

Ég datt fyrir misskilning á milli mín og fjarstýringarinnar á sjónvarp frá alþingi. Þar stóð á skjánum að umræður um fjárlög stæðu yfir. En þingmenn höfðu séð ástæðu til að ræða fundarstjórn og það mun vera þeirra réttur.

Áratugum saman hafa þingmenn komist upp með allskonar trix í þinginu til að berjast, stundum fyrir góðum málstað, með æfingum og útúrdúrum eins og að ætla ræða fundarstjórn en gera það svo alls ekki.

Í kvöld var Árni Þór Sigurðsson forseti þingsins að gera sitt besta til að fá þingmenn til að halda sig við efnið. Mér sýndist vera komin talsverð kergja í alla aðila málsins og ég veit ekki af hverju það var en pirringurinn var augljós og forseti sakaður um að hygla stjórnarliðum og það sýndist mér hann reyndar gera. En það var ekki það sem ég tók eftir...

Ég var harðánægður með að Árni Þór skyldi reyna að fá þessa samkomu til að virka. Virðingin fyrir stofnuninni þolir alveg andlitslyftingu og í mínum huga stóð Árni Þór þarna í ströngu og það með réttu og þingheimur stórmóðgaður og ekki vanur slíkri "framkomu" forseta.

Ég veit ekkert hvort einhver vinna í nefndum og svik eða ekki svik á milli fylkinga í þinginu blandast inn í þetta eða ekki. En ég veit að í mínum huga á forseti þings að sjá til þess að menn vinni eftir þeim reglum sem gilda og sjá til þess þingheimur haldi sig við fyrirliggjandi verkefni.

það fannst mér Árni Þór vera að reyna. En af viðbrögðunum að dæma eru þingmenn ekki vanir slíku.

það finnst mér verra...

Röggi

sunnudagur, 13. desember 2009

DV og alvöru fjölmiðlun.

Nú ætla ég að tala um fjölmiðil. DV er gul pressa í hugum flestra og virðingin sem borin er fyrir blaðinu í samræmi við það. Þannig er það bara og engin þrætir í raun fyrir það. Hreinn Loftsson á það og rekur og ræður menn eftir því hvernig hann vill að þeir skrifi og hann ber því fulla ábyrgð á skrifum þess. Hann og vinir hans í hópi útrásarvíkinga. Þetta fólk er allt mjög trúverðugt eins og þekkt er og hefur ekki vílað fyrir sér að nota fjölmiðla sína.

Hreinn þessi hefur reyndar alltaf þrætt fyrir að hann og rekstur DV tengist Jóni Ásgeir með nokkrum hætti. Rétt upp hönd sem trúir því! Einhverntíma var sagt að Hreinn hafi farið til útlanda til að bera fé á Davíð Oddsson fyrir þennan sama Jón. Hver trúir því ekki í dag...? Svona skrif eru vissulega svolítið DVleg er það ekki og næstum þvi óþolandi?

Hreinn þessi Loftsson er með Reyni Traustason í vinnu við að skrifa blaðið sitt. Reynir veit hvernig best er að standa að þeirri vinnu. Frægar upptökur af samtali hans við starfsmann sinn segja allt um það hvernig samskipti eiganda DV við ritstjórann sinn fara fram.

Núna hefur klíkan ákveðið "að taka Bjarna Ben niður" eins og það heitir á fagmáli DV manna. Þá eru endurteknar fullyrðingar í blaðinu um að Bjarni sé útrásarvíkingur og sukki með fé í slagtogi við vonda menn. Þetta er endurtekið alveg óháð skýringum sem gefnar eru. Þessi aðferð er alþekkt og svinvirkar stundum sérstaklega í höndum sérfróðra fagmannna eins og hér er um að ræða.

Það stendur ekki upp á Bjarna að afsanna söguna. Það er skylda DV að sanna sitt mál. þannig er alvöru fjölmiðlun en ég er kannski fullbrattur að gera slíka kröfu á hendur DV.

Röggi

þriðjudagur, 8. desember 2009

Gunnar Helgi tjáir sig um undirskrift forsetans.

Gunnari Helga Kristjánssyni tókst að gera mér til geðs í speglinum eftir fréttir í kvöld. Hann kom mér þægilega á óvart þegar hann sagði forsetann vart geta annað en synjað undirskrift Icesafe laganna vilji hann láta taka eitthvert mark á sér og vera sjálfum sér samkvæmur.

Þetta vita allir auðvitað en fáir búast við að Ólafur láti smámuni sem þessa trufla sig þegar kemur að því að hann finni sig knúinn til að iðka stjórnmál frá Bessastöðum. Sagan vinnur ekki með karlinum í þessum efnum.

Kannski bjarga óhlýðnir stjórnarþingmenn Ólafi frá hneisunni í þetta skiptið...

Röggi

Tölvupóstarnir.

Vissulega er það vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina að slúðurnetsíður úti í heimi þurfi að upplýsa þing og þjóð um samskipti aðstoðarmanns Steingríms við AGS korteri fyrir kosningar.

Reyndar heyrðist mér félagi Össur segja í þinginu í gær að hér væri alls ekki um leyndarmál að ræða. það hefði bara enginn spurt! Hér er öllu snúið á haus og ekki betur séð en að ráðherrann telji þá að sofandahætti andstöðunnar sé um að kenna málið komst ekki á hámæli rétt fyrir kosningar. Óþefinn af málinu leggur til himins svo að í öll vit svíður.

Fréttin er ekki bara að ekki var sagt frá heldur ekki síður hvað var rætt. Og, hvað var sagt í aðdraganda kosninga við kjósendur. Mér sýnist þeir skattabræður Steingrímur og Indriði skulda skýringar.

Röggi

miðvikudagur, 2. desember 2009

Ráðherraábyrgð og kerfisvandi.

Nú styttist í skýrslu rannsóknarnefndar þingisins. Flest berum við miklar væntingar til þessarar vinnu og margir vilja sjá blóð renna í kjölfarið. Menn tala um ráðherraábyrgð og hvort einhverjum ráðherrum verði hugsanlega refsað fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi.

Þá kemur til kasta þingsins en nefndin er ekki dómstóll eins og margir virðast halda. Þingið mun þurfa að taka ákvörðum um þetta efni. Dettur einhverjum í hug að þingið ráði við það? Líklega ekki en vilja menn spyrja af hverju?

það er vegna þess að framkvæmdavaldið ræður ríkjum í þinginu en það er einmitt þetta sama framkvæmdavald sem hugsanlega þarf að refsa. Löggjafinn sem þarf að komast til botns í því hvort ráðherrar skuli sæta ábyrgð mun ekki eiga nokkra möguleika á því vegna þess að ráðherrar núverandi og fyrrverandi munu hefja styrjöld ásakana í þinginu með öllu tilheyrandi.

Og enginn verður þá niðurstaðan önnur en sú að virðingin fyrir þessari afgreiðslustofnun ráðherranna mun minnka enn frekar ef til þess er þá enn eitthvert svigrúm. Og enginn sætir ábyrgð.....

Allt ber að sama brunni þegar við ræðum um þingið okkar, þessu gömlu og virtu stofnun. Við verðum að fara að þrískipta valdinu eins og stjórnarskráin kveður á um og koma framkvæmdavaldinu út úr þinginu og út úr ákvörðunum sem það á ekki að véla um.

Við getum skipt út persónum og leikendum frá einum kosningum til annarra en kerfisvandinn hverfur ekki við það.

Er ég eini maðurinn sem sér þetta?

Röggi

þriðjudagur, 1. desember 2009

Ólína og þreytandi löggjafarþingið.

Ég hlustaði á Ólínu Þorvarðardóttur spjalla við Sif Friðleifsdóttir í morgunþætti rásar 2 í morgun um Icesave málið og fleira. Mér fannst gaman að heyra Ólínu nota einmitt þau orð um Icesave sem eiga við þó hún hafi snúið þeim upp á þá sem vilja fara aðra leið en Samfylking í málinu.

Málið er svo stórt og svo alvarlegt að ekki er hægt að kasta til hendinni eða að láta eins og nýjar upplýsingar skipti bara engu máli. Hvernig i veröldinni stendur á þvi að ráðherrar úr aðgerðaleysisríkistjórninni hafa ekki brugðið undir sig betri fætinum og farið á fund manna sem hafa á meðan þeir svínbeygja okkur haldið því fram annarsstaðar að þeir hafi til þess engan rétt?

Ólína og hennar fólk í ríkisstjórninni steig í pontu og talaði tárvott um að nú hafi þingið okkar sett sanngjarna og eðlilega fyrirvara við samkomulagið í sumar. Frá þeim yrði ekki hvikað og þingið myndi sjá til þess. Þeir sem hæst fóru vísuðu í langa sögu þings og lýðræðis sem nú hefði talað. Einhugur ríkti...

Vissulega hafa embættismenn þjóðanna talað sim rænulausa um málið mánuðum saman en við höfum erfiða reynslu af þeim viðræðum og undirskriftum þannig manna. það er á hinum pólitíska vetfangi sem við höfum brugðist. Jóhanna og Steingrímur hafa verið upptekin hér heima, ég veit ekki við hvað, og ekki séð sér fært að beita sér augliti til auglitis. Það mun ekki gleymast.

Vissulega hlýtur að vera þreytandi fyrir ríkisstjórnina að löggjafinn hafi áhuga á að ræða stöðuna og því líklega best að taka annað hvort ekki þátt eða að hrópa á torgum um málþóf og lýðskrum. Hið hrokafulla framkvæmdavald Samfylkingar og VG verður bara að þola það að þingið skuli andæfa þegar svona er komið.

Þingið á að gera það og þingið á að reyna að tryggja að ríkisstjórnir geti ekki svívrt ákvarðanir sem löggjafinn hefur tekið eins og nú er þegar fyrirvararnir við Icesave samkomulagið eru meira og minna felldir út.

Leynital Steingríms við formenn flokka sem ekki mega segja þjóðinni um hvað snýst er sérlega pínlegt úr munni hans. Tími ríkisleyndarmála af þessu tagi var liðinn hélt ég en hann er kannski bara runninn upp aftur. Öðruvísi mér áður brá.

Endilega segið okkur þjóðinni það sem þið vitið kæra ríkisstjórn svo við megum betur skilja af hverju þið eruð að lyppast niður varnarlaus í Icesave málinu. Og ekki mæta í útvarp til að kvarta undan þvi að löggjafinn vilji ræða málið.

Það er bara eitthvað svo 2007....

Röggi