miðvikudagur, 26. desember 2012

Fangavarða andúð Evu

Eva Hauksdóttir er firnaskemmtilegur pistlahöfundur. Hefur skemmtilegt sjónarhorn og stíllinn er brattur. 

Núna skrifar hún pistil um þá ákvörðun um að setja strokufangann á litla hrauni í einangrun. Flottur pistill og ég er viss um að margir hafa mikla samúð með því sem hún hefur fram að færa.

Eitt stingur mig þó. Það er þegar höfundurinn fer að runka sér ósmekklega  á andúð sinni á fangavörðum af þessu tilefni. Allir vita þó að fangaverðir tengjast þessu máli hreint ekkert.

Þeir hafa ekkert með málið að gera. Bara alls ekkert. 

Merkilegt.....

Röggi

föstudagur, 21. desember 2012

Lögreglan

Mér finnst eins og lögreglumenn og fulltrúar löggæslu hafi frá upphafi vega talað um að verulega vanti upp á að nægilegt fé sé til umráða. Það er án efa laukrétt.

Runólfur Þórhallsson varðstjóri skrifar fína grein um þessi mál. Þar dregur hann upp heldur dökka mynd. Margt sem að málaflokknum snýr er, ef eitthvað er að marka pistilinn, í skötulíki hjá okkur.

Ég er sammála Runólfi þegar hann segir að fyrsta skylda hvers samfélags sé að tryggja öryggi borgaranna. Það gerum við ekki með því að setja málið til hliðar, ekki einu sinni á niðurskurðartímum.

Ég hef skrifað um það ítrekað að ég tel að þeir sem hafa það það í sér að grafa undan þeim sem sjá um lög og rétt í hverju samfélagi eru að gera mikið ógagn.

Búsáhaldabyltingin dró fram fólk sem sumt telur að störf lögreglu séu í eðli sínu meira og minna ofbeldi. Ábyrgðarmenn þeirrar byltingar gerðu fátt til þess að stöðva ofbeldi borgaranna sjálfra, gagnvart laganna vörðum sem ekki gerðu annað en að sinna störfum sínum af fagmennsku, eða þeirra umbjóðendum. 

Sem er alltaf þjóðin sjálf hvorki meira né minna og sú löggjöf sem lýðræðið setur okkur. Tilraunir til þess að rjúfa þennan sáttmála er ógnun við grunnstoðirnar. Í þannig andrúmi mun smátt og smátt verða rof í skilningi á mikilvægi lögreglunnar og dómstóla. 

Við það vill auðvitað enginn kannast en ég tel mikinn skaða hafa hlotist af því hvernig ýmsir hafa leyft sér að tala.

Ekki er mjög langt síðan alltof margir gerðu stólpagrín að Birni Bjarnasyni þegar hann í sinni ráðherratíð vildi gera veg lögreglu meiri. Stofna sérsveit og tala um skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk í Íslensku samhengi. Það grín var ekkert fyndið og er ekki fyndið.

Sumt af því fólki fer nú beint eða óbeint með völd í okkar samfélagi í dag. Ég ætla þó helst ekki að gera fólki það upp að hafa ekki raunverulegan áhuga á að efla og styrkja lögregluna. 

Auðvitað vill enginn að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum hér á landi. 

Við viljum að lögreglan sé sýnileg og okkur til aðstoðar hvar sem er, öllum stundum sólarhrings. 

Við viljum að til þessara starfa veljist einvalalið karla og kvenna.

Og við viljum ekki ala börnin okkar upp í því hugarfari að laganna verðir séu ofbeldismenn þegar þeir vinna vinnuna sína.

Við þurfum að spyrja okkur að því hvort við teljum að gott lögreglulið detti af himnum ofan þegar við teljum okkur þurfa á þeim að halda, fyrir lítinn pening helst.

Röggi
miðvikudagur, 19. desember 2012

Drullumall rétttrúnaðarins

Sjaldan hefur hið nýja rétttrúnðarland, Ísland, opinberast eins rækilega og í kringum stjórnarskrármálið. Stjórnalagaráð átti að vera merkisberi nýrra tíma. Glæst merki þess að byltingin hafi skilað okkur fram veginn.

En þannig hefur það varla orðið. Vandræðagangur málsins, allt frá ömurlegri þátttöku þjóðarinnar þegar valið var í ráðið, til þess að stjórnmálamenn aftengdu réttarríkið og skipuðu ólöglega kosið ráð, er ekki til að styrkja ferlið.

En gott og vel. Þeir gerðu það og gátu rétt eins og aðrir stjórnmálamenn sem misnota vald sitt og við lesum stundum um í erlendum blöðum og hneykslumst stórum.

Og ráðið tók til við að smíða ráðgefandi tillögur að breytingum. Ráðgefandi tillögur sjáðu til kæri lesandi, til handa löggjafanum.

Þegar þær koma fram og um þær er kosið líta sumir hinna sérvöldu fulltrúa ráðsins svo á að ekki megi hrófla við þessum tillögum í meðförum löggjafarvaldsins. Og til vara að athugasemdirnar komi of seint. Of seint fyrir hvern spyr ég?

Nú er það þannig að nokkrir þeirra sem sátu í þessu ríkisskipaða ráði gera hverjum þeim sem hefur eitthvað við tillögurnar að athuga upp annarlegar hvatir. 

Þorvaldur Gylfason og Þórhildur Þorleifsdóttir fara mikinn í þessu. Þau vita sannleikann og hafa á honum einkarétt. Þeir sem ekki gangast undir þeirra sannleika eru að ganga erinda vondra manna. 

Rökræður hafa á þeim fjórum árum sem ríkisstjórn byltingarinnar hefur setið átt undir högg að sækja. Það sem hefur fengið aukið stóraukið vægi er pólitísk stöðutaka. Og svo er unnið þaðan og þeir sem eru ekki samferða þurfa að verja þá hegðun fyrir erindrekum sannleikans.

Í þessum falla alls konar múrar. Menn sem hingað til hafa þótt afburða fagmenn fræðilegir þykja nú skyndilega handónýtir kerfiskallar með dulin markmið og skemmandi.

Slíkum sleggjudómum er að jafnaði ekki fylgt eftir með neinum hætti né reynt að sýna fram á hverjir hagsmunir þeirra sem ekki eru sannfærðir geti verið, aðrir en faglegir.

Stjórnmálamenn sem alla jafna geta ekki samþykkt að færa til steinvölu fyrr en fagmenn hafa gert rannsóknir og kannanir mega nú ekki til þess hugsa að smámunir eins og úttektir hlutlausra fræðimanna og stofnana "tefji" málið.

Eins og í sumum öðrum góðum málum eru þeir sem rífa mestan kjaft og tala stærst hægt en örugglega að fara með málið. Kannski finnst einhverjum áköfum fylgismönnum tillagnanna gaman að hlusta á þau Þorvald og Þórhildi lesa þeim pistilinn sem ekki standa gapandi án gagnrýninnar hugsunar.

En það er Þórðargleði. Þessi aðferð til að ræða saman er eyðileggjandi þó hún geti glatt viðhlægjendur í matarboðum á meðan en er eitthvað á borðum.

Langtímaáhrifin af þessu eru þau að málið lamast. Það festist í drullusvaði þeirra sem ekki hafa þrek og styrkt til þess að takast á um það. Á endanum snýst umræðan minna og minna um það sem skiptir máli en mest um leðjuna.

Svona nálgun er alger uppgjöf. Og langtímaáhrifin eru þau að þjóðin missir áhuga. Enn eitt málið sem festist í öfgum pólitískum og kafnar í eigin leiðindum þar sem eigendur hinna réttu skoðana taka til við að níða niður skóinn af þeim sem ekki kunna að skilja.

Hættum að hylla þessu lukkuriddara rétttrúnaðarins. Hömpum þess í stað þeim sem þora að vera málefnalegir og fögnum þeim sem vilja rökræðuna. 

Hættum að leyfa fólki eins og Þorvaldi og Þorhildi að draga málið niður í svað sem við erum orðin svo þreytt á. 

Röggiþriðjudagur, 18. desember 2012

Flóttinn

Hvenær eru ríkisstjórnir í raun fallnar? Sú sem nú situr hreinlega kann ekki að falla. Flokkarnir sem hana mynda hanga saman á einhverju áður óþekktu lími.

Nýjasta nýtt í stöðunni er að Jón Bjarnason burtrekinn ráðherra VG myndar meirihluta með stjórnarandstöðu í utanríkismálanefnd um þá tillögu að setja aðildarviðræður við ESB á ís.

Nú gætu einhverjir sagt að þetta sé týpískur Jón Bjarnason og haldið áfram sínum störfum. En er þetta þannig? Einmitt vegna þess að þetta er týpískur Jón vaknar sú spurning af hverju hann er settur í þessa stöðu af formanni sínum, Steingrími Sigfússyni.

Flóttinn er hafinn. Flótti flokkanna sem mynduðu þessa vonlausu stjórn. Nú taka þeir sig til og reyna að lágmarka skaðann. Ná aftur í sérstöðu sína. Á meðan Össur fagnar opnun nýrra kafla í viðræðum okkar við ESB er VG að róa af fullum þunga í gagnstæða átt.

Skrípaleikur.

VG þarf að sanna það fyrir sjálfur sér og öðrum að þeir séu VG en ekki bara  ráðherraævintýri fyrir Steingrím Sigfússon. Þá er ekki úr vegi að stökkva til og fara að vera á móti aðildarviðræðum við ESB. Í verki vel að merkja.

Héðan af er engu að tapa fyrir þessa flokka. Engum dettur í hug að þeir muni starfa saman aftur, líklega um langa hríð. 

Þetta er bara rétt að byrja.

Röggi

Villta vinstrið

Nú húmar að hjá vinstrinu. VG og Samfylking þurfa ekki aðra óvini en hvert annað, þó vissulega mætti ætla annað miðað við það hvernig formenn flokkanna umgangast þá sem ekki eru fylgispakir og trúaðir innan sem utan flokka.


Menn virðast hafa skilgreint markmiðin þannig að allt, bókstaflega allt, sé til þess vinnandi að sitja i þessari vondu ríkisstjórn í fjögur ár.

Þau ár eru til blessunar að klárast og þá fer hver að bjarga sér sem betur getur. Samfylkingin þarf að finna sársaukalitla aðferð til að skera sig burt frá VG fyrir fullt og allt.

Það verður þrautin þyngri án þess að afneita um það bil öllu því sem ríkisstjórnin hefur gert og smyrja því á VG um leið og VG verður svo líka kennt um það sem ekki tókst að gera. 

Einnig þarf flokkurinn að velja Árna Pál sem formann. 

Árni Páll er ferskur og kraftmikill núna. Hann slapp tiltölulega snemma úr þeirri prísund sem veran í þessari ríkisstjórn er. Hann getur því látið vaða aðeins á súðum. 

Og það gerir hann og tal hans er eins og tónlist í eyrum kratanna sem hafa verið utangarðs á meðan gamla allaballagengið hefur rænt draumnum um stóra jafnaðarmannaflokkinn og jarðsett hann á undraskömmum tíma með bálhvassan meðvind frá vinstri í seglum.

Verði hann fyrir valinu er fyrirséð stórstyrjöld milli vinstri flokkanna þegar árin fjögur verða gerð upp.

Guðbjartur hins vegar er uppfærð útgáfa af Jóhönnu, þá sjaldan henni tekst að fela ólundina og óþolinmæðina til þeirra sem eru henni ósammála. 

Guðbjartur virkar prýðilega góður maður og áheyrilegur en óspennandi og hefur fátt nýtt fram að færa, auk þess sem hann telur það sniðugt að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en það er í besta falli barnalegt.

Hann er uppdubbaður fulltrúi þeirra sem ráða núna í flokknum. Ef klíkan sú hefði haft trú á því að einhver annar ætti mestan möguleika á að fella Árna Pál hefði Guðbjartur aldrei verið maðurinn. 

VG aftur á móti siglir sjó sem þeir örfáu kjósendur flokksins sem enn eru til, skilja lítið í. Þessir fáu hafa þó ákveðið eins og stuðningsmennirnir hinu megin víglínunnar, Samfylkingarmenn, að halda með ríkisstjórn en ekki pólitískri sannfæringu og lífsskoðunum.

VG þarf nú að grafa upp gömlu markmiðin á ný og koma þeim aftur í gagnið. Og vona að eitthvað sé eftir af trúverðugleika formanns sem yfirgaf stefnumið flokksins að flestu ef ekki öllu leyti, í skiptum fyrir ráðherrastól og völd.

Ríkisstjórnin er fullkomlega einangruð í hverju málinu á fætur öðru. Hún er að bíta alla af sér en lætur bara eins og það sé ekki að gerast, og eyðir restinni af orkunni í að tala um stjórnarandstöðuna og halda uppi almennu þrasi við allt og alla.

En bráðum breytist það og fyrrum samherjar taka til við að lumbra hver á öðrum á flóttanum undan verkum og verkleysi ríkisstjórnarinnar. Þau sár sem svíða nú þegar eru smáskeinur miðað við þau svöðusár sem enn á eftir að rífa ofan af. 

Röggifimmtudagur, 13. desember 2012

Er Gunnar Helgi með rangar skoðanir?

Búsáhaldabyltingin skall á þjóðinni með látum fyrir bráðum fjórum árum. Þá spratt fram fólk vopnað réttlátri reiði í kjölfar þess að bankakerfi heimsins riðaði til fals með ömurlegum afleiðingum fyrir okkur.

Lengi héldu margir að bylting þessi hefði verið sögulega stórmerkileg með allskyns skírskotunum í lýðræði og þjóðarvilja. Síðar kom svo í ljós að svo var ekki. 

Í vímunni sem fylgdi sigrinum yfir óvininum var talað um nýtt Ísland. Nýja orðræðu, nýtt samtal milli þjóðar og þings. Samræðan skyldi ræktuð. Virðing fyrir mismunandi skoðunum allsráðandi.

Ekkert af þessu hefur ræst. Í dag ræður rétttrúnaður öllu. Þeri sem ekki hafa réttar skoðanir eru brytjaðir niður án miskunar og helst ekki gerð tilraun til þess að rökræða. 

Öfgar eru málið. Feminisminn er að lenda í því að rétttrúnaðarofstæki er að taka hann eignarnámi. Herstöðvaandstæðingar fyrri tíma flýðu unnvörpum undan öfgafólki sem hertóku annars virðingarverðan málsstað. Það sama er að gerast með feminismann. Sagan endurtekur sig....

Einn merkilegur angi byltingarinnar var góður og heiðarlegur vilji margra til að gera metnaðarfulla tilraun til endurskoðunar á stjórnarskrá. Löggjafinn hafði að vísu gert breytingar á henni af og til en betur fannst mörgum að þurfti að gera.

Þá var blásið til sóknar og málið sett í farveg. Farveg sem mér og mörgum öðrum finnst hafa mistekist. Á þeirri vegferð tókst hinum rétttrúuðu að sannfæra sjálfa sig um að óþarft væri að taka mark á stofnun eins og hæstarétti sem hafði úrskurðað kosningar til stjórnlagaráðs ógildar. 

Hinir rétttrúuðu eru nefnilega vopnaðir sannleikanum og réttum málsstað. Og svo töfraorðinu sem er notað sem svipa á þá sem vilja rökræða, lýðræðinu.

Þeir sem vilja rökræða og koma fram með málefnalegar athugasemdir þurfa ekki að búast við öðru en að að þeim sé vegið persónulega og þeim gerðir upp annarlegir hlutir. 

Gunnar Helgi stjórnmálafræðiprófessor hefur margt við allt þetta ferli að athuga og kemur því skilmerkilega á framfæri. Fyrstu viðbrögð kollega hans úr fræðimannasamfélaginu, Þorvalds Gylfasonar, sem er vel að merkja dómari í eigin sök í þessu máli, eru dæmigerð.

Gunnar Helgi kann að ekki að hugsa um lýðræðið. Gunnar Helgi er einmitt að hugsa um lýðræðið. Ekki endilega vegna skoðana sinna heldur vegna þess að hann nýtir sér rétt sinn til þess að ræða málið. 

Gunnar Helgi verður seint sakaður um að vera vondur hægri maður. Né heldur nánast allt fræðimannasamfélagið sem hefur bent á ýmsa ágalla. En allt kemur fyrir ekki.

Þetta stórmál er fast í farvegi rétttrúnaðarfólks sem ætlar ekki að fást til þess að ræða neitt. Gagnrýni sama hvaðan hún kemur eða hvernig sem hún er framsett er afgreidd á einn hátt.

Á þann hátt að þeir sem ekki kunna að vera með rétta skoðun séu andstæðingar lýðræðis og þjóðarinnar. Punktur.

Ég held því fram hér að þeir sem ekki fást til þess að rökræða málið séu hinir raunverulegu andstæðingar opinnar umræðu og lýðræðis. Þetta stóra mál er ekki dægurþras.

Þetta snýst ekki að gera lítið úr þeim einstaklingum sem skipaðir voru til setu í stjórnalagaráði, öðru nær, og því óþarfi að taka athugasemdir sem fram koma persónulega. 

Þetta snýst heldur ekki um að hafa pólitíska andstæðinga undir. 

En þetta er prófsteinn á byltinguna. Byltinguna sem átti að færa okkur opna umræðu. Rökræður og samræðu þjóðarinnar. Og virðinguna fyrir hvort öðru. 

Þau markmið nást ekki ef hið nýja Ísland ætlar að gróa fast í höndum fólks vopnað sannleikanum og hinum einu réttu skoðunum. 

Röggi

miðvikudagur, 5. desember 2012

Enn hækka þau skatta

Stundum liggur við að mig langi til þess að skilja hvers vegna vinstri menn fatta ekki að skattahækkanir skila sér á endanum í minni skatttekjum, sér í lagi þegar efnahagur er í lægð. 

Í síðustu kosningum var annað á oddinum og margir sem eiga að muna og vita hvernig vinstri stjórnir stjórna, gleymdu sér.

Fátt er í heiminum algott eða alvont. Hugsanlega hefði verið sniðugt að hafa vinstri stjórn til að hægja á okkur á þenslutímanum. 

En það eru dapurleg örlög að vera með þessa stjórn við völd þegar við þurfum alls ekki að láta hægja á okkur. Við þurfum nefnilega eitthvað allt annað.

Æðstu prestar vinstri manni í hópi fræðimanna Þórólfur Matthíasson, Indriði H og Stefán Ólafsson hafa verið ódeigir baráttumenn fyrir því ónýta úrræði að hækka skatta til þess að finna aura handa ríkisstjórn.

Fyrst um sinn var eins og mörgum stæði á sama um þetta. Vandinn var svo ærinn og við upptekin að lumbra á fyrri ríkisstjórn. Í þessu skjóli hafa vinstri menn dundað sér við að koma óorði á frelsi og skattalækkanir. 

Ríkisstjórnin situr föst og eltir skottið sitt, til vinstri. Sala á áfengi hefur dregist mjög saman en brugg og smyglbransinn blómstrar. Skólabókardæmi um það þegar vinstri menn vilja ná sér í fé með skattahækkun.

Hugmyndaauðgi þessara manna er viðbrugðið. Þeir finna matarholur í veskjum okkar skattborgara í niðursveiflunni og hirða ekkert um að þegar ríkið tekur og tekur munum við ekki leggjast á árar með atvinnulífinu í neysluhugleiðingum, heldur þveröfugt. 

Á því tapa allir, bara spurning um hvort það verður fyrr eða seinna. Ég man enn þegar prófessor Þórólfur sagði að neysluskattar myndu koma okkur úr kreppunni. 

Þessu trúir hann enn og fólkið hans í stjórnaráðinu er á sjálfstýringunni með augun lokuð og eyrun einnig.

Nú er það þannig að við höfum hér verðtryggingu hvað sem um hana má segja. Þegar Steingrímur og Jóhanna ákveða að hækka álögur á tóbak hækka lánin okkar samstundis og sjálfvirkt. 3. 000 milljónir þar....

Þetta vissu skötuhjúin auðvitað fyrir. Það er ekki að koma þeim á óvart hafi einhver laumast til að halda það. Þeim er bara alveg sama. Þau hafa engin önnur úrræði en þessi gömlu. Að hækka skatta og álögur....

...og þessi árátta þeirra magnast í réttu hlutfalli við minnkandi tekjur ríkissins af viðkomandi skattstofni. 

Það þarf ekki lengur últra hægri mann eins og mig til að sjá þetta. Þetta blasir við öllum mönnum. Og hagstætt að gleyma sér ekki næst......

Röggi

laugardagur, 1. desember 2012

Gagnsleysi Egils Helgasonar

Í orðræðunni er sumir menn mikilvægari en aðrir. Engu skiptir þó gaurar eins og ég þusi og fjargviðrist seint og snemma. Öðru máli gegnir um menn eins og Egil Helgason.

Hann heldur úti bloggsíðu vinsælli og hefur líka til umráða sjónvarpsþátt vikulegan. Egill Helgason skiptir máli. Þess vegna ætti hann að finna til ábyrgðar sinnar.

En það gerir hann sjaldan. Egill vill að jafnaði vera í sigurliðinu. Það sáum við árum saman fyrir hrun þegar hann dansaði létt meðfram og með útrásinni og þeir sem ekki fundu sannleikann þar áttu fótum fjör að launa.

Egill Helgason er orðinn latur. Hann virðist vera orðinn of sæll í sætinu. Og annað hvort nennir ekki að hugsa út fyrir pólitíska boxið sitt eða langar ekki til þess. Nema hvoru tveggja sé.

Jóns Steinar fyrrum hæstaréttardómari skrifar afar áhugaverða grein um dóminn yfir Baldri Guðlaugssyni. Þessi grein er ekki bara merkilega af því að Jón Steinar og Baldur er vinir heldur ekki síst vegna þess að í greininni vegur Jón Steinar allverulega að hæstarétti.

Og gerir metnaðarfulla tilraun til þess að nota málefnleg rök og tilvitnanir í löggjöf um málefnið. Þetta er í raun stórfrétt enda ekki á hverjum degi sem þetta gerist.

En Egill Helgason sér það ekki. Hann fer bara í manninn og hefur ekki þrek til þess að hugsa lengra en hans pólitíska nef nær. Liklega vegna þeirra fötlunar en kannski vegna þess að hann kann ekki lengur að taka neina slagi.

Mögulega mun hann nefna þetta í þættinum sínum í góðra vina hópi fólks sem hefur sömu skoðun og hann. Allsstaðar yrði grein sem þessi mönnum í stöðu Egils Helgasonar tilefni til þess að rumska og hreyfa við málinu.

Skoða það gagnrýnið og kafa ofan í málefnalega með aðstoð sérfræðinga. Og þá hugsanlega manna sem ekki hafa skýra og opinbera andúð á þeim sem kemur með gagnrýnina.

Egill Helgason er eiginlega að verða varðhundur kerfisins. Sérstaklega ef gagnrýni á stofnanir og ríkissvald kemur frá hægri.

 Egill Helgason er fjórða valdið, en hann notar það einungis til þess að verja það sem honum sjálfum hentar og gleymir mikilvægu hlutverki sínu.

Hann er hættur að þora að ögra sjálfum sér. Hann er að verða gagnslaus hann Egill. 

Röggi

föstudagur, 30. nóvember 2012

Veikir formenn og sterkir

Full ástæða til að óska Samfylkingunni til hamingju með þau tíðindi að hið minnsta tveir hafa áhuga á að leiða flokkinn. Ég er viss um flestum þar innandyra þykja þeir tveir, Árni Páll og Guðbjartur, öflugir mjög og reikna með slag verðugra manna.

Sem vonlegt er og algerlega eðlilegt. Þarna eru vörpulegir fulltrúar ólíkra hópa og ef allt gengur upp munu þeir "slást" af þrótti en vonandi líka reisn og af þeim virðuleika sem hæfir verðandi formanni.

Ég hef verið að örlítið að þumbast vegna umfjöllunar um kosningar hvort heldur þær heita prófkjör eða formanns. Þeir sem enga samkeppni hafa fengið og rússneskt klapp hafa þótt flottir og sterkir.

Hinir sem hafa tekið harðan slag við öfluga mótframbjóðendur aftur á móti veikir.

Við verðum eiginlega að vona fyrir hönd Samfylkingarinnar að sá sem hefur betur í þessum slag slátri andstæðingi sínum svo um munar.

Ekkert minna en það dugar ef eitthvað er að marka þau viðmið sem sett hafa verið í umræðunni hingað til. 75% eða meira.....

Öðrum kosti er viðkomandi ekki almennilegur og sterkur formaður.

Röggi

fimmtudagur, 29. nóvember 2012

Um getuskiptingu og fleira

Mjög áhugaverð umræða er farin af stað um getuskiptingu í hópíþróttum barna. Þetta hófst með grein eftir Vöndu Sigurgerisdóttur lektors í HÍ. Vanda telur getuskiptingu vandamál sem beri að banna. 


Ég er ekki sannfærður. Siggi Raggi landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta kemst býsna nærri því að túlka það sem mér finnst um þetta. Hvaða gagn gerir það iðkendum sem hafa af einhverjum ástæðum ekki getu eða burði á við þá sem lengst er komnir að verða undir og afgangs á æfingum?

Ég er alls ekki að segja að ekki eigi að sinna þeim sem skemur eru komnir, öðru nær. Enda ér ég sammála lektornum um það að það kemur ekki strax  í ljós hverjir munu ná langt.

Ég held jafnvel að það geti stuðlað að brottfalli úr íþróttum að vera settur með einhverjum sem er á allt öðrum stað. 

Getur þetta átt við á fleiri sviðum? Hvað með skólana? Þar er ef ég þekki rétt til ekki getuskipt. Þar sitja börn með mjög ólíkar aðstæður og burði saman í bekk og keppst er við að koma þeim öllum í gegnum sama ferlið, á sama hraða og með sömu aðferðum oft. 

Þangað til allt er í óefni komið og þau börn sem ekki geta haldið uppi hraðanum eru sett í sérkennslu. Sem er ekkert annað en að getuskipta en kannski of seint til þess að viðkomandi líði beinlínis vel með ráðhaginn.

Ég veit ekki hvort ég er að höndla sannleikann hér en kemst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvor hópurinn, sá sem þarf að hægja á sér, eða sá sem rembist við að draga hina uppi, fer betur út úr þessu.

Til lengri tíma vel að merkja.

Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri á Ísafirði var í mjög skemmtilegu viðtali á rás 2 í morgun. Þar talaði hún um áhrif sérkennslu, en snerti reyndar á ýmsu öðru. Viðtalið við hana byrjar á 70. mínútu.

Hún þorir að hugsa út fyrir boxið hún Jóna. Er að velta þvi fyrir sér hvers vegna við erum að reyna að koma skólabörnum í gegnum nákvæmlega það sama, á sama hraða og í sömu röð?

Hún finnur skemmtilega vinkla í þessu efni. 

Ég vona að ég geri mér grein fyrir ókostum þess að getuskipta. Ég er þó sammála Sigga Ragga um að þeir þurrkast út með góðum þjálfurum. Þjálfurunum sem sjá um að færa þá til sem færa þarf til svo iðkendurnir fái sem mest út úr æfingum. Og ekki síst keppni...

Nýlega voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem sýndi að að börn fædd seint á árinu séu líklegri til að dragast aftur en þau sem fædd eru fyrr. það finnst mér líka áhugavert í þessu samhengi. 

Ættum við kannski að getuskipta oftar og meira og markvissar?

Röggi


miðvikudagur, 28. nóvember 2012

Ögmundur býr til stofu

Það er nú oftar en ekki þannig að ríkisstjórnir hrasa í það á lokaári kjörtímabils að spreyja peningum úr misgaltómum ríkiskassanum til gæluverkefna. 


Þetta er pólitík 101 og á víst að hjálpa almúganum að gera upp hug sinn í kjörklefanum. Kannski þetta hjálpi þeim sem ekki hafa í önnur pólitísk húsakynni að leita en þau sem bjóða bestar skyndilausnir og sjónhverfingar.

Svo eru til ýmis önnur tilbrigði í þessu. Eitt er tilbrigðið, ráðherrann reynir að hraða sérstökum áhugamálum sínum í gegn áður en hann missir vinnuna.

Ögmundur Jónasson hefur ákveðið að búa til enn eina "stofuna". Að þessu sinni happdrættisstofu. Stofa þessi verður fyllt að embættismönnum sem munu fylgjast með því að við förum okkur ekki að voða með spilum.

Þannig haga "stofur" sér gjarnan. Þær hafa auga með okkur, passa upp á okkur. Stofurnar hafa svo það eðli að stækka og verksvið þeirra víkkar út. Og áður en auga er deplað vinna alltof margir þar og forstjórinn veit ekkert af hverju hann fer alltaf yfir á fjárlögum.

Ögmundur vill banna netspilun og til vara leyfa hana undir ströngu eftirliti, ef ég skil málið rétt. Þarna þekki ég Ögmund....

Látum stjórnmálamenn banna hlutina og þá verða þeir ekki lengur til. Það bara hlýtur að vera. Þeir eru jú bannaðir og stofa sem fylgist með.

Góð hugsun en þetta nær ekki tilgangi sínum. Enginn stjórnmál banna fólki að spila frá sér öllum eigum sínum eða að græða stórt þegar vel árar. 

Bannið mun færa þetta undir yfirborðið og glæpamenn fagna einum tekjupóstinum til.

Það vantar raunsæið í bannstjórnmálin. Að banna fólki að spila er vonlaust enda hafa flestir gefist upp á því. 

Nema vinstri menn á Íslandi. 

Röggi

sunnudagur, 25. nóvember 2012

VG ekki alsvarnað...

Hinum almenna flokksmanni í VG er ekki alsvarnað. Að vísu fær Álfheiður Ingadóttir furðumikið af atkvæðum í prófkjöri VG ef hægt er að tala um mikið í þessu samhengi. 


En Birni Val er hafnað duglega. Og það ætti að vera öðrum til þeim til varnaðar sem halda að illmælgi og kjaftháttur sé góð leið til skoðanaskipta á hinu virðulega alþingi. 

Eða var það kannski bara pólitíkin hans sem fólk vildi ekki?

Röggi

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Unga fólkið og Gilz

Er að furða þó ungviðið sé áttavilt þegar kemur að umræðum um sekt og sýknu manna, þegar jafnvel þrautreyndir refir virðast stundum ekki skilja út hvað slíkt gengur?

Í máli Egils ( Gilz) var það þannig og er kannski enn að heilir hópar fólks tóku hann af lífi án dóms og laga. Virðulegt fólk og reynslumikið á hinum ýmsu sviðum hljóp duglega á sig og þurfti ekki að bíða eftir niðurstöðum rannsókna fagmanna.

Allskonar afbrigði umræðunnar urðu til. Eitt þeirra er reyndar lífsseigt og dregið fram eftir hentugleika en það er bábyljan um að menn sem kærðir eru til lögreglu hljóti í raun að vera sekir.

Það sé sem sagt ekki sýkna að hljóta ekki ákæru. Þetta er kengmagnaður misskilningur. Það þarf ekki að sýkna menn sem ekki eru ákærðir. Það er ekkert flóknara en það. 

Þeir eru saklausir. Þetta 101 í mannréttindum og mikilvægt að standa vörð um þennan sannleika, alltaf í öllum tilfellum. Þetta er ekki valkvætt. 

Spekin góða um sakleysi uns sekt er sönnuð er næstum því óþörf þegar þannig er um hnúta búið. Menn sem ekki eru ákærðir eru saklausir. Annað er ekki í boði í lýðræðisríkjum sem vilja vera með í heimi siðaðra manna.

Þetta hefur vafist fyrir mörgum, ekki síst eftir búsáhaldabyltinguna þar sem fullkomlega normal fólk gleymdi sér í réttlátri reiðinni. Og þurft ekki dómstóla til þess að taka mann og annan og aflífa eftir snörp réttarhöld dómstóls götunnar.

Það er því ekki að undra að unga fólkið sé pínu ringlað í þessu. Ég geri ekkert með það þó fólk þoli ekki Gilz og vilji hvergi sjá hann. Egill er maður sem kallar fram viðbrögð og þessi eru kannski viðbúin suma daga.

En við þurfum að passa upp á það að fólk sé ekki halda því á lofti að Egill sé í raun ekki saklaus maður af því að hann var ekki sýknaður í réttarhöldum. 

Þá bábylju þarf að kveða duglega niður í eitt skipti fyrir öll. Þar fara hagsmunir okkar allra mjög fallega saman.

Röggi


miðvikudagur, 21. nóvember 2012

Vafningur DV og Andersen heldur áfram

Ekki er að spyrja að DV. Ingi Freyr fréttastjóri blaðsins virðist ekki geta tekið á heilum sér tekið eftir að vafningur hans gegn Guðlaugi þór með ákærðum Gunnari Andersen gékk ekki upp, heldur afhjúpaði einungis misferli í opinberu starfi.

Áfram skal samt haldið. Nú hefur traustur heimildarmaður DV sagt Inga að Guðlaugur hafi verið kærður. Samkvæmt þessum grjóthörðu heimildum er kærandinn einmitt hinn ákærði fyrrum forstjóri FME, Gunnar Andersen.

Sem ekki sá ástæðu til að kæra þingmanninn meðan hann var forstjóri FME heldur tók ömurlegan vafning í málinu sem við öllum blasir, nema DV sem var reyndar þátttakandi í brellunni.

DV hefur miklu meiri áhuga á þætti Guðlaugs Þórs í þessari sögu en nokkurn tíma þeirri stórfrétt sem málið er. Nefnilega fáránleg framganga embættismannsins, sem við reyndum að treysta fyrir FME á viðkvæmum tíma í okkar sögu.

Fyrir DV er þetta einfalt. Ef einhver, og þá skiptir í raun engu máli hver er, er reiðubúinn að tala illa um að ég tali nú ekki um, að kæra Sjálfstæðismann er viðkomandi öruggur um plás í blaðinu. 

Ef þetta gerist er fréttastjórn blaðsins tilbúin að setja til hliðar öll prinsipp sem hægt er að týna til um vandaða fréttamennsku. 

Röggi

Um Álfheiði í boði NOVA

Álfheiður Ingadóttir er stórmerkilegur stjórnmálamaður. Hún fagnar því þegar ráðist er á lögregluna ef hún sjálf styður ástæður þess ofbeldis. Það er ógleymanlegur hápunktur á hennar ferli. Svo er hún Álfheiður alltaf svo reið.

Og húmorslaus. Hún er gamaldags kommi og þeir geta vissulega haft sinn sjarma. Nú er henni talsvert niðri fyrir. Það er vegna þess að strákarnir í hraðfréttum er fyndnir. Það finnst henni grunsamlegt og líklega kostað af einhverjum. 

Þetta er ekki frétt um það hversu húmorslaus Álfheiður er og er auðvitað fyndin á sinn hátt. Álfheiður heldur að hún sé kommissar í ráðstjórnarríki. Þetta atriði hennar er eiginlega svona íslenskt Pussy Riot afbrigði.

Álheiður Ingadóttir situr á löggjafarþingi en heldur greinilega að hún sé eftirlitsstofnun með því að fólk sé ekki að reyna að vera skemmtilegt. 

Uppistand hennar nú er jöfnun á norðurlandameti í húmorsleysi innanhúss án atrennu. 

Ég tek það skýrt fram að þessi færsla er í boði NOVA og ÁTVR.

Röggi

mánudagur, 19. nóvember 2012

Hefur RÚV enga skoðun á málinu?

Ég hef eins og aðrir skilning á því að fréttamenn verndi heimildarmenn. Það er svo sjálfsagt enda í raun grunnur að vinnu þeirra. 

Hin hliðin á þessu er svo hvernig unnið er með þessar "heimildir". Nýgenginn dómur í svona máli bendir til þess að menn geti ekki skýlt sér á bak við heimildarmanninn og hafi í því skjóli leyfi til þess að skrifa hvað sem er.

Og séu þar með undanþegnir skyldunni um að geta sannað það sem þeir segja. Þessi vegur er auðvitað vandrataður og ég held við skiljum flest rétt einstaklinga til þess að sækja það til þeirra sem um þá fjalla að þeir geti fært sönnur á mál sitt.

Enda er eins og alltaf betra að sekir gangi lausir en að einn saklaus sé hengdur. Svarar Halldórsson fréttamaður er síbrotamaður þegar kemur að þessu.

Ég hef ekki kynnt mér hans mál í þaula en stend gapandi yfir viðbrögðum hans að fenginni niðurstöðu dómara. Svavar telur að mér virðist sem honum komi lögin ekki við. Hann og hans heimildarmenn vita sannleikann og það nægir honum.

Hlutlausir dómarar vopnaðir löggjöf lýðveldisins eru að mati Svavars á bandi þeirra sem ákærðu hann, vegna þess að hann var ekki sýknaður. Þetta er ekki rökstutt hjá fréttamanninum.

Þessi nálgun fréttamannsins er svo fráleit að engu tali tekur. Að mínu mati skilur hann í engu um hvað dómsmálin á hendur honum snúast. 

Og leyfir sér svo eins margir áður og fyrr að segja að sá sem hann fjallaði um hafi ekki tekist að afsanna fréttina. Og bætir við að sér hafi verið stillt upp við vegg þegar honum var gert að færa sönnur á mál sitt.

Hér er öllu snúið á haus. Ég skil að enginn er góður dómari í eigin sök en kemst ekki hjá því að hugsa um hugarfar fréttamannsins. Hugarfar sem mér finnst benda til fullkomins skilningsleysis á grundvallaratriðum þess réttarríkis sem við á vesturlöndum höfum komið okkur upp.

Ætlar vinnuveitandi hans ekki að hafa neina skoðun á málinu?

Röggi


mánudagur, 12. nóvember 2012

Hálfnaður sigur Árna Páls

Sigur Árna Páls, sem hefur bætt sig og sinn pólitíska lestur verulega,  í prófkjörinu í kraganum eru tímamót. Hann skellir þeim arminum sem hefur ráðið för í flokknum á bakið. 

Og gerir það með yfirvegun og stæl. Hann veit að nú er ekki rétti tíminn til að höggva mann og annan, en sá tími gæti þó komið.

Honum hefði verið í lófa lagið að gera allt vitlaust þegar honum var sparkað af ráðherrastóli. Margir hefðu gert það en hann horfði lengra. Hann horfði á prófkjörið. Og hann horfði lengra en það...

Munurinn á Árna Pál og Katrínu finnst mér að hluta til vera sá að Árni Páll hefur svo augljóslega gríðarlega löngun til að vera formaður flokksins. Katrín aftur á mót virkar á mig eins og valinn fulltrúi klíkunnar sinnar frekar en kappsfullt leiðtogaefni sem ekki getur beðið eftir því að taka við.

Besti valkosturinn til þess að sigra Árna Pál. Það er alls ekki sexý og Samfylkingin ætti að vera búin að læra að þannig dugar ekki. Steinunn Valdís og Jóhanna er ágæt dæmi um þannig valkosti.

Nú tekur við slagur fram að formannskosningum. Árni Páll mun haga sér eins og sá sem valdið hefur og fyrir þá sem ekki eru innvígðir eru úrslit prófkjörsins þannig að hann er leiðtoginn.

Hann stendur fremstur í flokki hvort sem þessari klíkunni eða hinni líkar betur eða verr. Nú er það annarra að taka af honum formennskuna. Og það mun ekki gerast án átaka.

Hverjum dettur í hug að Árni Páll ætli að láta fólkið sem vængstýfði hann einu sinni gera það aftur nú þegar hann er með bestu spilin?

Röggi


miðvikudagur, 7. nóvember 2012

Að lesa út úr skoðanakönnunum

Galdurinn að lesa úr skoðanakönnunum er þeim hulinn sem sér fátt annað en pólitískt notagildi slíkra kannana, en þá bara ef niðurstaðan hentar pólitísku vaxtarlagi viðkomandi.

Þegar forsetinn okkar var kosinn skipti það andstæðinga hans máli að þátttaka var ekki í hámarki og atkvæði dreifðust á fleiri en hann. Slíkur forseti er ekki nógu góður forseti. Hann er ekki með nægan stuðning þjóðarinnar. Túlka varð fjarveru þess fólks sem ekki kaus án afláts sem andstöðu við þann sem flest atkvæði fékk. Auk þess sem það var talið veikja hann að hafa haft nokkra yfirburði yfir öfluga frambjóðendur.

Hún er landlæg bábyljan um að þeir séu sterkastir sem ekki fá nein mótframboð heldur eingöngu rússneskt klapp eftir að búið er að vinna að því daga og nætur baksviðs að koma í veg fyrir kosningar milli hæfra manna. 

Jóhanna er sterk af því að þar þorir enginn að taka slag sem allir vita að þarf að taka en það bara hentar ekki spunameisturunum. Og þá klappar samkoman. Bjarni Ben er veikur vegna þess að hann sigrar afar öflugan andstæðing. Merkilegt.

Svo hefur þetta fólk sumt nýja og aðra og hentuga skoðun þegar þjóðin mætir illa til leiks og afar lítill hluti atkvæðisbærra manna kýs sér stjórnlagaráð. 

Þá skipta þeir sem ekki mæta engu máli lengur. Þá er þjóðin að kjósa og fólk skreytir sig með lýðræðistali og allt er sögulegt nema auðvitað sögulega arfaslök mætingin.

Töluglöggir andstæðingar Ólafs Ragnars sem höfðu reiknað út hversu lítið hlutfall þjóðarinnar studdi hann í raun veru að teknu tilliti til þess hversu margir mættu og dreifingu atkvæða mega svo ekki heyra minnst á slíkar pælingar að aflokinni skoðanakönnun um tillögur stjórnlagaráðs.

Ég ætla mér auðvitað ekki þá dul að lesa hug þeirra sem ekki mæta og kjósa en ég gef harla lítið fyrir þá speki að það sé bara stundum sem þátttaka í kosningum skiptir máli og stundum ekki. Allt eftir pólitískri hentisemi.

Almennt er það fjandakornið þannig að lítil þátttaka veikir gildi kosninga. Það er vegna þess að hvert barn skilur að betra er að fleiri mæti en færri. 

Þeir sem ekki geta sæst á þetta sjónarmið fyrirfram hafa einir rétt til þess að vera með uppivöðslusemi þegar þeir tala út og suður allt eftir behag um svona mál. 

En það stendur upp á það fólk að skýra út fyrir okkur hinum hvaða prínsipp gilda í málinu. Önnur en pólitísk fötlun...

Röggi
þriðjudagur, 16. október 2012

Ofbeldi umræðunnar og stjórnarskrá

Okkur verður tíðrætt um umræðuhefðina. Þeir sem best bjóða í þeim efnum taka gjarnan stjórnmálastéttina sem dæmi um það hversu lágu plani sú umræða getur náð. 

Vissulega eru umræður á þingi of oft léttavarningur með ófullnægjandi innihaldslýsingum. Kannski þarf að taka tillit til þess að það alþingi sem við kusum síðast var ungt mælt í reynslu en hefur fengið að fást við sum erfiðustu mál sögunnar. 

Auk þess sem flokkar ýmsir hafa verið upp í loft meira og minna allt þetta kjörtímabilið og það verður vist aldrei góður heimamundur nokkrum manni í pólitík.

En hvernig skiptumst við hin á skoðunum? Hvers vegna ala sumir fjölmiðlar og netmiðlar einnig á fautaskap umræðunnar og næra þá sem mest hafa fram að færa í ofbeldiskenndu tali en minnst málefnalega?

Jón Magnússon hefur leyft sér að hafa eigin skoðanir á tillögum stjórnlagaráðs. Ekki hefur staðið á viðbrögðum hinna rétttrúuðu.

DV heldur úti netmiðli þar sem allt er leyfilegt ef ekki hreinlega æskilegt ef þeir sem skrifa og eða kommenta hafa réttar skoðanir og lumbra á fólki með óhentuga afstöðu.

Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar talar um illvilja Brynjars Nielssonar lögmanns sem ekki sér það sem hún sér. Þetta gerir Guðrún vopnuð hinni einu réttu skoðun og væntanlega með vottorð frá sjálfri sér um hlutleysi um eigin verk.

jonas.is hefur svo einn og sér orðið að kúltur hetju þeirra sem halda að nógu gildishlaðinn dónaskapur um persónur endurtekin nógu oft séu gagnleg umræða.   

Af hverju þarf sífellt að fara í manninn en ekki málefnin? Hvaða gagn gerir þannig nálgun til lengdar? 

Ofstækis og á stundum ofbeldistóninn hjá þeim sem gera lítið úr þeim sem ekki sjá hlutina "réttum" augum er sorglegur. Það er sérdeilis ómálefnalagt að tala um það þessi eða hinn sé þetta eða hitt vegna skoðana sinna en ræða ekki það sem viðkomandi hefur fram að færa.

Ekki er óeðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á þjóðfundinum, ömurlegri þátttöku í kosningum til stjórnlagaráðs, ógildingu þeirra kosninga og svo því hvernig stjórnvöld kipptu dómsvaldinu til hliðar í kjölfarið og síðast en alls ekki síst á tillögum stjórnlagaráðs.

Það er beinlínis nauðsynlegt að þeir sem ekki eru sanntrúaðir fái notið sín í umræðunni. Og að um efann fáist málefnaleg umfjöllun. Þannig og bara þannig verður unnt að ná vísi að samstöðu þjóðar um stjórnarskrá.

Samstöðu sem allir viðurkenna að er svo mikilvæg þegar um slíkt plagg er rætt. Eins og málið lítur út núna eru stuðningsmenn tillagnanna helst færir um að finna samstöðu um það sem þeim finnst rétt og gera hinum upp annarlegan tilgang. 

Í þessari baráttu er allt leyft og þeim hampað mest sem minnstu hafa úr að moða þegar þarf að skiptast á málefnalegum skotum við fólk með öndverða skoðun. Og það einmitt þegar mest liggur við að hafa þrek og styrk til þess að ræða andstæð sjónarmið án upphrópana um persónur og leikendur.

Við eigum og megum hafa okkar skoðanir. Og við verðum að þola hvort öðru það. Þeir sem halda að það að breyta stjórnarskrá sé bara enn einn slagur um það að hafa pólitíska andstæðinga undir eru á villigötum. 

Um stjórnarskrá þannig hugsandi fólks verður aldrei sátt...

Röggi

miðvikudagur, 12. september 2012

Mótmælendur þrasa um heiður

Öðruvísi mér áður brá. 

þrasa mótmælendur, sem virðist vera lögverndað starfsheiti, yfir því hver á höfundarréttinn af því að hafa stöðvað ofbeldið sem byrjaði með beinu andófi gegn ríkisstjórn en endaði sem götuslagsmál við alsaklausa lögreglumenn.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem gengu þarna fram fyrir skjöldu og get sagt að mig langar að skilja þennan pilt þegar hann segist vilja fá kredit fyrir. 

Margt má örugglega læra af þessum mögnuðu dögum þarna og ég vona að þeir sem ætla sér að hasla sér völl í mótmælabransanum reyni að draga þann lærdóm af að ofbeldi er og verður aldrei málið.

Ofbeldi gagnvart lögreglunni sem aldrei gerði annað en henni bar gat aldrei annað en stigmagnast. Það mun varla bæta neinn málsstað eða gera honum gott að gera hlut þeirra sem vilja brjóta og brenna í andófi stóran.

Þetta er eitt af því sem þeir sem ekki vissu lærðu þó ég sé ekki sannfærður um að allir vilji meðtaka það opinskátt.

Mér fyndist mannsbragur að því að þessi piltur og fleiri hefðu áhuga á því að kryfja það af hreinskilni af hverju "baráttan" varð svo fljótt yfirtekin af þeim sem vildu lemja á lögreglunni og öðrum þeim sem höfðu ekkert til saka unnið annað en að sinna þeim störfum sem þjóðfélagið ætlast til af þeim.

Það er nefnilega ekki síður áhugavert hver kastar fyrsta steininum og af hverju heldur en það hver stöðvaði steinakastið.

Röggi
sunnudagur, 9. september 2012

Falleinkun Inga Freys

Fréttastjóri DV skrifaði pistil í blaðið sitt um daginn. Þar skrifar Ingi Freyr eins og hann sé hlutlaus fagmaður um mál er tengjast Gunnari Andersen ákærðum fyrrverandi forstjóri FME. 

Getur Ingi Freyr fréttastjóri DV sem leikur hlutverk í þessari sögu litið á sig sem áreiðanlegt vitni í þessu máli eða hlutlaust? Slíkir smámunir þvælast ekki fyrir blaðinu eins og stundum fyrr.

Fréttastjórinn ákveður að taka órökstuddar fabúleringar Gunnars um leka til kastljóss í gegnum Guðlaug þór sem sannleikann og byggir þennan afleita pisltil á sögunni sem hinn ákærði forstjóri talar um. 

Svo er þvælt um sölu eignar Guðlaugs Þórs eins og þar hafi átt sér stað stórglæpur sem skilað hafi miklum og þá væntanlega óeðlilegum hagnaði. Hvorutveggja er frétt um ekki neitt og hagnaðar hluti sögunnar fjarri sannleikanum.

Fréttastjóri DV hefur tekið sér ákveðna stöðu gegn manni og með öðrum og ætlar sér hvað sem hver segir að reyna að koma glæp sem nú er verið að fjalla um á hendur "hans" manni yfir á þann sem saksóknari telur með nokkuð vel rökstuddum grun fórnarlamb í málinu.

Ingi Freyr fær falleinkunn fyrir þetta og enn einu sinni hendir það að blaðið sem borgar honum laun gerist bert að því að kunna ekki að taka menn af aftökulistanum hafi þeir á annað borð verið settir á þann lista.

Hér gékk maður undir manns hönd þegar stjórn FME ákvað að leysa Gunnar frá störfum og framleiddu mergjaðar samsæriskenningar um mann og annan. Þeir eru flestir þögulir mjög núna þegar þetta mál ber á góma og vottar jafnvel fyrir skömm hjá sumum.

En þó ekki öllum...


Röggi

fimmtudagur, 6. september 2012

Launafarsi ríkisstjórnarinnar

Nú er það svart. Velferðarráðherra hækkaði laun forstjóra landspítala all duglega án þess að spyrja kóng eða prest. Ekki er að spyrja að viðbrögðum þeirra sem vilja helst að allir hafi jafn léleg laun.

Launastefna norrænu velferðarstjórnarinnar hefur tekið á sig ýmsar furðumyndir. Höfundur peningamálastefnunnar Már Guðmundsson stendur í málaferlum við ríkið í makalausri viðleitni til þess að fá þau laun sem forsætisráðherra lofaði þegar hann var munstraður í seðlabankadjobbið.

Þetta er allt einn stór farsi vegna þess að ríkisstjórnin festist klaufalega í misheppnaðasta populisma seinni tíma þegar lagt var blátt bann við hærri launum en þeim smánarlegu sem Jóhanna fær.

Ég skora á jafnláglaunastefnu fólk að stofna til undirskrifta svo afturkalla megi þessa ákvörðun velferðarráðherra og losna við forstjóra landspítalans úr landi og ráða til starfa einhvern sem uppfyllir fyrst af öllu þær kröfur að fara ekki fram á markaðslaun.

Annað er aukaatriði....

Röggimiðvikudagur, 5. september 2012

Meiðyrðin


Margir áhugaverðir vinklar eru á meiðyrðamáli Gunnlaugs Sigmundssonar á hendur bloggaranum Teit Atlasyni. Allskonar hefur verið sagt og ritað um þetta mál.


Sumir þola Gunnlaug alls ekki af ástæðum sem skipta hreint engu máli þegar rætt er um það hvort menn eigi rétt til þess að verja mannorð sitt með tilvísan í meiðyrðalöggjöfina.

Meira að segja bullandi ósympatískir menn hafa að sjálfsögðu ekki minni rétt en þeir"góðu". Við verðum að standa klár á því.

Lögfræðingur Teits beitti þeirri snörpu vörn hafi ég skilið rétt að úr því að mál Gunnlaugs hafi verið til umræðu lengi þá sé af þeim ástæðum ekki mögulegt að fremja meiðyrði. 

Vonandi verða þetta ekki rökin sem sýkna Teit því ekki vildi ég máta þessi rök við öll sakamál. Ekki dugir að benda á að aðrir séu líka þetta eða hitt.

Allir eiga að hafa sama rétt fyrir lögum og þegar mér finnist einhver alveg glataður hef ég auðvitað fullan rétt til þess að halda þvi fram og velja mér til þess þau orð sem henta mér.

Ég þarf bara að vera með það á hreinu að fara ekki í fýlu ef viðkomandi telur orðin mín standa nærri mannorði sínu.

Þannig eru leikreglurnar og ég veit ekki hvernig þær geta verið öðruvísi.

Röggi


sunnudagur, 2. september 2012

Hvernig er málið alvarlegt Steingrímur?

Það er þannig að ráðherrar hér eru undanþegnir almennum ákvæðum er varðar löggjöf okkar. Ráðherrar eru þeir hinir sömu og setja lögin sem þeir hafa svo sjálfsvald um hvort þeir taka mark á þegar á bátinn gefur.

Þegar Ögmundur brýtur lög og er dæmdur fyrir hefur hann ekki sömu áhyggjur af slíku og þú og ég. Hann hafnar bara niðurstöðunni eindregið og kemur með sitt eigið mat og sýknar sjálfan sig í raun sem er kannski rökrétt niðurstaða manns sem alinn er upp í systemi þar sem þingmenn eru í senn löggjafi og framkvæmdavald og velur einnig dómara.

Einu áhyggjurnar sem Ögmundur hefur eru af því hvernig pólitískur styrkur hans stendur nú þegar hann situr dæmdur ráðherra. Hvort formaðurinn hans hefur heilsu og pólitíska hagsmuni af því að þvínga hann til afsagnar. 

Þetta er í raun hlægilegt en mun að líkindum ekki breytast fyrr en við komum okkur upp þeim eldveggjum sem þrískipting valdsins á að tryggja okkur.

Hið raunverulega dómsvald er í höndum Steingríms J. Hann einn getur fullnustað dóminn sem upp hefur verið kveðinn. 

Steingrímur leikur kunnuglegt stef og segir málið alvarlegt. Hvað þýða slík ummæli? Og hvaða afleiðingar hefur þessi tiltekni alvarleiki málsins fyrir Ögmund? 

Engan auðvitað og lífið heldur sinn vanagang og þjóðin annað hvort lætur sér fátt um finnast eða fer í skotgrafirnar þar sem við ýmist verjum "okkar" fólk út yfir gröf og dauða eða bendum á dæmi um að aðrir hafi nú gert þetta áður. 

Og bíðum svo eftir því að eitthvað eða einhver muni innleiða fyrir okkur gagnlegt siðferði í pólitík. 

Að líkindum fer eins um þetta mál og önnur sömu tegundar áður og fyrr. Þau verða mögulega innanhúsvandamál hjá viðkomandi flokki og annað ekki. 

Þegar Steingrímur sér málið alvarlegt er hann einungis að hugsa pólitískt fyrir flokkinn sinn og ríkisstjórn. Hann er ekki að hugsa um önnur mun léttvægari prinsipp sem snúa að þjóðinni eða virðingu fyrir þeim lögum sem hér eru sett.

Þannig alvarleiki máls er fyrir okkur hin...

Röggi


laugardagur, 25. ágúst 2012

Sjálfseyðing VG heldur áfram

Það meiga þau í VG eiga að þegar þau hittast yfir spjalli að þá er ekki töluð tæpitungan. Flokksráðsfundir eru án efa martröð pr sérfræðinga flokksins.

Kjarninn í flokknum er í andstöðu við meginstefnu ríkisstjórnar og ekki bara kjarninn heldur einstakir ráðherrar eins og alkunna er. Freistandi er að reyna að halda því fram að hér sé um að ræða alltaf á móti heilkennið sem VG hefur byggt tilveru sína að stórum hluta á.

En ég er ekki sannfærður. Þótt formaðurinn ferðist til útlanda til að hreykja sjálfum sér af verkum annarra er það þannig að kjarninn man að formaður og flokkur var og er á móti bjargráðunum sem Steingrímur skreytir sig nú með.

Það er auðvitað strangheiðarlegt að kannast við sjálfan sig og gefast ekki upp á því. En það er bara svo íþyngjandi þegar maður er ráðherra að burðast með slík prinsipp.

Það er varla áhlaupaverk að stýra flokki úr ráðherrastóli þegar flokksmenn hafa upp hugmyndir eins og sumar þeirra sem flokksráðsmeðlimir ganga með og vilja leiða yfir þjóðina.

Að þjóðnýta fjármálastofnanir og reka þær ekki í hagnaðarskyni heldur til þess að tryggja jöfnuð. Að banna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eins og tannlækingar og þess háttar.

Í sem stystu máli að færa allt og alla undir ríkið til ráðstöfunar. Að ríkisvæða allt og banna einka og hagnað. Þetta er ekki brandari úr nýjustu þáttaröð Steinda. Og það er ekki einhver Jói á hjólinu sem er að tala fyrir þessu. 

Þetta tvennt súmmerar hryggjarstykkið í stefnu VG og er vegarnestið sem formaðurinn hefur úr að spila. Svona er baklandið og grunnurinn. Ekki öfunda ég formanninn að þessum heimamundi.

Steingrímur hefur auðvitað eins og viðtalið við FT sýnir áttað sig á að  andstaðan við lausnir fyrri ríkisstjórnar var í besta falli misskilningur. En flokksráðið og kjarninn veit ekkert um þetta og heldur bara áfram að vera VG á meðan formaðurinn reynir að gera alla ánægða í fyrirfram vonlausri tilraun til þess að halda bæði flokki og ríkisstjórn á floti.

Nú fer þetta að verða áhugavert. Kosningavetur og brátt líður að því að flokkarnir sem skipa stjórnina taka til við að lúskra á hver öðrum. Líður að því að ekki verður lengur hægt með pólitísku handafli að halda niðri skíðlogandi eldunum sem allir vita að brennur milli flokkanna. Að ég tali nú ekki um átökin og óvildina sem fólk ber til hvors annars innandyra....

Þá verður spennandi að sjá á hvaða bás Steingrímur mun setjast. Mun hann hverfa aftur til þess að verða formaður Álfheiðar Ingadóttur eða halda áfram að vera formaður Katrínar Jakobsdóttur sem er að átta sig á því að flokkurinn hennar er kominn í hendurnar á mönnum eins og Birni Val sem fer að jafnaði aldrei í boltann heldur eingöngu manninn?

Þótt Steingrímur hafi nánast komist upp með það hingað til að vera hvoru tveggja er ólíklegt að hann komist upp með þegar tjaldið fellur og VG verður aftur VG í aðdraganda kosninga. 

Kosninga sem allir vita að senda VG í langa og verðskuldaða útlegð frá ríkisstjórnarsamstarfi. 

Röggi
fimmtudagur, 23. ágúst 2012

Hatursfull ummæli Björns Vals

Ekki er að því að spyrja þegar Björn Valur tekur til máls. Þá er talað stórt og DV fær fyrirsögn. Nú hefur hann bannfært útvarpsstöð sem gerðist svo bíræfin að boða til umræðu menn sem félagi Björn Valur telur vonda hægri menn og þá sjálfkrafa með ónýtar skoðanir.

Og þar af leiðandi dagskrárgerðarfólkið með hatursfulla afstöðu. Fyrirmyndir þingmannsins í gamla austrinu kæmust við yrðu þeir vitni að málflutningum standandi í stórræðunum við að loka inni listamenn sem gerast sekir um svipað hátterni.

Líklega telur félagi Björn Valur að eini almennilegi miðillinn sé smugan enda eru þeir sem þar ráða með stimplað kort og réttar skoðanir. Og vita auk þess að gagnrýni á ríkisstjórn að ég tali nú ekki um aðalritarann er ekki rétt söguskoðun.

Það er svo einmitt félagi Björn Valur sem elur með sér hatur og hefur uppi stóryrði til þeirra sem eru honum ekki samstíga í skoðunum. 

Í mínum huga er Björn Valur óþarfur og gagnslaus öðrum en léttsiglandi fjölmiðlum í leit að söluvænum fyrirsögnum. 

Hann eitrar umræðuna og dregur niður á plan sem margir helstu fylgismenn hans þykjast vilja eyða þegar aðrir missa sig. Björn Valur kann ekki að vera ósammála fólki og bera virðingu fyrir þeim sem sjá hlutina öðrum augum en hann sjálfur.

Reyndar er það rétt hjá félaga Birni Val að fjölmiðlar gera allt of mikið að því að smala saman fólki með sömu skoðanir og kalla það svo rökræðu. En það er svo langt frá því að bylgjan sé þar eina dæmið.

Enda er það svo að í fyrradag hafði félagi Björn Valur ekki þessa skoðun á því útvarpi. En við sjáum að ekki tekur langan tíma að falla í ónáð og kalla yfir sig dónaskap og fúkyrði hins rétthugsandi stjórnmálamanns.

Félagi Björn Valur hefur ekkert á móti þvi að fólk sem hefur sömu skoðanir hittist í útvarpi. Hann vill bara að það fólk hafi réttar skoðanir.

Það liggja ekki flóknari tilfinningar að baki þessari nýjustu vanstillingu kallangans.

Röggifimmtudagur, 16. ágúst 2012

Umföllun um vask á ferðaþjónustu

Þá hefur ríkisstjórnin fundið sér nýja grein atvinnnulífs til að berja á, nefnilega ferðaiðnaðinn en þar eru augljós merki um bætta afkomu og vöxt. Sem ef vel er á málum haldið mun skila ríkinu umtalsverðum tekjum með ýmsum beinum og óbeinum hætti.

En þar finnur vinstri stjórnin matarholu. Greinin skuldar vask segir fjármálaráðherra og hlýtur að bregðast eins við gagnvart öðrum greinum sem borga lægra þrepið í vaski eins og kvikmyndagerð þar sem smjör drýpur af hverju strái.

Rúv og sumir aðrir vinsamlegir fjölmiðlar stökkva til og gera það að frétt að greinin hafi ekki borgað vask í nokkur ár. Og tónninn í fréttum rúv í kvöld var sigri hrósandi. 

Ég er svo galinn að ég hélt að vaskurinn væri greiddur af kúnnanum og legðist ofan á verðið. Stórfréttin snýst víst um endurgreiðslur.....

Hækkun á vaski í ferðaþjónustu mun leiða til hærra verðs og alls ekki er víst að það muni laða að fleiri ferðamenn sem er nú undirstaðan að þessu öllu saman. 

Hann er sérkennilega landlægur misskilningurinn um að atvinnulífið greiði vask. Það er að sjálfsögðu kúnninn sem gerir það en atvinnulífið innheimtir og skilar. 

Innheimtur vaskur er ekki tekjur atvinnulífsins heldur skattur ríkissins sem er lagður á viðskiptin. Hvort viðkomandi atvinnurekandi á svo rétt að því að fá vask endurgreiddan er eitthvað allt annað.

Umfjöllunin er öll á þá leið að þessar endurgreiðslur séu í raun undanskot ef ekki hreinlega svindl. Það er fáránlegur útgangspunktur.

Frétt rúv í kvöld er því ef ég er ekki alveg úti að aka hræódýr og líklega í neðra skattþrepinu.

Röggi
sunnudagur, 12. ágúst 2012

Ríkisstjórn í jafnvægi

Ríkisstjórnarsamstarfið er í fínu jafnvægi og hefur verið frá upphafi. Þetta samstarf minnir á hagkvæmnishjónaband þar sem hjónin hafa fyrir löngu síðan hætt að sofa í sama herbergi eða að hafa nokkur samskipti sem máli skipta í venjulegum hjónaböndum.

En hafa samt undarlegan hag af því að láta samstarfið ganga upp. Nú gerist það einn ganginn enn að burðarásar hjá VG þurfa af innanflokksástæðum að lýsa því yfir að eina mál Samfylkingar, aðildin að ESB, sé í raun ónýtt mál og eina vitið að láta staðar numið.

Viðbrögð Samfylkingar eru ef reynslan hefur kennt mér eitthvað annað hvort þögn eða að gert verður lítið úr málflutningnum og þeim sem hann stunda persónulega og pólitískt. Auk þess mun forsætisráðherra væntanlega úthúða Sjálfstæðisflokknum af þessu tilefni....

Svo verður auðvitað bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist við að smíða tillögur að skattahækkunum og næra óvildina í garð hvors annars í leiðinni. 

Slagurinn við andstæðingana verður léttvægur samanborðið við þann slag sem verður milli flokkanna sem mynda þessa ríkisstjórn þegar límið sem heldur flokkunum saman leysist upp á endanum. 

Hvort sú stund er upp runnin veit auðvitað enginn því þegar þessi stórn á í hlut eru öll eðlileg lögmál um samskipti og samstarf úr gildi fallin fyrir löngu.

Röggi

dv.is fjallar um bíóferð

Algerlega geggjuð "frétt" á dv.is blasti við augum mínum áðan. Það er engin frétt hvort Egill Helgason fer í bíó og enn síður hvort honum endist áhugi fram að hléi eða allan tímann.

Enda virðist þessi frétt vera einhverskonar tæki til þess að fjalla um og koma persónulegu og pólitísku höggi á annan mann sem hefur skoðanir sem hann viðrar á facebook á þessum stórviðburði í lífi Egils.

Hvað fer í gegnum blaðamannshugann þegar svona rusl er skrifað? Hvaða hæfniskröfur þurfa þeir að standast sem fá vinnu við fjölmiðil til þess að "búa" til svona? 

Fagmennska er undantekning þegar dv.is á í hlut og algerlega valkvæður hlutur. Þessi della á að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði og væri í raun hlægilegt ef maður vissi ekki að á bak við "fréttina" af manninum sem sagði skoðun sína á bíóferð Egils sem er reyndar "tilefni" skrifa dv.is.....

...er því miður hugsun sem einhver á dv heldur að sé normal fjölmiðlun. 

Röggi
föstudagur, 3. ágúst 2012

Björn Valur, innsetning forseta og óvirðing

Nú brestur á með stórtíðindum því ég er að hluta til sammála Birni Val Gíslasyni þegar hann talar um að hugsanlega eigi að gera breytingar á því hvernig forseti er settur í embætti.


Ég aftur á móti er honum ósammála þegar hann telur það fínt hjá sér að mæta ekki þegar forseti er settur í embætti. Hann hefur heilsu til þess að saka Ólaf um óvirðingu gagnvart þingi og kýs að svara í því sama gagnvart honum en sér ekki að Ólafur Ragnar er þjóðkjörinn forseti, öfugt við Björn Val,  sem svívirðir lýðræðið með þessu háttarlagi.


Innsetningin snýst nefnilega ekki um Ólaf Ragnar eða pólitísk fýluköst þeirra sem ekki þola hann. Hún snýst um það að þessa aðferð notum við til þess að setja þann í embætti sem þjóðin hefur kosið til þess og menn með snefil af pólitískum þroska og virðingu fyrir niðurstöðunni mæta hvort sem þeirra maður vinnur eða ekki.


Nú er það þannig að þingið nýtur ekki nægilegrar virðingar alveg óháð því hvaða mælikvarða við miðum við. Það hefur ekki mikið með Ólaf Ragnar að gera heldur miklu frekar þingmenn eins og Björn Val sem er eins og fíll í postulínsbúð sem kann ekki að bera virðingu fyrir neinu öðru en eigin skoðunum.


Björn Valur ætlar að gera dónaskap og viðvarandi óvirðingu fyrir skoðunum þeirra sem eru honum ósammála að karrier. Þar er allt undir.....


Röggi

sunnudagur, 29. júlí 2012

Hversu fátæk er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur metnað til þess að verða formaður Samfylkingarinnar. Til þess að svo megi verða þarf hún að gera sig gildandi í umræðunni og finna sér markhóp.


Í viðtali sem hún lætur DV taka við sig slær hún um sig með drullumallspólitík þegar hún telur það hafa eitthvert gildi að kalla formenn flokka pabbadrengi og ekki bara það heldur líka ríka pabbadrengi. 


Engu er líkara en að Sigríður hafi verið í dvala árum saman því hún heldur einnig að eitthvert kjöt sé á vinsældabeininu ef hún nefnir Davíð Oddsson á nafn í leiðinni.


Ég veit að slíkt er að einhverju leyti brúklegt á spjallfundum í klíkunum í Samfylkingunni en flestir aðrir eru orðnir heldur lúnir á gömlu komplexunum gagnvart þessum gamla formanni Sjálfstæðisflokksins.


Þegar hún velur að tala um það hverjir þeir eru sem eru henni ósammála í stjórnmálum og hvernig foreldra þeir eiga á hún að mínu mati lítið erindi upp á dekk. 


Bætt umræðuhefð og betri stjórnmálamenning eru faguryrði sem samræðustjórnmálafólkið í Samfylkingunni skreytir sig stundum með en það er ætlað öðrum til afnota.


Hverra manna ætli Sigríður sé og hvað á það fólk af peningum og hún sjálf? Þetta er upplýsingar sem hún hlýtur að telja mikilvægar og vægi hennar sem stjórnmálamanns meira því minna sem til er.


Er þetta er pólitíkin sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vill standa fyrir?


Röggi

miðvikudagur, 25. júlí 2012

Úrskurðurinn

Þá hefur hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að vísa frá ógildingarkröfu vegna forsetakosninganna. Að vonum sýnist hverjum sitt en ég sé ekki betur en að sumir haldi að þarna hafi rétturinn verið að taka afstöðu öðru sinni til kæru vegna kosninga til stjórnlagaráðs.


Margir skilja helst ekki hvernig skipting valds virkar, eða á að virka. Og of margir geta ílla horft á nokkurn skapaðann hlut nema með pólitískum gleraugum og þurfa því ekki að lesa rökstuðning áður en afstaða er tekin.


Sjá þá að sjálfsögðu skandal og pólitískan óþef í niðurstöðu réttarins. Benda í blindninni á niðurstöðu kærunnar vegna stjórnlagaráðs máli sínu til stuðnings. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það hér er um annað mál að ræða.


Svona eins og gengur hjá dómstólum enda ekki hægt að gefa sér að þó einn sé sakfelldur fyrir morð hljóti næsti maður alltaf að vera sekur einnig. Ég ber þó fulla virðingu fyrir því að menn vilji bera saman en sá samanburður verður að snúast um lögfræði en ekki réttlæti sem menn sjá eftir á að lögin gerðu ekki ráð fyrir.


Hæstiréttur var einróma í spillingunni sem hinir skilningslausu tala um. Almennt gruna ég einn og einn um að halda að dómarar við hæstarétt setji lög um leið og þeir dæma eftir þeim. 


Þannig er þetta ekki og þó er líklegt að einhver fulltrúi á löggjafarþinginu freistist til þess að ná sér í prik með því að gagnrýna niðurstöðuna sem er fengin með tilvísan í lög. 


Dómskerfið er ekki til þess að túlka tilfinningar eða stemningu hverju sinni. Ekki heldur til þess að þjónusta hópa eða að taka "vinsælar" ákvarðanir og sem betur fer sitjum við ekki uppi með system þar sem vinsældakeppni stjórnmálamanna dagsins ræður umgengni dómara við landslög.


Það hljóta allir að geta fundið sig ósammála slíku hafi menn á annað borð burði til að hugsa í öðrum prinsippum en pólitískum.

Dómstólar dæma eftir þeim lögum sem fulltrúar þínir á þingi setja þeim. Punktur. 


Það háttarlag réttarins hefur ekkert með pólitík að gera en getur líklega stundum virkað ósanngjarnt en þá er að fara með þær kvartanir þangað sem þær eiga heima. 


Hvernig getur þetta verið öðruvísi spyr ég? 


Vill einhver breyta lögum eftir á eftir stemningunni hverju sinni???


Röggi

sunnudagur, 22. júlí 2012

Hvenær eru íþróttamenn meiddir?

Nú er komin upp staða varðandi Aron Pálmarsson landsliðsmann í handbolta. Hann er meiddur og stutt í ólympíuleika. Vísir gerir frétt um málið og finnur á því vinkla.


Þetta er afleitt mál fyrir alla og mest þó fyrir Aron. Mér sýnist úr þeirri fjarlægð sem ég er í að HSÍ sé að setja mjög mikla pressu á piltinn vopnaðir læknum sem geta búið svo um hnútana að hann finni ekki fyrir neinu fyrr en í fyrsta lagi eftir mótið.


Á svona löguðu eru margar hliðar. Við eigum frábæra íþróttalækna sem hafa margsannað sig sem heimsklassa. Hver man ekki eftir því þegar Guðjón Valur spilaði landsleik örfáum dögum eftir aðgerð á hné hér um árið?


Þá þótti hann vera ótrúlegur nagli og læknarnir okkar æði. Afleiðingin af þessari hetjudáð og öðrum í kjölfarið varð þó sú á endanum að Guðjón Valur missti úr heilt tímabil á meðan hnéð varð að fá að jafna sig. 


Ég tel að eins og málið er að vaxa sé það að veikja undirbúning liðsins fyrir mótið. Leikmaðurinn er meiddur og getur ekki tekið eðlilegan þátt í undirbúningi liðsins. 


Það er nú þannig að ólympíuleikar eru stærsti viðburður sem íþróttamenn taka þátt í og menn geta rétt ímyndað sér hvað þarf mikið af verkjum í hné atvinnumanns í íþróttum til þess að hann kvarti á þessum tímapunkti. 


Ég legg til að ekki sé reynt að tortryggja það að vinnuveitendur leikmannsins vilji fá að skoða þessi meiðsl líka og hafa skoðun á framvindunni. 


Og svo finnst mér að meiddir leikmenn eigi lítið erindi á stórmót hvort sem litið er til hagsmuna þeirra sjálfra eða liðsins.


Röggimiðvikudagur, 18. júlí 2012

Ráðning ráðuneytisstjóra

Nú þarf að finna ráðuneytisstjóra í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti. Þetta fína embætti verður til við sameiningu þriggja ráðuneyta. Eflaust margir um hituna....


En nei. Ríkisstjórn gagnsæis og upplýsingaflæðis ætlar ekki að hleypa hverjum sem er að þessu. Steingrímur J. segist ætla að ná því sem hann kallar samkomulag um þessa ráðningu. Afburðasnjöll aðferð og miklu betri en hin sem gerir ráð fyrir því að allir eigi möguleika í opnu ferli. Lokaða pólitíska ferlið hans Steingríms er miklu betra....

Lög um ráðningar opinberra starfsmanna taka af öll tvímæli í þessu efni. Svona stöður skal auglýsa í lögbirtingarblaðinu. Reyndar er það svo að í þeirri sömu málsgrein og tekur af þessi tvímæli er tekið fram að þetta sé þó ekki nauðsynlegt.

Ég viðurkenni hér án undanbragða að ég þekki ekki lög þessi út í hörgul og veit því ekki hver hugsunin er með þessari snilld. Skil ekki bofs.

Og ég veit vel að sú ríkisstjórn sem nú situr fann ekki upp pólitískar ráðningar fram hjá auglýsingum en mig minnir endilega að hún hafi skreytt sig með faguryrðum um að slíkt heyrði sögunni til þegar vinstra vorið gengi yfir okkur.

En margt fer öðruvísi en ætlað er og hjá þessari stjórn er það fremur undantekning ef störf eru auglýst. 

Byltingin étur enn börnin sín sem sitja flest hjá þögul og reyna að benda á eitthvað annað.....

Röggi


þriðjudagur, 17. júlí 2012

Stefán Ólafsson og hægri umræðan

Ég las viðtal við Stefán Ólafsson prófessor og stjórnmálamann í DV um helgina. Þar segist Stefán hafa hafið bloggskrif til að bjarga okkur frá umræðu sem vondir hægri menn gera út og þjóðin spili með. 


Að mati fræðimannsins eru slíkir menn þannig að þeir kæra sig ekki um staðreyndir. Stefán hins vegar er sérlegur sendiboði sannleikans og kann einn að túlka niðurstöður en hægri menn ekki.


Fræðimaðurinn er hlutlaus þegar kemur að pólitík að eigin sögn. Sem fyrr er það landlægt hér að okkar helstu fræðimenn harðneita að kannast við sig þegar kemur að pólitík. 


Það veikir þá frekar en hitt að mínu viti þó ég viti að fylgjendur hins hlutlausa fræðimanns í pólitík vopnaðir orðhengilshætti þykist ekkert skilja hvað ég er hér að fara. 


Mér þykir ekki mikill styrkur að því að afgreiða rökræður og þá sem ekki eru sammála túlkunum og nálgunum sem fræðimaðurinn hefur á takteinum sem raus í vondu fólki. 


Stefán hefur átt ýmsa sniðuga spretti í starfi sem sýna fram á að skilin milli fræða og stjórnmála geta verið óljós. 


Minnir að hann hafi skrifað lærðar greinar til að andmæla fullyrðingum forystumanna fyrri ríkisstjórna um að þeir hafi lækkað skatta. Svo þegar allt hrundi skrifaði hann þá ekki nýjar og komst að því að skattalækkanir fyrri ríksstjórna hafi verið ein kveikjan að hruninu?


Hagfræði er ekki alltaf bara hagfræði og stjórnmálafræði ekki alltaf stjórnmálafræði. Fræðimenn um allan heim takast á um fræðin hver svo sem þau eru og eru þá stundum þekktir að pólitískum skoðunum sínum. Það gerir þá ekki minni fræðimenn en heiðarlegri klárlega.


En hér hjá okkur situr Stefán Ólafsson vinstri maður og gefur sig út fyrir hlutleysi og þarf ekki rökræður frá þeim sem eru honum ósammála. Sem þýðir að hann þarf engar rökræður.


Enda með staðreyndir á hreinu og einkaleyfi á túlkunum þeirra.


Röggilaugardagur, 14. júlí 2012

Kjaftháttur þingmanns og fréttamat eyjunnar

Ritstjórn eyjunnar ákveður að gera kjafthátt Björns Vals Gíslasonar að frétt á síðunni einn ganginn enn í dag. Hvað fær þá sem stýra fjölmiðlum til að halda að þvi stærra sem menn taka upp í sig því merkilegra?


Áratuga löng minnimáttarkennd andstæðinga Davíðs Oddssonar er ekki lengur nokkur frétt. Reyndar er það nú þannig að þessi tiltekni þingmaður reynir sífellt að bæta sér upp skort á málefnastöðu með dónaskap eins og landsþekkt er og hann virðist vera á undanþágu frá því sem kallast mannasiðir í þinginu. Allir hættir að gera þá kröfu til hans....

Merkilegt er að fylgjast með krampanum sem fer um þá sem hvorki þola Davíð né moggann nú þegar blaðið virðist vera að ná vopnum sínum og reksturinn að skila hagnaði bankanum sem á skuldir hans til hagsbóta og þar með viðskiptavinum hans líka. 

Þingmaðurinn Björn Valur heimtar skýringar af hendi bankans og spyr hvort aðrir fái slíka þjónustu. Auðvitað veit hann ef það hentar honum að atvinnulífið hefur fengið afskrifað og þar með fjölmiðlar og sumir þeirra mun meira en mogginn.

Hann ætti að hafa heilsu til þess að fagna því að þeir sem eiga bankann virðast hafa veðjað á réttann hest þegar ákveðið var að selja þeim sem nú eiga blaðið. 

En það kann hann ekki eða skilur. Björn Valur telur nefnilega að bankinn eigi að taka pólitíska stöðu í málinu eins og hann sjálfur gerir. Þannig hugsa menn eins og Björn Valur sem sækir innblástur til hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir því að misvitrir stjórnmálamenn, sumir jafnvel með eitt og annað í farteskinu, eigi öllu að ráða.

Það er svo sér stúdía hvers vegna eyjan.is gerir dellunni í þessum manni að frétt ítrekað sér í lagi ef hún er skreytt stóyrðum....

Röggi


fimmtudagur, 12. júlí 2012

Eðli fjölmiðlaáhuga

Gaman að sjá að málsmetandi menn hafa skyndilega mikinn áhuga á því hvernig afkomutölur fjölmiðla eru. Einnig nýtist áunnin óbeit höfundar á útgerðarmönnum honum vel við skrifin og veitir innblástur án þess þó að það geri umræðunni nógu mikið gagn.


Í nýlegri sögu okkar hafa endutekið komið upp dæmi um gríðarlegar afskriftir og kennitöluæfingar með fjölmiðla og meira að segja falið eignarhald árum saman án þess að það raskaði ró sumra með áberandi hætti. 

Jú reyndar, þegar þeir sem áttu skuldir moggans afskrifuðu hluta þegar nýjir eigendur tóku við. Þá görguðu þeir á torgum sem áður höfðu þagað þunnu hljóði....

Og gera hvorutveggja enn eftir behag.

Röggi
mánudagur, 9. júlí 2012

Rétttrúnaður fylgismanna fræðimanns

Eitt af því sem var fyrirséð þegar við fengum þessu hreinu vinstri stjórn til valda var að skilin á milli hægri og vinstri hlutu að skerpast. Nú dugur ekki lengur að nota gamla frasann um að sami rassinn sé undir öllum í pólitík. 


Þetta þóttu mörgum slæm tíðindi en ekki mér. Það er munur á milli og kostir og gallar hægri vinstri þvers og kruss sem við rífumst um okkur til dægradvalar með okkar innlendu aðferðum sem við köllum svo fyrir skemmtilegan misskilning rökræður.


Einn angi þessarar þróunar er að nú koma ýmsir úr felum sem hafa gert út á faglegt hlutleysi. Þetta er hvergi eins áberandi augjóst og í tilfelli fjölmiðla sem hirða sífellt minna um "hlutleysið" og "óháið" en áður og fyrr. 


En þetta sést víðar. Stefán Ólafsson stjórnmála og fræðimaður hefur fellt grímuna undanfarið. Það er vel og til eftirbreytni en lengi hefur það þótt fínt í okkar fræðimannasamfélaqi að gera út á hlutleysi en jagast fremur í þeim fræðimönnum sem hafa haft upplýstar pólitískar skoðanir. 


Sem er stórmerkileg nálgun á allan máta. Það er því full ástæða til þess að fagna þessu en eitthvað er meðgangan með þessari opinberum fræðmannsins kvalafull fylgismönnum hans sumum sem nú fara allnokkurn.


Það er í prinsippinu talsverð frétt þegar einn helsti fræðimaður okkar gerist skyndilega stórpólitískur í opinberri umræðu. Og það getur bara vel verið að það setji sumt af því sem hann hefur unnið að á undangegnum árum í nýtt samhengi. Af hverju ekki??


Þetta er ekki gamaldags hægri vinstri fætingur. Bévítans rétttrúnaðurinn ríður sem fyrr ekki við einteyming. 


Röggi
sunnudagur, 1. júlí 2012

Viðbrögðin

Auðvitað sýnist hverjum sitt þegar rætt er um úrslit kosninganna í gær. Við reynum að lesa út úr stöðunni og niðurstöðurnar eftir smekk. Þar er ég varla betri en aðrir.....


Sumt er áhugaverðara en annað eins og gengur en eitt er eins víst og að morgundagurinn rennur upp að embættið er orðið stórpólitískt og verður það líklega héðan af. Það skrifast þó ekki eingöngu á forsetann.


Viðbrögð andstæðinga Ólafs Ragnars af vinstri kanntinum eru nefnilega eingöngu pólitísk og einkennast af súrri og langlífri heift. Enginn er kampakátur nema Þóra...


Allt er týnt til. Sumir eru að horfa í það að mælingar segja að fylgi Ólafs komi helst frá þjóð sem ekki hafi langskólamenntum að baki og þannig fylgi sé verðminna en hitt.


Hugsanlega þykir mönnum þetta tal léttvægt en ekki mér. Við höfum fram til þessa verið laus við svona hroka og ekki þótt þau lönd smart sem skipta þjóð sinni upp í tvær mismikilvægar fylkingar eftir þessum mælikvarða miðjum. 


Annað er þusið um dræma kjörsókn. Vissulega er dræm kjörsókn verra en góð  og ég veit að skýringar geta verið margar. Ég hef almennt talað haft fyrirvara við það að senda helstu mál og jafnvel fleirri í atkvæði til þjóðarinnar.


Undanfarin ár höfum við haft nokkuð af slíku og áhugi á þeim farið dvínandi í réttu hlutfalli við fjölda þeirra. Er það ekki saga þessara aðferða?


Sumir lögðust í prósentureikninginn í nótt og reiknuðu sig niður á það að nýkjörinn forseti hefði svo og svo lítinn stuðning þjóðarinnar. Þeir hinir sömu ættu kannski að hafa þá skoðun fyrirfram að kosningar séu ekki gildar nema ákveðinn hluti þjóðarinnar mæti.


Ég man nefnilega eftir kosningum nýlegum þar sem "þjóðin" valdi sér fulltrúa til setu í stjórnlagaráði. Kannski ryfjar einhver upp hversu margir tóku þátt í þeim kosningum og setur vægi tillagna þeirra sem þar sitja í þetta sama samhengi. 


Fjölmiðlamenn og aðrir hafa svo reynt að gera það að sérstöku máli að Ólafur Ragnar situr lengur en margir aðrir í embætti. Og hvað? Framdi hann valdarán? Stal hann embættinu frá andstæðingum sínum með aðstoð þjóðar sem kaus hann? Þessi vísindi eru merkingarlaust hjal um ekki neitt.


Og merkilegt hvernig virðing fyrir úrslitum atkvæðagreiðslna hjá þjóðinni er valkvæð hjá sumum. Allt eftir smekk.


Pólitískum smekk eins og svo oft áður


Röggi
Við kjósum hann

Í dag kusum við okkur forseta.


Það sem tryggði Ólafi embættið nú öðru fremur var, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, framganga hans í Icesave með 98% þjóðarinnar að baki og sú aðferð hans að nota málskotsréttinn og þjóðaratkvæðagreiðslur.


Frábært að fylgjast með krampakenndum viðbrögðum andstæðinga Ólafs sem flestir ef ekki allir hafa á "réttum" stundum og þegar "réttur" málsstaður fyrir "rétt" stjórnvöld var í boði einmitt viljað nota þessar aðferðir. 


Og skreytt allt saman með lýðræðisástinni. Stundum er fínt að forseti beiti sér gegn löggjafar og framkvæmdavaldi en þá valkvætt.... 


Hægri menn eru svo ekkert betri þegar að þessu kemur og Ólafur Ragnar spilar á allt klabbið af mikilli íþrótt. 


Ég sé engan mun á prinsippafstöðu andstæðinga hans nú eða fyrr. Þar ráða fá önnur sjónarmið en pólitísk. Enda er nánast leitun að alvöru umræðu um embættið heldur miklu frekur sérhönnuð kosningabarátta sem miðar að því einu að koma óhentugum einstaklingi frá Bessastöðum.


Ef bara auglýsingastofan hennar Þóru hefði ekki sagt henni að afneita pólitíkinni í sér og sett hana þar með í viðstöðulausa og vonlausa vörn hefði hugsanlega verið hægt að láta kosningarnar snúast um eitthvað bitastætt.


Hlutverk forseta í stjórnskipaninni skiptir máli en það mál komst ekki á dagskrá af neinu viti. Og þá sjaldan þá var það þannig að frambjóðendur töluðu um það sem þeim finnst endilega að forseti skuli gera óháð því hvað stjórnarskrá gerir ráð fyrir.


Ólafur Ragnar hlýtur að vera snillingur. Hann spilar á þjóðina hægri vinstri og við dönsum dansinn glöð í bragði þegar hantar. Nú háttar þannig til að vinstri mönnum líður ömurlega yfir því að hafa nært kamelljónið og komið því til valda. 


Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta getur allt snúist á einu augabragði eins og maðurinn sagði. Helsta huggun vinstri manna harmi gegn er tilhugsunin um hægri stjórnina sem Ólafur mun þvælast fyrir sé það hentugt þá stundina.


Af hverju halda menn að Ólafur Ragnar sé forseti en ekki einhver annar? Af því að við kjósum hann auðvitað. Af því að við viljum hafa svona forseta, hvað annað?


Og þá þýðir ekkert að fara í fýlu undir falsyfirskyni. 


Röggilaugardagur, 23. júní 2012

Er frávísun ekki sýkna?

Hvað er hún þá?


Ég sá það á skilti einu fyrir utan héraðsdóm í dag að einhver telur svo ekki vera. Hvernig geta menn hlotið sýknu ef ekki þegar rannsókn leiðir í ljós að ekki verður ákært?


Er það kannski meiri sýkna að vera ákærður og leiddur fyrir dóm en ekki sakfelldur? 


Hvernig system viljum við hafa ef ekki dugar að notast við rannsókn hlutlausra og regluverk samið af þeim sem kjörnir eru af þjóðinni sjálfri til að handa dómstólum?


Hvað varð um gömlu sannindin um að hver maður sé saklaus uns sekt er sönnuð? Má gefa afslátt af þeim eftir smekk? 


Þegar ég kæri einhvern og þar til bærir aðilar komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til meðferðar fyrir dómstólum verður að líta svo á að viðkomandi sé saklaus.


Annað er umtalsverð rökleysa


Röggiþriðjudagur, 19. júní 2012

Enn um flotta Englendinga

Sko Englendinga. Þeir unnu bara riðilinn sinn á EM og sérfræðingarnir skilja eiginlega ekkert í þessu. Þeir halda helst með liðum sem spila samba við öll tækifæri. 


Englendingar verjast víst of mikið og of aftarlega og þeir sækja eiginlega ekkert af viti. Og þeir eru leiðinlegir. 


En þeir tapa ekki leikjum og vinna riðilinn sinn um leið og þeir skora í hverjum leik. Þeir eru lið sem missti þjálfarann sinn rétt fyrir mót og við tók maður sem enginn átti von á að væri til skoðunar.


Mér finnst þeir fínir og þeir sýndu það gegn Svíum að þeir hafa líka öll tök á því að spila hratt og sækja stíft. 


Ég veit ekkert hvort þeir komast í gegnum næsta andstæðing enda Ítalir vel sjóaðir í árangurstengdri taktík í fótbolta. En ég veit að Englendingar hafa í þessu móti valið sér taktík eftir stöðu sinni og andstæðingi hverju sinni.


Spilað á styrkleikum sínum en ekki andstæðinganna. Og náð árangri....


Hvað vilja menn meira?


Röggisunnudagur, 17. júní 2012

Málþófið

Ég les hér og þar að þingið þvælist fyrir stjórnvöldum sem þurfa að koma málum í gegn með meiri hraði en þingið kýs. Slíkt er hin mesta óhæfa og lýðræðiselskandi menn um borg og bæ tala um það án kinnroða að nú verði að aftengja þá sem ekki eru réttrar skoðunar.

Það sem tefur er kallað málþóf minnihlutans en málþóf þetta hefur alltaf verið í vopnabúri minnihluta þings og notað eftir smekk innan þeirra umferðarreglna sem gilda á þingi. 

Ég veit ekki hvort mér á að finnast þetta vont eða gott en meirihlutinn hefur alltaf kvartað þegar minnihlutinn nýtir sér rétt sinn til þess að masa út í eitt um hluti. 

Þetta er vandmeðfarið allt saman enda viðurkenna allir á fínum stundum að tryggja verði rétt minnihlutans við vinnu löggjafans. 

Hvernig það er best gert er líklega ekki bráðeinfalt mál en ég er viss um að lausnin verður ekki fundin af pirruðum meirihlutanum þegar hann þarf að troða stærstu og umdeildustu málum sínum í gegn seint og um síðir á lokaspretti þings. 

Þetta er prinsippmál sem ekki má snúast um það með hverjum við höldum. Ég fer nokkuð nærri um það að Björn Valur mun ekki hika við að nota þann rétt og þann tíma sem reglur þingsins veita honum á næsta þingi þegar hann verður í minnihluta standi honum svo hugur til.

Og það má hann.

Röggi

mánudagur, 11. júní 2012

Gott stig hjá Englandi

Grefilli gott stig hjá Englendingum gegn Frökkum. Víðáttuleiðinlegur leikur og það skrifast á tjallann. Leikurinn varð svo extra leiðinlegur í meðförum Dolla en kannski má segja að þau leiðindi hafi visst skemmtanagildi í sjálfu sér.


Ég hef  vissa samúð með leikaðferð Hodgson. Hann er nýtekinn við löskuðu liði og þarf fyrst og fremst úrslit. Jafntefli við gríðarvel skipað og nær ósigrandi franskt lið er smart fyrir England þó stíllinn fái ekki fegurðarverðlaun.


Hversu oft hafa Englendingar ekki farið snemma heim frá svona móti eftir þrjá gullfallega leiki sem skiluðu engu eða litlu í stigum talið? 


Góð úrslit geta gefið liðum sjálfstraust en ósanngjarnir tapleikir skila litlu og kannski mun þetta harðsótta stig gefa þessum miðlungsmannskap sem Hodgson hefur úr að spila aukið sjálfstraust.


Ég man eftir nokkrum útgáfum af landsliðum Ítala í gegnum tíðina sem hafa komið inn í svona túrneringu og spilað sig alla leið til lokaleiks. Ég hef reyndar ekki heillsufar í að spá Englandi þannig árangri.....


En kannski verður þetta einmitt stígið sem gerir einhvern gæfumun fyrir þá þegar upp er staðið og þá spyr enginn hvernig það kom til.


Röggifimmtudagur, 7. júní 2012

Að vera þjóðkjörinn

Það þykir sérlega smart að vera þjóðkjörinn. Forsetar eru þannig og það gefur styrk. Og stjórnmálamenn eru það að jafnaði líka. Og þeir sækja sér einnig styrk í þessa staðreynd.


Af því að þjóðin hefur talað. Hún talaði þegar hún mætti á kjörstað og lýsti því yfir síðast þegar mælt var hvernig viðkomandi mældist á vinsældaskalanum. Þetta er gott system. 


Svo fundu menn upp allskonar. Í dag er það stórmerkileg fræðigrein og útpæld hvernig á að hringja í fólk og mæla vinsældir þessa þjóðkjörna fólks á milli mála. Stjórnmálamenn og konur nota svo niðurstöður úr þessum könnunum eftir behag....


Reyndar er rétt að gera þann fyrirvara að þingmenn sem verða ráðherrar eru ekki þjóðkjörnir til ráðherraembættis og öðru nær. Þjóðin kýs fólk til að sitja löggjafarsamkomu sem á að vera aðskilin frá framkvæmdavaldi. 


En svo háttar til hér hjá okkur að sumir úr þessum hópi verða hvoru tveggja og ákveða svo lika hverjir verða dómsvald til að taka vitleysuna alla leið og gefa fullan skít í þriskiptingu valdsins. 


Ég nefnilega hjó eftir því í grein eftir forsætisráðherra að hún taldi sig þurfa aukinn styrk á bak við orð sín með því að tala um að hún væri þjóðkjörin.


Það er hún ekki heldur var makkað um málið á bakherbergjum eins og alltaf þegar ný þjóðkjörnir þingmenn eru að dunda sér við að taka sér framkvæmdavaldið til handargagns.


Jóhanna var aldrei kjörin til þess að verða ráðherra þó vinsældir hennar hafi  mælst miklar í aðdraganda og kjölfar síðustu kosninga. En varla er Jóhanna að vísa í slíkt enda mælingin nú um stundir langt fyrir neðan frostmarki og sígandi.


En það er önnur saga er það ekki


Röggi

Baráttan um kvótakerfið

Það verður að breyta kvótalögunum. Þessa setningu heyri ég tíðum og oft fylgja í kjölfarið gildishlaðnar yfirlýsingar um vonsku LÍÚ og þeirra manna, og kvenna, sem standa í útgerð. 


Lengi hefur þessi málflutningur hljómað sem tónlist í eyrum sumra en fékk þó ekki almennilegan hljómgrunn fyrr en hagstæðar rekstrartölur fóru að koma til. Tapið af útgerðinni vildu víst fáir. 


Ég man svo vel hvernig bransi útgerðarbransinn var fyrir kvótakerfi. Þeir hétu sægreifar í þá daga mennirnir sem sáu um að reka útgerðir með tapi og allir voru beint eða óbeint háðir ákvörðunum stjórnmálamanna sem felddu gengið eftir smekk svo allt gæti þetta nú "lifað" áfram og byggðarsjónarmiðin ráðið þegar menn réru eftir því sem heitir í dag auðlindin okkar allra.


Ég veit ekki hvernig best er að haga því að útgerðir greiði gjald fyrir veiðiréttinn en finnst gott að allt í kringum borðið viðurkenna menn að það þurfi að útgerðin að gera. 


En finnst bjagað að stjórnmálamenn telji sig þess umkomna að mega einir hafa skoðun á málinu og fylgja henni eftir að vild á þeirri forsendu helstri að þeir séu þjóðkjörnir. 


Ljótt er ef hagsmunaaðilar mega ekki lengur taka sér stöðu gegn stjórnmálamönnum sem sitja í ráðherrastólum. 


Jóhanna Sigurðardóttir er af gamla skólanum og það þarf svo sannarlega ekki að vera til vandræða. Enda er það ekki þannig alltaf en þó of oft. Fyrir henni er slagurinn um kvótakerfið hápólitískt mál fyrst og fremst en langsíðast viðskiptalegt og hagfræðilegt úrlausnarefni.


Steingrímur er einnig af þessum sama skóla. Hann álítur að hagnaður sé þjófnaður sem ber að skila til ríkissins svo stjórnmálamenn geti sullað með peningana. 


Þau tvö eru að mér virðist í einkastríði í þessu máli og hafa ekki áhuga á að taka þátt í umræðunni. Gömul slagorð eru týnd til og þau verða svo ekkert gáfulegri þó ungir þingmenn taki þau sér í munn. 


Útgerðarmenn eru vont fólk sem vill ekki greiða til samfélagsins. Þetta er 
útgangspunkturinn. Þaðan er baráttan háð. Og haldið áfram að kifa á þessu seint og snemma til að viðhalda stöðunni um vondu útgerðarmennina og góðu stjórnmálamennina.


Nú er það þannig að ekki er unnt að finna neina hagsmunaaðila hverju nafni sem þeir kunna að nefnast sem styðja þá útfærslu sem ríkisstjórnin hefur valið og kann ekki að bakka út úr. 


Fræðimenn hafa ítrekað skoðað og ályktað, verkalýðshreyfingin hefur talað, samtök sjómanna...........listinn nær alla leið....


....að þingflokksherbergjum Samfylkingar og VG. 


Þar sitja handhafar sannleikans í turninum góða og þurfa ekki að hlusta. Og klaga svo í þjóðina þegar fólk kýs að vera á öndverðum meiði og berjast fyrir þeirri skoðun.


Ég fíla ekki svona stjórnmálamenn


Röggi