mánudagur, 30. janúar 2012

Umboðsmenn sannleikans og dómstól götunnar

Það eru engin ný sannindi fólgin í því að erfitt er að verja sig þegar dómstóll götunnar réttar yfir mönnum. Sú aðferð gamla þrjótsins Mc Carty að láta menn neita ásökunum þótti í eina tíð ekki boðleg en er í dag orðið meginstefið í rekstri heils fjölmiðils.

DV er blað sem lýtur fáum lögmálum betur en seinum eigin. Þar víkur allt annað undan. Fáist einhver til að skrifa nógu skemmtilega spunasögu um einhvern dugar það ritstjórn blaðsins til þess að hefja herferð gegn viðkomandi.

Bjarni Ben er skólabókardæmi um þetta. DV trúir því að hann sé sekur í hinu umtalaða Vafningsmáli og þá telur ritsjórn blaðsins vera fulla sönnun fyrir sekt hans og tekur til óspilltra málanna.

Og smyr frétt um málið aftur og aftur á síður blaðsins. Og bætir því svo gjarnan við að Bjarni Ben neiti hreinlega að bera af sér sakirnar. Gamli fautinn að vestan hefði vart gert betur í den. En hver er raunverulega staða málsins?

Í dag bregst Bjarni við þessari orrahríð með prýðilegri grein. Ég geri mér glögga grein fyrir því að andstæðingar Bjarna og Sjálfstæðisflokksins lesa þessa grein með lokuð augu og munu svo hafna henni að fullu.

Með þeim orðum að hann svari engu og útskýri ekkert. Hvoru tveggja er í besta falli áunninn misskilningur drifinn áfram af pólitík. Hvernig er hentugt fyrir menn sem hafa stöðu sekra fyrir dómstóli götunnar að afsanna sektina telji þeir á annað borð eðlilegt að þurfa að gera slíkt?

Þeir sem hafa þrek til að lesa greinina sjá auðvitað að Bjarni gerir það sem honum er mögulegt til að neita ásökunum dómstólsins. Hvaða réttlæti er í því að einbeitt neitun á sök dugi ekki gegn einbeittum en ósönnuðum fullyrðingum fjölmiðils um sekt?

En þannig stendur málið nefnilega. Bjarni neitar því sem borið er á hann en þeir sem vilja smyrja neita að taka mark á því og segja það engin svör! Slíkt er svo ótrúlega léttvægt að engu tali tekur.

Almennt er það þannig þó ég skilji að málið er viðkvæmara fyrir stjórnmálamann að þeir sem ákæra skulu bera fram sannanir. Neitun ákærðra stendur sem fullgilt svar og gott nema annað sannist.

Þetta skilja allir sem hafa þurft að sæta rannsókn af hvaða tagi sem hún er. Þetta er regla númer eitt í mannréttindasáttmálum og stjórnmálamenn eru varla algerlega undanþegnir. En það er fleira í þessari sögu...

Nú er það bara þannig að Bjarni Ben hefur verið kallaður til skýrslutöku vegna þessa mál sem VITNI. Þeir sem um málið véla og hafa öll göng og ættu að geta talist hæfir til þess að lesa það hafa sem sagt metið það þannig að Bjarni sé hvorki til rannsóknar sjálfur né verði hann ákærður.

En þannig smámunir duga DV ekki sem heldur sínu striki og heggur á báðar og endurtekur það sem áður hefur verið sagt og lemur svo á Bjarna vegna þess að hann getur ekki afsannað til fullnustu ásakanirnar.

Ég spyr. Hvernig á honum að vera það mögulegt öðruvísi en að gera það með eindreginni neitun opinberlega og svo með því að mæta til skýrslutöku við rannsókn málsins?

Komi í ljós að Bjarni Ben hafi gerst sekur um eitthvað í þessu mun ég ekki reyna að verja hann en ég kýs að treysta öðrum en DV til að dæma í þeirri sök.

Þeir sem segjast kyndilberar sannleikans eina hafa alltaf í gegnum alla söguna verið fólk sem telur sig hafið yfir lög og rétt. Verið fólk sem bara veit og telur það skyldu sína að fylgja sannfæringu sinni alveg óháð öðrum grundvallaratriðum.

Vegferð DV í þessu máli er gott dæmi um slíkt.

Röggi

laugardagur, 28. janúar 2012

Jóhanna skilur ekki stöðu sína

það er varla of mikið í lagt þegar ég segi að samstarf vinstri flokkanna sé að verða flokkunum báðum ofviða. Þeir eru í raun magnþrota og hafa hætt að stjórna landinu og nú snýst tilvera þeirra eingöngu um að halda eigin sjó. Hagsmunir þjóðarinnar eru á meðan aukaatriði.

Hjá VG eru hlutirnir nokkuð skýrir. Seinni klofningurinn er nú öllum ljós og Steingrímur ólíklegur til þess að leiða restina áfram eftir næstu kosningar.

Samfylkingin er rétt að byrja sitt uppgjör og þar á blóðið eftir að renna. Ég held hreinlega að margir Samfylkingarmenn og þar með talin Jóhanna hafi haldið að allt væri með felldu, undir control.

Þessa dagana reyna menn allt hvað af tekur að koma í veg fyrir að átökin komist uppi á yfirborðinu. Maður á aldrei að segja aldrei en mér sýnist svo stór orð og svo stórar ákvarðanir hafa verið teknar að ekki verði komist undan slagsmálum fyrir opnum tjöldum.

Jóhanna gerir sér enga grein fyrir stöðu sinni og reynir að láta umræðuna snúast um hið vonda íhald. Íhaldið hennar Jóhönnu hefur bara ekkert með það að gera að hún er í raun fyrir og kann ekki að vikja fyrir morgundeginum í flokki sem þarf breytingar.

Því fyrr sem Jóhanna sér að héðan af á hún enga vinningsmöguleika því betra. Núna ættu ráðgjafar hennar að hefja undirbúning að brottför á hennar eigin forsendum. Ef ekki er líklegt að fórnarkostnaður flokksins verði talsverður.

Og hvað ætli vinnist með því sem Jóhanna gæti kallað sigur í þeirri augljósu baráttau sem nú er háð innan flokksins? Ég sé engan sigur hvorki fyrir Samfylkingu né þjóðina að Jóhanna haldi áfram að reyna að leiða flokk og þjóð.

Spennandi tímar hjá þessum tiltölulega ungu flokkum sem enn eru greinilega í mótun. Flokkar sem ekki vissu hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir yrðu stórir. Flokkar sem ekki voru tilbúinir til þess að vinna saman hvað sem allri vinstri rómantík líður.

Jóhanna getur svo tuggið gamlar tuggur um vont íhald sem einhverjir væntanlega vondir menn séu að leiða til valda hér aftur. Það mun engin leiða neinn til valda hér nema þjóðin sjálf. Það ætti Jóhanna að þekkja.

Og það er heldur ekki íhaldinu hennar Jóhönnu að kenna að ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta á þingi og ekki er með neinu móti hægt að kenna íhaldinu um að Jóhanna virðist ekki lengur njóta nægilegs stuðnings innanflokks.

Hennar tími er kominn og farinn og það eina sem unnið er að leynt og ljóst er að hennar eigin flokksmenn vilja koma henni frá.

Röggi

mánudagur, 23. janúar 2012

Metnaðarlaust síðdegisútvarp

Síðdegisútvarp rásar 2 fjallaði um vonum um landsdómsmálið í dag. Þetta er mál málanna og allt er upp í loft vegna þess og því ekki óeðlilegt að um málið sé fjallað.

Þetta er afar viðkvæmt mál og örugglega ekki ofmælt að það sé eitt umdeildasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir lengi með öllum sínum öngum og ranghölum þar sem pólitík spilar stóra rullu. Þess vegna skiptir matreiðsla þeirra sem tala í útvarpi allra landsmanna miklu.

Í kynningu á efninu var ekki annað að heyra á þáttastjórnendum en að þau hafi leyst lífsgátuna og komið sér upp skoðun á viðfangsefninu og fóru ekki mjög leynt með niðurstöðuna. Nú ætla ég fjölmiðlafólki alls ekki að það megi ekki og kunni ekki að hafa skoðanir en þetta er vandmeðfarið eins og flestir ættu að geta skilið.

Og þá var komið að því að kynna til leiks þá sem stjórnendur þáttarins hefðu valið til að hjálpa okkur að glöggva okkur á þessu annars flókna álitamáli sem klýfur hið minnsta tvo flokka niður í rætur.

Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og síðast en ekki síst Magnús Orri Schram. Allt hið mætasta fólk sem er svo sannarlega með kjöt á beinum þegar kemur að því að rökræða pólitík og allt gott um það að segja.

En allt fólk með sömu sýn á stöðuna og allt fólk sem tilheyrði óánægðum minnihlutanum. Og þarna var sem sagt vinalegt spjall eintóna og umræðan öll á eina lund einhvernvegin og allir svo glaðir og sammála.

Hvurslags metnaður er þetta? Hvar er fagmennskan í þessu? Á ég að þora að segja hlutleysið?

MIg langar að trúa því að þetta sé leti. Að stundum hreinlega nenni þáttastjórendur ekki að raða saman fólki sem getur og þarf að skiptast á skoðunum heldur sé miklu þægilegra að fólk sé bara í léttu dúlleríi með þeim sem eru á sömu skoðun.

En ég viðurkenni að ég þarf að beita mig hörðu til að trúa á þannig skýringar ekki bara vegna þess að annar stjórnandinn er glerharður Samfylkingarmaður heldur vegna þess að ég hef nú þrátt fyrir allt þá trú að allir vilji gera vel og vera metnaðarfullir.

En hvað á maður að halda?

Röggi

Súrrealískt ástand ríkisstjórnar

Þetta er ljóta ástandið. Það er ekkert mjög ónákvæmt að halda því fram að frá upphafi þrautagöngu þessarar ríkisstjórnar hafi allt verið upp í loft í samstarfinu. Fljótlega kom í ljós að þessir flokkar eiga enga samleið.

Hvorki að málefnum né aðferðum. Öll viðurkennd gildi hvað varðar heilindi og samstarf stjórnmálaflokka hafa verið fyrir borð borin frá upphafi. Flokkarnir hafa lamið á hvor öðrum án afláts og tókst ekki einu sinni að nýta sér örfáa hveitibrauðsdaga til gagns.

Jóhanna og Steingrímur hafa með hjálp fjölmiðla og bloggara reynt að eyða öllu tali um fullkomið gagnsleysi. Fyrst með þeim orðum að þeir sem stjórnuðu áður ættu ekki fá að hafa skoðanir framar. Þá gleymdist að Jóhanna og Össur stjórnuðu líka áður. Svo var það vandinn sem var svo stór ekki var nema eðlilegt að ekki tækist að taka góðar ákvarðanir.

Líklega erum við hætt að taka eftir því svo súrrealískt er ástandið en við fáum orðið engar fréttir aðrar úr stjórnaráðinu en þær hvernig gangi að forða ríkisstjórninni frá falli. Alls engar. Það er bókstaflega ekkert annað að gera þar en að reyna af öllum lífs og sálar kröftum að bjarga hræinu.

Svo kemur Jóhanna í Kryddsíldina og skilur ekkert í því að fólk geti ekki verið skemmtilegt. Ég finn til með Jóhönnu á minn hátt. Hún var véluð í djobbið og finnst örugglega sárt að sjá ferilinn enda með þessum ömurlega hætti. En það mun hann gera því Össur hefur slegið hana af.

Ég velti því fyrir mér hvenær Jóhanna sér sér leik á borði og stígur út úr þessum farsa. Áður en henni verður ýtt til hliðar þegar það þjónar hagsmunum flokksins. Þá kæmi hennar tími. Þá gæti hún stjórnað burtreiðinni og sagt það sem þarf að segja.

það virðist hún ekki geta því allt kapp er lagt á að halda áfram samstarfi sem allir vita að er ónýtt. Hvernig dagar eru það fyrir Jóhönnu sem fara eingöngu í það að reyna að halda saman fólki sem getur ekki unnið saman? Fólk sem svívirðir skoðanir hvers annars daglega liggur mér við að segja.

Stjórnmálamenn gera mistök og ekki eru allir dagar góðir. Við erum ýmist hægri menn eða vinstri og sumir þykjast vera hvorugt en eru það ekki. En við getum ekkert þóst láta eins og það ástand sem við lesum um daglega sé eðlilegt og eigi að halda áfram.

Meira að segja sumir vinstri menn eru farnir að sjá að það er enginn sigur í því einu að sitja bara.

Kannski óttast flokkarnir hvorn annan svo þegar sleppir að þeir þora ekki af þeim ástæðum að hætta. Sá ótti er ekki ástæðulaus en sé ekki að stríðið sem nú er reynt að hylja fyrir þjóðinni verði minna hatramt því lengra sem líður á.

Þetta er samstarf er búið og fyrir löngu orðið skaðlegt hagsmunum þjóðar sem þarf starfhæfa ríkisstjórn.

Röggi

sunnudagur, 22. janúar 2012

Tvískinnungur Birgittu

Hvernig er það Birgitta Jónsdóttir. Má forseti þings bara skipta sér af málum sem eru fyrir almennum dómstólum en ekki leyfa meirihluta þings að ræða ákæru sem þingið stendur að þegar rökstuddur efi er í hugum meirihlutans um að ákæran sé kannski ekki í lagi?

Hvernig er hægt að taka mark á því þegar Birgitta segist ekki þola það sem hún kallar afskipti forseta þings af málum sem eru fyrir dómstólum þegar þessi sama Birgitta hamaðist á þessum sama forseta þegar 9 menningarnir voru ákærðir eftir rannsókn til þess bærra stofanana fyrir brot á hengingarlögum?

Ég frábið mér athugasemdir um að þessi mál séu ekki sambærileg enda er það Birgitta sem valdi sér þetta prinsipp en ekki ég.

Hvernig skýrir orðabókin tvískinnung?

Rögg

laugardagur, 21. janúar 2012

Sigur þings og kögunarhóll Þorsteins

Það hefur verið magnað að fylgjast með því hvernig fólk sem telur sig fylgjendur upplýstrar umræðu og réttlætis og umbóta á umræðuhefðinni tjá sig í kringum landsdómsmálið. Langfæstir þeirra sem vilja halda áfram með málið í þeim farvegi sem það er núna hafa ekki gert neina tilraun til að rökræða það sem um er að ræða.

Á sama tíma og fólk masar um virðingu fyrir alþingi vill það í raun halda áfram að nota þessa mikilvægu stofnun sem tæki í pólitískum hanaslag þar sem allt snýst um lumbra á andstæðingum. Öllu er snúið á haus og Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Björn Valur Gíslason sem tala statt og stöðugt um virðingu alþingis skilja ekki og hafa ekki þrek til að rökræða það að virðingu alþingis var einmitt bjargað í gær, en ekki öfugt.

Lögfræðin í málinu kemst ekki að fyrir pólitísku hagsmunamálunum og allt í einu man enginn að alþingi er ekki afgreiðslustofnun fyrir lýðskrumara í pólitík heldur löggjafarsamkoma. Margir þeirra sem harðast hafa barist gegn því að ágætlega rökstuddar og framsettar efasemdir um málið séu ræddar af ákærandanum í málinu, alþingi, á þeim forsendum að málið sé komið of langt hefur sjálft hamast í því að fá áratuga gömul mál tekin upp fyrir almennum dómstólum og ekki sparað þar stóryrðin.

Framkvæmdavaldið hefur með augljósum hætti ruglað þingið og baráttaufólkið fyrir auknu lýðræði og þrískiptingu valdsins gleymir öllu slíku þegar afdalastjórnmálin þurfa framgang. Fólkið sem móðgast út í Lilju Mósesdóttur skilur ekkert hvað hún er að segja og telur hana hafa svikið lit vegna þess að hún gleymdi rétttrúnaði sem snýst um að þola ekki hægri menn. Lilja var með afstöðu sinni að verja þingið, lýðræðið og umræðuna algerlega án þess að breyta um afstöðu til ákærunnar. Af hverju vill fólk ekki skilja svo augljósan hlut?

Hvernig það getur verið ósigur að fjalla um efnisatriði þeirra efasemda sem um málið standa er mér hulin ráðgáta. Og það er í raun ótrúlegt að sjá fólk sem hefur gargað á torgum um vandaða umræðu og bætt þing berjast af krafti gegn góðum grundvallarhagsmunum sínum í þessu máli.

Grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu um þetta mál er svo vel orðuð og vönduð greining á málinu að ekki verður betur gert. Gaman væri ef fólk utan þings og innan hefði þor og dug til rökræða efnislega um málið og láta ekki pólitíkina binda sig á klafa gamallar umræðuhefðar sem snýst eingöngu um að hafa andstæðinga undir.

Fylgismenn þess að vísa tillögunni frá eru í raun fylgismenn gamla tímans þar sem afdankað framkvæmdavald ræður því hvað er rætt á alþingi og hvað ekki. Ólýðræðislega þenkjandi fólk því miður.

Og mér sýnist margir hávaðasömustu fulltrúar byltingarinnar með búsáhöldunum hafa gengið í lið með gamla tímanum fyrir tóman misskilning og í raun látið draga sig á asnaeyrunum af fólki sem skilur ekkert um hvað málið snýst.

Röggi

föstudagur, 20. janúar 2012

Alþingi: Lýðskrumarasamkoma eða löggjafarþing?

Atli Gíslason flutti magnaða ræðu í þinginu í dag. Hann er laus undan oki þeirra þingmanna sem annað hvort kunna ekki eða þora að taka málefnalega og fræðilega rökstudda afstöðu til orða þeirra sem gerst þekkja til og segja að meðferð þingsins á landsdómsákæunni hafi verið afleit og í raun til skammar.

Þeir sem hæst tala fyrir því að loka bara augunum og láta flokkspólitíska stundarhagsmuni ráða staðfesta með orðum sínum svo óyggjandi er að málið er fyrst og fremst flokkspólitískt. Allir eru þó sammála um að á þeim formerkjum megi alls ekki reka málið.

Ég er þess fullviss að það hefur verið afar óþægilegt fyrir þingmenn marga að sitja undir ræðu Atla. Kannski munu einhverjir reyna að klína því á Atla Gíslason að hann standi með Sjálfstæðisflokknum í sukki og vilji ekki gera upp hrunið!

Ég er sammála þeim sem segja að þetta mál er prófsteinn á þingið og stöðu þess. Er alþingi bara vetfangur fyrir gargandi lýðskrumara með pólitískan eigin metnað eða er alþingi stofnun sem lætur sig fræði og fagmennsku skipta meira máli.

Menn geta haft þá skoðun að ákæra skuli ráðherra fyrir landsdóm og fært fyrir því rök. En af hverju ekki má ræða mjög vel ígrundaðar efasemdir um að málsmeðferðin hafi verið meingölluð afhjúpar menn og kemur upp um getuleysi manna til að starfa fyrir stofnun sem er ætlað að setja okkur lög.

Hér er enn eitt dæmið um það hvernig framkvæmdavaldið leikur löggjafarþingið okkar.

Röggi

Björn Valur og landsdómsklækirnir

Hún birtist manni stundum undarlega lýðræðisástin. Núna vilja sumir þingmenn visa frá tillögu um að fella niður ákæru á hendur Geir Haarde fyrir landsdómi. Hvað er fallegt við þá hugmynd?

Björn Valur Gíslason hefur ekki fundið tilfinningum sínum betri farveg frá því að hann barðist með kjafti og klóm fyrir Iscsave samningi Steingríms og Svavars bæði innan flokks og utan en þann að halda til streitu ákæru á hendur Geir Haarde.

Björn Valur var svo auðvitað í þeim hópi sértrúar sem missti trú á þjóðaratkvæðagreiðslum þegar þær hentuðu ekki og hafði svo engan dug til að bera virðingu fyrir eins afgerandi niðurstöðu og mögulegt var að hugsa sér að atkvæðagreiðslunni lokinni. Hver man ekki eftir þeim Birni Val?

Og hvernig hafa þingmenn Samfylkingar pólitíska og tilfinningalega getu til að halda til streitu ákæru á Geir eftir að hafa sleppt sínum eigin flokksmönnum við ákæru á flokkspólitískum forsendum einum? Ákæru sem nefndin lagði til að fjórir fengju en ekki bara einn. Hvernig fólk er slíkt fólk?

Ég veit að í pólitík er enginn annars bróðir í leik en í þessu máli hafa menn eins og Björn Valur og fleiri reyndar þó fáir standist Birni Val snúning traðkað á persónu eins manns og sumir jafnvel leyft sér að halda því á lofti að það væri gott fyrir Geir að taka bara slaginn frekar en að lifa án hans. Lágt geta menn lagst þegar málefnin þorna upp.

Menn verða háfleygir og telja þetta mál snúast um uppgjörið stóra. Það standi og falli með ákæru á hendur einum manni. Þeir sem vilji fella hana niður séu á móti uppgjöri og vilji halda í gamla tíma.

Einn þeirra sem svona tala er Björn Valur. Hann tilheyrir ríkisstjórn hinna nýju tíma. Ríkisstjórn upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. Björn Valur situr til borðs með ráðherrum úr ríkisstjórn Geirs Haarde alla daga og makkar um pólitík sem allir vita að snýst eingöngu um að halda völdum og annað ekki.

það er þó eitthvað rökrétt vit í hugmyndum Hreyfingarinnar sem vill ákæra alla ráðherrana eins og nefndin sem rannsakaði. Björn Valur er örugglega sömu skoðunar og Hreyfingin í þessu máli en það bara hentar honum ekki pólitískt að vera það. Hann þarf nefnilega að halda völdum....

....og gerir það sem þarf til þess og ýmist tekur í gagnið handhæg prinsipp eða hendir eftir þörfum. Og spilar á fullkomlega eðlilegar tilfinningar þjóðar sem fór flatt í hruninu.

Þeir sem halda að Björn Valur sé glæstur fulltrúi nýrra tíma í pólitík og hafa ekki séð að hann er einmitt skilgetið afkvæmi gamla tímans eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum. Stutt saga hans á þingi er löðrandi í klækjum og hagnýtum skoðunum sem allar miða að því einu að halda völdum.

Og nú er landsdómsmálið sem er mjög áhugavert prinsippmál orðið enn eitt málið sem snýst ekkert um aðalatriði og rökræður heldur lýtur eingöngu lögmálinu um það hvort ríkisstjórn Björns Vals Gíslasonar þolir að ákæra verði felld niður.

Allur fagurgali um háleyt markmið og uppgjör eru gagnslausar umbúðir utan um akkúart það og ekkert annað.

Röggi

þriðjudagur, 17. janúar 2012

Er hægt að tapa fallega?

Við töpuðum fyrir Króatíu í gær. Það þarf ekki að koma á óvart enda Króatía stórveldi eins og litla Ísland í handbolta. Líklega þarf helvíti góðan leik af okkar hálfu og þá kannski pínu dapran af þeirra hálfu svo við vinnum þá.

Íþróttir eru samt ekki raunvísindi og allt getur gerst. Stundum vinna "slakari" liðin þau betri. Sumir segja okkur betri en Norðmenn en ekkert þarf þó að vera óeðlilegt þó við töpum fyrir þeim.

Viðbrögð margra við viðbrögðum þjálfara og leikmanna eftir leikinn í gær hafa vakið áhuga minn. Þegar þjálfarinn segist sjá margt gott í liðinu og leiknum finnst sumum það óraunsæi og flóttatilraun. Samt eru flestir á þeirri skoðun að leikurinn hafi verið vel spilaður af okkar hálfu.

Er sem sagt ekki hægt að spila vel og tapa? Og þá kannski ekki heldur að spila illa og vinna? Spiluðu Króatar vel í gær eða við svona illa? Eru þeir ekki eins góðir og árangur þeirra segir til um og við betri?

Í fullkomnum heimi hefði markvörðurinn okkar varið meira. Mál Snorra Steins hefði ekki truflað allt og alla fram á síðasta dag. Óli Stef væri enn 27 ára. Ingimundur ekki að spila í deild þar sem geta hans og líkamsstyrkur hefur daprast niður. Alex fínn í öxlinni. Róbert Gunnarsson hefði skorað úr færum sínum.......

Krafan um að allir sem að leiknum koma geri ekki mistök er ekki sanngjörn. En hún er missanngjörn þó. Hægt er t.d. að gera meiri kröfur til reynslumeiri dómara en reynsluminni. Sama á við um leikmenn og þjálfara.

Við eigum flott lið með blöndu af reynslumiklum spilurum og svo yngri leikmönnum og mjög reynslumikinn þjálfara. Og gerum því eðlilega kröfur. En hverjar eru þær?

Eru þær að við vinnum alla leiki hvort sem við spilum illa eða vel? Liðið spilaði fínt í gær og leysti að mér fannst flest það sem andstæðingarnir buðu upp á taktískt sem er týpískt fyrir þjálfarann okkar. Það eina sem vantaði var að þetta skilaði okkur sigri.

Það er svo auðvelt að "reikna" sig upp í þetta og hitt á blaði þar sem andstæðingarnir eru stundum ekki teknir með í reikninginn. En við vitum að íþróttaleikir vinnast ekki á blaði sem betur fer og þeir tapast ekki heldur þar.

Ég veit líka að árangur í svona túrneringu er mældur í stigum og sigrum en er sanngjarnt að segja að lið sem ekki nær hámarksárangri eða jafnvel betri hvern einasta dag hafi spilað illa eða mistekist taktískt? Og auðvitað er ekkert tap sigur en alveg er ástæðulaust að loka augunum fyrir því þegar liðið spilar vel. Af hverju ætti þjálfarinn að gera það?

Kannski spilum við illa á morgun en vinnum samt Noreg. Það þykir alltaf gasalega fínt að spila illa en vinna þó. En mikil skömm að spila vel en tapa, jafnvel fyrir betra liði.

Röggi

Enn um landsdóm af gefnu tilefni

þeir eru margir angarnir af landsdómsmálinu. Tillaga Bjarna Ben um að draga ákæru á hendur Geir Haarde til baka er allt í einu ekki lengur tillaga um að draga ákæruna til baka heldur spurning um það hvort ríkisstjórn heldur velli. Það bjagar málið og gerir umfjöllun um tillöguna stórfurðulega.

Hæfustu menn í lögum hafa tekið af tvímæli um að alþingi er að fullu heimilt og eðlilegt ef vill að draga ákæruna til baka. Allur fyrri málflutningur þeirra sem hvorki hafa persónulegt né pólitískt hugrekki til þess er þar með ómarktækur og gagnslaus í umræðunni og því er þarf að finna henni annan farveg.

Stefán Stefánsson prófessor skrifar grein í Moggann í morgun þar sem hann reifar skoðanir sínar rökstutt um að ekki hafi verið eðlilega staðið að atkvæðagreiðslunni í grundvallaratriðum. Þar tekur Stefán auðvitað ekki inn í reikninginn pólitíkina sem öllu réði í málinu en það eru einu grundvallaratriðin sem þeir sem greiddu ákærunni atkvæði höfðu aðgang að.

Ögmundur Jónasson skrifar einnig merkilega grein í sama blað þar sem hann skýrir þá ákvörðun sína að styðja tillögun um að falla frá ákæru. Í þessari grein rekur hann hversu fáránlegt var að verða vitni að því hvernig sumir flokkar og einstaka þingmenn greiddu atkvæði eftir flokkslínum en þvert á öll prinsipp í málinu.

Umræður um tillögu Bjarna munu að líkindum ekki snúast um nein önnur prinsipp en þau hvort ríkisstjórn mun þola þá niðurstöðu sem málið ætti að fá. Sem er auðvitað að draga ákæruna til baka.

Viðbrögðin við grein Ögmundar benda eindregið til þess að stjórnarliðar hafi ekki þrek til þess að ræða það mál efnislega heldur skal barið á Ögmundi og ekki tekin málefnaleg afstaða til þess sem hann hefur fram að færa máli sínu til stuðning.

Álit færustu manna utan þings vegur einnig létt þegar kemur að þeirri íþrótt sem heitir Íslensk afdalapólitík. Þá gilda hvorki viðurkennd viðmið lögfræðileg né önnur heldur eingöngu innanflokksstaða hverju sinni.

Þetta dapurlega mál sem er áhugavert út frá öllum öðrum sjónarhornum en pólitískum rétttrúnaði og klækjum stundarhagsmunanna ætlar aftur og aftur að afhjúpa þá sem ekki kunna eða geta séð annað en sína eigin pólitíska stöðu til skemmri tíma.

Þessi saga er ekki öll sögð og því miður óttast ég að ef meirihluti þings þumbast við munum við sjá endurtekin pólitísk réttarhöld í þessu landi. Þau hafa flestrar þjóðir aflagt fyrir nokkru en vinstri menn á Íslandi halda að málið snúist um Geir Haarde og annað ekki.

Röggi

laugardagur, 14. janúar 2012

Helgi Seljan móðgast

Helgi Seljan er mikill snillingur og alveg stórskemmtilegt að fylgjast með honum móðgast gegna þess að annar álíka snillingur móðgast vegna áramótaskaupsins. Í raun og veru veit ég ekkert hvers vegna hárin rísa á fjölmiðlamanninum glaðbeitta þó fólk leyfi sér að hafa skoðun á áramótaskaupinu.

Ég hélt nefnilega að Helgi Seljan væri alvöru töffari sem færi ekki í fýlu þó Eiður Guðnason fari í fýlu. Enda er það svo að meira að segja tuðarar eins og sendiherrann fyrrverandi hljóta að vera verðir skoðana sinna þó þær passi ekki við þær sem Helgi Seljan hefur.

Svo er það í raun áhugavert sjónarmið að skoðanir manna sé skilgreindar sem móðganir fyrir hönd einhverra og verður gaman að fylgjast með Helga máta þessa heimspeki við viðmælendur sína í framtíðinni.

Kannski rétt að taka það fram að ég er ekki móðgaður þó ég skrifi þennan pistil. Hvorki fyrir mína hönd né annarra.

Röggi

föstudagur, 13. janúar 2012

Ábyrgðarhlutur

Stundum segja atvinnustjórnmálamenn að það sé ábyrgðarhluti að hlaupast undan mikilvægum verkum í miðri vinnunni. Þennan frasa nota menn stundum þegar stjórnarndstaða bendir á að hægt gangi og best væri að hleypa öðrum að.

Sú ríkisstjórn sem nú situr þykist einmitt vera í þeirri stöðu að allt fari hér á hliðina ef núverandi ráðherrar fara frá. Hér sé allt á réttri leið undir öruggri forystu. Það sé því ábyrgðarhlutur að hlaupa frá borði þó gefi á bátinn í ólgusjó sem aðrir gáruðu í upphafi.

Mikill og sívaxandi meirihluti þjóðarinnar sér þetta ekki svona heldur einmitt og algerlega á hinn veginn. Það er ábyrgðarhlutur að halda áfram eins og fyrir þessu samstarfi VG og Samfylkingar er komið.

Auðvitað vita það allir að samstarfinu er að mestu lokið. Héðan af reynir hver að bjarga sér sem betur getur. Þær fréttir sem af ríkisstjórn berast snúast að mestu um það hvernig leikfléttur eru að gera sig.

Hvernig klíkurnar innan flokkanna eru að lumbra hver á annarri. Þá þarf að skáka fólki til og koma í veg fyrir að hinn eða þessi ráðherra sem hefur styrka stöðu innan flokks en gegn eigendaklíkum sitji áfram í ríkisstjórn.

Byltingin hefur étið börnin sín. Man einhver fyrir hvað þessi ríkisstjórn átti að standa? Vá hvað mörgum fannst gaman að hlusta á talið um gagnsæið og upplýstar ákvarðanir. Lýðræðisástina sem ríkisstjórnin komst að að hún gat ekki umborið ef lýðræðið vildi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Skjaldborgin. Man einhver eftir henni? Allt var þetta svo sögulegt. Merkilegt hvað vinstri mönnum finnst allt vera sögulegt þegar andinn er yfir.

En þrátt fyrir afleitt samstarf flokka og opinská innanflokksátök sem háð eru úr ráðherrabílum er það eiginlega þó samt hálfgert aukaatriði þegar rætt er um grundvallarstefnuna sem lagt er upp með. Mér er kannski alveg sama þó ráðherrar berist á banaspjótum seint og snemma ef þeir eru ekki í leiðinni að fylgja liðónýtri stefnu í efnahagsmálum.

Reyndar eru til fræðimenn á Íslandi í undantekingum sem bera starfi ríkisstjórnarinnar gott orð. Þeir eiga greiðan aðgang að umræðunni sem af einhverjum ástæðum nær ótrúlega oft að snúast um þá sem ekki stjórna eða hafa stjórnað áður.

Auðvitað er engin ástæða til að forðast lærdóm og læra af fyrr mistökum en af hverju treysta fræðimenn sér ekki til þess að ræða það sem er að gerast í dag af akademískri stillingu og virðuleika? Skilin milli stjórnmála og fræðimennsku eru að þurrkast út.

Það er vissulega ábyrgðarhlutur að hlaupast undan þó á bátinn gefi. Sér í lagi ef mælanleg vissa er fyrir því að vel sé að ganga. Engu slíku er þó til að dreifa þegar reynt er að rýna í spilin.

Díllinn sem gerður var í upphafi og ég hef margbent á gékk út á að annar flokkurinn fær að gera það sem hann vill í efnahagsmálum á meðan hinn leikur lausum hala í Brussell. Hvorugur flokkanna getur svo lifað með þessu samkomulagi og þjóðin blæðir fyrir.

Og nú er svo komið fyrir flokkunum að hvorugur þorir að rifa seglin og horfast í augu við kjósendur. Össur og Steingrímur eru hræddir við búsáhöldin sem komu þeim að. Hver hefði trúað því? Hvað er að óttast þar spyr ég....?

Þess vegna horfum við upp á klíku og klækjapólitík eins og hún gerist dapurlegust. Þar sem einu hagsmunirnir sem gilda er flokksins og þeirra sem þar þurfa að ráða. Öll önnur sjónarmið eru látin lönd og leið og engu skiptir þó sett verði ný viðmið í orðhengilshætti. Þetta vita allir og sjá....

Á þessu öllu bera þeir ábyrgð sem um hana biðja. Engin fortíð skiptir hér máli. Engin stjórnarandstaða. Engir vondir hægri menn sem kunna ekki að skammast sín.

Verk og verkleysi þessarar ríkisstjórnar eru algerlega á hennar eigin ábyrgð. Ekkert sem hefur áður gerst breytir því alveg sama hversu oft er talað um það.

Það verður mjög áhugavert að fylgjast með hanaatinu þegar flokkarnir tveir hefja svo kosningabaráttuna úr ráðherrabústöðunum. Og þannig verður það. Það mun verða nauðsynlegt fyrir flokkana að sverja hvorn annan af sér og kenna hvor öðrum um.

Óþolið sem byggst hefu upp hratt og örugglega mun þá brjótast upp á yfirborðið þegar ráðherrastólaylurinn heldur ekki lengur.

Þá verður allt tal um ábyrgð með nýju sniði. Þá verður allt öðrum um að kenna. Ábyrgðin liggur hjá hinum.

Röggi

fimmtudagur, 12. janúar 2012

Már í mál

Ekki er nú öll vitleysan eins. Már Guðmundsson klæðskerasaumaður seðlabankastjóri Jóhönnu forsætisráðherra hefur stefnt vinnuveitanda sínum og krefst þess að samningar um kjör og kaup standi.

Og þó það nú væri segi ég og velti því fyrir mér af hverju Már hefur beðið með að fara fram á þetta þar til nú. Ráðning hans á sínum tíma var magnað skuespil og í raun engin munur á ráðningu hans og annarra pólitískra ráðninga stjórnenda þessa banka.

Már varð svo á endanum fórnarlamb lýðskrums Jóhönnu þegar hún ákvað að enginn skyldi fá betri laun en hún sjálf. Laun forsætisráðherra eru reyndar til skammar eins og allir vita. Már sem var með fína og vel launaða vinnu erlendis var fenginn heim til að halda utan um peningamálastefnu bankans sem hann sjálfur kom á og hefur verið fylgt allar götur síðan með æði misjöfnum árangri leyfi ég mér að segja.

Þá var farið í sjónhverfingar í því augnamiði að reyna að láta laun Más hverfa sjónum launasveltra Íslendinga og skattpíndra. Og nú er svo komið að Már nennir ekki lengur að taka þátt í þessum leik og vill að samningar standi.

Hugmyndin um að engin megi vera með hærri laun en Jóhanna var og er andvana fædd. Byggð á misskilningi í besta falli og gert til þess að afla tímabundinna vinsælda í kröppum sjó.

Hvurslags vinnuveitandi er það sem svíkur samninga við forstjóra sinn sem sér þann kost bestan og vænstan að fara dómstólaleiðina? Og hvernig getur Már Guðmundsson haldið áfram að gegna starfi sínu eftir þetta? Á hvorn veg sem málið fer.....

Ég hvet menn til þess að gera upp við Má og kveðja hann svo. Þeim peningum yrði ekki betur varið í annað.

Röggi

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Róbert Spanó og landsdómsumræðan

Hver er þessi Róbert Spanó? Er það enn einn skælandi Sjálfstæðismaðurinn sem þolir ekki að Geir Haarde sæti ákæru fyrir landsdómi? Hvað er hann að vilja með skrifum sínum um landsdóm?

Róbert Spanó er ekki bara einhver venjulegur spaði. Hann er forseti lagadeildar HÍ og maður sem treyst hefur verið fyrir afar erfiðum úrlausnarefnum. Þar á meðal það verk að reyna að leysa úr og lesa í málefni kirkjunnar manna. Það gerir hann með eftirtektarverðum og faglega metnaðarfullum hætti og óumdeildum.

Kannski erum við orðin leið á umræðum um landsdóm og finnst þetta mál ekki skipta miklu lengur. Pólitíkin hefur í raun afskrifað Geir Haarde og léttvægir stjórnmálamenn nota hans persónu að vild í leit sinni að vinsældum sem skulu byggjast á andúð okkar allra á hruninu.

Fjölmiðlar sinna þessum skrifum Róberts í engu liggur mér við að segja. Reyndar sagði eyjan frá því að Róbert hafi með þessum skrifum gengið í berhögg við skoðanir helstu sérfræðinga sögunnar um málið, sérfæðinga sem eru fyrir löngu horfnir af sviðinu. Og þar við situr. Rökræðum lokið...

Af hverju hefur pólitíkin og umræðan ekki þrek til að ræða þessi mál? Skiptir það okkur í raun engu máli að ráðandi fylkingar á þingi geti stofnað til pólitískra réttarhalda eftir smekk? Og hefur það ekkert gildi þegar einn okkar helsti sérfæðingur í lögum kemst að þeirri niðurstöðu að alþingi geti enn bætt fyrir mistökin? Niðurstöðu sem virðist mjög vel ígrunduð og rökstudd.

Meirihlutinn á þingi hefur sagt að það komi vart til greina að grípa fram í fyrir löggjafanum með afskiptum af málinu héðan af. Ég ber mikla virðingu fyrir þrískiptingu valds og þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

En þegar maður á borð við Róbert Spanó kemst að þeirri niðurstöðu að alþingi sé stefnandi í málinu og hafi til þess fullan rétt að draga ákæruna til baka er þeim rökum sem stjórnarliðar hafa beitt fyrir sig hingað til ýtt út af borðinu.

Þetta setur málið allt í nýja stöðu og tillaga Bjarna Ben fær nýtt líf og nýjan status. Og þá þurfum við þrek til að ræða málið. En til þess þarf að leggja til hliðar einhver lágkúrulegustu prinispp sögunnar sem réðu því að Geir var ákærður og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Ég er á móti pólitískum réttarhöldum og mun alltaf verða það hvort sem Geir Haarde situr ákærður eða ef einhverjum dytti nú í hug að ákæra einhvern núverandi ráðherra sem væri full ástæða til beiti menn sömu mælistiku og notuð var gegn Geir.

Það er prinsippsmál fyrir mér. Landsdómur er fyrir þá sem ákærðu Geir Haarde bara tæki sem nýttist vel til að lumbra á andstæðingi í pólitískum slag. Ég legg til að við tökum þetta vopn af stjórnmálamönnum sem hafa sýnt að þeir kunna ekki með slík réttindi að fara.

Og fyrsta skrefið og það besta væri að afturkalla ákæruna. Grein Róberts Spanó er afar gagnleg fyrir umræðuna og kærkomið tækifæri....

Röggi

föstudagur, 6. janúar 2012

Hvenær gengur DV fram af sjálfu sér?

það er auðvitað þannig að sumt kemur manni ekki á óvart. Þriðjudagur kemur á eftir mánudegi og á undan miðvikudegi. Veðurfar er mildara á sumrin en veturna, jólin eru í desember og föstudagurinn langi er allajafna á föstudegi....

..og DV er í neðsta þrepi fjölmiðlunar og kemst ekki almennilega upp úr svaðinu. Ég hef sagt það oft og segi enn og aftur. Gæði fjölmiðla eru ekki mæld af því sem gengur vel heldur því hvernig slæmu dagarnir líta út.

Af einhverjum ástæðum tókst ritstjórn blaðsins að leyfa birtingu "fréttar" sem er svo stútfull af dylgjum og dellu að fáu er til að jafna meira að segja í sögu DV.

Hér er gefið í skyn og dylgjað til þess eins að koma höggi á persónu sem er reyndar stjórnmálamaður og ekki ofarlega á vinsældalista DV.

Þetta er í engin frétt heldur miklu frekar eitthvað sem fólki finnst gaman að bulla um á kaffistofum í móttækileg eyru viðhlægjenda sér til ánægju og auðkeyptrar aðdáunar um stundarsakir.

Ég veit ekki hvaða kröfu er hægt að gera til ritsjórnar DV. Það hefur ekki farið framhjá mér að eitthvað hefur blaðið reynt að bæta sitt eigið siðferði um leið og bent er á bresti annarra í þeim efnum stundum með ágætum árangri.

En þá kemur svona della þar sem eingöngu er reynt að níða niður persónu stjórnmálamanns af engu tilefni. Í pólitískri baráttu DV er allt leyfilegt og þar kann enginn að skammast sín. DV gerir ekki mistök....

það er eitthvað sjúklegt við þessa "frétt" DV. Menn geta nefnilega verið sjúkir á ýmsan hátt og sumar pestir leggja menn í rúmið óvinnufæra á meðan aðrar örva suma til verka.

En þó DV eigi að vera hætt að koma mér á óvart er lengi hægt að herða sprettinn niður í svaðið. Jafnvel þeir sem vilja grjótharða fjölmiðlun og aðhald án afsláttar hljóta að geta sett sjálfa sig inn í svona "frétt" og fundið að þetta er ekki í lagi.

Sumir þeir sem skrifa hvað mest og tala hæst í DV um orðræðuna og umræðuhefðir og hvert við stefnum sitja og horfa á svona vinnubrögð í þögulli vellíðan.

Ég legg til að þeir sem predika um orðræðuna og aðferðafræði þeirra sem stunda stjórnmál ættu ekki að setja þær eldmessur sínar á síður DV.

Það bara passar ekki.

Röggi

miðvikudagur, 4. janúar 2012

Kynþáttaníð eða ekki kynþáttaníð Suarez

Sitt sýnist hverjum þegar rætt er um leikbannið sem Suarez leikmaður Liverpool var dæmdur til vegna kynþáttaníðs. Ég hef ekki lagt á mig að lesa 115 bls rökstuðning dómsins en hef samt komið mér upp skoðun í málinu.

Ég skil vel tilfinningar sem settar hafa verið í umræðuna en sé ekki betur en að þær aflagi rökræðuna nokkuð. Þetta mál snýst ekkert um það hvort menn halda með Liverpool eða ekki og ekki endilega um það hvort Suarez er drengur góður dags daglega, þannig séð.

Mér skilst að hans fyrri afrek hinu megin við það sem telst vera heiðarlegt í íþróttum hafi hreint ekki talist honum til tekna þegar vitnisburður hafi verið metinn. Slíkt skiptir áreiðanlega máli þegar beinar sannanir eru af skornum skammti.

Það er örugglega þannig að þeir sem kváðu upp dóminn hafa engra hagsmuna að gæta annarra en að kveða upp sanngjarnan úrskurð. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar um svona mál er hugsað.

Sumir hafa bent á að þar sem mál John Terry fyrirliða enska landsliðsins sé væntanlegt til meðferðar hafi það ef eitthvað er átt að draga úr refsigleði dómaranna þar sem sannanir í því máli virðast skotheldar og stutt í stórmót.

Svona mál eru flókin og erfið og mér hefur fundist örla á þeirri skoðun að kannski sé baráttan gegn rasisma komin út í öfgar þegar menn fá langt keppnisbann þegar orð stendur gegn orði. En stendur orð gegn orði hér?

Hvort vegur þyngra meining þess sem talar eða skilningur þess sem heyrir? Þetta er ein spurningin í umræðunni. Sjálfsagt er hægt að rökræða það lengi og gáfulega. En til þess að svara þeirri spurningu vel þarf að hafa eitt og annað í huga.

Fyrst þegar ég heyrði um 8 leikja bannið taldi ég víst að um játningu hefði verið að ræða svo harður þótti mér dómurinn. Og er ekki bara um játningu að ræða? Snýst vörnin í málinu um að orðin sem notuð voru eru rasismi á einum stað en ekki öðrum?

Ef svo er þá eru það harla léttvæg rök fyrir mann sem hefur haft lifibrauð sitt af því að spila fótbolta í Evrópu þar sem baráttan gegn kynþáttaníð hefur verið mikil og einbeitt og flestum skiljanleg.

Þetta mál á að snúast um það hvort leikmenn komist upp með kynþáttaníð en ekki lengd bannsins. Mér fundust viðbrögð "stuðningsmanna" Suarez vera reiði vegna fjölda leikja og svo til vara efasemdir um að hann hafi gert eitthvað af sér. Í þessari röð.

Yfirlýsingar vinnuveitenda hans um ágæti drengsins eru án efa gegnheilar og ekki nokkur ástæða til þess að draga í efa að hann hafi og sé í góðum samskiptum við menn af öðrum litarhætti en hans alla daga án vandræða.

Verkefni enska knattspyrnusambandsins var ekki að gefa Suarez lyndiseinkun hvorki til fortíðar nútíðar eða framtíðar. Verkefnið var að komast til botns í því hvort hann beitti kynþáttaníð þennan eina dag.

Getur ekki verið að dómstóllinn hafi einfaldlega hafnað þeirri útskýringu að þennan tiltekna dag hafi ákærði gleymt því hvernig kynþáttaníð er skilgreint og notað samskipti sem hann allajafna notar ekki hvorki inni á velli eða utan hans einfaldlega vegna þess að hann á að vita að beiting slíkra orða er meiðandi?

Má ekki skilja yfirlýsingar Liverpool þannig að félagið vilji nýta þessa stöðu til þess að styrkja ímynd sína frekar en að reyna að verja Suarez í þröngri stöðu sem byggir á því að leikmaðurinn fatti ekki hvað kynþáttaníð er?

Að áfrýja ekki er rétt niðurstaða en ég er ekki endilega tilbúinn að trúa því að félagið sjálft kaupi útskýringar leikmannsins. Til þess þarf maður að hafa litla trú á burðum Suarez.

Röggi