laugardagur, 25. ágúst 2012

Sjálfseyðing VG heldur áfram

Það meiga þau í VG eiga að þegar þau hittast yfir spjalli að þá er ekki töluð tæpitungan. Flokksráðsfundir eru án efa martröð pr sérfræðinga flokksins.

Kjarninn í flokknum er í andstöðu við meginstefnu ríkisstjórnar og ekki bara kjarninn heldur einstakir ráðherrar eins og alkunna er. Freistandi er að reyna að halda því fram að hér sé um að ræða alltaf á móti heilkennið sem VG hefur byggt tilveru sína að stórum hluta á.

En ég er ekki sannfærður. Þótt formaðurinn ferðist til útlanda til að hreykja sjálfum sér af verkum annarra er það þannig að kjarninn man að formaður og flokkur var og er á móti bjargráðunum sem Steingrímur skreytir sig nú með.

Það er auðvitað strangheiðarlegt að kannast við sjálfan sig og gefast ekki upp á því. En það er bara svo íþyngjandi þegar maður er ráðherra að burðast með slík prinsipp.

Það er varla áhlaupaverk að stýra flokki úr ráðherrastóli þegar flokksmenn hafa upp hugmyndir eins og sumar þeirra sem flokksráðsmeðlimir ganga með og vilja leiða yfir þjóðina.

Að þjóðnýta fjármálastofnanir og reka þær ekki í hagnaðarskyni heldur til þess að tryggja jöfnuð. Að banna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eins og tannlækingar og þess háttar.

Í sem stystu máli að færa allt og alla undir ríkið til ráðstöfunar. Að ríkisvæða allt og banna einka og hagnað. Þetta er ekki brandari úr nýjustu þáttaröð Steinda. Og það er ekki einhver Jói á hjólinu sem er að tala fyrir þessu. 

Þetta tvennt súmmerar hryggjarstykkið í stefnu VG og er vegarnestið sem formaðurinn hefur úr að spila. Svona er baklandið og grunnurinn. Ekki öfunda ég formanninn að þessum heimamundi.

Steingrímur hefur auðvitað eins og viðtalið við FT sýnir áttað sig á að  andstaðan við lausnir fyrri ríkisstjórnar var í besta falli misskilningur. En flokksráðið og kjarninn veit ekkert um þetta og heldur bara áfram að vera VG á meðan formaðurinn reynir að gera alla ánægða í fyrirfram vonlausri tilraun til þess að halda bæði flokki og ríkisstjórn á floti.

Nú fer þetta að verða áhugavert. Kosningavetur og brátt líður að því að flokkarnir sem skipa stjórnina taka til við að lúskra á hver öðrum. Líður að því að ekki verður lengur hægt með pólitísku handafli að halda niðri skíðlogandi eldunum sem allir vita að brennur milli flokkanna. Að ég tali nú ekki um átökin og óvildina sem fólk ber til hvors annars innandyra....

Þá verður spennandi að sjá á hvaða bás Steingrímur mun setjast. Mun hann hverfa aftur til þess að verða formaður Álfheiðar Ingadóttur eða halda áfram að vera formaður Katrínar Jakobsdóttur sem er að átta sig á því að flokkurinn hennar er kominn í hendurnar á mönnum eins og Birni Val sem fer að jafnaði aldrei í boltann heldur eingöngu manninn?

Þótt Steingrímur hafi nánast komist upp með það hingað til að vera hvoru tveggja er ólíklegt að hann komist upp með þegar tjaldið fellur og VG verður aftur VG í aðdraganda kosninga. 

Kosninga sem allir vita að senda VG í langa og verðskuldaða útlegð frá ríkisstjórnarsamstarfi. 

Röggi
fimmtudagur, 23. ágúst 2012

Hatursfull ummæli Björns Vals

Ekki er að því að spyrja þegar Björn Valur tekur til máls. Þá er talað stórt og DV fær fyrirsögn. Nú hefur hann bannfært útvarpsstöð sem gerðist svo bíræfin að boða til umræðu menn sem félagi Björn Valur telur vonda hægri menn og þá sjálfkrafa með ónýtar skoðanir.

Og þar af leiðandi dagskrárgerðarfólkið með hatursfulla afstöðu. Fyrirmyndir þingmannsins í gamla austrinu kæmust við yrðu þeir vitni að málflutningum standandi í stórræðunum við að loka inni listamenn sem gerast sekir um svipað hátterni.

Líklega telur félagi Björn Valur að eini almennilegi miðillinn sé smugan enda eru þeir sem þar ráða með stimplað kort og réttar skoðanir. Og vita auk þess að gagnrýni á ríkisstjórn að ég tali nú ekki um aðalritarann er ekki rétt söguskoðun.

Það er svo einmitt félagi Björn Valur sem elur með sér hatur og hefur uppi stóryrði til þeirra sem eru honum ekki samstíga í skoðunum. 

Í mínum huga er Björn Valur óþarfur og gagnslaus öðrum en léttsiglandi fjölmiðlum í leit að söluvænum fyrirsögnum. 

Hann eitrar umræðuna og dregur niður á plan sem margir helstu fylgismenn hans þykjast vilja eyða þegar aðrir missa sig. Björn Valur kann ekki að vera ósammála fólki og bera virðingu fyrir þeim sem sjá hlutina öðrum augum en hann sjálfur.

Reyndar er það rétt hjá félaga Birni Val að fjölmiðlar gera allt of mikið að því að smala saman fólki með sömu skoðanir og kalla það svo rökræðu. En það er svo langt frá því að bylgjan sé þar eina dæmið.

Enda er það svo að í fyrradag hafði félagi Björn Valur ekki þessa skoðun á því útvarpi. En við sjáum að ekki tekur langan tíma að falla í ónáð og kalla yfir sig dónaskap og fúkyrði hins rétthugsandi stjórnmálamanns.

Félagi Björn Valur hefur ekkert á móti þvi að fólk sem hefur sömu skoðanir hittist í útvarpi. Hann vill bara að það fólk hafi réttar skoðanir.

Það liggja ekki flóknari tilfinningar að baki þessari nýjustu vanstillingu kallangans.

Röggifimmtudagur, 16. ágúst 2012

Umföllun um vask á ferðaþjónustu

Þá hefur ríkisstjórnin fundið sér nýja grein atvinnnulífs til að berja á, nefnilega ferðaiðnaðinn en þar eru augljós merki um bætta afkomu og vöxt. Sem ef vel er á málum haldið mun skila ríkinu umtalsverðum tekjum með ýmsum beinum og óbeinum hætti.

En þar finnur vinstri stjórnin matarholu. Greinin skuldar vask segir fjármálaráðherra og hlýtur að bregðast eins við gagnvart öðrum greinum sem borga lægra þrepið í vaski eins og kvikmyndagerð þar sem smjör drýpur af hverju strái.

Rúv og sumir aðrir vinsamlegir fjölmiðlar stökkva til og gera það að frétt að greinin hafi ekki borgað vask í nokkur ár. Og tónninn í fréttum rúv í kvöld var sigri hrósandi. 

Ég er svo galinn að ég hélt að vaskurinn væri greiddur af kúnnanum og legðist ofan á verðið. Stórfréttin snýst víst um endurgreiðslur.....

Hækkun á vaski í ferðaþjónustu mun leiða til hærra verðs og alls ekki er víst að það muni laða að fleiri ferðamenn sem er nú undirstaðan að þessu öllu saman. 

Hann er sérkennilega landlægur misskilningurinn um að atvinnulífið greiði vask. Það er að sjálfsögðu kúnninn sem gerir það en atvinnulífið innheimtir og skilar. 

Innheimtur vaskur er ekki tekjur atvinnulífsins heldur skattur ríkissins sem er lagður á viðskiptin. Hvort viðkomandi atvinnurekandi á svo rétt að því að fá vask endurgreiddan er eitthvað allt annað.

Umfjöllunin er öll á þá leið að þessar endurgreiðslur séu í raun undanskot ef ekki hreinlega svindl. Það er fáránlegur útgangspunktur.

Frétt rúv í kvöld er því ef ég er ekki alveg úti að aka hræódýr og líklega í neðra skattþrepinu.

Röggi
sunnudagur, 12. ágúst 2012

Ríkisstjórn í jafnvægi

Ríkisstjórnarsamstarfið er í fínu jafnvægi og hefur verið frá upphafi. Þetta samstarf minnir á hagkvæmnishjónaband þar sem hjónin hafa fyrir löngu síðan hætt að sofa í sama herbergi eða að hafa nokkur samskipti sem máli skipta í venjulegum hjónaböndum.

En hafa samt undarlegan hag af því að láta samstarfið ganga upp. Nú gerist það einn ganginn enn að burðarásar hjá VG þurfa af innanflokksástæðum að lýsa því yfir að eina mál Samfylkingar, aðildin að ESB, sé í raun ónýtt mál og eina vitið að láta staðar numið.

Viðbrögð Samfylkingar eru ef reynslan hefur kennt mér eitthvað annað hvort þögn eða að gert verður lítið úr málflutningnum og þeim sem hann stunda persónulega og pólitískt. Auk þess mun forsætisráðherra væntanlega úthúða Sjálfstæðisflokknum af þessu tilefni....

Svo verður auðvitað bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist við að smíða tillögur að skattahækkunum og næra óvildina í garð hvors annars í leiðinni. 

Slagurinn við andstæðingana verður léttvægur samanborðið við þann slag sem verður milli flokkanna sem mynda þessa ríkisstjórn þegar límið sem heldur flokkunum saman leysist upp á endanum. 

Hvort sú stund er upp runnin veit auðvitað enginn því þegar þessi stórn á í hlut eru öll eðlileg lögmál um samskipti og samstarf úr gildi fallin fyrir löngu.

Röggi

dv.is fjallar um bíóferð

Algerlega geggjuð "frétt" á dv.is blasti við augum mínum áðan. Það er engin frétt hvort Egill Helgason fer í bíó og enn síður hvort honum endist áhugi fram að hléi eða allan tímann.

Enda virðist þessi frétt vera einhverskonar tæki til þess að fjalla um og koma persónulegu og pólitísku höggi á annan mann sem hefur skoðanir sem hann viðrar á facebook á þessum stórviðburði í lífi Egils.

Hvað fer í gegnum blaðamannshugann þegar svona rusl er skrifað? Hvaða hæfniskröfur þurfa þeir að standast sem fá vinnu við fjölmiðil til þess að "búa" til svona? 

Fagmennska er undantekning þegar dv.is á í hlut og algerlega valkvæður hlutur. Þessi della á að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði og væri í raun hlægilegt ef maður vissi ekki að á bak við "fréttina" af manninum sem sagði skoðun sína á bíóferð Egils sem er reyndar "tilefni" skrifa dv.is.....

...er því miður hugsun sem einhver á dv heldur að sé normal fjölmiðlun. 

Röggi
föstudagur, 3. ágúst 2012

Björn Valur, innsetning forseta og óvirðing

Nú brestur á með stórtíðindum því ég er að hluta til sammála Birni Val Gíslasyni þegar hann talar um að hugsanlega eigi að gera breytingar á því hvernig forseti er settur í embætti.


Ég aftur á móti er honum ósammála þegar hann telur það fínt hjá sér að mæta ekki þegar forseti er settur í embætti. Hann hefur heilsu til þess að saka Ólaf um óvirðingu gagnvart þingi og kýs að svara í því sama gagnvart honum en sér ekki að Ólafur Ragnar er þjóðkjörinn forseti, öfugt við Björn Val,  sem svívirðir lýðræðið með þessu háttarlagi.


Innsetningin snýst nefnilega ekki um Ólaf Ragnar eða pólitísk fýluköst þeirra sem ekki þola hann. Hún snýst um það að þessa aðferð notum við til þess að setja þann í embætti sem þjóðin hefur kosið til þess og menn með snefil af pólitískum þroska og virðingu fyrir niðurstöðunni mæta hvort sem þeirra maður vinnur eða ekki.


Nú er það þannig að þingið nýtur ekki nægilegrar virðingar alveg óháð því hvaða mælikvarða við miðum við. Það hefur ekki mikið með Ólaf Ragnar að gera heldur miklu frekar þingmenn eins og Björn Val sem er eins og fíll í postulínsbúð sem kann ekki að bera virðingu fyrir neinu öðru en eigin skoðunum.


Björn Valur ætlar að gera dónaskap og viðvarandi óvirðingu fyrir skoðunum þeirra sem eru honum ósammála að karrier. Þar er allt undir.....


Röggi