laugardagur, 31. desember 2011

Eyjan og átök ríkisstjórnarflokka

Ríkisstjórn riðar til falls og það dylst engum. Allt og þá meina ég allt er upp í loft innan beggja flokka. Fjölmiðlar hafa eðlilega áhuga á slíku efni. Eyjan er þar ekki undanskilin. En þar er áhuginn nánast bara á það hvað gerist hjá öðrum flokknum en ekki hinum. Hvernig má það vera?

Ég hef aldrei áður upplifað aðra eins löngum fólks til þess að sitja í embættum eins og þá löngun sem Jóhanna/Össur og Steingrímur eru að sýna.

Steingrímur hefur fyrir nokkru gert það upp við sig að VG skipti hann engu máli lengur heldur eingöngu hvað hentar honum til skamms tíma.

Öðruvísi er það hjá aðalritara Össur því honum er ekki sama um flokkinn sinn. Hann ræður þar öllu og hefur talað út um að flokkurinn þurfi nýja forystu og helst hugmyndir sem er frumleg tillaga eftir nokkurra ára tilveru.

Að sönnu er það ekki nýtt að ráðherraskiptum fylgir átök en núna gerist það að pirringur bæði innbyrðis og gagnvart samstarfsflokki leysist úr læðingi. Sem er afleitt sé því sullað saman við stríðsástand innandyra sem ýmist tengist foringjaræði Steingríms eða forystuátökum Samfylkingarmegin.

Ég get auðvitað ekki orðað þetta mikið betur en Kristrún Heimisdóttir gerir. VG og Samfylking eiga hvort annað skilið en er ekki að verða tímabært að leysa þjóðina undan þessum botnlausa skrípaleik?

Röggi

föstudagur, 30. desember 2011

Ríkisstjórnarfarsinn

Hugtakið stjórnarkreppa fær nýja og allt að því óraunverulega merkingu þegar við fylgjumst með ráðþrota leiðtogum ríkisstjórnarinnar reyna eftir fremsta megni að halda lífi í ríkisstjórn sem enginn vill.

Stundum er sagt að styrkur manna felist í því að geta viðurkennt ósigur eða þekkt vitjunartímann. Vel getur verið að takist að splæsa saman nýrri ríkisstjórn á næstu klukkutímum en ég sé ekki betur en að Steingrími og Jóhönnu sé í raun alveg sama hvað það kostar.

Bakland beggja flokka skíðlogar og þeir logar eiga eingöngu eftir að magnast. Steingrímur hefur brennt síðustu brúna innan VG þegar hann fórnar Jóni Bjarnasyni á altari eigin framagirni. Ætli hann sér áframhaldandi formennsku eftir þetta verður hann að sætta sig við mikið mannfall. Seinni klofningur flokksins er nú með öllu óumflýjanlegur.

Gömlu kempurnar Össur og Jóhanna sem allir eru búnir að gleyma að sátu í síðustu ríkisstjórn neita að sleppa hendinni af flokknum. Frekar en að hleypa öðrum að skal ríghaldið og öllu til fórnað að halda í völdin bæði innanflokks og utan.

Ég heyrði fréttaman reyna að lesa í stöðuna í útvarpi áðan og kalt vatn rann milli skins og hörunds. Nú er með allskonar brellum reynt að sannfæra klíkur og gengi um að sniðugt sé að hinn og þessi fái hitt og þetta. Verkefni verði færð út og suður eftir smekk hvers og eins til að reyna að hafa alla góða.

Ekkert er verið að ræða um hugmyndafræði heldur eingöngu bitlinga og ráðherrabílstjóra. Reyndar minntist fréttamaðurinn á að einhver ráðherra VG fengi "úthlutun kvóta"á sitt borð. Mikið verður nú Ísland gott land þegar ráðherrar verða farnir að úthluta vinnu og verkefnum eftir smekk.

Ef að líkum lætur munu Steingrímur og Jóhanna birtast vígreif og bjartsýn eftir þennan farsa og reyna að telja þjóð sinni trú um að allt sé með felldu. Ég er reyndar hrifinn af því þegar menn festast ekki í ráðherrastólum sama hvað gengur á en hér sjá þeir sem vilja að hreyfingarnar núna eru eingöngu til þess að reyna að bjarga deginum en ekki styrkja innviði

Og langtíma tilkostnaður er látinn liggja á milli hluta hvort heldur átt er við þjóðina í heild eða flokkana sjálfa. Steingrímur hefur komið sér upp vonlausri stöðu innanflokks og hlýtur að vera búinn að afskrifa frekari þátttöku í stjórnmálum eftir kosningar.

Og Samfylkingin á eftir allt þetta eftir að fara í gegnum alblóðugu forystukreppu. Dettur einhverjum í hug að Árni Páll leggi niður skottið núna? Össur hefur opnað fyrir átök innan flokks þar sem gamla klíkan ætlar sér að ráða hvað sem hver segir.

Þeir tveir flokkar sem skipa ríkisstjórnina hafa í raun yfirgefið öll prinsipp sem lagt var upp með önnur en að vera ríkisstjórnarflokkar. Hreyfingin stóðst prófið þegar Saari sagði nei. Þar fengu þau sallafínt heilbrigðisvottorð og geta enn haldið því fram að þau hafi töfralausnina sem þau hafa þó alls ekki.

Allt er þetta í boði þeirra sem kusu yfir sig fyrstu og vonandi síðustu vinstri stjórn sögunnar. Þeir sem kjósa þannig aftur þurfa að koma sér upp afkastamikilli gleymsku og afneitun. Ekki einu sinni tal um vondar fyrri ríkisstjórnir dugar í þeim efnum.

Vegna þess að ekki er eingönu um að ræða persónuleg átök um stóla að þessu sinni. Hugmyndafræðin er ekki heldur að ganga upp hvorki á milli flokkanna né gagnvart þjóðinni.

Slíkir smámunir stöðva þó ekki Steingrím og Jóhönnu....

Röggi

fimmtudagur, 29. desember 2011

Fjölmiðlar og þrýstihópar

Þórður Snær Júlíusson skrifar fína grein um þrýstihópa og vísar meðal annars til hóps lögmanna ýmissa þeirra sem eru til rannsóknar eftir bankahrunið. Þórður er blaðamaður á fréttablaðinu og reynir að snúast til einhversskonar varna fyrir fjölmiðlabransann.

það er ekki vandalaust að gera fjölmiðla í dag svo öllum líki og þegar lögmenn vilja fá umfjöllun fjölmiðla til refsilækkunar til handa skjólstæðingum sínum eins og nýlegt dæmi er um vandast nú málið verulega.

Þórður hefur auðvitað rétt fyrir sér þegar hann kemst að þeirri niðurstöðu að hlutverk fjölmiðla sé að segja fréttir. En hann virðist ganga út frá því að fréttirnar segi sig sjálfar. Þegar fjölmiðill skrifi frétt komi ekkert fréttamat þar að. Þegar fréttin er komin út er hún sannleikur og ekkert annað.

Fjölmiðlar eru og eiga að vera gagnrýnir en verða líka að þola það að þeir sem lesa þá geri það með gagnrýnum augum líka. Ég treysti mér til þess að halda því fram að fréttaflutningur sumra fjölmiðla í heilan áratug fyrir hrun standist illa skoðun og kannski eru þeir til sem myndu vilja kalla þá fjölmiðlun þrýstihópsfjölmiðlun.

Þá var líka verið að segja fréttir, upplýsa. Og þá var sagt við þá sem gagnrýndu að þeir væri fulltrúar annað hvort ákveðinna skoðana eða bundnir í pólitíska klafa. Ég er ekki frá því að Þórður falli dálítið í þann fúla pytt hér.

En ég er sammála honum í mörgu og finnst mikilvægt að fólk reyni að átta sig á því hvaðan og hvernig gagnrýni á umfjöllun fjölmiðla kemur. Hagsmunir skipta máli og ég læt mér ekki detta í hug að þeir eiginlega hálfguðir sem Þórður kallar lögmennina reyni að halda því fram að þeir séu að fullu hlutlausir.

En fjölmiðlamenn þurfa líka að varast að afgreiða gagnrýni eins og mér finnst Þórður kannski daðra við. Því þó mikilvægt sé að gera sér grein fyrir hagsmunatengslum þeirra sem taka þátt í umræðunni er einnig mjög mikilvægt að hafa þrek til þess að taka ekki sjálfgefna afstöðu gegn því sem til umfjöllunar er á þeim forsendum einum.

Einkum vegna þess að ef Þórður hefur rétt fyrir sér hafa fréttamenn ekki fyrirfram skoðanir. Þeir bara segja fréttir, upplýsa.

Enda eru fjölmiðlar ekki þrýstihópar....

Röggi

Þegar Davíð talar

Davíð Oddsson hefur ennþá ótrúleg áhrif. Í hvert sinn sem hann fæst í viðtöl kallar hann fram gömul krampaeinkenni hjá fólki sem aldrei þoldi manninn. Vinstri hliðin á pólitíkinni finnur gömlu minnimáttarkenndina hríslast um sig og hefur ekkert til rökræðunnar fram að færa.

Annað en að Davíð sé hitt og þetta og heimsendirinn sé honum að kenna. Ég get auðvitað ekki haldið því fram að Davíð sé fullkominn eða gallalaus og hafi alltaf sagt og gert allt eins og ég sjálfur hefði viljað.

En finnst magnað hvernig þessi einu sinni yfirburðamaður getur enn fengið suma til að missa allan kúrs og fara í gamalt margtuggið og ónýtt far með því einu að benda á staðreyndir sem við öllum blasa.

Verst er þó líklega að í hvert skipti sem Davíð talar þjappar hann fólkinu sem trúði á vinstra vorið saman til stuðnings við ríkisstjórn sem enginn hefur raunverulega trú á hvort heldur sem menn sitja í henni eður ei.

Röggi

mánudagur, 19. desember 2011

Rýnt í bókina um Icesave afleikinn

Af einhverjum ástæðum hefur bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave ekki verið mikið til umræðu. Kannski vegna þess að við skömmumst okkar öll pínulítið. Þeir sem voru við völd árin fyrir hrun og Icesave og svo líka hinir sem tóku við og reyndu að leysa málið.

Bókin er frábærlega skrifuð og auðlesin og allt að því skemmtileg þó tilefni hennar sé hreint ekkert skemmtiefni. En eitt er þó víst að þessa bók les hver með sínum gleraugum og þeir sem eru í litla hópnum sem telur Steingrím og Svavar hafa haldið vel á málum munu væntanlega láta sér fátt um finnast í besta falli.

Bókin er ekki skáldsaga. Höfundur vísar í heimildir og samtöl, staðreyndir en dregur vissulega alyktanir sem allar eru á eina lund. En þær ályktanir eru rökstuddar skotheldri fagmennsku.

Með tilvitnunum leiðir höfundur okkur fyrir sjónir ítrekaðan brotavilja stjórnvalda gagnvart þjóð sinni þar sem Steingrímur og Jóhanna verða margsaga þvers og kruss um málið. Þar þarf ekki að týna til neinn skáldskap eða færa í stílinn. Sannleikurinn er þarna fyrir okkur öll að sjá.

Ég upplifði Svavar Gestsson eiginlega sem fórnarlamb við lestur bókarinnar. Þar fór algerlega vanhæfur samningamaður alveg eftir skipunarbréfi. Honum var ekki falið að semja um neitt annað en vexti og lufsaðist til þess. Ríkisstjórnin ætlaðist aldrei til neinnar varðstöðu um lagaleg atrði máls heldur vildi bara borga. Svavari var því allt að því vorkun og virðist enn þann dag í dag ekki skilja málið.

Bókin lýsir því vel hvernig pólitíkin fór með þetta mál. Þar sem gamlir samherjar urðu óvinir og öfugt. Hvernig ríkisstjórnin reyndi að afvegaleiða umræðuna og láta málið snúast um íslenska skítapólitík.

Hvernig ráðherrar gerðu lítið úr vilja þjóðar og ætluðu hvorki að spyrja kóng né prest. Á sama hátt er hérna sögð saga þjóðar sem hafði einbeitta ráðherra og meðreiðarsveina þeirra á þingi undir öllum til heilla þrátt fyrir stanslausar bölbænir og heimsendaspár.

Flestir eru líklega orðnir leiðir á sögunni og telja kannski óþarfa að ryfja þennan leiðindakafla upp. Jón Baldvin telur að bókin hefði átt að heita ofleikur aldarinnar en ekki afleikur því málið hafi ekki snúist um neitt.

Til að halda þeirri söguskýringu á lofti þarf að gleyma því að vegna baráttu fólks utan ríkisstjórnar er afar sennilegt að við sleppum með talsvert minni skrekk en ef Steingrímur, Indriði og Svavar hefðu keyrt kúrsinn alla leið óáreittir.

Þessi bók er nauðsynleg heimild. Hún er heimild um getu og viljaleysi fjölmiðla sem eru hálfgerð flokksblöð í felubúningi sem spyrja ekki þó bæði spurning og svar æpi á það.

Hver sem skoðun okkar er á atburðarás hlutanna og hvar sem við staðsetjum okkur í pólitík. Og hvernig sem við sjáum söguna fyrir og eftir Icesave þá er þessi bók heilsusamleg lesning og mjög læsileg.

Röggi

fimmtudagur, 15. desember 2011

Jóhanna leiðréttir hagstofuna

Hvað ætlar forsætisráðherra að gera í málefnum hagstofu Íslands? Hagstofan birtir tölur um fólksflutninga sem eru greinilega kolrangar. Það er grafalvarlegt mál og nokkur fjöldi manna hefur byggt málflutning sinn á þessum tölum undanfarið.

Það er ekki fyrr en Jóhanna Sigurðardóttir stígur fram og upplýsir okkur um staðreyndir málsins að upp um rangfærslur hagstofunnar kemst. Þar sitja menn og standa leiðréttir. Augljóst hlýtur að vera að þarna þarf að taka til.

Hagstofan hefur með þessu framferði komið óróa af stað og aukið á óánægju að óþörfu og við fögnum því að Jóhanna skuli af myndugleik taka af öll tvímæli hvað þetta varðar. Enda vitum við að ekki lýgur forsætisráðherra......

Röggi

miðvikudagur, 14. desember 2011

Jóhanna, umræðan og þögulir fjölmiðlar

Þá sjaldan forsætisráðherra lætur til sín taka í umræðunni gengisfellir hún embættið sem hún gegnir. Þegar staðan verður sem svörtust í þinginu grípur hún til þess gamla bragðs að tala hátt og mikið um hið vonda "íhald" sem á ekki betur við neina ríkisstjórn en þá sem hún sjálf stýrir. Þetta er gamla Ísland og gamla pólitíkin og virkar enn sýnist mér. Allavega á fjölmiðlamenn sem láta gott heita.

Almennt tekur hún þó ekki þátt í umræðunni heldur lætur Steingrím um það. Honum er svo að fatast flugið heldur betur og verður uppvís að hálfsannleik eða hreinlega lygum án þess að það verði að stórmáli í umræðunni.

Jóhanna stekkur til þegar mikið liggur við og segir þá bara eitthvað sem hljómar vel. Líklega treystir hún á að fjölmiðlar annað hvort hafi ekki nennu eða áhuga á að rengja það sem hún segir. Á þetta getur hún að mestu treyst því fjölmiðlum flestum er nákvæmlega sama þó eitt stykki forsætis eða fjármálaráðherra bulli bara einhverju frá sér.

Núna hefur Jóhanna kveðið upp úr með það að fólksflutningar héðan séu ekki meiri en undanfarin ár og virðist hneyksluð á umræðunni. Þetta segir hún bara sísvona og styður það ekki með nokkrum rökum. Þar með er því máli lokið af hennar og fjölmiðla hálfu og báðir aðilar snúa sér svo að því að lumbra á stjórnarandstöðunni.

Ég er ekki í þessum pistli að velta fyrir mér ástæðum þessara fólksflutninga heldur því hvernig forsætisráðherra umgengst umræðuna og sannleikann. Og hvernig vinveittir fjölmiðlar fara að því að láta sér fátt um finnast.

Hvernig væri að ganga dálítið á Jóhönnu í þessu máli. Á hvaða upplýsingum er þessi málflutningur byggður? Þetta er nógu lítið mál til þess er það ekki? Ekki hafa menn þrek til þess að stóru málunum.......

Röggi

þriðjudagur, 13. desember 2011

Björn Valur og meiðyrðalöggjöfin

Það er þetta með meiðyrðalöggjöfina. Er hún kannski óþörf með öllu? Eða ætti kannski að skilyrða hana með einhverjum hætti? Við gætum stofnað nefnd góðra manna sem leggur mat á það hverjir eru nógu góðir einstaklingar til þess að mega höfða mál byggð á þessari löggjöf.

Björn Valur Gíslason settist niður og skrifaði grein þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að valdir aðilar eigi ekki að hafa aðgang að þeim rétti sem þessi löggjöf veitir þegnum þessa þjóðfélags.

Hrunverjar og mótorhjólagengi eru þeir sem Björn Valur telur að ekki hafi rétt til þess að höfða mál. Og svo þeir sem eiga peninga almennt. Þeir mega ekki verja mannorð sitt sér í lagi ef auralaus maður hefur viðhaft orð um þá.

Slíkt kallar Björn Valur tilraun til þöggunar. Rétttrúnaður þingmannsins ríður ekki við einteyming frekar en fyrr. Sem betur fer búum við ekki í landi þar sem lög og réttur eru bara fyrir suma en ekki aðra.

Ég get haft ýmsar skoðanir á sumum þeim sem höfða meiðyrðamál og ég má það. Ég get meira að segja átt það til að bomba dálítið á hina og þessa opinberlega. Sumir þeirra eiga jafnvel peninga sem ég mun þurfa að borga fyrir þá og aðrir eitthvað minna af þeim.

Þeim orðum mínum fylgir ábyrgð og hún fellur ekki úr gildi þó viðkomandi séu að mati margra vondir menn.

Þetta ætti fulltrúi VG á löggjafarþinginu að skilja öðrum fremur.

Röggi

mánudagur, 12. desember 2011

Össur ekki að lesa salinn

Össur Skarphéðinsson er nagli. Hertur í pólitík og oft glúrinn að lesa salinn. Þessa dagana reynir mjög á þann hæfileika hans. Össur er nefnilega fastur á sjálfstýringunni. Í rikisstjórn sem enginn vill hvort heldur átt er við landsmenn eða þá sem þar sitja. En hann kemst bara ekki út...

Össur er líka á sjálfstýringu í ESB málinu og kemst ekki þaðan út heldur. Hann hefur lært það á löngum ferli að staðan má vera djöfulleg til þess að ekki sé hægt með klókindum að túlka hana sér í hag. Staða ESB er afar slæm og verri en djöfulleg að flestra mati þó hugsanlega hafi tekist að forða algerri upplausn ESB um helgina með því að skipta bandalaginu í tvennt.

Evran færist fjær og fjær og hún var og er aðal aðdráttaraflið. Kannski telur Össur að við myndum lenda í efstu deild þegar og ef við samþykkjum samning. Hann er þá einn um þá skoðun.

Kalt hagsmunamat. Þetta orðalag fer mjög fyrir brjóstið á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins þegar ESB ber á góma. En þetta er besta orðalagið þegar taka þarf afstöðu til inngöngunnar í ESB.

Það getur ekki verið trúaratriði að ganga inn í ESB no matter what. En það þarf að virka í báðar áttir þetta kalda mat og ég treysti því að þannig sé því farið.

Kalda hagsmunamatið hans Össurar segir honum án efa að best væri fyrir þá sem vilja inn að gera hlé. Hann bara þorir ekki að taka þá ákvörðun enda engin önnur svör til fyrir flokkinn hans en að finna himnaríkið í Brussell.

Þess vegna þumbast hann við og vill ekki sjá jafnvel það sem ekki er neinn ágreiningur um. Össur er ekki að lesa salinn nógu vel núna.

Röggi

Peningar og íþróttir

Hrafnhildur Skúladóttir fyrirliði kvennalandsliðsins talaði enga tæpitungu í viðtali eftir að kepnni lauk á HM í handbolta í gær. Sársvekkt og ör eftir leik lét hún vaða og hreyfir við umræðunni. Margir ætla að láta knappann stíl Harfnhildar verða að aðalatriði umræðunnar.

Sjálfskipaðir fulltrúar listamanna móðgast vegna þess að Hrafnhildur gerði samanburð á listum og íþróttum þegar kemur að fjárlögum ríkissins. Síðan hvenær varð það frágagnssök að gera samanburð þegar rætt er um útgjöld skatttekna okkar?

Hugsanlega er það þannig að íþróttamenn almennt gera sér ekki nægilega vel grein fyrir mikilvægi þess sem kallað er list og menning. En íþróttafólk gerir sér vel grein fyrir því að stjórnvöld gera mikinn greinarmun á gildi íþrótta og ungmennastarfs og listageirans.

Þeir eru til sem hafa í raun ekki nokkra hugmynd um hvernig íþróttaheyfingin er uppbyggð og rekin. Halda að allir séu atvinnumenn og stórstjörnur. Að þeir peningar sem safnast fari allir til þess að greiða ofdekruðum íþróttamönnum. Þannig er þetta ekki á Íslandi.

Vissulega er reynt að halda upp afreksstarfi í íþróttum eins og öðrum greinum. Ég veit ekki hvað listamannalaun og eða laun fyrir þá sem spila í sinfóniuhljómsveit eru ef ekki tilraun til að halda uppi afreksstarfi.

Íþróttahreyfingin á Íslandi er starfrækt af sjálfboðaliðum og snýst um umgmennastarf öðru fremur þó þeir sem ekki þekkja vel til sjái aðeins toppinn af ísjakanum þ.e. þá sem keppa í afreksíþróttum í sjónvarpi.

Ég hvet þá sem vilja kynna sér staðreyndir um starfsemi íþróttahreyfingarinnar að lesa pistil Ólafs Rafnssonar forseta ÍSÍ.

Ekkert í þessum pistli ætti að þurfa að fara fyrir brjóstið á þeim sem vilja láta mikilvæga umræðu snúast um orðalag afrekskonu í tilfinningarússi eftir stóran kappleik.

Röggi

föstudagur, 9. desember 2011

Sóley og pólitíkin í Orkuveitunni

Mjög margir hafa misst trú á stjórnmálamönnum. Mælingar sýna að virðing fyrir alþingi er sorglega lítil. Venjulegt fólk talar um að sami rassinn sé undir þessi liði öllu og best sé að skipta öllum út og fá nýtt fólk. Veit reyndar ekkert hvaða fólk er nýtt fólk en það er önnur saga....

Samt er það þó þannig að enn er til fólk sem vill afhenda þessum sömu stjórnmálamönnum enn frekari völd. Þetta fólk talar líka gjarnan þannig að ef bara væru til betra fólk til að sinna stjórnmálum þá gætu þeir hinir sömu bjargað öllu. Svo er því bætt við að best sé að lækka launin hjá þessari mikilvægu starfstétt.

Sóley Tómasdóttir trúir því að stjórnmálamenn séu til allra hluta bestir. Hún vill hafa þá út um allt. Sóley telur að sagan segi okkur að afskipti stjórnmálamanna af Orkuveitunni réttlæti enn frekari afskipti þeirra af því fyrirtæki.

Orkuveita Reykjavíkur hefur að mínu viti ekki grætt á setu kjörinna fulltrúa í stjórn fyrirtækissins nema síður sé. Orkuveitan er komin á heljarþröm og þar getur enginn flokkur fríað sig ábyrgð þó þeir geri það nú samt og komist upp með það meira og minna.

Ég tek ofan fyrir Besta flokknum að hafa reynt að taka þar til og fagna því ef afskipti kjörinna fúlltrúa af fyrirtækjarekstri borgarinnar eru á undanhaldi.

Þarna verðum við Sóley aldrei sammála. Ég velti því fyrir mér hvað Sóley telur að þeir sem sitja í borgarstjórn hafa fram af færa umfram fagmenn sem ekki eru nestaðir allskonar pólitískum hagsmunum. Fagmenn sem standa og falla með árangri í starfi og axla ábyrgð gagnvart eigendum.

Stjórnmálamenn standa nefnilega bara en falla ekki alveg óháð því hvernig þeir standa sig. Það segir sagan af Orkuveitunni okkur. Og reyndar svo miklu miklu fleiri sögur.

Samt vilja margir afhenda stjórnmálamönnum meiri völd......

Röggi

miðvikudagur, 7. desember 2011

Danskt bankahrun?

Getur verið að Danmörk sé að fara að ganga í gegnum bankahrun? Sérfræðingarnir sem hafa siglt keikir yfir hafið og messað yfir okkur molbúum hér í norðrinu og sagst hafa vitað allt en við skellt skollaeyrum.

Á Íslandi er það þekkt staðreynd meðal léttadrengja í leit að skjótfengnum pólitískum ágóða að heimshrun bankakerfis hefðu hérlendir menn, líklega tveir að tölu, átt að sjá fyrir. Og ekki einungis það. Þeir hefðu átt að koma í veg fyrir óskundann.

Danir hljóta að íhuga framsal...

Röggi