föstudagur, 22. janúar 2010

Handbolti

Handbolti er stórmál fyrir þessa þjóð hvort sem mér líkar það betur eða verr og ég fylgist með og hef gaman að. Núna er EM í gangi og væntingar stórar sem eðlilegt er. Við erum með fantagott lið sem hefur sýnt og sannað getu sína.

Liðið okkar hefur nú í tvígang misst niður sigur á lokamínutum gegn mótherjum sem við "eigum" að vinna á eðlilegum degi. Þar kemur að mínu viti margt til.

Við höfum að vissu leyti horft framhjá eða yfir bæði Serba og Austurríkismenn. Menn hafa talað um Dani og hversu mörg stig við tækjum með okkur í milliriðil. Þannig tal getur verið hættulegt.

Guðmundur þjálfari er auðvitað frábær fagmaður en hann er ekki gallalaus og mér finnst gallar hans skipta máli hér. Í dag virðist hann hreinlega vera farinn á taugum og gamall draugur endurvakinn. Hann hreyfir liðið ekki neitt....

Guðmundur skiptir of lítið inn á. Hann velur Loga Geirsson í liðið þó öllum virðist ljóst að hann getur ekki kastað handbolta enda ekki gert það mánuðum saman. Ásgeir Hallgrímsson spilar ekkert jafnvel þó Ólafur Stefánsson líti út fyrir að þurfa hvíld á báðum endum vallarins. Aron Pálmarsson er til skrauts að ég tali nú ekki um nýliðann frábæra Ólaf sem getur ekki undir neinum kringumstæðum gert sér vonir um að fá að klæða sig þó Logi geti ekki spilað. Get haldið áfram....

Guðmundur þarf að sína meiri kjark og áræði enda eru þeir leikmenn sem í liðinu eru engir aukvisar sem eyðileggja neitt þó þeir fái að leysa burðarása af hvort sem þeir eru þreyttir eða með allt niður um sig. Þrautreyndir menn og góðir eru ekki undanskildir þegar kemur að þreytu eða álagi.

Við getum reynt að finna skýringar í lélegum dómurum eða bara einhverju öðru en staðreyndin er sú að sökin liggur hjá okkur einum. Nú má ekki leggjast í væl og ódýrar skýringar. það er besta leiðin til að gera endanlega í buxurnar.

Ég hef fulla trú á mínum mönnum og að við getum snúið blaðinu við. En þá þurfa menn að lyfta hökunni og Guðmundur að safna kjarki til að stjórna liðinu eins og hann gerði með góðum árangri í Peking.

Röggi

fimmtudagur, 21. janúar 2010

Má berja á opinberum starfsmönnum eftir smekk?

Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að finna mikilvægari mál en þau að ákæra ofbeldfisfólk sem ræðst á opinbera starfsmenn þings og lögreglu. Og ekki hef ég sérstakt vit á því hvort eitt ár er langur eða skammur tími til að rannsaka slíka framkomu.

En hitt veit ég að mér finnst magnað að fólk skuli endalaust nenna að taka upp hanskann fyrir slíkt og slíka framkomu og telja þá sem véla um þau mál vera sérstakt vandamál. Ofbeldið er vandamálið en ekki þeir sem rannsaka það.

Þeir sem telja eðlilegt að gefa fólki sem ræðst gegn öðru fólki með ofbeldi upp sakir verða að skýra þær skoðanir sínar með öðrum rökum en þeim að málsstaðurinn standi þeirra hjarta svo nærri að allt sé réttlætanlegt.

Þau rök eru ónýt og hugsunin þar á bak við of grunn til að hægt sé að taka mark á. Ofbeldi á alltaf að mótmæla hverjum sem það beinist gegn. Þeir sem telja að það þjóni tilgangi að berja á lögreglumönnum eða þingvörðum hafa afleitan málsstað að verja.

Röggi

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Dagur B tjáir sig um laun stjórnarmanna

Vonarstjarna Samfylkingarinnar Dagur B Eggertsson birtist á skánum í gær og tjáði sig um laun sem fulltrúi Samfylkingarinnar Sigrún Elsa þiggur frá Orkuveitunni. Ég hef ekkert á móti því að hinn háværi fulltrúi siðbótar Sigrún Elsa fái það sem henni ber frá Orkuveitunni....

..og víst er að sumir eru að fá meira en hún fyrir vinnu sína og þykir mörgum nóg um upphæðirnar. En það er röksemdafærsla vonarstjörnunnar sem vakti athygli mína. Dagur er auðvitað þekktur fyrir að geta sagt mikið og margt á litskrúðugan og skreytinn hátt um ekki nokkurn skapað hlut.

Og hér kemst hann að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt eðlilegt enda hafi Sigrún Elsa verið sett þarna inn til að hafa eftirlit með spillingu og hafa á henni hemil.....

Mér sýnist ekkert koma í veg fyrir bjarta framtíð Dags B Eggertssonar í stjórnmálum. Maður sem getur snúið hlutunum svona á haus og þarf ekki að þola frekari spurningar frá afleitum fréttamanni er á réttri braut...

Eða hvað?

Röggi

mánudagur, 11. janúar 2010

Öfgar Davíðs?

Hann er stundum stórskrýtinn kýrhausinn. Davíð Oddsson hefur langi farið fyrir þeim sem hafa haldið því fram að ekki eigi að borga skuldir óreiðumanna erlendis. Að best sé að taka slaginn og reyna að verja sig. Við vitum hvernig því var tekið og hvernig til tókst.

Ég sjálfur tel að héðan af snúist þetta blessaða Icesave mál ekki mikið um lögfræði og ekki snýst það um réttlæti heldur. Það snýst núorðið um pólitískt ofbeldi í garð heillar þjóðar og lausatök ríkisstjórnar Íslands.

Sumir álitsgjafar og bloggarar hafa ekki hikað við að kalla skoðanir Davíðs öfgaskoðanir og farið mikinn. Davíð vill ESB ekki heldur og hefur ekki átt upp á öll pallborð með þann málflutning heldur.

Ég fæ ekki betur séð en að þessum skoðunum vaxi nú hratt fiskur um hrygg og minni á spádóma um einmitt það. það er stutt öfganna á milli hjá sumum....

Og kannski timi Moggans sé að renna upp....

Röggi

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Nú er best fyrir alla að vinna saman

Nú er komin upp áhugaverð staða í Íslenskri pólitík. Á meðan einstaka þingmenn og léttadrengir Samfylkingar hamast á forsetanum og stjórnarandstöðu er kannski að renna upp fyrir reynsluboltanum Steingrími Sigfússyni að stjórnin er í stöðu sem hún getur ekki unnið.

Hún getur vissulega sett undir sig hausinn og farið með lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég get ekki séð hvernig stjórnin ætlar sér að fá vinningsstöðu út úr því vali. Verði lögin felld virðist einboðið að stjórnin fari frá og við vitum hversu vænt þeim þykir um stólana sína. það tel ég reyndar vera vinningsstöðu fyrir þjóðina en það er önnur saga...

Verði þau samþykkt er í mínum huga alveg tært að þá situr þessu vinstri stjórn uppi með skömm sem ekki tekst með nokkru móti að þvo af henni áratugum saman og verður banabiti hennar mun fyrr en seinna. þeim fer sífellt fækkandi sem trúa þvi í raun að fullreynt sé í baráttunni fyrir sanngjörnum samningi. Mín spá er að þeim muni fjölga hratt og það mun gerast þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands fá til fulltingis við sig ríkisstjórnir Bretlands og Hollands í áróðursstríðinu gegn Íslenskri þjóð.

Samfylkingin virðist alveg ákveðin í að stofna til ófriðar við þjóð sína. Reyndar trúa tindátarnir þvi að slagurinn sé við andstæðinga á þingi. Þarna bregst flokknum illilega stöðumatið eins og stundum áður.

Ingibjörg Sólrún hefur greinilega séð þetta og tekið réttan kúrs. þetta stríð á ekki að heyja við eigin þjóð eða þing. Þetta stríð eigum við að heyja saman við óbilgjarna andstæðinga. Margt vinnst með því fyrir ríkisstjórnina.

Þá er ábyrgðin sameiginleg auk þess sem styrkur okkar sameinuð er svo margfalt meiri en sundruð. það er enginn skömm eða ósigur fólginn í því að taka skynsamlegu tilboði um að vinna saman að málinu.

Vissulega þurfa menn að brjóta odd af oflæti sínu en það er hreint smámál samnborðið við efann sem aldrei mun hverfa úr vitund þjóðarinnar ef ekki verður reynt til þrautar.

Röggi

Ólína veður í villu og svima

Ólína Þorvarðardóttir skrifar merkilegan pistil hér á eyjuna í dag. Þar reynir hún af öllum mætti að snúa út úr orðum manna og leggur mikið á sig til þess að skilja ekkert hvað er að gerast og hvaða staða er uppi.

það sem við erum að horfa up á núna er að allt frumkvæði í þessu hörmungar Icesave máli er að fara frá ríkisstjórninni og menn utan hennar eru að taka að sér að berjast fyrir okkar málsstað. Steingrímur hefur haldið utan til að ræða við menn og Guð forði okkur frá því að hann haldi áfram að telja þeim trú um að málsstaður þeirra sé góður og réttur okkar til að reyna að ná sanngjörnum samningum sé ekki til.

Ólína ályktar að vegna þess að stjórnarandstaðan telur nú rétt að reyna að ná samstöðu um að skipa nýja samninganefnd og hætta við þjóðaratkvæði að þá hafi menn verið að blekkja forseta og þing þegar greitt var atkvæði um að vísa málinu til þjóðarinnar.

Þeir einu sem blekktu þing og þjóð og forseta í þeirri atkvæðagreiðslu Ólína voru þingmenn meirihlutans sem greiddu atkvæði gegn eigin sannfæringu. Bara svo því sé haldið duglega til haga...

Nú er komin upp ný staða og til muna sterkari fyrir okkur en áður þó hræðsluáróðurs vél ríkisstjórnarinnar vinni þrotlaust dag og nótt við að eyðileggja möguleika okkar til að ná samningi sem við getum unað við.

Besta lausnin var ALLTAF að reyna að fá ríkisstjórnina til þess að taka sönsum en til vara að neyða hana til þess með þátttöku þjóðarinnar. Þess vegna greiddu menn atkvæði með þjóðaratkvæði.

Höfðinu skal barið við steininn hjá þingmönnum ríkisstjórnarinnar og ef fram fer sem horfir verða engir öflugri talsmenn þessa afleita samnings til en fulltrúar hennar og þá tel ég viðsemjendur okkar með.

Röggi

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Fréttastofa rúv á villigötum

Fyrsta frétt hjá rúv í kvöld var sérstök. Þar sáum við stórmóðgaða fréttakonu fyrir utan myrkvaða Bessastaði gera stórmál úr því að forsetinn var ekki þar til að tala við hana. Og svo var hafist handa við að ráðast á forsetann vegna ákvörðunar hans um synjun.

Lesnir voru valdir kaflar úr bréfi hinnar mjög svo hlutlausu ríkisstjórnar um afleiðingar þess að forseti fari að vilja þjóðarinnar. Ég læt mér í sjálfu sér í léttu rúmi liggja þó fréttastofa rúv vilji gera einum málsstað hærra undir höfði í þessu en öðrum. Fréttastofur eru hættar að koma mér á óvart...

En þar sem ákvörðun forseta snérist ekki eingöngu, og kannski minnst, um efnisatriði samningsins þá bara skil ég ekki fréttina. Forsetinn var að reyna að vera sjálfum sér samkvæmur og hann var að bregðast við augljósum vilja þjóðarinnar til að fá að greiða atkvæði um samninginn.

Heldur fréttastofu rúv kannski að honum hafi þótt málfutningur stjórnarandstöðunnar svo sannfærandi versus stjórnarinnar að hann hafi bara ákveðið að hunsa þessi aðvörunarorð þess vegna?

Þessi hræðsluáróður sem nú nær hámarki vegna fyrstu misskilningsviðbragða fjölmiðlamanna erlendis eftir klúðursleg ummæli ríksstjórnarinnar mega ekki rugla menn í ríminu. Ríkisstjórnin hefur haldið þessum vörnum uppi allan tímann og þrátt fyrir það tal...

..hefur henni hvorki tekist að sannfæra sitt eigið lið né þjóðina. Þess vegna vildi þjóðin kjósa sjálf. Ég sé ekki að forsetinn sé að taka afstöðu með eða á móti samningnum með þessum gjörningi. Hann er einfaldlega að taka afstöðu með þjóðinni og ekki á móti neinum.

Og notar til þess stjórnarskrárvarinn rétt sinn sem stjórnmálamenn kunna ekki að kannast við nema þegar þeim hentar.

Nú ríður á við förum ekki öll á taugum og göngum í lið með ríkisstjórninni og gerumst málflytjendur viðsemjenda okkar. það fannst mér stórmóðgaða frettakonan gera í kvöld.

Röggi

Móðursýki vinstri manna

Það er eins og við manninn mælt. Heftin og móðursýki í vinstri mönnum út í Ólaf Ragnar er ótrúleg. Hver stórmóðgaður fyrrum samherjinn ryðst fram og sakar hann um svik og niðurrif. Þórunn Sveinbjarnardóttir toppar þó allt í magnaðri grein sinn hér á eyjunni.

Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína að forsetinn eigi ekki að hafa þennan málskotsrétt og gildir einu hvort embættinu gegnir Ólafur Ragnar eða einhver annar stjórnmálamaður eða hvort málið kemur mér og mínum málsstað vel eða illa.

Þeir sem lengst ganga halda þvi fram í geðshræringu að forsetinn hafi rænt völdum og kannski má með lægni halda því fram. Við höfum áður horft á forsetann skipta sér af og taka fram fyrir hendur þingsins í máli sem skipti minna máli og var minna umdeilt og meiri samstaða um á þingi en þetta blessaða mál. Hvar var Þórunn Sveinbjarnardóttir þá?

Þórunn og aðrir lýðræðiselskandi vinstri menn hafa galað á torgum um þjóðaratkvæðagreiðslur og þetta sama fólk dansaði af gleði þegar Ólafur Ragnar gerði það fyrir vini sína Sigðurð G ,Jón Ásgeir og Samfylkinguna að synja fjölmiðlalögum staðfestingu forðum.

það er vont að hafa ekki aðra sýn á stjórnmál en dagsins sem er að líða. Þeir vinstri menn sem garga sig hása og skrifa greinar ættu kannski sumir að fletta aftur til ársins 2004 og bera sig saman við þær skoðanir sem þá voru í gildi. Tækifærismennska og prinsippleysi sumra ríður ekki við einteyming...

Þetta fólk allt fagnar málskotsrétti forseta og vill auðvitað þjóðaratkvæði og beinna lýðræði en nota bene, bara þegar það hentar. Þetta fólk væri nú í dag að dásama alla þessa kosti ef bara Ólafur Ragnar hefði nú getað munað með hvað liði hann á að halda.

Um það snúast þessi læti og annað ekki.

Röggi

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Varaformenn í kastljósinu

Dagur B Eggertsson sem er víst varaformaður Samfylkingar er í Kastljósi kvöldsins að kvarta undan því að ríkisstjórnin skuli hafa þurft að verja stöðu okkar erlendis í dag og telur það hafa verið sérstakt afrek að hafa sinnt því. Betra hefði verið að þessi ríkisstjórn hefði gert það áður og fyrr og betur. Það er hennar skylda en telst ekki sérstakt afrek að hún reyni að vinna vinnu sína.

Dagur ruglar um að menn andvígir lögunum segi nú eftir ákvörðunina að auðvitað standi til að borga og það sé ný afstaða. Ég veit ekki hvar varaformaður Samfylkinguna hefur haldið sig en frá mínum bæjardyrum séð veit hann lítið um vígstöðuna ef hann stendur við þetta.

Þegar farið var í vinnu um að setja fyrirvara við frumvarpið viðurkenndu menn að undan því yrði ekki komist eins og búið var að halda á málum. Fyrirvararnir snérust um kjör en ekki prinsippið um hvort við borgum eða borgum ekki. Dagur virðist hafa misst af þessu lítilræði enda reyndust þessir fyrirvarar léttvægir í meðförum ríkisstjórnainnar.

Katrin Jakobsdóttir varaformaður VG var allt annar stjórnmálamaður. Hún var fjallbrött og kraftmikil og laus við dramað sem Dagur nærist sífellt á. Virtist þess albúin að taka á málinu og snúa vörn í sókn.

Það hefur nefnilega enga þýðingu aðra en að skaða málsstað okkar bæði hér og þar að leiðtogar ríkisstjórnarinnar birtist okkur eins og um heimsendi sé að ræða og ekki komi neinn morgundagur. það er að skemmta skrattanum og nú er nóg komið að því að þetta fólk haldi sífellt á lofti málsstað andstæðinga okkar.

Í þeim efnum voru varaformennirnir ólíkir í kastljósinu.

Röggi

Ný og betri staða

Ólafur Ragnar er ólíkindatól. Ég hafði spáð því að líkur væri á að hann synjaði lögunum undirskrift enda gaf ég mér að honum væri í einhverju annt um mannorð sitt og einnig það að það sem er til vinsælda fallið hefur alltaf heillað Ólaf Ragnar.

Ég er andvígur því að forsetinn sé að skipta sér af störfum alþingis með þessum hætti. Ég er það í prinsippinu enda ber ég mikla virðingu fyrir þingræðinu. En Ólafur Ragnar var búinn að koma sér í þessa klipu og hélt haus þegar á reyndi gagnvart fyrri ákvörðunum. Fyrir vikið er hann að breyta eðli embættisins og að líkindum munum við þurfa að horfa upp á misafdankaða stjórnmálamenn sækjast eftir því það sem eftir er.

Ég er ekki sannfærður um að þessi lög eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enda finnst mér líklegast að þau verði dregin til baka þó snautlegt sé fyrir ríkisstjórnina að þurfa í tvígang að gera það. Þjóðaratkvæðagreiðsla í raun óþörf því alveg er gefið að málið kolfellur fyrir þjóðinni.

Viðsemjendur okkar geta með engum hætti sakast við ríkisstjórnina og farið að hamast á okkur sem þjóð eftir atburði morgunsins. Ríkisstjórnin gerði allt fyrir þessa aðila sem hægt var en hún hefur ekki vald yfir forsetanum og meira að segja þessir óbilgjörnu viðsemjendur hljóta að skilja slíkt grundvallaratriði i stjórnskipan lýðræðisríkis.

Nú hlýtur verkefnið að vera að reyna að setja saman samninganefnd sem getur staðið í lappir en ekki bara endurómað það sem hagstæðast og best er fyrir þá sem sitja andspænis okkur við samningaborð. Nefnd sem gerir ekki málsstað viðsemjenda að okkar. Nú er komin upp ný samningsstaða og til muna sterkari en áður.

Við munum borga en ekki á hvaða kjörum sem er...

Röggi

sunnudagur, 3. janúar 2010

Þarf forseti pólitíska vináttu?

Nú beinast augu flestra að Bessastöðum. Hvða gerir forsetinn? Ég ætla ekki að leggja neitt undir en augljóst er að Ólafur er í vandræðum með sig og samvisku sína. Auðvitað veit hann eins og allir aðrir að hann getur ekki skrifað undir eftir það sem á undan er gengið. þannig er það nu bara....

Gunnar Helgi stjórnmálasérfræðingur kemst að þeirri niðurstöðu að Ólafur muni skrifa undir til að halda í pólitíska vináttu. Helst var á Gunnari að skilja að þetta væru eðlileg og haldbær rök.

Ef þetta reynist ríða baggamuninn er Gunnar Helgi að lýsa algerlega fáránlegu ástandi bæði á forsetanum sjálfum og embættinu sem hann er á góðri leið með að laska alvarlega.

Ólafur Ragnar starfar ekki í umboði Sanfylkingar og VG á Bessastöðum. Eða öllu heldur, hann á ekki að gera það. En kannski þykir honum vænna um pólitíska vináttu en virðingu heillar þjóðar svo ekki sé minnst á persónulega og faglega reisn.

Röggi