mánudagur, 29. desember 2008

Ekki mér að kenna...

Í grein í mogganum talar hann um skuldir og eignir. Hann talar um eigið fé. Prósentuhlutföll og pólitík. Vaxtaberandi skuldir eignarhaldsfélaga eða voru það fjárfestingafélög? Hagnað og tap og langtíma eða skammtíma hitt eða þetta.

Hann var að gera þetta allt fyrir okkur svo við hefðum vinnu. Selja sjálfum sér og sínum aftur og aftur á hækkandi verði sem engin innistæða var fyrir. Eigið fé hvað? Myndin sem hann dregur upp af sjálfum sér á heima í ævintýri H C Andersen.

Sakleysið er yfirþyrmandi. En reyndar sér hann mistök sín en þau snúa þá að því að HANN tapaði fé. það er kjarni málsins. Hvaða fé tapar hann? Mér sýnist hann aðallega hafa grætt og leyft öðrum að sjá um tapið.

Nú vill hann eins og félagar hans koma að því af fullum áhuga og harðdrægni að koma okkur á kjölinn aftur. Ég fyrir mína parta afþakka pent meiri harðdrægni úr þessari átt. Hún er svo dýru verði keypt harðdrægnin hans Jóns Ásgeirs.

Hann finnur ekki til ábyrgðar.

I rest my case...

Röggi.

mánudagur, 22. desember 2008

Eru allir að tala um mútugreiðslur?

það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar eigi undir högg að sækja nú um stundir. Eigendahollir eins og áður og nú er mómentið þannig að full þörf er á að vanda sig. Virðingin fyrir þessum stofnunum á undanhaldi enda fagmennska á stundum aukaatriði.

Ísland í dag er merkilegur þáttur. Þar hafa verið nokkur gersamlega fáránleg augnablik undanfarin ár þar sem hlutdrægni og amatörismi hafa fullkomnast. Eða kannski bara getuleysi sem er vissulega betri kostur en hinir...

Í kvöld var Sölvi að tala við forsætisráðherra. þar hrukku frá honum magnaðar spurningar sem gersamlega var vonlaust að svara. Fátt kemur mér orðið á óvart þegar um fréttastofu Óskars Hrafns er að ræða en lengi er þó von á einum...

Sölvi ræddi það af fullri alvöru við Geir að altalað væri að forsvarsmenn lífeyrissjóða hefðu þegið mútur í tengslum við ákvarðanir sínar í starfi. Þessu er bara slengt fram rétt sí svona. þær verða varla alvarlegri ásakanirnar en þetta.

Meira að segja í kaffispjalli í Múlakaffi yrði venjulegur maður krafinn um heimildir fyrir svona löguðu. En á þessari fréttastofu nægir að menn telji hlutina altalaða til að henda þessu í loftið. Ég efast ekki um að þetta er altalað á fréttastofunni en það dugar ekki til. Reyndar er eitt og annað altalað um vinnuveitenda hans og sumt af því fréttnæmt en nær samt ekki í loftið....

Ætli fréttastofa stöðvar 2 að reka af sér slyðruorðið er að mínu viti hreint ekki vitlaust að stefna óhikað á fagmennsku. Enda alls engin ástæða til að gera minni kröfur til fjölmiðlamanna en til dæmis stjórnmálamanna.

Ég legg eindregið til að Sölvi segi okkur hvað hann veit um þessar mútu greiðslur sem allir eru að tala um.

Röggi.

föstudagur, 19. desember 2008

Hagar fá sekt.

það er ekki nýtt að Jóhannes stórkaupmaður í Bónus telji sig vera góða kallinn. Samkeppniseftirlitið hefur nú sektað Haga um fleiri hundruð milljónir fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Þó fyrr hefði verið segi ég.

Hann telur sig starfa í þágu viðskiptavina sinna. Þeir hafi byggt upp stórveldið eins og hann orðar það í sjónvarpi í kvöld. Þvílíkt þvaður. Undirboð á markaði eins og Bónus hefur stundað lengi voru og eru eingöngu til þess gerð að koma samkeppni fyrir kattarnef.

Þetta eru almenn sannindi og þau eru lika alkunna sannindin um að fákeppni er ekki neytendum til hagsbóta. það er bara Jóhannesi og öðrum fjölskyldumeðlimum í stjórn Haga til hagsbóta að fækka samkeppnisaðilum með svindli.

Kallinn talar um að þetta sé nöturleg jólagjöf. Þær eru ekki allar fínar jólagjafirnar sem viðskiptamenn þjóðarinnar eru að færa okkur fyrir þessi jól. Hagstæðast væri fyrir Jóhannes að borga þetta bara og loka svo strigakjaftinum því ég tel og vona að þjóðin sé nú loks að fá sig fullsadda af gjöfum frá þessari fjölskyldu.

Reyndar er miklu líklegra að hann sigi bara lögfræðingahjörðinni á kerfið og reyni að komast undan þessu. það er aðferðin sem hefur dugað svo vel. Verst er þó að geta ekki fengið goodvill hjá þjóðinni með því að klessa þessu máli á Davið.

Annars hef ég efasemdir um að sniðugt sé að sekta kennitölurnar sem skráðar eru fyrir rekstrinum. Miklu nær er að refsa þeim sem tóku ákvarðanir um svindlið því Jóhannes mun sækja sektina til þeirra sem kaupa mat af honum.

Getur verið að það sé hrein tilviljun að fjölskylda þessa manns er hingað og þangað í forgrunni þar sem svindl og svínarí eru í Íslensku viðskiptalífi? Er kannski hugsanlegt að sá dagur renni upp að almenningur hætti bara að versla við þetta fólk af prinsippástæðum?

Að þjóðin sjái loks að góðu kallarnir voru bara að plata.

Röggi.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Tryggð við eigendur eina boðorðið.

Hvað getur maður skrifað um Reyni Traustason? Þessi maður sem hefur farið mikinn og hvergi dregið af sér í því að draga menn í svaðið þegar honum og hans vinnuveitendum hefur hentað. Stóryrðin ekki spöruð og gjarnan talað um siðferði og ábyrgð.

Svo þegar endanlega sannast að Reynir er algerlega óhæfur og siðlaus þjónn eigenda DV þá er annað hljóð í strokknum. Blessaður kallinn metur þetta mál þannig að stærðargráðan skipti öllu. það er hlægilegur útgangspunktur.

Hér er um grundvallaratriði að ræða og það ætti hinn sjálfskipaði siðapostuli að vita. En auðvitað skiptir þetta litlu því þeir voru varla margir sem gerðu þær kröfur til DV að þar færi alvöru fjölmiðill.

Hér eftir er algerlega óþarft að gefa þennan snepil út því ritstjórinn er marklaus og eigendurnir siðlausir. En þessi hópur manna þarf að eiga fjölmiðil af þessari sort hvað sem það kostar.

Og það kostar. Makalaust tap ár eftir ár skiptir þar litlu enda vita þessir menn að til eru leiðir til að láta aðra borga skuldir. Reynir Traustason er heppinn að þurfa ekki að mæta kjósendum til að halda vinnu sinni eins og stjórnmálamenn munu gera og axla þá ábyrgð sína.

Hann er í öruggu skjóli þar sem tryggð við eigendur er eina boðorðið. Hann kann það boðorð betur en aðrir menn og nú hefur hann fengið syndaaflausn hjá sér og sínum.

Þvílíkur brandari...

Röggi.

mánudagur, 15. desember 2008

Ónýtt vörumerki, DV

Magnað að sjá blaðamanninn fyrrverandi í kastljósi í kvöld, af mörgum ástæðum. Framburður hans og upptaka af samtali hans við Reyni Traustason staðfestir auðvitað hvurslags rugl er í rekstri blaðs eins og DV.

Alveg ótrúlegt að hlusta á kappann reyna að telja blaðamanninum trú um að fréttin sem hann skrifaðii um Sigurjón bankastjóra hafi verið svo léttvæg að hann hafi barasta farið létt með að að láta ritskoða sig og kúga til að birta hana ekki.

Málsstaðurinn hafi verið svo góður! Ég get alls ekki varist því að hugsa um hvernig umgengi "manna út í bæ" er við Reyni þegar um stórtíðindi er að ræða. Þetta er maðurinn sem hefur gargað á að menn sýni ábyrgð. Hér þarf ekki að garga.

Hugsanlega mun ritstjórinn undirgefni fara langt með vinna mál gegn blaðamanninum enda vafasamt í meira lagi að taka svona samtöl upp og meðhöndla eins og hann gerir. Mér finnst í sjálfu sér skítalykt að því.

En gerum það ekki að aðalatriði þessa máls. Sem er staðfestingin á þvi að sumir menn eiga ekki að eiga fjölmiðla og aðrir ekki að ritstýra þeim. Blaðamanns heiður Reynis fór endanlega út í veður og vind í kvöld.

Kannski vilja eigendur DV eða þessir öflugu "menn út í bæ" samt hafa hann í vinnu. Ég held að vörumerkið DV þoli varla meira en það sem lagt hefur verið á það undanfarin misseri. Botninum ætti að vera náð núna.

Og þó. Annað eins hefur maður nú séð...

Röggi.

Illugi Gunnarsson og þrískipting valds.

Illugi Gunnarsson er flottur þingmaður. Málefnalalegur en þó fastur á sínu. Það er yfir honum pólitísk ró og yfirvegun og hann virkar traustur. Og nú undir það síðasta, kjarkmikill.

það þarf kannski ekki mikinn kjark til að segjast hneigjast til ESB eins vinsælt og það er í dag. En það sem hann segir um að hugsanlega þyrftum við að skoða margt af þvi sem Vimundur boðaði forðum þarfnast aðeins meiri kjarks.

Mig rekur ekki minni til þess að neinn flokkur hafa sýnt þeim tillögum hinn minnsta áhuga. Einn og einn þingmaður hefur nefnt þetta létt og vakið litinn áhuga. Þess vegna fagna ég því að Illugi nefni þetta núna. Bæði vegna þess að ég ber virðingu fyrir honum eins og margir en ekki síst vegna þess að hann er sjálfstæðismaður eins og ég og mér finnst þetta eiga að geta rímað fallega við grundvallaratriði okkar flokks.

Kjósum framkvæmdavaldið beint og löggjafann sér. Þrískiptum valdinu eins og stjórnarskráin segir til um. það er ekkert að óttast eins og margir virðast halda. Og þetta er ekki heldur flókið. Vissulega þarf að ráðast í breytingar en það er nú akkúrat það sem þarf er það ekki....

Með þessu fengjum við eðlilegra umhverfi í okkar stjórnsýslu en ekki það ráðherraræði sem nú er. Er nánast þeirrar skoðunar að þeir sem ekki vilja breyta og skipta valdinu í þrjá hluta þurfi að útskýra fyrir mér af hverju ekki!

Þetta hentar öllum flokkum og allri þjóðinni. Þjóðin getur kosið sér forstjóra til að reka batteríið og kýs sér svo þing sem setur forstjóranum reglurnar. Þingmeirihluti getur svo myndast utan um alls konar mál þar sem málefni ráða kannski meiru en vilji framkvæmdavaldsins. það sjáum við ítrekað í Bandaríkjunum og mér finnst það hollt.

Dropinn holar steininn og kannski mun þetta ná fram að ganga og vonandi fyrr en seinna. Og þá er ekki afleitt að menn eins og Illugi Gunnarsson vinni málinu kannski fylgi. Ég vona að minn flokkur taki þetta til umræðu af alvöru því þetta er raunverulega miklvægt til að tryggja okkur eðlilegri stjórnsýslu en við búum við núna.

Röggi.

Og augun eru að opnast...

Illugi Jökulsson fer mikinn núna og heimtar skýringar á því að ritstjóri DV skuli láta menn út í bæ hafa áhrif á það hvað fer í blaðið. þetta kemur Illuga á óvart sýnist mér.

Það er stórmerkilegt alveg. þetta kemur mér ekki á óvart enda fyrir löngu orðið ljóst að Reynir Traustason er kjölturakki eigenda sinna. Nú man ég ekki nákvæmlega hver afstaða Illuga var til fjölmiðlalaganna en hafi hann verið á móti þeim þá bað hann um þetta rugl.

Greinilegt alveg að æ fleiri eru að sjá ljósið. Jón Gerald er að verða hetja eftir að hafa þurft að þola magnaðar árásir árum saman í fjölmiðlum mestu þjófa sögunnar. Jónina Ben og reyndar fleiri sem reyndu að berjast gegn þessum mönnum voru skrifuð geðveik og rugluð og sökuð um að vera fótgönguliðar Davíðs. það var þá....

Núna tekst allt í einu að draga fram fræðimenn sem benda á hið augljósa. það sem blasti við allan tímann en hvorki fjölmiðlar né fólk sem ekki getur brotist út úr pólitískum slag vildu sjá. Þjóðin var höfð að fíflum og þeir sem bentu á það fengu að finna fyrir því.

Pólitíska uppgjörið mun fara fram því stjórnmálamenn þurfa að mæta kjósendum sínum á endanum. Nú skulum við einhenda okkur í það gera upp við þessa örfáu gaura sem stálu þjóðarauðnum, íbúðunum okkar til dæmis, skuldsettu okkur til eilífðar og sitja svo fínir menn erlendis og horfa á þjóðina basla við reikninginn.

Staðreyndirnar eru að ryðjast upp á yfirborðið núna og loks virðist þjóðin tilbúin að opna augun og það þrátt fyrir að sumir fjölmiðlar þegi þunnu hljóði.

Vonandi verður Illugi öflugur liðsmaður þegar kemur að þessari tiltekt þó hún lúti ekki að því að slá pólitískar keilur. Það eru nefnilega víðar rotin epli en bara í pólitík og á meðal embættismanna.

Röggi.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Fréttablaðið í vörn.

Nánast sorglegt að sjá hvernig rítstjórar Fréttablaðsins reyna að telja okkur trú um að engu skipti hver borgar þeim kaup. Blindur maður sér að aðalfréttin er hvernig ekki er skrifað í þetta annars fína blað.

Engu skiptir hvort um er að ræða fréttstjóra stöðvar 2 eða fréttablaðsins. Alltaf er hlaupið til þegar eigandinn þarf að komast að og nú síðast til að leiðrétta grein sem birtist ekki í Fréttablaðinu. Lesendur Fréttablaðsins geta lesið leiðréttinguna en ekki greinina.

Eigendur Fréttablaðsins eru heppnir með ritstjóra því ég hef mjög mikla trú á Þorsteini Pálssyni þrátt fyrir allt. Það er bara Þorsteinn sem er ekki mjög heppinn með eigendur......

Röggi.

mánudagur, 8. desember 2008

Hagfræði Jóns Danielssonar.

Jón Daníelsson var í silfri Egils í gær. Sprenglærður hagfræðingur og viðurkenndur. Áheyrilegur og sannfærandi. Og ferkanntaður....

Hann talar um að betra væri að borga ekki Icesave reikningana og ekki sé skynsamlegt að taka lán hjá IMF. Út frá hvaða forsendum talar maðurinn? Er það betra fyrir okkur sem þjóð til framtíðar í ljósi þess að við stefnum að því að halda áfram að vera menn með mönnum? Stunda viðskipti og kannski sækja um aðild að ESB.

Ég er viss um að stjórnvöld hafa komist að sömu niðurstöðu og Jón. Miklu ódýrara fyrir okkur fjárhagslega að setja Íslensku bankana á hausinn og sleppa við að borga skuldir þeirra. Þá tapa Íslenskir innistæðu eigendur reyndar og ég sé ekki hvað stjórnmálamaður ætlar að taka þá ákvörðun.

það er nefnilega fleira í þessari mynd en bara tölur og hagfræði. Við getum auðvitað hagað okkur eins og villimenn og sagt okkur úr lögum við aðra menn og þjóðir. Það er líklega "ódýrara" bæði til lengri eða skemmri tíma.

En hvað er "ódýrt" í þessu og hvað er "hægt"? Engir kostir voru ódýrir eða sérlega freistandi. Hagfræði eru nytsamleg fræði en ekki er allt gull sem glóir þar.

Við erum í samfélagi þjóða og ætlum okkur að vera þar og margir vilja meira samneyti. Fyrir það fólk er málflutningur Jóns Danielssonar eiginlega alveg ónothæfur.

Við áttum einfaldlega engan annan kost en að standa við okkar. Svona úrtölur gera ekkert annað en að ala á óánægju. Sama fólkið og vildi ekki greiða niður skuldir ríkissins heldur miklu frekar að eyða meiru virðist nú ekki mega heyra minnst á skuldsettan ríkissjóð.

Ég vill að Egill fái Jón aftur til þess að segja okkur hvernig við hefðum átt að komast upp með að borga ekki. Og hvernig við hefðum átt að haga samskiptum okkar við aðrar þjóðir hvort heldur sem um er að ræða lönd ESB eða vini okkar á norðurlöndum.

Kannski heyra þau mál ekki undir hagfræði og því allsendis óvíst að Jón geti tjáð sig um þau. En stjórnvöld geta ekki leyft sér slíkan lúxus. þau þurfa að horfa á heildarmyndina.

þar liggur munurinn.

Röggi.

Röggi.

laugardagur, 6. desember 2008

Davíð yfir strikið.

Nú er komið að því að Davíð verður að hætta í Seðlabankanum. Trúnaðarbrestur milli hans og ríkisstjórnar er orðinn svo mikill og opinber að ekki verður við unað. Það er endapunktur að mínu mati.

Lengi hélt hann sjó. Lét ekki hafa sig út í hanaat í fjölmiðlum. Bankinn stóð fastur á sínu þrátt fyrir stanslausa ágjöf. Virtist trúa þvi alla leið að hann væri á réttri leið og að á endanum kæmi það í ljós.

Faglegur ágreiningur er eðlilegur og líklega hollur. Þegar staðan er orðin þannig að menn skattyrðast í fjömiðlum daglega þá verður að grípa til aðgerða. Þannig stjórnsýsla dugar ekki.

Mér sýnist Davíð hafa tapað þolinmæðinni endanlega núna. Kannski engin furða. Maðurinn hefur í óratíma mátt þola makalausar árásir á sig í fjölmiðlum Íslensku fjármála snillingnna.

Alveg frá því að Ingibjörg Sólrún fór í Borgarnes og sló skjaldborg um Jón Ásgeir og Baug hefur stríðið geisað. Þar fékk Jón pólitískt skjól og frið til athafna. Baugsmálið var gert að pólitík með fulltingi Samfylkingar sem gat ekki neitað sér um þennan fína höggstað á Davíð.

Bak við þennan skjólvegg hefur starfsemin dafnað og við sjáum afraksturinn. Davíð barðist við ofureflið og reyndi að benda á hvurslags lið þetta væri. Hann reyndi að koma í veg fyrir að þetta fólk kæmist yfir fjömiðlana. Við vitum hvernig það fór.

Nú situr hann í Seðlabankanum og enn er honum kennt um. Fjölmiðlar kónganna múlbundnir í kaf taka fullan þátt. Fullnaðarsigur er í sjónmáli. Davíð fer...

Það ætti að kæta þjóðina sem trúir öllu sem því hefur verið sagt um manninn. Ég hitti mjög reglubundið fólk sem hreinlega veit að hann er geðveikur alki. Gengur um öskrandi og ógnandi. Þetta vita allir að er staðreynd er sagt. Hvað er að fólkinu sem vinnur með manninum?

Þetta allt saman hentar ekki bara glæpamönnnum sem er enn þann dag í dag eru að véla um þjóðarauðinn í friði fyrir þjóð sem elskar að hata Davíð. Þetta hentar ekki síður misónýtum stjórnmálamönnum sem setja Seðlabankanum reglurnar ásamt ESB. Þeir eru að mestu stikkfrí.

Þeir ætla að setja saman nefndir sem skrifa hvítar bækur. Skipa væntanlega sjálfir í þá nefnd. Seðlabankinn vill ekki slíka nefndarvinnu. Óháða erlenda rannsókn takk. Líklega verður Davíð ekki til staðar þegar þeirri rannsókn líkur og ekki alveg víst að niðurstöðurnar verði í takt við það sem margir búast við.

Davíð er slagsmálahundur enginn vafi. það er líka kostur en eins og þessi nýjasti slagur lítur út þá getur hann ekki unnið. Seðlabankastjóri getur ekki slegist opinberlega við forsætisráðherra. Hvort söguhetjurnar heita Geir og Davíð eða eitthvað annað skiptir akkúrat engu. Svona gerist þetta bara ekki.

Þess vegna fer Davíð og Jón Ásgeir og félagar taka tappa úr kampavínsflösku á einhverri kyrrahafseyju í boði þjóðarinnar í taumlausum fögnuði. Maðurinn sem barðist hvað harðast við þá loks veginn. Ippon...

Þá getur þjóðin kannski snúið sér að því að reyna að koma lögum yfir gerendurna sjálfa. Brunað með eggjabakkana út á flugvöll eða fundið bílana þeirra og mótmælt í heimreiðinni.

Margir munu fagna og telja brotthvarf Davíðs mikinn sigur. En það er þannig með sigrana að einhver tapar. Þeir sem ekki sjá hver er óvinurinn eru ólíklegir til að vinna stóra sigra.

Röggi.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Lýðræðinu fleygt á dyr.

Lýðræði er merkilegur hlutur. Mótmælendur styðjast að jafnaði við þetta hugtak. Þegar fólk safnast saman á Austurvelli er hrópað á lýðræði. Þeir sem þar koma saman telja sig vera hina einu og sönnu fulltrúa lýðræðis hér.

Hvenær er tími til kominn fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að fara frá. Er það þegar 5 þúsund manns mæta eða kannski 36 þúsund? Eða þegar búið er að grýta 250 kg af eggjum? Nú eða kannski þegar skoðanakannanir mæla óánægju yfir 50%? Veit það ekki en veit samt að ekkert er ólýðræðislegt við að stjórnvöld sitji áfram. Kann að vera heimskulegt en ekki ólýðræðislegt.

Mér hefur oft fundist mótmælendur leggja undarlegan skilning í lýðræðið. Nú sást það síðast þegar Ástþór Magnússyni er hent út af OPNUM borgarafundi vegna þess að hann og hans skoðanir passa ekki inn í það sem 99% fundargesta telja vera hina réttu skoðun.

þannig að fundur þessi er varla opinn og lýðræðislegur. Af því að þó fundarmenn komist að þvi með handuppréttingu að þessi maður og hans skoðanir séu ekki velkomnar þá getur það varla verið lýðræðinu hollt að halda bara einni skoðun á lofti.

Lokaður borgarafundur skoðanabræðra er heppilegra nafn á svona samkomum. Ekkert er að því að menn haldi slíka fundi en verra að menn skreyti sig með lýðræðishjali eftir uppákomuna.

Opnar samkomur eins og til dæmis þingfundir kæmust ekki upp með svona fundarstjórn. það er vegna þess að þingið er lýðræðisleg stofnun. Þar sem hver hefur fullan rétt á skoðun sinni og frelsið til þess að koma henni á framfæri óskert á allan hátt.

En fundarstjórar á borgarafundinum lokaða þurfa ekki á lýðræðislegri kappræðu að halda. Þar ræður eitt sjónarmið og ein aðferð til tjáningar. Óvinurinn eru þeir borgarar sem ekki eru með þetta á hreinu. Efinn er óþarfur.

það er lýðræðislegur réttur manna að hafa skoðanir og mótmæla. En þeir menn sem telja sig sjálfskipaða riddara lýðræðis verða að hafa skilninginn á bak við það á hreinu. það virðist eitthvað hafa skolast til þarna.

Þarna var samankominn hópur fólks sem tók lýðræðislega ákvörðun um að vera ólýðræðislegur félagsskapur.

Það er handónýtt.

Röggi.

þriðjudagur, 2. desember 2008

Vá fyrir fjölmiðladyrunum.

Nú er þetta að vera smart. Hundtryggur lögmaðurinn Hreinn Loftsson er nú kannski að eignast skuldir Moggans og þar með eignir. Þá er þetta þægilegt. Fjölmiðlar eru þá á tveimur höndum hér. Því hlýtur að vera fagnað allt frá Bessastöðum til höfuðstöðva Baugs.

Í því þjóðfélagi sem við byggjum erum fjölmiðlar eiginlega ekki fjórða valdið. Miklu nær að kalla þá þriðja ef ekki hreinlega annað valdið enda spörum við okkur valdastigana hér með því að hafa engin skil á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Sumir segja svo að framkvæmdavaldið ráði yfir dómstólum! Þá eru stigin enn færri.

Hér þurfum við að skera upp eða öllu heldur að hverfa til þess sem stjórnarskráin segir um þrískiptingu valds. Og gera svo aðra tilraun til að koma lögum um eignarhald á fjölmiðlum í gegnum Bessastaði.

Sjá ekki allir að þetta er orðið hlægilegt? Og þó varla því málið er alvarlegt. Ekkert þjóðfélag getur sætt sig við svona fjölmiðla umhverfi. Mogginn hefur reyndar staðið sig vel undir núverandi ritstjóra en ég get ekki séð að ef Hreinn Loftsson kaupir hann fyrir vin sinn Jón Ásgeir að Ólafur verði langlífur í sínu starfi.

Til þess er Ólafur of mikill fagmaður og virðist ekki láta múlbinda sig við eigendur eins og alsiða virðist hér.

Þetta má ekki ganga eftir.

Röggi.

Reiðin á rúv.

Nú berast fréttir af uppsögnum nánast daglega. Kreppan verður varla meiri hjá einstaklingum en þegar uppsagnarbréfið berst. Sultarólin herðist og fáir finna ekki fyrir því. þannig er ástandið.

Fólki hefur verið sagt upp hjá 365 eða hvað það fyrirtæki heitir í dag, eða ætti ég kannski að segja , hét í gær svo ört er skipt um kennitölu þar. Skjár 1 er í dauðateygjunum og allir þar hafa fengið bréfið. Mogginn berst fyrir lífi sínu og mikil óvissa hjá þeim sem þar vinna.

Allt er þetta dapurt mjög en það er ekki fyrr en gamla ríkisfyrirtækið rúv þarf að reka sig á sömu forsendum og önnur fyrirtæki að allt fer á annan endann. Rúv er eins og önnur fyrirtæki í eigu ríkisins. Starfsfólkið telur sig eiga fyrirtækið. Þegar þeir sem bara ábyrgð á rekstrinum þurfa að gera breytingar á rekstrinum þá verður starfsfólkið reitt og vill beita neitunarvaldi.

Þetta sáum við þegar fréttamenn rúv komu í veg fyrir ráðningu fréttastjóra á sínum tíma. Þetta sjáum við í menntakerfinu okkar og heilbrigðis líka. Þessar greinar virðast hreinlega í eigu starfsfólksins. Engu má breyta sama hvað tautar og raular. Þetta er veikleiki opinbers reksturs.

Vissulega er sorglegt að rúv geti ekki haldið áfram að sólunda opinberu fé og reka sig með bullandi tapi ár eftir ár þrátt fyrir ríflegan heimamund frá skattgreiðendum. Starfsfólkið vill kannski að það haldi bara áfram?

Söngurinn er alltaf sá sami. Rifist yfir launakjörum forstjórans og bent á að sumir fái meira útborgað en aðrir. þannig mun það alltaf verða og þannig á það jafnvel að vera. Og ég spyr, hvernig getur það verið öðruvísi? Er starfsfólk stöðvar 2 að skammast yfir því að Logi Bergmann er betur launaður en margir aðrir þar inni?

Fjölmiðlar eru uppfullir af sögum að öðru fjölmiðlafólki sem nú er brjálað yfir þvi að það vinnur hjá fyrirtæki sem þarf að lúta eðlilegum lögmálum í rekstri. Ekki man ég til þess að aðrar starfsstéttir láti eins og þetta fólk gerir. Allavega hefur það ekki jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum...

það er persónulegur harmur að fólk missi vinnu sína, enginn vafi. En fyrir mig eru það gleðitíðindi að nú eigi að fara að reka þetta apparat að einhverju leiti eins og önnur fyrirtæki. Reksturinn gengur ekki upp og þvi er skorið niður.

Eins og eðlilegt er í öllum rekstri. Nema hjá ríkisstarfsmönnum. þeir eru stundum eins og heilagar kýr. Hvenær sjáum við svona viðbrögð í einkarekstri sem hefur þó mátt þola ofbeldi og yfirgang þesarar stofnunar mjög lengi á auglýsingamarkaði?

Niðurskurður er óhjákvæmilegur. Dugar kannski að lækka laun forstjórans?? Reyndar væri nær að láta hann hreinlega fara svo hraustlega hefur þessi stofnun farið illa með fé undir hans stjórn.

Nú verður að draga úr kostnaði. Engin önnur leið er fær núna. Enda hef ég ekki seð neitt uppbyggilegt í málfutningi starfsfólksins um það hvernig á að mæta þessu tapi. Bara reiði.

Hún er að einhverju leiti skiljanleg en ekki er mikill sparnaður í henni.

Röggi.