föstudagur, 29. febrúar 2008

Sprunginn meirihluti.

Bíð spenntur eftir beinni útsendingu frá aukafundi sveitastjórnar Þingeyjarsveitar. Hef heyrt að ungliðahreyfingar sumra flokka hvetji fólk til að fjölmenna á fundinn til að stunda borgaralega óhlýðni og andæfa. Enda full ástæða til.

Þar er meirihlutinn fallinn af því að einn fulltrúinn skipti um lið. Slík óhæfa er að sjálfsögðu ekkert annað en svik jafnvel þó fulltrúinn haldi því fram að þetta geri hann af prinsippástæðum.

Tómt vesen á þessum prinsippmönnum alltaf.

Röggi.

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Viðskiptasiðferði Lúðvíks bæjarstjóra.

Hann er stundum skrýtinn bæjarstjórinn minn hér í hafnarfirði hann Lúðvík Geirsson. Hann seldi OR hlut hafnarfjarðar í hitaveitu suðurnesja. Ljómandi gott mál þannig séð.

En þá fer samkeppnistofnun að hafa skoðun á málinu. Gæti gerst að gjörningurinn dæmist ólöglegur. Það eru klárlega viss leiðindi og vesen. En Lúðvík tekur ekkert mark á svoleiðis.

Heyrði hann segja í útvarpinu í kvöld að hann væri með samning hvað sem tautaði og raulaði og þar væri ekki stafkrókur um samkeppnistofnun. Þetta væri því alfarið mál kaupandans!

Skil ekki þessa afstöðu Lúðvíks en þá ryfjast upp fyrir mér að þarna fer maðurinn sem seldi fyrirtæki lóð undir álver en taldi sig svo alls ekki bundinn af því að leyfa þeim að byggja álver.

Hann heldur í stílinn.

Röggi.

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Þursinn Þórður.

Get alls ekki útskýrt með afgerandi hætti hvers vegna ég fór ekki að sjá og heyra þursana í höllinni. Upptekinn eða annars hugar kannski heppilegar skýringar en samt léttvægar. Ekki síst í ljósi þess að þursar eru og voru mitt uppáhald.

Allir þekkja snilld Egils en upp hafa vaxið margar kynslóðir sem ekki hafa hugmynd um að í þursunum er einn besti gítarleikari sögunnar. Þórður Árnason er snillingur, þannig er það bara. Það hefur verið ferlegt hvernig búið er að vannýta hæfileika hans árum saman í bandinu hans Kobba.

Þar hefur hann vikið fyrir mis misheppnuðum hljóðgerfla sólóum, oftast frá stjóranum. Les það nú í umsögnum um tónleikana að Þórður hefur engu gleymt.

Mæti næst.

Röggi.

mánudagur, 25. febrúar 2008

Heimsóknartímar.

Nú er ég að hugsa um heimsóknartíma sem enn eru við lýði á sjúkrahúsum hér. Hef því miður persónulega reynslu af þessum málum því fársjúkur faðir minn hefur undanfarið verið á gjörgæsludeild þar sem umönnun er frábær og stöðug en fer nú á almenna deild þar sem ummönun er auðvitað frábær líka en ekki stöðug.



Á gjörgæsludeild háttar þannig til að heimsóknir eru frjálsar og óhætt að segja að það er eins og ég vill hafa það. Á almennum deildum er ætlast til þess að tveir tímar á dag nægi. Það skil ég engan veginn. Hver er tilgangurinn með því að meina ættingjum að heimsækja sjúka?



Er auðvitað ekki að tala um fólk sé æðandi um með háreysti og kannski með börn með sér. En á deildum sem sannarlega eru undirmannaðar og í tilfellum þar sem sjúklingar þurfa svo sannarlega mikið eftirlit þá bara skil ég ekki neitt í svona systemi.



Geri mér fulla grein fyrir því að hjúkrun er ekki á færi hvers sem er enda er ég alls ekki að tala um að aðstandendur komi í stað hjúkrunarfólks. Hins vegar er enginn vafi í mínum huga að þeir geta verið til góðs og ég sé reyndar ekki hvernig það gæti verið öðruvísi.



Það hlýtur að verða að vera einhver sveigjanleiki í þessu. Ég áskil mér fullan rétt til þess að reyna að fara á svig við stífustu reglur í þessu sambandi. Það er minn réttur. Og pabba líka.

Röggi.

...væðing eða rekstur.

Sá því miður ekki mikið af silfrinu hans Egils í dag. Sá þó nokkrar mínútur sem Guðfríður Lilja spanderaði í að rugla saman einkavæðingu og einkarekstri. VG er á móti á öllu sem byrjar á einka og að ég tali nú ekki ef frelsi er nefnt líka. Að þeirra mati hefur ríkisumsjá með sem flestu sannað sig svo vel. Hvar veit ég ekki.

Einkavæðing og einkarekstur er ekki það sama. Er nokkuð viss um stærsti hluti þjóðarinnar sér þar engan mun. Þann misskilning þarf að leiðrétta því einkarekstur hefur fyrir löngu sannað sig og er í dag stundaður bæði í mennta og heilbrigðiskerfi með miklum ágætum.

Björgvin G virðist vera búinn að átta sig a þessu og ræðir þessa hluti kinnroðalaust í tíma og ótíma. Heyrði í honum í útvarpi nú í vikunni og betur hefði enginn hægri maður getað útlistað kosti einkareksturs en hann gerði þar.

Af hverju vefst þetta fyrir VG?

Röggi.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Minni hagsmunir fyrir stærri.

Hvað ætli hafi orðið til þess að mínir menn í borginni kláruðu ekki að ganga frá sínum málum? kannski að skoðanakönnunin sem sýndi að flokkurinn hefur ekki tapað fylgi hafi gersamlega ruglað menn í ríminu.

þetta er að mínu mati kattarþottur og ég velti því fyrir mér fyrir hvern þetta er gert. Eru hagsmunir Villa einu hagsmunirnir sem skipta máli? Get með engu móti skilið að maðurinn geti verið oddviti fyrir hóp sem ekki vill gera hann að borgarstjóra.

Ekki er hægt að þröngva leiðtogum upp á fólk? Þeir verða ekki handvaldir. Hver trúir því að eindrægni og samhugur riki innan hópsins eins og látið er líta úr fyrir núna? Hef margoft sagt að ég skil ekki af hverju þarf sífellt að láta líta út fyrir að allt sé í góðu þegar allir sjá að svo er ekki. Hagsmunir heildarinnar vikja fyrir einstaklingsins. Þetta á reyndar við um alla flokka en fer eingöngu í taugarnar á mér þegar minn flokkur stundar þetta.

Það að tapa trausti er algerlega vonlaust fyrir fólk sem hefur atvinnu af því að vera stjórnmálamenn. Þá skiptir engu hvort menn eru góðir menn eða ekki góðir menn.

Öll eðlileg og siðferðileg rök hníga að því að menn sem tapa trausti með jafn afgerandi hætti og Villi verði ekki í forsvari fyrir flokkinn í borginni. Ég hlýt að álykta sem svo úr því að meirihluti borgarstjórnarflokksins getur ekki komið Villa úr forystusveitinni að þá hljóti önnur öfl að halda verndarhendi yfir honum.

Þau öfl ætla að fórna minni hagsmunum fyrir stærri.

Röggi.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Utan vallar.

Þjálfaramál HSÍ voru rædd af hita í þættinum utan vallar á sýn í kvöld. Fulltrúi HSÍ forn í skapi og hafði flest á hornum sér. Sló blaðamann moggans svo hressilega út af laginu að hann snarmóðgaðist og dró sig nánast í hlé. Þarna var líka nýdæmdur orðdólgur sem þjálfar stjörnuna í kvennahandbolta. Hann hélt upp heiðri sínum og kom sér upp þrasi. Kostulegt allt saman.

Málefnaleg umræða lögð til hliðar og engu líkara en menn hafi haldið að þeir væru á kaffistofu HSÍ en ekki í beinni. Slæm auglýsing fyrir handboltann.

Röggi.

Slæmu dagarnir hans Össurar.

Ég hef margsagt það að félagi Össur er einn skemmtilegasti penni landsins. Orðaforðinn frábær. Hann veit þetta auðvitað enda óvenju meðvitaður um sjálfan sig. Og aðra.

Skrif hans um Gísla Martein í gær gera ekkert fyrir orðspor hans. þar skrifar hann um pólitískan andstæðing með sérlega klaufalegum hroka í misheppnaðri tilraun til fyndni. Gísli Marteinn er ekki í öfundsverðri stöðu pólitískt þessa dagana, nánast andvana.

það er stundum sagt um þá sem stunda íþróttir að þeir sem njóti mestrar virðingar séu þeir sem kunna að sigra. Þetta er ekki hægt að kenna fólki. Annað hvort er þetta í lagi eða ekki. Félagi Össur ræðst hér ekki beinlínis á garðinn hæstann og af virðingu.

Sumir gamlir kreddukommar hafa ákveðið að halda að þetta mál snúist um hægri vinstri pólitík. Að þetta snúist um stundargleði yfir því að hafa komið höggi á andstæðing. Verið sniðugur á kostnað annarra. Það finnst mér barnalegt og skammtíma.

Sumum finnst skipta meginmáli að efnislega sé Össur að segja satt. Og þá er allt heimilt. Menn þurfa að vera staurblindir til þess að sjá ekki að fólk í samstarfi getur átt erfitt með að þola svona skrif. Þú einfaldlega vinnur helst ekki með mönnum sem umgangast félaga þína af slíku virðingarleysi, jafnvel þó þeir liggi vel við höggi og reyndar enn síður.

Ekkert af þessu skiptir þó meginmáli. Það sem snýr að félaga Össur er að langtímaáhrifin af svona löguðu verða honum til trafala. Hann verður aldrei alvöru. Ingibjörg Sólrún hefur fundið leiðina til virðingar. Þar er stilling og virðing og ró lykillinn. Yfirvegun en ekki galsaskapur.

Enginn frýr honum vits og allra manna skemmtilegastur getur hann verið. Póltískt gildi manna er bara ekki mælt af góðu dögunum.

Þar eru slæmu dagarnir allt. Dagurinn í gær var einn af þeim.

Röggi.

Búinn að finna þjálfarann.

Ekki ætlar að ganga þrautalaust að finna þjálfara landsliðsins í bakhrindingum. Aðferðafræði HSÍ er líklega ekki að hjálpa þeim. Betra hefði verið að ræða við allan hópinn í stað þess að fá nei. Þá hefðu nei in komið frá vinnuveitanadanum sem er sterkara.

HSÍ er með fínan mann á launum sem gæti tekið við þessu. Þá þyrfti að vísu að stórmóðga konur því Júlíus Jónasson þjálfari kvennalandsliðsins færi létt með þetta. Hann hefur sannað sig ítrekað þrátt fyrir hrakspár og svo er einn meginkostur við hann. Hann hefur haft sama aðstoðarmanninn lengi og þeir virðast bæta hvorn annan fullkomlega upp.

Kristján Halldórsson tekur svo við dömunum útlærður í norskum kvennabolta. Málið er leyst.

Af hverju var ég ekki spurður?

Röggi.

Póker.

Þuríður Bachmann þingmaður VG var í útvarpinu í morgun. Tilefnið var þátttaka Birkis Jóns þingmanns í pókerspili. Þuríður er eins og of margir þingmenn illa haldin af forsjárhyggju. Verri einkunn fá þingmenn varla hjá mér.

Hræsnin í því að banna póker en leyfa allskonar fjárhættuspil önnur er furðuleg. Hvernig henni tekst að gera uppá milli atriða í þessu er merkilegt. Staðreyndin er sú að hér er spilað uppá peninga daglega án afskipta löggjafans.

Gjarnan er talað um spilafíkn þegar kemur að póker en ekki öðrum spilum. Póker er stundaður hér í bakherbergjum hingað og þangað eins og um ótínda glæpamenn sé að ræða. Væntanlega mæta spilafíklar ekki þangað af þvi að þuríður og félagar segja spilið ólöglegt.

Þvílík firra. Við sjáum þetta á fleiri sviðum því stór hluti þingsins telur að með því einu að banna hluti sem þegnarnir vilja gera þá hverfi þeir og séu ekki stundaðir. Hausnum stungið í sandinn. Málum sópað undir teppi og allir sáttir.

Best er að hafa hlutina upp á borði svo hægt sé að hafa eftirlit með þeim. Þetta sama fólk hélt því líka fram að þegar við fengjum að kaupa bjór fyrir opnum tjöldum í stað þess að smygla honum eða brugga að þá færum við öll á örlagafyllerí.

Þrýstum ekki hlutum undir yfirborðið. Það sem þar gerist er án eftirlits og hver græðir á því? Enginn þingmaður mun geta komið í veg fyrir að fullorðið fólk hittist og spili póker. Þess vegna er þetta bann ólög og vandséð hvaða hagsmunum það þjónar.

Röggi.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Kjarkaður Einar.

Hann er ekki alveg kjarklaus hann Einar K Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Ætlar greinilega að leggja það í vana sinn að fara að ráðum fræðinga um fiskiveiðar. Maðurinn er að vestan og þar hata allir hafró og kvótann. Og nú stoppar hann loðnuveiðar að ráðgjöf fræðimanna.

Þeir sem sækja sjóinn trúa að jafnaði ekki neinu sem fræðimenn segja um stofnstærðir. Útgerðarmenn stundum líka. Mér finnst þetta svona eins og að trúa á stokka og steina. Vill ekki gera lítið úr kunnáttu þeirra sem stunda veiðar en er ekki best að veðja á vísindin?

Hvað annað er í boði? Veðurfræði er ekki heldur skotheld vísindi en við höfum fátt betra þó veðurklúbburinn á Húsavík sé vissulega skemmtilegt fyrirbrigði. Við höfum ekkert val. Eða hvað?

Held að sjómenn hafi mótmælt öllum skerðingum á veiðum frá landnámi og alveg eðlilega. Þeir eru vanhæfir í málinu af augljósum ástæðum. Hafró ekki. Við heyrðum sömu röksemdir þegar síldin var kláruð og við heyrum í dag þegar menn vilja veiða meira en fræðimenn leggja til. Sjórinn er fullur af fiski.

Tek ofan fyrir Einari þó mér finnist niðurstaðan afleit. Það er þó hvorki honum né fræðimönnum okkar að kenna.

Röggi.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Tvöþúsund og eitthvað.

2, eitthvað milljarðar. Við erum að verða ónæm fyrir orðinu, milljarður. Þetta þótti stór tala fyrir nokkrum árum áður en stórstjörnur viðskiptalífsins riðu hér húsum. Nú er þetta orð á allra vörum bara. Hversdagsleg tala.

Jón Ásgeir er formaður stjórnar fl group og hann skilur ekki bofs í þessari tölu. Lætur eins og hún komi honum í opna skjöldu og hann hafi bara ekki áttað sig á hvað Hannes væri að gera þegar hann þurfti þessa upphæð í annan kostnað óútskýrðann. Hver trúir svona þvaðri? Hann er bara hvítþveginn. Eins og oft áður.

Ég var að fatta að þetta eru tvö þúsund og eitthvað milljónir. 2 000 og eitthvað. Pæliði í því...

Röggi.

Tvíburapælingar.

Lengi lifir í gömlum glæðum. Marghættir tvíburarnir ætla að slá til enn eitt árið og spila fyrir FH. Get skilið þá að vilja finna sér eitthvern hobbý fótbolta og FH liðið spilar skemmtibolta að jafnaði.

Skil minna hvað Heimir þjálfari ætlar sér með drengina. Hef reyndar tröllatrú á Heimi. Mér heyrist þeir æfa heldur takmarkað ef fyrirkomulagið verður eins og undanfarin ár. Meiðsli eru þeirra millinöfn og fjarvistir vegna vinnu þekktar.

Hæfileikar þeirra eru líka alþekktir. Frábærir á sínum tíma og nú orðið alltaf af og til. Ég efast um að þetta verði nógu gott fyrir móralinn í liðinu. Hlýtur að vera svolítið sérstakt að þurfa að sitja á bekknum fyrir menn sem eru á sérsamningi sem felur í sér afslátt á undirbúningstímabili og fleiru.

Held þetta raski jafnvægi liðsins þegar líður á tímbilið. Þeir eru ýmist inni eða úti og von á þeim eða ekki. Vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér því þessir tappar eru á eðlilegum degi hreinir gleðigjafar á velli.

Áfram Valur.

Röggi.

Ráðgjöf Jóns Ásgeirs.

Þá er Jón Ásgeir orðinn hagfræðingur og tekur að sér efnahagsráðgjöf handa þjóðinni. Byrjaði kannski ekki nógu vel því hann reyndi af öllum mætti að tala niður virði bankanna, gleymdi líklega að hann á eitt stykki sjálfur. Enda sendi hann fljótlega frá sér leiðréttingu sem mér sýndist hafa verið samin af sama ráðgjafanum og hefur samið skýringar fyrir gamla góða Villa. Misskilningur og rangtúlkanir allt saman.

Menn eins og Jón Ásgeir hugsa sjaldnast um neitt annað en eigin hag. Allt hróa hattar bull um hann og hans fólk er út í hött. Nú virðist honum að það gæti hentað honum að við smelltum okkur bara í evrópusambandið. Bara rétt sísona. Þá myndi allt lagast.

þetta sér hann eftir 6-8 mánaða erfiðleika í sínum rekstri. Nú má vel vera að loka niðurstaða hans sé rétt. En ég hef tilhneigingu til þess að efast samt því hann talar oftast bara fyrir sínum eigin hagsmunum og þeir eru eins og stundum áður skammtíma og breytilegir. Fagfjárfestar eins og hann sem hafa gert það að lífsstarfi að stunda skuldsettar yfirtökur eru ekki endilega bestu rágjafar sem völ er á.

Þessir gaurar eru búnir með fulltingi bankanna að koma sér og hugsanlega okkur öllum í erfiða stöðu. Þar réðu eingöngu gróðasjónarmið þeirra til styttri tíma í bland við sérkennilega spilafíkn held ég bara.

Fylgist spenntur með næstu spá Jóns Ásgeirs. Hlutirnir breytast hratt hjá svona aðilum og kannski verður eitthvað allt annað næst. Allt eftir því hvernig staðan er á eignasafninu skuldsetta.

Röggi.

Kjarasamningar og kennarar.

Þeir þykja tímamóta samningar samningarnir sem voru undirritaðir nú um helgina. Þar eru aðilar að reyna að auðsýna vilja til þess að þeir sem minnsta hafa fái mest. Þykir mörgum kominn tími til.

Ekki er blekið þornað þegar forystumenn þeirra sem eiga ósamið fljótlega lýsa því yfir að þetta sé nú aldeilis ekki það sem þeir munu sætta sig við. Og hringavitleysan hefur þá bara sinn gang áfram. Ekkert vinnst.

Kennarar fúlir með sín kjör og heimta hærri laun. Þennan söng höfum við heyrt frá Eiríki Jónssyni mjög reglulega. Lág laun og atgervisflótti. Besta fólkið flýr í betur launuð störf. Varla getur það verið góð einkunn fyrir hans vinnu í kjaramálum stéttarinnar um langt árabil.

Hann er fastur í eldgömlum tíma hann Eiríkur. Og ekki bara hann því vandi þeirra sem vinna hjá hinu opinbera er víða sá sami. Launin ættu vissulega að vera hærri en það er meðalmennskan sem er vandamálið. Allt kapp er lagt á það að allir séu með sömu launi hvort sem þau eru lág eða ekki.

Frumkvæði og metnaður er ekki verðlaunuð nema síður sé. Það er líka af þessum ástæðum sem besta fólkið gefst upp. Gömul og liðónýt hugsun um að allir skulu vera jafnir. Þannig umhverfi hefur aldrei laðað það besta fram í fólki. Launataxtinn er eitt en alveg hlýtur að vera óþolandi að stunda vinnu með fólki sem ekki stundar metnaðafullt starf en fær samt sömu umbun og besti starfsmaðurinn.

Ég sem skattborgari og foreldri legg til að við sem eigum menntakerfið tökum það úr höndunum á þessu fólki og endurskipuleggjum það. Gerum starfið eftirsóknarvert og hvetjandi. Menntakerfið er í svipuðum sporum og heilbrgiðis. Enginn er fullsáttur.

Ég vil betri og sáttari kennara með mikinn metnað á betri launum en í dag. Ég vill að kennarar eigi möguleika á að bæta kjör sín með eigin frammistöðu. Gamla hugsunin um að það skemmi móral og eyðileggi vinnustaðinn ef einhver ber meira úr býtum en aðrir er hlægileg að mínu mati og hentar ekki hagsmunum mínum.

Hættum að mylja undir meðalmennskuna og snúum vörn í sókn. Hættum að líta niður á kennarastarfið eins og margir gera í dag. Stór hluti þjóðarinnar skilur ekki bofs í kjörum kennara. Löng frí á sumrum. páskum og jólum. Tómir skólar uppúr 2 á daginn en samt komast kennarar ekki yfir vinnuna sína. Það getur ekki gengið.

Kennarar verða að komast yfir vinnu sína. Dugi dagvinnan ekki til þess þá borgist meira. Þannig vinna aðrar stéttir. Ég tel að Eiríkur Jónsson og félagar tali kennarastarfið niður í hvert einasta skipti sem þeir tjá sig. Neikvæðni í stað frumkvæðis. Engu má breyta nema launum. Og þau skulu vera þannig að allir séu á jafn lélegum launum.

það hentar ekki mínum hagsmunum. Og ég er einn af eigendum menntakerfisins.

Röggi.

föstudagur, 15. febrúar 2008

Hvað veit ég um hagfræði?

Nú er ég ekki hagfræðimenntaður og ekki er ég heldur seðlabankastjóri. Rek ekki banka né aðrar fjármálastofnanir. Er bara venjulegur Jón sem reiðir sig á að góðir menn og vandaðir taki skynsamlegar ákvarðanir um sameiginlegan rekstur okkar þjóðfélags.

Ég er auðvitað fyrir löngu búinn að átta mig á sérfræðikunnátta er stórlega ofmetin. Lögfræði er ekki endilega lögfræði. Álit lögmannsins fer eftir því hver borgar honum launin. Sami lögmaður fer svo létt með að hafa öndverða skoðun á sama álitamáli fyrir einhvern þann sem borgar honum fyrir það líka.

Við höfum hér seðlabanka. Þar vinna menn og konur sem ég hélt að hefðu engra hagsmuna að gæta nema faglegra. Fólk sem engum er háð og getur því tekið ákvarðanir án þrýstings manna sem hafa ákveðinna hagsmuna að gæta. Hagfræðingar bankans vinna eftir löggjöf sem virðist fremur skýr. En þá kemur að því að hagfræði er ekki endilega hagfræði.

Núna er staðan sú að hagfræðingar bankans virðast algerlega á öndverðum meiði við flesta aðra samskonar fræðinga sem ekki vinna hjá bankanum. Bókstaflega ekki hægt að finna nokkurn mann sem ekki telur að hér þurfi að lækka stýrivexti. Helst í fyrra.

Í hverju liggur munrinn? Eru sérfæðingar seðlabanka svona tregir eða eru þeir kannski landráðamenn sem vilja keyra atvinnulíf og heimili á heljarþröm? Það er helst að skilja.

Getur verið að þeir gætu haft á réttu að standa? Er hugsanlegt að það sé bara öndvegis fyrir okkar þjóðfélag til lengri tíma litið að lækka ekki stýrivexti strax?

Eru bankarnir okkar kannski bara alltof hátt metnir? Annað hvort í hæstu hæðum eða frosnir. Áhættu fíknir með afbrigðum. Er víst að það þjóni langtíma hagsmunum okkar að halda áfram að keyra á þeim hraða sem hér hefur verið?

Við þolum alls ekki að hægja ferðina. Viljum bara halda áfram að taka okkar neyslulán og byggja of dýrt yfir höfuðið á okkur. Og kaupa svo dýrasta flatskjáinn í búðinni fyrir auka yfirdrátt.

Eins og ég sagði þá er ég ekki sérfræðingur. En ég hef tilhneigingu til þess að trúa frekar þeim sem engra hagsmuna hafa að gæta en hinna. Nú kreppir að hjá bönkunum. Heildsölupeningarnir eru orðnir dýrari og það er verra, eðlilega.

En var það ekki tilgangurinn? Hefðu bankarnir hugsanlega átt að bregðast fyrr við stýrivaxtahækkunum seðlabankans? Þeir eru soldið eins og þjóðin sjálf. Vita af því að nú fer skóinn að kreppa að, en þetta fer einhvern veginn.

Tökum bara á vandanum þegar hann er kominn blessaður.

Röggi.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Mergurinn málsins .

Nú fer að koma að því að fólk snúist í að finna til með Villa í stað þess að fordæma hann. það er að mörgu leyti skiljanlegt. Maðurinn hefur verið mjög lengi farsæll í sínum störfum og er þess utan viðkunnanlegur. Eins og ég sé málið þá er hann heiðarlegur og góður kall. Heiðarlegur en óhæfur.

Davíð og félagar vissu sem var að hann réði ekki við að leiða starfið í borginni og fóru því í þrigang út fyrir borgarstjórnarflokkinn eftir leiðtogum. Þeir vissu það sem við vitum núna. það vantar eitthvað uppá.

Góður vinur minn benti mér á að ég væri genginn í lið með andstæðingum flokksins og réðist nánast á liggjandi mann í stað þess að standa keikur með honum í gegnum skaflinn. Ég er á því að andstæðingar flokksins ættu alls ekki að leggja til að hann fari en við sem teljum okkur vera sjálfstæðismenn þurfum að bregðast við.

Ekki af skepnuskap. Alls ekki heldur vegna þess að hópurinn sem stjórnar borginni virðist vera að molna innan frá. Á meðan forysta flokksins heykist á því að taka afgerandi á málinu. Sá stuðningur við Villa sem formaður flokksins hefur verið að myndast við að lýsa er verri en enginn.

Mér finnst það lýsandi dæmi um ástandið að einhverjum geti dottið í hug að kjósa um eftirmann ef Villi fer frá. Enginn ætlar að treysta sér til þess að taka af skarið vegna þess að þá þarf að velja milli margra sem vilja heiðurinn. Látum börnin bara bítast um brauðið.

Það gengur ekki. Hægfara forysta flokksins verður nú að spretta úr spori. Engin ástæða er til þess að hengja Villa á torgum úti. Öðru nær enda spái ég því að hann hverfi fljótlega úr borgarstjórn með eins mikilli reisn og unnt er úr þessu. það á hann inni þrátt fyrir klaufaskapinn undanfarið.

Stjórnmál eiga að snúast um traust öðru fremur. Og þegar hópurinn sem þú átt að leiða treystir þér ekki lengur þá er ekkert eftir. Það er mergurinn málsins.

Röggi.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Fúll.

Segi ekki margt en segi þó þetta. Stundum er slagurinn tapaður og miklivægt að reyna að lágmarka skaðann. Nú má ekki staldra við aukaatriðin.

Stjórnmálamaður sem þarf að eyða megninu af sinni starfsorku í að verja stöðu sína og heiður á að vikja. Mér er nokk sama hvort formaður flokks getur ekki tæknilega séð vikið manni úr stólum.

Geir á, ef hann ætlar ekki að verða rola ársins, hreinlega að ganga þannig frá máli Villa að hann fari úr borgarstjórn. Sjálfstæðismenn sjálfir af öllum stærðum og gerðum krefjast þess.

Allt þetta bannsetta yfirklór mannsins er móðgun við vitsmuni mína. Ég nenni ekki lengur að hlusta á skýringar og tuð þegar öllum er ljóst að góður maður reynist einn daginn misheppnaður pólitíkus.

Varla er langvarandi pólitísk heilsa sjálfstæðisflokksins minna virði en einn maður. Kýs að líta svo á að nú sé einungis verið að leita að heppilegu augnabliki fyrir Villa til að stíga níður.

Ekki þýðir að bjóða mér neitt minna en það.

Röggi.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Hvað kostar eitt stykki forseti?

Ég hef ekki humynd um hvað eitt stykki forseti í bandaríkjunum kostar. Sé það á fréttum að duglega þarf að safnast af peningum daglega til að halda út forkosningaslaginn. Hvaðan koma þeir?

Eru samkskotabaukarnir svona öflugir. Eru einhverjar líkur á því einn daginn að forseti bandaríkjanna verði algerlega frjáls og óháður. Eru þessir aðilar ekki meira og minna í vasanum á einhverjum auðmanninum eða mönnum? Í þessu tilliti sé ég ekki reginmun á flokkunum.

Stefnir ekki í þetta hjá okkur líka?

Röggi.

Að rísa undir kröfum.

Traust og ótvíræður trúnaður. Stjórnmálamenn þurfa að vera mörgum kostum búnir en um þetta tvennt verður ekki samið. Ég geri þá kröfu að minn flokkur fari fyrir því að vera trúverðugur. Veit vel að ekki verður allt eins og ég helst vildi hafa það en um sumt sem ég ekki.

Ekki þarf að koma á óvart að andstæðingar sjálfstæðisflokksins hamist á Villa. Það sem er að gerast núna er að hinn almenni sjálfstæðismaður er búinn að fá nóg. Kjósandinn á götunni. Þá er fokið í flest.

Ástandið minnir um margt á það þegar Árni Johnsen bullaði sig frá einu viðtali til annars. Ég fæ kjánahroll þegar blessaður kallinn reynir að kjafta sig út úr vandræðunum.

Í raun skiptir engu máli úr þessu hve mikil sök Villa er. Hann er gersamlega rúinn trausti innan flokks sem utan. Eftir hverju er þá að bíða?Ég treysti því algerlega að á þessari stundu sé forysta flokksins að leita að útgönguleið fyrir hann þar sem hann getur haldið haus að svo miklu leyti sem það er hægt.

Ég hef aldrei skilið þessu tregðu flokkanna til þess að taka á því þegar menn ekki rísa undir trausti. Nánast sjálfvirkt taka menn þrjóskulega afstöðu og bakka upp hvaða bull sem er og gildir þá einu þó öll þjóðin sjái í gengum það.

Þetta gildir um alla flokka og við sjálfstæðismenn höfum ekki farið varhluta af þessu. Þess vegna eru Íslensk stjórnmál svona aftarlega á merinni þegar kemur að siðferði. Komandi kynslóðir munu leggja miklu meira upp úr siðferði en þær sem gengnar eru.

Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða með að sýna nú gott fordæmi. Ábyrgð okkar sjálfstæðismanna er meiri en annarra því við höfum setið lengur en allir aðrir að stjórn landsins og því gerðar til okkar ríkar kröfur, eðlilega.

Undir þeim vill ég að við rísum.

Röggi.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Meirihlutar.

Alveg væri það með ólíkindum taktlaust í þeirri stöðu sem nú er uppi ef vinstri grænum gæti dottið í hug að fara í glænýjan meirihluta með sjálfstæðismönnum.

Hlýtur að vera freistandi að láta sjálfstæðismenn engjast í snörunni og fara alvarlega laskaðir í næstu kosningar.

En ekki má vanmeta ylinn sem stólarnir veita. Sérstaklega hjá þeim sem fengu ekki nema rúma 100 daga...

Röggi.

Landkönnuðir kýtast.

Kostuleg deila sem spjátrungarnir og landkönnuðurnir Ármann vinijettu höfundur og Sigurður A Magnússon standa í núna. Fréttablaðið gerir sér mat úr þessu í gær. Deilan snýst um það í grunninn hvor er meira aðal en hinn.

Hver sé meira þekktur á Indlandi og hver hafi fyrstur numið þar land. Verulega fyndið að fylgjast með en þó svo átakanlega sorglegt. Þörfin fyrir athygli og viðurkenningu afgerandi.

Þetta er svona "pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn" pælingar.

Hlægilegt.

Röggi.

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Kúnninn borgar sektina.

Þá hefur hæstiréttur komist að því olíufélögunum beri að greiða skaðabætur vegna samráðs. 70 milljónir eða svo. Er það ekki bara gott myndu flestir segja. Ég veit það ekki.

Olíufélögin hafa áður greitt háar sektir vegna sama brots. Ég hef efasemdir um þá ákvörðun. Hvaða tilgangi þjónar það að leggja févíti á þessi fyrirtæki? Hvert halda menn að félögin sæki féð? Nú til viðskiptavina sinna auðvitað, hvert annað. Niðurstaðan er þá sú að kúnnarnir eru látnir borga fyrir svindl forstjóranna.

Virkar undarlega á mig. Hvaða réttlæti er í því að refsa kennitölunni og því fólki sem nú vinnur hjá olíufélögunum? Hefur þetta einhver fælingaráhrif. Kristinn Björnsson og félagar hafa án efa nákvæmlega engar áhyggjur af þessu.

Hér þarf að breyta löggjöfinni svo hægt sé að refsa þeim mönnum sem taka ákvarðanir um að hafa rangt við. Þá kannski hugsa menn sig um tvisvar. Mér vitanlega hafa þeir sem reka olíufélögin í dag ekki gert neitt af sér. Og ekki viðskiptavinir þeirra heldur.

Samt þurfum við að borga.

Röggi.

Græðgi og ónýtir stjórnmálamenn.

Flott frétt hjá Helga Sejan í kastljósi gærdagsins um REI ruglið. Var næstum búinn að skrifa skemmtileg uppryfjun en þetta er auðvitað ekki skemmtilegt. Sorglegt kemst nærri því.

Stjórnmálamenn gera skýrslu um sjálfa sig og komast að þeirri niðurstöðu að vondir kaupsýslumenn hafi í raun platað allt og alla. Enginn hafi gætt hagsmuna OR í málinu. Hagsmuna borgarbúa, skattgreiðendanna, kjósendanna.

Til þess að þessi tilgáta geti gengið upp þarf tvennt. Gráðuga og víðáttu óheiðarlega businessmenn. Og svo hitt. Handónýta stjórnmálamenn.

Í þessu tilfelli voru bæði þessi skilyrði uppfyllt rækilega.

Röggi.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Myndbirtingar.

DV hælir sér af því í dag að hafa gómað barnaníðing. Ekki fjarri lagi að myndbirting þeirra hafi hjálpað til, í þessu tilfelli. Og þess vegna eru myndbirting alltaf í lagi er það ekki?

Ég efast stórlega um það. Almennt er ég á móti því að ritstjórar nýti sér upplýsingar sem þeir kunna að hafa um glæpamenn með því að birta myndir af þeim í stað þess að koma upplýsingunum til yfirvalda. Besta leiðin til þess að stöðva slíka aðila er að yfirvöld grípi inní.

Þarf ekki að hugsa um þau skipti sem myndir birtast af fólki sem haft er fyrir rangri sök? það gerist og skaðinn af því oft óbætanlegur. Man eftir nafntoguðum manni sem var á forsíðu þessa blaðs sagður raðnauðgari og flennistór mynd og nafn blasti við hverjum sem er.

Í því tilfelli hafði nafnlaus aðili sakað viðkomandi um þetta á spjallsíðu. Það dugði ritstjóranum þá. Ég er líka á móti dauðarefsingum. Mannorðsmorð eru mér einnig á móti skapi. Dómstólar og lögregla eiga að sjá um að handtaka menn og dæma.

Ég veit að svona forsíður selja blöð. En þetta er vandmeðfarið í meira lagi og skaðinn of mikill þegar ritstjórinn hefur ekki réttar upplýsingar eða nægar. Hvort menn vilja svo birta myndir af dæmdum mönnum er svo önnur umræða.

Röggi.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Sjónvarp Árni Johnsen.

Árni Johnsen er frá mínum bæjardyrum séð bjáni. Í besta falli. Duglegur bjáni en siðblindur. Kann þó galdurinn við að koma sér í mjúkinn hjá fólki fyrir austan fjall og kemst þannig á þing, ítrekað. Sá kjósendahópur hefur séð okkur fyrir hverjum furðufuglinum á fætur öðrum. Nefni engin nöfn.

það er bara i einu sem mér finnst hann góður. Hann hefur skrifar margar fallegustu minningargreinar sem ég hef lesið. Skrifar mun betur en hann talar enda þá meira svigrúm til þess að hugsa áður en ýtt er á enter. Hann veit ekkert hvar enter takkinn er fyrir talandann.

Hann er varla fyrsti stjórnmálamaðurinn sem lætur alvitra fjölmiðlamenn og álitsgjafa fara í taugarnar á sér. Pólitísk hlutdrægni er hér landlæg í fjölmiðlum. Sumir sjá hana reyndar bara hjá mogganum sem er stórfurðulegt.

En hann er líklega fyrsti maðurinn sem þorir að hafa þessa fáránlegu afstöðu opinbera. Hugsunin allt að því barnaleg. Hreinlega út í hött. Rétthugsun og ritskoðun renna þarna saman í eitt. Held að hann fatti það ekki.

Hann er merkileg samsuða þessi maður. Verkamaður duglegur eins og allir vita. Ætti auðvitað ekki undir neinum kringumstæðum að vinna með hluti sem hann á ekki sjálfur því hann fer alltaf að líta á alla hluti sem hann vinnur með sem sína eigin. Þetta held ég að eigi við um skratti marga sem vinna lengi hjá ríkinu.

Hann er hörmungarlygari, við sáum það öll. Bara getur það ekki. það ætti að vera kostur þannig séð. Engin þörf á gæsluvarðhaldi þar. Þess vegna hefur hann tamið sér það, líklega að góða manna ráði, að tala sem minnst í þinginu. Hann tók þetta meira að segja miklu lengra því hann er nánast ekki þar. Þá er skaðinn minni.

Hann hefur þá eiginleika að jafnvel þegar hann vill koma með sáraeinfaldar athugasemdir þá gerir hann ríflega í buxurnar og allt fer í handaskolum. Stundum er sagt að kjósendur séu ekki fífl. Hvernig geta menn þá skýrt kjörþokka þessa manns?

Hugsunin um að kjósa menn frekar en lista verður alltaf svo freistandi þegar ég hugsa um Árna.

Röggi.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Kjaraviðræður.

Kristján verkalýðsleiðtogi af suðurnesjum var í viðtali í fréttum í kvöld, einhversstaðar. Hann er í fararbroddi í samningaviðræðunum sem nú standa yfir. Þær fara furðuhljótt. Enginn slagkraftur. Menn skella ekki einu sinni hurðum. Öðruvísi mér áður brá.

Hann er orðinn þreyttur á snakki um hluti sem hann segir ekki koma málinu við. Pælingar um gjaldmiðil og vexti og húsnæðisvanda og hvað þetta heitir allt saman. Þetta finnast honum vera aukaatriði og nú vill minn maður tala um beinharða peninga. Eitthvað sem fólk skilur. Þarna talar hann líklega fyrir munn margra.

Kannski er vinnuveitendum að takast að þreyta menn til samninga með röfli um hluti sem menn hvorki skilja né nenna að tala um. Það er langt síðan kjaraþras snérist eingöngu um krónur á launaseðli. Ég er ekki viss um að hægt sé að stytta sér leið þó þreytandi sé að standa í þessu.

Viðsemjandi Kristjáns er kannski heppinn með tímasetningar og ástand í þjóðmálum núna. Allt ískalt og neikvæðni í lofti. Þá er eins og allt loft fari úr fólki. Það er hugsanlega til marks um það hversu allir eru orðnir meðvitaðir. Kannski eru hlutir eins og vaxtahækkanir og verðbólga farin að hræða. Nú bara ætlar ekkert að verða úr neinum slag. Menn meira og minna allir á sömu blaðsíðunni. Ekki alveg á sama stað á blaðsíðunni en ...

Kannski lognið á undan storminum.

Röggi.

Aðförin að Ólafi.

Ég er sennilega með sömu þráhyggjuna varðandi umræðuna um Ólaf F og Egill Helgason, í öfuga átt við hann þó. Ég veit ekki með hvaða augum menn lesa blöð og fylgjast með fjölmiðlum. En það er nánast frábært að halda því fram að fjölmiðlamenn hafi ekki haldið því að fólki að Ólafur hafi ekki aðeins verið veikur, heldur allt að því geðveikur og óhæfur af þeim sökum.

þó er ég viss um að fólk almennt er ekki tilbúið að kalla taugaáfall vegna missis geðveiki þó meðöndlun vegna þess fari af praktískum ástæðum fram á geðdeildum. DV heldur áfram að reyna að klína á hann með því að tuða um meinta flughræðslu hans. Hvurslags er það? Er kannski von á úttekt á flughræðslu helstu stórlaxa í opinberri stjórnsýslu?

Hitt er rétt hjá Agli að fáir hafa haft nennu í sér til þess að fjalla um pólitík Ólafs. Helst að einhverjir hafi þá skoðun á því að maður með lítið fylgi sé borgarstjóri. Því er svo ekki fylgt eftir með neinum haldbærum rökum. Í mínum huga mælir fleira með því en færra að áhrif minni aðilans í svona samstarfi séu tryggð með þeim hætti en ekki. Málefni hafa helst ekki borið á góma enda voru þau ekki á dagskrá síðasta meirihluta.

Jú reyndar hafa sumir talað um að hann hafi fengið öllu sínu framgegnt gangvart sjálfstæðisflokknum en á sama tíma hafa þessar raddir ekki talið neina ástæðu til þess fyrir hann að skipta um pólitíska samstarfsmenn. Svona skipta málefnin miklu máli þegar menn vilja vera málefnalegir í tali.

Þarf ekki að taka það fram að ég gæti aldrei látið mér detta í hug að kjósa Ólaf. Þá skoðun hef ég haft allan tímann og aldrei látið mér detta í hug að skrifa um heilsufar hans hvorki þegar hann var talinn nýtilegur fyrri meirihluta né nú.

Mér sýnist tvær grímur vera að renna á æ fleiri. Það er ekki öllu fórnandi fyrir stjórnmál.

Röggi.

Kuldakast hjá Eiði Smára.

Þá er Eiður Smári dottinn aftar á merina en undanfarið. Góður dagur í hans fótboltalífi þýða 10 leikmínútur. Ef hann fær þá að klæða sig. Og það þrátt fyrir að stórstjörnur sú fjarverandi við skyldustörf í Afríku.

Mín kenning er að Barcelona hafi ákveðið að reyna að stilla honum út í janúar gluggann og því notað hann óhóflega mikið frá miðjum desember og út janúar. Hafa hann til sýnis ef ské kynni að einhverjum dytti í hug að bjóða í gripinn.

Hann sýndi að mínu mati akkúrat ekkert á þessum tíma sem gerir hann að eftirsóknarverðri söluvöru. Reyndar tárast fréttamenn hér yfir hverri sendingu sem hann á en betur má ef duga skal.

Hann getur þetta allt saman. En bara gerir það ekki.

Röggi.

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Flottur Björn.

Ég fæ sennilega að heyra það að ekki sé mark takandi á því að mér þotti Björn Bjarnason jaðra við að vera glerfínn í silfrinu í dag. Skítt með það, kallinn var fínn.

Lét sér hvergi bregða og svaraði því sem hann var spurður að, að mestu. Var nánast í stuði og með sitt á hreinu. Egill hefur áður sýnt það að hann hefur eitthvert lag á kallinum.

Leiðrétti allskonar þvælu sem krampakenndir andstæðingar hans hafa haft um hin ýmsu mál er snúa að lögreglu og öryggismálum. Talaði um mál sem allir vita að eru erfið í samskiptum flokkanna sem skipa ríkisstjórnina af skynsemi og yfirvegun. Var kannski helst að hann tafsaði þegar rætt var um skipan Þorsteins Davíðssonar. Eðlilega.

Einn af hans betri dögum. Virkar yfirleitt skraufþurr en ekki þarna.

Röggi.

laugardagur, 2. febrúar 2008

Óli Tynes.

Ég hef nú undanfarið velt því fyrir mér fyrir hvað 365 borgar Óla Tynes laun. Hvað gerir hann eiginlega? Jú hann dundar sér við lestur frétta á bylgjunni á klukkutíma fresti endrum og eins. Slappari og daufari lestur er hvergi annarsstaðar hægt að heyra.

Hann er kannski skemmtilegur á vinnustað. Kannski snilldarfréttir eins og ekki fréttin um þingflokksformann sjálfstæðisflokksins sé ástæða fyrir því að hann er fréttamaður en ekki eitthvað allt annað. Hann las hana í kvöld eins og hann væri að lesa ævintýri fyrir börn á leikskóla.

Getur verið gott að hafa svona mann þegar snarvantar að fylla fréttatímann. Klassískt atriði. Svona spaugstofu atriði eiginlega. Snilld. Samt sorglegt eitthvað....

Röggi.