laugardagur, 29. ágúst 2009

Gunnar Helgi talar um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Gunnar Helgi stjórnmálafræðingur tjáði sig um möguleikann á því að forsetinn skrifi ekki undir Icesave samninginn heldur skjóti honum til þjóðarinnar í fréttum í gær. Ég sit hér og reyni að botna í málflutningum og velta fyrir mér hlutleysi og fagmennsku fræðimannsins.

Hann sagðist hafa lesið stjórnarskrá Dana og komst eftir lesturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að Íslenska þjóðin hefði skoðanir á málum sem snertu efnahag og fjármál og alþjóðlega samninga. Einnig væri varhugavert að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta tiltekna málefni vegna þess að höfnun þýddi að við værum að senda þau skilaboð til heimsins að við ætlum ekki að borga til baka þau lán sem við fáum.

það var og. Hinn hlutlausi fagmaður á sviði stjórnmála telur sumsé að vegna þess að honum sjálfum þykir höfnun ekki góð niðurstaða að þá sé engin ástæða til þess að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er ekki stærð málsins eða mikilvægi sem vegur þyngst hjá fræðimanninum heldur óttinn við ranga niðurstöðu þjóðarinnar. Þetta er fullkomlega furðuleg nálgun og afhjúpar fræðimanninn að mínu mati.

Ég sjálfur hef þá skoðun að forseti eigi ekki undir neinum kringumstæðum að taka fram fyrir hendur á þinginu sem kosið er til þess að véla um mál af þessu tagi. Vítin eru til að varast og ég á ekki von á því að forsetanum detti í hug að neita undirskirft eins hrapaleg mistök og það voru hjá honum síðast þegar hann taldi sig þurfa að svívirða ákvarðanir löggjafans til að þjóna hagsmunum sem við öll þekkjum nú.

Þó ég sé hundóánægður með samninginn og niðurstöðuna þá er ég sammála fræðimanninum Gunnari Helga um að hreyfa ekki við málinu eftir að löggjafinn hefur afgreitt það. Hjá mér er um grundvallaratriði að ræða...

..en ég held að eitthvað annað hafi hugsanlega áhrif á niðurstöðu fræðimannsins.

Röggi

föstudagur, 28. ágúst 2009

Hann er mælskur hann Árni Páll.

Ég horfði á viðtal sem tekið var við félagsmálaráðherra í kastljósi. Árni Páll er um margt nokkuð ásjálegur stjórnmálamaður og honum finnst gaman að hlusta á sjálfan sig tala. Hann kemur vel fyrir sig orði en oft er þar meira magn en gæði. Í þessu viðtali hefði eiginlega þurft að texta kappann því ekki var vel gott að átta sig hvaðan hann var að koma né heldur hvert hann vildi fara.

Mér fannst maðurinn tala eins og hann hefði verið í stjórnarandstöðu undanfarna mánuði. Hann virtist bærilega meðvitaður um að fátt af þvi sem ríkisstjórnin hafi verið að reyna að gera skuldugri þjóð til bjargar hafi mistekist þegar spyrillinn gékk á hann um það.

Og það sem meira er, hann leit út fyrir að halda að hann vissi hvernig betur væri hægt að gera þó ég sjálfur gæti með engu móti verið honum sammála þar. það sem vekur auðvitað furðu er að hann skuli ekki hafa gert eitthvað í því sem hann telur vera lausnir.

Því miður óttast ég að Árni Páll og samherjar hans viti ekkert hvað til bragðs á að taka. Reyndar hélt félagsmálaráðherra þvi blákalt fram í kosningabaráttunni að allt færi á besta veg um leið og hægt væri að koma með umsóknaraðild að ESB. það var í besta falli byggt á óskhyggju.

Ekki dugir endalaust að tuða um vandinn sé öðrum um að kenna. þetta fólk sem nú situr í stjórn lofaði skjaldborgum og bjargráðum hástöfum en efndirnar láta heldur betur á sér standa.

Samræðu og blaður stjórnmál eins og félagsmálaráðherra sýndi okkur í kastljósi eru því miður léttvæg fundin í þeirri stöðu sem margir eru í núna.

Röggi

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Jón Ásgeir finnur fé!

Þvílík gleðitíðindi!!

Jón Ásgeir segist hafa fundið fé erlendis til að koma með inn í Haga. Nú er í uppsiglingu enn eitt snilldarbragðið á þjóðina og ef af líkum lætur munu fjölmiðlarnir hans dansa með af fullum styrk. Mér verður bumbult að lesa þetta og vona að svo sé hjá fleirum því þetta atriði má ekki ganga fram.

Gaman væri að kallgarmurinn gramsaði í hirslum sínum og galdraði fram fé til að borga eitthvað af skuldum sínum sem ýmist er búið að afskrifa eða á eftir að afskrifa að ég nefni nú ekki skuldirnar sem einhver þarf að borga fyrir hann vegna 365.

Þessi frétt er brandari og þessi tilraun í raun sama móðgunin og hann bar á borð fyrir okkur þegar hann reyndi að fá þessa "vini" sína erlendis til að kaupa eignir okkar fyrir skít og kanel mínus skuldir á fyrstu dögum hrunsins . Eignir sem nota þarf upp í skuldir sem hann hefur ánafnað okkur af mikilli rausn og myndarskap.

það mega þeir eiga þessi kónar að ekki er gefist upp og endalaust er hægt að reyna að finna smugur. Dugnaður og harka hafa komið þessu gaurum áfram í gegnum tíðina en nú vona ég að við öll höfum séð hvernig fólk hér er á ferðinni.

Þeir sem hafa komið sér upp víðtæku siðleysi kunna ekki að skammast sín og hér sjáum við kennslubókardæmi um slíkt.

Röggi

föstudagur, 21. ágúst 2009

Er Jón Ásgeir gjaldþrota?

Þeir segja að Baugur sé gjaldþrota. Hér er vist um að ræða risagjaldþrot og hlýtur það að vera eigendum Baugs mikið áfall að svona skuli hafa farið. Fyrir venjulegt fólk er gjaldþrot stórmál og áfall. En eigendur þessa fyrirtækis hafa aldrei verið venjulegt fólk.

Ekki hefur mátt snerta þetta fólk eða að reyna að koma lögum yfir það án þess að þær tilraunir allar væru kallaðar pólitík. Ekki mátti koma í veg fyrir að þetta fólk eignaðist alla fjölmiðlun hér á landi og enn í dag hefur þar ekkert breyst.

Liðið sem gékk nánast af göflunum vegna niðurfellinga á skuldum morgunblaðsins hefur ekki séð neitt athugavert við snúninginn, vafninginn, kennitöluæfingarnar eða hvað trixið heitir sem Jón Ásgeir notaði til þess að losa 365 við 10 milljarða skuldir sem aðrir borga fyrir hann.

Gjaldþrotið hefur heldur engin áhrif á það hver á bónus gullkálfinn. Þar ræður "fjölskyldan" en ríkjum eins og ekkert hafi í skorist enda hefur ekkert í skorist. Peningar voru fengnir að láni hjá þjóðinni til þess að stinga bónus undan. Og Jóhannes hefur þær áhyggjur helstar að syni sínum hljóta að líða illa vegna þess sem á honum hefur dunið!

Hvenær fær vesalings þjóðin nóg af þessu fólki? Gjaldþrot er í hugum Jóns Ásgeirs ekki vandamál. Gjaldþrot er handhæg aðferð til að losa sig við skuldir. Að fara á hausinn þýðir að búið sé að taka það út úr fyrirtækjum sem eftirsóknarvert er en skilja skuldirnar eftir fyrir okkur hin til að díla við.

þetta er saga Jón Ásgeirs og Baugs. Hvað er langt síðan Jón Ásgeir varð eins og Gabríel erkiengill í framan og kannaðist ekki við neitt þegar Egill Helgason spurði hann um Tortola? Hversu lengi ætlum við að láta þetta lið hafa okkur að fíflum?

Látum gjaldþrot Baugs verða að gjaldþroti Jóns Ásgeirs en ekki bara okkar.

Röggi