miðvikudagur, 28. júlí 2010

Bankaleynd og kjarklausir pólitíkusar

Núna er ég að hugsa um bankaleynd. Mér er ljóst að lög um bankaleynd er ekki slæm hugmynd. Tilhugsunin um að allir komist í upplýsingar um viðskipti banka við fólk og fyrirtæki er ekki góð. Og almennt ekki til umræðu til þessa dags myndi ég halda.

Núna er óvenjulegir tímar og við höfum gripið til óvenjulegra ráða til að berjast við hrunið. Settum til að mynda neyðarlög sem voru og eru umdeild en þar var reynt að bregðast við gríðarvanda og til þess þurfti kjark og áræði í þröngri stöðu.

Þar var gripið inn í það sem mætti kalla eðlilegan framgangsmáta til að ná fram ákveðnum markmiðum. Óvenjulegar aðstæður óvenjulegar aðgerðir og tilgangurinn vænn. Að við gætum kannski lifað hrunið af og haldið veginn áfram.

Núna situr ríkisstjórn sem hefur engan kjark og enga sýn. Þar situr fólk eins og Lilja Mósesdóttir og skýlur sér á bak við lög um bankaleynd ef hún er spurð um afskriftir banka. Fólkið sem tók við og ætlaði að sigla okkur inn í nýtt Ísland felur sig á bak við lög sem hið gamla bjó til og starfar enn eftir í skjóli Lilju Mósesdóttur og félaga.

Þessi lög koma í veg fyrir að nokkur maður viti hvað er að gerast í bönkunum. Hvað er afskrifað og hverjir fá þær og hversu miklar eru þær? Hverjr fá að kaupa á útsölunni og hvað þurfa viðkomandi að borga fyrir? Hvað eru skilanefndir eða slitastjórnir eða hvað þetta heitir allt að bauka? Hverjir eru hinir nýju eigendur Íslands? Og hverjir eiga bankana.......

Ef lög um bankaleynd koma í veg fyrir að hægt sé að vita um þessa hluti þá þarf kannski að breyta þeim lögum eitthvað. En til þess þarf kjark og vilja og sú stjórn sem nú situr hefur hvorugt.

það fólk er bara á móti og segir nei án þess að gera nógu vel grein fyrir atkvæði sínu.

Röggi

Skuldir umboðsmanns

Allt ætlar um koll að keyra vegna skipunar Rúnólfs Ágústssonar í embætti umboðsmanns skuldara. Árni Páll gerir auðvitað eins og alltaf er gert sama hver á í hlut. Hann finnur einhvern samflokksmann hentugan og munstrar hann í starfið. Það er eitt.....

....hitt er að Runólfur hefur persónulega reynslu af því að skulda og það sem meira er, að borga ekki. Ég veit ekkert hvort eitthvað óeðlilegt var á seyði þegar hann kom sér upp þessum skuldum eða hvort maðkur var í mysu þegar þær voru afskrifaðar og vonandi eru eðlilegar skýringar til rétt eins og hjá meginþorra þjóðarinnar....

...sem eru einmitt umbjóðendur skuldarans og Samfylkingarmannsins Runólfs. Hvernig verða menn hæfir í svona djobb? Eða óhæfir með öllu? Ég bara er ekki viss.

Nú er vandlifað.

Röggi

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Gálgafrestur framlengdur

Ég sit og klóra mér í kollinum og skil sem fyrr hvorki upp né niður í ríkisstjórninni. Núna hefur hún ásamt tussugóðum aðstoðarspunameisturum búið til plögg sem Jóhanna Sigurðardóttir las upp í dag að viðstöddum fjölmiðlamönnum.

Ríkisstjórn þessi hefur almennt ekki gert neitt og hún hefur sérhæft sig í að gripa of seint í rassinn sinn. Og þá helst ekki fyrr en allt bendir til þess að stjórnin springi. Önnur sjónarmið hafa litið eða ekkert vægi.

Óánægðir eru sáttir í dag og trúa því að viðskiptin með orkuna verði stöðvuð en ég sjálfur sé ekkert sem bendir til þess. Fýlupokunum í VG finnst þeir hafa unnið sigur enda skal málið skoðað...

Þá er friður í bili og ekki þarf að hafa áhyggjur af því í bráðina. Grundvallarskoðanir stjórnarinnar í Magma málinu eru engar. Ráðherrar og tveir flokkar sátu hjá og gerðu ekkert fyrr en það er líklega of seint. Ekkert hreyfði við þeim fyrr en það sem kallast nú grasrót VG hótaði að fella stjórnina og leit út fyrir að ætla að standa við það í þetta sinnið.

Þetta hefur sést áður. Ríkisstjórnin hafði ekki skoðanir á því hvernig bankarnir tóku á skuldavanda heimilanna fyrr en þeir voru ekki lengur í ríkiseigu. Þa bara datt andlitið af ráðherrum af hneykslan vegna aðgerða og eða aðgerðaleysis bankanna.

Þessi stjórn virðist lifa frá einum degi til annars og tekur bara á einum vanda þegar hann kemur upp og hann kemur reglubundið upp. Það er vandinn við að halda áfram að fá að vera ráðherra í friði fyrir vandræðaliði hjá VG.

Í dag keyptu ráðherrar sér nokkra daga í viðbót og ef allt gengur upp jafnvel nokkra mánuði.....

Því miður segi ég.

Röggi

mánudagur, 26. júlí 2010

Mörður og ég

Hvað ætli sé að gerast með mig þessa dagana? Mér finnst Mörður Árnason setja saman afburðaskemmtilegar greinar bæði hvað varðar efni og niðurstöður aftur og aftur og ekki skemmir stíllinn. Hið minnsta tvær í röð núna.....

Sennilega er ekkert að gerast með mig en mun líklegra að Mörður sé að koma til....

..eða hvað?

Röggi

föstudagur, 23. júlí 2010

Dómurinn

Héraðsdómur hefur fellt sinn dóm í gengistryggingamálinu lánveitendum í hag eins og það heitir. Ég veit ekki hvort mig langar að sjá niðurstöðuna þannig. Hver tapar á þessari niðurstöðu staðfesti hæstiréttur hana?

Er ósanngjarnt að endurreiknað sé og lántakandi haldi áfram að borga lánveitanda fé sitt til baka? Tvennt stóð aldrei til. Að lánin hækkuðu um 100% var aldrei inni í myndinni. Né heldur að forsendur gætu breyst þannig að gengistryggingin félli niður óbætt og strípaðir samningsvextir stæðu eftir. þetta er öllum augljóst....

....og hvoru tveggja er ósanngjarnt. Skuldarar hafa kallað eftir sanngirni og leiðréttingu. Nú er hún í boði og þá vilja menn meira. Þá koma lántakendur og benda á að forsendur hafi breyst svo mikið að á þá halli stórlega. Varla verður því mótmælt með haldbærum rökum.

Samningurinn sem gerður var milli aðila var báðum hagfelldur á sínum tíma samanborðið við gömlu verðtryggðu lánin. það reyndist ólöglegt og því sanngjarnt að færa þau til þess sem er eðlilegt hér á landi með leiðréttingum afturvirkt.

Löggjafinn virðist tryggja samningsaðila gagnvart stórvægilegum forsendubreytingum og það gildir í báðar áttir. Snýst þetta mál ekki um það?

Röggi

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Örvænting götustráks

Götustrákurinn Jón Ásgeir grípur til gamalla úrræða þegar ekki virðist ætla að takast í einu hendingskasti að fá erlenda dómstóla til að gleypa fjarstæðukenndan málflutning hans.

Nú ræðst hann á persónurnar sem vinna störfin. Honum tókst í baugsmálinu að hræða svo allt systemið hér að ekki var nokkur leið að fá hann sakfelldan og varla saksóttann!. Hann réðist persónulega á alla saksóknara og lögreglumenn sem mögulegt var að nafngreina og fékk til þess fokdýra lögfræðinga....

...í fjölmiðlum sem honum voru tryggðir. Svona gékk þetta árum saman og virkaði á endanum. Og það svo vel að enn eru til fullorðnar konur sem trúa því að Jón Ásgeir og pabbi hans séu bestu synir þessa lands og skilja ekki sífelldar árásir á þá.

Örvæntingin er augljós og opinber þegar Jón Ásgeir leyfir sér að nefna mögulega kyrrsetningu eigna formanns slitastjórnar Glitnis.

Auðvitað er hann að djóka....eða hvað?

Röggi

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Ópólitískur mótmælabransi?

það er ekki nýtt að ég fatti ekki alltaf hvað rekur menn til mótmæla. Núna er einhver örsmár hópur mótmælenda að þvælast á milli stofnana dag eftir að mótmæla. Alltaf hægt að andæfa einhverju og ekki skemmir blíðan.

Fólk mætmælti fyrir framan Seðlabankann í tómum misskilningi og svo færði hópurinn sig lauslega og mótmælir nú fyrir framan skrifstofur AGS. Og allt er þetta skemmtilegur misskilningur eins og maðurinn sagði.

Þetta fólk á að mótmæla fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr fólk sem á að vera að vinna okkur til hagsbóta en gerir ekki neitt og hefur gert ekki neitt í tvö ár. Þar situr forsætisráðherra sem sérsaumaði starf handa Seðlabankastjóranum. Þar situr ríkisstjórn sem vinnur í samstarfi við AGS.

Þar situr ríkisstjórn sem gat reynt að grípa inni í og leiðrétta vanda þeirra skuldugu en gerði ekki. Af hverju er ekki setið á tröppunum hjá því fólki og andæft? Líklega verður næst borið niður hjá Magma þó það fyrirtæki hafi ekki gert neitt af sér annað en að vera ekki frá Svíþjóð.

Hver ætlar að reyna að segja mér að mótmælabransinn sé ópólitískur?

Röggi

sunnudagur, 11. júlí 2010

HM, frábær Howard Webb

Betra liðið vann úrslitaleik HM í fótbolta. Úrslitaleikurinn var ótrúlegur en öðruvísi en margir áttu von á. Hollendingar komu feikna ruddalegir til leiks og tókst næstum því að brjóta Spánverja niður í bókstaflegri merkingu. Ég hélt með Hollandi en þó mest með Howard Webb fyrir þennan leik og hann fékk trúlega erfiðasta verkefni sitt til þessa.

Mér fannst hann frábær en hann gerði sín mistök eins og við má búast í hverjum einasta leik þó auðveldari séu en þessi. Bókstafstrúarmenn á reglur geta klárlega fundið eitt og annað og kannski sluppu Hollendingar vel með ruddaskap sinn í fyrri hálfleik.

Webb sýndi mikinn leikskilning þegar hann fann leikinn vera að byrja of sterkt og þá sáum við skapfestu hans og styrk en hann féll þó ekki í þá gryfju að reka menn út af í bunum heldur beitti öðrum aðferðum til að koma mönnum á rétt ról. Það gerði mikið fyrir leikinn.

Sumir munu tala um að Holland hafi átt að fá hornspyrnu í sókninni áður en Spánn skoraði og það með réttu. En menn fá ekki á sig mörk vegna þess að dæmd er markspyrna í stað hornspyrnu hinu megin á vellinum....

Mistök dómara eru hluti leiksins og ég er handviss um að Webb fær toppeinkunn fyrir þennan leik enda besti dómari heims núna.

Röggi

föstudagur, 9. júlí 2010

Leiðinlega fullkomnir Spánverjar

Nú líður að lokum HM í fótbolta. Aldrei þessu vant hefur mér tekist að sniðganga allmarga leiki enda golf tímaferk íþrótt og mun skemmtilegri en leiðinlegur fótboltaleikur en nægt framboð var af þeim sér í lagi framan af.

Spánverjar eru með besta liðið og ekki mikill business að veðja á sigur þeirra. En mér finnst þeir leiðinlegur að sjá. Þeir spila vissulega algeran fótbolta eins og það heitir og geta ákveðið að halda boltanum í 3 vikur sýnist þeim það henta. En þeir eru óspennandi að sjá.

Fleiri hundruð heppnaðar stuttar sendingar á litlu svæði á félaga sína heilu og hálfu korterin er ekki spennandi áhorfs til lengdar. En árangurinn er frábær og fræðingar telja þetta fullkomnun en það dugar mér ekki......

Ég ætla því að halda með Hollandi á sunnudag og svo ætla ég líka að halda með Howard Webb dómara sem er langbesti Englendingurinn á þessu móti.

Röggi

þriðjudagur, 6. júlí 2010

Peninga á ég enga

Peninga á ég enga. Þessi orð sagði bankaræninginn Jón Ásgeir fyrir stuttu og bætti því við að hann væri búinn að vera. "þeir" þ.e. íslenska þjóðin hefði tekið hann niður. Ég varaði við því að þessum leikþætti skyldi enginn trúa. Diet coke getur hann þó keypt og eina litla íbúð í Ameríku líka og pabbi nurlar saman fyrir sumarhúsi á Florida. Það þarf dugnað til að redda sér svona í kreppunni.

Auðvitað fellur ekki nokkur maður fyrir þvælunni sem frá honum kemur lengur en alveg er þó kengmagnað að þau heiðurshjón skuli fá að halda fjölmiðlarisanum skuldalausa og vera í samningaferli með restina.

Getur einhver sem þetta les skýrt fyrir mér í hverju hreðjatök Jóns Ásgeirs á bankamönnum Íslenskum eru fólgin? Þau gera grín að bæði þessum bankageira og okkur öllum og kaupa og selja íbúðir og skíðaskála eins og þeim hentar hverju sinni.

Það er svo sem rétt hjá kappanum. Hann á ekki þessa peninga.....

Röggi

Mótmæli og lánamál

Nú virðist mótmælabransinn vera að lifna við aftur með hefðbundnu sniði þar sem lögin og verðir þeirra eru vandamál en ekki hegðun mótmælenda. Í gær safnaðist fólk saman við seðlabankann og í dag við stjórnarráðið.

Full ástæða er til að andæfa mögnuðu kjark og dugleysi Gylfa Magnússonar og félaga frá því ríkisstjórnin tók við. Á meðan ríkisstjórnin röflar um villfé og bannar sólbekki og stripp hefur það sem skiptir máli verið látið reka á reiðanum. Ríkisstjórnin hafði tækifæri til að grípa inn í þegar bankarnir voru í ríkisumsjá og finna lausn fyrir alla skuldara en ekki bara suma eins og nú blasir við.

það var auðvitað ekki gert og því er sú staða upp komin núna að einungis þeir sem tóku mesta áhættu og græddu á henni fyrir hrun fá ríflega lausn sinna mála en aðrir síður. Um þá lausn verður aldrei friður enda slik skilaboð fráleit.

Mér sýnist seðlabankinn vera að reyna að verja bankakerfið með tilmælum sínum. Kannski setja lán til einstaklinga kerfið ekki á hliðina en hvað með lán til sveitarfélaga og fyrirtækja? Úr vöndu er að ráða og fáir góðir leikir í stöðunni.

Ríkisstjórnin sem ætlaði að mynda skjaldborgina en gerði minna en ekkert til þess er sökudólgurinn hér, ekki seðlabankinn. Tækifærið til þess að gera eitthvað í málinu var ekki nýtt. Það er mergurinn málsins og eðlilegt að mótmæla því.

Ég sjálfur er með bílalán og reikanði hvorki með því að það myndi hækka um 100% né að mér stæði á einhverjum tíma til boða að fá lán án verðtryggingar, gengistryggingar og nánast án vaxta. Dómur hæstaréttar virðist tryggja mér þau kjör að ég þurfi kannski ekki að borga lánið mitt til baka.

það var aldrei meiningin......

Röggi

föstudagur, 2. júlí 2010

Hvar er Framsókn?

Hvar er Framsóknarflokkurinn og hans kjaftagleiði formaður? Nú heyrist ekki múkk vikum saman og það þýðir að öllu jöfnu bara eitt. Flokkurinn stendur frammi fyrir möguleikanum á að komast í ríkisstjórn og þreifingar þar um eru í gangi.

Ætli Össur viti af þessu?

Röggi