þriðjudagur, 30. september 2008

Er ríkisstjórnin skúrkurinn í málinu?

það er ekki auðvelt að vera stjórnmálamaður. Skiptir í raun engu hvort um góða tíma er að ræða eða slæma. Nú eru slæmir tímar og bankar ramba á barmi gjaldþrots um allan heim. Útlitið er hreint ekki gott og krafan um að stjórnvöld geri eitthvað í málinu hefur verið hávær mjög.

Fjölmiðlamenn hafa farið hamförum undanfarnar vikur. Varla hefur liðið fréttatími án þess að einhver hafi ekki birst og kvartað yfir svefni ríkis og seðlabanka. Almennar og óbeinar aðgerðir hafa ekki þótt nægar og menn heimtað beinar og sjáanlegar.

Nú gerist það að Glitnir kemur til seðlabankans og nánast segir sig á sveitina. Ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að höfðu samráði við seðlabankann að bjarga bankanum frá því að fara í þrot. Gott mál hélt ég en ekki aldeilis....

Nú tala þeir sem áttu bankann um eignaupptöku og fara að tuða um að nú séu þeir að tapa peningum sem og aðrir hluthafar. Þeir vildu nefnilega fá lánaða peninga frá skattborgurunum og þá trúlega bara út á goodvillið!!. Þeir hafa rekið bankann í þrot þó ég viti að hluti af þvi er óheppni en samt hafa þeir rekið bankann í þrot.Útlán hafa verið þeirra ær og kýr. Innlán undantekning og aukábúgrein. Nú kemur það í bakið á þeim. Og að því er virðist algerlega í opna skjöldu.

það er bara þannig hjá mér og þér að þegar ég kem í bankann minn og bið hann um að bjarga mér frá gjaldþroti en að vísu hafi ég engar tryggingar fyrir peningum sem ég mun þurfa að þá verður svarið trúlega nei takk.

Telji bankinn hins vegar að það þjóni stórum hagsmunum að redda málinu getur hann að sjálfsgöðu keypt mig út úr veseninu. En það þýðir þá væntanlega að þeir sem voru hluthafar með mér í fyrirtækinu munu eins og ég tapa peningum. Það getur alls ekki verið seðlabankanum að kenna. Eins og segir í sögunni. Það skrifast alfarið á Glitni...

Þess vegna var frábært að sjá Sigmar í kastljósi kvöldsins hamast á forsætisráðherra vegna þess að Glitni var bjargað. Og ástæðan, jú Jón Ásgeir og félagar tapa svo miklu ásamt öðrum hluthöfum! Hvurslags rugl er þetta? Hvað hefði Sigmar blessaður sagt ef Glitnir hefði fengið þvert nei?

Stærstu hluthafar Glitnis hafa án efa haft betri yfirsýn yfir stöðuna en aðrir. Þeim er eðlilega vorkunn að tapa nú peningum en að reyna að gera seðlabankann og ríkisstjórnina að skúrki hér skil ég ekki. Miklu eðlilegra er að spyrja hvernig hefði farið fyrir fólki ef ekki hefði verið tekið vel í beiðnina.

Ég legg til að Sigmar og félagar fari frekar að leita eigendur bankans uppi og veiða svör og skýringar upp úr þeim í stað þess að fjargviðrast út í þá sem rétt björguðu okkur öllum frá enn meira tjóni en þessir aðilar voru búnir að koma sér og öðrum hluthöfum í.

Röggi.

mánudagur, 29. september 2008

Upphafið að endinum?

Það hefur verið þannig hér að margir hafa trúað því að Jón Ásgeir væri ósigrandi. Fjármálaséní sem ekkert biti á. Reyndar hafa verið örfáir efasemdarmenn. Þeir hafa að jafnaði verið afgreiddir sem fávitar eða viljalaus verkfæri í höndum geðveiks manns sem heitir Davíð Oddsson.

Þeir eru nefnilega merkilega margir sem halda að allt snúist um stjórnmál. Menn næra þá hugsun með sér enda sjálfir pikkfastir í þeim forarpytti. það hefur ekkert með stjórnmál að gera hvernig þessir kappar hafa rekið sín viðskipti.

Kannski er komið að skuldadögunum núna þó ég efist ekki um kapparnir sjálfir muni eiga til hnífs og skeiðar. Frá mínum bæjardyrum séð erum við öll nú að súpa seiðið af ruglinu í þessum mönnum árum saman.

Héldu kannski einhverjir að peningarnir sem hurfu í Sterling þvælunni frægu kæmu af hinum ofan? Sjóðir banka og fyrirtækja í eigu þessara gaura eru ekki ótæmandi þó vasar þeirra sjálfra taki lengi við...

Vonandi hefur þetta ekki þau áhrif að fleiri fyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs fari til fjandans. 365 er varla í góðri stöðu fyrir. Ekki ólíklegt að nú verði drifið í að reyna að selja verðmætustu eignina, Fréttablaðið á meðan enn er hægt að finna einhver fyrirtæki til að auglýsa í því blaði.

Mér finnast aðgerðir seðlabankans góð tíðindi. Vörn snúið í sókn. Og það sem best er, við förum kannski að losna við ævintýramenn sem virðast hugsa fyrst og fremst um það hvernig megi nú ná sem mestu í eigin vasa og skilja svo eftir sviðna jörð.

Kannski finnst einhverjum að þetta séu allt hreinar tilviljanir allt saman. Alger óheppni bara. Alþjóðleg kreppa skipti þarna höfuðmáli. Enginn vafi á að hún hjálpar ekki til en það gerir eignarhaldið hér ekki heldur.

Og svo finnst örugglega mörgum að einhvern veginn hljóti þetta allt saman að vera Davíð að kenna.....

Röggi.

sunnudagur, 28. september 2008

Meira um Jóhann.

Hann heldur áfram farsinn um Jóhann Benediktsson. Maðurinn veður áfram og sér samsæri í öllum hornum. Öll embætti sem hann þurfti að hafa samskipti við og þeir sem þar vinna hreinlega höfðu ekkert betra við tímann að gera en að leggja stein í hans götu. Hversu trúverðugt er það?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist að menn sem ekki geta unnið í hóp og undir aga hvort sem það lítur að grundvallarákvörðunum eða fjármálum beita því að peersónugera hlutina.

Þetta mál snýst ekkert um það hvort Björn Bjarnason er þurr á manninn eða Jóhann Benediktsson allra manna ljúfastur. Eða hvort menn þola ekki ríkislögreglustjóra almennt. Þetta snýst um það hver á að taka ákvarðanir. Hvernig stjórnsýsla er það að einn maður geti bara tekið sig út úr og haft hlutina bara eins og honum sýnist? Ég bið þá sem lesa þetta að reyna nú af öllum mætti að hafa hemil á krampakenndu ofnæmi sínu fyrir dómsmálaráðherra og heimfæra þetta upp á venjulega vinnustaði.

Ágreiningur um leiðir og aðferðir er eðlilegur og óhjákvæmilegur. Hlutirnir verða ekki persónulegir fyrr en augljóst er að maður í stöðu Jóhanns hvorki getur né vill vinna með þeim sem um málin eiga að véla. Þá snýst þetta um að persónan Jóhann er orðinn vandamál. Viljum við kannski hafa þetta þannig að embættismenn ráði almennt frekar en ráðherrar?

Hvaða hag halda menn að Björn Bjarnason hafi af svona látum? Af hverju ætti hann og þeir sem vinna í ráðuneytinu að standa fyrir því að leggja Jóhann í einelti. Vinsæll maður sem nær árangri. Á flestum málum eru tvær hliðar og kannski er kominn tími til að þeir sem hafa verið hvað hvað orðljótastir kynni sér efnisatriði málsins.

Hér er einfaldlega um faglegan ágreining að ræða sem Jóhanni hentar mjög vel að gera persónulegan. Ég fagna því að þeir sem hann ber þungum sökum í málinu virðast nú loks ætla að bera hönd fyrir höfuð sér auk þess sem öðrum lögreglustjórum þessa lands virðist nóg boðið.

Röggi.

laugardagur, 27. september 2008

Sigurvegarinn Heimir.

FH var rétt í þessu að verða Íslandsmeistari í fótbolta. Ég sjálfur hefði vel getað unnt Keflavík að vinna þetta mót. Þeir voru frábærir eiginlega allt mótið og stórskemmtilegir. Kannski má segja að þeir hafi tapað mótinu frekar en að FH hafi unnið. Keflvíkingar virtust fara á taugum þegar þeir voru komnir í dauðafærið...

Ég er ekki í nokkrum vafa um sigur FH er fyrst og fremst sigur Heimis Guðjónssonar þjálfara. Hann hefur að mínu viti framkomu og afstöðu atvinnumanns. Ummæli hans eru að því er ég best fæ séð alltaf á þann veg að hann og hans fólk verði að bæta sig. Heimir hugsar inn á við öfugt við marga þjálfara.

Ódýrar skýringar ein og dómgæsla og óheppni ekki til eða þá vallaraðstæður. Heimir hefur hugarfar sigurvegarans. Upphrópanir og hávaði ekki hans stíll. Eftir leik á móti Fram þar sem mörgum FH ingum fannst mótlætið mikið í dómgæslu tókst með engu móti að draga orð upp úr Heimi um það mál.

Þá talaði hann einungis um það hvað hann þyrfti að laga og bæta og lofaði að það yrði gert. Í dag sáum við úr hverju hann er gerður. Hógværð og fagmennska eru sem betur fer persónueinkenni sem duga líka í þjálfarabransanum þó oftar fari meira fyrir hinum sem týpunum enda selja þeir fjölmiðla betur...

Röggi.

Sýslumannsraunir.

Er ég eini maðurinn sem læt sleifarlag í opinberum rekstri fara í taugarnar á mér? Embættismenn virðast sumir halda að skattarnir okkar standi þeim til boða eins og þeim sjálfum kann að henta hverju sinni.

Aftur og aftur, ár eftir ár lufsast menn áfram og láta eins og fjárveitingar og rekstrarrammi sé eitthvað ofan á brauð. Og til vara, að það eigi bara við um alla hina. Skýringar sem gefnar eru iðulega; ég er að gera svo góða hluti!

Nýjasta dæmið er sýslumaðurinn suður með sjó, Jóhann Benediktsson. Hann er eins og lénsherra. Rekur bara sitt embætti alveg óháð því hvað eitthvert ráðuneyti segir. Fjárhagsáætlanir léttvægar fundnar enda verið að vinna svo gott starf.

Getur verið að starfsmenn þar hafi betri laun en aðrir sambærilegir hjá öðrum embættum sömu tegundar hér á landi? Ef svo er þá skil ég vel ánægju fólks með sinn sýslumann. Efast reyndar í engu um mannkosti Jóhanns en þetta mál getur alls ekki snúist um það.

Hvernig væri hér umhorfs ef allir sýslumenn og ráðsmenn ríkis og bæja hefðu hlutina bara svona? Þeir sem hæst hafa látið virðast einnig telja að ráðuneyti Björns Bjarnasonar lúti ekki heldur neinum eðlilegum lögmálum eins og fjárlögum. Þar á bæ geti menn bara gengið í botnlausa sjóði til að rétta af rekstur sem engan veginn rímar við áætlanir. Hver maðurinn ofan í annan rýkur til og talar um einelti og mannvonsku í þessu samhengi. Fullkomlega fáránlegt og óábyrgt og lyktar á stundum af skítugri pólitík.

Jóhann hefur rekið sitt mál í fjölmiðlum. það er lýðskrum ef ég er spurður. Björn liggur að vanda vel við höggi enda virðist hann haldinn þeirri ótrúlegu barnalegu trú að efnisatriði og prinsipp skipti máli. Að málið skýri sig sjálft ef fólk kynnir sér staðreyndir. Ef ég réði þar á bæ myndi ég í það minnsta reyna að bera hönd fyrir höfuð mér...

Að gera faglegan ágreining getur verið eðlilegt og hollt. Áherslur og aðferðir. Geti Jóhann ekki unnið með ráðuneytinu af þeim ástæðum þá er það bara þannig og þá hverfur hann til annarra starfa. Ekkert er eðlilegra.

Ef málið snýst um endurtekna tilhneigingu Jóhanns til að hundsa tilmæli um að halda sig við þann ramma sem honum er ætlaður eins og aðrir gera þá finn ég ekki til með honum.

Röggi.

þriðjudagur, 16. september 2008

Taktleysi.

Ég þyki fremur ferkanntaður maður. Fer ekkert sérstaklega mikið út fyrir kassann. Reglur eru reglur og undantekningar fáar. það er oftast best í opinberri stjórnsýslu því þá aukast líkurnar á gagnsæi og að allir séu jafnir.



Þess vegna hlýt ég að skilja vel að Árni fjármála hafi nú kært ljósmæður. Augljóst virðist að þær hafi brotið af sér. Tilgangurinn helgar ekki meðalið eins og ég hef oft sagt því ekki er nokkur leið að leggja eitthvert algilt mat á það hvenær tilgangurinn er nógu góður til að eðlilegt sé að fólk komist upp með að brjóta af sér.



það að hafa samúð með kjarabaráttu þeirra er eitt en að styðja ólöglegar aðferðir er annað. Allir verða að hafa leikreglur að leiðarljósi þó tekist sé á. Til þess eru þær enda engin efi að ljósmæður myndu leita réttar síns teldu þær á sér brotið.



Hitt er svo annað hvort þetta sé sérlega taktvisst hjá Árna. Hann er reyndar ekki sérlega taktviss almennt finnst mér og nýtur ekki mikillar hylli. Það getur stundum verið eðlilegt fyrir mann í hans stöðu sérlega í niðursveiflunni núna. Þarf stundum að vera boðberi vondra tíðinda.



Efast um að þessi tímasetning sé gáfuleg. Hefði ekki verið hægt að skoða þetta síðar í stað þess að hella olíu á eldinn sem logar orðið um allt samfélagið vegna þessarar deilu? Tímasetningar og taktur skiptir öllu í pólitík.



Hér hleypur Árni upp á skeiðinu...



Röggi.

Fréttastjórablús.

Ég botnaði hvorki upp né niður þeirri ákvörðun 365 á sínum tima að láta Denna hafa fréttastofuna. Hann var þá blogggasprari eins og ég og margir og umdeildur nokkuð. Auk þess framsóknarmaður sem er að jafnaði verra...

Ég man vel hvar ég var þegar flogið var á turnana tvo. Man einnig vel hvar ég var þegar Stewie Ray Vaughan lést í flugslysi. Ég mun lika muna vel hver ég var niður kominn þegar mér var sagt hver væri nýr fréttastjóri stöðvar 2.

Áramótaskaupið bara skollið á. Mér hefur alltaf fundist hann frekur og aggressívur. Orðljótur og ritstýring hans á vísi ekki rismikil. Að vísu margir sem vilja sjá myndir af fræga fólkinu á fylleríi með rassinn út úr kjólnum. það mun ekki fleyta honum langt.

Orðspor fréttastofa eru þeirra líf. Hér finnst mér allt vera lagt undir. Frá mínum bæjardyrum séð er hann skilgetið afkvæmi DV stílsins. Það er vondur stíll sem þjóðin hefur ítrekað hafnað.

En hann hefur auðvitað margt. Kraftmikill og óhræddur og fylginn sér. Ja, nema þegar hann skrifaði um sukkið á Jóni Ásgeir í fyrra að mig minnir. Þá tókst honum að birta að mig minnir tvær afsökunarbeiðnir áður en dagur var að kveldi kominn.

Sannaðist þar að engu máli skiptir hver á fjölmiðil og líka að harðhausar eins og Óskar Hrafn kunna að hlýða. það er örugglega kostur hér....

Vona þó að vel gangi því ég vill veg einkastöðvanna sem mestan í baráttunni við ríkis ofureflið.

Röggi.

sunnudagur, 14. september 2008

Enn um Ögmund.

Ég hef auðvitað aldrei skilið Ögmund Jónasson til fullnustu. Geri mér þó grein fyrir því að hann er ekki illa innrættur og eldhugi er hann klárlega. Hann er núna að þrasa við Sigurð Kára í silfri Egils um þá ákvörðun Ögmundar að misnota sjóði BSRB í pólitískum tilgangi.

Ögmundur skilur alls ekki þessa umræðu. Ekki bara vegna þess að það hentar honum heldur vegna þess að hann bara fattar ekki um hvað málið snýst. Segir bara að hér séu frábærir vísindamenn á ferð sem færa okkur sannleikann eina.

Gæti verið að til séu afburðavísindamenn sem hafa skoðun sem er algerlega á skjön við afstöðu VG? Á sá málflutningur ekki erindi við félagsmenn BSBR?

Tilgangurinn helgar hér algerlega meðalið. Allt er riddara sannleikans heimilt í eilífðar baráttunni fyrir því að berjast gegn öllu sem heitir einka. Hann vill að menn eins og hann sjálfur taki allar ákvarðanir fyrir mig og þig.

Svo eru það menn eins og ég sem vilja hreint endilega að gaurar eins og Ögmundur komi sem minnst að því að taka ákvarðanir fyrir mig.

Röggi.

Slagsmál fyrirliðans.

Hermann Hreiðarsson fyrirliði landsliðsins í fótbolta er einstakur náungi. Glerharður og skemmtilegur eins og Vestmannaeyingar eru almennt. Veit ekki um nokkurn mann sem ekki ber mikla virðingu fyrir Hermanni.

Hress og hreinskiptinn og baráttumaður umfram allt. Eitthvað svo mikið Íslenskur hann Hemmi. Frægur fyrir uppátæki sín og ærsl. Lífið og sálin í hverjum hópi.

Þorgrímur Þráinsson tók kappann tali fyrir 24 stundir. Er að reyna að ryfja upp hvort ég hef nokkurn tíma lesið slappara viðtal. Eins og tveir smástrákar séu á spjalli þar sem allt snýst um að toppa síðustu grobbsögu.

Í þessu tilfelli snúast sögurnar og viðtalið i raun að stærstum hluta um slagsmál. Hvern Hermann hafi nú meitt mest og hvern síðast í gannislag auðvitað. Tíunduð 40 mínútna slagsmál á hótel herbergi við annan landsliðsmann, allt í góðu auðvitað, en þó tekið fram herbergið hafi verið í rúst.

Hér gleyma þessi öndvegismenn því báðir að Hermann er fyrirmynd, eða á að vera það. Ungir íþróttamenn og konur líta upp til hans. Þess vegna held ég að skynsamlegast sé að gera sem minnst úr þessari slagsmálaáráttu Hermanns. Einnig finnst mér valið á fyrirsögninni hreinlega barnalegt enda ekki mjög margir sem hafa sannfæringu yfir því að slagsmál séu góð leið til samskipta almennt.

Hörmungardagur hjá öllum viðkomandi.

Röggi.

fimmtudagur, 11. september 2008

Amatörismi hjá rúv.

Horfið á landsleikinn við Skotland í gær. Get vart orða bundist því starfsmenn íþróttadeildar rúv allt að þvi eyðilögðu leikinn. Þeir lýstu nær eingöngu störfum dómarans og ég leyfi mér að fullyrða að leitun sé að sjónvarpsstöð sem býður upp á svona amatörisma.

Getur verið að rúv ætli að bjóða upp á það í framtíðinni að menn hagi sér svona? Spjallið sem þeir Snorri og Þórhallur Dan áttu yfir leiknum hefði verið fínt á knæpu í góðra vina hópi.

Við vorum búin að koma okkur upp fyrirfram skoðun á þessum dómara og það skein í gegn. Að mínu mati var hann ekkert sérstakur í leiknum en stóru ákvarðanirnar var hann með kórréttar.

Ekki er mjög langt síðan starfsmaður íþróttadeildar rúv viðhafði fáránleg ummæli um bandarískan spretthlaupara þar sem honum tókst í einni setningu að svívirða bæði samkynhneigða og svarta.

Er þetta að verða munstur? Hef fulla trú á ritstjóra íþróttadeildar rúv og er þess fullviss að hann snýr við blaðinu í þessum efnum. Annars er hætt við að sú virðing sem menn eins og Bjarni Fel byggðu upp áratugum saman gufi upp á skömmum tíma.

Röggi.

þriðjudagur, 9. september 2008

Einkakreddur VG.

Datt fyrir tilviljun inn í umræður um heilbrigðismál í þinginu á kvöld. Held að málið hafi verið umræða um sjúkratryggingamálefni en þegar ég kem að er rifist um grundvallaratriði í heilbrigðismálum, hvort einkarekstur er hollur eður ei.

Alveg er fullkomlega geggjað að heyra hvernig VG lætur ef einhver segir "einka" um nokkurn skapaðan hlut. Minnir um margt á fólkið sem fær grænar bólur ef einhver minnist á iðnað að ég tali nú ekki um ál..

Allt skal vera ríkisrekið þó leitun sé að einhverjum rekstri sem ríkið stendur betur að en einkaaðilar. Hér á landi er stór hluti okkar kerfis einkarekinn og enginn kvartar enda þjónustan ekki verri og þar ekki litið á sjúklinginn sem sjúkling eingöngu heldur viðskiptavin sem þarf að þjónusta og hafa ánægðan.

Brúsann borgum við svo öll eins og áður en í þessu tilfelli er ramminn þrengri og peningakraninn sem læknar hafa aðgang að hjá ríkinu fær bara ákveðinn skammt. Kostnaðarvitundin önnur enda ekki hægt að stóla sífellt á auknar fjárheimildir. VG telur slæmt að menn vilji reka fyrirtækið með hagnaði. Það get ég bara alls ekki skilið. Hvað er unnið með taprekstri? Er endilega samasemmerki milli hagnaðar og lélegrar þjónustu??

Birgir jakobsson yfirlæknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Sviðjóð hefur reynsluna af því að vinna hjá ríki og einka. Hann var til vinstri síðast þegar ég vissi. Hvernig væri að VG og fleiri reyndar fengju hann til að koma hingað og flytja fagnaðarerindið og gera samanburð.

Ég hef lesið viðtöl við hann og kysi hann sem ráðherra heilbrigðis fram yfir hvern einasta annan mann. Hann getur kennt kreddu liðinu hérna að það er ekkert að óttast þó einhver annar en ríkið sjái um að reka heilbrigðisþjónustu.

það vill nefnilega þannig til að þeir sem starfa í einkageiranum eru bara fólk eins og ég og þú sem vill gera vel og ná árangri.

Röggi.

laugardagur, 6. september 2008

Stigið varið.

það hlaut að koma að því. Ólafur landsliðsþjálfari er búinn að taka sóttina. Finnur þrýstinginn og pressuna og verður einhvern veginn hálf vanmáttugur. Hann er smátt og smátt að tapa sínum áður sjarmerandi einkennum og hljómar nú nánast eins og langþreyttur landsliðsþjálfari.

Nú skal stigið varið. það er að segja stigið sem hann telur að við höfum í hendi áður en flautað er til leiks. Þessi málflutningur hefur aldrei heillað mig. Svona tala þeir sem ekki ætla að ná árangri, þeir sem eru hræddir og í vörn.

Við höfum að sjálfsögðu ekkert stig þegar flautað er til leiks til að verja. Stigið sem Óli girnist er stig sem við þurfum að sækja. Á þessu tvennu er reginmunur.

Við tölum okkur stundum niður fyrir leiki. Tölum mikið um að verjast og gera ekki mistök og ekki fá á okkur mörk og sérstaklega ekki snemma. Við erum allt að því komin í nauðvörn áður en til leiks kemur.

Hvenær fáum við þjálfara sem þorir að nefna það að hann vilji skora mörk og jafnvel sigra. Okkar menn eru orðnir svo lafhræddir við að fá á sig mark að stundum þegar það gerist, og það gerist yfirleitt, þá hrynur planið í heilu lagi.

Legg til að við sækjum að lágmarki eitt stig í leiknum í dag.

Röggi.

föstudagur, 5. september 2008

Ekkifréttirnar um FL Group braskið.

Dögg Pálsdóttir kom sér í fréttirnar vegna bloggs um FL Group myndböndin. Merkilegt að hún skuli komast í fréttirnar fyrir það að blogga um fáránlega þögn fjölmiðla um viðskipti þessara manna.

Við sem höfum allan tímann reynt að benda á framkomu þessara manna höfum almennt verið talin með þessa menn á heilanum. Líklega persónulega í nöp við þá og gott ef ekki öfundsjúk. Auk þess trúlega sjálfstæðismenn og þá sjálfkrafa vanhæf.

Erfitt er að verjast þeirri hugsun að engu máli skipti að umræddir aðilar eiga fjölmiðla. kannski er bara heppilegra að trúa því að annað hvort metnaðarleysi eða leti ráði því fjölmiðlamenn fjalla ekki um hlutina..

Og svo hitt. það er kannski ekki sérlega viðfelldin hugsun að fá yfir sig hálaunaða lögfræðinga árum saman sem hafa það meginverkefni að sverta embættismennina og aðra sem um þessi mál véla heldur en að verjast ásökununum.

Auðvitað er víðáttusorglegt ef þessir viðskiptahættir eru eðlilegir og ekki er það minna dapurlegt ef hvorki fjölmiðlar eða lögregla og dómstólar leggja í slaginn.

Ég og þú erum nefnilega fólkið sem á endanum borgum brúsann...

Röggi.

mánudagur, 1. september 2008

Fúsk hjá rúv.

Sit hér og horfi á fótboltaleik í kassanum. Spenna í undanúrslitum á fínum velli í flottu veðri. Allt gott og blessað þannig séð.

Eitt finnst mér þó undarlegt. Valtýr Björn hefur sér til fulltingis gæðapiltinn Kristján Guðmundsson. Hann hefur að sönnu mikið vit á fótbolta og sér margt sem við leikmenn sjáum ekki. Akkúrat þannig eiga lýsendur að vera...

Spurning er þó hvort þeir eiga að vera starfandi þjálfarar í efstu deild. Þarna situr hann og talar um vinnu starfsbræður sínna og keppinauta og störf dómara. Gefur leikmönnum einkunnir og heimtar á þá spjöld og hvað eina.

Þetta finnst mér fúsk og ófaglegt bæði hjá rúv og Kristjáni. Mikið óskaplega búum við illa að geta ekki fengð aðra en starfandi þjálfara til að lýsa leikjum hjá liðum sem þeir eru að jafnaði í keppni við.

Röggi.

Viðskiptavit Gunnars Smára.

Það kom ekki alveg eins og þruma úr heiðskýru lofti að Nyhedsavisen fór á hausinn. Ja. nema kannski Gunnari Smára og félögum. Eins og þegar Gunnar Smári reiknaði það í botn að NFS gæti ekki klikkað á sínum tíma þá brást honum reiknisnillin aftur hér. Reyndar tókst að finna fjárfesti til að koma að rekstrinum nýverið. Hvernig það hafðist er mér hulin ráðgáta en eigendur þessa blaðs eru að vísu miklir sjónhverfingamenn.

Gunnar Smári er hugmyndaríkur maður og hefur á undrastuttum tíma tekist að tapa óhemjumiklu fé. Efast ekki um burði hans sem blaðamanns en eitthvað eru honum mislagðar hendur þegar kemur að rekstri fjölmiðla. Fréttablaðið reyndar virkar ennþá en ég man samt eftir fyrstu útgáfu blaðsins áður en Jón Ásgeir kom að...

Núna vinnur Gunnar Smári fyrir borgina á sviði sem ætti að henta honum vel. kannski er þetta eins og það á að vera. Menn sem ekki ná árangri á einkamarkaði enda hjá opinberum aðilum.

Þar skiptir hvort sem er ekki alltaf máli hvað vitleysan heitir eða hvað hún kostar...

Röggi.

Hver er hræsnari?

Andri Snær Magnason ritar grein í Moggann í dag. Þar býsnast hann yfir því að blaðið vogar sér að minnast á hræsni Bjarkar sem Andri telur vera eina af bestu systrum okkar lands og þess vegna eigi skoðanir hennar líklega að hafa meira væri en okkar óbreyttra sem hvorki skrifum bækur né stundum söng.

Andri kemst að þeirri flottu niðurstöðu að við framleiðum nú þegar nægilega mikið af áli fyrir okkur sjálf og því sé eðlilegt að láta staðar numið. Mergjuð röksemdafærsla verð ég að segja. Við ættum kannski líka að veiða eingöngu þann fisk sem við látum ofan í okkur sjálf. Prenta eingöngu það magn sem við Íslendingar viljum lesa af bókum eftir Andra Snæ. Við vitum hversu mjög er gengið á regnskógana þegar pappírinn í bækurnar hans Andra er framleiddur. Kannski ættu stál og álframleiðendur í hverju landi eingöngu að hugsa um innanlandsmarkað en ekki vera að velta því fyrir sér Andra Snæ langar að kaupa sér bíl eða að fá sér kók í áldós.

Andri tilheyrir hópi fólks sem heldur að hlutirnir verði til af sjálfu sér. Að þau lífsgæði sem hann býr við hafi bara sprottið upp úr jörðinni af því að fluggáfaðir forfeður okkar tóku að lesa bækur og skrifa. Steinum hafi hvorki verið velt né sprænur virkjaðar.....

Kannski er best að við séum algerlega sjálfbær. Og auðvitað væri æði ef við þyrftum hvorki að veiða fisk né að hrófla við náttúrunni. Allt væri ósnert við lifðum praktuglega í állausum heimi að lesa bækur og drekka kaffi. Því miður er sá raunveruleiki aðeins til í bókum sem framleiddar eru úr pappír sem hugsanlega er frá landi þar sem orkan sem knýr verksmiðjurnar er örugglega ekki eins vistvæn og sú sem við notum......

Röggi.