mánudagur, 27. febrúar 2012

Búsáhaldabyltingin finnur sér óvin

Spaugilegt að fylgjast með því hvernig "eigendur" búsáhaldabyltingarinnar eru að bregðast við því að lögreglumaðurinn Geir Jón ætlar að segja okkur sögur af því hvernig afstaða og framkoma bæði þeirra sem voru fyrir utan þinghús og innan þegar mest lét var.

Nú er Geir Jón ekki lengur hinn járntrausti og mikilsvirti lögreglumaður sem hann hefur alltaf verið heldur skilgreindur óvinur sem ekki er mark á takandi. Öfugt við suma aðra sem þykjast geta boðið söguriturum upp á hlutlaust mat á öllu sem snýr að þeirri atburðarás sem varð á endanum til þess að flestu sómakæru fólki var ofboðið að fylgjast með fólki lumbra á lögreglumönnum sem höfðu það til saka unnið að gera það sem þeim ber að gera og munu alltaf gera þegar fólk vill beita ofbeldi í baráttu fyrir málsstað sinn.

Af hverju slyldu þeir sem stóðu í farabroddi slagsmálanna telja sig eina þess bæra að segja söguna? Hver gefur fólki einkaréttinn í þeim efnum?

Ég sé ekki betur en að byltingarfullttrúar sumir hafi tekið til við að neita því sem Geir Jón hefur að segja og það áður en hann hefur talað. Hvað óttast fólk að hann hafi fram að færa?

Lögreglumenn eru með ýmsar pólitiskar skoðanir en ég þori að veðja að þeir hafa ekki haft tíma til þess að stilla þær af þessa daga. Fyrir mér er það ruddalegt í meira lagi að neita að taka mark á því sem forystumenn lögreglunnar hafa um þessa daga að segja af því að Geir Jón er ekki í "réttum" flokki. Hversu langt nennir fólk að ganga í pólitískum rétttrúnaði?

Þessi bylting hefur auðvitað étið börnin sín fyrir nokkru og nú vilja þessi börn ekki að aðrir en rétthugsandi menn fá að tala.

Ekki finnst mér mikil reisn yfir þessu....

Röggi

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

...og ráðherrann fagnar.

Það er ekki auðvelt hlutskipti að vera hluti af þeim þingmeirihluta sem samþykkti ólögin hans Árna Páls. Ég reyndar les það í Fréttablaðinu i morgun að ráðherrann fyrrverandi fagnar niðurstöðu hæstaréttar.

Árni Páll er ekki fæddur í gær og reynir að sið atvinnumanna í pólitík að snúa þessum ömurlega ósigri í rennandi sigurgöngu. Hann sér þetta þannig að ólögin hans hafi í raun fært fólki fé frá upphafi og muni gera það enn frekar með þessum úrskurði. Og þessu fagnar Árni Páll.

Hversu langt er hægt að seilast í pólitískri ósvífni? Þegar dómstólar ógilda íþýngjandi löggjöf ráðherra og tryggja lántakendum meiri rétt fagnar ráðherra og reynir að eigna sér heiðurinn.

Einnig sést það á fyrstu viðbrögðum þeirra sem enn hafa þrek til þess að verja allt sem þessi ríkisstjórn gerir með því að benda á stjórnarandstöðuna að ekki eru miklar líkur til þess að þeir sem tóku ákvörðunina finni neinn styrk eða fái hvatningu til að taka á henni ábyrgð.

Engir PR snillingar eða vinveittir fjölmiðlar auk álitsgjafa eða bloggara. Orðhagir ráðherrar og aðstoðarmenn. Engum mun takast með orðhengilshátt og útúrsnúninga að vopni auk áunnins misskilnings að koma þessu klúðri á stjórnarandstöðuna.

En ég spái því að það verði taktíkin og verður áhugavert og afhjúpandi að sjá hverjir munu taka þátt í þeim farsa. Því þó þeim fari hratt fjölgandi fylgismönnum vinstri flokkanna sem vilja lágmarka skaðann og hætta þessu samstarfi eru þeir sem ráða för enn að skilgreina pólitískan árangur á þann hátt að hann náist með því einu að sitja að völdum.

Sá sigur er beiskur og okkur öllum dýrkeyptur.

Röggi

miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Dómur er fallinn

Nú er kannski ekkert að marka mig verandi sá Sjálfstæðismaður sem ég er en eftir dóm hæstaréttar varðandi endurútreikninga gengistryggðu lánanna verður ekki betur séð en að Jóhanna verði að spreða einu af níu lífunum sem hún segir þessa ríkisstjórn hafa til þess að lifa þennan dóm af.

Á meðan fjölmiðlar pólitískir eyða öllu púðri í að elta stjórnarandstöðuna hefur gagnslausasta ríkisstjórn sögunnar gert fátt annað en að tefja fyrir því að við komumst út úr kreppunni. Um það eru í raun allir hagsmunaaðilar sammála.

Öll lögmál þekkt í stjórnmálum hefðu fyrir löngu losað bæði þjóðina og flokkana sem sitja uppi með hvorn annan við þá ánauð sem þessi stjórn er ef ekki væri fyrir ótta þeirra einstaklinga sem sitja á þingi fyrir vinstrið um að missa þingsætið.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort væri verra hjá ríkisstjórninni aðgerðaleysið eða aðgerðirnar. Í dag eru það klárlega aðgerðirnar og verður áhugavert að sjá menn reyna að þvæla sig út úr þessu og einnig hvernig fjölmiðlar munu fjalla um þetta mál sem er skuldlaus eign ríkisstjórnar sem keyrði málið í gegn á sínum tíma þrátt fyrir skynsamleg varnaðarorð.

Röggi

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Kastljósið, Bjarni og ábyrgð fjölmiðla

Bjarni Benediktsson var í Kastljósinu hjá Helga Seljan í kvöld. Þar var hann að bregðast við umræðum sem hafa magnast undanfarið um viðskiptasögu Bjarna. Þessi umræða er rekin af DV sem hefur eins og svo oft áður ekki þörf fyrir annað en eigin sannfæringu þegar þar eru felldir dómar.

Helga Seljan tókst á endanum að gera Bjarna reiðann og það fór honum bara býsna vel og Seljan var á flótta eftir það og virtist brugðið og fann ekkert betra á blaðinu en spurningu sem verður án efa klassík í fjölmiðlafræði 101, nefnilega spurninguna um það hvað Bjarni hefði gert við peninga sem hann fékk fyrir hlutabréfasölu.......

Ég hygg að Helgi hafi sérgáfu á því sviði að reita menn upp enda hefur hann sérstakt lag á því að hlusta í engu á svör viðmælenda heldur þrástagast við spurningar sem hefur verið svarað og frammígrip formanns Framsóknarflokksins á þingi smámunir miðað það sem Helgi býður upp á.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé óskastaða fyrir stjórnmálamann að standa í svona löguðu en skil að Bjarni grípi til varna nú. Ég hef sterka samúð með því sjónarmiði að óþolandi er að fjölmiðill sem rekinn er áfram af pólitík telji sig ekki þurfa að taka þátt í umræðum sem byggja á rökum og grundvallaratriðum í lögfræði þegar ásakanir á hendur einstaklingum um lögbrot er haldið á lofti.

Kostulegt var að sjá Helga reyna að fá Bjarna til að bera ábyrgð á því sem bankarnir gerðu. Krafan um að þau fyrirtæki sem Bjarni kom eitthvað að séu einu fyrirtæki Íslands sem urðu ónæm fyrir falli bankanna er út í hött en spurningar Helga sem hlýtur að hafa átt betri daga byggðust á þeirri heimspeki stundum.

Það er svo staðreynd að Bjarni Ben var ekki einn um þá vitneskju að bankarnir voru í veikri stöðu þegar hann seldi bréf í banka. Þetta var enda ekki leyndarmál hvorki fyrir honum né öðrum á þessum tíma og hver sérfræðingurinn ofan í annan skrifaði lærðar greinar um málið og gott ef ekki Bjarni sjálfur auk þess sem mikil lækkun á bréfum bankanna var ekki einkavitneskja nokkurs manns.

Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að þau gildi sem vestræn ríki hafa valið sér um réttarríkið sé góð leið til að kveða upp úr um sekt eða sakleysi manna. Þannig er best tryggt að allir verði jafnir þegar gert er upp.

Þessu hafna margir nú um stundir eða reyna að vera með valkvæða skoðun á slíku. Skoðun sem byggir á því að rannsakendur og dómstólar séu til skrauts nema þegar þeir komast að réttri niðurstöðu.

DV og þau 12% sem treysta blaðinu telja að skoðun á málum Bjarna hafi ekkert gildi. Niðurstöður þeirra athugana hlutlausra aðila skipta ekki máli ef sannfæring blaðsins er nógu mikil fyrir öðru. Enginn þarf þó að efast um að öndverð niðurstaða í sama máli yrði burðaratriði í umfjöllun blaðsins.

Ég skil vel að stjórnmálamenn eru í viðkvæmari stöðu en margir aðrir og til þeirra verður að gera kröfu um traust. En ef þeir sem stunda stjórnmál geta ekki með neinum rökum varið sig fyrir umfjöllun fjölmiðla þá verður að spyrja á hvaða vegferð erum við? Hafa stjórnmálamenn enga möguleika og enga leið til andsvara gagnvart fólki sem gefur út blöð?

Þeir sem gleðjast nú af pólitískum ástæðum ættu að skoða þessi mál í stærra samhengi. Fjölmiðar hafa ekki bara réttindi heldur einnig skyldur og ábyrgð þeirra er stór. Enda nota þeir sem gefa út blöð röksemdina um ábyrgð og skyldur alltaf sér í hag og hirða oft lítið um réttindi þeirra sem um er fjallað.

Hvernig væri staðan hjá okkur ef dómstólar lifðu eftir prinsippum sem sumir fjölmiðlar lifa eftir? Þar sem sönnunarbyrðin er ávallt hjá þeim sem er borinn sökum og meðferð málsins lýkur ekki fyrr en vitnið hefur játað hvað sem rök og leikreglur segja. Þannig hagar DV sér stundum og þeir sem hafa hagsmuni af öllu saman láta glepjast af stundarhagsmunum stórpólitískum.

Ég velti því fyrir mér hvernig fólk sem fjölmiðill hefur sakfellt getur í raun losnað undan refsingunni sem fylgir því að fá fleiri hundruð greinar um sig í blaði þar sem engin svör hvernig svo sem reynt er eru tekin gild.

Það er ein stærsta spurningin sem er ósvarað eftir heimsókn Bjarna í Kastljósið.

Röggi

föstudagur, 10. febrúar 2012

Meirihluti og pólitískir sóðakarlar

Það er skemmtilegt á vissan hátt að fylgjast með viðbrögðum við myndun nýs meirihluta í Kópavogi. Allt að því fullkomin móðursýki og gildishlaðin stóryrði einkenna tal margra. Reyndar er ósanngjarnt að gera miklar kröfur til Björn Vals. Hans framlag er að jafnaði dónaskapur um persónur á milli þess sem hann hefur skoðanir á þingi sem eru fyrir neðan allar hellur og er ég þá ekki endilega að vísa í Icesave 1..........

Menn láta eins og nýr meirihluti hafi rænt völdum með vopavaldi að næturlagi. Hvurslags afstaða er það? Það hafði lítið með Sjálfstæðisflokkinn að gera að oddviti Samfylkingar fékk augastað á bæjarstjórastól og linnti ekki látum fyrr en allt sprakk.

Það hafði einnig ekkert með Sjálfstæðisflokkinn að gera að ekki tókst með nokkru móti að búa til nýtt samstarf utan um þennan draum oddvitans. Allt var reynt dögum saman.....og vikur liðu. En allt kom fyrir ekki.

Það er nú þannig að lög um sveitastjórnir gefa ekkert svigrúm. Ekki verður kosið aftur fyrr en að fjórum árum liðnum. Þess vegna verður að mynda meirihluta og auðvitað endar það þannig.

Þess vegna er áhugavert að fylgjast með því hversu mikið pláss pólitískir sóðakarlar eins og Björn Valur og fleiri fá þegar menn nú úthúða þeim sem tókst að mynda meirhluta eins og þar hafi menn framið glæp.

Hin sorglega niðurstaða fyrir þá sem ekki geta unað því að búa við lýðræði í þesssum efnum hlýtur að vera að ekki virðist hægt að stjórna Kópavogi án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Hvernig ætli standi á því?

Það er nauðsynlegt fyrir þá sem ekki geta haldið aftur af andúð sinni á Sjálfstæðisflokknum en vilja samt láta taka mark á sér að gera sér fulla grein fyrir því að það hafði ekkert með þann flokk að gera að fyrrverandi meirihluti sprakk vegna deilna um vegtyllur fyrst og fremst.....

...og það er eðlilegur gangur mála að sveitarstjórnarmönnum í Kópavogi bar skylda til að mynda nýjan meirihluta. Það tókst og ekkert þarf að vera að því að menn hafi skoðanir á honum. En skilningur og virðing manna eins og Björns Vals fyrir lýðræðinu er bundinn við að hann og hans fólk fái að ráða.

Pólitíska umræðuhefðin sem sumum verður tíðrætt um á sunnudögum þarf ekki á því að halda að þeir sem bjóða best í kjafthætti og stóryrðum hafi að jafnaði orðið óháð innihaldi og inntaki.

Röggi

miðvikudagur, 8. febrúar 2012

Feluleikur Steingríms

Það er ekki verið að fela neitt eða fegra segir Steingrímur J þegar ríkisendurskoðandi skilur ekki af hverju 47 milljarða skuldbinding ríkissins vegna lífeyris er ekki gjaldfærð í reikningum Steingríms. Hér er því væntanlega um misskilning að ræða hjá embættismanninum.

Ég ekki von á því að mikið verði gert með þessa uppivöðslusemi ríkisendurskoðunar. Reynslan hefur sýnt að athugasemdir þaðan fara inn um eitt og út um hitt þegar pólitíkinni hentar.

Ég er hvorki endurskoðandi né bókari og er því kannski fyrirgefið þó ég skilji trauðla útskýringar ráðherrans. Steingrímur talar um að allt sé þetta nú normal hjá sér enda óeðlilegt að færa til gjalda þessa skuldbindingu þar sem enginn veit nákvæmlega hversu mikil hún verði þegar hún kemur til greiðslu.

Þetta er skemmtileg nálgun og nýstárleg nokkuð. Ég get þá samkvæmt þessu sleppt því að færa til gjalda lán vegna þess að ég veit ekki nákvæmlega hver endanleg upphæð verður til greiðslu hvorki mánaðarlega né endanlega.

Mér finnast útskýringar ráðherrans út í hött. Staðan varðandi þessa skuldbindingu er sú að ríkissjóður skuldar þessa upphæð núna og ríkisreikningurinn hlýtur að verða að sýna stöðuna eins og hún er. Hvort hún mun hækka eða lækka er algert aukaatriði.

En Steingrímur notar margþvælda Íslenska aðferð. Skuldin er einfaldega ekki til fyrr en reikningurinn dettur inn um lúguna!

Annars er það þannig að fáir hafa á þessu máli áhuga eða gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er ef ríkið getur ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar. Spyrjið þið bara Grikki sem eru að súpa seyðið eftir svona bókhaldsæfingar ráðamanna.

Þegar Geir Haarde tók við ríkiskassanum á sínum tíma í bullandi góðæri og sölu ríkisfyrirtækja notaði hann einmitt afgang af ríkissjóði til að greiða niður skuldir ríkissjóðs vegna þessara skuldbindinga.

Þá eins og nú hefur varla nokkur maður áhuga á svona málum. En það kemur að skuldadögum í þessu og þeir sem einu sinni héldu að bankar og ríkisstjórnir gætu ekki farið á hliðina ættu að vita að það voru einmitt svona bóhaldsæfingar sem hjálpuðu til í þeim efnum.

Röggi

þriðjudagur, 7. febrúar 2012

Lífeyrissjóðir og eftiráspekin

Nú er það vandi lífeyrissjóðanna sem fólk talar um. Þeir töpuðu stórfé í hruninu og virðist koma mörgum á óvart. Og nú vilja menn sjá blóð renna og finna einhverja til að axla ábyrgð. Mér finnst umræðan áhugaverð fyrir margar sakir.

Á Íslandi er glæpur þeirra sem eru gabbaðir talinn meiri en þess sem stundar gabbið og hleypur á brott með gróðann. Það er vel kunn staðreynd að fjármálakerfi heimsins hrundi með látum. Loftbóluhagkerfi byggt á allsherjar blekkingu undir það síðasta.

Og það er bókstaflega leitun að þeim sem ekki bitu á agnið hvort heldur er um að ræða eftirlitsstofnanir, ríkisstjórnir, efnahagsbandalög, matsfyrirtæki eða fagfjárfesta. Enginn sá þetta fyrir í tíma.

Og nú viljum ganga milli bols og höfuðs á þeim sem stjórnuðu lífeyrissjóðunum og fjárfestu í fyrirtækjum sem þóttu sallafín, sum meira að segja löngu eftir hrun. Flestir eru búnir að gleyma háværum kröfum um virka þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Hvar eru þeir nú sem vildu koma heim með eigur sjóðanna til að "bjarga" bönkunum dagana örlagaríku þegar Guð gleymdi að blessa Ísland?

Umræðan hefur snúist að ótrúlega miklu leyti um það hvort ferðir starfsmanna eru vinnuferðir eða hreinlega mútuferðir eins og lýðskrumarinn Saari kallar þær en hann fer mikinn núna og gleymir því þá að hann á sæti á löggjafarsamkomu okkar og þar eru sett lög m.a um lífeyrissjóði.

Stutt er síðan ráðherra einn varð að biðjast afsökunar þegar hann nefndi vinnuferðir og hagsmuni í sömu setningunni en nú tekur umræðan skrýtinn krók og allt er leyfilegt. Auðvitað verður að fara vel og gagnsætt með slíka hluti en ég ber litla virðingu fyrir tali um að allar slíkar ferðir séu alltaf óeðlilegar. Slík prinssipp hitta þá án efa mun fleiri en starfsmenn lífeyrissjóða illa.

Nú er tími eftiráspekinga sem allt vita nú en þögðu þá. Rithöfundur einn þótti orðsnjall þegar hann sagðist hreinlega ekki viðurkenna þau vísindi að menn segðu auðvelt að vera vitur eftir á. Heimurinn væri betri staður ef bara væri hægt að skrifa söguna áður að hún gerist eins og sumir bæði utan rithöfundastéttarinnar og innan virðast telja mögulegt. Það er staðreynd að stundum er ekki við öllu séð þrátt fyrir einbeittan vilja og sum mistök eru heiðarleg mistök.

Auðvitað á ekki að gefa afslátt hafi menn gerst sekir um lögbrot og ég ber mikla virðingu fyrir málefnalegri og uppbyggilegri gagnrýni á bæði strúktur lífeyrissjóðanna, restrarkostnað, fjölda þeirra og því hvernig valið er í stjórnir og valdinu dreift eða viðhaldið.

Ég er auðvitað ekki ósnortinn af umræðum um fjárfestingar lífeyrissjóðanna en mér sýnist þeir sem bjóða hæst og stundum ódýrast í umræðunni hafa orðið því miður og þá er hætta á að lítið gagn verði að til lengri tíma litið.

Röggi