Hún er skrýtin líðanin hjá okkur Sjálfstæðismönnum þessa dagana. Dagarnir eftir skellinn stóra. Sambland af svekkelsi en þó vissum létti. Botninum er vonandi náð en til þess að svo megi verða þurfum við kannski að hugsa margt upp á nýtt.
Ég kaus Bjarna Ben og er nú hugsi yfir hans stöðu. Honum verður ekki kennt um útkomu flokksins svo mikið er víst. Á sunnudag sagði hann að formennskutíð sín hæfist þann dag. Ég er að hluta sammála honum þar og nú eru hveitibrauðsdagarnir hans liðnir ef hægt er að kalla fyrsta mánuð hans í embætti hveitibrauðsdaga.
Hvert ætlar Bjarni sér með flokkinn? Ætlar hann að setja marki sitt á flokkinn og stefnuna til framtíðar eða verður hann rólega týpan sem fetar bara í fótsporin og forðast öll hugsanleg átök og ágreining? Sjálfstæðisflokkurinn þarf leiðtoga með bein í nefi en ekki formann með sjálfstýringu eins og má segja að hafi á stundum einkennt okkar fyrrverandi ágæta formann. Ágreiningur innandyra er eðlilegur hjá öllum flokkum og þá reynir á styrk og skapgerð forystumanna.
Stundum finnst mér flokkurinn minn vera eins og gömul kona sem ekki er hægt að bifa til eða frá. Ég sjálfur er langt frá því sannfærður um að aðild að ESB sé lausnin og deili þeirri skoðun með meirihluta flokksmanna. En ég er líka nokkuð viss um að stór hluti Sjálfstæðismanna er að komast á þá skoðun að ekki verði lengur umflúið að komast til botns í málinu. það er ekkert að óttast....
Flokkurinn á að sjálfsögðu að taka sér stöðu í málinu en lítil ástæða er til þess að tefja að málið verði tekið til skoðunar. Hvort sem menn eru á móti eða ekki þá þarf að flytja málið fyrir fyrir þjóðinni að lokum. Ef málsstaðurinn er góður þá mun þjóðin sannfærast með flokknum.
Líklega veit stór hluti Sjálfstæðismanna ekki nákvæmlega af hverju hann er á móti inngöngunni og ég er reyndar viss um að stór hluti fylgjenda veit ekki heldur af hverju innganga er góð. Okkur vantar mikilvægar forsendur til þess að geta tekið endanlega afstöðu. Þetta er óviðunandi staða þegar ESB umræðan er svo sterk sem raun ber vitni.
Sjálfstæðisflokkurinn á að sjálfsögðu að taka virkan og fullan þátt í umræðunni og fagna því að reynt verði að leiða málið til lykta. Mig grunar að Bjarni Ben sé þessarar skoðunar og kannski er þetta mál prófsteinn á það hvernig formaður hann ætlar sér að verða.
Hvernig hann mun leiða flokkinn í gegnum ESB málið. Haldi Bjarni að hægt verði að gera öllum til hæfis á þeirri vegferð er hann á villigötum. Bæði fylgjendur og andstæðingar innan flokksins hljóta þó að verða að sætta sig við aðildarviðræður og sanngjarna og málefnalega umræðu um samning í kjölfarið. Og una svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í því fellst enginn ósigur fyrir neinn heldur þveröfugt. Víglínan er bara ekki lengur þar sem hún var hvort sem okkur Sjálfstæðismönnum líkar betur eða verr. Við þurfum að beygja aðeins af en ekki að skipta um skoðun á málefninu.
Alls er ekki er víst að menn verði leiðtogar þó þeir veljist til formennsku. Nú reynir á hvern mann Bjarni hefur að geyma og ég hef fulla trú á honum.
Röggi.
fimmtudagur, 30. apríl 2009
Bjarni Ben, XD og ESB umræðan.
ritaði Röggi kl 09:30 10 comments
mánudagur, 27. apríl 2009
Stjórnarkreppan.
það er eins og við mátti búast frekar snúið að mynda ríkisstjórn VG og Samfylkingar. Hver smáfuglinn á fætur öðrum þarf að láta ljós sitt skína og koma fram með stórar og stefnumarkandi yfirlýsingar sem allar eru sagðar ófrávíkjanlegar.
Því er komin upp sú staða að annar verður að gefa eftir og það verður erfitt. Eins og ég sé þetta er engin önnur stjórn möguleg því ég vill ekki sjá Sjálfstæðisflokkinn fara í stjórn með einum eða neinum núna. Í mínum huga væri það vafasamt að fara núna þegar flokkurinn er í sárum og þarf að byggja sig upp innanfrá og hugsa margt upp á nýtt að leiða hugann að stjórnarþátttöku.
Ég held að þó að hægt sé að reikna Borgarahreyfinguna í stjórn að þá sé sá möguleiki ekki uppi á borði af nokkrum ástæðum. Því er ekkert annað í stöðunni en að kosningabandalagið standi við stóru orðin og komi okkur út úr vandanum.
þar bíða menn og konur með uppbrettar ermar og lausnir til handa heimilum og atvinnulífi ef eitthvað er að marka það sem haldið var fram í kosningabaráttunni. Hún snérist reyndar of lítið um slíka hluti. Kosningabaráttan snérist um styrki þangað til aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn áttu i hlut og ESB.
Og enn er þráttað um ESB á meðan við öll bíðum eftir aðgerðum hér heima fyrir. Í 80 daga hafa flokkarnir reynt að komast til botns í því máli og deilan harðnar ef eitthvað er. Samfylkingin er orðin eins máls flokkur sem byggir tilveru sína algerlega á ESB aðild. Engar aðrar lausnir eru til umræðu og það er pólitísk fötlun og líklega gagnslaus þjóðinni í dag.
Niðurstaðan gæti orðið sú að Samfylking gefi eftir af þeirri einföldu ástæðu að hún getur það. VG þarf að fara alveg í duftið ef ganga á að afarkostum Samfylkingar. Á hinn bóginn getur Samfylking kannski sætt sig við einhverja tilsökun því VG er ekki að fara fram á að ESB verði hent út af borðinu.
Furðulegir tímar því kosningabandalgið vann fínan sigur en þrasar nú um það hvor hafi unnið meira og hvor eigi að fá að svínbeygja hinn. Ég vona að þetta taki fljótt af því engan tíma má missa.
þetta fólk hefur haft 80 daga til að gera ekki neitt og við bara höfum ekki efni á meiri tímasóun.
Röggi.
ritaði Röggi kl 14:28 3 comments
fimmtudagur, 23. apríl 2009
Össur skiptir um skoðun!!
Þá hefur félagi Össur rekið pólitískt nefið út um gluggann. Og komist að því að síðasta skoðun hans á álversframkvæmdum á Bakka er sennilega ekki söluvæn núna. þá bara hefur hann nýja skoðun og uppfærða og tekur síðan bara á málinu síðar og þá væntalega tilbúin að kúvenda aftur. Allt eftir því hvað hentar þá.
Þetta er ástæðan fyrir því að hans pólitíska sól hnígur nú hratt til viðar. það snýst auðvitað ekki eingöngu um það hvað mér og minum finnst heldur miklu frekar um það hvað hans eigin segja, enda hefur styrkur hans minnkað hratt eftir prófkjörið góða. Pólitískt kjarkleysið og tækifærismennskan skín alltaf í gegn og vilinn til að segja það sem hann heldur að tilheyrendur vilji heyra hverju sinni.
Össur mærir samherja sína alltaf af mikilli íþrótt en finnur þeim svo allt til foráttu afturvirkt um leið og leiðir skilja og dregur þá hvergi af sér. Hann virðist maður líðandi stundar og það getur verið skemmtilegur eiginleiki á köflum en afleitur í pólitík.
Össsur hefur látið sig vanta nú í nokkra mánuði á tímum þegar við þurftum alvöru stjórnmálamenn. Þá hvarf kallinn og eftirlét öðrum erfiðu störfin óvinsælu en birtist svo blaðskellandi um leið og sigur er í nánd eða þá að einhver sýnist liggja vel við pólitísku höggi.
Þetta er pólitíkusinn Össur Skarphéðinnson í hnotskurn. Á sínum bestu stundum skeinuhættur andstæðingur og ljúfur samherji og betri penni finnst ekki. Hans ríkulegi heimamundur nýtist honum bara svo takmarkað því hann þolir ekki mótvindinn en það eru einmitt eiginleikar sem eru svo nauðsynlegir núna.
Þess vegna er það í sjálfu sér litil frétt þó hann skipti um skoðun og það verður heldur ekki nein frétt þegar hann skiptir um hana aftur.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:40 3 comments
Hver á samleið með VG?
Auðvitað hlaut að koma að því að VG reyndu að slíta sig frá Samfylkingunni. Samfylkingin hefur algerlega verið í bílstjórasætinu í samstarfi vinstri flokkanna. Málefni VG hafa ekki komist að en mælingar á fylgi flokkanna hafa greinilega aukið sjálfstaust VG sem lætur nú loks á sér kræla.
VG ætlar, öfugt við Samfylkingu!, að hækka skatta og lækka laun. Mér finnst smart hjá þeim að segja þetta fyrir kosningar og heiðarlegt. Flokkurinn ætlar, öfugt við Samfylkingu, alls ekki inn í ESB. VG ætlar líka alveg á skjön við Samfylkingu alls ekki að leyfa fleiri álver og nú er upplýst að VG ætlar að snuða félaga Össur um olíuleitina.
Sérstaða VG er talsverð og undanfarna daga hefur flokkurinn verið að undirstrika hana og uppsker aukið fylgi af ástæðum sem mér eru ókunnar. Auðvitað nýtur flokkurinn þess svo að ekki hefur verið hægt að finna spillingarlykt úr þeirri áttinni, ennþá.
Um hvað eru vinstri flokkarnir sammála? Þeir eru að sönnu sáttir við að vinna sigur í kosningum og gleðjast yfir óförum Sjálfstæðisflokksins en lengra nær það nú varla. Það verður þó að teljast líklegt að flokkarnir lemji saman ríkisstjórn en hún verður ekki langlíf.
Ef málefni eru skoðuð sést að enginn á alvöru samleið með VG. Ekki einu sinni Samfylkingin og það er að renna upp fyrir henni nú á endasprettinu þegar VG skríður út undan feldinum.
Og hvað gera bændur þá?
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:24 6 comments
miðvikudagur, 22. apríl 2009
Styrkjafarsinn.
Mér sýnist kosningarnar núna ætla að snúast um styrki því miður. Þeir sem trúðu því að Samfylkingin væri með hreina samvisku í samskiptum við Baug hljóta að vera með böggum hildar nú. Í mínum huga er enn mjög mikið starf óunnið í því að moka skitnum sem liggur eftir þá mafíu upp á yfirborðið.
Fylgismenn Samfylkingar hvort sem er um að ræða hér á bloggsíðum eða annarsstaðar hljóta ef menn eru útbúnir einhverri sjálfsvirðingu að skammast sín. Ekkert hefur vantað upp á dónaskapinn nafnlausan oft og fúkyrðaflauminn. Ég bíð nú spenntur við skjáinn því ef ég þekki þetta fólk rétt þá tekur nú við dauðaþögn í ætt við þögnina sem varð þegar upplýstist um hótanir Ingibjargar sem Guðlaugi Þór voru ætlaðar. Og að likindum missa fjölmiðlar áhuga á málefninu.
Ég fyrir mitt leiti hef ekki farið dult með skoðanir mínar á Baugi og þeirri mafíu allri og finnst gersamlega óþolandi að þurfa að horfa upp á fólk úr mínum flokki hafa þegið fé þaðan. Sjálfstæðismenn hafa reynt að taka til hjá sér í kjölfarið og vona ég svo sannarlega að ekki finnist meira en nú þegar er kunnugt um. Nú verður æsispennandi að sjá hvernig Samfylkingin tekur á sínum málum. Ég spái vettlingatökum og þögn sem verðu þó að líkindum rofin með Morfísstælum frá olíumálaráðherra.
Þetta er rétt að byrja því enn er ekki upplýst hverjar skuldir flokkanna eru og hverjum þeir skulda. Ég hef aldrei skilið af hverju bókhald flokkanna er lokað og nú hlýtur að vera leitun að mönnum sem reyna að standa gegn því í framtíðinni.
Sagan er ekki hálfsögð og mig grunar að Samfylkingin hafi nú talsvert minnkandi áhuga á þeirri sagnfræði.
Röggi.
ritaði Röggi kl 17:48 10 comments
þriðjudagur, 21. apríl 2009
Árni Páll og tjáningarfrelsið
Árni Páll Samfylkingarmaður virðist ekki bara telja að andstæðingar sínir séu fífl. Hann trúir því greinilega líka að fólk sé fífl. Nú krefst hann þess að Sjálfstæðisflokkurinn afneiti auglýsingum og vefsíðum og láti auk þess loka þeim. Látum ekki tala til okkar eins og við séum fífl.
Mikill er máttur stjórnmálamanna en að þeir geti slökkt á tjáningarfrelsinu eins og hentar félaga Árna Pál er vonandi ekki hægt. Ef Sjálfstæðisflokkurinn gerði svipaða kröfu á Samfylkinguna yrði hún trúlega að fastráða menn í fullt starf, á vöktum.
Við erum þjóðin hvort sem Árn Páll trúir þvi eða ekki og við þurfum ekki leyfi frá einum eða neinum til að tjá okkur. Auglýsingar flokkanna eru eftir því sem ég best veit greinilega auðkenndar og því algerlega út í bláinn að reyna að drepa málum á dreif með svona málflutningi.
Látum ekki kosningabandalagið komast upp með að ræða það ekki sem skiptir máli.
Röggi.
ritaði Röggi kl 15:05 9 comments
mánudagur, 20. apríl 2009
Grímulaus Grímur.
það er margt mjög skrýtið í kýrhausnum. Vinstri menn geta illa ekki sætt sig við að Mogginn skuli voga sér að hafa skoðanir sem ekki henta til vinstri. Grímur Atlason lætur þetta pirra sig og telur Moggann fella einhverja grímu með því að blaðið hefur tekið afstöðu í þjóðmálum.
Grímur á því ekki að venjast frekar en aðrir vinstri menn að fjölmiðlar séu grímulausir. Fjölmiðlaveldið hans Jóns Ásgeirs hefur nefnilega alltaf verið með grímu þó hún hafi verið gégnsæ flestum mönnum. Og ekki hefur afstaðan þurft að trufla.
Grímur tengir saman afstöðu Moggans því að blaðið fékk hluta skulda felldar niður af ríkisbanka. Ég vona Gríms vegna að hann sé ekki að meina það sem ég held að hann sé að meina. Kannski félagi Grímur telji að Mogginn eigi þá að hafa skilyrtar skoðanir sem henta þeim sem felldu skuldirnar niður?
Hvað er það í pólitísku uppeldi vinstri manna sem veldur þessu óþoli gagnvart öðrum skoðunum en bara þeim sem þeir trúa? Hvers vegna má Mogginn ekki hafa skoðanir? Af hverju þenjast vinstri taugar félaga Grims út þegar blaðið sveigir til hægri í afstöðu? Og hvernig tekst honum að tengja þetta allt saman við niðurfellingu skulda?
Það setur óneitanlega að manni hroll við nálgun Gríms Atlasonar í þessu máli og vonandi verður þessi hugsunarháttur gleymdur þegar kemur að því að stjórnmálamenn fara að handvelja fyrirtæki sem skulu fá fyrirgreiðslu bankanna eftir kosningar.
Röggi.
ritaði Röggi kl 23:57 4 comments
sunnudagur, 19. apríl 2009
Er bannað að heyja kosningabaráttu?
Vinstri menn með besserviserinn Egil Helgason í broddi fylkingar ganga nú nánast af göflunun af því að hægri menn ætla sér að stunda kosningabaráttu. Samfylkingarbloggarinn Dofri Hermannsson missir sig í dónaskap í geðshræringu sinni eins og títt er orðið með nýstirnin á himni Samfylkingarinnar.
Auðvitað er þessu fólki öllu ákveðin vorkunn. Egill Helgason telur sig þess umkominn að tala niður til allra sem ekki hafa réttu skoðanirnar og sjónarhornin og skammast yfir nafnleysi nema þegar það hentar honum sjálfum. Aumingja Dofri er auðvitað vanur því að flokkurinn hans eigi fjölmiðlaumfjöllun skuldlausa ef svo má taka til orða!
Helst er á Samfylkingarkórnum með Egil í broddi fylkingar að skilja að Sjálfstæðisflokkurinn megi ekki stunda kosningabaráttu. Hvergi er reynt að bregðast málefnalega við heldur er bara bölvast yfir því að verið sé að standa í baráttunni.
Hann er óþægilegur sannleikurinn og miklu hentugra að bregðast við honum eins og Baugsfólkið gerði árum saman og ráðast bara að þeim sem segir hann í stað þess að þurfa að verjast honum. þetta er skotheld aðferðafræði. Hrokinn í því að þola ekki neinar skoðanir eða túlkanir nema sínar eigin skín í gegn.
Dofri og félagar telja að auglýsing í Mogganum standist ekki en ekki er vegur að fá flokkinn hans til að segja nokkurn skapaðan hlut um hvað hann hyggst gera eftir kosningar. Er til of mikils mælst að Samfylkingin taki þátt í umræðum um þær skattahækkanir sem hún ætlar að ausa yfir heimili og vinnustaði eftir 25.apríl?
Fyrst Dofri veit sannleikann í málinu færi vel á því að hann léti af stóryrðum og upplýsti okkur. Kosningabarátta er nefnilega ekki háð þannig að Samfylkingin sé stikkfrí og ekki sé leyfilegt að fjalla um flokkinn og það sem hann stendur fyrir.
Röggi.
ritaði Röggi kl 18:23 18 comments
laugardagur, 18. apríl 2009
Hroki Páls Magnússonar.
Páll Magnússon forstjóri RÚV skrifar merka grein í Moggann í dag. Þar reynir hann að verja þann gjörning menntamálaráðherra að breyta skuldum RÚV í hlutafé. Sem fyrr vantar akkúrat ekkert upp á hroka forstjórans í garð annarra sem reyna að reka fjölmiðla á eðlilegum kjörum í samkeppni við ríkisrekið ofureflið sem Páli virðist svo gersamlega fyrirmunað að reka svo einhver bragur sé á.
Páll kvartar undan hlutum sem snúa að rekstri risans ríkisstyrkta sem allir aðrir sem standa í rekstri hér á landi þurfa að glíma við án þess að menntamálaráðherra komi hlaupandi til. Nefnilega óhagstæð ytri skilyrði.
það er algerlega orðið óþolandi að fylgjast með þessum hálaunaða ríkisforstjóra sýna þeim sem voga sér að hafa skoðanir á RÚV hroka og yfirlæti. Þetta er maðurinn sem kvartaði sáran undan því á sínum tíma að þurfa að vera í samkeppni við rikið en bregst núna bæði minni og auðmýkt í garð þeirra sem glíma við ofureflið.
Eitt er að ríkið ætli sér eftir geðþótta stjórnmálamanna að handvelja þau fyrirtæki sem þurrhreinsa skal af skuldum svo þau geti af endurnýjuðum ríkisþrótti lamið á restinni af markaðnum, Penninn er gott dæmi, en annað að menn í stöðu Páls Magnússonar skuli alltaf bregðast við gagnryni með þeim hætti sem gerir. Hver man ekki eftir því hvernig hann tók á undirboðum RÚV á auglýsingamarkaði?
það setur að manni hroll við tilhugsunina um fjölgun ríkisfyrirtækja sem munu í framtíðinni njóta forréttinda í samkeppni við einkarekstur og heldur eykst nú hrollurinn við lestur greinar eins og Páll Magnússon nennti að skrifa í Moggann.
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:40 2 comments
föstudagur, 17. apríl 2009
Fríspil kosningabandalagsins.
Hefur einhver heyrt af því að kosningarnar eru næstu helgi? Reyndar hafa starfsmenn RÚV fattað það og standa fyrir umfjöllun en aðrir rolast bara í aukaatriðum sem vissulega skipta sum einhverju en það er þögnin um aðalatriðin sem er fáránleg.
Súlustaða ríkisstjórnin kemst upp með það að láta umdeildar breytingar á stjórnarskrá verða aðalamál þingsins á meðan þjóðin býður í ofvæni eftir þvi að smiðirnir sem áttu að slá upp skjaldborginni um heimilin mæti.
Helst er að skilja að það standi upp á Sjálfstæðsglokkinn að koma með upplýsingar um það hvernig skattastjórnin ætlar ser að leysa vandann. Flokkarnir sem virðast ætla að fá yfirburðafylgi til að vinna að skattahækkunum sitja nánast ekki fyrir svörum.
Nú er gaman að vera VG og Samfylking. Allar ár renna til Dýrafjarðar og fjölmiðlar sem hafa svo mikið að segja spila með. Flokkarnir eru í raun ekki sammála um neitt nema að vinna sigur í kosningunum og gleðjast yfir ógöngum Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera gefandi skemmtun en skilar okkur sem þjóð ekki miklu eftir kosningar.
Öllum er ljóst að þeir vilja vinna saman eftir kosningar og einungis pólitískar náttúruhamfarir koma í veg fyrir það. Samt bólar ekkert á útfærðum hugmyndum og ef yfirlýsingar flokkanna eru skoðaðar er erfitt að sjá sameiginlega fleti.
Hvernig væri nú að fjölmiðlar myndu rolast til þess að ganga á flokkana og krefja þá um hugmyndir. Við reyndar vitum að skattahækkanir og launalækkanir eru málið til að stoppa upp í gatið. Niðurskurður og hagræðing í opinberum rekstri er ekki til umræðu eins og við höfum séð síðustu 80 daga. Merkilegt að lítil og meðalastór fyrirtæki eru daglega að skera niður kostnað og hagræða með árangri en vinstri menn fá kramapaflog ef minnst er á að stærsti vinnuveitandi landsins geti hagrætt. Við erum hrædd frá slíku með áróðri um að þá muni svo margir missa vinnu og þjónusta versna. Hvorugt þarf að vera rétt.
Núna er kosið um það hvaða leiðir skulu fetaðar út úr vandanum. Hvernig við viljum sjá framtíðina. Vissulega geri ég mér grein fyrir þvi fortíðin skiptir máli fyrir framtíðina og kosningar eru uppgjör við fortíðina. það verður ekki umflúið.
Flokkarnir tveir sem mynda kosningabandalagið sem ekki má tala um hafa ekki gert neitt af þvi sem lofað var þegar þeir tóku við og því ætti að vera eðlilegt að rukka þá um það og ekki síst hvaða loforð þeir treysta sér til að selja okkur þann 25. apríl.
Af hverju er það ekki gert? Á ekki að krefja fólkið sem ætlar að leysa vandann um svör?
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:48 3 comments
miðvikudagur, 15. apríl 2009
Kannski stigsmunur en ekki eðlis.
Sér einhver eðlismun á því hvernig Samfylking fékk styrki og á þeim styrkjum sem Sjálfstæðisflokkur fékk? Menn geta hártogað upphæðir og samsæriskenningar um tengsl og mútur ef menn hafa nennu til eins og Gunnar Helgi og fleiri hlutlausir sérfræðingar hafa gert. Þeir sem ekki sjá tengsl milli styrktaraðila Samfylkingar og flokksins er meira en blindir. Eigum við að tala um skuldir flokkanna? Hverjum skulda þeir?
Tökum allt upp á borðið og skiljum ekkert eftir. Sjálfstæðisflokkur hefur tekið á sínum málum af styrk og menn hafa axlað ábyrgð þó ýmsum finnist ekki nóg að gert. Hvernig ætla aðrir flokkar að standa að sínum reikningsskilum? Ætlar fyrrum framkvæmdastjóri Samfylkingar að mæta hnarreystur til kosningabaráttu eftir yfirlýsingar Ingibjargar um styrkja mál flokksins? Flokkurinn hamaðist við að ná inn sem mestu áður en dyrnar lokuðust. Og það frá mönnum sem ekki eru í dag fínir pappírar sumir. Hljómar kunnuglega...
Skömm okkar Sjálfstæðismanna á okkar eigin málum er augljós. Við erum að bregðast við og kastljósið beinist að Sjálfstæðisflokknum og ekki hægt með góðu móti að kvarta undan því. En það er linkind gagnvart öðrum flokkum sem í engu beittu öðrum aðferðum eða notuðust við betri prinsipp sem er óþolandi.
Og fyrir þá sem hafa áhuga á tengslum stjórnmálaflokka og eigenda fjölmiðla sérlega áhugavert.
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:23 8 comments
miðvikudagur, 8. apríl 2009
Styrkurinn
Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að fjármál stjórnmálaflokka eigi öll að vera uppi á borðum. Allt leynimakk í þeim efnum er afleitt. Fréttastofa stöðvar 2 segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið stórfé frá Fl group rétt áður en reglum um fjármál flokkanna var breytt.
Ég ætla rétt að vona að þannig sé ekki í pottinn búið. Ekki bara af því að hér er um að ræða þetta tiltekna fyrirtæki heldur líka vegna leyndarinnar og þeirrar staðreyndar að þetta er rétt fyrir breytingar á löggjöf um svona styrki. það er frá mínum bæjardyrum séð út í hött. Ég geri mun meiri kröfur til míns flokks en annarra í þessum efnum sem öðrum.
Ef ekkert er hæft í þessu verður flokkurinn að taka skýrt af skarið með það. Hér dugar ekki að gera ekki neitt því ef um tilhæfulausa frétt er að ræða er ekki hægt að sitja undir áburðinum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fara í leikinn sem aðrir ætla að gera núna og segjast þurfa að halda trúnað við styrktaraðila.
Sé þetta rétt eiga þeir sem bera ábyrgð á málinu að koma fram og axla sitt því ömurlegt er að fylgjast með flokksmönnum reyna að koma frá sér fjarvistarsönnun. Þó ég sé í aðalatriðum á móti því að fjölmiðlar geti komið fram með svona lagað án þess að færa á það sönnur þá er í þessu tilfelli ekki undan því komist að bregðast við.
Og það myndarlega og af styrk.
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:48 4 comments
mánudagur, 6. apríl 2009
Um fjölmiðlalög.
Nú fer kannski að verða svigrúm fyrir umræðu um fjölmiðlalög. Staðan er nenfilega þannig að fleiri en bara einkavinir Samfylkingar og forsetans eru að eignast fjölmiðla. Þá verður þörfin væntanlega knýjandi.
Liðið sem hefur ekki mátt heyra minnst á misnotkun fjölmiðla árum saman í þágu eigenda sinna vaknar nú upp við vondann draum. Og ástæðan; jú Óskar Magnússon hefur keypt Moggann í félagi við aðra. Og það sem meira er.
Hann hefur lýst því yfir að hann muni hafa síðasta orðið í öllum málum er lúta að reksti og stefnu blaðsins. þetta mun nýmæli hér enda hafa eigendur fjölmiðla keppst við að sverja af sér miðlana þó hvert mannsbarn hafi séð hvernig þeir ganga erinda eigenda sinna seint og snemma.
Þessi yfirlýsing Óskars hefur farið fyrir brjóstið á einhverjum. Sjálfur sé ég ekki hvaða löggjöf á að koma í veg fyrir að eigendur fjölmiðla stýri rekstrinum eða ákveði stefnu og áherslur. Lög um eignarhald á fjömiðlum átti að koma í veg fyrir það stórslys sem við kölluðum yfir okkur þegar menn sem áttu hér alla skapað hluti fengu að eignast fjölmiðla og stjórna hugsunarhætti heillar þjóðar árum saman með afleiðingum sem blasa við.
Við vitum öll nákvæmlega hvaða fólk og flokkar tryggðu það. Sé eignarhaldið á Mogganum á skjön við eðlilegar leikreglur í þessum efnum þá á að taka á því. það mun þó ekki geta gerst fyrr en Samfylkingin treystir sér til þess að hleypa í gegn lögum um eignarhald á fjölmiðlum.
Hvenær það gerist snýst án efa um kalt hagsmunamat þess flokks. Hagsmunirnir hafa fram til þessa verið öllum ljósir.
Röggi.
ritaði Röggi kl 14:18 7 comments
Ögmundur talar um samstarfið við IMF.
Félagi Ögmundur fór mikinn í morgun. Uppveðraður eftir heimsókn sérfæðinga sem allt vita og halda því fram að gjaldeyrissjóðurinn sé vondur samstarfsaðili. Heimir og Kolla fengu heilbrigðisráðherra til að galopna sig.
Málflutningurinn minnti á gömlu góðu dagana í stjórnarandstöðunni. VG er og verður á móti þessu samstarfi og finnur nú vind í seglum. Þetta er allt gott og blessað svo langt sem það nær. Hvernig VG ætlar að stunda samstarf við Samfylkingu sem bókstaflega borðar úr lófa gjaldeyrissjóðsins er vandséð.
Vinstri stjórn eftir kosningar virðist andvana fædd. Flokkarnir tveir geta komið sér saman um að vinna sigur í kosningunum og ornað sér við tilhugsun um ráðherrastóla en lengra nær það ekki. Ólík afstaða flokkanna til stórra mála er æpandi augljós.
þess vegna verða ágreiningsmál ekki rædd né heldur erfiðar ákvarðanir í efnahagsmálum. Félagi Ögmundur hlýtur að hafa gleymt sér í útvarpinu í morgun. Annars er Samfylking ekki óvön þessu mynstri í stjórnarsamstarfi, hún er bara vön því að vera hinu megin í ruglinu.
VG þurfa að svara því hvort það komi til greina að hætta samstarfi við IMF. Þetta er ekki mál sem hægt er að hafa í flimtingum. Flokkar sem hóta því að starfa saman að loknum kosningum verða að hafa þetta á hreinu.
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:03 3 comments
laugardagur, 4. apríl 2009
Óþol Egils Helgasonar.
Egill Helgason er að verða eins og stofnun eða móðguð prímadonna sem þolir enga mótstöðu eða gagnrýni. Núna kallast þeir varðhundar sem leyfa sér að benda á að aðstoðarmaður Evu Joly hefur fyrirframskoðanir sem hann hefur ekki hikað við að básúna. Egill Helgason er orðinn hálgerður varðhundur sjálfur fyrir allt sem snýr að Evu Joly af því að hann, og Jón Þórisson fundu hana upp. Ég sjálfur get kvittað undir flest sem Jón Þórisson hefur skrifað og fagna komu Evu Joly.
Núna eigum við að efast um allt er það ekki og það á þá við um allt og alla en ekki bara suma. Þó að ég hafi ekki alls enga samúð með sökudólgum í hruninu þá má heldur ekki gleyma grundvallaratriðum eins og stunda hlutlausa og eðlilega rannsókn. Allir eiga sinn rétt.
Nú er eins gott fyrir menn að vera ekki að efast neitt um Evu Joly því að Egill Helgason er þess umkominn að dæma þann efa hart. Skilyrðislaus rétttrúnaður Egills og óþol gagnvart umræðum og eðlilegum pælingum í þessu máli er umhugsunarefni og hættulegt í þeirri stöðu sem við erum í núna.
Málefnaleg gagnrýni fólks verður ekki afgreidd með því að benda á hverjir setja hana fram. þannig vinnubrögð höfum við séð til þeirra sem nú eru helst á sakamannabekk og mér finnst það ekki fara Agli Helgasyni mjög vel að grípa til svoleiðis bragða.
Röggi.
ritaði Röggi kl 23:52 19 comments
föstudagur, 3. apríl 2009
Höfundur peningamálstefnunnar í bankann?
það væri auðvitað mjög sérstakt að sjá Má Guðmundsson í hlutverki seðlabankastjóra. Hann var gagnrýndur í kaf á sinum tíma þegar hann var hagfræðingur bankans. Menn fundu stefnu hans og bankans allt til foráttu og fátt hefur breyst í þeim efnum. Maðurinn sem fann upp peningamálastefnuna sem unnið hefur verið eftir í bankanum og margir telja undirrót vandans á að sjálfsögðu að taka við honum, eða hvað?
Saga hans fór þannig að hann var fenginn til starfa erlendis eins og venjulega gerist þegar við Íslendingar hendum fólki úr seðlabankanum. Kannski endar ævintýrið á því að við sækjum Ingimund til Noregs þegar fram líða stundir.
Svo gæti stjórnmálahagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason orðið fyrir valinu í verðlaunaskyni......
Hver veit?
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:41 23 comments
fimmtudagur, 2. apríl 2009
Flokkspólitísk búsáhöld.
Þá rumskuðu raddir búsáhaldabyltingarinnar. Nú loks kom að því að þolinmæði þess fólks brast aftur. Hvað ætli hafi raskað ró þess fólks?Ekki að ríkisstjórnin gerir ekkert fyrir heimilin og atvinnulífið. Ekki að upplýsingar um aðgerðir ríkisstjórnar eru ekki gerðar opinberar. Ekki að vextir seðlabanka hafa ekki lækkað. Ekki að vanhæfir ráðherrar fyrri stjórnar sitja enn sem fastast sumir. Ekki að bankarnir eru lamaðir. Þetta eru smámunir.
Minnihlutastjórn ætlar sér að kröfu Framsóknar að traðka í gegnum þingið breytingum á stjórnarskrá í fullkominni ósátt við Sjálfstæðisflokkinn rétt fyrri kosningar þar sem kjörið tækifæri gefst til að spyrja kjósendur. þannig eru breytingar á grundvallarplaggi okkar samfélags ekki gerðar og þannig hefur það aldrei verið. Sjálfstæðisflokkurinn setur sig upp á móti þessari vinnutilhögun en vill styðja þann hluta sem auðveldar breytingar á stjórnarskrá í framtíðinni. Breytingum skal svo skotið til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. það virðist bæði skynsamlegt og lýðræðislegt.
Núna 6 mínútum fyrir kosningar er þetta gert að aðalmáli á meðan heimili og atvinnulíf brenna. Þetta mál er nú notað til þess að þurfa ekki að koma með neinar tillögur enda virðast þær ekki til. Þetta má ekki bíða nýs umboðs frá kjósendum. þetta getur ekki beðið í nokkrar vikur. Allt annað skal víkja.
Sjálfstæðisflokkurinn tekur sér tima til að ræða þetta út í hörgul og því vilja raddir búsáhaldanna mótmæla. Sjálfur get ég ekki séð hvað er ólýðræðislegt við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi afstöðu í þessu máli. 50 ára hefð skal nú rofin til að þóknast Framsóknarflokki rétt fyrir kosningar.
Forráðamenn mótmælenda segjast eins og venjulega mótmæla í þágu þjóðarinnar sem vilji stjórnlagaþing. Merkilegt að þjóðin sem vill þetta þing svona ákaft geti alls ekki hugsað sér að styðja þann eina flokk sem leggur sig af metnaði eftir því að þetta þing komist á dagskrá.
Þau eru og voru flokkspólitísk mótmælin í byrjun árs og þau munu halda áfram að vera það. Litlu skiptir hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn eða ekki. Það sannast daglega með skerandi þögninni sem ekki virðist rofna nema þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur skoðanir.
Ekkert í afstöðu Sjálfstæðisflokksins mun stoppa stjórnlagaþing og eða aðrar þær breytingar sem þjóðin mun vilja gera á stjórnarskrá. Allt tal um það er bara enn ein sjónhverfing ríkisstjórnar sem grípur hvert það hálmstrá sem hún getur til að dreyfa huga þjóðarinnar og leiða athyglina frá því sem skiptir máli akkúrat núna.
Hér er stormur í tómu vatnsglasi aðgerðaleysisríkisstjórnar.
Röggi.
ritaði Röggi kl 19:25 8 comments
Snúist til varnar Borgarnesræðum.
þær stöllur Rannveig Guðmundssdóttir og Kristrún Heimisdóttir birta grein í Mogganum í morgun. Þessari grein er ætlað að vera varnarræða fyrir Borgarnesræður Ingibjargar Sólrúnar forðum. Litlu skiptir þó þær lesi djúpa heimspeki út úr guðspjallinu. Ferðalög Ingibjargar í Borgarfjörð mörkuðu upphaf varðstöðu stjórnmálaflokks með fólki og fyrirtækjum sem reyndust dýru verði keypt.
Á þeirri vegferð var öllu til kostað. Ráðist var á stofnanir og starfsfólk stofnana sem voguðu sér að reyna að spyrna við fótum. Ekki bara ríkislögreglustjóra eða samkeppnisstofnana heldur líka dómstóla. Allt var gert tortryggilegt og pólitískt. það hefði ekki tekist nema með fullri þátttöku Samfylkingar. Í þessu skítuga stríði voru ekki teknir fangar. Tekið var undir hvert orð þrjótanna og hagsmunir flokks og fyrirtækja fóru svo þægilega saman að með eindæmum var, og er.
Þrjótarnir voru í vandræðum með ráðamenn og svo heppilega vildi til að flokkurinn var einmitt í vanda með þessa sömu menn. Þessi saga er öllum ljós þó hún sé að sjálfsögðu ekki að fullu sögð en þess mun ekki langt að bíða.
Grein þeirra í blaðinu í morgun gerir ekkert annað en að staðfesta það sem lengi hefur verið vitað. Það sem þær eru að segja er efnislega að tilgangurinn hafi helgað meðalið. Í því er engin vörn hvorki til langs né skamms tíma.
Söguna flýr enginn en kannski er að renna upp fyrir flokknum að nú þarf að fara að bretta upp ermar og sverja af sér byltinguna og eitrað ástarsambandið við útrásarliðið. Væntanlega með fulltingi fjölmiðla i eigu víkinganna.
Vonandi dansar auðtrúa þjóðin ekki lengur með heldur opnar augun og sér það sem blasir við.
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:28 19 comments