laugardagur, 29. ágúst 2009

Gunnar Helgi talar um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Gunnar Helgi stjórnmálafræðingur tjáði sig um möguleikann á því að forsetinn skrifi ekki undir Icesave samninginn heldur skjóti honum til þjóðarinnar í fréttum í gær. Ég sit hér og reyni að botna í málflutningum og velta fyrir mér hlutleysi og fagmennsku fræðimannsins.

Hann sagðist hafa lesið stjórnarskrá Dana og komst eftir lesturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að Íslenska þjóðin hefði skoðanir á málum sem snertu efnahag og fjármál og alþjóðlega samninga. Einnig væri varhugavert að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta tiltekna málefni vegna þess að höfnun þýddi að við værum að senda þau skilaboð til heimsins að við ætlum ekki að borga til baka þau lán sem við fáum.

það var og. Hinn hlutlausi fagmaður á sviði stjórnmála telur sumsé að vegna þess að honum sjálfum þykir höfnun ekki góð niðurstaða að þá sé engin ástæða til þess að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er ekki stærð málsins eða mikilvægi sem vegur þyngst hjá fræðimanninum heldur óttinn við ranga niðurstöðu þjóðarinnar. Þetta er fullkomlega furðuleg nálgun og afhjúpar fræðimanninn að mínu mati.

Ég sjálfur hef þá skoðun að forseti eigi ekki undir neinum kringumstæðum að taka fram fyrir hendur á þinginu sem kosið er til þess að véla um mál af þessu tagi. Vítin eru til að varast og ég á ekki von á því að forsetanum detti í hug að neita undirskirft eins hrapaleg mistök og það voru hjá honum síðast þegar hann taldi sig þurfa að svívirða ákvarðanir löggjafans til að þjóna hagsmunum sem við öll þekkjum nú.

Þó ég sé hundóánægður með samninginn og niðurstöðuna þá er ég sammála fræðimanninum Gunnari Helga um að hreyfa ekki við málinu eftir að löggjafinn hefur afgreitt það. Hjá mér er um grundvallaratriði að ræða...

..en ég held að eitthvað annað hafi hugsanlega áhrif á niðurstöðu fræðimannsins.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú meiri dellan Röggi.
Gunnar Helgi sagði að í dönsku stjórnarskránni kæmi fram um að viss mál væru undanþegin ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslur t.d. um fjárhag ríkissins og vegna fullnustu alþjóðasamninga. Hann tók dæmi um af hverju það er óheppilegt.
Ég átta mig ekki á því hvernig þú lest þetta sem þú bloggar um út úr orðum hans!!!
Gunnar Helgi er að sækja dæmi úr fortíðinni sem og frá nágrannalöndunum til að setja málið í stærra samhengi. Lestu 42.gr. dönsku stjórnarskrárinnar. Hvergi er prófessorinn að lýsa persónulegri skoðun sinni á málinu.
kv. Sigurlaug Anna