mánudagur, 6. desember 2010

DV og sannleiksástin

Reynir Traustason telur sig sérstakann erindreka sannleikans og skrifar um það grein í dag. Það er gömul saga og ný að DV telur að allt eigi alltaf að vera til umfjöllun á síðum blaðsins og þar gilda tímasetningar og sönnunarbyrði og fleiri góð gildi ekki neinu.

Það sem ritstjórn blaðsins telur að muni selja þann daginn á brýnt erindi við hvern mann. Þeir sem hafa aðra skoðun en þessa eru á móti sannleikanum og að um hann sé fjallað. Þennan málflutning hafa sumir ótrúlegustu mannvonskupúkar sögunnar haft í þjónustu sinni.

Ef ég gerist blaðamaður á DV þá er það næg ástæða ein og sér að mig langi til að vita eitthvað og að birta þá vitneskju á síðum blaðsins. Engin önnur lögmál gilda. Einkalíf er ekki til. Ef einhver tekur sig til að sakar annan mann um eitthvað þá er það mögulega forsíðufrétt í DV. Tímasetningin og framvinda ákærunnar skiptir Reyni Traustason engu máli. Og af hverju?

Af því að hann er bara að segja sannleikann. Vissulega er hann ekki að ljúga í þessu tilbúna dæmi en þeir sem vilja reka alvöru fjölmiðil vita að það er ekki eina lögmálið sem gildir þegar fjallað er um einkahagi fólks.

Við verðum að vona að ekki komi til vondir menn sem smyrja einhverju á ritstjórann hugumstóra. Þann "sannleika" er ég ekki viss um að Reynir Traustason myndi vilja fjalla um á áberandi stað.

DV getur verið afar skemmtilegt aflestrar og ekki held ég því fram að þar vinni vont fólk. En hugmyndafræðin sem blaðið byggir á er hættuleg í besta falli og mælingin á gæðum hennar er ekki tekin á góðu dögunum.

Hún er nefnilega gerð á slæmu dögunum og þeir eru fleiri hjá DV en nokkrum öðrum fjölmiðli á Íslandi.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það er voða gott að vera vitur eftir á líka þegar sannað er seinna að ákv. sakaður maður er sekur. Þá getur DV bent á hina sem vildu ekki aftöku í fjölmiðlum nema að sekt væri sönnuð og sagt, aha! Þið voruð með glæpamanninum þarna! Við vissum betur! Við erum bestir og vísastir!

Nafnlaus sagði...

Nema DV lætur sannleikann yfirleitt ekki þvælast fyrir sér, þeir hika ekki við að ljúga og ýkja.