fimmtudagur, 16. desember 2010

ESA og neyðarlögin

Í gær bárust þau tíðindi að ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að setning neyðarlaganna Íslensku hafi verið lögleg. Þetta er ef ég skil málið rétt stórmál sem hefur þó farið furðuhljótt. Kannski er það vegna þess að það var ríkisstjórn Geirs Haarde sem setti þessi neyðarlög sem fjölmiðlar og fleiri virðast ekki hafa áhuga.

Ég hef haldið því fram og er þess fullviss að sagan muni kenna okkur að sú ríkisstjórn gerði í raun kraftaverk við hörmulegar aðstæður hrunhaustið 2008. Sagan mun einnig kenna okkur að eigendur bankanna blekktu ekki bara öll matsfyrirtæki möguleg, seðlabanka og fjármálaeftirlit heldur og ekki síður stjórnmálamenn sem höfðu fá önnur tæki til að gera sér grein fyrir stöðu bankanna en þessa aðila.

Ríkisstjórninni tókst að halda bankakerfinu gangandi en mig rennur í grun að fólk bara átti sig alls ekki á hversu stórbrotið verk það var og geri sér enn síður grein fyrir afleiðingum þess ef það hefði ekki tekist. Ég hvet þá sem þetta lesa til að lynna sér sögu þeirra ríkja sem ekki tókst það við svona aðstæður. Það er saga vöruskorts og hungursneyðar svo eitthvað sé nefnt auk félagslegs niðurbrots.

Geir Haarde þarf nú að eyða tveimur árum í að svara til ímyndaðra pólitískra saka fyrir landsdómi. Það verður sífellt dapurlegra fyrir þá blessuðu alþingismenn sem að því stóðu. En þó það sé óhemjufáránleg niðurstaða gefst Geir þar tækifæri til að kenna Íslenskri þjóð að hann og hans lamaði samstarfsflokkur unnu gott starf við vonlausar aðstæður sem engin fagaðili eða eftirlits sáu fyrir.

Niðurstaða ESA í gær er því starfi fagur vitnisburður.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er klárlega rétt að samstarfsflokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, var lamaður.

Verst að Geir hætti, en það lið hélt áfram.

Nafnlaus sagði...

"blekktu ekki bara öll matsfyrirtæki möguleg, seðlabanka og fjármálaeftirlit heldur og ekki síður stjórnmálamenn sem höfðu fá önnur tæki til að gera sér grein fyrir stöðu bankanna en þessa aðila."

Stjórnmálamenn FLokksins vildu ekki "íþyngjandi eftirlit"

Það er í raun FLokkurinn sem er dreginn fyrir dóm. Geir er þarna sem formaður FLokksins

FLokkurinn er krabbamein í þjóðarsálinni