miðvikudagur, 13. júlí 2011

Hleranir og ekki hleranir

Hvenær er skynsamlegt og gott að fjölmiðlar hleri síma eða lesi tölvupósta fólks? Í Bretlandi ætlar allt um koll að keyra vegna símahlerana fjölmiðlarisa. Almennt hefur fólk illan bifur á símahlerunum held ég, nema þegar vondu gæjarnir nást með þeim hætti.

Hver er munurinn á símahlerunum og að nýta sér illa fengna tölvupósta? Ég geri mér grein fyrir því að á góðum degi finnst flestum bara ekkert að því að hlera síma eða nýta sér tölvupósta vondu kallana en mælikvarðinn getur ekki legið þar. Helgar tilgangurinn algerlega meðalið þegar hann er góður? Hver gætir réttar þeirra saklausu?

Fjölmiðlamenn munu segja að ef taka eigi af þeim réttinn til að nýta upplýsingar sem ekki séu endilega fengnar með "löglegum" hætti sé allt að því sjálfhætt. Ég hef vissa samúð með þessu sjónarmiði en þurfa ekki fleiri atriði að koma til heldur en þetta þrönga sjónarhorn?

Við fyllumst réttláttri reiði vegna frétta af skipulögðum símahlerunum fjölmiðils en látum okkur eiginlega í léttu rúmi liggja þó fjölmiðlar nýti sér tölvupósta fólks. Af hverju er það? Sumir vilja hengja sig á tæknileg atriði eins og að munur sé á skipulagðri hlerunarstarfsemi og "tilviljanakenndum" upplýsingum sem fjölmiðlum berast í daglegu amstri.

En hvað segja lögin? Er mér leyfilegt að nýta tölvupósta sem eru ekki ætlaðir mér? Má ég hakka mig inn á pósta frá mönnum og ákveða svo síðar hvort þar er eitthvað sem ég tel nauðsynlegt að komi fyrir almennings sjónir? Og skiptir máli hvort ég hakkaði mig sjálfur eða fékk annan til þess?

Þetta er viðkvæmt og svæðið grátt og ég veit að fjölmiðlamenn telja nóg að sér þrengt fyrir og kannski eitthvað til í því. En getum við haft það þannig að hleranir beinar eða óbeinar séu í lagi þegar þær skila því sem við skilgreinum sem góðan árangur en afleitar þegar það gerist ekki?

Og spurningin sem mig vantar svar við er. Hver er munurinn á hlerunum símtala eða tölvupósta?

Röggi

1 ummæli:

E.Magnúsdóttir sagði...

Uh.. það er STÓR munur á! Þinn prívat sími er til einkanota og þú býst við friðhelgi einkalífsins til hans nota. Tölvupóstur sem þu sendir t.d. sem starfsmaður fyrirtækis, bæjarfélags eða ríkisins er ekki einkamál og telst eign eiganda þess sem þú vinnur fyrir. Þannig er atvinnurekanda t.d. heimilt að lesa tölvupóstin sem þú skrifar á vinnumeilinu þínu.

Þannig er lekinn tölvupóstur á vegum ríkisstarfsmanns ekki einkamál þess starfsmanns, enda tölvupóstkerfi ríkisnis notað, en tölvupóstur frá prívat tölvupóstaddressu sama einstaklings væri hins vegar einkamál. En þetta vissir þú náttúrulega er það ekki?

Ég bý í UK og hef fylgst með málaferlunum hér og hef nákvæmlega ENGA samúð með News Of the World eða Murdoch.. algerir scumbags.