mánudagur, 7. maí 2012

Forsjár og eftirlitsbransinn

Hvar værum við stödd ef ekki væri fyrir ábyrga stjórnmálamenn sem gæta þess að við förum okkur ekki að voða? Ég er að tala um þá tegund slíkra sem telja fyrir einhvern stórmerkilegan misskilning að þeir sjálfir séu best til þess fallnir  að hafa vit fyrir okkur í stóru og smáu. Forsjárhyggjustjórnmálamanninn...

Þessi áhugaverða tegund þjóðkjörinna einstaklinga finnast eiginlega eingöngu í vinstri flokkum og þegar þeir komast til valda einir og sér er voðinn næsta vís. 

Í aðalatriðum verður allt meira og minna bannað og til vara ekki heimilt nema með leyfi opinberra aðila. Ef við, þjóðin, hyggjumst hreyfa okkur eitthvað þarf að þræða ótrúlegan frumskóg stofnana sem nærast á því að láta okkur borga fyrir leyfi til þess að fá leyfi til að spyrja næstu stofnun hvort hið fyrra leyfi sé í lagi. 

Sleppi þetta í gegn þarf svo að fá umsóknir frá ýmsum stofnunum þar sem sitja sérfræðingar sem eru til í að segja hvað þeim finnst gegn gjaldi. Þessi skemmtilega hringrás lifir sjálfstæðu lífi og hvatinn til að krefja okkur um fleiri heimsóknir er viðblasandi.

Þessi mergjaða saga er klassískt dæmi um svona. Þarna blasir við okkur eftirlitsiðnaðurinn. það er merkilegur iðnaður sem vex af sjálfu sér eins og lúpínan og því fleiri kröfur sem þar er hægt að gera á okkur því merkilegri verður bransinn. 

En það er eins með þetta og ýmislegt annað að fátt gerst af sjálfu sér. Það er bara þannig að nú ræður fólk sem trúir því inn að beini að öllu sé best fyrir komið hjá ríkinu og stofnunum þess. 

Þetta ágæta fólk unir sér svo vart hvíldar þegar kemur að forsjárhyggjuáráttu sinni og framleiðir stofnanir og leyfisnefndir vopnaðar reglugerðum sem hafa í raun ekki annan tilgang en að hafa eftirlit með hvor annarri. 

Og láta mig og þig borga brúsann um leið og allt frumkvæði einstaklinga er drepið niður á þeim tímum þegar við þurfum örugglega meira af frumkvæði einstaklinga og eftirspurn eftir samsvarandi frá forsjárhyggjuliðinu lítil eða engin.

Er ekki hægt að koma á fót stofnun þar sem fer af stað flókið ferli í hvert sinn sem fólk reynir að koma á fót vinstri stjórn? 

Röggi

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jú, það er svona ferli. Það heitir kosningabarátta. Resúltatið er lýðræði.

Og djöfull getur það sökkað feitt þegar maður er ósammála.

Þorsteinn Úlfar

Nafnlaus sagði...

Þetta er ágætt Röggi, þó að ég sé alloft ekki sammála þér, enda forsjársinni og félagshyggjumaður. Gildandi lagaregla - sem þið frjálshyggju- og hægrimenn mættuð hins vegar oftar hafa í huga og halda á lofti er: Það sem er ekki bannað (að jafnaði í lögum frá Alþingi) er leyft!

Nafnlaus sagði...

Þó að hægt sé að vera sammála þér að einhverju leiti með að reglugerðafrumskógurinn geti verið einum of, þá held ég að flestir geti verið sammála um að betra sé að haft sé eftirlit með því sem "við þjóðin", eða betra, hópum einstaklinga innan þjóðarinnar, dettur í hug að gera.
Jafnvel sýnist manni betra að það séu sérfræðingar á launum sem sjá um það eftirlit (lögregla, dómarar, sérfræðingar, kjörnir fulltrúar almennings) heldur en að það séu einstaklingarnir sjálfir (jafnvel þó þeir séu sérfræðingar), svona ef maður setur hlutina í samhengi.
Annars hlakka ég til næstu hægri stjórnar sem afnemur allar þessar vesens reglugerðir um innflutning landbúnaðarvara, leyfir eftirlitslausar virkjanaframkvæmdir, flugrekstur, sorpbrennslu, merkingar á matvælum, og fleira og fleira sem þessi bansetti eftirlitsiðnaður er að fetta fingur út í og svo kannski aðal málið, setur fiskveiðikvótann á markað svo allir geti boðið í (líka útlendingar)og skilar réttum eigendum (lesist þjóðinni) arðinum, nú eða setur á eftirlitslaus bankaviðskipti en mig minnir reyndar að það hafi verið reynt nýlega.

Það getur verið erfitt að búa í samfélagi við annað fólk og fá ekki að gera það sem manni sýnist eftirlitslaust, það heyrir maður frá öfgasinnuðum vinstri mönnum (anarkistum) og svo öfgasinnuðum hægri mönnum, en báðum þessum hópum er gjarnt að missa sjónar á því að samfélagið borgar vitleysuna í þeim og kannski er hægt að tala um fórnarkostnað lýðræðisins í því sambandi.

Ég er nokkuð viss um að ég er ekki einn um að vera bara nokkuð sáttur við að haft sé eftirlit með þessum hópum og öðrum, jafnvel þó að stundum sé í gangi ákveðið "overkill" í reglugerðafargani.

Kv, Atli

Nafnlaus sagði...

Þetta er ágætur pistill.

En því fer víðsfjarri að forsjárhyggjumenn sé einungis að finna í vinstri flokkum.

Þeir eru mjög sterkir t.d. innan Sjálfstæðisflokksins enda jókst einstaklingsfrelsi nákvæmlega ekki neitt í langri stjórnartíð flokksins.

Einstaklingsfrelsið er bara í nösunum á sjálfstæðismönnum.

Því miður á frjálsynt fólk á Íslandi enga fulltrúi á þingi.