þriðjudagur, 18. desember 2012

Villta vinstrið

Nú húmar að hjá vinstrinu. VG og Samfylking þurfa ekki aðra óvini en hvert annað, þó vissulega mætti ætla annað miðað við það hvernig formenn flokkanna umgangast þá sem ekki eru fylgispakir og trúaðir innan sem utan flokka.


Menn virðast hafa skilgreint markmiðin þannig að allt, bókstaflega allt, sé til þess vinnandi að sitja i þessari vondu ríkisstjórn í fjögur ár.

Þau ár eru til blessunar að klárast og þá fer hver að bjarga sér sem betur getur. Samfylkingin þarf að finna sársaukalitla aðferð til að skera sig burt frá VG fyrir fullt og allt.

Það verður þrautin þyngri án þess að afneita um það bil öllu því sem ríkisstjórnin hefur gert og smyrja því á VG um leið og VG verður svo líka kennt um það sem ekki tókst að gera. 

Einnig þarf flokkurinn að velja Árna Pál sem formann. 

Árni Páll er ferskur og kraftmikill núna. Hann slapp tiltölulega snemma úr þeirri prísund sem veran í þessari ríkisstjórn er. Hann getur því látið vaða aðeins á súðum. 

Og það gerir hann og tal hans er eins og tónlist í eyrum kratanna sem hafa verið utangarðs á meðan gamla allaballagengið hefur rænt draumnum um stóra jafnaðarmannaflokkinn og jarðsett hann á undraskömmum tíma með bálhvassan meðvind frá vinstri í seglum.

Verði hann fyrir valinu er fyrirséð stórstyrjöld milli vinstri flokkanna þegar árin fjögur verða gerð upp.

Guðbjartur hins vegar er uppfærð útgáfa af Jóhönnu, þá sjaldan henni tekst að fela ólundina og óþolinmæðina til þeirra sem eru henni ósammála. 

Guðbjartur virkar prýðilega góður maður og áheyrilegur en óspennandi og hefur fátt nýtt fram að færa, auk þess sem hann telur það sniðugt að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en það er í besta falli barnalegt.

Hann er uppdubbaður fulltrúi þeirra sem ráða núna í flokknum. Ef klíkan sú hefði haft trú á því að einhver annar ætti mestan möguleika á að fella Árna Pál hefði Guðbjartur aldrei verið maðurinn. 

VG aftur á móti siglir sjó sem þeir örfáu kjósendur flokksins sem enn eru til, skilja lítið í. Þessir fáu hafa þó ákveðið eins og stuðningsmennirnir hinu megin víglínunnar, Samfylkingarmenn, að halda með ríkisstjórn en ekki pólitískri sannfæringu og lífsskoðunum.

VG þarf nú að grafa upp gömlu markmiðin á ný og koma þeim aftur í gagnið. Og vona að eitthvað sé eftir af trúverðugleika formanns sem yfirgaf stefnumið flokksins að flestu ef ekki öllu leyti, í skiptum fyrir ráðherrastól og völd.

Ríkisstjórnin er fullkomlega einangruð í hverju málinu á fætur öðru. Hún er að bíta alla af sér en lætur bara eins og það sé ekki að gerast, og eyðir restinni af orkunni í að tala um stjórnarandstöðuna og halda uppi almennu þrasi við allt og alla.

En bráðum breytist það og fyrrum samherjar taka til við að lumbra hver á öðrum á flóttanum undan verkum og verkleysi ríkisstjórnarinnar. Þau sár sem svíða nú þegar eru smáskeinur miðað við þau svöðusár sem enn á eftir að rífa ofan af. 

Röggi



Engin ummæli: