sunnudagur, 29. júlí 2012

Hversu fátæk er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur metnað til þess að verða formaður Samfylkingarinnar. Til þess að svo megi verða þarf hún að gera sig gildandi í umræðunni og finna sér markhóp.


Í viðtali sem hún lætur DV taka við sig slær hún um sig með drullumallspólitík þegar hún telur það hafa eitthvert gildi að kalla formenn flokka pabbadrengi og ekki bara það heldur líka ríka pabbadrengi. 


Engu er líkara en að Sigríður hafi verið í dvala árum saman því hún heldur einnig að eitthvert kjöt sé á vinsældabeininu ef hún nefnir Davíð Oddsson á nafn í leiðinni.


Ég veit að slíkt er að einhverju leyti brúklegt á spjallfundum í klíkunum í Samfylkingunni en flestir aðrir eru orðnir heldur lúnir á gömlu komplexunum gagnvart þessum gamla formanni Sjálfstæðisflokksins.


Þegar hún velur að tala um það hverjir þeir eru sem eru henni ósammála í stjórnmálum og hvernig foreldra þeir eiga á hún að mínu mati lítið erindi upp á dekk. 


Bætt umræðuhefð og betri stjórnmálamenning eru faguryrði sem samræðustjórnmálafólkið í Samfylkingunni skreytir sig stundum með en það er ætlað öðrum til afnota.


Hverra manna ætli Sigríður sé og hvað á það fólk af peningum og hún sjálf? Þetta er upplýsingar sem hún hlýtur að telja mikilvægar og vægi hennar sem stjórnmálamanns meira því minna sem til er.


Er þetta er pólitíkin sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vill standa fyrir?


Röggi

miðvikudagur, 25. júlí 2012

Úrskurðurinn

Þá hefur hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að vísa frá ógildingarkröfu vegna forsetakosninganna. Að vonum sýnist hverjum sitt en ég sé ekki betur en að sumir haldi að þarna hafi rétturinn verið að taka afstöðu öðru sinni til kæru vegna kosninga til stjórnlagaráðs.


Margir skilja helst ekki hvernig skipting valds virkar, eða á að virka. Og of margir geta ílla horft á nokkurn skapaðann hlut nema með pólitískum gleraugum og þurfa því ekki að lesa rökstuðning áður en afstaða er tekin.


Sjá þá að sjálfsögðu skandal og pólitískan óþef í niðurstöðu réttarins. Benda í blindninni á niðurstöðu kærunnar vegna stjórnlagaráðs máli sínu til stuðnings. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það hér er um annað mál að ræða.


Svona eins og gengur hjá dómstólum enda ekki hægt að gefa sér að þó einn sé sakfelldur fyrir morð hljóti næsti maður alltaf að vera sekur einnig. Ég ber þó fulla virðingu fyrir því að menn vilji bera saman en sá samanburður verður að snúast um lögfræði en ekki réttlæti sem menn sjá eftir á að lögin gerðu ekki ráð fyrir.


Hæstiréttur var einróma í spillingunni sem hinir skilningslausu tala um. Almennt gruna ég einn og einn um að halda að dómarar við hæstarétt setji lög um leið og þeir dæma eftir þeim. 


Þannig er þetta ekki og þó er líklegt að einhver fulltrúi á löggjafarþinginu freistist til þess að ná sér í prik með því að gagnrýna niðurstöðuna sem er fengin með tilvísan í lög. 


Dómskerfið er ekki til þess að túlka tilfinningar eða stemningu hverju sinni. Ekki heldur til þess að þjónusta hópa eða að taka "vinsælar" ákvarðanir og sem betur fer sitjum við ekki uppi með system þar sem vinsældakeppni stjórnmálamanna dagsins ræður umgengni dómara við landslög.


Það hljóta allir að geta fundið sig ósammála slíku hafi menn á annað borð burði til að hugsa í öðrum prinsippum en pólitískum.

Dómstólar dæma eftir þeim lögum sem fulltrúar þínir á þingi setja þeim. Punktur. 


Það háttarlag réttarins hefur ekkert með pólitík að gera en getur líklega stundum virkað ósanngjarnt en þá er að fara með þær kvartanir þangað sem þær eiga heima. 


Hvernig getur þetta verið öðruvísi spyr ég? 


Vill einhver breyta lögum eftir á eftir stemningunni hverju sinni???


Röggi

sunnudagur, 22. júlí 2012

Hvenær eru íþróttamenn meiddir?

Nú er komin upp staða varðandi Aron Pálmarsson landsliðsmann í handbolta. Hann er meiddur og stutt í ólympíuleika. Vísir gerir frétt um málið og finnur á því vinkla.


Þetta er afleitt mál fyrir alla og mest þó fyrir Aron. Mér sýnist úr þeirri fjarlægð sem ég er í að HSÍ sé að setja mjög mikla pressu á piltinn vopnaðir læknum sem geta búið svo um hnútana að hann finni ekki fyrir neinu fyrr en í fyrsta lagi eftir mótið.


Á svona löguðu eru margar hliðar. Við eigum frábæra íþróttalækna sem hafa margsannað sig sem heimsklassa. Hver man ekki eftir því þegar Guðjón Valur spilaði landsleik örfáum dögum eftir aðgerð á hné hér um árið?


Þá þótti hann vera ótrúlegur nagli og læknarnir okkar æði. Afleiðingin af þessari hetjudáð og öðrum í kjölfarið varð þó sú á endanum að Guðjón Valur missti úr heilt tímabil á meðan hnéð varð að fá að jafna sig. 


Ég tel að eins og málið er að vaxa sé það að veikja undirbúning liðsins fyrir mótið. Leikmaðurinn er meiddur og getur ekki tekið eðlilegan þátt í undirbúningi liðsins. 


Það er nú þannig að ólympíuleikar eru stærsti viðburður sem íþróttamenn taka þátt í og menn geta rétt ímyndað sér hvað þarf mikið af verkjum í hné atvinnumanns í íþróttum til þess að hann kvarti á þessum tímapunkti. 


Ég legg til að ekki sé reynt að tortryggja það að vinnuveitendur leikmannsins vilji fá að skoða þessi meiðsl líka og hafa skoðun á framvindunni. 


Og svo finnst mér að meiddir leikmenn eigi lítið erindi á stórmót hvort sem litið er til hagsmuna þeirra sjálfra eða liðsins.


Röggi







miðvikudagur, 18. júlí 2012

Ráðning ráðuneytisstjóra

Nú þarf að finna ráðuneytisstjóra í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti. Þetta fína embætti verður til við sameiningu þriggja ráðuneyta. Eflaust margir um hituna....


En nei. Ríkisstjórn gagnsæis og upplýsingaflæðis ætlar ekki að hleypa hverjum sem er að þessu. Steingrímur J. segist ætla að ná því sem hann kallar samkomulag um þessa ráðningu. Afburðasnjöll aðferð og miklu betri en hin sem gerir ráð fyrir því að allir eigi möguleika í opnu ferli. Lokaða pólitíska ferlið hans Steingríms er miklu betra....

Lög um ráðningar opinberra starfsmanna taka af öll tvímæli í þessu efni. Svona stöður skal auglýsa í lögbirtingarblaðinu. Reyndar er það svo að í þeirri sömu málsgrein og tekur af þessi tvímæli er tekið fram að þetta sé þó ekki nauðsynlegt.

Ég viðurkenni hér án undanbragða að ég þekki ekki lög þessi út í hörgul og veit því ekki hver hugsunin er með þessari snilld. Skil ekki bofs.

Og ég veit vel að sú ríkisstjórn sem nú situr fann ekki upp pólitískar ráðningar fram hjá auglýsingum en mig minnir endilega að hún hafi skreytt sig með faguryrðum um að slíkt heyrði sögunni til þegar vinstra vorið gengi yfir okkur.

En margt fer öðruvísi en ætlað er og hjá þessari stjórn er það fremur undantekning ef störf eru auglýst. 

Byltingin étur enn börnin sín sem sitja flest hjá þögul og reyna að benda á eitthvað annað.....

Röggi


þriðjudagur, 17. júlí 2012

Stefán Ólafsson og hægri umræðan

Ég las viðtal við Stefán Ólafsson prófessor og stjórnmálamann í DV um helgina. Þar segist Stefán hafa hafið bloggskrif til að bjarga okkur frá umræðu sem vondir hægri menn gera út og þjóðin spili með. 


Að mati fræðimannsins eru slíkir menn þannig að þeir kæra sig ekki um staðreyndir. Stefán hins vegar er sérlegur sendiboði sannleikans og kann einn að túlka niðurstöður en hægri menn ekki.


Fræðimaðurinn er hlutlaus þegar kemur að pólitík að eigin sögn. Sem fyrr er það landlægt hér að okkar helstu fræðimenn harðneita að kannast við sig þegar kemur að pólitík. 


Það veikir þá frekar en hitt að mínu viti þó ég viti að fylgjendur hins hlutlausa fræðimanns í pólitík vopnaðir orðhengilshætti þykist ekkert skilja hvað ég er hér að fara. 


Mér þykir ekki mikill styrkur að því að afgreiða rökræður og þá sem ekki eru sammála túlkunum og nálgunum sem fræðimaðurinn hefur á takteinum sem raus í vondu fólki. 


Stefán hefur átt ýmsa sniðuga spretti í starfi sem sýna fram á að skilin milli fræða og stjórnmála geta verið óljós. 


Minnir að hann hafi skrifað lærðar greinar til að andmæla fullyrðingum forystumanna fyrri ríkisstjórna um að þeir hafi lækkað skatta. Svo þegar allt hrundi skrifaði hann þá ekki nýjar og komst að því að skattalækkanir fyrri ríksstjórna hafi verið ein kveikjan að hruninu?


Hagfræði er ekki alltaf bara hagfræði og stjórnmálafræði ekki alltaf stjórnmálafræði. Fræðimenn um allan heim takast á um fræðin hver svo sem þau eru og eru þá stundum þekktir að pólitískum skoðunum sínum. Það gerir þá ekki minni fræðimenn en heiðarlegri klárlega.


En hér hjá okkur situr Stefán Ólafsson vinstri maður og gefur sig út fyrir hlutleysi og þarf ekki rökræður frá þeim sem eru honum ósammála. Sem þýðir að hann þarf engar rökræður.


Enda með staðreyndir á hreinu og einkaleyfi á túlkunum þeirra.


Röggi



laugardagur, 14. júlí 2012

Kjaftháttur þingmanns og fréttamat eyjunnar

Ritstjórn eyjunnar ákveður að gera kjafthátt Björns Vals Gíslasonar að frétt á síðunni einn ganginn enn í dag. Hvað fær þá sem stýra fjölmiðlum til að halda að þvi stærra sem menn taka upp í sig því merkilegra?


Áratuga löng minnimáttarkennd andstæðinga Davíðs Oddssonar er ekki lengur nokkur frétt. Reyndar er það nú þannig að þessi tiltekni þingmaður reynir sífellt að bæta sér upp skort á málefnastöðu með dónaskap eins og landsþekkt er og hann virðist vera á undanþágu frá því sem kallast mannasiðir í þinginu. Allir hættir að gera þá kröfu til hans....

Merkilegt er að fylgjast með krampanum sem fer um þá sem hvorki þola Davíð né moggann nú þegar blaðið virðist vera að ná vopnum sínum og reksturinn að skila hagnaði bankanum sem á skuldir hans til hagsbóta og þar með viðskiptavinum hans líka. 

Þingmaðurinn Björn Valur heimtar skýringar af hendi bankans og spyr hvort aðrir fái slíka þjónustu. Auðvitað veit hann ef það hentar honum að atvinnulífið hefur fengið afskrifað og þar með fjölmiðlar og sumir þeirra mun meira en mogginn.

Hann ætti að hafa heilsu til þess að fagna því að þeir sem eiga bankann virðast hafa veðjað á réttann hest þegar ákveðið var að selja þeim sem nú eiga blaðið. 

En það kann hann ekki eða skilur. Björn Valur telur nefnilega að bankinn eigi að taka pólitíska stöðu í málinu eins og hann sjálfur gerir. Þannig hugsa menn eins og Björn Valur sem sækir innblástur til hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir því að misvitrir stjórnmálamenn, sumir jafnvel með eitt og annað í farteskinu, eigi öllu að ráða.

Það er svo sér stúdía hvers vegna eyjan.is gerir dellunni í þessum manni að frétt ítrekað sér í lagi ef hún er skreytt stóyrðum....

Röggi


fimmtudagur, 12. júlí 2012

Eðli fjölmiðlaáhuga

Gaman að sjá að málsmetandi menn hafa skyndilega mikinn áhuga á því hvernig afkomutölur fjölmiðla eru. Einnig nýtist áunnin óbeit höfundar á útgerðarmönnum honum vel við skrifin og veitir innblástur án þess þó að það geri umræðunni nógu mikið gagn.


Í nýlegri sögu okkar hafa endutekið komið upp dæmi um gríðarlegar afskriftir og kennitöluæfingar með fjölmiðla og meira að segja falið eignarhald árum saman án þess að það raskaði ró sumra með áberandi hætti. 

Jú reyndar, þegar þeir sem áttu skuldir moggans afskrifuðu hluta þegar nýjir eigendur tóku við. Þá görguðu þeir á torgum sem áður höfðu þagað þunnu hljóði....

Og gera hvorutveggja enn eftir behag.

Röggi