fimmtudagur, 30. apríl 2009

Bjarni Ben, XD og ESB umræðan.

Hún er skrýtin líðanin hjá okkur Sjálfstæðismönnum þessa dagana. Dagarnir eftir skellinn stóra. Sambland af svekkelsi en þó vissum létti. Botninum er vonandi náð en til þess að svo megi verða þurfum við kannski að hugsa margt upp á nýtt.

Ég kaus Bjarna Ben og er nú hugsi yfir hans stöðu. Honum verður ekki kennt um útkomu flokksins svo mikið er víst. Á sunnudag sagði hann að formennskutíð sín hæfist þann dag. Ég er að hluta sammála honum þar og nú eru hveitibrauðsdagarnir hans liðnir ef hægt er að kalla fyrsta mánuð hans í embætti hveitibrauðsdaga.

Hvert ætlar Bjarni sér með flokkinn? Ætlar hann að setja marki sitt á flokkinn og stefnuna til framtíðar eða verður hann rólega týpan sem fetar bara í fótsporin og forðast öll hugsanleg átök og ágreining? Sjálfstæðisflokkurinn þarf leiðtoga með bein í nefi en ekki formann með sjálfstýringu eins og má segja að hafi á stundum einkennt okkar fyrrverandi ágæta formann. Ágreiningur innandyra er eðlilegur hjá öllum flokkum og þá reynir á styrk og skapgerð forystumanna.

Stundum finnst mér flokkurinn minn vera eins og gömul kona sem ekki er hægt að bifa til eða frá. Ég sjálfur er langt frá því sannfærður um að aðild að ESB sé lausnin og deili þeirri skoðun með meirihluta flokksmanna. En ég er líka nokkuð viss um að stór hluti Sjálfstæðismanna er að komast á þá skoðun að ekki verði lengur umflúið að komast til botns í málinu. það er ekkert að óttast....

Flokkurinn á að sjálfsögðu að taka sér stöðu í málinu en lítil ástæða er til þess að tefja að málið verði tekið til skoðunar. Hvort sem menn eru á móti eða ekki þá þarf að flytja málið fyrir fyrir þjóðinni að lokum. Ef málsstaðurinn er góður þá mun þjóðin sannfærast með flokknum.

Líklega veit stór hluti Sjálfstæðismanna ekki nákvæmlega af hverju hann er á móti inngöngunni og ég er reyndar viss um að stór hluti fylgjenda veit ekki heldur af hverju innganga er góð. Okkur vantar mikilvægar forsendur til þess að geta tekið endanlega afstöðu. Þetta er óviðunandi staða þegar ESB umræðan er svo sterk sem raun ber vitni.

Sjálfstæðisflokkurinn á að sjálfsögðu að taka virkan og fullan þátt í umræðunni og fagna því að reynt verði að leiða málið til lykta. Mig grunar að Bjarni Ben sé þessarar skoðunar og kannski er þetta mál prófsteinn á það hvernig formaður hann ætlar sér að verða.

Hvernig hann mun leiða flokkinn í gegnum ESB málið. Haldi Bjarni að hægt verði að gera öllum til hæfis á þeirri vegferð er hann á villigötum. Bæði fylgjendur og andstæðingar innan flokksins hljóta þó að verða að sætta sig við aðildarviðræður og sanngjarna og málefnalega umræðu um samning í kjölfarið. Og una svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í því fellst enginn ósigur fyrir neinn heldur þveröfugt. Víglínan er bara ekki lengur þar sem hún var hvort sem okkur Sjálfstæðismönnum líkar betur eða verr. Við þurfum að beygja aðeins af en ekki að skipta um skoðun á málefninu.

Alls er ekki er víst að menn verði leiðtogar þó þeir veljist til formennsku. Nú reynir á hvern mann Bjarni hefur að geyma og ég hef fulla trú á honum.

Röggi.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Magnað...mér finnst sjálfstæðisflokkurinn vera eins og gamall kall...

Hans Haraldsson sagði...

Það eru ekki til neinar "aðildarviðræður" eins og þetta er sett fram í umræðunni.

Það er til umsóknarferli. Hluti af því umsóknarferli er að samið er um það hvenær og hvernig löggjöf Evrópusamabndsins er innleidd og hvort komið verði til móts við umsóknarríkið með sérþarfareglugerðum. Það eru allir aðildarsamningarnir.

ESB lítur á umsóknarferlið sem skuldbindingu og umsóknarríki byrja að innleiða löggjöfina á meðan á því stendur og taka þátt í störfum ráða og nefnda.

Það er annars út í hött að Ísland fari að setja sig í stöðu umsóknarríkis á meðan að samið er um Icesave og við kröfuhafa í gömlu bankana.

Kratarnir vilja koma okkur í umsóknarferli sem fyrst svo að það verði hægt að troða málinu í gegn með sem stystri umræðu. Líkt og norsku kratarnir munu þeir reyna að koma samningnum í gegn þótt þar verði ekkert af því sem þeir láta í veðri vaka að hægt sé að fá.

Munurinn á Íslandi og Noregi er að hér eru gjörsamleg liðónýtir fjölmiðlar og ekki hægt að treysta á gagnrýna umræðu af neinu tagi. Það er sjálfsagður öryggisnagli að ferlið verði hægt og gagnsætt ef menn þurfa endinlega að fara í það.

Til að byrja með ætti að setja samningsmarkmiðin fram skýrt og ríkisstjórn að sækja sér umboð í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að fara í umsóknarferli með þau að leiðarljósi.

Nafnlaus sagði...

Finnst þér flokknum til framdráttar að hafa "kúlulánadrottninguna" í sæti varaformanns ?

Nafnlaus sagði...

það er búið að marka stefnuna. AF hverju lesa menn ekki bara ályktun landsfunar sjálfstæðisflokksins? Það á að gefa fólki kost á að kjósa um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Þegar um það er kosið, t.d. næsta vor þegar kosið verður til sveitastjórna, þá ætti að vera búið að komast að því grófum dráttum hvað í þessu felst.

Fólk getur þá kosið um hvort það vilji halda áfram, fara í aðildarviðræður.

Þetta er heilbrigð stefna. Þessi Samfylkingarstefna sem snýst um að ganga í ESB, samahvaðþaðkostar er ekki rétt. Það sjá allir. Flokkurinn vann engan sigur út á þá stefnu.

Aðild að ESB verður kolfelld af þjóðinni að óbreyttu. Það sýna dæmin. Stjórnmálamenn eru yfirleitt ginkeyptari fyrir meira bákni, það gefur þeim meiri tækifæri til stöðuhækkana og betri launakjara fyrir þá persónulega. Þeir hugsa alltaf um sjálfa sig að stórum hluta.

Almenningur sér í gegnum þetta. Norðmenn felldu þetta tvisvar. Svíar létu plata sig illilega og eru enn að bíta úr nálinni með það. Almenningur þar er ekki enn búinn að jafna sig á því hvernig Ingvar Carlsson plataði þá inn.

Röggi sagði...

Ég sat landsfund flokksins og þekki ályktun hans og veit að Bjarni er bundinn af henni.

Hann getur samt haft skoðanir og reynt að móta hugmyndir og framtíðarsýn flokksins í takt við það sem gerist frá einum fundi til annars.

Ef allt stefnir í að nú verði farið í viðræður hvaða nafni sem þær kunna að nefnast við ESB er kannski til lítils að láta bara eins og það sé ekki að gerast.

Þá þarf að notast við heilbrigða skynsemi og það er það sem ég er að tala um. Sé ekki tilganginn í því að berja höfðinu við steininn.

Pistillinn minn snýst alls ekki um ég vilji að Bjarni fari með flokkinn í ESB eins og mér sýnist menn sumir halda.

Stefna flokksins er skýr og öllum ljós en málið er kannski ekki í okkar höndum lengur og þá tekur við nýr kafli þar sem við þurfum að vera fullir þátttakendur í atburðarásinni.

Þá reynir á minn mann.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þetta heiðarlega og fallega skrifað hjá þér Röggi, þó ég haldi með öðru liði í pólitík en þú.
Skipið okkar er vissulega að fyllast af sjó og það væri betra ef allir tæku up ausuna frekar en að rífast um hvort ausa eigi með vinstri eða hægri hendi.

Steinn.

Nafnlaus sagði...

Sæll Röggi.
Þetta er mjög góður pistill, sá besti sem ég hef lesið um Sjálfstæðisflokkinn, stöðu hans og leiðtogann. Ekki les maður svona fín skrif í blöðunum. Ég hef lesið pistla eftir einhverja sjálfstæðismenn sem kalla sig blaðamenn og vinna á Mogganum. Það eru skrýtnar greinar. Algjört þvaður og illa skrifaðar.
Ég er ekki flokksbundinn en hef yfirleitt kosið flokkinn.
Ég hef miklar efasemdir um Bjarna. Mér finnst hann hafa snúist í marga hringi í þessu ESB máli. Hann skortir einmitt bein í nefið. Ég er byrjaður að efast um að hann sé rétti maðurinn í djobbið.
Geir var auðvitað alveg vonlaus leiðtogi og á pari við Þorstein Pálsson. Munurinn er sá að ekkert gerðist í tíð Þorsteins en samt var honum bolað frá. Geir stóð sig alveg hörmulega fyrir hrunið. Og ekki var hann skárri eftir það. Hans verður minnst sem lélegasta stjórnmálaleiðtoga Íslandssögunnar.
Ég held líka að staða varaformannsins sé mjög veik.
Ég held að flokkurinn þurfi að hætta þessari hjarðhugsun og að tímabært sé að sjálfstæðismenn bíti frá sér. Hér er að komast á stjórn undir forustu gamalla sósíalista. Það heyrist ekkert í sjálfstæðisflokknum.
Líka sammála þér um ESB. Þar er flokkurinn á villigötum.
Það þarf að hreinsa út, þeirri vinnu er bara alls ekki lokið.
Ég spái stefnubreytingu og að núverandi formaður verði ekki lengi í þessu starfi.
Ef ekkert gerist klofnar flokkurinn sennilega.
Kveðja KK, Reykjavík.

Stefán Benediktsson sagði...

Hér er ágætis byrjun á því að kynna sér ESB. Gerð af manni af innvígðum ættum.
http://www.si.is/malaflokkar/althjodlegt-samstarf/frettir-og-greinar-um-althjodamal/nr/3525

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég glaður yfir þessum pistli þínum Röggi. Ég vissi alltaf að það væri einhver vottur af manngildissjónarmiðum til í ykkur Sjöllunum. Til hamingju og megi Guð láta gott á vita. PVB

Nafnlaus sagði...

Jæja Röggi litli, loksins varðstu málefnanlegur gott er að þú ert farin að sjá í gegnum þokuna í FLokknum þínum.