mánudagur, 27. apríl 2009

Stjórnarkreppan.

það er eins og við mátti búast frekar snúið að mynda ríkisstjórn VG og Samfylkingar. Hver smáfuglinn á fætur öðrum þarf að láta ljós sitt skína og koma fram með stórar og stefnumarkandi yfirlýsingar sem allar eru sagðar ófrávíkjanlegar.

Því er komin upp sú staða að annar verður að gefa eftir og það verður erfitt. Eins og ég sé þetta er engin önnur stjórn möguleg því ég vill ekki sjá Sjálfstæðisflokkinn fara í stjórn með einum eða neinum núna. Í mínum huga væri það vafasamt að fara núna þegar flokkurinn er í sárum og þarf að byggja sig upp innanfrá og hugsa margt upp á nýtt að leiða hugann að stjórnarþátttöku.

Ég held að þó að hægt sé að reikna Borgarahreyfinguna í stjórn að þá sé sá möguleiki ekki uppi á borði af nokkrum ástæðum. Því er ekkert annað í stöðunni en að kosningabandalagið standi við stóru orðin og komi okkur út úr vandanum.

þar bíða menn og konur með uppbrettar ermar og lausnir til handa heimilum og atvinnulífi ef eitthvað er að marka það sem haldið var fram í kosningabaráttunni. Hún snérist reyndar of lítið um slíka hluti. Kosningabaráttan snérist um styrki þangað til aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn áttu i hlut og ESB.

Og enn er þráttað um ESB á meðan við öll bíðum eftir aðgerðum hér heima fyrir. Í 80 daga hafa flokkarnir reynt að komast til botns í því máli og deilan harðnar ef eitthvað er. Samfylkingin er orðin eins máls flokkur sem byggir tilveru sína algerlega á ESB aðild. Engar aðrar lausnir eru til umræðu og það er pólitísk fötlun og líklega gagnslaus þjóðinni í dag.

Niðurstaðan gæti orðið sú að Samfylking gefi eftir af þeirri einföldu ástæðu að hún getur það. VG þarf að fara alveg í duftið ef ganga á að afarkostum Samfylkingar. Á hinn bóginn getur Samfylking kannski sætt sig við einhverja tilsökun því VG er ekki að fara fram á að ESB verði hent út af borðinu.

Furðulegir tímar því kosningabandalgið vann fínan sigur en þrasar nú um það hvor hafi unnið meira og hvor eigi að fá að svínbeygja hinn. Ég vona að þetta taki fljótt af því engan tíma má missa.

þetta fólk hefur haft 80 daga til að gera ekki neitt og við bara höfum ekki efni á meiri tímasóun.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin getur ekki gefið eftir, einfaldlega af þeirri ástæðu að ESB var aðalkosningamálið og stór hluti af kjósendum hennar kaus hana út af því, meðal annars fólk sem ella hefði kosið VG eða Sjálfstæðisflokk. Að svíkja þetta kosningamál væri því að svíkja alla þessa kjósendur og leggja flokkinn þar með í rúst. Það eru því bara tveir kostir í stöðunni fyrir Samfylkinguna, annaðhvort umsókn um aðildarumræður eða stjórnarandstaða. Íslendingar hafa heldur engu að tapa að fara í aðildarumræður. Það er hrein útkjálkamennska að hafna því. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður hvort sem er um væntanlegan samning.

Unknown sagði...

"Ég held að þó að hægt sé að reikna Borgarahreyfinguna í stjórn að þá sé sá möguleiki ekki uppi á borði af nokkrum ástæðum."

Hvaða ástæður eru það?

Nafnlaus sagði...

Það var kosið á laugardag og þú ert strax á mánudegi farinn að tala um stjórnarkreppu. Þú ert nú meiri flóðhesturinn!