miðvikudagur, 24. júní 2009

Icesave: Upptaktur að stóru deilunni um ESB.

Litlu máli virðist skipta hvort menn vilja borga Icesave reikningana eður ei eða hvort menn telja að við "verðum" að borga þá eða ekki. Lúsaleitun virðist að þeim manni sem trúir því í fullri alvöru að samkomulagið sem Svavar Gestsson kom með heim sé nothæft.

Sem fyrr stendur Samfylking straurblind og sér ekkert annað en götuna inn í ESB og tekur afstöðu út frá þeim hagsmunum einum og engum öðrum. Samfylking mun því aldrei hlusta á neinar efasemdir sér í lagi ef þær styggja ESB.

Allt þetta brölt er svo augljóslega farið að skipta fólki í þær tvær fylkingar sem munu takast á um ESB. Ég sagði það fyrir mörgum mánuðum síðan að andstaðan við ESB aðild muni eflast og ekki hefur sú sannfæring mín rénað undanfarna daga.

Jafnvel þeir sem vilja eindregið þangað inn og borga Icesave sem aðgangseyri blöskrar aðferðafræðin sem beitt er í samningum við okkar vegna þessara hábölvuðu innistæðureikninga, ef samninga skyldi kalla.

Þó allt bankakerfi Evrópu sé undir og algerlega sé nauðsynlegt að senda rétt skilaboð þá finnst mér þessar upphæðir sem um er að tefla vera svo litlar fyrir risana en svo risavaxnar fyrir okkur smáfólkið. Af hverju þarf að svínbeygja okkur í duftið?

Hvers vegna er ekki hægt að koma málum þannig fyrir að okkur sé gert mögulegt að borga þetta og halda sæmilegum dampi sem þjóð á meðan? þeim fer óðum fækkandi sem telja að okkar hagsmuna hafi verið nægilega vel gætt hver sem ástæðan fyrir því er...

.. og þeim mun fara mjög fækkandi í nánustu framtíð sem munu vilja ganga til liðs við bandalagið sem tók svo afgerandi þátt í að svínbeygja þessa litlu þjóð.

Mér finnst það næstum því einboðið og deilan um Icesave er kannski bara upptaktur að stóru deilunni sem við stöndum frammi fyrir.

Röggi.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Heldur þú í alvöru að ef við sækjum ekki um aðild að ESB geti íslenska ríkið gengið burtu frá Icesave klúðrinu?