fimmtudagur, 11. júní 2009

Steingrímur og Icesave viðsnúningurinn.

Varla er sjón að sjá Steingrím Sigfússon þessa dagana. Hann situr uppi með Icesave vandræðin og finnur sig í þeirri geggjuðu stöðu að tala og gera akkúrat það sem hann taldi nánast landráð fyrir ekki mjög mörgum vikum síðan. Og aldrei þessu vant...

..gengur mér ekkert að trúa á sannfæringuna hans. Þótt ég sé í öllum aðalatriðum ósammála flestu sem hann stendur fyrir í pólitík hef ég oftast talið mig geta gengið að því sem vísu að hann talar af krafti hins sannfærða manns og fyrir þvi geta allir borið virðingu.

Af hverju segir hann okkur ekki hvað breytti skoðun hans svo algerlega á stuttum tíma? það myndi auðvelda honum lífið talsvert og kannski hjálpa vantrúuðum. Og skapa frið um mál sem verður að vera friður um.

Er ástæðan kannski sú að ekki er talið skynsamlegt að ala á enn meiri óánægju með gjaldeyrissjóðinn að ég tali nú ekki um ESB sem virðist hafa beitt sér af afli í málinu? Allir menn vita að Samfylkingin hugsar fyrst og síðast um hvernig hægt að halda dyrunum að ESB galopnum og þá er slagur af Icesave taginu ekki líklegur til vinsælda. Forræði í þessari deilu hefur verið á hendi Samfylkingar frá fyrsta degi og sitt sýnist hverjum með hagsmunagæsluna...

Steingrímur er ekki líkur sjálfum sér. það er erfitt að kokgleypa skoðanir sínar í stórum stíl eins og hann virðist þurfa að gera til að halda í ráðherrastólinn sinn. Mér finnst þögn Samfylkingar í málinu ærandi og það sem Steingrímur segir ósannfærandi.

Ég legg eindregið til að hann opni sig og segi okkur afdráttarlaust hvað það var sem snéri honum svo fullkomlega í þessu máli. Það hjálpar ekki bara honum heldur líka okkur hinum sem erum ekki alveg sannfærð.

Röggi.

Engin ummæli: