föstudagur, 26. febrúar 2010

Eineltið og Jóhannes stórkaupmaður

Jóhannes í bónus kemur sífellt á óvart og sjaldnast bregst hann þegar kemur þvi að reyna að bæta eigið Íslandsmet í siðleysi. Nú ku hann vera í enn einu viðtalinu í DV og fer á kostum.

þar gerir hann heiðarlega tilraun til að koma óorði á orðið einelti með því að telja sig og fjölskylduna verða fyrir slíku. Kaupmenn hér á landi í matvörubransanum þekkja einelti alltof vel og þar hefur þessi ágæti maður verið á aðalhlutverki geranda.

Jóhannes finnur til með börnum sínum og hver kannast ekki við slíkar tilfinningar. Börnin hans og hann sjálfur hafa sett hvert einasta fyrirtæki sem þau hafa komið höndum yfir og þar með talið gullkálfinn bónus svo rækilega á hausinn að aldrei verður hægt að gera betur, eða verr.

Reikningurinn er hjá þjóðinni ógreiddur og Jóhannes er við það að gefast upp. Ekkert verður afskrifað en þó verður allt afskrifað og Jóhannes er uppgefinn. Peningar sem hann og hans fólk hefur fengið lánað til að veðsetja ALLT sem það hefur fengið lánið fyrir eru horfnir og karlanginn er að gefast upp. Finnur þú ekki til með heilsulausum og þreyttum milljarðmæringnum?

Hvernig Jóhannesi dettur í hug að reyna enn einu sinni að spila á tilfinningar þjóðar sinnar með svona þvælutali er mér hulin ráðgáta en vonandi hefur hann ekki borgað einhverjum PR manni stórfé fyrir trikkið.

Hann ætti frekar að finna til með fólki sem blæðir nú með stórfelldu eignatapi og vinnumissi en syni sínum sem hann segir hafa tapað svo miklum peningum. Fólki sem ekki getur greitt af húsum sínum eða bíl lengur. Bankinn sem ætlar að gera það sem hægt er fyrir Jóhannes er á meðan í miklum vandræðum með litla fólkið í þessu landi. En Jón Ásgeir á fyrir diet coke og jeppaflotinn og stórhýsin um allan heim standa þessu fólki enn til boða.

Ég veit að Jóhannes er ekki einn valdur að þessu en hann og hans fjölskylda á mjög mikinn þátt í þessu ástandi.það er staðreyndin og eineltið sem þessi þjóð hefur mátt þola frá þessu fólki er okkur dýrkeypt. En það er eins með þetta einelti og það sem einstaklingar verða fyrir. Þolendurnir fást ekki til að ræða málið eða hreinlega skammast sin of mikið fyrir að hafa dansað með allan tímann.

það treystir Jóhannes á nú og ryðst nú fram fullur uppgerðariðrunar þegar hann er í raun orðinn smeykur um að þjóðin ætli ekki að láta hann komast upp með trikkið, aftur!

Látum martröðina hans Jóhannesar rættast. Við þurfum víst að taka við skuldunum hans en látum hvorki hann né hans fólk komast upp með að halda eignum sínum óskertum rétt á meðan.

þetta er í okkar höndum núna og það finnur Jóhannes.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er vinstrimaður er því sjaldan sammála þér Röggi en nú er ég þér 110% sammála. Jóhannes í Bónus og öll hans fjölskylda hreinlega kunna ekki að skammast sín. Eins og sannur siðblindingi getur hann ekki vorkennt neinum öðrum en sjálfum sér, sama hversu miklu hann og hans fjölskylda er búin að stela. Auðvitað er bara eitt til ráða. Allir eiga að hætta að versla við þá feðga.