miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Icesave; Nú reynir á Bjarna Ben

Nú sýður á mörgum Sjálfstæðismanninum þegar flokkurinn ákveður að samþykkja nýjasta icesave samkomulagið. Það verður ærið dagsverk hjá forystu flokksins að sannfæra vantrúaða og skapa frið um þessa ákvörðun. það verður forystan þó að gera afdráttarlaust og án tafar.

Ekki síst vegna þess að sá hópur sem er í hvað mestri andstöðu við þetta samkomulag er einnig sá hópur sem er óánægðastur með stöðu flokksins almennt og getur illa þolað að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki getað gengið milli bols og höfuðs á gagnslausri ríkisstjórn sem bíður þess eins að vera bolað frá.

Þessir flokksmenn þykjast nú sjá forystuna rétta Steingrími Sigfússyni og co hjálparhönd sem með afgreiðslu málsins á þennan hátt ryðja úr vegi einni erfiðustu hindrun ríkisstjórarinnar sem hún hefur engan veginn getað hnikað til. Hindrun sem sett var upp undir forystu Sjáfstæðisflokksins á þingi og Indifence utan þings og sem þjóðin svo studdi 98% gegn einbeittri ríkisstjórn sem þráði ekkert heitar en að fá að borga 500 milljarða af þessari "skuld".

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kosningar, hann vill ekki í ríkisstjórn og nú bakkar hann frá grundvallarprinsippi í icesave og treystir í leiðinni handónýta ríkisstjórn í sessi. Þannig sjá þetta margir og sætta sig illa við..

Sjálfstæðismenn flestir telja Bjarna Ben sanngjarnan mann og vel gerðan. Hann þykir maður sátta og gengur ekki um skellandi hurðum með stóryrði í munni. En mörgum finnst vanta döngun í drenginn, jafnvel kjark og sumir ganga svo langt að segja, pólitíska ósvifni. Hvort þessi ákvörðun flokkast undir pólitíska ósvífni veit ég ekki en hún krefst kjarks vitandi það að þessu munu mjög margir flokksmenn ekki kyngja þegjandi.

Nú bíður það Bjarna að sannfæra óánægjuraddirnar um að þessi ákvörðun sé skynsamleg og hafi verið eini og besti kosturinn í stöðunni. Þar gefst Bjarna tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr. Ég öfunda Bjarna þó ekki af því að þurfa að taka upp málflutning Steingríms J í þessu máli en ætla að gefa forystu flokksins tækifæri á að selja mér dílinn.

Nú reynir á pilt og takist honum ekki að sigla farsællega í gegnum þetta minnka likurnar á því að honum takist að gera flokkinn að flokknum sínum til mikilla muna.

Röggi

3 ummæli:

Georg Georgsson (gosi) sagði...

Bjarni er einfaldlega að stíga fyrstu skrefin í átt frá þeim öflum innan flokksins sem valdið hafa sjálfstæðismönnum mestu tjóni.

Nafnlaus sagði...

Loksins þegar Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að sýna ábyrgð og loka þessu sköpunarverki sínu þá rísa svona menn eins og þú Röggi og mótmæla. Þið eruð merkilegur þjóðflokkur það má nú segja.

Nafnlaus sagði...

Ég er rosalega ánægð með Bjarna og þá Sjálfstæðismenn sem með honum standa í þessu máli. Með þessu sýnir hann að Sjálfstæðismenn eru tilbúnir til að axla ábyrgð með því að taka þátt í að loka þessu máli farsællega með hag þjóðarinnar að leiðarljósi, í stað þess að festast á skítadreifurunum bara til þess að vera á móti ríkisstjórninni.
Hann er meiri maður en ég hélt.